Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um þýsk stjórnmál, en stóru flokkarnir í landinu hafa samið um stjórnarsamstarf sín á milli, svonefnda stóru samsteypu. Verður Angela Merkel kanslari, í stað Gerhard Schröder sem hefur verið í því embætti í rúm sjö ár. Blasa mörg vandamál við nýrri stjórn og umfangsmikil úrlausnarefni. Við hafði blasað að ekkert annað stjórnarmynstur gat gengið við breyttar aðstæður í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar 18. september þar sem hvorug valdablokkin náði starfhæfum meirihluta. Hefur stjórn af þessu tagi ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug, en hún sat árin 1966-1969. Það eru því óneitanlega þáttaskil nú þegar samkomulag milli stóru flokkanna blasir við. Brotthvarf Schröders úr miðpunkti þýskra stjórnmála markar þáttaskil - hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Verður merkilegt að sjá hvernig Merkel muni ganga í embætti.

- í öðru lagi fjalla ég um skipan Bush forseta á Harriet Miers sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, sem virðist ætla að verða umdeild mjög. Heldur koma þó deilurnar upp á skondnum stað að margra mati. Jú, það eru einmitt íhaldssömustu stuðningsmenn forsetans sem skora nú á hann að draga skipun Miers til baka og velja annað dómaraefni. Margir spyrja sig eflaust af hverju þeir láti til skarar skríða gegn Miers og vali hennar í réttinn. Jú, þeir eru hræddir um að hún verði andstæða þess sem menn telja að hún sé er hún er komin í réttinn. Miers á ekki neina dómarasetu að baki og er óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. hvað varðar samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira. Er andstaðan svo langt gengin að Bush hefur orðið að verja valið.

- í þriðja lagi fjalla ég um kostulegar tillögur Arnar Sigurðssonar arkitekts á landsfundi fyrir viku, og snerust að mestu um andstöðuna við Reykjavíkurflugvöll. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir nefndarmanna í samgöngunefnd á landsfundi um tilvist vallarins náðist samstaða um orðalag í ályktunina í endalögum drögum sem fyrir fundinn fóru á sunnudeginum. Var það ánægjuleg niðurstaða - mikið gleðiefni að svo skyldi vera. Það virtist á fundunum nefndarinnar svo að Örn tæki undir málamiðlun í málinu og lagði hann ekki fram neinar tillögur beint í aðra átt þar inni. Það kom því mjög á óvart að sjá tillögur hans - sem voru felldar á landsfundinum, sem er mikið gleðiefni.

Að lokum fjalla ég um styrk Eddu Heiðrúnar Backman, sem berst nú við MND-sjúkdóminn. Dáðist ég að þeim styrk hennar sem sást í tveim sjónvarpsviðtölum nýlega. Er ekki annað hægt en að skrifa um þau viðtöl - en ég, eins og margir fleiri, hrifust af því hvernig Edda Heiðrún horfist í augu við sjúkdóminn, baráttu lífs síns.


Þjóðmál

Þjóðmál

Nýlega kom út athyglisvert tímarit að nafni Þjóðmál, í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Þar er að finna fróðlegar og góðar greinar sem fjalla um ýmislegt merkilegt, jafnt í stjórnmálum sem þjóðmálum. Í þessu fyrsta riti Þjóðmáls, sem ætlað er að koma út fjórum sinnum á ári, er að finna fjölbreyttar greinar. Þarna er að finna ítarlega grein eftir Magnús Þór Gylfason um pólitíska sögu R-listans, sem eins og flestir vita hefur nú geispað golunni, og þar er að sjálfsögðu rakin sagan af valdatímanum sem hefur einkennst af ævintýrafjárfestingum og stöðnun umfram allt. Jóhannes Nordal, fyrrum seðlabankastjóri, ritar merkilega grein um sögu Stjórnarráðs Íslands.

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, ritar í tímaritið grein um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar, sem nú hefur vikið af hinu pólitíska sviði og tekið við embætti seðlabankastjóra, eftir að hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár, þar af forsætisráðherra Íslands samfellt í 13 ár af þessum 14. Er ekki ofsögum sagt að skrif Páls um Davíð séu merkileg. Eins og flestir vita er Páll ritari Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Auk Páls rita Jónas H. Haralz, fyrrum bankastjóri Landsbankans, og Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, greinar um Davíð. Af öðru efni má nefna fróðlega grein Glúms Jóns Björnssonar um Samfylkinguna. Þar er t.d. að finna margar skondnar lýsingar á þessum flokki, sem vert er að mæla með.

Ennfremur má vekja athygli á grein Þorbjörns Broddasonar, prófessors, þar sem hann dæmir bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004. Eins og flestir vita er Þorbjörn fyrrum borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins og því auðvitað fjarri því samherji höfundar bókarinnar í stjórnmálum. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skrifar vettvangsgrein um stjórnmálin í ritið og víkur þar auðvitað að þeim stórtíðindum sem urðu með brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Ásta Möller, alþingismaður, sem tók sæti á þingi í stað Davíðs, ritar í Þjóðmál ennfremur mjög merkilega grein um ráðherraábyrgð.

Er vel þess virði fyrir áhugamenn um stjórnmál og góð og vel ígrunduð skrif um stjórnmál og málefni samtímans, sem og sagnfræðilegar pælingar að líta á Þjóðmál.

Saga dagsins
1956 Þúsundir ungverja mótmæla kommúnistastjórn landsins og krefjast almennra mannréttinda - stjórn landsins barði niður mótmælin með harðri hendi með beitingu valds nokkrum dögum síðar.
1973 Richard Nixon forseti, samþykkir að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Hæstiréttur landsins hafði áður skipað honum að afhenda segulböndin. Aðeins var birtur hluti spólanna á þessum tímapunkti, höfða þurfti fleiri mál til að fá öll gögnin. Birting þeirra sumarið 1974 leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar Nixons forseta, 9. ágúst 1974. Hann varð fyrstur af forsetum landsins til að segja af sér embætti.
1976 Nýr flugvöllur við Sauðárkrók tekinn í notkun - nefndur eftir Alexander Jóhannessyni rektor.
2002 Téténskir uppreisnarmenn taka rúmlega 700 manneskjur í gíslingu í þjóðleikhúsinu í Moskvu - gíslatökunni lauk tveim sólarhringum síðar þegar yfirvöld réðust inn í leikhúsið og sprautuðu gasi þar inn. Allir uppreisnarmennirnir voru drepnir í innrás hersins í húsið, auk þeirra létust um 120 gíslar.
2003 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpar ástralska þingið - neyddist til að gera hlé á ræðunni vegna hrópa frá þingmönnum græningja sem mótmæltu mjög, einkum vegna Íraksstríðsins.

Snjallyrðið
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.

Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Sunnan af heiðum koma vorsins vindar
og vilja, að ár og lækir með þeim syngi.
Þá leysir ísa, fuglar koma og kvaka.
Á kvöldin roðna björgin og taka undir.
Nóttina birtir, villtir vængir blaka.
Veturinn kveður og býður góðar stundir.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)

Ein af perlunum hans Davíðs frá Fagraskógi - hér er ort um bæinn fagra við fjörðinn norðan heiða. Sætt og heilsteypt ljóð sem lýsir vel hinum fagra Eyjafirði.


Engin fyrirsögn

David DavisDavid Cameron

Leiðtogakjörið í breska Íhaldsflokknum er hafið af fullum krafti. Ferlið vegna leiðtogakjörsins hófst formlega fyrr í þessum mánuði er Michael Howard leiðtogi flokksins frá árinu 2003, baðst lausnar. Það gerði hann í lok flokksþings Íhaldsflokksins sem haldið var í Blackpool fyrri hluta mánaðarins. Fimm höfðu tilkynnt framboð þegar framboðsfrestur rann út: David Cameron, Kenneth Clarke, David Davis, Liam Fox og Malcolm Rifkind. Þar sem ekki náðist samstaða um að breyta lögum um vali á leiðtoga flokksins fór því svo að leiðtogakjörið fer fram með sama hætti og er forveri Michael Howard á leiðtogastóli, Iain Duncan Smith, var valinn í leiðtogakjöri árið 2001. Það er með þeim hætti að þingflokkurinn kýs með útsláttarfyrirkomulagi á milli leiðtogaefnanna þangað til að tveir standa eftir. Um þá munu svo flokksmenn kjósa í póstkosningu næstu vikurnar. Svo fór að Rifkind dró framboð sitt til baka í síðustu viku og eftir stóðu því fjórir í leiðtogakjöri innan þingflokksins. Á þriðjudaginn fór fyrsta umferð leiðtogakjörsins fram í þingflokknum.

Þá féll Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, úr leik. Hlaut hann fæst atkvæði fjórmenninganna, eða 38 af þeim 198 sem greidd voru. David Davis hlaut flest atkvæði í umferðinni, alls 62. David Cameron hlaut 56 atkvæði og Liam Fox hlaut 42. Clarke var því úr leik í umferðinni. Þetta var í þriðja skipti sem Clarke fer í leiðtogaslag. Hann fór fram árið 1997 þegar að Sir John Major lét af leiðtogaembættinu eftir afhroðið í kosningunum það ár. Hann tapaði svo í póstkosningu allra flokksmanna fyrir Iain Duncan Smith árið 2001. Hann fór þó ekki fram árið 2003, enda var Michael Howard þá sjálfkjörinn í leiðtogastöðuna. Fullyrða má að einkum tvennt hafi orsakað það að Clarke féll úr leik. Bæði er hann harður Evrópusinni, sem fer ekki vel í þingmenn flokksins almennt, og svo er hann orðinn 65 ára gamall og er eldri en núverandi leiðtogi flokksins. Þáttaskil urðu samhliða þessu - Clarke er væntanlega á útleið úr stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Hann mun allavega aldrei verða leiðtogi flokksins, þessi úrslit leiða til þess að þessi umdeildi en litríki stjórnmálamaður pakkar niður og heldur af hinu pólitíska sviði.

Leiddi tap Clarke til þess að fjölmargir stuðningsmanna hans lýstu yfir stuðningi við leiðtogaframboð David Cameron, og þótti eftir það sýnt að stuðningur við hann hefði aukist umtalsvert. Í gær fór svo önnur umferð leiðtogakjörsins fram. Þá hlaut Cameron 90 atkvæði, Davis hlaut 57 og Fox hlaut 51. Fox er því úr leik - eins og flestir höfðu spáð - og eftir standa þeir Cameron og Davis. Við blasir að staða David Cameron hefur vænkast verulega seinustu vikurnar. Þau þáttaskil hafa átt sér stað að Davis, sem lengi vel var talinn fremstur í kjörinu og sigurstranglegastur, hefur misst þann sess til Cameron. Honum hefur vaxið mjög ásmegin og stefnir allt í að hann verði leiðtogi með mjög afgerandi hætti. Stuðningur við Davis hefur þverrað mjög hratt seinustu daga og stefnir allt í að hann verði fyrir miklu áfalli í kjörinu. Það var Davis og stuðningsmönnum hans áfall hversu naumur sigur Davis var í fyrri umferðinni.

David Davis

Enn meira áfall þykir það að hann hafi misst forystuna til Cameron í seinni umferð þingflokksins. Það var þó fyrirséð að svo myndi fara. Því var jafnvel spáð um tíma í gær fyrir kjörið að Cameron myndi fá fleiri en 100 atkvæði í þingflokknum. Slík staða hefði gert vonir frambjóðandans gegn honum í póstkosningunni allt að því vonlausa og því jafnvel spáð að ekki kæmi til póstkosningarinnar yrði sú staðan. Svo fór ekki og þykir ljóst nú að Davis muni leggja allt undir og fara í póstkosninguna. Sigur Cameron í þessari umferð var nokkuð afgerandi en ekki nógu afgerandi til að vera rothögg á mótframbjóðandann. Davis heldur því áfram af krafti í lokabardagann. Við tekur nú sex vikna slagur milli Cameron og Davis um hylli flokksmanna. Ef marka má yfirlýsingar leiðtogaefnanna verður sú barátta mjög hörð. Munu um 300.000 flokksfélagar í breska Íhaldsflokknum nú fá lokavaldið í hendurnar um hvor Davíðinn í forystusveit þeirra David – Cameron eða Davis taki við valdataumunum í flokknum.

Þetta er vissulega nokkuð merkileg þróun í breska Íhaldsflokknum sem átt hefur sér stað í þessum mánuði. Lengi vel var Cameron talinn djarfur að leggja í leiðtogaslaginn og lengi vel talinn algjör outsider í slagnum. Hann hafði enda aðeins setið á þingi í fjögur ár er hann lýsti yfir leiðtogaframboðinu og barðist lengi vel á móti miklum straumi innan flokksstofnana og talinn vera með vonlaust framboð. Davis hafði yfirburðastöðu lengi vel og talið um tíma að slagurinn stæði milli hans og Clarke. Nú er Clarke fokinn burt og stjórnmálaferli hans augljóslega lokið að loknu þessu kjörtímabili. Skjótt skipast því veður í lofti í leiðtogapólitík íhaldsmanna. Það er allavega hægt að orða það þannig að leiðtogi hafi fæðst á flokksþinginu í Blackpool. Þar urðu þáttaskilin – Cameron talaði til flokksmanna með miklum fítonskrafti – algjörlega blaðlaust og þótti öflugur meðan að Davis þótti flytja hundleiðinlega ræðu af blöðum. Munurinn þótti sláandi – síðan hefur Cameron leitt slaginn og sífellt bætt við forskotið.

Aldursmunurinn á milli Davis og Cameron er nokkur. Davis er jafngamall Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, fæddur árið 1948. Cameron er um fertugt, fæddur árið 1966 – maður nýrra tíma semsagt. Þau þáttaskil eru í þessu kjöri að þarna takast á nýji og gamli tíminn í breska Íhaldsflokknum - í fyrsta skipti í mörg herrans ár. Margir telja að flokkurinn sé að ganga í gegnum kosningu, ekki bara um stefnu sína og strauma, heldur um það í hvaða átt hann vilji sækja með nýjum leiðtoga. Hvort hann eigi bara að lúkka vel eða eigi að vera hugsjónapólitíkus. Það er því í raun tekist á um framtíðarsýn leiðtoganna, bæði fyrir Íhaldsflokkinn og sig sem leiðtogaefnið inn í framtíðina. Michael Howard mun gegna leiðtogastöðunni í breska Íhaldsflokknum allt til 6. desember nk. Þann dag munu úrslitin úr póstkosningunni milli Davis og Cameron liggja fyrir. Hans hlutverk er þó að mestu formlegt nú, enda er sviðsljós allra nú á leiðtogaefnunum sem berjast um að hljóta sess hans innan flokksins.

David Cameron

Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrr á árinu. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram.

Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Cameron er því rétti maðurinn að mínu mati fyrir íhaldsmenn. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!

Saga gærdagsins
1728 Mikill eldur kom upp í Kaupmannahöfn - þar brann stór hluti bókasafns Árna Magnússonar.
1905 Landsdómur stofnaður til að dæma í málum gegn ráðherrum fyrir brot á stjórnarathöfnum - allt frá stofnun dómsins hefur hann aldrei komið saman, enda ekki þótt neitt tilefni að svo skyldi vera.
1968 Jacqueline Bouvier Kennedy fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ekkja John F. Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, giftist milljarðamæringnum Aristotle Onassis í Grikklandi - brúðkaup þeirra olli mjög miklum deilum. Það var ástlaust að mestu, en entist til andláts Onassis 1975 - Jackie lést 1994.
1973 Óperuhúsið í Sydney formlega tekið í notkun - ein glæsilegasta menningarbygging sögunnar.
1989 Borgarleikhúsið í Reykjavík var vígt - það var 13 ár í byggingu og var um 10.000 fm. að stærð.

Saga dagsins
1916 Pétur Ottesen, 28 ára bóndi, var kjörinn á þing fyrir Borgfirðinga - Pétur sat á þingi samfellt í 43 ár, er hann lét af þingmennsku 1959 hafði hann setið á þingi lengst allra sem þar hafa tekið sæti.
1933 Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um afnám bannlaganna - 15.866 greiddu atkvæði með afnámi en 11.625 greiddu atkvæði á móti tillögunni. Áfengisbann var svo formlega afnumið hinn 1. febrúar 1935.
1944 Ríkisstjórn Ólafs Thors, Nýsköpunarstjórnin, tók formlega við völdum - Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn áttu aðild að henni. Hún sat að völdum í rúmlega þrjú ár. Meginmarkmið hennar var nýsköpun atvinnulífsins og uppbygging eftir seinni heimsstyrjöldina.
1961 Bjarni Jónsson vígslubiskup og fv. forsetaframbjóðandi, varð fyrsti heiðursborgari í Reykjavík.
1998 Útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, fór fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík - þjóðhöfðingjar Norðurlandanna voru viðstaddir jarðarför forsetafrúarinnar. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands flutti hugljúfa minningarræðu um hana, en hann jarðsöng. Ríkisstjórn Íslands bar kistu hennar úr kirkju. Að afhöfninni lokinni var kista forsetafrúarinnar flutt í Fossvogskapellu þar sem bálför fór fram. Duftkeri forsetafrúarinnar var komið fyrir í Bessastaðakirkju skömmu eftir útförina.

Snjallyrðið
Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
Íslands er það lag.

Eða fugl í eyjum kvaka,
undir klöpp og skútar taka:
Íslands er það lag.
Heyrið brim á björgum svarra,
bylja þjóta svipi snarra:
Íslands er það lag.

Og í sjálfs þín brjósti bundnar
blunda raddir náttúrunnar:
Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði og eins í harmi
ymur Íslands lag.
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) (Íslandslag)

Þetta þjóðlega og kraftmikla ljóð Gríms Thomsens snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Þetta er fallegra en orð fá lýst. Þetta fagra ljóð var svo fært í unaðslegan búning við lag Björgvins Guðmundssonar. Stórfenglegt!


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Þriggja ára afmæli bloggvefsins
Í dag eru þrjú ár liðin síðan ég hóf bloggskrif á netinu á þessum stað. Allt frá upphafi hafa hitamál samtímans, bæði á vettvangi innlendra og erlendra stjórnmála, verið umfjöllunarefni í skrifum mínum. Þennan vettvang hef ég notað til að tjá mínar skoðanir um helstu málin, fara yfir þau frá mörgum hliðum og vera með úttekt á því sem helst er fréttnæmt. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Fyrir tveim árum breytti ég uppsetningunni verulega og bætti hana nokkuð og til sögunnar kom öflugri umfjöllun. Í febrúarmánuði breytti ég aftur til og í sumar hætti ég með gamlan og góðan flokk og kaflaskiptingu og við blasir þetta sem nú sést: samantekt í fimm punktum, dagleg umfjöllun og í lokin sögulegir punktar og snjallyrði. Allan tímann hef ég haft sanna ánægju af þessu. Myndi varla nenna þessu nema sönn ástríða á umfjöllunarefnunum og hjartans áhugi á þjóðmálum væri fyrir hendi. Pælingarnar halda áfram af krafti.

bestu kveðjur og kærar þakkir fyrir samfylgdina
Stefán Friðrik Stefánsson

Kenneth Clarke

Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, féll í gær úr leik í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins. Hlaut hann því fæst atkvæði þeirra fjögurra sem gefið höfðu kost á sér til leiðtogastöðunnar. Hann hlaut 38 atkvæði af þeim 198 sem greidd voru. David Davis hlaut flest atkvæði, alls 62. David Cameron hlaut 56 atkvæði og Liam Fox hlaut 42. Clarke er því úr leik og kosið verður að nýju á morgun milli þeirra þriggja sem eftir standa. Þeir tveir sem standa eftir að lokinni þeirri umferð fara í lokaumferðina, sem er póstkosning allra flokksmanna. Þetta er í þriðja skipti sem Clarke fer í leiðtogaslag - alltaf hefur hann tapað slagnum. Hann fór fram árið 1997 þegar að Sir John Major lét af leiðtogaembættinu eftir afhroðið í kosningunum það ár. Hann tapaði svo í póstkosningu allra flokksmanna fyrir Iain Duncan Smith árið 2001. Hann fór þó ekki fram árið 2003, enda var Michael Howard þá sjálfkjörinn í leiðtogastöðuna. Fullyrða má að einkum tvennt hafi orsakað það að Clarke féll úr leik. Bæði er hann harður Evrópusinni, sem fer ekki vel í þingmenn flokksins almennt, og svo er hann orðinn 65 ára gamall og er eldri en núverandi leiðtogi flokksins.

Þáttaskil verða samhliða þessu - Clarke er væntanlega á útleið úr stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Hann mun allavega aldrei verða leiðtogi flokksins, þessi úrslit leiða til þess að þessi umdeildi en litríki stjórnmálamaður pakkar niður og heldur af hinu pólitíska sviði. Við blasir að staða David Cameron hefur vænkast verulega seinustu vikurnar. Nú þegar hafa margir af lykilstuðningsmönnum Clarke að styðja hann. Við blasir að hann muni fá flest atkvæði í kjörinu á morgun. Þau þáttaskil hafa því átt sér stað að Davis, sem lengi vel var talinn fremstur í kjörinu og sigurstranglegastur, hefur misst þann sess til Cameron. Honum hefur vaxið mjög ásmegin og stefnir allt í að hann verði leiðtogi með mjög afgerandi hætti. Stuðningur við Davis hefur þverrað mjög hratt seinustu daga og stefnir allt í að hann verði fyrir miklu áfalli á morgun. Það var Davis og stuðningsmönnum hans áfall hversu naumur sigur Davis var í fyrri umferðinni. Það blasir við að margir töldu að Cameron myndi ekki komast yfir 50 atkvæði í fyrstu umferðinni. Það að svo fór leiðir til þess að staða Davis veikist - eins og sést hefur í dag og í gær.

Svo gæti farið að sigur Cameron í annarri umferðinni verði svo yfirgnæfandi að ekki komi til framhaldskosninga. Mótherji hans í póstkosningunni leggi ekki í þann slag og pakki saman. Forskot Cameron er enda orðið svo yfirgnæfandi að fátt annað kemur orðið til greina en að hann nái í mark. Hann hefur meðbyr lykilflokksmanna og hefur stuðning almennra flokksmanna í könnunum. Ef marka má fréttir í dag telja margir að Cameron verði jafnvel orðinn leiðtogi strax fyrir helgi - en til þess þarf sá sem fer í póstkosninguna að draga sig til baka. Margir telja það blasa við - enda hafi Cameron náð það afgerandi stöðu að mótherjinn telji vonlaust að hafa hann undir. Þetta er merkileg þróun, enda var Cameron talinn djarfur að leggja í leiðtogaslaginn og lengi vel talinn outsider í slagnum. En skjótt skipast oft veður í lofti. Það er allavega hægt að orða það þannig að leiðtogi hafi fæðst á flokksþinginu í Blackpool.

Reykjavíkurflugvöllur

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var nokkuð rætt um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Sat ég fundi samgöngunefndar þar sem var lífleg umræða um málið. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir nefndarmanna á tilvist vallarins náðist samstaða um orðalag í ályktunina í endanlegum drögum sem fyrir fundinn fóru á sunnudeginum. Var það ánægjuleg niðurstaða - mikið gleðiefni að svo skyldi vera. Aðilar komu til móts hvor við annan og niðurstaðan farsæl fyrir okkur öll - einkum þó flokkinn okkar. Einn þeirra sem sat fundi nefndarinnar og tók undir samkomulagið að því er virtist var Örn Sigurðsson arkitekt og frambjóðandi í prófkjöri flokksins í borginni. Eins og allir vita er Örn ekki stuðningsmaður vallarins. Það virtist á fundunum nefndarinnar svo að Örn tæki undir málamiðlun í málinu og lagði hann ekki fram neinar tillögur beint í aðra átt þar inni. Það kom því mjög á óvart þegar sami maður lagði fram á sunnudeginum tillögu um að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera farinn úr Vatnsmýrinni, eigi síðar en árið 2012. Komu frá honum ennfremur fleiri tillögur í svipaða átt - allar með þeim hætti að vera algjörlega óviðunandi fyrir landsbyggðarfólk.

Þessi gangur mála hefði varla orðið fréttaefni hér á þessum vef nema fyrir þær sakir að ég og aðrir tókum ekki eftir þessum tillögum Arnar inni í nefndinni. Þetta var mjög merkilegt, svo vægt sé til orða tekið. Eins og allir vita sem sátu í nefndinni tók Örn þátt í því ásamt fjölda manna að móta orðalag sem vera mætti til málamiðlunar og var ekki að flagga neinum sólómennskutillögum. Þær komu þó fram á sunnudeginum. Er mjög vægt til orða tekið að við höfum orðið gáttuð á þessum vinnubrögðum og undrandi á því að þessar tillögur kæmu fram og það með þessum hætti. Birna Lárusdóttir formaður vinnuhópsins um samgöngumál í aðdraganda fundarins, fór í pontu og lagði fram tillögu til frávísunar á tillögur Arnar. Kom þá Örn í pontu og varði tillögur sínar. Meðan að hann talaði lyftum við landsbyggðarfólk (og fleiri) upp rauða nei-spjaldinu sem notað var við atkvæðagreiðslur. Þótti okkur það sterk skilaboð að senda manninum og skilaboðum hans rauða spjaldið með táknrænum hætti. Var það mjög viðeigandi.

Svo fór að tillögur hans voru felldar. Var það mjög gleðilegt! Afstaða fundarmanna kom vel fram og meirihluti landsfundarfulltrúa henti tillögum hans algjörlega út í hafsauga! Tek ég undir með Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra á Ísafirði, sem ritar um málið í dagbókinni á vef sínum, að Örn Sigurðsson þurfi að fara á námskeið í félagsstarfsemi og fundaþátttöku! Það veitti varla af því. Allavega fór það svo að arkitektinn rann á rassinn með tillögur sínar á fundinum - okkur landsbyggðarfólki til mikillar gleði!

Daniel Craig

Nú hefur verið tilkynnt formlega að leikarinn Daniel Craig muni taka við hlutverki njósnara hennar hátignar, James Bond, sem ber kenniheitið 007 í bresku leyniþjónustunni. Markar valið á Craig nokkur þáttaskil - enda verður hann fyrsti ljóshærði leikarinn sem leikur ofurnjósnarann í rúmlega fjögurra áratuga langri sögu kvikmyndanna um Bond. Tekur hann við hlutverkinu af Pierce Brosnan, sem lék Bond í fjórum kvikmyndum á tímabilinu 1995-2002. Mun Craig birtast áhorfendum í kvikmyndinni Casino Royale, sem verður frumsýnd á næsta ári. Verður það 21. kvikmyndin sem Broccoli-fjölskyldan framleiðir um Bond. Eftirsjá er af Brosnan í hlutverki Bond. Taldi ég lengi vel að hann hefði átt að leika Bond einu sinni enn. En skiljanlegt er að framleiðendur vilji breyta til. Verður fróðlegt að sjá Daniel Craig færa okkur annan og unglegri Bond í nýju myndinni.

Sálin

Rosalega er nýja lagið með Sálinni gott. Ég er ekki fjarri því að lagið "Undir þínum áhrifum" sé besta lag Sálarinnar í fjöldamörg ár. Það allavega hitti beint í hjartastað hjá mér - svo er um fleiri hef ég heyrt. Stórfenglegt lag - þeir eru algjörir snillingar strákarnir. Í vikunni var myndbandið við lagið frumsýnt í Íslandi í dag hjá Svansí og Ingu Lind. Hvet alla til að horfa á það - stórfenglegt myndband sem segir sæta og hugljúfa ástarsögu (afturábak skemmtilegt nokk) frá því að ástin kviknar milli tveggja einstaklinga þar til að kemur að þeirri stundu að annar aðilinn kveður þennan heim. Stórfenglegt lag - frábært myndband. Klikkar ekki!

Saga dagsins
1918 Spænska veikin barst til landsins með tveimur skipum, öðru frá Kaupmannahöfn en hinu frá
New York. Í hinni skæðu inflúensu létust á fáum vikum vel á fimmta hundrað manns í Reykjavík.
1965 Fyrsta plata hljómsveitar Ingimars Eydal kom út. Meðal laga á plötunni voru klassísk lög á borð við Vor í Vaglaskógi og Á sjó. Hljómsveitin starfaði með breytingum allt til andláts Ingimars árið 1993.
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, neitar að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Þessi ákvörðun leiddi til málaferla sem lauk fyrir hæstarétti þar sem forsetanum var skipað að afhenda hljóðritanirnar. Sú ákvörðun leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar forsetans, 9. ágúst 1974.
1989 Guildford fjórmenningunum sleppt úr fangelsi, eftir að sannað var að þau voru saklaus um að hafa staðið á bakvið sprengjutilræði í Guildford 1975. Þau sátu inni saklaus í 15 ár, er talið eitt mesta hneykslið í réttarsögu Bretlands - saga málsins er sögð í kvikmyndinni In the Name of the Father.
2003 Móðir Teresa gerð að dýrlingi af Jóhannesi Páli páfa II við hátíðlega athöfn - hún lést 1997.

Snjallyrðið
Í regninu elskendur finnurðu falda,
fallandi regnið mun yfir þau tjalda,
hjörtun þau titra, hjörtun þau loga,
hjörtun sér fórna undir silfruðum boga.

Við þig ég tala meðan tunglið syndir
tekur þín augu sýnir þér myndir.
Lífinu mundi ég vissulega voga
í von um koss undir silfruðum boga.

Dagarnir mínir daufir líða,
daprir eftir ástinni þurfum að bíða
í hjarta mitt sem hamast togar
húmblá augu undir silfruðum boga.

Ef í regninu elskendur finnurðu farna
felldu ekki dóminn, allavega ekki þarna,
ef þú aðeins heldur við hjartans loga
mun hamingjan bíða undir silfruðum boga.

Ástin undir silfruðum boga bíður
að bros þitt vakni því tíminn líður.
Ef regninu kaldar göturnar gengur
gakktu undir bogann og dveldu þar lengur.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Silfraður bogi)

Ein af perlunum hans Bubba - sætt og hugheilt ljóð sem fært var í undurfagran búning á plötunni Dögun fyrir tveim áratugum.


Engin fyrirsögn

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Í ítarlegum pistli á heimasíðu minni í dag fjalla ég um 36. landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þáttaskil hafa átt sér stað í flokknum. Á landsfundinum sté Davíð Oddsson verðandi seðlabankastjóri, af hinu pólitíska sviði, í orðsins fyllstu merkingu er hann labbaði af aðalsviðinu í Laugardalshöll og hélt út í sal. Hann var ekki lengur forystumaður Sjálfstæðisflokksins, hafði afhent völdin innan flokksins til eftirmanns síns. Geir H. Haarde utanríkisráðherra, hafði þá verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og tekið við forystu flokksins af Davíð. Að baki er merkur ferill – rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferill öflugs leiðtoga sem leitt hefur Sjálfstæðisflokkinn í einn og hálfan áratug, í senn bæði með kraftmiklum og glæsilegum hætti. Þáttaskilin felast í brotthvarfi þessa sterka leiðtoga. Eftirmaðurinn er þó af sömu kynslóð – náinn samstarfsmaður og félagi Davíðs í rúma þrjá áratugi, maður sem þekkir Sjálfstæðisflokkinn og stjórnmálavettvanginn mjög vel. Þáttaskil urðu svo í varaformannskjöri þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var kjörin varaformaður, fyrst kvenna. Þó að kosning hafi verið milli Þorgerðar Katrínar og Kristjáns Þórs um embætti varaformanns var baráttan vinsamleg og drengilega háð að hálfu þeirra beggja.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við flokknum heilum og öflugum á bakvið sig. Flokksmenn færðu honum forystuna í flokknum með afgerandi hætti og enginn vafi leikur á því hversu sterkur leiðtogi hann er við þessi þáttaskil. Þegar að sterkir leiðtogar kveðja verður alltaf tómarúm. Við sjálfstæðismenn erum svo heppnir að eiga sterka stjórnmálamenn sem geta tekið við forystunni af krafti við brotthvarf Davíðs. Geir H. Haarde er þekktur fyrir verk sín og störf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Honum voru launuð þau störf í kosningunni í gær með þeim hætti sem fyrir liggur. Geir er vel kominn að því að taka við forystu flokksins. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir var varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og var fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, eða í rúm sjö ár, og hefur nú tekið sæti sem utanríkisráðherra. Verður merkilegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum.

Það var aldrei vafi á því í mínum huga fyrir landsfundinn að Geir myndi hljóta glæsilega kosningu sem eftirmaður Davíðs á formannsstóli. Við sameinumst nú öll sem eitt að baki Geir og styðjum hann heilshugar í þeim verkefnum sem blasa við honum og flokknum okkar á komandi árum. Framundan eru tvær mjög spennandi kosningar og áhugavert verður að vinna fyrir flokkinn í þeim átökum sem fylgja kosningunum, og undir forystu Geirs sem formanns okkar. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins seinustu árin að fylgja formanni sínum heilshugar í því sem gera þarf og þeim verkefnum sem framundan eru á veginum. Lengi var sagt að þegar að Davíð Oddsson myndi láta af formennsku myndu pólitísk átök og ósamstaða einkenna andrúmsloftið við þau þáttaskil. Það varð ekki svo – andstæðingum okkar varð ekki að þeirri ósk sinni að læti yrðu við brotthvarf Davíðs. Við færðum Geir formennskuna með öflugum og samhentum hætti og hann hefur umboð okkar til forystu. Bind ég vonir við að Geir muni leiða brátt ríkisstjórn og taka við forystu í stjórnmálum með sama hætti og Davíð Oddsson gerði.

Rétt eins og ljóst var fyrir landsfundinn að Geir yrði formaður var öllum ljóst að nýr varaformaður yrði kjörinn á landsfundinum. Í framboði voru eins og fyrr segir Kristján Þór og Þorgerður Katrín. Eins og vel kom fram í pistli á vef mínum fyrir tæpum mánuði er framboð þeirra lágu fyrir ákvað ég að styðja Kristján Þór til varaformennsku. Hef ég þekkt Kristján Þór Júlíusson í um tvo áratugi og því engin undur og stórtíðindi að ég hafi stutt hann af krafti í þessu varaformannskjöri. Kristján Þór sannaði fyrir mér og öllum öðrum sem þekkja hann og bakgrunn hans í ræðunni á laugardeginum hvernig hann er – bæði sem stjórnmálamaður og persóna. Hann er kraftmikill, heiðarlegur og ábyrgðarmikill stjórnmálamaður – öflugur maður með mikla reynslu – sem þorir að taka áhættur og vill vinna verkin af krafti. Heyrði ég vel á landsfundinum að fólki líkaði markvissar áherslur hans og metnaður fyrir hönd flokksins í varaformannskjörinu. Kom hann enda fram með markvissa stefnu um að efla innra starf flokksins og sótti fram af krafti – umfram allt með metnað fyrir hönd flokksins að leiðarljósi. Þótti mér honum mælast þar vel og náði hann eflaust til þeirra sem óákveðnir voru, enda heyrði ég almenna ánægju allra með ræðu hans.

Þegar kom að kjörinu var öllum ljóst að mjótt gæti orðið á munum og Kristján hefði unnið mjög á. Fyrir fundinn þótti mörgum sem svo að framboð Kristjáns Þórs væri vonlaust og sótt hefði verið fram af hans hálfu aðeins til að skora keilur í athygli. Þeir sem þekkja Kristján Þór vita að hann er keppnismaður og leggur aldrei af stað nema vera fullkomin alvara. Það sáu allir sem fylgdust með ræðu hans á laugardeginum. Hann er enda keppnismaður. Svo fór að Þorgerður Katrín hlaut kjör sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Markaði hún sér þar sess í sögu flokksins, enda er hún fyrsta konan í sögu hans sem tekur sæti í æðstu forystu hans. Þorgerður Katrín hlaut 728 atkvæði eða 62,3%. Kristján Þór hlaut 424 atkvæði eða 36,3%. Var alveg ljóst á þessum úrslitum að Kristján Þór hafði öflugan stuðning og gott bakland í formannskjörinu. 10 aðrir sjálfstæðismenn fengu samtals 16 atkvæði. Við sem studdum Kristján Þór Júlíusson erum ánægð með góðan árangur hans í kosningunni, sem mun efla hann til komandi verkefna í pólitík, og vinnum af krafti með Þorgerði Katrínu í innra starfinu.

Þáttaskil hafa orðið í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar er lokið og flokksmenn hafa á fjölmennum og góðum landsfundi fært Geir H. Haarde forystuna í flokknum. Þetta var mjög góð helgi og ánægjulegur fundur og virkilega gaman að hittast og eiga svo góða stund. Rúmlega þúsund manns greiddu atkvæði í kosningu um formann og varaformann og við finnum á því og kraftinum á fundinum hversu flokkurinn fer öflugur inn í pólitískan vetur. Geir er vel kominn að því að taka við pólitískum völdum Davíðs Oddssonar. Þorgerður Katrín fékk öflugt umboð til varaformennsku og mun vonandi vinna af krafti að innra starfi flokksins og þeim verkefnum sem mikilvæg eru í aðdraganda tveggja kosninga. Að fundinum loknum héldu sjálfstæðismenn sáttir til síns heima. Samstaða okkar er mikil og vinna framundan til að tryggja góða útkomu í kosningunum tveim. Framundan eru skemmtilegir tímar í íslenskum stjórnmálum eftir þessi þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum.

Bergur Þorri Benjamínsson

Í aðdraganda landsfundar hafði verið nokkur umræða um þá ákvörðun stjórnvalda að skerða bensínstyrk öryrkja. Var þetta mjög umdeild ákvörðun og vakti óánægju í samfélaginu, sem von er. Svo fór á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að Bergur Þorri Benjamínsson lagði fram breytingatillögu í heilbrigðisnefnd og mælti fyrir því að ákvörðunin skyldi dregin til baka. Var tillaga hans samþykkt. Var það mikið gleðiefni, mjög svo. Bergur Þorri lenti í alvarlegu slysi fyrir nokkrum árum og lamaðist fyrir neðan mitti. Hann er ein af hvunndagshetjunum. Hann lifir sínu lífi og hefur tekið þátt í þeim verkefnum sem hann hefur áhuga á. Hann er nú gjaldkeri stjórnar Varðar, f.u.s. á Akureyri, þess félags sem ég er formaður í. Ég studdi hann af krafti í að leggja fram þessa tillögu og fagna samþykkt hennar. Það kemur ekki til greina að þessi tillaga heilbrigðisráðherra verði samþykkt. Hún er óeðlileg og það var gleðiefni að Bergur Þorri lét landsfund Sjálfstæðisflokksins taka afstöðu til málsins og sló málið burt hvað varðar flokkinn. Nú er málið í höndum heilbrigðisráðherra. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er auðvitað algjörlega skýr. Burt með þessa fyrirhuguðu skerðingu bensínstyrksins. Hver getur enda varið þessa þvælu?

Almennur sjálfstæðismaður, sem er lamaður eftir alvarlegt slys, leggur fram tillögu um þetta mál sem er samþykkt af almennum sjálfstæðismönnum á landsfundi, sem er æðsta stofnun flokksins. Stefna okkar í málum er mótuð á þessum fundi og sjálfsagt að ræða þetta. Stefna flokksins í þessu máli er ljós og því alveg ljóst að menn verða að vinna eftir henni. Merkilegt er að heyra nú í framsóknarmönnum þar sem þeir tala um svik og hvað ofan á annað. Síðan hvenær er það að stinga einhvern í bakið að leggja fram tillögu á landsfundi flokksins síns og berjast fyrir sínum hjartans málum? Er það ekki bara besta dæmið um hversu flokksstarfið er opið og hversu mikil áhrif hinn almenni flokksmaður hefur? Það held ég nú. Við sjálfstæðismenn sögðum okkar á landsfundinum. Þetta er gott dæmi um það að almennir flokksmenn geta tekið málin í sínar hendur - komið með breytingatillögur og keyrt málin í gegnum fundinn og aflað breytingatillögunum stuðnings annarra fundarmanna. Hinn almenni flokksmaður hefur raunverulega áhrif - það er svosem gott að aðrir sjá það. En þetta er góð tillaga sem var þarna samþykkt og vonandi er þetta mál Jóns Kristjánssonar með þessu dautt. Gott hjá Bergi Þorra.

David Cameron

Ég hef lengi velt vel fyrir mér breskri pólitík. Nú er komið að því að íhaldsmenn hefja kosningu innan þingflokksins um það hver eigi að leiða flokkinn á næstu árum. Rifkind hefur hætt við og eftir standa Cameron, Clarke, Davis og Fox. Allt eru þetta mætir menn sem vilja vinna vel fyrir íhaldsmenn og koma flokknum til valda. Á morgun ræðst það hver þeirra dettur fyrst út og á fimmtudag dettur annar út. Þingflokkurinn kýs tvo út og svo munu flokksmenn kjósa á milli þeirra tveggja sem komast í gegnum kosningu þingflokksins. 6. desember verður kjöri nýs leiðtoga lýst. Lengi vel hallaðist ég að Davis eða Fox í þessum slag. Hef aldrei verið mjög hrifinn af Clarke sem stjórnmálamanni. Nú þykir mér sem að stjarna David Cameron sé að rísa. Hann flutti alveg glimrandi ræðu á flokksþingi íhaldsmanna fyrr í mánuðinum og sannaði þar kraft sinn og afl. Talaði þar blaðlaust og af styrk um lykilmál og stefnu flokksins. Er ég kominn á þá skoðun nú að hann sé málið - hann eigi að leiða flokkinn inn í nýja tíma. Hann er aðeins 39 ára gamall og hefur það sem ég tel í slaginn. Ætla að vona að hann vinni þetta. Hallast að því að Clarke detti fyrstur og svo fari Davis eða Fox á fimmtudag, hallast að Fox.

Edda Heiðrún Backman

Í síðustu viku var, eins og ég fjallaði um þá, viðtal við Eddu Heiðrúnu Backman leikstjóra og leikkonu, í Kastljósi. Þar talaði Edda Heiðrún með næmum og fallegum hætti um baráttu lífs síns - gegn hrörnunarsjúkdómnum MND, sem nú hefur leitt til þess að hún hefur orðið að hætta leik, langt um aldur fram. Dáðist ég þar að túlkun Eddu Heiðrúnar og því hversu heilsteypt hún horfist í augu við örlög sín. Á sunnudagskvöldið var Edda Heiðrún viðmælandi Jóns Ársæls Þórðarsonar í Sjálfstæðu fólki. Það var svo tilfinninganæmt viðtal að ég komst eiginlega við að fylgjast með henni tala þar um veikindin og lífið. Hreint út sagt að þá dáist ég að Eddu Heiðrúnu - hún er sannkölluð hetja. Þeir sem eru að fjargviðrast yfir smávægilegum erfiðleikum og eru úrillir vegna smáatriða lífsins ættu að horfa á viðtalið við Eddu Heiðrúnu og horfa á þá miklu sómakonu ræða um örlög sín með þeim hætti sem þar kemur fram. Hvet alla til að horfa á þetta viðtal við Eddu Heiðrúnu - það gefur lífinu annan lit að horfa á Eddu tala um örlög sín og hvernig hún horfist í augu við þau.

Davíð Oddsson

Á föstudeginum átti ég notalegt spjall við Davíð Oddsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þakkaði hann mér og stjórn Varðar þar fyrir skeytið sem við sendum honum vegna starfsloka hans í stjórnmálum. Þótti mér vænt um vingjarnleg orð Davíðs í garð okkar og félagsins. Það er vægt til orða tekið að ég hafi dýrkað Davíð og flokkinn á þeim áratug sem ég hef verið flokksbundinn þar. Eiginlega mætti segja að ég hafi gengið í flokkinn vegna aðdáunar minnar á honum sem stjórnmálamanni og vegna þess að ég fann taug milli hugsjóna minna og sjálfstæðisstefnunnar. Annars á ég svosem ættir að rekja til flokksins. Afar mínir voru báðir miklir sjálfstæðismenn og kusu flokkinn alla tíð. Þeir mættu hinsvegar báðir á landsfund og fóru sínar leiðir en flokkinn kusu þeir alltaf og hikuðu ekki við að vaða eld og brennistein fyrir hann. Langafi var bæjarfulltrúi hér á Akureyri, svo tengslin í flokkinn eru til staðar og gott betur en það.

Saga dagsins
1755 Kötlugos hófst með miklum jarðskjálftum, eldingum, stórdynkjum, skruðningum, þoku, þykku sandmistri og eldsgangi. Talið er að þetta eldgos sé eitt mesta öskugos á sögulegum tíma í Kötlu.
1970 Anwar Sadat verður forseti Egyptalands - Sadat sat á valdastóli þar til hann var myrtur 1981.
1979 Móðir Teresa hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir ævistarf sitt að mannúðarmálum í heiminum.
1989 Jarðskjálfti skekur San Francisco og veldur miklum skemmdum - hann mældist 7 Richter-stig.
1998 Kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, kom til Íslands frá Seattle, þar sem hún hafði látist hinn 12. október. Stutt athöfn var á Keflavíkurflugvelli vegna þessa. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, minntist forsetafrúarinnar. Við athöfnina fór að snjóa og þótti það mjög táknrænt.

Snjallyrðið
Nú komin er kveðjustund okkar
og kossinn ég síðasta fæ.
En minningin merlar og lokkar
sú minning fer aldrei á glæ.
Innst í hjarta sem gull ég þig geymi
þú ert glóbjarta drottningin mín.
Þó árin til eilífðar streymi
fer aldrei burt minningin þín.
Kristján Ingólfsson (Kveðjustundin)

Undurfagurt ljóð Kristjáns Ingólfssonar við lag móðurbróður míns, Þorvaldar Friðrikssonar á Eskifirði. Valdi var snillingur í tónsmíðum, samdi listilega falleg lög sem geymast mjög vel í hjarta og huga. Kveðjustundin var hans fallegasta lag að mínu mati og vekur það alltaf upp minningar í huga mér. Texti Kristjáns er sannkallað snjallyrði.


Engin fyrirsögn

Geir og Þorgerður Katrín kjörin í forystu

Geir H. Haarde formaður SjálfstæðisflokksinsÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins

36. landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk í Laugardalshöll á sjöunda tímanum í kvöld. Geir Hilmar Haarde utanríkisráðherra, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum í stað Davíðs Oddssonar, sem gegnt hafði formennsku í 14 ár og verið forsætisráðherra landsins samfellt í 13 ár, 1991-2004. Greidd voru 1148 gild atkvæði í kosningunni og hlaut Geir 1083 eða 94,3% gildra atkvæða. 23 aðrir sjálfstæðismenn hlutu samtals 65 atkvæði. Auðir seðlar voru 40.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á fundinum í stað Geirs, sem gegnt hafði embættinu í sex ár, frá árinu 1999. Þorgerður Katrín hlaut 728 atkvæði eða 62,3%. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, hlaut 424 atkvæði eða 36,3%. 10 aðrir sjálfstæðismenn fengu samtals 16 atkvæði.

9 konur náðu kjöri í miðstjórnarkjöri í dag, en kosið var um 11 sæti. Er þar um talsverð tímamót að ræða, enda hafa aldrei jafnmargar konur náð kjöri á landsfundi í miðstjórn. Kjör hlutu: Birna Lárusdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Grímur Gíslason, Magni Kristjánsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Björk Guðjónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Stefanía Katrín Karlsdóttir og Sigríður Ásthildur Andersen.

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar - hvet ég lesendur til að kynna sér þær.

Saga dagsins
1890 Magnús Stephensen landshöfðingi, tók formlega í notkun síma er lagður var á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar - um var þá að ræða fyrstu málþráðarlagningu sem lögð hafði verið hér á Íslandi.
1902 Landakotsspítali í Reykjavík var formlega tekinn í notkun - var reistur af St. Jósepssystrum.
1952 Írafossstöðin við Sog var vígð - um var að ræða eitt mesta mannvirki hérlendis til þess tíma.
1978 Pólski kardinálinn Karol Józef Wojtyla kjörinn páfi - hann tók sér nafnið Jóhannes Páll II páfi. Hann sat á páfastóli samfellt í 27 ár, frá árinu 1978 til dauðadags árið 2005. Aðeins tveir sátu lengur.
1984 Presturinn Desmond Tutu hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttuna gegn aðskilnaðarstefnu.

Snjallyrðið
En er ég kom sem barn til byggða heim,
þá barst mér það til eyrna fyrr en varði,
að horfinn væri úr hópnum einn af þeim,
sem hjartað þráði mest í föðurgarði.
Og alltaf falla fleiri mér kærir í þann val,
og fram hjá streyma ár, og dagar hverfa,
og gömlum bæjum fækkar fram í dal,
en fremstu nafir holskeflunnar sverfa.

Ef finn ég anga föðurtúnin græn,
þá fagnar vori hjartans dýpsti strengur.
En það skal vera þökk mín öll og bæn,
og þó ég deyi, skal hann óma lengur.
Þá birtist mér í heiðri himinlind
öll horfin fegurð, er ég man og sakna.
Er geisladýrðin gyllir fjöll og tind,
skal gleði mín í fólksins hjörtum vakna.

Því get ég kvatt mín gömlu föðurtún
án geigs og trega, þegar yfir lýkur,
að hugur leitar hærra fjallsins brún,
og heitur blærinn vanga mína strýkur.
Í lofti blika ljóssins helgu vé
og lýsa mér og vinum mínum öllum.
Um himindjúpin horfi ég og sé,
að hillir uppi land með hvítum fjöllum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Föðurtún)

Í minningu þess manns sem kenndi mér það sem mest er um vert - að skynja, segja hug sinn allan til manna og málefna, verja sig af öllum krafti gegn þeim sem sækja að og vera trúr grunninum. Það sem hann kenndi mér met ég mikils. Fyrst og fremst kenndi hann mér það að vera sterkur og kraftmikill - aldrei hvika frá settu marki eða markmiðum. Hann var sterkur allt til loka - sannur og öflugur.


Engin fyrirsögn

36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins

Davíð Oddsson

36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður settur í Laugardalshöll í dag. Að þessu sinni ber landsfundurinn yfirskriftina: Hátt ber að stefna. Þáttaskil verða í flokknum á þessum landsfundi. Davíð Oddsson sem verið hefur formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991, gefur ekki kost á sér til endurkjörs á landsfundinum. Hann hefur nú látið af ráðherraembætti og þingmennsku og tekur við embætti seðlabankastjóra í næstu viku. Davíð var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár, 1982-1991. Hann var forsætisráðherra Íslands, lengur en nokkur annar, samfleytt í 13 ár, á tímabilinu 1991-2004 og utanríkisráðherra 2004-2005. Flokkurinn stendur á krossgötum við lok formannsferil Davíðs Oddssonar. Það verður nýrrar forystu flokksins að leiða hann inn í nýja tíma í íslenskum stjórnmálum. Það er svo sannarlega hægt að setja markið hátt og stefna hátt í komandi verkefnum.

Framundan eru skemmtilegir málefnafundir, kjördæmafundir, landsfundarhófið og allt þetta hefðbundna. Það er ljóst af dagskrá fundarins að nóg verður um að vera. Að sjálfsögðu held ég á landsfund og á þar góða stund með mætum félögum um allt land. Framundan er skemmtilegur landsfundur og verður gaman að hitta pólitíska samherja af öllu landinu í Höllinni. Á meðan ég verð fyrir sunnan verður þessi vefur lítið uppfærður. Mun fjalla ítarlega um landsfundinn hér eftir helgina, og það sem eftir hann stendur, er ný forysta hefur tekið við Sjálfstæðisflokknum.

Margaret Thatcher áttræð

Margaret Thatcher

Í dag er Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, áttræð. Hún hafði á valdaferli sínum mikil áhrif á stjórnmálasögu Bretlands og sat lengur en nokkur stjórnmálamaður á forsætisráðherrastóli í Bretlandi á 20. öld. Hún er einn af kraftmestu leiðtogum hægrimanna á sama tímabili. Í tilefni dagsins er vel við hæfi að fjalla um ævi og stjórnmálaferil Margaret Thatcher, eins litríkasta leiðtoga í sögu breska Íhaldsflokksins.

Margaret Hilda Roberts fæddist 13. október 1925 í bænum Grantham, sem er í austurhluta Englands. Nám sitt hóf Margaret í sýsluskólanum í Grantham, að því loknu hélt hún í háskólanám í Oxford. Þar nam hún efnafræði. Margaret varð snemma áhugasöm um pólitík og pólitíska starfsemi. Hún varð áberandi sem ein af forystufólki íhaldsmanna í skólanum og tók virkan þátt í stjórnmálaumræðum í Oxford. Varð hún kjörin formaður í félagi ungs hægrifólks í skólanum og varð í kjölfar þess áberandi í ungliðastarfi flokksins. Það varð snemma ljóst að hún myndi ekki beina sjónum sínum að efnafræði að námi loknu. Stjórnmálaferill hennar hófst formlega árið 1951 er hún varð frambjóðandi Íhaldsflokksins í Dartford. Hún náði ekki kjöri, en jók fylgi flokksins þar umtalsvert. Hún gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1955, enda hafði hún þá komið sér upp heimili og eignast börn. Margaret giftist í desembermánuði árið 1951, Denis Thatcher. Saman eignuðust þau tvíbura í ágúst 1953, Mark og Carol Thatcher. Denis stóð við hlið Margaret allan hennar stjórnmálaferil og varð hennar helsti stuðningsmaður og trúnaðarvinur í gegnum þykkt og þunnt. Margaret sagði síðar í ævisögu sinni að án Denis hefði hún aldrei náð þeim árangri sem henni hlotnaðist í stjórnmálum.

Árið 1959 var Margaret Thatcher kjörin á breska þingið fyrir Finchley hérað. Var hún kjörinn fulltrúi þess allan starfstíma sinn á þingi. Í þeim kosningum hélt Íhaldsflokkurinn þingmeirihluta sínum og Harold Macmillan forsætisráðherra, sat áfram á valdastóli. Margaret varð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í október 1964. Í næstu þingkosningum ári síðar, féll ríkisstjórn íhaldsmanna. Leiðtogaskipti urðu innan flokksins á því kjörtímabili, við forystunni tók Edward Heath. Margaret varð einn helsti forystumaður flokksins í heilbrigðis- og menntamálum og öflugur talsmaður í skuggaráðuneyti flokksins allt til ársins 1970. Það ár vann Íhaldsflokkurinn góðan sigur í þingkosningum og Edward Heath varð forsætisráðherra. Margaret tók sæti sem menntamálaráðherra í þeirri stjórn. Leiddi hún í sinni ráðherratíð mikla uppstokkun í menntamálum og stóð fyrir miklum sparnaðaraðgerðum í menntakerfinu því samhliða, enda voru útgjöld til málaflokksins að sliga ríkissjóð. Varð hún á þessum árum einn af helstu forystumönnum flokksins. Flokkurinn beið ósigur í þingkosningunum 1974 og Verkamannaflokkurinn undir forystu Harold Wilson tók við stjórnarforystunni. Staða Heath veiktist mjög í kjölfar tapsins í kosningunum og óánægja með störf hans jókst.

Í leiðtogakjöri í Íhaldsflokknum í febrúar 1975 var Heath ýtt til hliðar og Margaret kjörin leiðtogi flokksins. Varð hún fyrsta konan til að leiða breskan stjórnmálaflokk og var kjör hennar því mjög sögulegt. Varð hún öflugur forystumaður stjórnarandstöðunnar á þeim fjórum árum sem hún leiddi minnihluta þingsins. Byggði hún flokkinn með miklum forystuhæfileikum, járnaga og krafti. Réðist hún oft harkalega í fyrirspurnartíma í þinginu að Harold Wilson og eftirmanni hans á forsætisráðherrastóli, James Callaghan, sem tók við embætti árið 1976. Staða ríkisstjórnarinnar veiktist mjög er leið að lokum kjörtímabilsins. Þingmeirihlutinn féll í vantraustskosningu í febrúar 1979 og neyddist Callaghan því að boða til kosninga. Oft á árinu 1978 munaði litlu að stjórnin félli, enda meirihluti hennar undir lokin einungis örfá sæti og varð Callaghan að fórna miklu til að halda völdum margoft. Í kosningabaráttunni kom skýrt fram að meginmarkmið hennar ef flokkurinn ynni sigur yrði að stokka upp efnhagsmálin og taka til hendinni. Þingkosningar fóru fram 3. maí 1979. Íhaldsflokkurinn vann afgerandi sigur og hlaut 43 sæta meirihluta á breska þinginu. Kjör Margaret Thatcher í embætti forsætisráðherra landsins markaði mikil þáttaskil. Það varð strax ljóst þann 4. maí 1979 er hún tók við embætti og hlaut formlegt stjórnarmyndunarumboð frá Elísabetu II.

Er hún kom að embættisbústaðnum Downingstræti 10 var henni fagnað af stuðningsmönnum sínum. Þar flutti hún kraftmikla ræðu og vitnaði þar í St. Francis af Asisi með glæsilegum hætti. Orðrétt sagði hún: "Where there is discord, may we bring harmony. Where there is error, may we bring truth. Where there is doubt, may we bring faith. And where there is despair, may we bring hope". Hófst hún handa af krafti ásamt stjórn sinni, strax eftir embættistökuna. Á fyrsta kjörtímabilinu fengust þegar fram gríðarlegar breytingar á flestum sviðum. Umskipti urðu, staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Hún tók á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Er ráðist var að henni vegna verka sinna og hún varð umdeild vegna framgöngu sinnar, spurði hún hvort þeir ætluðu að víkja af leið framfara. Hún myndi hvergi hvika. Fleyg urðu ummæli hennar á flokksþingi Íhaldsflokksins 1980 er á móti blés hjá henni í baráttu sinni fyrir breytingum: "You turn if you want to. The lady's not for turning!" Ekki var hvikað. Járnfrúin, eins og hún var kölluð vegna staðfestu sinnar, fékk sínu framgengt.

Þáttaskil höfðu orðið í breskum stjórnmálaheimi og ekkert varð samt aftur. Hún vann stórsigur í þingkosningunum 1983 og jók þingmeirihluta sinn og vann þriðja kosningasigurinn 1987 og þann táknrænasta í sínum huga, enda var með því sýnt fram á að forgangsverkefni hennar nutu stuðnings almennings. Farið var á rétta braut og landsmenn fylgdu stefnunni sem mótuð var. Í kjölfar þriðja kosningasigursins tók hún á sig óvinsæl málefni, kom á frægum og óvinsælum nefskatti sem leiddi til þess að persónulegt fylgi hennar minnkaði verulega. Thatcher, sem fram að því hafði verið óumdeild að mestu innan flokksins, fékk á sig mótspyrnu frá andstæðum öflum sem setið höfðu á sér lengi vel. Árið 1990 sagði Geoffrey Howe, einn nánasti samverkamaður forsætisráðherrans af sér ráðherradómi, vegna óánægju með framgöngu hennar í Evrópumálunum. Afsögn hans leiddi af sér keðjuverkandi þróun. Michael Heseltine, sem tekið hafði sæti í fyrsta ráðuneyti hennar og sagt af sér vegna Westland-hneykslisins 1986, skoraði hana á hólm í leiðtogakjör í nóvembermánuði 1990. Thatcher fór í varnarstöðu gegn áskorun Heseltine. Kosið var 20. nóvember 1990.

Á þeim tímapunkti sat hún fund RÖSE í París og átti von á að nauðsynlegur meirihluti atkvæða væri tryggur og vel það. Ekkert væri að óttast með stöðu mála. Kom í ljós að svo var ekki, henni vantaði örfá atkvæði til að hljóta gildan meirihluta til að forðast aðra umferð. Heseltine varð sterkari en nokkurn hafði órað fyrir. Sú sterka staða sem Thatcher hafði búið yfir í breskri pólitík allan níunda áratuginn var á bak og burt. Er hún kom til London degi síðar, var séð hvert stefndi. Nánustu samverkamenn hennar hvöttu hana flestir í einkasamtölum við hana, að kvöldi 21. nóvember 1990, til að víkja af forsætisráðherrastóli. Þeir töldu ógerlegt að vinna kosningasigur undir hennar forystu árið 1992. Hún hafði ekki lengur stuðning síns innsta hrings, sem nauðsynlegur var til að halda áfram í aðra umferð. Bitur ákvörðun var því óumflýjanleg. Hún tilkynnti um afsögn sína á ríkisstjórnarfundi að morgni föstudagsins 22. nóvember og hélt að honum loknum til drottningar þar sem hún baðst formlega lausnar frá forsætisráðherraembættinu. Jafnframt tilkynnti Thatcher að hún myndi því ekki verða í kjöri við aðra umferð leiðtogakjörsins.

Ekki var liðinn nema tæpur klukkutími frá formlegri afsögn Thatcher þegar að þeir Douglas Hurd utanríkisráðherra, og John Major fjármálaráðherra, höfðu tilkynnt um framboð sín til leiðtogastöðunnar, auk Heseltine. Kosið var á milli þeirra 27. nóvember og hlaut Major þar gildan meirihluta og var réttkjörinn leiðtogi flokksins. Sólarhring síðar lauk forsætisráðherraferli Margaret Thatcher eftir ellefu og hálft ár. Er hún yfirgaf forsætisráðherrabústaðinn hinsta sinni sagði hún: "We're leaving Downing Street for the last time after eleven-and-a-half wonderful years and we're happy to leave the UK in a very much better state than when we came here! Now it's time for a new chapter to open and I wish John Major all the luck in the world." Hún var bitur er hún yfirgaf embættið, enda hafði hún stefnt að því að leiða flokkinn í þingkosningum. Hafði hún beitt sér mjög fyrir kjöri Major, eftir að ljóst varð að hún yrði að víkja af valdastóli. Lagði hún mikla áherslu á að fram kæmi frambjóðandi til leiðtogastöðunnar sem gæti komið í veg fyrir sigur Michael Heseltine. Það tókst, en mörgum að óvörum gerði John Major hann síðar að aðstoðarforsætisráðherra og hann varð einn nánasti samstarfsmaður Major meðan hann sat á valdastóli.

Síðar átti eftir að kastast mjög í kekki með honum og Thatcher og þau urðu t.d. mjög ósammála um stefnu í mikilvægum málaflokkum. Thatcher gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1992 og lét af þingmennsku í kjölfar þeirra. Vann flokkurinn þar nauman sigur og Major sat áfram sem forsætisráðherra, allt til ársins 1997 er Verkamannaflokkurinn batt enda á 18 ára valdaferil flokksins. Tók Thatcher sæti í lávarðadeildinni sumarið 1992 og hlaut með því hefðartitilinn Lafði Margaret Thatcher barónessa. Hún hélt áfram ferðalögum um allan heim í kjölfar þess að hún lét af forsætisráðherraembættinu og hélt erindi á ráðstefnum víðsvegar. Árið 2002, í kjölfar heilablóðfalls, neyddist hún til að hætta að halda ræður og erindi opinberlega. Eiginmaður hennar, Denis, lést árið 2003. Dró hún sig að mestu í hlé í kjölfar þess. Hún flutti þó minningarræðu við útför Ronald Reagan, vins síns og samstarfsfélaga til fjölda ára, er hann lést í júní 2004. Hún skrifaði æviminningar sínar á tíunda áratugnum: The Downing Street Years og The Path to Power: frábærar bækur sem ég mæli mjög með.

Margaret Thatcher er einstakur stjórnmálamaður og fyrirmynd okkar allra sem teljum okkur eiga hugsjónalegt heimili á hægrivæng stjórnmálanna. Hún var forsætisráðherra Bretlands í rúman áratug og vann sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún breytti breskum stjórnmálum án nokkurs vafa. Hún breytti bæði Íhaldsflokknum og megingrunni hans og ekki síður Verkamannaflokknum. Má nú varla á milli sjá hvor flokkurinn fylgir meira grunnstefnu hennar og áherslum á löngum valdaferli. Að mínu mati leikur enginn vafi á því að Thatcher er einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld, markaði mikinn sess í sögu aldarinnar. Kraftmikil verk hennar og hugsjónaleg forysta verður ávallt í minnum höfð.

Saga dagsins
1792 Framkvæmdir hófust á forsetasetri við Pennsylvania Avenue í Washington - nefnt Hvíta húsið.
1986 Leiðtogafundi Reagans og Gorbatsjovs lauk með litlum sýnilegum árangri. Almennt litið svo á nú að leiðtogafundurinn hérlendis hafi verið eitt þýðingarmesta skrefið að endalokum kalda stríðsins.
1987 Kýr synti yfir Önundarfjörð, frá Flateyri að Kirkjubóli í Valþjófsdal. Leiða átti hana til slátrunar en hún reif sig lausa, lagði á flótta og lagði til sunds. Kýrin hét Harpa, en eftir þetta kölluð Sæunn.
1995 Margrét Frímannsdóttir sigraði Steingrím J. Sigfússon mjög naumlega í formannskjöri í Alþýðubandalaginu. Margrét hlaut 53,5% atkvæða. Flokkurinn varð hluti af Samfylkingunni 2000.
2001 Aðalfundur Læknafélags Íslands staðfesti yfirlýsingu félagsins, Íslenskrar erfðagreiningar og Landlæknisembættisins um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði - endalok langra deilna um hann.

Snjallyrðið
Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)

Eyjafjörðurinn er fallegur - bæði á fögrum sumardegi sem köldu vetrarkvöldi. Þetta ljóð meistara Davíðs lýsir vel ást þeirra sem unna af öllu hjarta hinum fagra firði á Norðurlandi - sem er okkur svo kær.


Engin fyrirsögn

Gerhard SchröderDr. Angela Merkel

Stjórnmálaferli þýska kratans Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, lýkur bráðlega. Hann mun láta af kanslaraembætti um miðjan nóvembermánuð þegar að Angela Merkel leiðtogi CDU, tekur við embættinu í stóru samsteypu, ríkisstjórn krata og íhaldsmanna. Schröder flutti ræðu á þingi verkalýðsfélaga í heimabæ sínum Hanover í gær og var þar hylltur sem þjóðhetja. Þar lýsti hann því yfir formlega sem flestir vissu en hafði ekki verið sagt hreint út áður af honum sjálfum: að hann myndi ekki taka sæti í stjórn Merkel. Hann var klökkur er hann flutti ræðu sína og þurfti margoft að gera hlé á máli sínu til að taka við fagnaðaróskum stuðningsmanna sinna í verkalýðsstétt. Schröder hefur alltaf verið vinsæll í heimahéraði sínu, en flokkur hans missti þó völdin þar í héraðskosningum eins og víða um landið. En Schröder hefur alltaf verið vinsæll sem karakterpólitíkus heima fyrir.

Þáttaskil verða í þýskum stjórnmálum við brotthvarf Schröders. Hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Hann vann nauman sigur í kosningunum 2002. Lengi vel þeirrar kosninganætur var útlit fyrir að Schröder missti völdin en fylgisaukning græningja undir lok talningarinnar gerði það að verkum að stjórnin hélt velli. Schröder háði erfiðan slag seinustu misseri valdaferils síns. Hann neyddist til að boða til kosninga í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí. Alla kosningabaráttuna var Schröder að spila pólitíska vörn og sótti fram gegn keppinaut sem hafði markvisst forskot í könnunum.

Tókst honum að saxa verulega á fylgismuninn. Úrslit kosninganna voru viss varnarsigur fyrir kratana, en engu að síður náði hann ekki að halda stöðu sinni. Stjórnin féll og með því féll yfirburðastaða hans í þýskum stjórnmálum. Fljótt varð ljóst eftir kosningarnar að Schröder gæti ekki tekist að halda kanslarastólnum nema sækjast eftir samstarfi við íhaldsmenn. Á þeim bænum kom aldrei til greina að krati leiddi stjórnina, síst af öllu Schröder. Merkel sóttist eftir stólnum, enda voru kristilegir demókratar með stærri þingflokk en kratarnir. Svo fór að kratarnir urðu að fórna Schröder. Greinileg eftirsjá er á honum við þessi þáttaskil, en nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um þennan litríka stjórnmálaleiðtoga þýskra krata. Við Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Að kvöldi mánudags skrifaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, um dóm Hæstaréttar í svokölluðu Baugsmáli, á vef sinn. Þar sagði svo: "Stórfrétt dagsins er að sjálfsögðu niðurstaða hæstaréttar í kærumálinu vegna Baugs. Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Lögheimildir eru til þess, að ákæruvaldið taki mið af því, sem fram hefur komið hjá hæstarétti við frekari ákvarðanir um framhald málsins." Þessi sakleysislegu orð ráðherrans urðu til þess að allt stjórnmálalitróf stjórnarandstöðunnar tók kast á þriðjudeginum og þingmaður Framsóknarflokksins sagðist reyndar ekki taka ábyrgð á verkum ráðherrans. Sannarlega undarleg viðbrögð og kostulegt hvernig stjórnarandstaðan talaði. Var hún hneyksluð á orðavalinu og sagði að ráðherra væri vart sætt. Fóru þingmenn Samfylkingar, lögfræðingarnir Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður flokksins, mikinn í ræðustóli Alþingis eftir hádegið á þriðjudeginum.

Segja má að umfjöllunin hafi verið einn allsherjarstormur í litlu vatnsglasi. Ruku þessir þingmenn upp til handa og fóta og urðu sér til minnkunar með því að reyna að koma höggi á dómsmálaráðherra. Svo fór þó að þeir samfylktu félagar sem börðust fyrr á árinu um varaformennsku flokksins, fóru sneyptir frá þeirri för sinni að reyna að vega að Birni. Greinilegt var á öllum umræðunum að málshefjendur hefðu varla lesið dóm réttarins eða gert tilraun til að skilja skrif Björns á vef sínum. Var gleðiefni hvernig þingmennirnir og lögfræðingarnir Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar, og Sigurður Kári Kristjánsson tóku málflutning samfylkingarmannanna og sneru honum glæsilega upp. Eins og vel kom fram í umræðunni segir í dómi réttarins nákvæmlega það sama og kom fram í máli dómsmálaráðherra. Þetta var því sneypuför hin mesta hjá þingmönnunum, svo vægt sé til orða tekið.

Fannst mér sérstaklega ómerkilegt hvernig formaður VG, hinn mikli skapmaður frá Gunnarsstöðum, tók málið fyrir og gerði að umtalsefni utanferð ráðherrans sama dag. Fór hann til útlanda vegna starfa sinna og gat því auðvitað ekki svarað fyrir sig á þingi þennan dag. Fannst mér ummæli Steingríms J. um Björn og ferð hans fyrir neðan virðingu hans. En eftir stendur hversu málið var illa unnið hjá andstöðunni. Þar átti að slá greinilega pólitískar keilur með utandagskrárumræðu til að reyna að klekkja á ráðherranum. Svo fór ekki - málið snerist í höndum stjórnarandstæðinganna. Í raun má segja að þessi sneypuför beri allt bragð pólitísks vindhöggs - aðra einkunn geta þessar aðfarir þeirra ekki hlotið.

Edda Heiðrún Backman

Í kvöld ræddi Eyrún Magnúsdóttir við Eddu Heiðrúnu Backman leikstjóra og leikkonu, í vönduðu og heilsteyptu viðtali í dægurmálaþættinum Kastljósi. Þar ræddi Eyrún við Eddu Heiðrúnu um listina miklu og sanna lífsbaráttu. Ég varð mjög snortinn að horfa á Eddu Heiðrúnu tala opinskátt um veikindi sín, en hún greindist á síðasta ári með MND-hrörnunarsjúkdóminn. Leiddu veikindin til þess að hún varð að hætta alfarið leik. Hóf hún leikstjórn í kjölfarið og hefur leikstýrt nokkrum leikverkum seinustu tvö árin. Áður hafði Edda Heiðrún sýnt og sannað að hún var ein besta leikkona sinnar kynslóðar. Hafði hún hlotið bæði Eddu- og Grímuverðlaunin fyrir leik sinn skömmu fyrir veikindin. Talaði Edda Heiðrún um þessi alvarlegu veikindi eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Dáðist ég að styrk hennar og krafti. Lítur hún á veikindin eins og hvert annað verkefni sem takast þarf á við í lífinu. Er viðhorf hennar og styrkur aðdáunarverður, svo hreint út sé sagt. Hún er mjög öflugur talsmaður fyrir þá sem þurfa að eiga við þennan sjúkdóm, sem er algjörlega dauðans alvara og hefur áhrif jafnt á þann sem veikist og þá sem nærri standa. En Eyrún ræddi við Eddu Heiðrúnu með næmum og góðum hætti og viðtalið var virkilega gott. Það dró fram hliðar sem þurfa að koma fram og heyrast hvað varðar fólk sem berst við þennan lífshættulega sjúkdóm. Edda Heiðrún er mjög öflug og styrk kona og hefur jafnan verið þekkt fyrir það. Segja má að þessir kostir hennar komi vel fram nú í þessu veikindastríði hennar.

Frú Guðrún Katrín Þorbergsdóttir

Þegar forsetaferill núverandi forseta Íslands verður rakinn síðar meir af sagnfræðingum framtíðarinnar mun vonandi aldrei gleymast framlag Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, fyrri konu hans, í öllum verkum hans og í sögu þessa embættis. Guðrún Katrín var forsetafrú fyrstu tvö ár forsetaferils Ólafs Ragnars, en hún lést úr hvítblæði, á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, á þessum degi fyrir sjö árum, á köldum haustdegi hér á Íslandi. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir hafi verið hinn sanni sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún kom, sá og sigraði. Framlag hennar í sigrinum þá var mikill og hún markaði sér spor í sögu þessa embættis, þó hennar nyti við alltof skamma stund.

Ég gleymi aldrei þegar Guðrún kom hingað á listaviðburð í apríl 1998, skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana því miður að velli síðar sama ár. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar, sem reyndi mjög á hana og fjölskyldu hennar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi. Framlag Guðrúnar Katrínar í þessari erfiðu baráttu skiptu því fleira máli en þá sem næst henni stóðu. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu. Guð blessi minningu hennar.

Sjálfstæðisflokkurinn

36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á morgun. Ber hann yfirskriftina: Hátt ber að stefna. Í dag opnaði svo ný heimasíða Sjálfstæðisflokksins. Er þar um að ræða glæsilegan vef, góða upplýsingaveitu um starf flokksins og verkefnin framundan á vegum hans. Þáttaskil verða auðvitað í flokknum á þessum landsfundi. Formaður flokksins hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs og við blasir að núverandi varaformaður gefur ekki kost á sér til varaformennsku. Það eru því miklar breytingar sem verða og ljóst að allavega verða miklar breytingar á forystusveitinni og miklar áskoranir framundan fyrir þessa nýju forystu.

Saga dagsins
1905 Verzlunarskóli Reykjavíkur, sem nú ber heitir Verzlunarskóli Íslands, tók formlega til starfa.
1918 Eldfjallið Katla gaus eftir tæplega 60 ára hlé. Var kraftmikið gos, hið mesta á Íslandi á 20. öld.
1962 Kvikmyndin 79 af stöðinni, byggð á skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, var frumsýnd. Var fyrsta mynd okkar í fullri lengd og skartaði Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld í aðalhlutverkum.
1984 IRA reynir að ráða Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, og aðra forystumenn breska Íhaldsflokksins, af dögum í sprengjutilræði í hóteli í Brighton þar sem landsfundur íhaldsmanna var haldinn. Mjög litlu munaði að Thatcher og eiginmaður hennar, Denis Thatcher, létu lífið í árásinni.
1998 Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú, lést á sjúkrahúsi í Seattle í Bandaríkjunum, 64 ára
að aldri. Guðrún Katrín varð forsetafrú 1996 og hafði mikið persónufylgi þann stutta tíma sem hún
var við hlið forsetans á embættistíma hans. Er almennt litið svo á að hún hafi haft mikil áhrif á það að hann hlaut kjör til embættisins. Guðrún Katrín greindist með hvítblæði 1997 og barðist hetjulegri baráttu gegn því uns yfir lauk. Við útför hennar voru viðstaddir allir þjóðhöfðingjar Norðurlandanna.

Snjallyrðið
Þar sem englarnir syngja sefur þú.
Sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú.
Að ljósið bjarta skæra.
Veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljóss.
Lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert, mín lífsins rós.
Tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól.
Lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta.
Vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál.
Svala líknarhönd.
Og slökk þú hjartans harmabál.
Slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Kveðja)

Eitt af fallegu og táknrænu ljóðunum hans Bubba - í þessu ljóði er sönn tilfinning.


Engin fyrirsögn

Dr. Angela Merkel

Stjórnarkreppunni í Þýskalandi er lokið. Jafnaðarmannaflokkurinn og Kristilegi demókrataflokkurinn hafa samið um stjórnarmyndun sín á milli. Seinustu vikurnar hafði blasað við að ekkert annað stjórnarmynstur gat gengið eða fúnkerað við breyttar aðstæður í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar 18. september þar sem hvorug valdablokkin náði starfhæfum meirihluta. Niðurstaðan er því með þeim hætti sem margir höfðu spáð bæði fyrir og eftir kosningar. Mynduð er hin svokallaða stóra samsteypa (grosse koalition), samstjórn krata og íhaldsmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969.

Það eru því óneitanlega þáttaskil nú þegar samkomulag milli stóru flokkanna blasir við. Samkomulag hefur nú náðst eftir mikið þrátefli flokkanna um að dr. Angela Merkel verði kanslari Þýskalands. Markar það enn ein þáttaskilin í sögu þýskra stjórnmála, en Merkel verður fyrsta konan á kanslarastóli og er ennfremur fyrsti stjórnmálamaðurinn frá A-Þýskalandi sem verður kanslari Þýskalands eftir sameiningu austurs og vesturs fyrir einum og hálfum áratug. Eins og við blasir við þessi tíðindi verður Gerhard Schröder kanslari, að láta af embætti við valdatöku Merkel. Hann varð undir í kapphlaupinu um völdin við Merkel og víkur nú úr miðpunkti þýskra stjórnmála.

Schröder hefur ekki í hyggju að taka sæti í stjórn Merkel. Hann hefur verið kanslari í rúm sjö ár, en hann varð kanslari eftir kosningasigur vinstriaflanna í þingkosningunum í september 1998. Með tapi í þeim kosningum lauk merkum stjórnmálaferli Helmut Kohl. Er búist við að ný stjórn taki formlega við völdum um miðjan nóvember. En framundan eru erfið verkefni fyrir Merkel og nýja stjórn hennar. Viðbúið er að erfitt verði að berja saman starfhæfa stjórn og markvissan stjórnarsáttmála. Kratar og íhaldsmenn tókust á eins og ljón í kosningaslagnum. Merkel sótti af krafti gegn Schröder og stjórn hans og gagnrýndi harkalega efnahagsstjórn þeirra og forystu í lykilmálum.

Nú verður Merkel að hefja samstarf með krötunum, að vísu undir annarri stjórn, en samt sem áður verður hún að taka tillit til stefnu þeirra og skoðana. Það gæti orðið erfitt, mjög svo. En vissulega er það stórpólitískur sigur fyrir Merkel að hafa náð því að hljóta kanslarastólinn og taki við forystu í þýskum stjórnmálum. Á því leikur enginn vafi. Var það reyndar dýrkeypt, enda urðu íhaldsmenn að samþykkja að veita krötum átta ráðherrastóla en hljóta sex sjálfir til ráðstöfunar. En Merkel mun leiða stjórnina og verður í forsvari hennar. Það eru jákvæð þáttaskil, fyrir konur þegar að kona verður æðsti stjórnmálamaður í þýskri pólitík, tekur við sjálfu kanslaraembættinu.

Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Það að kona verði kanslari í Þýskalandi eru stórfréttir, ánægjulegar fréttir í jafnréttisbaráttu kvenna. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í hinum verðandi kanslara og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum, er hún varð leiðtogi Íhaldsflokksins og fyrst kvenna forsætisráðherra Bretlands, árið 1979. Merkel er töffari í þýskri pólitík. Hún komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans.

Angela Merkel er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Edmund Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar. Jafnframt þykja þau bæði nokkuð frjálsleg í fasi og ófeimin að sýna skap sitt og ákveðni í pólitík. Nú mun reyna á Merkel sem stjórnmálamann er hún tekur við forystu þýskra stjórnmála - hún tekur á sig mikla ábyrgð og bundnar eru miklar vonir við þennan fyrsta kvenkanslara Þýskalands.

Harriet Miers

Deilur hafa sprottið upp um skipan George W. Bush forseta Bandaríkjanna, á Harriet Miers sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Heldur koma þó deilurnar upp á skondnum stað að margra mati. Jú, það eru einmitt íhaldssömustu stuðningsmenn forsetans sem skora nú á hann að draga skipun Miers til baka og velja annað dómaraefni. Margir spyrja sig eflaust af hverju þeir láti til skarar skríða gegn Miers og vali hennar í réttinn. Jú, þeir eru hræddir um að hún verði andstæða þess sem menn telja að hún sé er hún er komin í réttinn. Miers á ekki neina dómarasetu að baki og er óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. hvað varðar samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira.

Íhaldssamir eru mjög í vafa um að hún sé sá íhaldssami lagasérfræðingur sem Bush forseti, segir að hún sé. Er andstaðan svo langt gengin að Bush hefur orðið að verja valið. Það hefur hann gert bæði í vikulegu ávarpi sínu til landsmanna og með blaðamannafundum. Ennfremur hafa nánir samstarfsmenn forsetans þurft að hringja persónulega í þingmenn í öldungadeildinni og forystumenn samtaka íhaldssinnaðra repúblikana til að tryggja að stuðningur þeirra við Miers haldist. Það sjá enda allir að ef sá grunnstuðningur myndi bregðast yrði Miers ekki staðfest til setu í réttinn. Það er því mikilvægt að tryggja grunnstuðning úr röðum repúblikana - án hans strandar staðfestingarferlið hratt.

Það er enda svo merkilegt að þeir sem helst verja Miers í þessum átökum í fjölmiðlum á seinustu dögum eru demókratar og forystumenn hófsamra í fyrrnefndum lykilmálum. Flestir geta þeir sætt sig við Miers og hafa a.m.k. ekki talað gegn henni. Það er þó auðvitað ljóst að bregðist stuðningur repúblikana muni demókratar ekki styðja hana og myndu gera forsetanum lífið leitt í málinu. Það eru þó sífellt minni líkur á að þessi læti íhaldssinnanna verði eitthvað meira en stormur í vatnsglasi. Hefur Miers svarað fyrir sig af krafti og reynt að verja stöðu sína og bæta álit íhaldsmanna á henni. Forsetinn hefur ennfremur talað af miklum ákafa og barið niður helstu andstöðuna.

Þrátt fyrir þessi átök sjá flestir að Miers verður væntanlega staðfest. Það er reyndar merkilegt hversu skeptískir íhaldsmenn eru á Miers. Lykillinn að farsælli niðurstöðu varðandi valið á Miers er auðvitað það að hún er kona og ekki síður ekki með reynslu sem dómari. Það er því algjörlega ljóst að hún hefur litlar sem engar beinagrindur í skápnum sem hægt verður að slengja á hana í staðfestingarferlinu. Niðurstaðan er því miðaldra og settleg kona, afburðalögfræðingur, með mikla reynslu af lögum og lagabókstaf en með enga dómarasetu að baki. En hinsvegar blasir við að hægrisinnuðustu lykilmenn í liði Bush eru hræddir um að þeir fái köttinn í sekknum með Miers.

Hæstiréttur

Í gær féll dómur Hæstaréttar í hinu svonefnda Baugsmáli. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði vísað málinu frá dómi í síðasta mánuði en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Samkvæmt dómnum á héraðsdómur að taka átta liði ákæru efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til efnislegrar meðferðar. 32 ákæruliðum var hinsvegar vísað frá dómi. Það er ekki ofmælt að segja að um áfellisdóm sé að ræða yfir embætti Ríkislögreglustjóra og vinnubrögðum á þeim bænum. Það er óneitanlega reiðarslag fyrir ákæruvaldið að svo umfangsmiklu máli, sem hefur verið í umræðunni til fjölda ára, sé einfaldlega vísað frá dómi vegna þess að það sé ekki dómtækt.

Er vissulega leitt að málið hafi ekki fengið efnislega meðferð. Það verður hinsvegar alfarið að dæmast á embætti Ríkislögreglustjóra hvernig fór fyrir málinu. Eins og við blasir nú er aðeins lítill angi málsins enn dómtækur fyrir héraðsdómi. Það sjá allir menn sem líta á ákæruliðina sem eftir standa að þeir standa ekkert undir öllum þunga málsins sem til var stofnað í upphafi. Ég get ekki annað en sagt hreint út að þessi dómur hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir ákæruvaldið. Um er að ræða mikinn áfellisdóm yfir því embætti og þeim sem héldu á málinu á þessu langvinna ferli í rannsókn og fyrir dómi.

Málið þótti stórt í sniðum. Farið var með valdi inn í fyrirtæki og stofnað var til mikilla umræðna um sakargiftir í samfélaginu. Niðurstaðan er með þeim hætti að það hvarflar að manni hvernig mönnum tókst að klúðra efnislegri meðferð málsins með þessum hætti. Allir sem lesa dóm Hæstaréttar sjá mikinn áfellisdóm yfir embætti þessu og forystumönnum rannsóknarinnar og þeim sem héldu á málinu fyrir dómi. Það er bara algjörlega einfalt mál. Öllum veigamestu ákæruatriðunum er vísað frá. Er þar einkum litið til ákæranna um fjárdrátt, umboðssvik og brot á lögum um hlutafélög.

Það er reyndar svo að af þeim átta liðum sem þó standa eftir gerir rétturinn athugasemdir við fjóra þeirra. Þannig að eftir standa fjórir liðir alls málsins sem algjörlega heilir og dómtækir að öllu leyti að mati réttarins. Þetta er merkilegur dómur og eins og Eiríkur Tómasson hefur sagt áfellisdómur yfir þeim sem stóðu í forsvari rannsóknarinnar. Nú hefur verið ákveðið að ríkissaksóknari taki sjálfur við forsjá þeirra 32 ákæruatriða sem Hæstiréttur sló út með dómi sínum. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þessa máls eftir þessa útreið fyrir ákæruvaldið.

Sir Malcolm Rifkind

Sir Malcolm Rifkind þingmaður breska Íhaldsflokksins og fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að hann hefði dregið framboð sitt til leiðtogastöðunnar í flokknum til baka. Hefur hann í hyggju að styðja nú framboð Kenneth Clarke í leiðtogaslagnum. Rifkind tilkynnti um framboð sitt í sumar og hafði sótt fram af krafti í leiðtogaslagnum. Auk hans voru fjórir í slagnum. Fluttu allir frambjóðendurnir ræðu á flokksþingi Íhaldsflokksins í Blackpool í síðustu viku og kynntu sig og framtíðarsýn sína fyrir flokkinn og bresk stjórnmál almennt. Rifkind þótti flytja öfluga ræðu á flokksþinginu. Hinsvegar var hann talinn eiga sífellt minni möguleika á að hreppa hnossið.

Rifkind er einn af síðustu lykilspilurum Thatcher- og Major-valdatímans og var ráðherra samfellt árin 1986-1997 er flokkurinn missti völdin. Rifkind var ráðherra málefna Skotlands, en hann er Skoti, 1986-1990, samgönguráðherra 1990-1992, varnarmálaráðherra 1992-1995 og að lokum utanríkisráðherra 1995-1997. Hann var einn þeirra sem misstu þingsæti sitt í kosningunum 1997. Sat hann á þingi fyrir Skotland árin 1974-1997 en flokkurinn þurrkaðist út í Wales og Skotlandi í kosningunum 1997. Rifkind var svo aftur kjörinn á þing í kosningunum í maí og situr á þingi fyrir Kensington og Chelsea. Er nú almennt talið að slagurinn standi milli David Cameron og Kenneth Clarke.

KastljósKastljós

Í gærkvöldi hóf göngu sína í Sjónvarpinu nýr dægurmálaþáttur, Kastljós. Ritstjóri hans er Þórhallur Gunnarsson en með honum vinna að þættinum þau: Eyrún Magnúsdóttir, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Jónatan Garðarsson, Kristján Kristjánsson, Sigmar Guðmundsson, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Þóra Tómasdóttir. Kemur þátturinn í stað Kastljóssins, sem hefur verið á dagskrá Sjónvarpsins í tæp sex ár. Að baki eru vel á annað þúsund þættir þar og mörg ógleymanleg atriði, sem var gaman að rifja upp að kvöldi sunnudags í lokaþætti Kastljóssins. En Kastljós hið nýja er ferskur og öflugur þáttur, mjög fjölbreyttur. Leist virkilega vel á hann. Þetta er flottur pottur áhugaverðs efnis og flott uppstokkun frá því sem áður hefur verið gert í dægurmálaþáttum hjá RÚV. Í fyrsta þættinum var t.d. áhugavert viðtal við Jónínu Benediktsdóttur og flott umfjöllun um Baugsmálið frá ólíkum hliðum. Það mun verða mjög áhugavert að fylgjast með þessum þætti í vetur. Hlakka til að fylgjast með funheitu Kastljósi í vetur.


Í blálokin hér í dag vil ég þakka einstaklega góðar viðtökur við nýrri heimasíðu minni. Metfjöldi heimsókna hefur verið þar seinustu dagana. Frá opnun á sunnudagsmorgun hafa vel á fjórða þúsund heimsóknir verið á nýjan vef einvörðungu. Hér líta ennfremur margir við á hverjum degi, fleiri hundruð manns og heimsóknir aukast sífellt. Það er ekki annað hægt en að þakka af heilum hug fyrir þennan áhuga á skrifum mínum og því sem ég set frá mér um þjóðmálin. Vonandi eigum við samleið áfram.

Saga dagsins
1256 Þórður kakali Sighvatsson, andaðist í Noregi, 46 ára að aldri - Þórður var á sinni tíð, um miðja þrettándu öld, einn valdamesti maður á Íslandi. Hann bjó að Grund í Eyjafirði og var goðorðsmaður.
1986 Leiðtogafundur risaveldanna í Höfða hófst - Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, ræddu um afvopnunarmál. Leiðtogafundurinn varð allsögulegur.
1988 Guðrún Helgadóttir kjörin forseti Alþingis, fyrst kvenna í rúmlega 1000 ára sögu þjóðþingsins.
2000 Donald Dewar leiðtogi skosku stjórnarinnar, deyr af völdum heilablóðfalls, 63 ára gamall.
2001 Öldungadeild bandaríska þingsins samþykkir fræg Patriot Act-lög George W. Bush forseta BNA.

Snjallyrðið
Yfir hvítum ísabreiðum,
yfir gömlum, frosnum leiðum
flýgur hann og flýgur hann.
Villtur fugl, sem enginn ann
og aldrei sína gleði fann.

Um loftið, blandið bölvi og seiðum,
brýst hann einn og flugið knýr,
útlægur frá himni heiðum,
hræðist menn og dýr.
Bannfærð sál sem böl sitt flýr.

Örvænting að brjósti og baki,
bæn í hverju vængjataki.
Vetur, vetur, veðragnýr,
og jörðin kaldur klaki.

Flugið lamast. Fuglinn hnígur,
flýgur upp með sáru kvaki,
og dauðadansinn stígur -

flýgur og flýgur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Villti fuglinn)

Fallegt og táknrænt ljóð eftir Davíð frá Fagraskógi - tært snilldarverk.


Engin fyrirsögn

Akureyri

Landsmenn gengu að kjörborðinu á laugardag og greiddu atkvæði um sameiningu sveitarfélaga um allt land. Alls voru sameiningartillögurnar 16 talsins. Þessara kosninga verður væntanlega minnst fyrir tvennt: lélega kjörsókn og samræmdan vilja landsmanna um mestallt landið að hafna sameiningu með valdboði. Hlaut kosningin sömu örlög og hin víðtæka sameiningarkosning árið 1993. Jóhanna Sigurðardóttir talaði þá fyrir sameiningu sveitarfélaga af miklum krafti sem félagsmálaráðherra og beið nokkurn pólitískan ósigur í kosningunni. Tólf árum síðar lendir Árni Magnússon félagsmálaráðherra, í sömu aðstöðu og þessi forveri hennar í embættinu. Bæði börðust þau af krafti fyrir framgangi sameiningar með valdboði af þessu tagi og urðu undir. Bæði brugðust þau eins við slæmum úrslitunum. Þau kenndu sveitarstjórnarmönnunum um úrslitin. Það er fjarri sanni að fyrst og fremst hafi það verið sveitarstjórnarmönnum að kenna að svona fór, eins og ráðherrann hélt fram í útvarpsviðtali sem fyrstu viðbrögð við úrslitunum. Í byrjun kosningavikunnar var félagsmálaráðherra gestur á kynningarfundi á Dalvík um sameiningarmálin og fór yfir málið. Þótti mér ummæli hans þar mjög óþörf og tel reyndar að úrslitin hér í firðinum hafi markast mjög af afstöðu hans sem fram kom á fundinum. Reyndi hann reyndar að breyta túlkun sinni með frekar litlum árangri. Inntakið skildist enda mjög vel.

Athyglisverðustu úrslit sameiningarkosninganna á laugardagskvöldið voru einmitt þau að sameiningin hér við Eyjafjörð var kolfelld, svo vægt sé til orða tekið. Um var hér að ræða víðtækustu sameiningartillöguna. Kosið var um sameiningu níu sveitarfélaga í Eyjafirði, allra nema Grímseyjar. Allsstaðar var sameining felld með nokkrum mun nema á Ólafsfirði og Siglufirði. Önnur umferð verður því ekki að veruleika – sameiningartillagan í Eyjafirði er því andvana fædd. Þetta eru vissulega nokkur vonbrigði í því ljósi að margir sveitarstjórnarmenn töluðu fyrir tillögunni og studdu hana ásamt forystumönnum víða í pólitík á svæðinu. En þetta er lýðræðisleg niðurstaða sem þarna kemur fram: niðurstaða sem ber að virða og taka vel til skoðunar. Mesta athygli mína, og eflaust annarra, vekur hversu afgerandi sameiningu var hafnað hér á Akureyri. Hér höfnuðu 54% kjósenda sameiningu en 42% sögðu já. Þetta er merkileg niðurstaða - mjög afgerandi. Átti ég satt best að segja ekki von á að svona afgerandi meirihluti myndi segja nei og hafði reyndar gert ráð fyrir því að já yrði niðurstaðan hér í bæ. En svona fór þetta og í sannleika sagt tel ég þessi úrslit marka þau þáttaskil að sameining verður ekki á döfinni á þessum skala hér næstu árin. Afgerandi höfnun á sameiningu alls Eyjafjarðar hér á Akureyri eru sterk skilaboð.

Í aðdraganda þessara kosninga taldi ég að úrslitin myndu ráðast í þéttbýlisstöðunum fjórum. Myndi einhver af þeim synja væri málið andvana fætt. Taldi ég líkurnar sífellt aukast eftir því sem nær dró að sveitabyggðirnar myndu fella og var orðinn sannfærður um að það færi svo er nær dró lokum kynningaferlisins. Það fór svo að úrslitin réðust fyrst og fremst hér á Akureyri. Afgerandi höfnun á sameiningu eru mikil þáttaskil og ég tel engar líkur á svo róttækri sameiningartillögu hér næstu árin. Vilji Akureyringa virðist skýr. Allavega þeirra sem mættu á kjörstað og tóku afstöðu. Reyndar eru það tíðindin við lok ferlisins að þessu sinni hvað kosningaþátttakan hér á Akureyri er gríðarlega léleg og hvað Akureyringum virðist algjörlega vera sama um þessi mál. Segja má það almennt um landið að fólki virðist sama. Áhuginn kemur best fram í kosningaþátttökunni. Hún var víðast hvað gríðarlega léleg. Hér á Akureyri var kosningaþátttakan rúm 22%. Sú tala segir allt um stöðu mála við lok þessa ferlis við sameininguna. Áhuginn var enginn hér í bæ og fólki virtist almennt vera nokkuð sama. Sást þetta best á kynningarfundinum um málið í vikunni en þar mættu rétt um 50 manns. Víða um fjörðinn var vel mætt á kynningarfundina en áhugaleysið hér á Akureyri sagði margt um stöðu mála og var fyrirboði þess hvernig fór að lokum.

Eins og fyrr segir urðu örlög þessarar sameiningarkosningar þau sömu og árið 1993. Þá, rétt eins og nú, var ein tillaga um sameiningu samþykkt. Þá var tillaga um sameiningu tveggja sveitarfélaga á Snæfellsnesi samþykkt. Nú var tillaga um sameiningu Mjóafjarðarhrepps, Fjarðabyggðar, Austurbyggðar og Fáskrúðsfjarðarhrepps samþykkt. Verð ég að viðurkenna að ég átti alls ekki von á því að sameining þessi austur á fjörðum yrði samþykkt. Reyndar var mjög naumt á munum í Fjarðabyggð, en 52,9% sögðu þar já en 47% sögðu nei. Naumt en engu að síður er tillagan samþykkt. Austfirðingar viðhalda því ’93 syndrome-inu í sveitarstjórnarmálum og gera úrslitin ekki alslæm fyrir framsóknarmanninn Árna. Hafði ég heyrt í aðdraganda kosningarinnar að ekki væru allir sammála í Fjarðabyggð um ágæti sameiningar og hafði fyrirfram því talið að þar yrði sameining felld og málið færi í aðra umferð, rétt eins og ég hafði talið með Eyjafjörð. Niðurstaðan er sú að á hvorugum staðnum kemur til annarrar umferðar. Á öðrum staðnum er sameining úr sögunni, ja að minnsta kosti í bili, en á hinum staðnum er sameining staðreynd í fyrstu atrennu. Austfirðingar hafa löngum verið taldir einstakir – í þessu ferli og þessari kosningu fá þeir allavega þann stimpil. Hvað þeim finnst um þann stimpil skal ósagt látið.

Allavega er þetta ferli merkilegt – niðurstaðan er hinsvegar fengin. Sameiningu hefur víðsvegar verið hafnað. Í tveim af tillögunum fimmtán sem var hafnað verður að kjósa aftur og merkilegt að fylgjast með hvað gerist í þeirri atrennu að sameiningu. Hvað svo sem kemur út úr því er niðurstaðan í málinu öllu nokkur vonbrigði, einkum fyrir félagsmálaráðherrann sem barðist mjög fyrir samþykkt sameiningartillagna og hafði verið ötull talsmaður málsins mjög lengi. Það er því skiljanlegt að hann vilji kenna öðrum um skipbrot málsins. Það allavega hljómar ekki fallega fyrir stjórnmálamann á framabraut í landsmálum og gegnir embætti félagsmálaráðherra að gangast við niðurstöðunni á landsvísu sem við blasir. Niðurstaðan um allt land er afgerandi og skipbrot málsins er staðreynd. Það er bara ekki flóknara en það – þó að Austfirðingar bjargi að nokkru heiðrinum fyrir félagsmálaráðherrann (eins fyndið og það hljómar). Tek ég undir með mörgum andstæðingum sameiningar að það er rangt af yfirvöldum að framkvæma svona kosningu víða á sama tímapunkti. Það á að vera innri ákvörðun sveitarfélaga hvort að þau vilji sameinast eða taka upp nánari samvinnu í stórum málum. Gott dæmi er sameiningar hér í firðinum á undanförnum árum. Þær hafa komið fram vegna þess að sveitarfélögin hafa viljað vinna saman.

Ljóst er að þróunin stefnir í þá átt að Eyjafjörður verði að lokum eitt sveitarfélag, en það er alveg klárt að það verður að gerast í smærri skrefum en stíga átti um helgina. Það skref sem stíga átti þá mistókst algjörlega og við skullum nokkuð harkalega til jarðar við lok ferlisins. Niðurstaðan vekur okkur öll til nokkurrar umhugsunar að mínu mati. Fyrst og fremst verður sameining ekki fengin fram með valdboði, heldur því að sveitarfélögin vilji stíga skrefið. Það er grunnpunktur að mínu mati. Við fylgjumst með sameiningarferlinu næstu árin – en það er alveg klárt að afgerandi synjun okkar Akureyringa tefur mjög allt sameiningarferlið með fjörðinn sem heild.

Auður Auðuns

Í dag eru 35 ár liðin frá því að Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórn Jóhanns Hafsteins forsætisráðherra, sem dómsmálaráðherra. Markaði það mikil þáttaskil, enda varð Auður með því fyrsta íslenska konan sem tók sæti í ríkisstjórn. Á þeim 35 árum sem síðan hafa liðið hafa alls tíu konur tekið sæti í ríkisstjórn. Nú þegar þessi orð eru rituð sitja þrjár konur í ríkisstjórn: Sigríður Anna Þórðardóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Sigríður Anna og Þorgerður Katrín eru fulltrúar sjálfstæðiskvenna í ríkisstjórn, rétt eins og Auður Auðuns var sem dómsmálaráðherra. Auður hafði er hún varð ráðherra verið lengi forystukona innan Sjálfstæðisflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Auður var dómsmálaráðherra í rúmt ár, en setti mark sitt á ráðuneytið á þessum skamma tíma. Þó liðu tólf ár þar til að kona varð aftur ráðherra. Sjálfstæðiskonan Ragnhildur Helgadóttir varð menntamálaráðherra árið 1983 og sat á ráðherrastóli samfellt í fjögur ár. Þriðja sjálfstæðiskonan, Sólveig Pétursdóttir, varð dómsmálaráðherra árið 1999 og sat í ríkisstjórn í fjögur ár, en varð forseti Alþingis árið 2005. Eins og fyrr segir sitja tvær sjálfstæðiskonur í ríkisstjórn. Því hafa fimm sjálfstæðiskonur setið í ríkisstjórn á þessum 35 árum. Hinar fimm eru þrjár framsóknarkonur og tvær alþýðuflokkskonur.

Auður Auðuns var mjög litrík á vettvangi stjórnmála. Áður en hún hóf stjórnmálaþátttöku lærði hún lögfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist árið 1935, fyrst kvenna úr lagadeildinni. Hún tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1946 og átti þar sæti allt til ársins 1970. Hún var forseti borgarstjórnar 1954-1959 og 1960-1970. Auður varð fyrsta konan sem gegndi embætti forseta borgarstjórnar. Hún varð fyrst kvenna kjörin borgarstjóri í Reykjavík árið 1959. Gegndi hún embættinu í rúmt ár ásamt Geir Hallgrímssyni sem var svo einn borgarstjóri árin 1960-1972 og tók svo við formennsku í Sjálfstæðisflokknum ári síðar. Auður var kjörin alþingismaður Reykvíkinga árið 1959 og átti hún sæti á þingi í 15 ár, eða allt til ársins 1974. Auður var ein af fyrstu konunum sem mörkuðu sér sess í stjórnmálasöguna fyrir stjórnmálaþáttöku á vettvangi borgarstjórnar og þings, og hlaut hún ævarandi sess í stjórnmálasögu landsins fyrir að verða fyrsta konan sem varð borgarstjóri og ráðherra. Hún var mikil baráttukona fyrir jafnrétti kynjanna og barðist af krafti fyrir því að konur tækju virkan þátt í stjórnmálum. Er mikilvægt að hennar þáttur í jafnréttisbaráttu kynjanna sé heiðraður sérstaklega, enda skipti sköpum að hún varð ráðherra hérlendis fyrst kvenna. Hennar framlag skipti mjög miklu máli, á því leikur enginn vafi. Auður lést 19. október 1999.

Fyrir nokkru var núverandi borgarstjóri í Reykjavík að býsnast yfir því að það vantaði áberandi kvenstyttur í borgina. Er það vissulega rétt. Er reyndar með ólíkindum að Reykjavíkurborg hafi ekki reist þessari fyrstu konu sem varð borgarstjóri styttu sem heiðri minningu hennar. Er það til marks um pólitíska eymd borgarstjórans að nefna ekki beint nafn Auðar í þessu samhengi. Ef einhver kona á skilið að stytta sé af henni á miðborgarsvæðinu er það Auður. Hún var enda alla tíð ötul baráttukona fyrir því að konur tækju virkan þátt í þjóðmálum og var virk sjálf í stjórnmálabaráttu. Á hátíðarfundi stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna í Hvannagjá hinn 27. júní í sumar samþykkti þáverandi stjórn sambandsins ályktun þess efnis að reisa ætti styttu af Auði. Þótti okkur það viðeigandi í ljósi þess að 35 ár væru liðin frá því að Auður varð ráðherra, 30 ár frá kvennafrídeginum og síðast en ekki síst þess að 90 ár voru liðin frá því að konur hlutu kosningarétt hérlendis. Við hæfi er í dag að minnast Auðar. Hún var atkvæðamikil stjórnmálakona sem hafði raunveruleg áhrif á íslenskt samfélag. Hún ruddi braut jafnréttis með framgöngu sinni og verður ævinlega minnst fyrir glæsilega og skörulega framkomu.

Þorskur

Á laugardaginn fór ég á ráðstefnu um sjávarútvegsmál í Borgum, rannsóknar- og nýsköpunarhúsi Háskólans á Akureyri. Ráðstefnan var haldin á vegum Sóknar - hugveitu í þágu sjávarútvegs. Bar ráðstefnan yfirskriftina: "Hafrannsóknir - erum við á réttri leið?". Fundarstjóri var Borgar Þór Einarsson formaður SUS, en hann er ennfremur formaður Sóknar. Hófst ráðstefnan með ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, þar sem hann fjallaði um málefni sjávarútvegs á víðum grunni. Að lokinni ræðu hans hófst formleg dagskrá. Fyrstur flutti ávarp Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Flutti hann erindi þar sem hann fór yfir hlutverk hafrannsókna: í fortíð, nútíð og framtíð. Var mjög fróðlegt að hlusta á erindi Jóhanns og kynnast betur málefnum hafrannókna frá sjónarhóli fræðimannsins. Að loknu erindi hans flutti Björn Gunnarsson deildarforseti auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, erindi þar sem hann fjallaði um mikilvægi háskólamenntunar í sjávarútvegs- og fiskeldisfræðum, útfrá kennslu og rannsóknum og hvort að pólitík kæmi þar nærri. Því næst flutti Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur, erindi og fór yfir veiðar og málefni þess hvort veiða ætti meira en Hafró leggði til. Að lokum ávarpaði Peter Weiss forstöðumaður háskólaseturs Vestfjarða, ráðstefnuna og kynnti hvaða hlutverki rannsóknastofnanir á landsbyggðinni gegndu við hafrannsóknir.

Að loknu kaffihléi var komið að pallborðsumræðum. Þar sátu fyrir svörum þau Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, Örvar Marteinsson sjómaður, Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landsambands smábátaeigenda, og Elínbjörg Magnúsdóttir varaformaður Verkalýðsfélags Akraness. Fóru þau yfir efni framsöguerindanna og kynntu skoðanir sínar á þeim og málefninu almennt. Voru framsögur þeirra mjög fróðlegar. Er þeim lauk var komið að fundarmönnum að leggja fram spurningar til þeirra. Voru líflegar spurningar og skemmtilegar umræður sem hófust um málefnið og var farið víða yfir á þeim klukkutíma sem pallborðsumræðurnar stóðu. Þótti mér þessi ráðstefna mjög skemmtileg og fræðandi og sérstaklega var ánægjulegt að heyra ólíkar skoðanir á þessu mikla málefni. Eins og gefur að skilja voru þeir Einar Oddur og Kristinn H. ekki sammála. Kom Kristinn H. reyndar með þá skoðun sína að Hafró ætti að heyra frekar undir umhverfisráðuneytið en sjávarútvegsráðuneytið, við litla gleði Elínbjargar og Einars Odds. Þetta voru skemmtilegar umræður. Fundinum lauk um hálffimmleytið. Eftir fundinn hélt ég ásamt fyrirlesurum og pallborðsþátttakendum niður í bæ, og ákváðum við að fá okkur að borða saman á Fiðlaranum áður en þau héldu suður.

Vildi svo merkilega til að lyftan stoppaði á miðri leið upp á fimmtu hæðina á Fiðlarann er við ætluðum að fara þangað. Það var því merkileg tilfinning að fara fastur þar í lyftunni í um sjö mínútur ásamt t.d. Jóhanni Sigurjónssyni, Kristni H., Einari Oddi og Borgari Þór. Vorum við átta í lyftunni og biðum við eftir að losna úr þessari stöðu. Var spjallað um fjölda mála meðan beðið var. Gekk vel að komast svo áleiðis áfram þegar að leyst hafði verið úr biluninni. Eftir að hafa fengið okkur smáveitingar héldu þau inn á flugvöll. Þetta var mjög skemmtileg dagsstund og ánægjulegt að fræðast meira um sjávarútveginn og ræða við þetta góða fólk um málaflokkinn og ekki síður almennt um þjóðmál á þessum laugardegi hér á Akureyri.

Páll Magnússon útvarpsstjóri

Páll Magnússon útvarpsstjóri, birtist á skjánum að kvöldi föstudags og las fréttir í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Þetta var í fyrsta skipti sem Páll les fréttir hjá Ríkissjónvarpinu í tvo áratugi, en hann var fréttamaður þar árin 1982-1986. Þetta var í fyrsta skipti sem Páll las fréttir í sjónvarpi frá því um miðjan júlímánuð, er hann hætti störfum hjá Stöð 2 og sótti um stöðu útvarpsstjóra sem hann fékk nokkrum vikum síðar. Það markar þáttaskil að útvarpsstjóri lesi kvöldfréttir Sjónvarpsins. Hefur það ekki gerst í 14 ár að útvarpsstjóri lesi fréttir, en Markús Örn Antonsson las kvöldfréttir 30. september 1991, á 25 ára afmæli Sjónvarpsins. Svo virðist vera sem að Páll sé aðeins að leysa af, en ekki hefur enn verið ráðinn fréttalesari í stað Loga Bergmanns Eiðssonar. Er varla hægt að kvarta yfir komu Páls á skjáinn. Hann er að mínu mati einn allra besti fréttaþulur í íslenskri sjónvarpssögu seinustu fjóra áratugina. Hann hefur einhvernveginn allt sem þarf að prýða úrvalsfréttalesara: hefur glæsilega framkomu, er skýrmæltur og yfirvegaður á sjónvarpsskjánum og hefur þá virðingu sem fréttalesari verður að hafa. Þótti mér notalegt að sjá Pál lesa fréttirnar aftur á föstudaginn og svo aftur í gærkvöldi og vona að hann haldi áfram endrum og eins að lesa kvöldfréttir - það er enginn betri í fréttalestrinum en hann.

Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem höfðu samband í gær við mig og tjáðu skoðun sína á breytingunni á heimasíðunni. Þótti mér tímabært að stokka hana upp og breyta til. Þótti mér vænt um að fá að heyra skoðanir annarra á breytingunum sem urðu á vefnum. Þeim sem sendu kveðjur færi ég hugheilar þakkir fyrir vinalegheitin.

Saga dagsins
1899 3 Vestfirðingar fórust, en Hannes Hafstein sýslumaður, og 2 aðrir björgðust þegar að bátur þeirra lagðist á hliðina. Þeir voru þá að reyna að komast um borð í enskan togara sem var þá að ólöglegum veiðum á Dýrafirði. 5 árum síðar varð sýslumaðurinn Hannes fyrsti ráðherra Íslendinga.
1970 Auður Auðuns tók við ráðherraembætti, fyrst íslenskra kvenna. Hún var dómsmálaráðherra í rúmt ár. Áður hafði Auður orðið fyrst kvenna borgarstjóri 1959-1960 og lengi forseti borgarstjórnar.
1972 Skyri var slett á alþingismenn og forsetahjónin er þau voru á leið frá Dómkirkju til þinghúss við formlega þingsetningu. Sá sem sletti skyrinu var Helgi Hóseasson, þekktur fyrir mótmælastöðu sína.
1980 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, ávarpaði flokksþing íhaldsmanna í Brighton. Þar lét hún til skarar skríða gegn andstæðingum sínum innan flokksins með leiftrandi barátturæðu fyrir stefnu sinni. Þar lét hún hin fleygu orð falla: The Lady´s not for turning. Ekki var hvikað. Hún sat á valdastóli til ársins 1990 og hafði þá ríkt í 11 ár og leitt flokkinn frá 1975.
2001 Smáralind í Kópavogi var opnuð - þar eru tugir verslana og veitingastaða. Byggingin var yfir 60.000 rúmmetrar og kostnaður níu milljarðar króna. Fyrstu dagana komu þangað 250.000 manns.

Snjallyrðið
Sumir hverfa fljótt úr heimi hér.
Skrítið stundum hvernig lífið er.
Eftir sitja margar minningar,
þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig,
þarf ég bara að sitja og hugsa um þig.
Þá er eins og losni úr læðingi
lausnir, öllum hlutum við.

Þó ég fái ekki að snerta þig
veit ég samt að þú ert hér.
Og ég veit að þú munt elska mig
og geyma mig og gæta hjá þér.

Þegar tími minn á jörðu hér
liðinn er og þá ég burtu fer,
þá ég veit að þú munt vísa veg
og taka á móti mér.
Ingibjörg Gunnarsdóttir kennari (Minning)

Gríðarlega fallegt ljóð sem segir svo margt í einfaldleik sínum.


Engin fyrirsögn

Breyting á heimasíðunni
Á þessum degi blasir vefur minn við lesendum í algjörlega nýrri mynd. Útliti hans hefur verið breytt algjörlega og eftir stendur mjög breyttur vefur sem mun taka nokkrum breytingum í viðbót á næstu dögum áður en hann er fullkláraður eins og hann verður á næstunni. Vefurinn hafði verið eins frá opnun í júnímánuði 2003 og tímabært að stokka hann aðeins upp. Ég vona að breytingarnar fari vel í lesendurna mína.

kær kveðja - SFS

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um niðurstöður sameiningarkosninganna, sem fram fóru um allt land í gær. Þessara kosninga verður væntanlega minnst fyrir tvennt: lélega kjörsókn og samræmdan vilja landsmanna um mestallt landið að hafna sameiningu með valdboði. Sameiningu var hafnað með afgerandi hætti hér í Eyjafirði en samþykkt merkilegt nokk aðeins á Austfjörðum. Fer ég yfir úrslitin og legg mat mitt á stöðu mála eftir niðurstöðurnar. Átti ég satt best að segja ekki von á að svona afgerandi meirihluti myndi segja nei og hafði reyndar gert ráð fyrir því að já yrði niðurstaðan hér á Akureyri. En svona fór þetta og í sannleika sagt tel ég þessi úrslit marka þau þáttaskil að sameining verður ekki á döfinni á þessum skala hér næstu árin. Afgerandi höfnun á sameiningu alls Eyjafjarðar hér á Akureyri eru sterk skilaboð. Í aðdraganda þessara kosninga taldi ég að úrslitin myndu ráðast í þéttbýlisstöðunum fjórum. Myndi einhver af þeim synja væri málið andvana fætt. Reyndar eru það tíðindin við lok ferlisins að þessu sinni hvað kosningaþátttakan hér á Akureyri var gríðarlega léleg. Kosningaþátttakan hér var rúm 22%. Sú tala segir allt um stöðu mála við lok þessa ferlis við sameininguna.

- í öðru lagi fjalla ég um stjórnmálalitrófið við upphaf þinghalds. Samfylkingin hefur virkað vandræðaleg undanfarna mánuði og niðurstöður skoðanakannana hljóta að vera vonbrigði fyrir flokksmenn. Á meðan eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins mjög. Það er óneitanlega engin eymd fyrir okkur pólitíska andstæðing að horfa á vandræðaháttinn sem er innan Samfylkingarinnar. Flokkurinn er ekki að fúnkera rétt – þetta staðfesta kannanir og ekki síður allur pólitíski tíðarandinn. Þetta sést umfram allt vel á vandræðalegu tali Ingibjargar Sólrúnar eftir að Davíð yfirgaf stjórnmálin. Hún á augljóslega í miklum erfiðleikum með að fóta sig eftir brotthvarf hans og virkar eins og vandræðalegur gestur í partýi þar sem hún þekkir engan viðstaddan. Hvað gerist á næstu mánuðum verður fróðlegt að sjá – allavega er það ljóst að þessi pólitíski vetur byrjar ekki sem dans á rauðum kratarósum hjá Ingibjörgu Sólrúnu.

- í þriðja lagi fjalla ég um leiðtogaslaginn í breska Íhaldsflokknum, þar sem eftirmaður Michael Howard verður brátt kjörinn. Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!


Stjórnmálaskóli á Akureyri

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins heldur námskeið á Akureyri 25. október til 15. nóvember. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um sjávarútvegsmál, heilbrigðismál, menntamál, sveitarstjórnarmál, ræðumennsku- og framkomu, frétta- og greinaskrif, umhverfismál, samgöngumál, stjórnskipan og stjórnsýslu, sjálfstæðisstefnuna og Sjálfstæðisflokkinn. Um er að ræða fjölbreytt og gott námskeið sem haldið er fyrir félögin á Akureyri. Sem formaður Varðar, f.u.s. á Akureyri tel ég rétt að kynna hér dagskrá skólans.

Þriðjudagur 25. október

kl. 18.00-18.10
Skólasetning: Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

kl. 18.00-19.30
Sjávarútvegsmál: Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

kl. 19.30-20.00
Matur

kl. 20.00-21.30
Heilbrigðisþjónusta: Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri FSA.

Fimmtudagur 27. október

kl. 18.00-19.30
Listin að hafa áhrif: Gísli Blöndal markaðs- og þjónusturáðgjafi.

kl. 19.30-20.00
Matur

kl. 20.00-21.30
Greina- og fréttaskrif: Skapti Hallgrímsson blaðamaður.

Þriðjudagur 1. nóvember

kl.18.00-20.00
Listin að hafa áhrif: Gísli Blöndal markaðs- og þjónusturáðgjafi.

kl. 20.00-20.30
Matur

kl. 20.30-22.00
Sjálfstæðisstefnan og starfsemi Sjálfstæðisflokksins: Halldór Blöndal alþingismaður.

Fimmtudagur 3. nóvember

kl. 18.00-19.30
Umhverfismál: Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra.

kl. 19.30-20.00
Matur

kl. 20.00-21.30
Sveitarstjórnarmál: Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi.

Þriðjudagur 8. nóvember

kl. 18.00-19.30
Menntamál: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

kl. 19.30-20.00
Matur.

kl. 20.00-21.30
Samgöngumál á N-Austurlandi: Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar.

Þriðjudagur: 15. nóvember

kl. 18.00-19.30
Stjórnskipan og stjórnsýsla: Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra.

kl. 19.30-20.00
Matur.

kl. 20.00-21.30
Pallborðsumræður um sveitarstjórnarmál: Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og bæjarfulltrúarnir Sigrún Björk Jakobsdóttir og Þóra Ákadóttir. Umræðum stýrir Stefán Friðrik Stefánsson formaður Varðar og stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna.

Skráning og nánari upplýsingar eru hjá Þórdísi Pétursdóttur, disa@xd.is, eða í síma 515 1777.


Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins var stofnaður 15. febrúar 1938 og er því tæplega sjötugur að aldri. Helsti hvatamaður að stofnun hans var Gunnar Thoroddsen, sem þá var sérstakur erindreki Sjálfstæðisflokksins og síðar varaformaður flokksins og forsætisráðherra. Stjórnmálaskólinn var starfræktur alveg fram til ársins 1954 og voru eitt til tvö námskeið þá haldin á hverju ári. Í skólanum voru fluttir fyrirlestrar um þjóðmál og komu nemendur víðsvegar að af landinu. Í upphafi fengu landsbyggðarnemendur gistingu hjá dyggum flokksmönnum meðan á námskeiði stóð.

Eftir 1954 varð hlé á skólahaldi en Stjórnmálaskólinn var síðan endurreistur árið 1973 eftir 19 ára hlé og hefur starfað óslitið síðan. Við endurreisn hans höfðu þeir Sigurður Hafstein, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Friðrik Sophusson veg og vanda af starfsemi hans. Nú hefur Þórdís K. Pétursdóttir umsjón með Stjórnmálaskólanum. Lauslega talið má ætla að rúmlega 3.500 manns hafi verið þátttakendur á námskeiðum Stjórnmálaskólans frá upphafi og getur engin stjórnmálahreyfing önnur á Íslandi státað af hliðstæðri starfsemi, hvorki fyrr né síðar.

Saga dagsins
1959 Breski Íhaldsflokkurinn vinnur kosningasigur undir forystu Harold Macmillan forsætisráðherra - þetta var þriðji kosningasigur Íhaldsflokksins í röð. Íhaldsflokkurinn ríkti samfellt allt til ársins 1964.
1963 Skáldatími kom út - þetta var fyrsta bók Nóbelsskáldsins sem var merkt Halldóri Laxness en ekki Halldóri Kiljan Laxness. Skáldatími markaði merkileg þáttaskil á ritferli Halldórs. Í bókinni kom fram merkilegt hugsjónalegt og persónulegt uppgjör við kommúnismann. Segja má að Halldór hafi í bókinni formlega snúist gegn kommúnismanum, eins og hann hafði predikað hann þá af krafti til fjölda ára.
1967 Hinn argentínski marxíski byltingaleiðtogi Che Guevara tekinn af lífi í Bólivíu, 39 ára að aldri.
1986 Stöð 2, fyrsta sjónvarpsstöðin í einkaeign, hóf útsendingar. Tilkoma hennar markaði þáttaskil.
2000 Tíu lögregluþjónum úr pappa var komið fyrir meðfram Reykjanesbraut, á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, til að minna vegfarendur á umferðarlög. Þrem þeirra var stolið en hinir enduðu í geymslu.

Snjallyrðið
Undir háu hamra belti
höfði drjúpir lítil rós.
þráir lífsins vængja víddir
vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan
hjartasláttinn rósin mín.
Er kristallstærir daggardropar
drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei það er minning þín.
Guðmundur Halldórsson skáld (Rósin)

Yndislegt ljóð sem snertir mann alveg að innstu hjartarótum - ljóð með mikla sál.


Engin fyrirsögn

Michael Howard

Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur formlega beðist lausnar frá leiðtogastöðunni. Með því hefst formlega leiðtogaslagur innan flokksins. Howard sagði af sér formlega við lok flokksþing Íhaldsflokksins sem haldið hefur verið seinustu dagana í Blackpool. Nú þegar að Howard hefur formlega beðist lausnar getur ferlið við val á leiðtoga flokksins hafist formlega. Fimm hafa tilkynnt framboð til leiðtogastöðunnar og framundan er keppni þeirra á milli. Þar sem ekki náðist samstaða um að breyta lögum um vali á leiðtoga flokksins fer valið á eftirmanni Howards fram með sama sniði og var þegar að forveri hans á leiðtogastóli, Iain Duncan Smith, var valinn í leiðtogakjöri árið 2001. Það er með þeim hætti að þingflokkurinn kýs með útsláttarfyrirkomulagi á milli leiðtogaefnanna þangað til að tveir standa eftir. Um þá munu svo flokksmenn kjósa í póstkosningu. Duncan Smith sigraði Kenneth Clarke í slíkri kosningu en Michael Howard varð sjálfkjörinn sem eftirmaður hans á leiðtogastóli árið 2003. Fram að sigri Duncan Smith hafði þingflokkurinn alfarið valið leiðtogann í kosningu innan sinna raða. Í aðdraganda þessa leiðtogakjörs beitti Howard sér fyrir því að reglunum yrði breytt í þá átt sem var fyrir leiðtogavalið 2001 en að lokum skorti á þá samstöðu sem til þurfti til að breytingarnar yrðu að veruleika.

Eins og vel hefur áður komið fram á vef mínum hafa fimm forystumenn breska Íhaldsflokksins lýst yfir framboði sínu til leiðtogastöðunnar. Þeir eru David Cameron, Kenneth Clarke, David Davis, Liam Fox og Malcolm Rifkind. Í vikunni hafa fimmmenningarnir haldið ræður á flokksþinginu í Blackpool og minnt á sig og áherslur sínar. Í aðdraganda flokksþingsins þótti Davis hafa yfirgnæfandi stöðu meðal flokksmanna á meðan að Clarke er vinsælli meðal allra landsmanna. Í kjölfar flokksþingsins þykir mörgum sem staða Davis hafi veikst mjög. Hann þótti flytja slappa ræðu og koma ekki nógu vel fyrir. Senuþjófar flokksþingsins þóttu vera Cameron og Clarke sem hlutu langmesta hylli flokksmanna. Þeir sem sátu flokksþingið klöppuðu mest fyrir Clarke, eða vel á þriðju mínútu. Margir telja þá vænlegustu kostina. Aldursmunurinn á milli þeirra er þó nokkur. Clarke er kominn vel á sjötugsaldurinn, er elstur leiðtogaefnanna, en Cameron er rétt um fertugt. Þau þáttaskil eru þó í þessu kjöri að þarna takast á nýji og gamli tíminn í breska Íhaldsflokknum - í fyrsta skipti í mörg herrans ár. Margir telja að flokkurinn sé að ganga í gegnum kosningu, ekki bara um stefnu sína og strauma, heldur um það í hvaða átt hann vilji sækja með nýjum leiðtoga. Hvort hann eigi bara að lúkka vel eða eigi að vera hugsjónapólitíkus.

Michael Howard mun gegna leiðtogastöðunni í breska Íhaldsflokknum allt til 6. desember nk. Þann dag munu úrslitin úr póstkosningunni milli tveggja efstu verða formlega kynnt. Howard hefur persónulega ekki gefið upp hvern hann muni styðja. Hann hefur verið lítið áberandi á flokksþinginu í Blackpool og lét sviðið að mestu eftir fimmmenningunum sem vilja taka sess hans í flokknum. Í gær, undir lok flokksþingsins, hélt hann þó lokaávarp þingsins og kvaddi með því eiginlega forystu flokksins með formlegum hætti áður en hann baðst formlega lausnar. Þar bjuggust margir við að hann myndi lýsa yfir stuðningi við einn í embættið og taka af skarið. Það gerði hann ekki. Howard skemmti hinsvegar þjóðinni og kandidötunum fimm með því að segjast lýsa því yfir hvern hann telji að ætti að leiða stjórnarandstöðuna. Frambjóðendurnir urðu við þessa yfirlýsingu vandræðalegir og töldu hann ætla að tala hreint út. Svipur þeirra breyttist úr örvæntingu í breitt bros þegar að Howard öskraði upp nafn Gordon Brown fjármálaráðherra, sem flestir telja að verði orðinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins, fyrir næstu þingkosningar og leiði flokkinn þá. Þessi brandari Howard mæltist vel fyrir. Í ræðunni sagðist hann ekki ætla að gefa út hvern hann myndi styðja en hann myndi styðja þann sem flokksmenn myndu velja í sinn stað.

Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrr á árinu. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, hefur gefið kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Hanna Birna, sem er aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur unnið í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og verið fulltrúi flokksins í borgarráði, skipulagsráði, menntaráði og hverfisráði Árbæjar. Hún hefur verið öflugur talsmaður Sjálfstæðisflokksins í skipulagsmálum, þeim málaflokki sem verður að öllum líkindum aðalmálefnið í komandi kosningum á næsta ári. Hanna Birna er mjög skipulögð og öflugur stjórnmálamaður sem verðskuldar stuðning í forystusveitina í þessu prófkjöri. Hef ég kynnst Hönnu Birnu vel í gegnum flokksstarfið, en hún hefur verið öflug í störfum sínum sem aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins og ennfremur verið kraftmikil í borgarmálunum, verið áberandi þar sem lykiltalsmaður mikilvægra málaflokka í nafni flokksins. Í gær fór ég suður til Reykjavíkur á fund og litum við Gunni saman í opnunarhóf kosningaskrifstofu Hönnu Birnu, sem er í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. Var mjög ánægjulegt að líta þar við og ræða við fjölda góðs fólks sem þar var mætt til að lýsa yfir stuðningi sínum við Hönnu Birnu.

Við opnun kosningaskrifstofunnar var fólk úr ólíkum áttum innan flokksins og greinilegt að Hanna Birna hefur mikinn og öflugan stuðning. Í upphafi dagskrár fluttu Illugi Gunnarsson hagfræðingur, og Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri BYKO og fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, ávörp og kynntu persónuna og frambjóðandann Hönnu Birnu. Að því loknu ávarpaði Hanna Birna gesti sína og fór yfir áherslur sínar og málefni baráttunnar sem framundan er. Benti hún á póstkortin sem eru á skrifstofunni og með mynd af henni á. Þar er hægt að skrifa hugmyndir sínar að betri borg - áherslupunkta sem fólk vill koma með í baráttuna til handa Hönnu Birnu. Slagorðið á póstkortunum er viðeigandi: Hannaðu hugmynd handa Hönnu Birnu! Flott og snjallt slagorð á póstkortin. Að lokinni ræðu Hönnu Birnu tók söngvarinn Ragnar Bjarnason lagið. Söng hann nokkur af sínum góðu lögum við undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar útvarpsmanns. Í einu laginu, Flottur jakki, fékk Raggi Bjarna góða og óvænta aðstoð. Bakraddir í laginu með honum tóku Hanna Birna, Ásdís Halla og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. Fóru þær stöllur alveg á kostum og gestir höfðu gaman af þessu óvænta skemmtiatriði. Þetta var notaleg og góð stund á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu.

Ég hef bæði unnið með Hönnu Birnu í flokksstarfinu og fylgst með verkum hennar í borgarmálum seinustu árin - af miklum áhuga. Ég tel Hönnu Birnu Kristjánsdóttur verðskulda sess í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Það er skoðun mín að hún og Gísli Marteinn Baldursson eigi að leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum - leiða flokkinn til sigurs. Skoðanakannanir sýna að flokkurinn er að uppskera vel og að meirihlutinn sé í augsýn í kosningunum. Það er mikilvægt að sjálfstæðismenn í Reykjavík tryggi Hönnu Birnu góða og öfluga kosningu í annað sætið. Ég óska henni góðs í prófkjörsbaráttunni og hvet flokksfélaga mína í borginni til að styðja Hönnu Birnu í annað sætið. Hanna Birna er skeleggur forystumaður í stjórnmálum - með því að kjósa hana til forystu eignast sjálfstæðismenn öfluga og glæsilega konu í forystusveit framboðslistans.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Mikið hefur síðasta sólarhringinn verið rætt og ritað í íslensku samfélagi um breskan dóm þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var dæmdur fyrir meiðyrði í garð Jóns Ólafssonar fyrrum athafnamanns hérlendis. Merkilegt er að sjá umfjöllun vissra blaða í málinu, en það segir sína sögu. Það er alveg klárt að mínu mati að það er aðför að tjáningarfrelsi á Íslandi ef breskur dómstóll hefur einhverja lögsögu yfir því hvað menn segja hér á landi um menn og málefni. Það er vissulega upphaf að þáttaskilum í almennu tali ef erlendur dómstóll getur dæmt í slíku máli með því tagi sem hér sést og með þessari niðurstöðu. Leitt hefur verið að sjá hvernig fjallað hefur verið um málið af pólitískum andstæðingum. Mat á málinu virðist hvað marga snertir snúast um persónu Hannesar og stjórnmálaskoðanir hans. Menn verða að skoða málið mun víðar en svo. Við verðum að lifa við tjáningarfrelsi, það að skerða það er aðför að tjáningu almennings. Það á ekki að skipta máli hversu vel okkur geðjast að Hannesi eða skoðunum hans heldur á að standa vörð um tjáningarfrelsi hans sem annarra, í þessari stöðu sem uppi er. Ég tek undir orð þeirra sem hafa talað með þeim hætti að fjarstæða sé að bresk lög gildi um það sem við segjum hér heima á Íslandi. Réttlætið á í þessu máli sem öðrum að koma að innan.

Samningur um sjónlistaverðlaun undirritaður

Í gær þegar ég fór á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu hitti ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, og átti við hana mjög gott samtal. Hún var þá nýkomin með flugi frá Akureyri. Þar var hún viðstödd kynningu í Listasafninu hér á Akureyri á hinum Íslensku sjónlistarverðlaunum. Ræddum við það mál auk stjórnmálanna að sjálfsögðu, en þar er ávallt nóg um að vera. Auk hennar voru viðstödd þá athöfn: þau Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Valgerður Sverrisdóttir viðskiparáðherra, Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins, Páll Magnússon útvarpsstjóri, Áslaug Thorlacius frá SÍM, Páll Hjaltason frá FORM og Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar. Listasafnið hér í bæ hefur haft forgöngu að veitingu verðlaunanna í samstarfi við Akureyrarbæ, menntamálaráðuneytið, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og Form Ísland - samtök hönnuða. Verðlaunin munu ekki einskorðast við myndlist eða svokallaðar fagurlistir heldur verða allar greinar sjónlista þar inni. Allar lykillistgreinar eiga orðið sínar uppskeruhátíðir og því gleðiefni að sjónlistir séu verðlaunaðar með verðskulduðum hætti.

Þinghúsið í Washington DC

Í gær var ár liðið síðan að þáverandi utanríkismálanefnd SUS hélt til Washington DC. Sú ferð var farin bæði í senn til að kynna sér Bandaríkin og bandaríska menningu og ekki síður bandarísku forsetakosningarnar fyrir ári. Þetta var ógleymanleg ferð og gríðarlega skemmtileg. Fór ég út í hópi góðs fólks og skemmtum við okkur öll mjög mikið. Í kjölfar ferðarinnar skrifaði ég um hana og það sem fyrir augu bar. Það er óþarfi fyrir mig að endurtaka ferðasöguna nú ári síðar. Því vil ég í tilefni þess að ár er liðið benda lesendum vefsins á þennan ítarlega pistil minn um ferðina.

Saga dagsins
1954 Minjasafn Reykjavíkur var stofnað - síðar var því skipt í tvennt: í skjalasafn og Árbæjarsafn.
1959 Bjarghringur úr danska skipinu Hans Hedtoft fannst rekinn í Grindavík - skipið hafði farist við Grænland 31. janúar sama ár og allir sem með því voru, 95 manns. Meira fannst úr skipinu síðar.
1992 Flóðljós voru tekin í notkun á Laugardalsvelli í Reykjavík, á landsleik Íslands og Grikklands.
2001 Bandaríkin ráðast inn í Afganistan í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum, 11. sept. 2001.
2004 Bretinn Kenneth Bigley sem haldið hafði verið föngnum í Írak í nokkrar vikur, tekinn af lífi.

Snjallyrðið
Þó fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól
geta ekki fönnin og frostið
falið Álfahól.

Yfir hann skeflir aldrei
þó allt sé af gaddi hvítt,
því eldur brennur þar inni,
sem ísinn getur þítt.

Þar á ég höfði að halla,
þó hríðin byrgi sól,
fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Álfahóll)

Fallegt ljóð - með hjarta og sanna sál - eins og öll önnur ljóð meistara Davíðs frá Fagraskógi.


Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, flutti stefnuræðu af hálfu ríkisstjórnar sinnar á Alþingi í gærkvöldi. Fór forsætisráðherrann víða yfir í ræðu sinni. Þar sagði hann að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki undir yfirskriftinni "Einfaldara Ísland". Er gert ráð fyrir að hvert ráðuneyti fari yfir lög og reglur, sem undir það heyra, með það fyrir augum að einfalda regluverkið, minnka skriffinnsku og auka skilvirkni enn frekar. Halldór sagði að íslensk stjórnsýsla væri sú þriðja skilvirkasta í heimi. Samt sem áður mætti margt betur fara og sagðist Halldór hafa látið hefja vinnu, sem miði að því að einfalda stjórnsýsluna og gera hana markvissari og meira í takt við tímann. Það þýði meðal annars endurskoðun á lögum og reglum um Stjórnarráð Íslands. Halldór fjallaði ennfremur um vinnu við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins og sagði að meiri samstaða þyrfti að vera um stjórnarskrárbreytingar en um lagabreytingar yfirleitt. Rík krafa væri meðal almennings að handhafar ríkisvalds sinntu starfi sínu af ábyrgð með almannaheill að leiðarljósi og vandað væri til verka í stjórnsýslu, við lagasetningu og hjá dómstólunum. Ennfremur væru uppi óskir um að fulltrúalýðræðið yrði endurnýjað þannig að almenningur fengi færi á að taka virkan þátt í ákvörðunartöku um sameiginleg málefni.

Það gæti ekki einungis átt sér stað í þingkosningum á fjögurra ára fresti, heldur einnig þess á milli, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslum. Halldór sagðist í stefnuræðunni vænta mikils af starfi nefndar sem fjallað hefur um stöðu fjölskyldunnar hérlendis. Sagði hann að hérlendis eigi ekki að viðgangast mismunun, hvorki á grundvelli litarháttar, trúarskoðana né kynhneigðar. Þess vegna væri framundan að leggja fram frumvarp um aukin réttindi samkynhneigðra. Halldór tók fram í ræðu sinni að ríkisstjórnin leggði áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum og sagði m.a. að fyrir dyrum stæði tugmilljarða uppgreiðsla erlendra skulda ríkissjóðs vegna sölu Símans. Afgangurinn yrði að mestu ávaxtaður í Seðlabanka Íslands þar til honum verður ráðstafað frá og með árinu 2007. Þetta myndi skila ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum og komi í veg fyrir þensluáhrif á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar eru í hámarki. Sagði Halldór að menn ættu að fara varlega í að fjármagna neysluútgjöld sín með lántökum eins og borið hefði upp að undanförnu. Sagði hann að alltaf færi best á að menn kynnu sér hóf. Síðar í ræðu sinni varð Halldóri að orði að mikilvægt væri að huga að frekari nýtingu orkulinda okkar, þar sem jafnframt verði tekið fullt tillit til umhverfisþátta. Sagðist hann sannfærður um að sú stefna myndi nú sem áður styrkja stoðir atvinnulífs.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, flutti afbragðsgóða ræðu við stefnuræðuna. Hann sagði að að stjórnmálin snerust um grundvallarviðhorf og mismunandi viðhorf einstaklinga til þeirra. Hann fjallaði um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum og fór yfir málefni þingvetrarins. Líflegar umræður urðu um ræðu forsætisráðherra og má segja að formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi reynt í máli sínu að ala á neikvæðni og svartagallsrausi í takt við það sem venjulegast sést til þeirra. Eins og allir sjá sem kynna sér umræðurnar reyndi andstaðan að mála vegginn eins svartan og mögulegt var meðan að stjórnarsinnar lýstu jákvæðri stöðu mála. Er svosem varla furða að stjórnarandstaðan sé vandræðaleg í upphafi þingvetrar í ljósi nýlegrar skoðanakönnunar Gallups sem sýndi stjórnarflokkana með nokkuð drjúgan meirihluta á bakvið sig. Steingrímur J. virkaði á mig sem æsingamikill öfgapredikari en hann er vissulega ansi fyndinn þegar hann fer í ofsapredikaragírinn sinn. Ræður auk Geirs af hálfu Sjálfstæðisflokksins fluttu Ásta Möller alþingismaður, sem nýverið hefur tekið sæti á þingi að nýju eftir að Davíð Oddsson lét af þingmennsku, og Halldór Blöndal formaður utanríkismálanefndar og fyrrum forseti Alþingis. Halldór fór á kostum og sló niður gagnrýni Ágústs Ólafs og Steingríms J. í kaf með góðum bröndurum.

Í heildina var um að ræða athyglisverðar umræður, gagnlegar þeim sem hafa áhuga á stjórnmálum og málefnum samtímans. Það er alltaf gaman af umræðum um stjórnmál og pólitísk málefni, málefnaleg skoðanaskipti um málin. En mér fannst fjarvera Davíðs Oddssonar eiginlega æpandi. Mikið innilega er stjórnmálalitrófið og pólitíska landslagið breytt við brotthvarf hans. Það er enda ekki fjarri því að það hafi verið áberandi hversu stjórnarandstaðan á erfitt með að fóta sig nú þegar að Davíð er farinn úr stjórnmálum.

Eyjafjörður

Kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði á laugardaginn. Hefur utankjörfundarkosning staðið nú í nokkrar vikur. Hefur umræða um sameininguna og málefni tengd henni verið áberandi seinustu vikurnar. Fréttavefirnir hér í firðinum hafa fjallað mjög um málin. Fátt hefur meira verið rætt í kaffispjalli Jóns og Gunnu í firðinum en kostir og gallar málsins. Sitt sýnist hverjum - eins og ávallt í stjórnmálaumræðu. Seinustu vikurnar hafa verið kynningarfundir um málið og farið yfir ólíkar hliðar þess. Í gærkvöldi var kynningarfundur í Ketilhúsinu og sameiningarmálefni þar til umræðu - var það seinasti kynningarfundurinn. Heldur þótti mér mæting á hann dræm, enda mikilvægt málefni, en þeir sem mættu fengu góða kynningu á málinu. Ennfremur hefur verið gefinn út ítarlegur kynningarbæklingur um málið. Hef ég kynnt mér vel tillögur vinnuhópanna í þeim fjórum málaflokkum sem lagt var upp með. Er það að mörgu leyti mjög athyglisverð lesning. Hef ég tekið afstöðu til málsins fyrir nokkru - en ætla að halda því fyrir mig hvað ég ætla að gera. Held ég þó að þeir sem þekkja mig viti hvað ég hafi í hyggju. Eftir stendur að þetta er stórt málefni og fróðlegt að sjá hvaða viðtökur málið fær hjá kjósendum á laugardaginn. Merkilegast að sjá hvort þetta sameiningarferli með valdboði verði árangursríkara en það sem var fyrir tólf árum.

Í dag skrifar Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður sameiningarnefndar, um málið. Þar segir Sigrún Björk svo: "Stórt og öflugt sveitarfélag er betur í stakk búið til að taka við auknum verkefnum t.d. rekstur heilsugæslunnar, rekstur flugvallar, málefnum fatlaðra o.s.frv. Í tillögum sem fulltrúar ríkisins setttu fram sl.vetur er lagt til að verkefnaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga fari úr því að vera eins og er í dag 70% ríki og 30% sveitarfélög, í mun jafnari skiptingu og að hlutur sveitarfélaganna í þjónustu við þegnanna aukist til muna. Sveitarfélögin geta ekki tekið við þessum verkefnum og annast þessa þjónustu nema stækka og eflast. Þetta er lykilatriði í þessu verkefni og það er tilgangurinn með þessu átaki á landsvísu að við munum horfa á breytingar á þjónustu við þegnana, þ.e. að ákvarðanir færist heim í hérað. Ég lít svo á að þessar kosningar snúist um traust - traust Eyfirðinga til hvers annars í að standa saman til að efla svæðið sem eina heild. Ef það er ekki fyrir hendi þá er betra heima setið en af stað farið." Vel skrifað - góð grein sem er gott sjónarhorn á málið. En ég hvet fyrst og fremst alla til að kjósa. Látum ekki dræma kjörsókn vera aðalfrétt þessarar kosningar - við eigum að kjósa og taka afstöðu - burtséð frá því hvort við segjum já eða nei. Við verðum að taka afstöðu!

Harriet Miers

Sú ákvörðun George W. Bush forseta Bandaríkjanna, um að skipa hina sextugu Harriet Miers sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor, mælist vel fyrir vestanhafs. Pólitískir fréttaskýrendur hafa almennt hrósað forsetanum og segja hann hafa leyst flókið mál óaðfinnanlega. Eru flestir sérfræðingar í málefnum hæstaréttar Bandaríkjanna sammála um það að skipan Miers verði samþykkt nokkuð fljótlega. Eru allavega mjög fáir á þeirri skoðun að vandræði verði í staðfestingarferlinu sem framundan er. Lykillinn að farsælli niðurstöðu varðandi valið á Miers er auðvitað það að hún er kona og ekki síður ekki með reynslu sem dómari. Það er því algjörlega ljóst að hún hefur litlar sem engar beinagrindur í skápnum sem hægt verður að slengja á hana í staðfestingarferlinu. Demókratar sem gírað höfðu sig fyrir hvassyrta og mikla baráttu eru frekar vandræðalegir nú, enda verður lítið um baráttu að óbreyttu. Var greinilegt að leiðtogar flokksins í þinginu höfðu talið að Bush myndi sverfa til stáls og skipa fasttryggan íhaldsmann til setu og manneskju með afgerandi sjónarmið eftir dómarasetu. Svo varð ekki. Niðurstaðan er því miðaldra og settleg kona, afburðalögfræðingur, með mikla reynslu af lögum og lagabókstaf en með enga dómarasetu að baki.

Ef þetta er ekki eitt hið mesta snilldarPR í bandarískri pólitík lengi þá veit ég ekki hvað það er. Allavega hefur Bush leyst vandann við tvær lausar dómarastöður óaðfinnanlega með því að velja Roberts og Miers. Ferill þeirra er þannig að þau eru óumdeild að mestu leyti. Það er allavega ljóst að demókratar munu fá mjög fá hörð skotfæri á þessa skipan mála og valið á Miers. Annars vil ég að auki þakka þeim sem hafa kommentað á skrif mín um hæstarétt Bandaríkjanna. Mjög (og þá meina ég mjög) lengi hef ég haft áhuga á réttinum og frá því ég var unglingur hef ég lesið bækur um sögu hans og kynnt mér vel næstum því öll smáatriði um hann. Við þessar breytingar sem orðið hafa seinustu vikurnar við tvö laus dómarasæti hef ég svo skrifað mikið um málið og farið yfir. Mat ég mikils að heyra í Davíð Stefánssyni fyrrum formanni SUS og einum af forverum mínum á formannsstóli Varðar, er hann hafði samband við mig og sagði að ég væri einn fárra hér á landi sem bæði nennti og hefði áhuga á að skrifa af viti um málefni hæstaréttar Bandaríkjanna. Þakka ég Davíð fyrir kommentið og áhugann á skrifunum. Þau halda áfram af krafti. :)

Jackie Brown

Horfði í gærkvöldi á eðalmyndina Jackie Brown. Myndin, sem byggð er á einni af sögum Elmore Leonard, segir frá flugfreyjunni Jackie Brown sem drýgt hefur tekjurnar með því að smygla peningum inn í landið fyrir vopnasalann Ordell Robbie. Dag einn er hún staðin að verki á flugvellinum og handtekin. Þeir sem hafa málið á sinni könnu, lögreglumaðurinn Mark Dargus og vopnaeftirlitsmaðurinn Ray Nicolet, bjóða henni tvo kosti: annaðhvort hjálpar hún þeim að fletta ofan af Ordell eða hún fær langtíma gistingu á bak við rimlana. Með aðstoð aðdáanda síns og hjálparhellu, Max Cherry, tekst Jackie að leggja fram tryggingu fyrir frelsi sínu, ákveðin í að velja þriðju leiðina út úr vandræðunum. Hún hefur engan áhuga á að fara í fangelsi og veit hvað verður um þá sem dirfast að svíkja Ordell. Hún tekur því þá ákvörðun að skjóta bæði Ordell og hjálparkokkum hans, þeim Louis og Melanie, og lögreglunni, ref fyrir rass, etja þeim saman á slyngan hátt og stinga síðan sjálf undan með ávinninginn, hálfa milljón dollara í beinhörðum peningum! Myndin skartar úrvalshópi leikara: Robert De Niro, Samuel L. Jackson og Michael Keaton - senuþjófarnir eru Robert Forster í hlutverki Max og Pam Grier, sem fer á kostum í hlutverki ferils síns, hinnar úrræðagóðu Jackie. Frábær spennumynd fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

Gylfi Ólafs

Eins og flestir tóku eftir svaraði ég í síðustu viku áskorun félaga míns, Friðbjörns Orra Ketilssonar. Hann semsagt klukkaði mig - ég svaraði um hæl og benti á þrjá bloggara sem mér datt í hug. Einn þeirra var góðvinur minn og Vestfirðingurinn Gylfi Ólafsson, sem er í háskólanámi hér á Akureyri. Hann er hress og fínn og hefur nú tekið áskoruninni. Bendi lesendum á að líta á svar hans sem er á vefnum hans. Takk fyrir að taka áskoruninni Gylfi.

Punktarnir

- hvað er þetta með frjálslynda? Ég bara spyr. Einn er í kjöri í embætti og þeir finna að því að geta ekki sagt nei. Hvað er málið - annaðhvort segja menn já við þeim sem er einn í kjöri eða menn sitja hjá (skila auðu). Þetta er svo fáránlegt rugl hjá frjálslyndum að menn skilja hvorki upp né niður. Er svosem ekkert nýtt með menn á þeim bænum. Þetta er greinilega enn eitt PR-ið til að komast í fjölmiðla með sama gamla innihaldslausa þvaðrið!

- ennfremur vil ég benda á pistil minn um 38. sambandsþing SUS, sem haldið var í Stykkishólmi um helgina. Fer ég yfir það með mínum hætti - fátt svosem um það að segja. Þið lesið pistilinn sem áhuga hafið. Að auki má þess geta að þetta er hundraðasti pistillinn sem ég rita á árinu 2005 - en það er svosem aukaatriði málsins. Efni pistilsins er mikilvægara.

- lítið endilega á þennan hreint afbragðsgóða pistil Össurar eðalbloggara og kratahöfðingja í RN - þarna ritar hann um kanínupælingar og gambramenningu Frjálslynda flokksins. Gott hjá Össuri - kaldhæðnin skín alveg í gegn og þetta er alveg mergjaður húmor sem þarna sést. Eðalskrif - lítið á þau!

- alveg að blálokum lesendur góðir! Spaugstofan var alveg brilljant á laugardaginn - þvílíkir snillingar fimmmenningarnir eru. Besti þáttur þeirra í mörg herrans ár. Ekki eitt einasta atriði flatt og hlátur tryggður út í gegn. Pjúrasnilld!

Saga dagsins
1946 Alþingi samþykkti Keflavíkursamninginn. Hann fjallaði að mestu um afnot Bandaríkjanna af Keflavíkurflugvelli. Harðar deilur urðu og leiddi hann loks til stjórnarslita í nýsköpunarstjórninni.
1962 Hljómsveitin The Beatles gaf út fyrsta lag sitt, Love Me Do - hljómsveitin starfaði allt til ársins 1970 og markaði mikil þáttaskil í tónlistarmenningu um allan heim með tónlist sinni og nýjum takti.
1974 Fimm látast í sprengjutilræði IRA í Guildford á N-Írlandi - fernt var handtekið vegna málsins og þau dæmd í fangelsi fyrir aðild sína að málinu. 1989 var sakleysi þeirra staðfest og þau látin laus.
1991 Blönduvirkjun var formlega tekin í notkun af Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands.
2000 Víkingaskipið Íslendingur kom til hafnar í New York, en það hafði siglt frá Íslandi í júnímánuði.

Snjallyrðið
Vegir liggja til allra átta
enginn ræður för,
hugur leitar hljóðra nátta
er hlógu orð á vör
og laufsins græna á garðsins trjám
og gleðiþyts í blænum.
Þá voru hjörtun heit og ör
og hamingja í okkar bænum.

Vegir liggja til allra átta
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn stafn og þil
stynjandi í garðsins hrísi.
Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur (1926-2000) (Vegir liggja til allra átta)

Táknrænt og gott ljóð - varð ódauðlegt í undurfögrum búningi Ellýjar Vilhjálms, sem að mínu mati var besta dægurlagasöngkona Íslands á 20. öld. Hiklaust eitt af fallegustu dægurlögum 20. aldarinnar.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Halldór Blöndal forseti Alþingis

Alþingi verður sett á morgun við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu eftir hefðbundna messu í Dómkirkjunni. Þáttaskil eru í þinginu nú þegar að það kemur saman á þessu hausti. Fjórir þingmenn hafa horfið á braut frá síðasta þingfundi, þau Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar I. Birgisson. Þrjú þau fyrstnefndu hafa tekið þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang og hafa því sagt af sér þingmennsku en Gunnar hefur hinsvegar tekið sér ársleyfi frá störfum, enda orðinn bæjarstjóri í Kópavogi, fyrstur sjálfstæðismanna. Í stað þeirra taka nú sæti á þingi þau Ásta Möller, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Mest þáttaskil fylgja óneitanlega brotthvarfi Davíðs úr stjórnmálum. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf Davíðs að mínu mati. Valdaferill hans var gríðarlega öflugt tímabil í sögu þjóðarinnar og hann leiddi það af miklum krafti - var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill.

Fleiri þáttaskil fylgja setningu þingsins á þessu hausti. Á fyrsta þingfundi verður Sólveig Pétursdóttir fyrrum ráðherra, kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þingmanna. Segja má að Halldór hafi verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Þessi kosningabarátta er í mínum huga og annarra sem tók þátt þá tengdar gleðilegum minningum. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel á þessum sex árum.

Hef ég ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég vildi að Halldór sæti áfram á forsetastóli Alþingis. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið.

Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Það hafa fáir menn á vettvangi þingsins verið vinnusamari og ötulli við að vinna að baráttumálum til eflingar virðingu þingsins sem stofnunar en hann. Andstæðingar hans réðust óhikað að honum og fundu honum óvirðuleg orð vegna þess að hann dirfðist að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem hann gerði við þingsetningu fyrir ári, eins og fyrr segir. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því. Það var til marks um ómerkilegheit stjórnarandstöðunnar að hún allt að því sakaði Halldór um að níða niður þingið með því að tjá skoðanir sínar í þingsetningarræðu sinni í fyrra. Að mínu mati er Alþingi hinn eini sanni vettvangur frjálsrar umræðu, þar sem allar skoðanir mega koma fram, af hálfu þeirra sem kjörnir eru þar til trúnaðarstarfa, hvort sem um er að ræða þá sem hljóta kjör til þeirra verka af hálfu þjóðarinnar sem þingmenn eða þeirra sem þingmenn kjósa til forystu á vettvangi þingsins sjálfs. Það er öllum frjálst að hafa skoðanir, tjá þær og verja ef einhverjir eru ósammála. Það er aldrei hægt að ætlast til að allir séu sammála um hitamál samtímans. Halldór stóð vörð um þetta á forsetastóli í þinginu.

Það er rétt sem Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður, sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að stjórnmálin séu enginn hægindastóll. Það er alveg ljóst að sá stjórnmálamaður sem situr á stóli forseta Alþingis er ekki á pólitískum hægindastóli. Hann sækir sitt umboð til kjósenda, rétt eins og aðrir þingmenn, en hefur vissulega umboð sitt til forsetastarfa frá þingmönnum. Það hefur gustað oft um Halldór á ferli hans. Á þeim sex árum sem hann gegndi embætti forseta Alþingis voru þingmenn sumir hverjir misjafnlega vel sáttir við stjórn Halldórs sem forseta á þingfundum. En það er til marks um virðinguna sem þingmenn bera fyrir persónu Halldórs Blöndals hversu vel þeir kvöddu hann er hann stýrði sínum síðasta þingfundi í maímánuði, fyrir þinglok. Þar töluðu fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu af virðingu um störf hans og forystu af hálfu þingsins seinustu árin. Hann átti það enda vel skilið - þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans.

Það er óhætt að segja að ég hafi mjög lengi borið mikla virðingu fyrir þessum mæta manni, þau ár sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hér fyrir norðan. Eins og flestir vita er ég formaður í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Einn forvera minna á þeim stóli er Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Á 75 ára afmæli Varðar fyrir tæpum tveim árum var Halldór gerður að heiðursfélaga í Verði. Átti Halldór þá nafnbót svo sannarlega vel skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið. Hann hefur unnið af krafti í öllum sínum stjórnmálastörfum og frægur er fyrir löngu orðinn metnaður hans í samgöngumálum og tillaga hans um Stórasandsveg er þar frægust og vonandi verður hún að veruleika, fyrr en síðar. Hann var formaður Varðar 1964-1965 - varð það upphafið á litríkum stjórnmálaferli hans og forystu fyrir norðlenska sjálfstæðismenn. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt. Ég vil nota tækifærið og óska Halldóri góðs á þeim þáttaskilum er hann lætur af forsetaembættinu og tekur við formennsku í einni af mikilvægustu nefndum þingsins, utanríkismálanefnd.

Það er alveg ljóst að það verður gaman að fylgjast með þingstörfunum í vetur. Þó veturinn verði væntanlega kaldur verður funheitt í íslenskum stjórnmálum - á kosningavetri.

John G. Roberts sver embættiseið

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti í gær skipan John G. Roberts í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann hlaut 78 atkvæði þingmanna, 22 greiddu honum ekki atkvæði sitt. Allir 55 þingmenn repúblikana studdu Roberts og 23 þingmenn demókrata studdu hann í kjörinu. Roberts sór embættiseið sem 17. forseti réttarins við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu síðdegis í gær. Það kom mér mest á óvart hversu margir demókratar studdu Roberts. Taldi ég að þeir yrðu innan við 70 þingmennirnir sem myndu styðja hann. Staða hans er mjög sterk og var allan tímann, meðan á staðfestingarferlinu stóð og til enda. Bush tókst að skipa íhaldsmann til starfans, en svo gjörsamlega clean að hann rann alveg í gegn. Andstaðan varð er á hólminn kom næstum því engin. Staða hans er því sterk. Nú hefur Roberts tekið við valdataumunum í réttinum. Arfleifð hans mun verða gríðarlega merkileg. Hann er ungur af forseta að vera, aðeins fimmtugur, og getur mótað hæstarétt Bandaríkjanna til fjölda áratuga og sett ævarandi mark á þjóðfélagið. Það eru allavega nokkur þáttaskil sem verða nú er Roberts er orðinn leiðtogi þessa áhrifamikla réttar. Nú er komið að næstu skipan í réttinn. Þar verða að ég tel mun meiri átök um skipan eftirmanns Söndru Day O'Connor, sem lætur brátt af embætti.

Það var án nokkurs vafa ein merkasta arfleifð Ronald Reagan að tilnefna Söndru til setu í hæstarétti árið 1981. Hún varð ekki aðeins fyrsta konan sem tók sæti í réttinum, heldur einn áhrifamesti dómari í seinni tíma sögu landsins og t.d. haft áhrif í þýðingarmiklum málum og oft haft oddaatkvæðið milli ólíkra stefna innan réttarins, verið semsagt milli íhaldsmannanna og liberal-istanna. Það verður fróðlegt að sjá hvern Bush muni skipa í hennar stað. Þar verða átökin að mínu mati - enda um að ræða eftirmann hins klassíska swing vote í réttinum. En þáttaskil hafa orðið í réttinum og nýr leiðtogi tekinn þar við völdum. John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og hann á að baki glæsilegan fræðimannsferil og sem dómari og lagasérfræðingur. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist.

Stykkishólmur

Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna verður haldið í Stykkishólmi um helgina. Þingið mun hefjast með setningu á Hótel Stykkishólmi, seinnipartinn í dag. Hafsteinn Þór Hauksson fráfarandi formaður SUS, setur þingið og flytur skýrslu stjórnar. Björn Ásgeir Sumarliðason formaður Sifjar, f.u.s. í Stykkishólmi, mun flytja stutt ávarp að því loknu. Eftir það er farið yfir reikninga félagsins. Eftir það fer fram kosning þingforseta, fundarritara, kjörbréfanefndar og kjörnefndar. Kl. 20:15 verður fundur með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á hótelinu. Að því loknu fer fram móttaka í boði Sifjar á hótelinu. Í fyrramálið hefst vinna í málefnanefndum í grunnskólanum og afgreiðsla ályktana hefst seinnipartinn, eftir að lagabreytingar hafa verið teknar fyrir. Annaðkvöld verður hátíðarkvöldverður og dansleikur á hótelinu. Heiðursgestur verður Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Á sunnudag fer fram afgreiðsla ályktana og kosning formanns og stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu um helgina, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund í Hólminum. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!

James Dean

Hálf öld er í dag liðin frá því að bandaríski leikarinn James Dean lést í bílslysi, 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða. Í tilefni þess að hálf öld er nú liðin frá því að þessi ungi og heillandi leikari féll frá vil ég hvetja lesendur til að horfa á myndirnar þrjár sem skörtuðu honum í aðalhlutverki. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara.

Saga dagsins
1148 Bæjarbruni á Mýrum, Hítardalsbrenna - mannskæðasti bruni í sögu landsins. Rúm 70 fórust.
1946 Alþjóðlegur dómstóll í Nurnberg í Þýskalandi finnur 22 háttsetta nasista seka um stríðsglæpi.
1955 Leikarinn James Dean ferst í bílslysi í bænum Cholame í Kaliforníu, 24 ára að aldri. Dean lék á skömmum leikferli sínum í þrem stórmyndum: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant, sem
var frumsýnd skömmu eftir lát hans. Dean varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar fólks um allan heim. Almennt talin hin eina sanna ímynd hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns.
1966 Ríkissjónvarpið hóf útsendingar - dagskráin hófst formlega með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. Fyrst í stað var sjónvarpað tvo kvöld í viku og þá tvær til þrjár klukkustundir í einu.
1996 Eldgos hófst í Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna, sem stóð í rúman hálfan mánuð. Eldstöðin sem nefnd var Gjálp, bræddi mikið af ís og safnaðist vatn saman í Grímsvötn og hljóp þaðan mánuði síðar yfir Skeiðarársand og skemmdi mjög mannvirki. Er þetta talið fjórða stærsta gosið á tuttugustu öld. Einungis, Kötlugos 1918, Heklugos 1947 og Surtseyjargos 1963, voru stærri en gosið.

Snjallyrðið
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Þó að liggi leið mín um langan veg
aldrei augnanna þinna eldi gleymi ég.

Þau minna á fjallavötnin fagurblá,
fegurð þá einn ég á.
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (Bláu augun þín)

Undurfagurt ljóð við eitt fallegasta dægurlag landsins á tuttugustu öld.


Engin fyrirsögn

Klukkið - fimm staðreyndir um SFS
Stefán Friðrik Stefánsson

Sá siður er nú algengur í bloggheimum að klukka hinn og þennan vin sinn eða félaga í netheimum og fá þá til að tjá sig á persónulegu nótunum. Þetta er í senn bæði undarlegur og stórskemmtilegur leikur sem þarna er um að ræða. Í gær gerðist það að Friðbjörn Orri Ketilsson klukkaði mig á sínum góða bloggvef. Tek ég að sjálfsögðu áskoruninni. Ég nefni því hér fimm atriði varðandi mig sem eru á sumra vitorði - en ekki allra.

1. Ég er ættaður að hluta til að austan. Fáir sem þekkja mig tengja mig þó við Austfirðina. Frá því að ég man eftir mér hefur mér verið mjög annt um Austfirðina og farið þangað oft og ræktað vina- og fjölskyldubönd þangað. Í sumar fór ég þangað oftar en nokkru sinni, bæði vegna flokksstarfa og persónulegra tengsla við góðan vin. Þá lærði ég þá list að slappa vel og innilega af í austfirsku fjallalofti og horfa á austfirska náttúrufegurð með öðrum augum en oft áður. Það er virkilega gaman að fara austur í sumarblíðunni og njóta kyrrðar og fegurðar svæðisins. Ekki er síðra að fara að vetrarlagi og horfa á vetrartóna austfirskra byggða speglast í sjónum. Þeir sem hafa ekki farið austur verða að skella sér. Ég ætla mér að fara þangað oft á næstu árum!

2. Ég er forfallinn kvikmyndaáhugamaður. Á fleiri hundruð kvikmynda og nýt þess í botn að horfa á yndislegar kvikmyndir - það er sannkölluð list. Sérstakan áhuga hef ég á gömlum perlum kvikmyndasögunnar. Þegar ég fór til Bandaríkjanna fyrir tæpu ári voru vinir mínir og kunningjar flestir að fara í búðir í verslunarmiðstöðum til að kaupa utan á sig föt eða spá í einhverjum slíkum hlutum. En ekki Stefán Friðrik Stefánsson, ónei - ég fór inn í aðal DVD-verslunina á staðnum og sökkti mér ofan í eðalmyndir, sem eru sumar hverjar ekki til hérna heima. Kom vel hlaðinn úrvalsmyndum út - ef eitthvað er ástríða mín eru það kvikmyndir og menningin á bakvið þær - frá a-ö. Sumir segja svo að það sé skemmtilegt að horfa á myndir með mér - veit ekkert um það, en vona það þó. :)

3. Ég er mikill áhugamaður um matseld. Hef mjög gaman af því að elda, þ.e.a.s. þegar ég fæ matargesti eða hef einhverja í kringum mig. Það er fátt leiðinlegra en að elda bara fyrir sjálfan sig, hreint út sagt. En þegar ég fæ gesti hef ég mjög gaman af að töfra fram eitthvað gott. Það er viss list að elda og njóta góðs matar - mesta listin er stemmningin á bakvið matreiðsluna. Uppáhaldsmaturinn minn er hiklaust kjöt og karrý - ég var mjög stoltur af sjálfum mér þegar að amma mín hafði kennt mér listina á bakvið þá matreiðslu fyrir margt löngu og enn stoltari sennilega þegar ég eldaði það í fyrsta skipti - algjörlega einn. Það er ekkert betra en góður matur. :) Enn betra er að geta eldað og bjargað sér sjálfur að því leyti og kunna eitthvað meira en bara að sjóða egg. :)

4. Margir ættingjar mínir segja að ég hafi erft persónulega eiginleika langafa míns, Stefáns Jónassonar skipstjóra og útgerðarmanns á Akureyri. Stærsti kosturinn er gamansemi og kaldhæðni. Ég get verið mjög gamansamur og maður brandaranna þegar svo ber undir - eins og langafi Stefán. Hann gat verið hrókur alls fagnaðar á góðum stundum og mér er sagt að ég geti verið mjög fyndinn þegar svo ber undir. Svo virðist ég líka hafa það frá honum að geta tekið miklar snerrur í skapköstum og svara oft fyrir mig með hvössum hætti ef að mér er sótt. Einhverjir kalla það galla - ég er ekki þeirrar skoðunar. Skap er gott þegar svo ber undir. Það er að mínu mati stór kostur að geta varið sig þegar að manni er sótt - af krafti. Svo hef ég það líka frá langafa að geta talað óendanlega mikið og vera mjög íhaldssamur - eru þetta ekki allt kostir? :)

5. Ég þarf varla að taka það fram að ég hreinlega elska Akureyri og allt sem tengist Eyjafirði - þeim stað sem ég hef búið á nærri alla mína ævi. Fáir vita hinsvegar að ég er mikill unnandi sólarlags í Eyjafirði. Það er ekkert skemmtilegra að vori en að fara út að Ólafsfjarðarmúla, gangamunanum í göngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, og horfa þar á fagra tóna eyfirsks vors. Ég held hreinlega að það jafnist ekkert á við það að standa þar og horfa á sanna fegurð. Ja, nema þá að lesa um sanna eyfirska fegurð í ljóðanna töfrum meistara Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi - þess ljóðskálds sem ég met manna mest.

Miðnætursól í Eyjafirði - sumarið 2005

Hér að ofan er stemmningsmynd úr Eyjafirðinum sem tekin var í júlí 2005 - þetta er fallegt sjónarhorn. En að lokum þarf ég auðvitað að klukka nokkra aðila í bloggheimum sem ég vil heyra frá. Sennilega eru flestallir búnir að fá boð um að gera það. En wtf hvað með það - ég ætla að klukka Þorstein Magnússon, Gylfa Ólafsson og Hrafnkel A. Jónsson á Egilsstöðum.

Saga dagsins
1906 Landssími Íslands tók formlega til starfa - þá var sent fyrsta símskeyti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Símalínan frá Seyðisfirði norður um land og til Reykjavíkur var 614 km löng.
1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók prestvígslu, fyrst íslenskra kvenna - Auður Eir vígðist fyrst til Staðarprestakalls á Súgandafirði. Auður Eir gaf kost á sér, fyrst kvenna, í biskupskjöri árið 1997.
1978 Tilkynnt formlega um lát Jóhannesar Páls I páfa. Hann var 65 ára er hann lést og hafði aðeins setið á páfastóli í 33 daga. Hann var kjörinn til setu á páfastóli í ágúst 1978 - lengi hefur verið uppi sá orðrómur um að páfanum hafi verið byrlað eitur. Eftirmaður hans tók sér nafn hans til minningar um hinn látna páfa og var kallaður Jóhannes Páll II páfi. Hann sat á páfastóli í 27 ár, árin 1978-2005.
1990 Nesjavallavirkjun í Grafningi var formlega gangsett af Davíð Oddssyni þáverandi borgarstjóra.
2000 Auðlindanefnd skilaði tillögum sínum. Nefndin lagði til í skýrslu sinni að sett yrðu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins og gjald skyldi tekið fyrir nýtingu þeirra.

Snjallyrðið
Mér finnst ég varla heill, né hálfur maður,
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef þú værir hjá mér, vildi ég glaður
verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja
eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja
að sumarið líður allt of fljótt.

Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur hjá blómunum,
er rökkvar, ráðið stjörnumál,
gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niðrað strönd.
Fundið stað,
sameinað
beggja sál.

Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin,
nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Ég gái út um gluggann minn.
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar,
ég reyndar sé þig alls staðar,
þá napurt er.
Það næðir hér
og nístir mig.
Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari (1945-1978) (Söknuður)

Virkilega fallegt ljóð - það varð ódauðlegt í flutningi höfundar, skömmu áður en hann lést sviplega.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar

Þáttaskil urðu í íslenskri stjórnmálasögu í gær þegar að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét af ráðherraembætti og þingmennsku. Með því lauk í raun stjórnmálaferli Davíðs. Hann mun þó gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum fram að landsfundi um miðjan októbermánuð. Eftir að teknar höfðu verið hefðbundnar myndir af nýrri ríkisstjórn héldu nýjir ráðherrar á nýja vinnustaði sína og tóku þar við lyklavöldum. Davíð Oddsson tók á móti eftirmanni sínum í utanríkisráðuneytinu. Er óhætt að segja að Geir hafi fengið nóg af lyklum og fylgihlutum við að taka við húsbóndavaldinu á Rauðarárstígnum. Þaðan fór Geir á sinn gamla vinnustað og afhenti Árna lyklavöldin þar. Eitthvað þótti fólki það fátæklegri skipti, enda bara einn lykill um að ræða. Var skondið þegar að Geir tók fram með gleðisvip að þetta væri nú fátæklegt þarna í fjármálaráðuneytinu. Þaðan fór svo nýr fjármálaráðherra yfir í sjávarútvegsráðuneytið og afhenti eftirmanni sínum, Einari Kristni, völdin þar. Vakti Einar reyndar athygli á því að kippan að ráðuneytinu væri merkt Slysavarnarfélaginu og fannst honum það skondið mjög. En svona gekk rúnturinn á milli ráðuneytanna í miðbænum. Mikil þáttaskil fylgdu þessum tilfærslum og breytingum öllum. Eftir lyklaskiptin hafði einn litríkasti stjórnmálamaður landsins seinustu áratugina yfirgefið ríkisstjórn landsins eftir langan og mjög farsælan feril.

Í gærkvöldi var Davíð svo gestur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Kastljósinu. Var farið þar víða yfir og um margt rætt. Var það virkilega áhugavert spjall. Hafði ég gaman af að horfa á þetta viðtal. Þar var Davíð algjörlega í essinu sínu: fyndinn, rólegur og með skarpa sýn á þjóðmálin, eins og ávallt. Er enginn vafi á því að Davíð er fremsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf hans að mínu mati. Í mínum huga er hann fremsti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Valdaskeið hans er enda gríðarlega öflugur tími og hann leiddi það tímabil af miklum krafti og var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill og hann var í þann eina og hálfa áratug sem Davíð leiddi hann. Nú er það þeirra sem taka við völdunum innan flokksins að tryggja að flokknum farnist vel á komandi árum. Tryggja að við náum að stýra þjóðarskútunni af krafti við breyttar forsendur. Breytingum fylgja ný tækifæri - svo er í þessu tilfelli sem öðrum.

Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn sé samhentur. Þetta á ekki síður við um ungliðahreyfingu flokksins. Þetta hef ég haft alla tíð að markmiði og er tilbúinn til að vinna með öllum þeim sem vilja styrkja og efla Sjálfstæðisflokkinn. Við eigum að vinna saman að mikilvægum verkefnum - við sem erum í þessum flokki og höfum valið okkur þar pólitískt heimili eigum að tryggja að okkur farnist vel. Það gerum við fyrst og fremst með því að styrkja flokkinn til komandi verkefna - tveggja kosninga á næstu árum. Að því mun ég vinna, nú sem ávallt áður. Í gær sendi stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, skeyti til Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, og þakkaði honum forystu sína af hálfu flokks og þjóðar á undanförnum áratugum. Þótti okkur rétt að kveðja Davíð með þessum hætti og vildum ennfremur þakka honum persónulega í nafni okkar og félagsins fyrir farsæla forystu við þau þáttaskil að hann lætur af ráðherraembætti og forystu í Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni Benediktsson

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist lausnar úr stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra, sem skipuð var í byrjun ársins. Var hann varaformaður nefndarinnar og hafði verið mjög áberandi í störfum hennar undanfarna mánuði. Nú þegar Geir er orðinn forystumaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn og tekur bráðlega við formennsku flokksins er rétt af honum að fela öðrum verk sín í nefndinni. Í stað Geirs hefur verið skipaður í nefndina Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar Alþingis og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Auk Bjarna sitja í nefndinni þau Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, sem er formaður, Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Eins og fram hefur komið er miðað að því að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem nefndin vinni að, verði einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt hefur verið að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá liggi fyrir í síðasta lagi í byrjun ársins 2007 og verði samþykkt fyrir þingkosningar síðar sama ár.

Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóriLogi Bergmann Eiðsson

Það er óhætt að segja að mikil tíðindi séu að eiga sér stað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Brátt munu fréttamiðlar 365 breytast með tilkomu Fréttavaktarinnar, fyrstu íslensku fréttastöðvarinnar. Verður sent út þar samfellt í um tuttugu klukkutíma á dag fréttum og fréttatengdu efni. Með nýrri stöð og öðrum áherslum í fréttastefnu og útsendingum á fréttum þarf meiri mannskap. Það kom mörgum á óvart í gær að heyra af því að Logi Bergmann Eiðsson varafréttastjóri Sjónvarpsins, hefði verið ráðinn einn af aðalfréttalesurum 365, bæði á Stöð 2 og Fréttavaktinni. Er honum ennfremur ætlað að stjórna fréttatengdum þáttum á næstunni hjá fyrirtækinu. Kom þetta mörgum að óvörum einkum í ljósi þess að í síðustu viku var tilkynnt að Logi Bergmann myndi ritstýra nýjum dægurmálaþætti Sjónvarpsins, Opið hús, sem hefur göngu sína þann 10. október nk. og mun leysa Kastljósið, Ópið og Mósaík af hólmi. Í dag var svo tilkynnt að Þórhallur Gunnarsson, sem var umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð 2, stýri dægurmálaþætti Sjónvarpsins. Í dag var svo ennfremur tilkynnt að Þórir Guðmundsson hefði verið ráðinn varafréttastjóri Stöðvar 2, en hann var fréttamaður Stöðvar 2 í áratug, 1986-1996. Nóg af breytingum á fjölmiðlamarkaði semsagt.

Angela Lansbury í hlutverki Jessicu Fletcher

Eflaust muna allir vel eftir Jessicu Fletcher, sakamálarithöfundinum í Cabot Cove í Maine, sem bæði rannsakaði sjálf morðmál og skrifaði um þau með listilegum hætti. Hún var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar heitið Murder, She Wrote. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í rúman áratug, árin 1984-1996. Jessica var túlkuð með stórfenglegum hætti af bresku leikkonunni Angelu Lansbury. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Jessicu fylgdu manni í mörg ár. Á ég þónokkurn fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá, rétt eins og þættina um Matlock, sem ég minntist á um daginn. Þetta voru bestu sakamálaþættir síns tíma. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Í gærkvöldi fór ég í geymsluna eftir að hafa rifjað upp stundirnar með Matlock og horfði á nokkra þætti af Morðgátu, eins og þættirnir hétu hér heima á Íslandi. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Blair séð í skondnu ljósi

Í gær hélt Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, ræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins. Áttu margir von á að Blair myndi þar tilgreina hvenær hann myndi láta af leiðtogaembætti og hætta í stjórnmálum. Fyrir liggur að hann ætlar ekki að gefa kost á sér í þingkosningunum eftir fimm ár en hefur ekki sagt heldur neitt um hvenær hann hættir nákvæmlega. Ræðan sem margir töldu að yrði uppgjör og tímasetning fyrir tilkynningu um að hætta varð að öflugri og beittri stefnuræðu næstu ára. Ræðan var allavega ekki með vott af svanasöng hjá Blair. Mikið hefur verið rætt um hvenær að Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands, muni taka við af Blair en greinilegt er að það gerist ekki strax. Skopmyndateiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á ræðunni, eins og sést hér að ofan.

Saga dagsins
1988 Ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tók við völdum - var fyrsta vinstristjórnin
í sögu landsins sem mynduð var án þingkosninga. Stjórn Steingríms sat með breytingum allt til 1991.
1994 Bílaferjan Estonia ferst á Eystrasalti - 854 manns fórust með ferjunni, flestir Svíar. Þetta var mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasaltið ákváðu að ferjan skyldi algjörlega friðuð og ekki hreyft við því.
2000 Heimsókn hins umdeilda stjórnmálamanns Ariel Sharon í hina helgu Al-Aqsa mosku, leiðir til mikilla óeirða milli Palestínumanna og Ísraela. Sharon varð forsætisráðherra Ísraels í janúar 2001.
2000 Pierre Elliot Trudeau fyrrum forsætisráðherra Kanada, deyr í Toronto, áttræður að aldri. Trudeau var einn fremsti stjórnmálamaður Kanada og var forsætisráðherra 1968-1979 og 1980-1984.
2003 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Elia Kazan deyr í New York, 94 ára að aldri. Kazan var einn af umdeildustu leikstjórum 20. aldarinnar og hlaut hann tvívegis óskarsverðlaun fyrir leikstjórn: fyrir Gentleman's Agreement og On the Waterfront. Hann hlaut heiðursóskar fyrir ævistarf sitt 1999.

Snjallyrðið
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Stjörnurnar)

Ein af ljóðaperlum Davíðs frá Fagraskógi - virkilega fallegt ljóð.


Engin fyrirsögn

Davíð lætur af ráðherraembætti -
þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum


Davíð Oddsson

Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét í dag af ráðherraembætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Jafnframt lét Davíð af þingmennsku í dag. Er hann yfirgaf Bessastaði á fjórða tímanum í dag var lokið merkum ferli Davíðs sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hægt er að fullyrða að nýtt pólitískt landslag blasi við nú þegar að Davíð lætur af ráðherraembætti. Hann hefur enda seinustu áratugina verið miðpunktur íslenskra stjórnmála. Davíð hefur setið í ríkisstjórn frá 30. apríl 1991. Hann var forsætisráðherra samfellt í þrettán ár, allt til 15. september 2004 og hefur síðan setið sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins, en flokkarnir hafa unnið saman í ríkisstjórn frá vorinu 1995. Davíð mun láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans eftir rúman hálfan mánuð. Með þessum þáttaskilum sem áttu sér stað í dag lýkur þriggja áratuga löngum stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar. Mikil þáttaskil eru fólgin í því að hann láti af ráðherraembætti. Hann setið í ríkisstjórn samfellt í tæpan einn og hálfan áratug og verið forystumaður ríkisstjórnar af hálfu flokks síns allan þann tíma. Hann hefur ennfremur þann einstaka árangur í íslenskri stjórnmálasögu að baki að hafa setið samfellt í embættum borgarstjóra og ráðherra í 23 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði stór spor í íslenska stjórnmálasögu.

Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem sagt hefur til verka og notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin.

Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins. Við sem höfum alist upp við forystu Davíðs og unnið í Sjálfstæðisflokknum til fjölda ára undir forystu hans erum honum mjög þakklát fyrir störf hans og forystu. Það verða mikil þáttaskil nú þegar stjórnmálaferli hans lýkur. Íslenskt samfélag gjörbreyttist í þrettán ára forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Til sögunnar komu ný tækifæri - ný sóknarfæri hér á Íslandi. Það er til marks um hversu farsæll Davíð hefur verið að hann hefur samfellt setið í 23 ár sem borgarstjóri og ráðherra. Hann hefur notið stuðnings kjósenda og haft traust þeirra í gegnum öll verkefni þessara ára og pólitísku forystuna sem hann hefur veitt. Við þessi miklu þáttaskil vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Takk Davíð!

Geir H. Haarde utanríkisráðherra

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum í dag. Geir hefur gefið kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í október og er alveg ljóst að hann mun taka við forystu flokksins af Davíð á landsfundi. Geir er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hafði verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár er hann lét af því embætti í dag. Nú hefur Geir semsagt tekið við embætti utanríkisráðherra og tekið við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður fróðlegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum, nú þegar hann tekur við utanríkismálunum og fljótlega við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem óneitanlega bíður hans er hann tekur við forystu Sjálfstæðisflokksins af farsælasta foringja okkar flokksmanna, Davíð Oddssyni.

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti sjávarútvegsráðherra af Árna M. Mathiesen í dag. Einar Kristinn er mjög reyndur stjórnmálamaður og hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann var kjörinn á þing í kosningunum árið 1991 og hefur setið þar síðan, til ársins 2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi og síðan fyrir Norðvesturkjördæmi. Hann sat sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í tvö ár, frá vorinu 2003 til gærdagsins. Hann var formaður samgöngunefndar Alþingis 1995-1999, formaður sjávarútvegsnefndar 1999-2003 og formaður efnahags- og viðskiptanefndar í nokkra mánuði árið 2003 og hefur setið í fjölda þingnefnda. Einar Kristinn hefur verið áberandi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins til fjölda ára og notið mikils trausts í störfum sínum. Það er tímabært að hann taki sæti í ríkisstjórn og er viðeigandi að hann gegni sjávarútvegsráðuneytinu, vegna þekkingar sinnar á málaflokknum. Það eru vissulega þáttaskil að Vestfirðingur taki við ráðuneytinu en það hefur ekki gerst síðan að Matthías Bjarnason gegndi embættinu á áttunda áratugnum. Ég vil nota tækifærið og óska Einari góðs í störfum sínum í ráðuneytinu.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra

Árni M. Mathiesen tók í dag við embætti fjármálaráðherra af Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Árni hefur verið á þingi til fjölda ára. Hann sat á þingi fyrir Reykjaneskjördæmi árin 1991-2003 og frá þeim tíma fyrir Suðvesturkjördæmi. Hann hefur verið leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á kragasvæðinu frá árinu 1999, en þá vann hann spennandi prófkjör flokksins í hinu gamla Reykjaneskjördæmi. Er hann sonur Matthíasar Á. Mathiesen fyrrum ráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Var Matthías fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar árin 1974-1978. 27 árum eftir að Matthías lætur af embætti fjármálaráðherra tekur því sonur hans við embættinu. Eru þeir fyrstu feðgarnir sem gegna embætti fjármálaráðherra. Verður fróðlegt að fylgjast með Árna í störfum sínum í ráðuneytinu. Í næstu viku er komið að fyrsta lykilverkefni hans í embætti, en hann mun þá leggja fram fjárlagafrumvarp ársins 2006 og mæla fyrir því á þingi. Ég vil nota tækifærið og óska Árna til hamingju með fjármálaráðherrastólinn og óska honum heilla í verkum sínum á nýjum vettvangi. Það verður athyglisvert að fylgjast með honum í nýju hlutverki við að kynna fjárlögin í næstu viku.

Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður

Á þingflokksfundi í Valhöll í gær var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörin formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í stað Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, sem gegnt hefur formennsku í þingflokknum frá vorinu 2003. Arnbjörg hefur setið á þingi í áratug. Hún var alþingismaður Austurlandskjördæmis árin 1995-2003 og hefur setið á þingi fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi frá 1. janúar 2004. Arnbjörg er mjög vinnusöm og hefur unnið af krafti, verið í fjölda nefnda og leitt fjölda verkefna af hálfu flokksins þann áratug sem hún hefur setið á þingi. Abba nýtur mikils trausts innan flokksins og meðal þingmanna í þingflokknum. Það sannast með þessu vali. Ég fagna því að henni sé treyst fyrir formennsku í þingflokknum okkar. Hún á það svo sannarlega skilið. Abba er heilsteypt og traust kona sem ég hef unnið með í nokkurn tíma hér í kjördæminu. Fagna ég mjög því að hún leiði þingflokkinn næstu árin. Óska ég henni innilega til hamingju með þetta.

Saga dagsins
1968 Söngleikurinn Hárið frumsýndur í London - varð einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar.
1981 Sr. Pétur Sigurgeirsson, 62 ára sóknarprestur á Akureyri og vígslubiskup á Hólum, kjörinn biskup Íslands. Pétur hlaut aðeins einu atkvæði fleira í biskupskjöri en sr. Ólafur Skúlason. Pétur gegndi embætti biskups allt til ársins 1989, en þá var Ólafur Skúlason kjörinn eftirmaður hans sem biskup.
1996 Talibanar ná fullri stjórn í Kabúl, höfuðborg Afganistans, og hengdu Mohammad Najibullah fyrrum forseta landsins, og samverkamenn - stjórn Talibana var svo felld af Bandaríkjamönnum 2001.
1998 16 ára viðburðaríkum valdaferli Helmut Kohl sem kanslara Þýskalands lýkur formlega, er Gerhard Schröder tekur við embætti kanslara í Þýskalandi. Kristilegi demókrataflokkurinn tapaði í þingkosningum fyrir Sósíaldemókrataflokki Schröders. Kohl hætti í kjölfarið þátttöku í stjórnmálum.
1999 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, datt af hestbaki og axlarbrotnaði þegar hann var í útreiðartúr með vinkonu sinni, Dorrit Moussaieff - þau giftust á sextugsafmæli hans, 14. maí 2003.

Snjallyrðið
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar.
Þegar ég á aðeins þig,
einn með sorgir mínar,
gef mér kærleik - gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi Drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér,
ljóma í sálu minni.
Gísli Gíslason frá Uppsölum í Selárdal (1907-1986) (Lífsins kærleikur)

Fallegt ljóð eftir einbúann Gísla frá Uppsölum sem varð landsfrægur þegar að Ómar Ragnarsson gerði sjónvarpsþátt um hann á níunda áratugnum. Ljóð frá hjartanu - innstu rót tilverunnar.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Mývatnssveit um helgina. Á kjördæmisþinginu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokksins, yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður. Gunnar Ragnars lét á kjördæmisþinginu af formennsku í kjördæmisráðinu. Hann var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi eystra og fyrsti formaður í kjördæmisráðinu í hinu nýja Norðausturkjördæmi allt frá árinu 2001. Í stað Gunnars var Guðmundur Skarphéðinsson á Siglufirði kjörinn formaður kjördæmisráðsins. Guðmundur var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi vestra og hefur verið gjaldkeri stjórnar kjördæmisráðsins í Norðausturkjördæmi frá stofnun þess árið 2001. Á kjördæmisþinginu stofnuðum við ungliðar í Norðausturkjördæmi kjördæmisfélag okkar. Var ég kjörinn fyrsti formaður þess. Framundan eru þar mörg mikilvæg verkefni, eins og ég minnti á í ræðu sem ég flutti á kjördæmisþinginu.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni umsóknar Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég lít svo á að þetta mál sé komið á miklar villigötur - og var það orðið illa strandað og vandræðalegt fyrir. Möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. Við eigum að horfa í aðrar áttir - og eyða milljarði af peningum okkar í eitthvað þarfara en lobbýisma og flottræfilshátt í auglýsingabransa.

- í þriðja lagi fjalla ég um góða stöðu okkar sjálfstæðismanna í borginni, í kjölfar nýrrar skoðanakönnunar. Mælist flokkurinn þar með rúmlega 56% fylgi. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum.


Kjördæmisþing að Mývatni

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var haldið í Skjólbrekku í Mývatnssveit um helgina. Voru þar saman komnir fulltrúar sjálfstæðisfélaga allt frá Siglufirði austur á Djúpavog. Fundarstjóri var Hrafnkell A. Jónsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Fljótsdalshéraði og var Anna Blöndal stjórnarmaður í fulltrúaráðinu hér á Akureyri, fundarritari. Í stjórn kjördæmisráðs voru kjörin Guðmundur Skarphéðinsson, Gunnar Ragnars, Jónas Þór Jóhannsson, Jóhanna H. Ragnarsdóttir, Jón Helgi Björnsson, Maríanna Jóhannsdóttir og Árni Helgason. Var Guðmundur kjörinn formaður í stað Gunnars Ragnars sem áfram verður í stjórn. Var ég endurkjörinn til setu í varastjórn kjördæmisráðsins, en ég tók þar sæti á kjördæmisþinginu fyrir tæpu ári. Mun ég því verða virkur í flokksstarfinu á vettvangi kjördæmisins á næstunni, eins og verið hefur. Helgin á Mývatni var mjög gagnleg og góð, alltaf er gaman að hitta pólitíska samherja sína úr kjördæminu, sérstaklega Austfirðingana sem maður hittir of sjaldan til að ræða málin við. Á laugardagskvöldinu borðuðum við saman á Hótel Seli og áttum glaða og góða stund undir öruggri veislustjórn Halldórs Blöndals forseta Alþingis.

Heiðursgestur okkar var Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Flutti hann ræðu á kjördæmisþinginu og talaði um þau verkefni sem framundan eru í flokksstarfinu. Jafnframt fjallaði hann um mál málanna á þessum degi sem hann kom á okkar fund: Baugsmálið og birtingu tölvupósta í Fréttablaðinu og umfjöllun um tengd málefni. Var mjög ánægjulegt fyrir okkur að fá Kjartan Gunnarsson til okkar á kjördæmisþingið og heyra í honum um það sem framundan er. Var mjög gaman að ræða við hann og fara yfir stöðu mála hvað varðar flokksstarfið og tengd málefni. Eins og öllum er kunnugt mun Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, láta af ráðherraembætti og þingmennsku á þriðjudag. Hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í formannsstól Sjálfstæðisflokksins á landsfundi eftir þrjár vikur. Á fundinum fjölluðu ræðumenn um feril Davíðs og verk hans í stjórnmálum. Er við hæfi að við minnumst verka hans í þágu flokksins við þau þáttaskil að hann hættir í stjórnmálum. Það er alltaf gaman að hittast og styrkja böndin og efna til kynna við nýtt fólk í flokksstarfinu. Þetta kjördæmisþing var eins og öll hin fyrri að því leyti.

Á kjördæmisþinginu flutti ég ávarp og fór yfir þau mál sem ég taldi mikilvægast að fara yfir. Gerði ég í upphafi að umfjöllunarefni að þáttaskilin í flokknum mörkuðu mikil tímamót en í þeim fælust viss tækifæri til að efla flokkinn og sækja fram á nýjum forsendum. Minntist ég á það að framundan væru tvær kosningar – mikilvægt væri að þær myndu vinnast vel og sameinaðar af krafti af okkar hálfu. Tilkynnti ég í ræðu minni um þá ákvörðun formanna ungliðafélaga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að stofna ungliðahreyfingu flokksins í kjördæminu. Er það mikilvægt verkefni – það skiptir lykilmáli að efla tengslin milli svæðanna í kjördæminu og vinna af miklum krafti í öllu flokksstarfinu. Sóknarfærin liggja að sjálfsögðu í því að virkja ungt fólk til verka og hafa vettvang til að vinna saman á kjördæmavísu. Var ég kjörinn fyrsti formaður ungliðahreyfingar flokksins í Norðausturkjördæmi. Með mér í stjórn sitja formenn annarra ungliðafélaga í kjördæminu og stjórnarmenn kjördæmisins í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Verður Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs í S-Múlasýslu, varaformaður stjórnarinnar, Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir formaður Lagarins á Fljótsdalshéraði, er gjaldkeri, og Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir formaður Óðins á Seyðisfirði, var valin ritari.

Hlakkar mér mjög til að vinna með þeim og öðrum sem sæti eiga í stjórn í þeim verkefnum sem framundan eru í starfinu. Það skiptir okkur mjög miklu máli að hafa þennan vettvang til verka og geta þar unnið saman, talað saman og sinna þeim lykilmálum sem við teljum mikilvægt að leggja áherslu á. Fann ég á fundinum hversu fólk var ánægt með þessa ákvörðun okkar forystufólks ungliðanna í Norðausturkjördæmi. Næg verkefni eru framundan – kraftmikil vinna sem ég vil taka þátt í og við öll. Við viljum efla heildina okkar og teljum okkur sýna öðrum flokksmönnum gott fordæmi með því að taka upp öflugt samstarf og fara í þau verkefni sem blasa við. Rúmlega eitt og hálft ár eru til þingkosninga í mesta lagi – kosið verður væntanlega í maímánuði 2007. Við erum til í slaginn – viljum vinna af krafti og teljum mikilvægt að taka saman höndum. Stofnun þessa félags er okkar leið til að segja flokksmönnum, ekki bara hér í kjördæminu, heldur um allt land að ungliðahreyfingin skipti máli. Hún verði að vera virk og kraftmikil og umfram allt frjór vettvangur öflugs starfs í Sjálfstæðisflokknum á komandi árum – sem ávallt áður í 75 ára sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Áttum við mjög góða kvöldstund svo eftir málsverðinn. Í dag er góðvinur minn, Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs, tvítugur og héldum við vel upp á það á hótelinu í gærkvöldi. Var gaman að ræða saman eftir matinn við Gunnar Ragnar, Arnbjörgu, eiginmann hennar Garðar Rúnar Sigurgeirsson, og góðvinkonu mína Guðlaugu Sigurðardóttur, sem hefur verið virk í flokksstarfinu hér á Akureyri til fjölda ára. Vægt er til orða tekið að veðrið hafi verið kalt á þessum haustdegi að Mývatni. Ekki var neitt svosem að færðinni austur í Mývatnssveit. Hægt að fara Víkurskarðið þá og allt að mestu leyti ágætt. Meðan að fundurinn stóð kom snjóbylur og kalsaveður. Var því gott að geta bara gist að Hótel Seli og haft það gott þar um kvöldið. Er haldið var svo af stað í gærmorgun var kominn vænn snjór þarna fyrir austan.

Gekk brösuglega fyrir okkur Gunnar Ragnar að komast aftur til Akureyrar. Vorum við í samfloti með Öbbu, Garðari Rúnari og Gullu á leiðinni til baka. Víkurskarðið var þá orðið ófært og fara varð fyrir Dalsmynnið, eins skemmtilegt og það er, eða hitt þó heldur. Nú er leitt að Vaðlaheiðargöngin séu ekki komin til sögunnar - en þau eru komin á kortið sem betur fer og verða brátt að veruleika. En það gekk vel að komast heim, þó seinlegt væri. Merkilegt að það sé bara 25. september og komin þessi kuldatíð. En í heildina var helgin hin allra besta.

Snjallyrðið
Hver dagur lífs míns langur er,
en loksins þegar kvölda fer
ég kem hér inn.
Og hver einn smæsti hlutur hér
er helgidómur sem með þér,
ég keypti eitt sinn.

Þinn andi býr í öllu hér
og um þig talar hlutur hver
sitt þögla mál.
Blái stóllinn bekknum hjá
og blómið gluggasyllunni á
og brotin skál.

Þín mynd við mér brosir,
þó burtu sért þú.
Ó svo björt er þín minning:
hún lýsir mér nú.
Að sumri okkar samleið þraut
og sólin skein er hvarfstu á braut,
en samt varð kalt.

Svo þokast áfram árin löng,
en alltaf man ég gamlan söng
um ást og trú.
Iðunn Steinsdóttir rithöfundur (Myndin af þér)

Hugljúft ljóð - lagið við ljóðið varð ódauðlegt í túlkun Vilhjálms Vilhjálmssonar.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups hlyti Sjálfstæðisflokkurinn 56,1% atkvæða og 9 borgarfulltrúa kjörna ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Stærsti kosningasigur Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum var fyrir fimmtán árum er Davíð Oddsson leiddi flokkinn sem borgarstjóri í sínum þriðju kosningum til afgerandi sigurs, er hann hlaut rúm 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa kjörna. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni. Samfylkingin fengi 27,8% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur 11,4% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn með fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson í forystu og mælist með tæp þrjú prósent. Frjálslyndir hafa tæp 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju kjörinn borgarfulltrúa.

Þessi könnun er nokkuð öflug - 1.270 borgarbúar í úrtakinu og svarhlutfall rúm 60% Aðeins tæp 10% neituðu að svara, 21,5% voru óákveðin. Var könnunin kynnt fyrst á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar voru mætt til að ræða könnunina, þau Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Vilhjálmur Þ. var skiljanlega mjög ánægður með tölurnar og sagðist þakklátur Reykvíkingum fyrir stuðninginn sem fram kæmi í könnuninni. Greinilegt var að borgarstjórinn var verulega fúl með tölurnar þarna í morgunsárið og átti mjög erfitt með að leyna gremju sinni. Það er svosem skiljanlegt að hún sé fúl með þá stöðu sem komin er upp, og mælist í hverri könnuninni á eftir annarri. Var hún með hinar og þessar fýlubombur á lofti vegna stöðunnar. Er ekki fjarri því að hún neiti að horfast í augu við þá einföldu staðreynd málsins að borgarbúar séu búnir að fá einfaldlega nóg af stjórn vinstriaflanna sem unnu saman í rúman áratug undir merkjum R-listans, sem nú hefur liðið undir lok. Fólk vill breytingar - uppstokkun á stöðu mála. Það er ekkert undrunarefni þegar litið er á "afrek" valdaferils R-listans. Það blandast allavega engum hugur sem sér þessa könnun að borgarbúar eru að kalla á breytingar við stjórn borgarinnar.

Merkilegast af öllu er að heyra komment þeirra sem leitt hafa flokkana sem myndað hafa R-listann. Þau hafa jafnan verið glaðhlakkaleg en eru vandræðaleg nú. Kostulegastur er Alfreð Þorsteinsson sem sagði varðandi könnunina að kosningabaráttan væri ekki hafin að fullu. Þetta er vandræðalegt komment - enda er baráttan um borgina þegar hafin og prófkjör framundan hjá VG og Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem segja að slagurinn sé ekki hafinn eru þeir sem þora ekki að hefja slaginn væntanlega. Verkin eftir R-listann eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag.

Forrest Gump

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er óskarsverðlaunamyndin Forrest Gump. Horfði ég á hana í gærkvöldi mér til gamans. Einstök og hugljúf mynd sem er ein af bestu kvikmyndum tíunda áratugarins að mínu mati - á sér ljúfar minningar í huga mér. Hún hlaut sex óskarsverðlaun árið 1994, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Tom Hanks hlaut sinn annan óskar fyrir túlkun sína á söguhetjunni. Frammistaða Hanks í hlutverki Forrests er einstök í þessari rómuðu kvikmynd leikstjórans Roberts Zemeckis, en hún hlaut metaðsókn og orkaði dýpra á áhorfendur en nokkur önnur kvikmynd á fyrri hluta áratugarins. Tónlist Alan Silvestri í myndinni er unaðslega falleg. Forrest Gump lifir á miklum umbrotatímum sem umbreyta lífi hans; úr bækluðum drengstaula í ruðningsstjörnu, úr hetju í Víetnam í rækjujöfur, frá heiðrunarathöfn forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í faðm Jennyar, stúlkunnar sem hann elskar. Forrest er holdgervingur tiltekins tímabils 20. aldarinnar; sakleysingi á reiki meðal þjóðar sem er að glata sakleysi sínu. Í hjarta sínu skynjar hann það sem er takmarkaðri greind hans um megn. Siðgæðisáttaviti hans bendir ætíð í rétta átt. Sigrar Forrests eru okkur öllum innblástur. Forrest Gump er tvímælalaust í hópi lykilmynda kvikmyndasögu seinustu áratuga. Sagan af Forrest Gump og ævi hans er einstök - hana verða allir að sjá.

Andy Griffith í hlutverk Ben Matlock

Eflaust muna allir vel eftir Ben Matlock, lögfræðingnum sérvitra í blágráu jakkafötunum í Atlanta í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum. Hann var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar einfaldlega heitið Matlock. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í áratug, árin 1986-1995. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Matlock fylgdu manni í mörg ár. Á ég fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Með hlutverk Matlocks fór leikarinn Andy Griffith. Gæddi hann karakterinn alveg mögnuðu lífi - fór á kostum í hlutverkinu. Á miðvikudagsmorgun fjallaði Akureyringurinn Helgi Már Barðason ritstjóri vefritsins akureyri.net, um þættina í þætti sínum Pipar og salt, og lék tónlist tengda Andy Griffith og þáttunum hans. Vakti það upp vissar minningar og ég dró gamla Matlock-þætti fram úr geymslunni og rifjaði upp þessa merkilegu þætti. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag er ár liðið síðan ég tók við formennsku í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það hefur gengið vel á þessu ári - og höfum við unnið vel saman í þeim stjórnum sem ég hef leitt þetta árið. Verkefnin eru næg framundan, brátt hefst formlegur undirbúningur sveitarstjórnarkosninganna hér. Það fer allt á fullt að loknum sameiningarkosningum að fara í þau mál. Verkefnið sem er framundan er stofnun kjördæmisfélags ungliða Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þau verða stofnuð á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Mývatnssveit á morgun. Höfum við formenn ungliðafélaganna í kjördæminu ákveðið að stefna að stofnun þessa félags - með því fáum við öflugan og góðan vettvang til samstarfs á vegum kjördæmastarfsins í aðdraganda tveggja kosninga, bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Hlakka ég til samstarfsins við ungliða um allt kjördæmið og góðs samstarfs í þeim verkefnum sem mestu skipta hér.

Dagskrá kjördæmisþings Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi - 24. september 2005

Úrslit þýsku kosninganna séð í skondnu ljósi

Þjóðverjar gengu að kjörborðinu á sunnudag. Niðurstaðan varð pattstaða þar sem ekkert augljóst stjórnarmynstur blasir við og báðir leiðtogar stóru flokkanna, Merkel og Schröder, gerðu tilkall til kanslarastólsins. Pólitísk kreppa er í Þýskalandi eftir kosningarnar. Skopmyndateiknarar Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því.

Saga dagsins
1241 Snorri Sturluson var veginn í Reykholti í Borgarfirði, 63 ára gamall. Snorri var þá goðorðs- og lögsögumaður og var valdamikill á Sturlungaöld. Hann varð einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar.
1943 Alþingi var afhent áskorun frá 270 manns um að slíta ekki konungssambandi við Danmörku að óbreyttum aðstæðum (stríðinu). Ekki var orðið við áskorunum og lýðveldið Ísland stofnað ári síðar.
1952 Leikarinn Charles Chaplin snýr aftur til Bretlands, eftir tveggja áratuga dvöl í Bandaríkjunum.
1973 Juan Peron snýr aftur til Argentínu eftir 20 ára útlegð, varð á ný forseti landsins. Peron lést tæpu ári síðar og tók ekkja hans, Isabel Peron, við embætti hans, henni var steypt af stóli 1976.
1994 Minnismerki var afhjúpað formlega á Öxnadalsheiði í tilefni þess að Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra, vígði síðasta malbikaða hlutann á þjóðveginum á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Snjallyrðið
Um undrageim í himinveldi háu
nú hverfur sól og kveður jarðar glaum.
Á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali
og drauma vekur purpurans í blæ
og norðurljósið hylur helga sali,
þar hnígur sólin aldrei niður í sæ.

Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja
og hreimur sætur fyllir bogagöng
en langt í fjarska foldar þrumur drynja
með fimbulbassa undir helgum söng.
Og gullinn strengur gígju veldur hljóði
og glitrar títt um eilíft sumarkvöld,
þar roðnar aldrei sverð af banablóði,
þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Gígjan)

Fallegt ljóð - tært og sætt í gegn.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Er þetta í síðasta skipti sem Davíð kemur fyrir allsherjarþingið og flytur þar ræðu, en hann hættir eins og flestir vita þátttöku í stjórnmálum nú í haust. Lætur hann af embætti utanríkisráðherra á þriðjudag og hættir formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi um miðjan næsta mánuð. Í ræðu sinni fór Davíð yfir fjölda mála. Tók hann mun vægar til orða hvað varðar málefni umsóknar Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, gerði fyrir tæpri viku er hann ávarpaði allsherjarþingið. Kom fram í máli Davíðs að Ísland hefði sýnt áhuga á þátttöku í Öryggisráðinu árin 2009-2010 en nefndi ekki framboðið beint eða lagði áherslu á það. Er það mikið ánægjuefni að Davíð hafi verið varfærnari en Halldór í ræðu sinni í New York. Davíð hefur seinustu daga óhikað tjáð andstöðu við umsókn okkar, en ekki sagst hafa talið rétt að taka ákvörðun um það enda sé hann að hætta þátttöku í stjórnmálum. Er það mitt mat að Davíð hefði átt að taka ákvörðunina strax í vor, enda þá þegar vitað að málið væri komið í verulegar ógöngur og séð fram á andstöðu við málið innan stjórnarflokkanna, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins.

Tjáði hann reyndar efasemdarraddir í vor þegar að hann flutti þinginu skýrslu sína um utanríkismál og var orðinn mjög efins um framboðið undir lok ráðherraferilsins. Í ræðu sinni lýsti Davíð yfir vonbrigðum með að ekki hefði náðst samstaða um fjölgun ríkja í öryggisráðinu og umfangsmikla endurreisn SÞ, en mjög hefur hallað á hana sem stofnun seinustu árin vegna hneykslismála og fjárhagsvandræða. Var Davíð ekki að hika við að tjá áhyggjur sínar um að engin niðurstaða stæði eftir vatnið. Kom fram í máli hans að skjalið sem samþykkt var í lok fundar hafi verið mjög útvatnað og sagði Davíð að þrátt fyrir að flest gildi sem fram komi í stofnsáttmálanum séu staðfest í lokaskjalinu þá væri það skoðun íslenskra stjórnvalda að mannréttindum og ábyrgð ríkja, eða leiðtoga þeirra, gagnvart borgurum sínum hafi ekki verið gerð nægilega góð skil. Hann sagði íslensk stjórnvöld telja alþjóðasamfélagið bera ábyrgð gagnvart ríkjum sem bregðast borgurum sínum, ríki þar sem framin eru mannréttindabrot á borgurum eða þjóðarmorð. Sagði Davíð að Öryggisráðið og aðrar stofnanir hafi þá lykilskyldu umfram allt að bregðast við slíkum brotum gegn borgurum.

Í ræðu Davíðs kom fram að íslensk stjórnvöld styðji stofnun lýðræðissjóðs Sameinuðu þjóðanna og muni leggja í hann fé. Davíð lýsti einnig yfir stuðningi Íslands við endurbætur á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Segja má að ræðan hafi verið eitt síðasta embættisverk Davíðs sem utanríkisráðherra og forystumanns í stjórnmálum, en eins og fyrr segir lýkur ráðherraferli Davíðs í næstu viku og þátttöku hans í stjórnmálum lýkur brátt. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi hans úr stjórnmálum - hinsvegar verður lítil breyting á utanríkisstefnu þjóðarinnar með nýjum utanríkisráðherra.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Greinilegt er á tíðindum síðustu daga að staða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, hefur veikst verulega innan síns eigin flokks. Kemur þetta vel fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu á mánudag. Innsti kjarni stuðningsmanna flokksins finnst Halldór hafa veikst og hafi lítið samráð við þingflokk og forystu í stórmálum. Kristallast þessi óánægja vel í máli málanna þessa dagana í pólitíkinni hér heima: umsókn Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010. Það blandast engum hugur um það eftir atburði seinustu daga að deilt er um málið innan Framsóknarflokksins. Það hefur komið vel fram seinustu daga. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins þykir þeim að Halldór eigi að víkja af forystu flokksins og þar þurfi að stokka upp. Koma þessar efasemdarraddir um forystu Halldórs engum á óvart. Á því ári sem hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands hefur hann sífellt veikst sem forystumaður Framsóknarflokksins. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að myndi verða mesti hápunktur stjórnmálaferils hans. Flokkurinn hefur gengið í gegnum hvert áfallið á þessu síðastliðna ári: hann mælist ekki vel í skoðanakönnunum og persónulegt fylgi við Halldór er í sögulegu lágmarki hvað varðar vinsældir forsætisráðherra Íslands.

Best kom veik staða Halldórs fram við lok flokksþings Framsóknarflokksins í mars er forysta flokksins var kjörin. Þá hlaut Halldór rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en á síðasta flokksþingi fyrir það. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlaut lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins. Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár.

Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins (sem virðast jafnvel koma úr innsta hring) telja þeir að Halldór eigi að víkja fyrir kosningar og kjósa eigi nýja forystu vel fyrir alþingiskosningarnar 2007. Eru þetta merkileg ummæli - og til marks um veikari stöðu Halldórs í forystu flokksins.

Jóhannes Jónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi ákærum í svokölluðu Baugsmáli vegna galla á málatilbúnaði ákæruvaldsins. Eins og við er að búast voru verjendur ánægðir með niðurstöðuna en forsvarsmenn ákæruvaldsins lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði kærður til Hæstaréttar. Úrskurður héraðsdóms byggir m.a. á því að ekki sé nægilega skilgreint hvernig sakborningar eiga að hafa brotið af sér, hvernig þeir eiga að hafa auðgast á brotum og hugsanlega valdið öðrum tjóni. Lýst sé ýmsum peningafærslum og ráðstöfunum sakborninga en þær þurfi í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar. Ákæruvaldið hefði þurft að lýsa með skýrara hætti hvernig sakborningar eiga að hafa dregið sér fé eða slegið eign sinni á það. Margar aðrar athugasemdir eru gerðar við málatilbúnað ákæruvaldsins og varða þær 4 af 6 sakborningum. Bent er á að ákærðu verði að fá að vita hvað þeim sé gefið að sök til að geta varið sig og dómari verði sömuleiðis að vita um hvað málið snúist svo hann geti lagt á það dóm. Þessi niðurstaða er mikill áfellisdómur yfir ákæruvaldinu og kemur sem mikið högg á það eftir að rannsókn hefur staðið í nokkur ár og miklu til kostað til að rannsaka málið. Þetta er auðvitað áfall fyrir þá sem lögðu málið fram - því verður ekki neitað.

Ekki er hægt að segja að niðurstaðan komi algjörlega á óvart. Dómendur höfðu fyrir nokkru gert alvarlegar athugasemdir við 18 af 40 ákæruliðum málsins. Niðurstaðan sem varð ljós í gær er með þeim hætti að verulegur hluti ákærunnar og atriða tengdum henni sé svo gallaður að ekki verði komist hjá því að vísa málinu í heild frá dómi. Hæstiréttur getur fellt úrskurð Héraðsdóms úr gildi og sagt dómnum að taka málið til efnismeðferðar, jafnvel að hluta til, það fer eftir kröfugerð ákæruvaldsins. Það verður merkilegt að sjá niðurstöðu málsins. Standi þessi dómur er ekki séð hvernig litið verði á það öðruvísi en sem rothögg á embætti Ríkislögreglustjóra. Standi þessi úrskurður þar er alveg ljóst að menn geta ekki sætt sig við að forystumenn hjá Ríkislögreglustjóra sitji áfram í embættum sínum. Svo einfalt er það bara. Áfellisdómurinn yrði svo mikill að ekki yrði framhjá honum gengið með æðstu forystumenn embættisins þar. Það er þó auðvitað réttast að niðurstöðu Hæstaréttar sé beðið. Það er reyndar svo að t.d. Össur Skarphéðinsson er farinn á taugum í málinu ef marka má kostuleg skrif og vill ekki bíða lokaniðurstöðu. Það er merkilegt að fylgjast með skrifum hans. Niðurstaðan kemur í Hæstarétti - fyrr ekki.

Elín Margrét Hallgrímsdóttir

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu eftir vinkonu mína, Elínu Margréti Hallgrímsdóttur, en við höfum til fjölda ára starfað saman í flokksstarfinu hér á Akureyri. Þar skrifar Ella Magga um málefni Reykjavíkurflugvallar, sem hefur verið aðalmálið í fréttum og pólitískri umræðu í Reykjavík seinustu vikur og verður sennilega framyfir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Er ég mjög sammála skrifum hennar og mati á málinu og hvet fólk til að lesa grein hennar, sem birtist ennfremur í dag á Íslendingi, vef flokksins hér á Akureyri. Þar segir t.d.: "Eins og umræðan um flugvöllinn hefur verið virðist sem reykvíkingar hafi gefið það frá sér að Reykjavík verði áfram höfuðborg landsins þar sem nálægð flugvallarins við opinberar þjónustustofnanir landsmanna veitir nauðsynlegt öryggi og sparar dýrmætan tíma og orku fólks. Flutningur flugvallarins úr Vatnsmýrinni er ekki einagrað mál heldur órjúfanlegt umræðu um hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins og opinbera stjórnsýslu þess sem nánast öll er í Reykjavík. En vissulega má hugsa sér breytingar á því."

Kristinn H. Gunnarsson

Seinustu daga hefur verið mikil umræða um merkilegan pistil eftir Kristin H. Gunnarsson alþingismann Framsóknarflokksins. Í pistlinum greinir Kristinn H. með nokkuð athyglisverðum hætti fylgissveiflur Framsóknarflokksins og beitir til þess svokölluðum kynjasjónarmiðum. Kristinn H. hefur ekki verið ófeiminn að gagnrýna forystu Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili og minnt nokkuð á sig. Eftir að hann missti þingflokksformennsku flokksins sumarið 2003 hefur hann verið nokkuð óþægur ljár í þúfu fyrir forystu flokksins og frægt varð er hann var tekinn með öllu út úr nefndum flokksins á þingi fyrir ári. Hann var svo síðar settur aftur í nefndir er líða tók á veturinn - sem var leið forystunnar til að semja frið við órólegu deildina í flokknum. Í pistlinum segir Kristinn að flokkurinn sé að missa fótfestu sína meðal kvenna og rekur það með merkilegum hætti. Bendi lesendum á þennan pistil - hann er nokkuð merkileg lesning í ljósi skrifanna um forsætisráðherrann hér ofar.

Saga dagsins
1918 Fyrsta konan fékk ökuskírteini, Áslaug Þorláksdóttir - þá höfðu um 80 karlar fengið skírteini.
1937 Bókin Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien kemur út - í kjölfarið á því kom Hringadróttinssaga út.
1974 Leikarinn Walter Brennan lést, 80 ára að aldri - hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferli sínum.
1998 Myndbandsupptaka af vitnisburði Bill Clinton um samband sitt við Monicu Lewinsky, sýnd.
2000 Örn Arnarson varð í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu.

Snjallyrðið
Í dag eru allir svanir í sárum,
söngurinn breyttur í þagnarmál,
héla á steinum, blóð á bárum,
banvænt eitur í hverri skál.
Grasið er sölnað og ilmur enginn,
allir bátar settir í naust.
Að sævardjúpi er sólin gengin,
sumarið liðið og komið haust.

Í dag eru tár í allra augum,
allir með grátt og hélað hár,
tryggðir feigar, brestir í baugum,
barmur jarðar eitt opið sár.
Af liminu blöðin fölnuð falla,
fjúk í lofti og veðragnýr.
Skuggarnir vefjast um allt og alla.
Angistin heltekur menn og dýr.

Í dag er söngvarinn dauðahljóður,
í djúpið hrunin hver skýjaborg.
Enginn á föður, enginn móður,
enginn neitt - nema þögla sorg.
Hver von er drukknuð í brimi og bárum,
hver bátur settur og lokuð naust.
Í dag eru allir svanir í sárum,
sumarið liðið og komið haust.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haust)

Ljóð með tilfinningu og sál - ein af ljóðaperlum Davíðs sem manna best orðaði sannar tilfinningar.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Angela MerkelGerhard Schröder

Það leikur enginn vafi á því eftir þingkosningarnar í Þýskalandi á sunnudag að gríðarleg pattstaða er komin upp í pólitíkinni þar. Hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta atkvæða og stjórn jafnaðarmanna og græningja sem setið hefur frá árinu 1998 er fallin. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU, að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Það blandast engum hugur um það að það voru gríðarleg vonbrigði fyrir Merkel og hægrimenn að ná ekki forystunni með afgerandi hætti, eftir gott gengi seinustu vikurnar. Úrslitin eru viss ósigur fyrir hægriblokkina - því verður vart neitað. Hinsvegar hefur Merkel sterkari stöðu en aðrir flokksleiðtogar eftir kosningarnar. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, var brosmildur er úrslitin lágu fyrir og var ekkert að sýna neina minnimáttarkennd. Lýsti hann yfir með glott á vör að andstæðingunum hefði mistekist það verkefni sitt að koma sér frá völdum, þeir hefðu einsett sér að taka völdin og fella stjórnina en þeir hefðu ekki haft erindi sem erfiði. Þeir hafi ekki hlotið umboð almennings.

Það er vissulega rétt hjá Schröder að hægrimönnum mistókst að vinna þann kosningasigur sem þeim var nauðsynlegur til að taka völdin með trompi. Hinsvegar eru hægrimenn í betri stöðu en kratarnir til að taka við eftir þessar kosningar. Það blandast engum hugur um það að Schröder tapaði þessum kosningum, þó vissulega hafi honum tekist á lokasprettinum að hljóta betri úrslit en spáð hafði verið. Stjórn græningja og jafnaðarmanna sem mynduð var eftir kosningasigur vinstriaflanna árið 1998 og var endurmynduð eftir nauman sigur þeirra árið 2002 er enda fallin. Það er í hróplegu ósamræmi við úrslitin að Schröder ríki áfram eins og ekkert hafi gerst. Það verður enda ekki séð svo auðveldlega hvernig hann ætlar sér að sitja áfram við völd í Þýskalandi. Óvissuþátturinn hvað varðar kanslarann er auðvitað hvort að honum tekst að mynda aðra stjórn undir sínu forsæti með samstarfi við aðra flokka. Þar er ekki um marga að ræða. Helst eru það frjálslyndir demókratar og Vinstriflokkurinn. Báðir flokkarnir hafa með öllu hafnað samstarfi við Schröder á hans skilmálum. Ekki þarf að undrast að samstarf vinstriflokksmanna og krata sé útilokað snarlega. Flokkurinn er enda leiddur af Oskari Lafontaine fyrrum flokksleiðtoga kratanna og kanslaraefni þeirra árið 1990.

Schröder og Lafontaine voru leiðtogatvíeyki kratanna í kosningunum 1998 og tókst Jafnaðarmannaflokknum að vinna þær kosningar með Schröder sem kanslaraefni en Lafontaine sem leiðtoga. Hann varð fjármálaráðherra í vinstristjórn Schröders eftir kosningarnar. Sambúð þeirra var þó skammlíf. Ári síðar sagði Lafontaine af sér ráðherratigninni og hætti sem flokksleiðtogi - eftir rokna rimmu við kanslarann og harðvítug valdaátök bakvið tjöldin. Lafontaine fór síðar úr flokknum og hefur nú tekist að stimpla sig inn með nýja flokknum og vakti að nýju á sér athygli. Þeir sem þekkja til samskipta Lafontaine og Schröders vissu allan tímann að þeir gætu ekki myndað stjórn saman. Schröder hefur enda jafnan séð svart á seinustu árum er Lafontaine er annarsvegar og sagði margoft í kosningabaráttunni að samstarf milli þeirra og hvað þá flokkanna væri ekki í stöðunni. En það er von að spurt sé nú - hver vann og hver fær að stjórna landinu? Svarið er eins og fyrr segir mjög óljós. Segja má að aðeins tvennt sé raunhæft. Fyrri kosturinn er samstjórn kristilegra demókrata, græningja og frjálslyndra demókrata (sem unnu sinn stærsta kosningasigur í þessum kosningum með um 10% fylgi). Þetta hefur þótt ólíklegt mynstur og hafa græningjar tekið fálega í hann - en hann er samt enn til staðar.

Seinni kosturinn er svo auðvitað stóra samsteypa (grosse koalition) stjórn kristilegra og krata. Það virkar rökréttast og eðlilegast í stöðunni. En þetta er ekki svo einfalt - bæði Schröder og Merkel gera tilkall til kanslaraembættisins og vilja ekki una hinu að hljóta hnossið. Það gæti því hæglega komið þarna upp mikið þrátefli. Verði engin stjórn komin til sögunnar eftir þrjár kosningar um kanslara í þinginu og tilraunir við minnihlutastjórn verður að kjósa aftur. Væntanlega gæti það verið lausnin úr þessu þrátefli sem við blasir, ef ekkert mun ganga. Þetta er döpur staða í Þýskalandi sem við blasir. Það er enda alveg ljóst eftir þessar kosningar að það er mikilvægt að mynda sterka og samhenta stjórn í Þýskalandi. Það eru mikil vonbrigði að hægrimönnum hafi ekki tekist að mynda slíka stjórn. Það þarf að taka til hendinni og fara í þau verkefni sem blasa við eftir sjö ára vinstristjórn. Mikilvægt er að kraftur sé í nýrri stjórn. Án slíks afls er framundan mikill glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Angela Merkel talaði af krafti í kosningabaráttunni um svikin loforð vinstristjórnarinnar. Það blasir enda við að stjórn Schröders hefur algjörlega mistekist að stjórna af krafti og eftir valdatíð hennar blasa við eintóm verkefni og það sem meira er svikin loforð.

En hvernig vinna menn þessi verk af krafti í þeirri stöðu sem uppi er? Það er von að stórt sé spurt. Hver verður kanslari Þýskalands á þessum brothættu tímum í þýskum stjórnmálum - fáir vita svarið enda vilja báðir flokksleiðtogar stóru flokkanna fá hnossið. Hinsvegar blasir við viss naflaskoðun hjá báðum flokkunum enda mistókst báðum leiðtogunum að ná til kjósenda og fá skýrt umboð þeirra til að leiða þjóðina. Þar er lykilvandinn í stöðunni - það blasir við. Gríðarleg pattstaða er komin upp í þýskri pólitík – sem verður merkilegt að fylgjast með hvernig verði leyst úr á hinu pólitíska sviði.

Hópurinn á bakvið Everybody Loves Raymondi

Emmy-sjónvarpsverðlaunin voru afhend í Shrine-Auditorium í Los Angeles aðfararnótt sunnudags. Með þeim er verðlaunað helsta sjónvarpsefni í Bandaríkjunum sl. ár. Flestum að óvörum kom bandaríski gamanþátturinn Everybody Loves Raymond á óvart og hlaut verðlaunin sem besti gamanþátturinn. Þátturinn lauk göngu sinni eftir níu farsæl ár í vor og áttu fáir von á að hann myndi ná að sigra öfluga keppinauta, á borð við t.d. Desperate Housewifes og Arrested Development sem hafa hlotið mun meira umtal og athygli fjölmiðla seinustu mánuðina. En er á hólminn kom sló Ray þeim algjörlega við. Enda urðu margir hissa í salnum er úrslitin voru tilkynnt. Þetta er mikið gleðiefni, enda hef ég verið mikill unnandi þáttana um Ray Barone og fjölskyldu hans til fjölda ára. Ekki laust við að maður muni sakna þeirra - algjört eðalsjónvarpsefni. Sjónvarpsþátturinn Lost hlaut verðlaunin sem besta dramaþáttaröðin. Kemur það fáum á óvart - að mínu mati er Lost með betri dramaþáttum í sjónvarpi hin seinni ár. Stórfenglegir og spennandi þættir - gríðarlega vel gerðir. Er mikill unnandi þeirra og hef ekki misst einn einasta þátt úr. Mörgum að algjörum óvörum kom sjónvarpsmyndin Warm Springs (sem fjallar um Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna og ævi hans) á óvart og vann verðlaunin sem besta sjónvarpsmyndin og sló við t.d. The Life and Death of Peter Sellers.

Fyrir leik í sjónvarpsmyndum hlutu verðlaunin þau Paul Newman, Geoffrey Rush, S. Epatha Merkerson og Jane Alexander. Verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki í dramaþáttum hlutu Patricia Arquette fyrir Medium og James Spader fyrir Boston Legal. Verðlaunin fyrir aukaleik í dramaþáttum hlutu William Shatner fyrir Boston Legal og Blythe Danner fyrir Huff. Fyrir besta leik í aðalhlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Felicity Huffman fyrir Desperate Housewifes og Tony Shalhoub fyrir Monk. Fyrir besta leik í aukahlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Brad Garrett og Doris Roberts fyrir Everybody Loves Raymond. The Amazing Race var svo valinn besti raunveruleikasjónvarpsþátturinn, þriðja árið í röð. Hápunktur kvöldsins var þegar að fréttahaukarnir Peter Jennings, Dan Rather og Tom Brokaw voru heiðraðir fyrir framlag sitt til fréttamennsku í gegnum tíðina, en þeir voru aðalfréttaþulir á ABC, CBS og NBC til fjölda ára. Á síðastliðnu ári hafa þeir allir horfið á skjánum. Fluttu Brokaw og Rather flotta þakkarræðu og minntust þar Jennings, sem lést fyrr á þessu ári úr krabbameini, 67 ára að aldri. Samkvæmt venju var þetta flott verðlaunahátíð og gaman að fylgjast með glaumnum og glysinu í Hollywood.

Ásta Möller

Í næstu viku tekur Ásta Möller sæti á Alþingi í stað Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Verður Ásta 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Ásta tók fyrst sæti á Alþingi eftir alþingiskosningarnar árið 1999 og sat á þingi allt það kjörtímabil. Hún náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 2003. Hún hefur tekið nokkrum sinnum sæti á þingi á kjörtímabilinu, enda fyrsti varamaður flokksins í RN. lengst í veikindaforföllum Davíðs sumarið 2004 og þingveturinn 2004-2005 er Davíð var að jafna sig eftir veikindin. Ásta hefur verið áberandi talsmaður flokksins í heilbrigðismálum, enda hjúkrunarfræðingur að mennt og á að baki langan feril við kennslu og hjúkrun. Hún var formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999. Ásta var kjörin formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna fyrr á þessu ári. Hún er fjórtánda konan sem gegnir þar formennsku. Verður áhugavert að fylgjast með störfum Ástu á þingi á næstu árum. Hef ég á seinustu árum fylgst vel með pólitískum verkum Ástu og fagna því mjög að hún fari aftur á þing, enda glæsilegur fulltrúi flokksins í mörgum lykilmálum sem flokkurinn þarf að fókusera sig vel á, á komandi árum. Ég óska henni góðs gengis í störfum sínum á þingi.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, var jarðsunginn í dag. Hann lést í síðustu viku, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Eftirlifandi eiginkona Bessa er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum. Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti. Hans verður minnst fyrir ógleymanlegan hlátur og fyrir að skemmta mörgum kynslóðum Íslendinga með sjarma sínum og yndisleika. Guð blessi minningu þessa mikla heiðursmanns.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Kynningarferli vegna sameiningarkosninganna hér við Eyjafjörð eftir tæpar þrjár vikur er formlega hafið. Fyrsti kynningarfundur sameiningarnefndarinnar var á Siglufirði í gærkvöldi. Framundan eru svo fjöldi funda í firðinum. Sá síðasti verður hér á Akureyri að kvöldi 4. október nk. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður sameiningarnefndar, var í löngu viðtali á Aksjón í gærkvöldi og kynnti málið. Í gærmorgun voru svo Sigrún Björk og Hólmgeir Karlsson oddviti í Eyjafjarðarsveit, gestir Kristjáns Sigurjónssonar í ítarlegu viðtali á Morgunvakt Ríkisútvarpsins. Bendi ég lesendum á það viðtal og ennfremur á heimasíðu sameiningarnefndar. Svo hefur Sigrún Björk skrifað greinar um málið seinustu daga í blöðin og vefrit hér í firðinum. Framundan er ítarlegt kynningarferli sem lýkur með kosningunni þann 8. október nk.

Saga dagsins
1519 Portúgalski landkönnuðurinn Ferdinand Magellan leggur af stað í langa ferð sína um heiminn.
1900 Ofsaveður gekk yfir landið - meira en 30 manns fórust í veðrinu, þar af drukknuðu 18 manns á Arnarfirði. Kirkjurnar á Urðum og Upsum í Svarfaðardal fuku af grunnum sínum og brotnuðu í spón.
1946 Fyrsta kvikmyndahátíðin í Cannes er haldin - kvikmyndahátíðir eru haldnar þar á hverju ári.
1979 Flóttamenn frá Víetnam, alls 34, komu til landsins - stærsti hópur útlendinga sem hingað kom.
1995 Ný brú, yfir Jökulsá á Dal, var formlega tekin í notkun. Hún er 125 metra löng og 40 metra há.

Snjallyrðið
Þó jörðin sé frosin og fokið í gömul skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt fagurt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Hin innsta lífsins þrá getur eld til guðanna sótt.
Ein auðmjúk bæn getur leyst hinn hlekkjaða fanga.
Svö fögnum við þá - og fljúgum þangað í nótt,
þar sem frelsið ríkir, og sígrænir skógar anga.

Á hvítum vængjum fljúgum við frjáls og ein,
og fram undan blika skógar og draumaborgir.
Í útsæ loftsins laugum við okkur hrein.
Í logandi eldi brennum við okkar sorgir.
Við fljúgum þangað, sem friðlausir eiga skjól.
Þar fagnar okkur heilagur griðastaður.
Í veröld austan við mána og sunnan við sól
á söngvarinn skjól - þar er hann frjáls maður.

Til óskalandsins fljúgum við saman frjáls og ein.
Þar fáum við öllu jarðnesku böli að gleyma.
Á vegi þínum á jörð er steinn við stein.
Í stjörnuborgum söngvanna áttu heima.
Þú elskar ljóðin, lifir í anda hans.
Ég lofsyng nafn þitt, helga þér veröld mína.
Mín vígða brúður, drottning míns draumalands.
Í drottins nafni krýp ég við fætur þína.

Með þig í faðminum flýg ég burt í nótt.
Nú finn ég gleðinnar töfra um hjartað streyma.
Að elska er að hafa eld til guðanna sótt
og opnað þeirra fegurstu sólarheima.
Þó jörðin sé frosin og fokið í hin gömlu skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Við fljúgum þangað)

Þetta er svo innilega fallegt ljóð - ein af perlum meistara ljóðanna orða frá Fagraskógi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband