Færsluflokkur: Dægurmál

Súrt ástarlíf í gervi glamúr

Ansi er nú þessi fréttamennska um svokallaða glamúrgellu Völu Grand þreytt og klén. Þessi séðogheyrt - blaðamennska er að verða æ meira áberandi hérna á Íslandi, því miður. Ég var eiginlega að vonast til að þessi rósrauða pressa væri bara á öðrum fréttavefum og hægt að passa upp á hana þar, en svo er nú víst alls ekki.

Kannski getum við verið sæl með þetta þangað til að ástarsögur ríka og fræga fólksins hérna heima fara að dúkka upp á mbl.is. Og þó ég gleymdi því við eigum ekkert ríkt fólk lengur sem vill láta sjá sig hérna heima nema þá örfáa lánlausa menn í felum, en dveljast að mestu leyti erlendis.

Mér fannst tilraunir sumra hérna heima til að gera Ásdísi Rán að einhverri táknmynd ríka og fræga fólksins í fréttaumfjöllun mistakast frekar hrapallega. Þetta er engu skárra. En ég afþakka samt svona blaðamennsku, hún á helst heima annarsstaðar.

mbl.is Vala Grand: Hann var myndarlegur en nautheimskur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð munu standa

Ein af verstu ákvörðunum yfirstjórnar Ríkisútvarpsins af mörgum afleitum í kreppunni var að slá af hinn frábæra útvarpsþátt Orð skulu standa, í umsjón Karls Th. Birgissonar. Fyrir utan Óskastundina og Framtíð lýðræðis var þetta eini útvarpsþátturinn sem ég passaði alltaf upp á að hlusta á. Enda var hann virkilega vandaður og skemmtilegur, auk þess að vera áheyrilegur og stóð vörð um íslenskt mál.

Ansi er nú illa komið fyrir Ríkisútvarpinu þegar ákveðið er að slá af eina þáttinn sem er í útvarpi beinlínis til að huga að málrækt og huga að íslenskunni. Sumir í Efstaleitinu ættu nú að fara að hugsa sinn gang og velta fyrir sér hvort frekar sé hugsað um yfirbyggingu eða dagskrárgerð á þeim bænum.

En fátt er svo með illu illt að ei boði nokkuð gott, eins og sagði í laginu með Vilhjálmi og Elly Vilhjálms um árið. Frábært að hugmyndin af þættinum sé útfærð upp á nýtt og færð á svið. Svo er bara að vona að hann fái sitt rými aftur á dagskrá þegar menn hafa séð að sér.

mbl.is Þátturinn skal standa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjuóskir til Helenu



Ég fagna því jafnan mjög þegar hvunndagshetjur og venjulegt fólk fær fálkaorðuna - mun frekar en embættismenn sem fá hana fyrir að mæta í vinnuna hjá hinu opinbera. Vil óska Helenu Eyjólfsdóttur sérstaklega til hamingju með að fá orðuna í dag. Hún hefur fyrir löngu sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna.

Það er ekki hægt annað en rifja upp þetta fallega lag, Ástarljóðið mitt, með þeim heiðurshjónum, Helenu og Finni Eydal, í upptöku frá árinu 1990.

mbl.is Tólf fengu Fálkaorðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland áfram - glæsilegt hjá Heru Björk



Við getum verið stolt af Heru Björk og hennar hópi með árangurinn í kvöld. Þau áttu glæsilega frammistöðu á sviðinu í Telenor-höllinni, voru alveg í sérflokki. Þriðja árið í röð kemst íslenski hópurinn áfram í keppninni, ógæfan mikla á árunum 2005-2007 er öllum gleymd og allir í sæluvímu núna.

Þetta er líka glæsilegt fyrir Heru, eftir að hafa orðið fyrir neikvæðum röddum, bæði með að lagið væri kópering af framlaginu 2008 og illum röddum að hún myndi ekki komast áfram, lagið væri klisja og hvað eftir öðru var sagt.

Nú er bara að vonast eftir góðu gengi á laugardaginn. Það að komast áfram er þó stór sigur út af fyrir sig og bætir upp allt hið neikvæða í samfélaginu um þessar mundir.

Það verður þjóðargleði á laugardag og partý um allt, sama hvernig Eurovision og kosningar fara. Flott blanda reyndar. :)

mbl.is Erum í hamingjukasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þulurnar kveðja

Vissulega eru það tímamót þegar þulurnar kveðja í Sjónvarpinu - verða sparnaði ríkisrisans að bráð. Sumir hafa talið það einn helsta aðal Ríkissjónvarpsins að hafa þulur á skjánum, fagrar konur til að kynna dagskrána, í stað þess að hafa bara dagskrárrödd eins og hinar stöðvarnar hafa. Jóhanna Vigdís Arnardóttir, leikkona, mun eflaust sinna sínu nýja hlutverki vel við að vera rödd Sjónvarpsins. Endalokin hjá þulunum er tákn um nýja tíma og aðrar áherslur - líka að það er verið að spara.

Þulurnar hafa fengið á sig ljómakenndan blæ í gegnum árin. Flestar þeirra hafa líka orðið landsþekktar í kjölfarið; nægir þar að nefna Sigríði Arnardóttur, Ásu Finnsdóttur, Ellý Ármanns, Ragnheiði Clausen, Guðmundu Jónsdóttur, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigurlaugu Jónasdóttur, Evu Sólan og Rósu Guðnýju Þórsdóttur. Sennilega mun þó Rósa Ingólfsdóttir verða þeirra allra eftirminnilegust, þegar hún braut upp formfast hlutverkið: fékk sér t.d. kaffi í beinni.

Einkareknu stöðvarnar hafa farið aðrar leiðir og haft rödd, oftar en ekki karlmanns sem aðalrödd. Stöð 2 hefur í tæpa tvo áratugi haft söngvarann Björgvin Halldórsson sem rödd stöðvarinnar og hefur hann sett svip á dagskrána með kynningum sínum, beitt röddinni bæði milt og léttilega og ennfremur talað með draugalegum hætti sérstaklega þegar að kynntar eru spennu- eða draugamyndir. Ólafur Darri Ólafsson var rödd Skjás 1 þar til Valur Freyr Einarsson tók við.

Að mínu mati voru þulurnar tákn síns tíma, liðins tíma, þó vissulega hafi verið gaman að horfa á fallegar konur lesa dagskrána. Þetta var skemmtilega gamaldags og sjarmerandi upp að vissu marki. Þó er augljóst að tími þulanna á skjánum minnkaði mjög eftir því sem árin liðu. Þær vöktu ekki fram yfir miðnættið eftir dagskrárlokum um helgar og byrjuðu seinnipartinn á vakt, fylgdu ekki lengur dagskránni alla daga frá byrjun. Þær voru þó á vakt á stórhátíðisdögum.

Þulurnar lifðu af tímana tvenna. Þórhallur Gunnarsson stóð vörð um þær og réði síðustu þulurnar fyrir nokkrum árum og varði þá hlutverk þeirra með sérstöðunni, hlutverki þeirra frá upphafi. En nú kveðja þær. Hvernig væri nú að Sjónvarpið heiðraði þulur liðinna tíma og sýndi vel valdar klippur með þeim, svona í kveðjuskyni.

mbl.is Þakka þjóðinni samfylgdina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrar pizzur gera sig ekki vel í kreppunni

Ekki þarf að undrast að Pizza Hut dragi saman seglin: bæði er stemmningin þannig að það blómgast fátt núna og auk þess er dýr pizzumenningin þar ekki líkleg til vinsælda núna. Nær allir sem ég hef hitt og hafa farið á Pizza Hut-staðina hafa talað um hversu dýrir þeir séu og því síður líklegir til vinsælda hjá þeim sem kaupa sér flatböku.

Dýr veitingahúsamenning gerir sig ekki beint núna, allra síst þegar pizzur eru annars vegar.

mbl.is Pizza Hut lokar tveimur stöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagnameistarinn mikli

Jón Böðvarsson var meistari sagna og íslenskra fræða. Fáum tókst betur að kveikja áhuga nútímafólks á fornsögum, gera þær spennandi og lifandi í augum okkar sem lifum á öðrum tímum, gera þær framandi og áhugaverðar.

Ég ákvað að lesa Njálu eftir að hafa hlustað á mjög inspíreraðan fyrirlestur hans um þetta mikla rit og heillaðist af því. Jón var töframaður sagnanna og opnaði augu okkar fyrir mikilvægi þess að rækta sagnaarfinn.

Hafi hann virðingu og þökk fyrir.

mbl.is Jón Böðvarsson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðjaxl í eldgosaferð

Ekki er hægt annað en bera mikla virðingu fyrir viljastyrk Jóns Gunnars Benjamínssonar - hann hefur alla tíð sýnt vel að hann er harðjaxl, einkum eftir að hann lamaðist í bílslysinu fyrir nokkrum árum. Ferðin á eldgosaslóðirnar kemur engum að óvörum sem þekkir kraftinn í Jóni, hann lætur ekkert stöðva sig.

Ég þekki vel bróður Jóns, Berg Þorra Benjamínsson. Hann lamaðist líka fyrir neðan mitti fyrir rúmum áratug. Þeir bræður hafa haldið áfram af fullum krafti þrátt fyrir lömunina, ekki látið hana vera endastöð lífsins, verið duglegir í baráttunni.

Þeir hafa mikinn styrk af hvor öðrum, en hafa karakterinn ræður mestu. Þeir eru sannkallaðar hvunndagshetjur.

mbl.is Fór lamaður að eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ægifögur náttúra

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi
Íslensk náttúra er rómuð á veraldarvísu. Hún er ægifögur og lifandi, eins og við höfum öll séð síðustu dagana eftir að eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst. Myndirnar og frásagnirnar af gosinu hafa vakið athygli allrar þjóðarinnar og víða um heim er fylgst með því sem gerist.

Allir vilja komast á staðinn - áhættan hlýtur að vera í huga þeirra sem taka slaginn og halda af stað. Kannski kemst það upp í vana að láta líf sitt í hendur náttúrunnar. Náttúran getur verið yndisleg en hún getur líka tekið sinn toll.

Mér finnst þessi mynd einna fallegust þeirra sem sést hafa, enda nýtur gosið sín best í náttmyrkrinu.

mbl.is Beinist að Hvannárgili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben og Gunnar í Krossinum gifta sig

Þrátt fyrir að mikið hafi verið hvíslað um samband Jónínu Ben og Gunnars í Krossinum er óhætt að segja að þeim hafi tekist að koma öllum á óvart, vinum, slúðurblöðum og allt þar á milli, með að gifta sig snögglega og án þess að gera tilstand úr því. Þau hafa bæði verið umdeild og samband þeirra verið á milli tannanna á fólki svo eflaust er þetta skiljanleg ákvörðun að drífa í þessu.

Ég vil óska þeim innilega til hamingju með giftinguna og óska þeim alls góðs.


mbl.is Jónína og Gunnar í hjónaband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband