Færsluflokkur: Íþróttir

Norsk heppni - klúður hjá íslenska liðinu

Hrein hundaheppni var hjá Norðmönnum að ná jafntefli við íslenska liðið í kvöld. Íslenska liðið átti að taka þennan leik og landa sigri, sannkallað klúður fyrst og fremst. Sérstaklega vont að sjá Veigar Pál skjóta í stöngina í blálokin, færi sem átti að verða tryggt mark.

En heppnin var ekki í liði með Íslendingum að þessu sinni, frekar en oft áður hjá karlalandsliðinu. Vonandi gengur betur næst. En strákarnir mega sannarlega eiga það að þetta var besti leikur þeirra lengi. Þeir eiga hrós skilið fyrir það.

mbl.is Norðmenn sluppu fyrir horn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelpurnar geta verið stoltar þrátt fyrir útkomuna

Ísland hefur nú lokið keppni á EM í Finnlandi. Þrátt fyrir þrjá tapleiki í dauðariðlinum geta stelpurnar verið stoltar af sínum árangri. Verkefnið var erfitt og augljóst að mikil spenna var í hópnum í fyrsta leiknum, sem tapaðist stórt. Við ramman reip var að draga. En þær áttu bestu augnablik sín í keppninni í síðasta leiknum, á móti Þjóðverjum.

Mér finnst það giska gott að hafa náð að halda í við þær þýsku sem eru í fremstu röð - eina markið í leiknum var ódýrari sortinni vægast sagt. En tap og vondur skellur eru alltaf mikið áfall, sama þó íslenska liðið eigi enga sögu í úrslitakeppni stórmóts í fótbolta.

En þetta er mikilvæg lexía í reynslusjóðinn þegar byggja þarf til framtíðar. Mikil tækifæri eru til staðar í íslenskum kvennabolta og það þarf að vinna enn betur til að byggja upp á þeim tækifærum.

mbl.is Eins marks tap gegn Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelpur í taugaspennu - afleitur rússadómari

Tapið er vont fyrir stelpurnar okkar eftir fyrsta leik íslensks knattspyrnuliðs á úrslitakeppni stórmóts - söguleg en eilítið súrsæt stund fyrir Íslendinga. Stelpurnar voru augljóslega yfirspenntar og taugastrekktar... enda merkileg stund vissulega - bæði væntingar og spennan mikil. Eftir óskabyrjun misstu þær leikinn úr höndum sér og erfitt við að eiga á mörgum sviðum knattspyrnunnar.

Rússneski dómarinn var vægast sagt afleit og heldur betur úti á túni í dómgæslunni. Vítaspyrnudómarnir voru frekar kvikindislegir, sérstaklega sá fyrri sem var ekki alveg skiljanlegur... vægast sagt umdeilt atvik... þetta jók allavega ekki samhug þjóðarinnar með Rússum.

Við vonum bara að það gangi betur næst. Þó þetta hafi farið illa í dag var þetta söguleg stund... mjög merkileg en vonandi ekki fyrirboði þess sem koma skal fyrir íslensku stelpurnar í Finnlandi.


mbl.is EM: Ísland tapaði fyrsta leiknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá stelpunum

Vil óska stelpunum okkar til hamingju með glæsilegan sigur á Serbum. Margrét Lára er sem fyrr hetjan mikla í liðinu, skorar fernu. Getum verið stolt af henni... hún hefur margoft sýnt að hún verðskuldaði að verða íþróttamaður ársins á sínum tíma, þó það væri umdeilt hjá sumum.

Hef alltaf haft mikla trú á þessu liði... við getum verið stolt af þeim. Vonandi gengur þeim vel á stóra mótinu bráðlega.

mbl.is Margrét Lára sá um Serbana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ronaldo fer frá Man Utd

Ekki þarf að undra að portúgalski knattspyrnumaðurinn Ronaldo fari frá Manchester United til Real Madrid. Hann hefur sýnt áhuga á tilfærslu þangað mjög lengi og sótti það mjög fast fyrir ári. Þá kæfði gamli jaxlinn Sir Alex Ferguson þær tilraunir í fæðingu við litla hrifningu Ronaldo. Nú fær hann að fara.

Væntanlega mun ungstirnið Macheda fá meiri tækifæri í liðinu og stólað á aðra menn í stað stóru stjörnunnar. Maðiur kemur alltaf í manns stað. Þó verður mikil eftirsjá fyrir stuðningsmenn Man Utd af Ronaldo.

mbl.is United hefur tekið tilboði frá Real Madrid í Ronaldo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burst í Róm - síðasti leikur Eiðs hjá Barca?

Börsungar unnu Evrópumeistaratitilinn mjög verðskuldað í Rómarborg í kvöld. Manchester United náði sér aldrei á strik eftir að Eto´o skoraði fyrra markið og liðið alveg arfaslakt lengst af. Börsungar réðu lögum og lofum á vellinum og tóku þetta traust og flott. Betra liðið vann klárlega í kvöld - sýndi algjöra yfirburði á öllum sviðum knattspyrnunnar á þessu kvöldi.

Eiður Smári varð Evrópumeistari, en samt finnst mér það afrek hans verða svolítið máttlaust þegar litið er á það að hann var aldrei inn á allan leikinn og algjörlega til hliðar. Finnst alveg hlægilegt að tala um mikið afrek í íslenskri íþróttasögu. Eiður hafði ekkert hlutverk í leiknum! Ætli þetta hafi verið síðasti leikur Eiðs Smára í liðsheild Börsunga?

mbl.is Barcelona Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýralegur lokasprettur

Langt síðan ég hef séð jafn ævintýralegan og magnaðan lokasprett í knattspyrnuleik hérna heima og var í Kópavogi í kvöld þegar FH tók þrjú stig á síðustu sekúndunum þegar Blikar höfðu náð jafntefli. Þvílíkt högg fyrir Kópavogsmenn. Alveg geggjað mark, vægast sagt. Hlýtur að vera mikil gleði í Firðinum núna.

Ég gafst upp á að horfa á ruglið og orðablaðrið, frasana í Samfylkingunni og starfsþjálfun Borgarahreyfingarinnar í valdaplotti, á Alþingi. Sá hinsvegar vinstri grænir létu höggin dynja á Samfylkingunni í Evrópuumræðunni. Þvílík niðurlæging fyrir Jóhönnu. Ekki fer mikið fyrir hjónabandssælunni.

mbl.is Söderlund tryggði FH sætan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá Man Utd - 18. titillinn í höfn

Manchester United komst í sögubækur breskrar íþróttasögu í dag með því að vinna átjánda meistaratitilinn - jafnar þar með Liverpool sem átti sigursæla tíð forðum daga, en ekki unnið titilinn núna í heila tvo áratugi. Þetta var gott keppnisár hjá Man Utd og enn bætist við á afrekaskrána hjá Sir Alex Ferguson og hans lærisveinum. Enn eitt glæsilega afrekið hjá þessu frábæra knattspyrnuliði.

Þetta er reyndar mjög dapurleg endalok fyrir Liverpool. Þetta var besta tímabilið þeirra frá gullaldarárum forðum daga - samt sem áður ná þeir engum titli. Mikil vonbrigði þar eðlilega. Fróðlegt verður að sjá hversu löng sú bið verði, en þeir hafa átt mörg mögur árin, einkum á tíunda áratugnum.

Næsta verkefnið fyrir Man Utd verður að taka meistaradeildina aftur, sigra Barcelona í Róm eftir ellefu daga. Það verður spennandi og góður leikur, eflaust.


mbl.is Manchester United enskur meistari í 18. sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá Man Utd - titillinn innan seilingar

Manchester United vann heldur betur traustan og glæsilegan sigur á Manchester City á Old Trafford í dag og er komið með aðra höndina á bikarinn. Liðið þarf nú aðeins að sigra Wigan til að vera í raun kominn með titilinn, rétt eins og í fyrra þegar sigur á Wigan tryggði þetta.

Þetta er núna í þeirra höndum. Þeir hafa alla möguleika á átjánda titlinum, og Liverpool þarf nú að stóla á að liðsmenn Man Utd geri sjálfir mistök til að eiga von á titlinum.

Manchester United á spennandi mánuð framundan. Ekki aðeins er deildartitillinn nærri í höfn heldur góðar líkur á að þeir verji bikarinn í Meistaradeldinni síðla mánaðar í Róm.

Ekki amalegt ef þetta fer allt á besta veg. Samt meira en lítið súrsætt fyrir Liverpool að missa af titlinum á besta tímabili sínu í fjöldamörg ár.

mbl.is Manchester United í toppsætið á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert mun Eiður Smári fara?

Varla eru það stórtíðindi að Eiður Smári sé að fara frá Barcelona. Sögusagnir hafa verið um að hann fari þaðan í tvö ár, frá sumrinu 2007, er hann fór á sölulista. Samningur hans er auðvitað að renna út núna. Eiður Smári samdi við Barcelona til þriggja ára þann 14. júní 2006 og yfirgaf Chelsea, eftir sigursæla tíð þar.

Hlutirnir eru jafnan ekki mikið að breytast í þessum bransa. Ætli Eiður fari aftur til Bretlands? Forðum var orðrómur um að hann færi til Tottenham og Manchester United, auk West Ham þegar Björgólfur og Eggert voru við stjórnvölinn þar í upphafi.

Erfitt er að spá í hver gengur kaupum og sölum í þessum bransa. En það verður þó fróðlegt að sjá hvar Eiður Smári lendir þegar vist hans hjá Barcelona lýkur.

mbl.is Eiður vill fara frá Barcelona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband