Niðurlæging Alþingis Íslendinga

Niðurlæging Alþingis er algjör. Ástæðurnar eru margar fyrir því að venjulegt fólk í þessu samfélagi hefur fengið nóg og lætur í sér heyra. Mótmælin við þinghúsið í gær þegar Alþingi var sett gefa til kynna, svo ekki verður um villst, að virðing fyrir Alþingi sem stofnun er hverfandi - óánægjan magnast upp. Við erum hér með máttlausa vinstristjórn sem ræður ekkert við verkefnin og vandamálin í þessu samfélagi.

Við öllum blasir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur misst öll tök og ræður ekki við verkstjórnarhlutverkið, hvort sem er í ríkisstjórn eða á Alþingi. Hún veitir þessari þjóð enga leiðsögn eða forystu, hefur ekki það sem til þarf í verkefnið. Ákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, bar öll merki pólitísks hefndarþorsta þar sem VG réði för. Samfylkingin sá svo um sína þegar á kosninguna leið.

Alþingi virðist allt að því vera umboðslaust nú. Norræna velferðarstjórnin sem hefur reynst eins og stjórnlaust skip er að fótum komin. Þjóðin hefur misst alla virðingu fyrir þeim sem ráða för og hafa fengið nóg. Þegar fólk hefur misst heimili sín og lífsviðurværi er því alveg sama um allt og lætur í sér heyra. Þegar ég sá alvarleg andlit vinstri grænna í þinginu í gær var einhver púki sem hvíslaði, What goes around comes around.

Mesti vingullinn í stjórnmálum dagsins í dag er Steingrímur J. Sigfússon, maðurinn sem sveik öll fögru kosningaloforðin kortéri eftir kosningar og er nú orðinn eins og umskiptingur. Hann sveik þjóðarhagsmuni í Icesave og sýnt æ ofan í æ að hann er ekki traustsins verður. Var virkilega einhver sem trúði því að hann og Jóhanna Sigurðardóttir, bæði með áratuga þingreynslu, myndu breyta einhverju?

Ég skynja vonbrigðin í samfélaginu. Fjölmargir kusu vinstriflokkana í þeirri trú að þeir myndu gera eitthvað af viti og breyta einhverju. Allir vita að fullreynt er með það 20 mánuðum eftir að þessi lélega vinstristjórn tók við völdum. Þessi stjórn er komin að fótum fram. Þau hafa niðurlægt Alþingi með vinnubrögðum sínum og farið með íslensk stjórnmál í svaðið með sér. Það eru dapurleg örlög.

Nú verður að stokka spilin upp. Burt með þessa vinstristjórn, burt með Jóhönnu og Steingrím!

mbl.is „Þar með var niðurlæging Alþingis fullkomnuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband