Vistaskipti Ásmundar Einars

Ekki þarf að koma að óvörum að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður úr sveitinni og baráttumaður landsbyggðargilda, hafi gengið til liðs við Framsókn eftir að VG brást honum og kjósendum sínum með því að svíkja hugsjónir úr kosningabaráttunni.

Fljótlega eftir að Ásmundur Einar gekk úr stjórnarliðinu í vantraustsumræðunni fyrir nokkrum vikum spáði ég í pólitísku spjalli við vin minn að Ásmundur myndi frekar enda í Framsókn heldur en með Lilju og Atla og ekki færi hann í Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar ljóst varð að þremenningarnir sem yfirgáfu hið lánlausa fley vinstri grænna myndu ekki stofna þingflokk voru þau örlög ráðin - og í raun ljóst að þau myndu ekki vinna saman í hóp og ekki bindast böndum fyrir þingkosningar.

Ásmundur Einar hefur alla burði til að verða lykilmaður í Framsókn - flokki sem styrkist á landsbyggðinni eftir því sem nær líður þingkosningum. Draumur Halldórs og hans fylgiliðs um þéttbýlisbrag á Framsókn brást algjörlega.

Flokkurinn er að verða aftur landsbyggðarafl, hefur í sjálfu sér alltaf verið það. Lykilafl hans var alltaf í hinum dreifðu byggðum. Þegar Halldór brást sem flokksleiðtogi og öflugur stjórnmálamaður styrktist VG í sveitunum. Sú bylgja gengur æ óðar til baka.

Vinstristjórnin er lánlaus, þreytt og mædd - lafir á einum manni. Sá heitir Þráinn Bertelsson. Hann rífur kjaft og ræðst að konum og samstarfsmönnum á þingi af lítilli reisn. Sá karl fær að blaðra eins og hann vill því hann er jú oddaatkvæðið. Femínistar í VG halda kjafti yfir kvennatali hans.

Fáir í VG nöldra yfir því að Þráinn Bertelsson sé pólitískur flóttamaður, sem flúði úr framboði sem átti að vinna gegn fjórflokknum og varð svo burðarás lélegustu vinstristjórnar lýðveldissögunnar.

Ég spái því að þessi slappa vinstristjórn muni deyja þegar maður á síst von á því. Hún er orðin svo léleg og sundurtætt að það verður varla fréttaefni þegar það loks gerist.



____

Ég birti hér fyrstu bloggfærslu mína í þónokkurn tíma. Fannst ágætt að breyta til og huga að öðru og mun ekki skrifa eins reglulega og ég gerði hér áður, en mun skrifa þegar tilefni gefst til í sumar.
mbl.is Ásmundur Einar í Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband