Beðið eftir forseta

Frá stofnun lýðveldis árið 1944 hefur embætti forseta Íslands verið í mótun. Þeir fimm einstaklingar sem hafa gegnt embætti forseta og setið á Bessastöðum hafa hver með sínum hætti sett svip á embættið. Þeir hafa þó leikið misjafnlega stórt hlutverk í stjórnmálum – jafnan bakvið tjöldin við stjórnarmyndanir og þegar á hefur reynt í stjórnleysi. Aðeins hefur þó ein utanþingsstjórn setið, við sjálfa lýðveldisstofnunina, auk þess var hún í kortunum tvisvar á áttunda áratugnum.

Enginn forsetanna hefur þó gengið lengra, einbeitt og ákveðið, stundum undir rós, eins og Ólafur Ragnar Grímsson, sem nú hefur setið fjögur kjörtímabil á Bessastöðum. Nær allan starfstíma ríkisstjórna Davíðs Oddssonar sat hann á hliðarlínunni. Deilur um fjölmiðlamálið 2004 ýfðu upp gömul sár milli Ólafs og hægrimanna. Vann forsetinn nokkurn sigur, hætt var við lagasetningu og málinu komið í annan farveg. Hefndi forsetinn þar fyrir vinnubrögð í heimastjórnarmálinu og virkjaði umdeilt vald forseta.

Fjórða kjörtímabilið varð Ólafi þó framan af erfitt. Hann stóð lemstraður eftir hrunið og daðrið við útrásarvíkinga. Ólafur hélt þó áfram að virkja völd sín þegar veikburða vinstristjórn settist til valda, tók sér í hendur umdeild völd og nýtti sér mælsku og tengsl á alþjóðavettvangi í fjölmiðlum meðan klaufaskapur einkenndi stjórnvöld sem sömdu af sér í lykilmáli. Á þeirri örlagastundu fór hann eigin leiðir og náði aftur frumkvæði fyrir hönd þjóðarinnar. Ólafur endurreisti með því sögulega stöðu sína á forsetastóli og naut virðingar fyrir að láta tryggð við þjóðina ráða för.

Einkum þess vegna hefur nú gerst að raunhæfur möguleiki er á því að Ólafur sitji áfram í embætti, gefi kost á sér fimmta kjörtímabilið og sitji lengst allra forseta. Á þeirri vegferð sinni að hugleiða framboð og framtíð á forsetastóli hefur Ólafi Ragnari enn og aftur tekist að velgja fornum samherjum undir uggum. Þeir hugsa með hryllingi til þess að hann sitji áfram og eiga erfitt með að leyna gremju og vonbrigðum sínum. Í og með skemmtir Ólafur Ragnar sér við að tefja ákvörðun með því að stríða gömlum keppinautum í Alþýðubandalaginu forðum daga, sem nú ráða för í VG, flokki sem virðist á vonarvöl.

Í umræðu um næsta kjörtímabil er ljós sterk staða Ólafs. Erfitt er að fara af stað gegn sitjandi forseta, sárafáir sterkir kandidatar hafa verið nefndir og veik staða stjórnvalda sýnir vanmátt þeirra. Við þeim blasir afhroð í þingkosningum. Beðið er eftir forseta – hann skýri mál sitt betur og taki af skarið. Þrátt fyrir að forseti segist hafa talað skýrt í nýársávarpi er öllum ljóst að hann skildi eftir glufu leynt og ljóst. Hann vildi kanna bakland sitt, stuðning meðal landsmanna og hversu jákvæð eða neikvæð viðbrögð hann fengi.

Ég hef jafnan haft þá skoðun að setja eigi kjörtímabilsmörk á forseta Íslands og tryggja tvær umferðir nái enginn forsetaframbjóðandi hreinum meirihluta. Þegar ég sat í stjórn SUS í gamla daga nutum við þess að tala fyrir því að leggja niður forsetaembættið. Það væri valdalaust og til skrauts. Segja verður eins og er að í forsetatíð Ólafs Ragnars hefur embættið gjörbreyst. Það hefur nú raunveruleg völd, hvort sem andstæðingum eða samherjum Ólafs Ragnars líkar betur eða verr. Líklegt er að sú breyting sé trygg til framtíðar.

Glöggt hefur mátt sjá hversu ákveðið Ólafur Ragnar sækir fram í almennri umræðu í fjölmiðlum. Forðum daga töluðu forsetar undir rós í nýársávarpi. Þeir héldu sér til hlés, héldu varla blaðamannafundi og pössuðu sig upp á að virða stjórnarstefnu valdhafa, halda sér á hliðarlínu. Forsetinn var sameiningartákn, hélt veislur og skálaði við fyrirfólk. Hann var til skrauts. Þessi blær á embættinu hefur gjörbreyst. Nú er forsetinn ákveðinn, hefur sent þinginu gula spjaldið og látið reyna á hvort það hafi stuðning þjóðarinnar.

Fáir tala nú um að leggja embættið niður. Blaðamannafundir núverandi forseta á Bessastöðum, bæði vegna framtíðar á forsetastóli og afstöðu í Icesave, hafa fengið á sig pólitískan blæ. Hann hefur leikið á blaðamenn eins og fimur fiðluleikari - sent stjórnvöldum tóninn og verið afdráttarlaus í tali um menn og málefni, beinlínis ýtt undir það með því að leyfa blaðamönnum að spyrja sig spurninga sem engum hefði dottið í hug að spyrja forseta fyrri tíðar.

En 16 ár er langur tími. Brátt reynir á hvort biðin eftir forsetanum færi okkur sögulegt fimmta kjörtímabil Ólafs Ragnars eða kosningu um eftirmann hans. Sú kosning, hvort sem hún fer fram á þessu ári eða næsta, mun snúast um áherslur í embættinu. Þar verður talað um stjórnmál og hversu áberandi húsbóndinn á Bessastöðum eigi að vera í umræðu um menn og málefni.

Þetta er vissulega hin mikla sögulega arfleifð Ólafs Ragnars. Embættið er ekki lengur ígildi farandsendiherra. Þar situr valdsmaður sem hefur örlög þjóðar og stjórnmálamanna á sínu færi. Synjunarvaldið er virkt – vald forseta til að setja mark sitt á umdeilt mál er afdráttarlaust til staðar. Því neitar enginn – það var reynt árið 2004 í fjölmiðlamálinu en virkar máttlaust píp núna.

Pólitískur refur á Bessastöðum hefur öll spil á hendi. Með fimni og útsjónarsemi hefur hann náð stöðu þess sem hefur stuðning þjóðarinnar meðan þingið er rúið trausti. Hann hefur völdin sem mestu skipta, hefur fest sig í sessi og nýtur þess að óánægja landsmanna með ráðandi öfl á þingi er algjör. Hann hefur spilað skákina mjög fimlega.

En það er spurning hvort hann nær að spila þessa skák til enda. Biðin eftir forseta er enn óljós. Nú reynir á hvernig endataflið er, hvort hann spilar skákina rétt eða missir hana í tapaða stöðu. Okkur hægrimönnum leiðist ekki þessi skák, einkum þegar vinstrimönnum gremst hún eins augljóslega og raun ber vitni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Afbragðsgóð greining á stöðunni. En hvað er hægt að gera? Enginn alvöru gagnframbjóðandi er í sigtinu. Verði hann áfram mun hann enn færast í aukana og byrja að deila og drottna eins og honum hentar. Þetta virðast margir sjálfstæðismenn sem hann styðja núna ekki skilja. Hann var jú eftir allt saman einu sinni formaður Alþýðubandalagsins og komist Sjálfstæðisflokkurinn aftur til valda mun hann beita hinum (nýju) völdum sínum að geðþótta.

Vilhjálmur Eyþórsson, 1.3.2012 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband