Jóhannes í Bónus vill strika yfir Björn Bjarnason

Það vekur athygli að Jóhannes Jónsson í Bónus birtir heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag þar sem hann hvetur kjósendur í Reykjavík suður til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, en hann er í framboði í öðru sæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Í auglýsingunni segist Jóhannes vera sjálfstæðismaður og lýsir greinilega yfir stuðningi við flokkinn en hvetur til að strika yfir Björn.

Þessi auglýsing vekur gríðarlega mikla athygli á lokadegi kosningabaráttunnar. Það hefur ekki gerst áður, svo ég muni eftir (lesendur bendi á ef önnur tilfelli eru til staðar) um að einn maður kaupi heilsíðuauglýsingu (reyndar í eigin dagblaði vissulega) til að hvetja til þess að strikað sé yfir nafn frambjóðanda á kjördegi. Það verður fróðlegt að heyra umræðu um þessa kostulegu auglýsingu.

Orðrétt segir í auglýsingunni:

"Í rúm fjögur ár mátti ég að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða vegna óvæginna og ranglátra aðgerða Haraldar Jóhannessens, ríkislögreglustjóra, Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara, og síðast Sigurðar T. Magnússonar, sem var settur í starf Jóns H. B. Snorrasonar eftir að hann var gerður afturreka með málatilbúnað sinn haustið 2005. Nafn mitt var hreinsað með sýknudómi Hæstaréttar Íslands í janúar á þessu ári.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur í ræðu og riti varið embættisafglöp þessara manna og hvatt þá til dáða leynt og ljóst. Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak og maður hlýtur að spyrja: Hvað skyldi Jón H. B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyrir allt hans klúður?

Sjálfur hef ég ávallt litið á mig sem sjálfstæðismann þó að ég hafi átt bágt með að styðja flokkinn síðustu árin í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Ég veit að margir sjálfstæðismenn eru sama sinnis og ég í því efni og eiga erfitt með að ákveða sig og þá ekki síst sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem Björn Bjarnason situr í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Aðeins eitt ráð er til. Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hef ekki séð umrædda auglýsingu, en vissulega verður þetta að teljast nokkuð sérstakt.  Það er auðvitað sjálfsagt að menn tjái hug sinn, hvort sem það er með greinaskrifum eða auglýsingum.  En það er auðvitað að koma í ljós sem margir spáðu þegar lög um fjármál flokkanna voru sett, að ýmis "félagasamtök" eða einstaklingar gætu auðveldlega sett svip sinn á auglýsingar fyrir kosningar.

Ég man í fljótu bragði ekki eftir svipuðu dæmi, nema þá þær auglýsingar sem beint var gegn Ólafi Ragnari Grímssyni, í forsetakosningunum árið 1995.  Þá var ég erlendis eins og nú þannig að ég sá þær aldrei, en þær voru vissulega umtalaðar og vildu sumir meina að þær hefðu í raun tryggt honum forsetastólinn.

G. Tómas Gunnarsson, 11.5.2007 kl. 06:49

2 Smámynd: Pétur Björgvin

Óháð viðkomandi manni og viðkomandi hvatningu þá finnst mér vanta að við kjósendur getum beitt atkvæðinu okkar á nákvæmari hátt. Jú vissulega er hægt að strika einhvern út á listanum sem maður kýs en ég óska mér að sá dagur renni upp þar sem ég kýs annars vegar flokk og hins vegar minn þingmann. Þannig gæti mér semsagt dottið í hug að merkja við Láru í Samfylkingunni og kjósa Framsókn sem flokk svo dæmi þér að skapi sé tekið.

Pétur Björgvin, 11.5.2007 kl. 09:18

3 identicon

Þetta er vissulega mjög sérstakt að menn setji þett fram svona klippt og skorið í auglýsingu en það er ekki einsdæmi að fólk noti eigin fjölmiðil til að hafa áhrif á það hvað fólk gerir við kjörseðilinn sinn.

Á kosningadag árið 2004 tók ritstjóri nokkur þá ákvörðun að nota Morgunblaðið, ekki með auglýsingu, heldur fyrirsögn á forsíðu blaðsins til að hafa áhrif á það hvað fólk gerði við kjörseðilinn sinn.

Munurinn á þessu tvennu: annar kom fram undir nafni og hvatti fólk til að strika yfir ákveðið nafn, hinn kom fram nafnlaus í krafti stöðu sinnar og hvatti fólk til að skila auðu.

Hvorug leiðin hugnast mér en mér finnst fyrri leiðin þó heiðarlegri þegar upp er staðið.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 09:36

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ekkert gott um Odd ég hermi

en eitt er samt

Sína lofar upp í ermi

öllum jafnt.

Engum er hann Oddur líkur

en eitt er samt

engan framar öðrum svíkur

alla jafnt.

Eins má segja um auglýsingu Jóhannesar.

Gott er, að hann hvetji menn til að kjósa D-listann, enda treystir hann öngvum öðrum að stjórna landi okkar, vitandi, að ef Vinstri stjórn kæmi, færi lánstraustið niður samstundis.  Hann og hans líkir þurfa góðar einkunnir fyrir lánshæfismat landsins á erlendum mörkuðum

EN; það er ekki viðeigandi, að hvetja til svona aðgerða. 

Vonandi verður auglýsingin til þess, að starfsmenn og velunnarar hans kjósi ,,Rétt"á morgun.  Og mín trú er sú, að þessi auglýsing hefur ekki bara áhrif í Rvík Suður, heldur um allt land, þegar kjósendur sjá, að Jóhannes ber mest traut til okkar, þrátt fyrir allt.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 11.5.2007 kl. 10:54

5 Smámynd: Jens Guð

Jóhannes segist alltaf hafa litið á sig sem sjálfstæðisflokksmann.  Ég man þó eftir honum sem alþýðuflokksmanni á sínum tíma.  Jafnframt man ég eftir því þegar Bónus gaf í fyrsta skipti háa upphæð til góðgerðamála að þá útskýrði Jóhannes uppátækið með þeim orðum að kratahjartað í sér væri að slá.  það olli því að einhver bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi skrifaði lesendabréf í Morgunblaðið og upplýsti að Jóhannes hafi verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum.  

Jens Guð, 11.5.2007 kl. 12:21

6 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Ég verð að viðurkenna að ég hef haft sama háttinn á í tveimur kostningum.. Kjósa sjálfstæðisflokkinn og mæta með reglustrikuna til að strika meðal annars BB út..

Ég er ekki enn búin að gera það upp við mig hvort ég eigi að lifa í sömu blekkingu og áður.. Þar að segja að halda að það útstrikanir skipti máli.. Þó það sé ákveðið statement að nota útstrikanir þá getur maður bara strikað út í sínu eigin kjördæmi. Þannig að í rauninni er maður alltaf að kjósa Árna Johnsen þegar maður kýs xD. 

Ég er sammála Pétri hér að ofan að það þyrfti vera aðferðir til að beita atkvæði sínu á nákvæmari hátt. Til að mynda með að heimfæra Írska kostningakerfið. 

Ingi Björn Sigurðsson, 11.5.2007 kl. 13:28

7 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Þetta er rétt sem Pétur og Ingi Björn eru að segja. Eina færa leiðin er sú að kjósa Sjálfstæðiflokkinn ekki.

Jóhannes Freyr Stefánsson, 11.5.2007 kl. 13:42

8 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Takið endilega þátt í kosningagetrauninni, glæsilegir vinningar í boði: http://sigfus.blog.is/blog/sigfus/entry/207012/

Sigfús Þ. Sigmundsson, 11.5.2007 kl. 13:57

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

G. Tómas: Þakka góðar hugleiðingar.

Kjartan: Ég las fyrst Fréttablaðið og sá auglýsinguna þar því fyrst. Þetta er í öllum blöðum í dag nema Viðskiptablaðinu held ég.

Hörður: Vonandi fer vel á morgun. Tel að staðan hér á norðaustursvæðinu sé vænleg.

Pétur Björgvin: Takk fyrir góðar og áhugaverðar pælingar.

Anna: Ritstjórar koma með skoðanir alla daga. Gunnar Smári beitti líka Fréttablaðinu með Ólafi Ragnari í þeim kosningum. Þetta er eigandi blaðs og hann auglýsir í sínum miðlum og víðar. Þetta hefur aldrei gerst hérlendis, það er bara svo einfalt.

Bjarni: Takk fyrir góðar hugleiðingar.

Elli: Já Elli minn, ég las fyrst Fréttablaðið hehe ;)

Jens: Jóhannes er greinilega hægrikrati. Það er merkilegt að hann lýsi yfir stuðningi við flokkinn daginn fyrir kjördag en þetta er auðvitað með merkilegri auglýsingum kortéri fyrir kosningu. Vekur mikla athygli.

Ingi Björn: Það er heiðarlegt að geta strikað yfir fólk á listanum sínum sem kosinn er af manni. Það er ekkert endilega svo að maður dýrki alla frambjóðendur flokksins. Sjálfur hef ég gert þetta, enda hefur það gerst að fólk sem ég hef ekki mikinn áhuga á sé á lista og þá hef ég strikað það í rólegheitunum einn í kjörklefanum.

Þórir: Það þarf ekkert að vera að allir flokksmenn styðji fulltrúa. Þá er upplagt að nota kjörseðilinn til að laga listann eftir því sem maður vill sjálfur. Það er lýðræðislegur réttur kjósandans að hafa áhrif á eigin lista eftir því sem hann vill. Þetta hef ég gert oftar en einu sinni.

Jóhannes: Þarf manni að líka allir frambjóðendur flokksins síns? Ég styð flokk en ekki menn, ég er að kjósa flokk og get haft áhrif á hverjir séu fulltrúar hans í huga mér. Þannig virkar kjörseðillinn.

Sigfús: Takk fyrir ábendinguna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.5.2007 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband