Mun stjórnarsamstarfið sitja áfram við völd?

Jón Sigurðsson og Geir H. HaardeMér finnst líkur hafa aukist ansi mikið á því að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði haldið áfram. Það er alveg hægt að halda áfram ef viljinn er fyrir hendi. Þingmannatala stjórnarinnar er tala á blaði, lág tala miðað við aðstæður þó. Það sem skiptir mestu máli er vilji og áhugi til verkanna, samstillt átak um að gera vel. Sé það fyrir hendi er allt hægt í raun og veru.

Það er skiljanlegt að framsóknarmenn séu hugsi eftir svo vonda stöðu. Þetta er þeim mikið pólitískt áfall, sem þeir verða að vinna úr. Hinsvegar er greinilegt að Framsóknarflokkurinn var að bæta við sig síðustu dagana og kannski hefðu þeir getað snúið stöðunni betur við hefðu þeir haft lengri tíma. Erfitt um að segja. Því fæst ekki svarað. Ég tel að Jóni Sigurðssyni hafi tekist að efla flokkinn umfram allt inn á við en mistekist það frekar út á við. Minnir hann mig svolítið á Michael Howard, fyrrum leiðtoga breska Íhaldsflokksins, í þeim efnum.

Ég er þó sammála Guðna Ágústssyni um að kjósendur hafi ekki verið að senda Framsókn reisupassann. Þeir voru hinsvegar að senda þeim skilaboð um að taka til í sínum ranni, vinna betur saman og gera upp fortíðina. Þetta var innanflokksuppgjör sem fékk þennan vonda dóm. Umfram allt tel ég þetta hafa verið uppgjör við Halldórsarminn sem fékk mikinn skell í ljósi sérstaklega úrslitanna í Reykjavík. Framsóknarmenn verða að gera upp þau úrslit og það finnst mér kristallast mjög vel í tali Guðna Ágústssonar sem greinir að mínu mati innstu rót þess helsta vanda sem Framsókn átti við að stríða í þessum kosningum.

Það er alveg ljóst að eigi ríkisstjórnin að geta haldið áfram verða hlutföll að breytast innan hennar. Helmingaskipti eru ekki viðeigandi haldi hún áfram. Kosningarnar fóru með þeim hætti að uppstokkun verður að eiga sér stað á mannaskipan eigi að réttlæta tilvist hennar áfram. Eitt af því sem hefur heyrst er spurning um það hvernig að Framsóknarflokkurinn ætli að manna pósta sína með aðeins sjö þingsæti, verandi með sex ráðherrastóla. Það má ekki gleyma því að tveir ráðherrar urðu utan garðs í kosningunum, reyndar annar þeirra sem aldrei hefur verið kjörinn á Alþingi í sjálfu sér, sjálfur formaður Framsóknarflokksins.

Það hefur jafnvel verið talað um að þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem verði ráðherrar víki af þingi og hleypi varamönnum að. Það myndi rýmkast verulega til í þeirri stöðu. En samt sem áður er lýðræðisleg krafa eigi að halda þessu samstarfi áfram að ráðherrastólum Sjálfstæðisflokksins fjölgi um einn til tvo hið minnsta. Það er mjög einfalt mál. Framsóknarflokkurinn þarf að meta sína stöðu. Það er skiljanlegt sé hann bensínlaus í stöðunni eða skorti vilja né kraft til að halda áfram í lykilráðuneytum og vilji frekar staldra við, kasta mæðinni og fara í að safna kjarki og krafti til að halda aftur upp í gönguferðir um óvissusvæði.

Staða mála er óviss. Nú sem fyrr er Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með tromp sín vel á hendi og staða hans er gríðarlega góð í ljósi þessa. Stjórnin hélt velli. Það er heiðarlegt og sjálfsagt eftir langt samstarf að flokkarnir staldri við og íhugi næstu skref og hvort grunnur sé enn til staðar. Bjarni Harðarson, alþingismaður, sagði reyndar í gær ýmsa hluti sem fengu mig til að hugsa um hvort að hann yrði jafnvel nýr Kristinn H. Gunnarsson innan sinna raða. Veit ekki hvort svo verður.

Það er alveg ljóst að eigi að halda þessu ferðalagi áfram þurfa allir um borð í bílnum að halda glaðir til verksins, annað er ávísun á vont ferðalag að mínu mati. En staðan ræðst von bráðar.


mbl.is Líklegast að stjórnin sitji áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Mér líst illa á áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. Treysti auðvitað Geir Haarde til að meta þá stöðu hvað best. Hitt er að ég sé fyrir mér mikil vonbrigði hjá stórum hluta þjóðarinnar og að næstu ár verði átakamikil og erfið. Nú er lag að brjóta blað í sögunni og fyrir okkur sjálfstæðismenn að prófa nýtt samstarf. Ég vona svo sannarlega að því verði gefið tækifæri. Við myndum fá mörg prik fyrir vikið og græða þegar til lengri tíma er litið.

Kolbrún Baldursdóttir, 14.5.2007 kl. 13:22

2 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Já sá hluti þjóðarinnar sem býr á höfuðborgarsvæðinu hefur sýnt annað árið í röð að það vill ekki að Framsóknarflokkurinn sitji við stjórnvölinn. Í fyrra vorum við Reykvíkingar illa svikin þegar Framsókn komst í meirihluta með sinn eina mann. Það yrðu því mikil vonbrigði ef ríkisstjórnin heldur áfram störfum og ég er sammála Kolbrúnu að næstu ár yrðu ekki gæfurík og síst að öllu fyrir íslensk stjórnmál. Það er kominn tími til að breyta.

En til hamingju með góðan árangur þótt ég hefði glaður viljað sjá vinstri meirihluta og stjórn.

Snorri Sigurðsson, 14.5.2007 kl. 13:35

3 Smámynd: Þorleifur Leó Ananíasson

Það er mjög mikil andstaða við áframhaldandi stjórnarsamstarf í báðum flokkum.  Auðvitað getur forysta flokkanna knúið áframhaldandi samstarf í gegn, en varla yrði það gæfulegur gjörningur eða lýðræðislegur. Sjálfstæðisflokkurinn verður að hafa kjark til að breyta til, enda hefur Framsókn verið gjörnýtt.

Þorleifur Leó Ananíasson, 14.5.2007 kl. 13:44

4 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Nú  er ég  sammála þér  Stefán  Viljinn er allt   sem  þarf  og  gleymum  ekki  að  stjórnin  héllt  velli

Gylfi Björgvinsson, 14.5.2007 kl. 13:46

5 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Ílla líst mér á þann raunveruleika að hvaða þingmaður sem er getur tekið ríkisstjórnina hreðjataki og sveigt til lags við einhver gæluverkefni heima í héraði, ég er ansi hræddur um að viðhald óbreytts stjórnarsamstarfs  verði  dýrkeypt í þessu ljósi t.d. göng til eyja og fleira skemmtilegt.

Tjörvi Dýrfjörð, 14.5.2007 kl. 13:49

6 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Þegar ég tala um "hvaða þingmaður sem er" á ég sjálfsögðu eingöngu við þingmenn núverandi stjórnarflokka

Tjörvi Dýrfjörð, 14.5.2007 kl. 13:54

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Kolbrún: Já, það er alveg ljóst að líkur á sömu stjórn eru minni en ella í ljósi þess að meirihlutinn er vægast sagt tæpur. Það verður þó að kanna hvort einhver grunnur sé eftir, áður en aðrir kostir eru kannaðir. Sjálfur tel ég ekki rétt að útiloka að starfa með VG og Samfylkingunni, það yrðu mun sterkari meirihlutar og þar yrði hægt að vinna af meiri krafti en ella.

Snorri: Framsókn fékk mikinn skell í kosningunum í Reykjavík. Það blasir við öllum. Það hefði reyndar verið miklu betra ef Svandís og Villi hefðu myndað meirihluta. Persónulega ber ég mikla virðingu fyrir mörgum fulltrúum VG, sérstaklega Svandísi, sem ég tel framtíðarkonu innan VG. Það er sá meirihluti sem ég hefði helst viljað, en hann varð ekki. Erfitt að tala meira um það svosem, en þá kemur mín skoðun fram. Hvað varðar samstarf er ég mjög opinn fyrir því að kanna VG sem kost til samstarfs. Landsmenn kölluðu á þennan valkost og hann verður að kanna gangi núverandi stjórnarsamstarf ekki lengur.

Leibbi: Vissulega er þetta tæpt en meirihlutinn hélt. Það er sjálfsagt að kanna hvort það sé enn grunnur. Persónulega tel ég þó aðra kosti auðvitað sterkari og þeir verða kannaðir gangi þetta ekki til fulls. Hvaða kost líst þér best á?

Gylfi: Já, auðvitað á að kanna þennan kost. Ekki spurning með það.

Tjörvi: Það er stór vandi vissulega. Þess vegna skrifaði ég síðustu línurnar. Það verður að koma í veg fyrir sólóspil. Ef það er ekki hægt er þetta dauðadæmt og ekki tilraunar virði.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.5.2007 kl. 14:07

8 identicon

Mér finnst það ansi flott hjá Guðna að geta krufið vanda flokksins og skrifað það sem innanflokksuppgjör ... Siv var tæp, Jónína dottin út og sjálfur formaðurinn nær ekki kjöri inn á þing! Stjórnin heldur velli þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar hafi ekki kosið hana. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur jú þrjá þingmenn, en Framsókn tapar fimm - og þegar sjálfur formaðurinn hlýtur ekki náð fyrir augum kjósenda, þá er það bull í Guðna, að þetta séu ekki skýr skilaboð til flokksins um að víkja. 

Þú talar um lýðræðislega kröfu ... skv. kosningakerfinu hefur nefnilega hreint lýðræði ekki virkað hér (ef stjórnarsamstarfið heldur óbreytt áfram). Stjórnin nær ekki helmingi atkvæða, en heldur velli. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 14:11

9 Smámynd: Þorleifur Leó Ananíasson

Úr því þú spyrð Stebbi þá líst mér best á samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna eingin spurning.

Þorleifur Leó Ananíasson, 14.5.2007 kl. 14:39

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Kvitt eg er alls ekki hlintur sömu stjórn/komið nog af Framsókn i bili/vona bara að annað se i spilunum/Geir er ekki einn með þetta það er allur flokkurin er það ekki!!!!Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 14.5.2007 kl. 14:59

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hvað segja menn um þetta: Núverandi stjórnarflokkar halda áfram saman og í sumar eða áður en þing kemur saman eru Frjálslyndir teknir inn. Umbætur á kvótakerfinu og allir (ofangreindir) glaðir! D+B+F (og nei, Kiddi sleggja getur ekki klofið enn á ný).

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.5.2007 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband