Harriet Harman sigrar - naumur sigur á Johnson

Harriet HarmanHarriet Harman, dómsmálaráðherra Bretlands, hefur verið kjörin varaleiðtogi breska Verkamannaflokksins. Hún sigraði Alan Johnson, menntamálaráðherra, naumlega en aðeins munaði tæpu prósenti á milli þeirra. Harman hlaut 50,3% en Johnson hlaut 49,6%. Sex sóttust eftir stöðunni, sem John Prescott hefur gegnt í þrettán ár. Var tilkynnt um valið með útsláttarfyrirkomulagi. Fyrst datt út Hazel Blears, því næst Peter Hain, Hilary Benn og Jon Cruddas, sem mörgum að óvörum varð í þriðja sætinu. Eftir stóðu því í lokahrinu Harman og Johnson.

Harriet Harman er sextándi varaleiðtoginn í 107 ára sögu Verkamannaflokksins og önnur konan sem gegnir því embætti. Margaret Beckett, sem nú er utanríkisráðherra Bretlands, fyrst kvenna, var kjörin varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1992 er John Smith varð leiðtogi Verkamannaflokksins. Beckett varð leiðtogi flokksins þegar að John Smith varð bráðkvaddur 12. maí 1994, en andlát hans úr hjartaslagi varð gríðarlegt áfall fyrir flokkinn í þeirri stöðu sem hann var þá í, en talið var þá öruggt að Smith yrði forsætisráðherra. Beckett tapaði í leiðtogakjöri fyrir Tony Blair í júlí 1994 og hætti sem varaleiðtogi.

Harriet Harman hefur lengi verið áberandi bakvið tjöldin og bjuggust fáir við því fyrir nokkrum árum að hún ætti eftir að komast til æðstu metorða innan Verkamannaflokksins við hlið Gordon Brown í forsætisráðherratíð hans, er þrettán ára bið eftir leiðtogaembættinu lýkur. Það hefur blasað við að helstu stuðningsmenn Browns hafa talað máli Harmans og eiginlega má segja að sá stuðningur hafi skipt sköpum fyrir hana, altént í þessari tæpu stöðu.

Það er reyndar auðvitað það skemmtilegasta við kosningar innan Verkamannaflokksins að því er skipt í þrennt í hlutföllum, atkvæði þingmanna, óbreyttra flokksmanna og þeirra sem koma úr verkalýðshreyfingunni. Johnson, sem er gamall verkalýðsleiðtogi, hafði verkalýðsarminn með sér og þingflokkinn en Harman hafði óbreytta flokksmenn með sér greinilega og það skipti úrslitum, enda munurinn innan við prósent.

Harriet Harman mun eflaust fá öflugt ráðuneyti í ríkisstjórn Gordons Brown sem tekur við völdum síðdegis á miðvikudag eftir að Brown hefur þegið stjórnarmyndunarumboð úr hendi Elísabetar II drottningar í kjölfar afsagnar Tony Blair. Það blasir líka við að Harriet Harman verði valdamikill forystumaður, valdameiri en mörgum óraði fyrir þegar að hún féll í ónáð hjá Tony Blair á fyrsta tímabili flokksins við völd.


mbl.is Harriet Harman kosin aðstoðarflokksleiðtogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir fínar upplýsingar um þessar kosningar. Þú ert viskubrunnur. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 24.6.2007 kl. 15:12

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð orð Hlynur.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.6.2007 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband