Engin fyrirsögn

David DavisDavid Cameron

Leiðtogakjörið í breska Íhaldsflokknum er hafið af fullum krafti. Ferlið vegna leiðtogakjörsins hófst formlega fyrr í þessum mánuði er Michael Howard leiðtogi flokksins frá árinu 2003, baðst lausnar. Það gerði hann í lok flokksþings Íhaldsflokksins sem haldið var í Blackpool fyrri hluta mánaðarins. Fimm höfðu tilkynnt framboð þegar framboðsfrestur rann út: David Cameron, Kenneth Clarke, David Davis, Liam Fox og Malcolm Rifkind. Þar sem ekki náðist samstaða um að breyta lögum um vali á leiðtoga flokksins fór því svo að leiðtogakjörið fer fram með sama hætti og er forveri Michael Howard á leiðtogastóli, Iain Duncan Smith, var valinn í leiðtogakjöri árið 2001. Það er með þeim hætti að þingflokkurinn kýs með útsláttarfyrirkomulagi á milli leiðtogaefnanna þangað til að tveir standa eftir. Um þá munu svo flokksmenn kjósa í póstkosningu næstu vikurnar. Svo fór að Rifkind dró framboð sitt til baka í síðustu viku og eftir stóðu því fjórir í leiðtogakjöri innan þingflokksins. Á þriðjudaginn fór fyrsta umferð leiðtogakjörsins fram í þingflokknum.

Þá féll Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, úr leik. Hlaut hann fæst atkvæði fjórmenninganna, eða 38 af þeim 198 sem greidd voru. David Davis hlaut flest atkvæði í umferðinni, alls 62. David Cameron hlaut 56 atkvæði og Liam Fox hlaut 42. Clarke var því úr leik í umferðinni. Þetta var í þriðja skipti sem Clarke fer í leiðtogaslag. Hann fór fram árið 1997 þegar að Sir John Major lét af leiðtogaembættinu eftir afhroðið í kosningunum það ár. Hann tapaði svo í póstkosningu allra flokksmanna fyrir Iain Duncan Smith árið 2001. Hann fór þó ekki fram árið 2003, enda var Michael Howard þá sjálfkjörinn í leiðtogastöðuna. Fullyrða má að einkum tvennt hafi orsakað það að Clarke féll úr leik. Bæði er hann harður Evrópusinni, sem fer ekki vel í þingmenn flokksins almennt, og svo er hann orðinn 65 ára gamall og er eldri en núverandi leiðtogi flokksins. Þáttaskil urðu samhliða þessu - Clarke er væntanlega á útleið úr stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Hann mun allavega aldrei verða leiðtogi flokksins, þessi úrslit leiða til þess að þessi umdeildi en litríki stjórnmálamaður pakkar niður og heldur af hinu pólitíska sviði.

Leiddi tap Clarke til þess að fjölmargir stuðningsmanna hans lýstu yfir stuðningi við leiðtogaframboð David Cameron, og þótti eftir það sýnt að stuðningur við hann hefði aukist umtalsvert. Í gær fór svo önnur umferð leiðtogakjörsins fram. Þá hlaut Cameron 90 atkvæði, Davis hlaut 57 og Fox hlaut 51. Fox er því úr leik - eins og flestir höfðu spáð - og eftir standa þeir Cameron og Davis. Við blasir að staða David Cameron hefur vænkast verulega seinustu vikurnar. Þau þáttaskil hafa átt sér stað að Davis, sem lengi vel var talinn fremstur í kjörinu og sigurstranglegastur, hefur misst þann sess til Cameron. Honum hefur vaxið mjög ásmegin og stefnir allt í að hann verði leiðtogi með mjög afgerandi hætti. Stuðningur við Davis hefur þverrað mjög hratt seinustu daga og stefnir allt í að hann verði fyrir miklu áfalli í kjörinu. Það var Davis og stuðningsmönnum hans áfall hversu naumur sigur Davis var í fyrri umferðinni.

David Davis

Enn meira áfall þykir það að hann hafi misst forystuna til Cameron í seinni umferð þingflokksins. Það var þó fyrirséð að svo myndi fara. Því var jafnvel spáð um tíma í gær fyrir kjörið að Cameron myndi fá fleiri en 100 atkvæði í þingflokknum. Slík staða hefði gert vonir frambjóðandans gegn honum í póstkosningunni allt að því vonlausa og því jafnvel spáð að ekki kæmi til póstkosningarinnar yrði sú staðan. Svo fór ekki og þykir ljóst nú að Davis muni leggja allt undir og fara í póstkosninguna. Sigur Cameron í þessari umferð var nokkuð afgerandi en ekki nógu afgerandi til að vera rothögg á mótframbjóðandann. Davis heldur því áfram af krafti í lokabardagann. Við tekur nú sex vikna slagur milli Cameron og Davis um hylli flokksmanna. Ef marka má yfirlýsingar leiðtogaefnanna verður sú barátta mjög hörð. Munu um 300.000 flokksfélagar í breska Íhaldsflokknum nú fá lokavaldið í hendurnar um hvor Davíðinn í forystusveit þeirra David – Cameron eða Davis taki við valdataumunum í flokknum.

Þetta er vissulega nokkuð merkileg þróun í breska Íhaldsflokknum sem átt hefur sér stað í þessum mánuði. Lengi vel var Cameron talinn djarfur að leggja í leiðtogaslaginn og lengi vel talinn algjör outsider í slagnum. Hann hafði enda aðeins setið á þingi í fjögur ár er hann lýsti yfir leiðtogaframboðinu og barðist lengi vel á móti miklum straumi innan flokksstofnana og talinn vera með vonlaust framboð. Davis hafði yfirburðastöðu lengi vel og talið um tíma að slagurinn stæði milli hans og Clarke. Nú er Clarke fokinn burt og stjórnmálaferli hans augljóslega lokið að loknu þessu kjörtímabili. Skjótt skipast því veður í lofti í leiðtogapólitík íhaldsmanna. Það er allavega hægt að orða það þannig að leiðtogi hafi fæðst á flokksþinginu í Blackpool. Þar urðu þáttaskilin – Cameron talaði til flokksmanna með miklum fítonskrafti – algjörlega blaðlaust og þótti öflugur meðan að Davis þótti flytja hundleiðinlega ræðu af blöðum. Munurinn þótti sláandi – síðan hefur Cameron leitt slaginn og sífellt bætt við forskotið.

Aldursmunurinn á milli Davis og Cameron er nokkur. Davis er jafngamall Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, fæddur árið 1948. Cameron er um fertugt, fæddur árið 1966 – maður nýrra tíma semsagt. Þau þáttaskil eru í þessu kjöri að þarna takast á nýji og gamli tíminn í breska Íhaldsflokknum - í fyrsta skipti í mörg herrans ár. Margir telja að flokkurinn sé að ganga í gegnum kosningu, ekki bara um stefnu sína og strauma, heldur um það í hvaða átt hann vilji sækja með nýjum leiðtoga. Hvort hann eigi bara að lúkka vel eða eigi að vera hugsjónapólitíkus. Það er því í raun tekist á um framtíðarsýn leiðtoganna, bæði fyrir Íhaldsflokkinn og sig sem leiðtogaefnið inn í framtíðina. Michael Howard mun gegna leiðtogastöðunni í breska Íhaldsflokknum allt til 6. desember nk. Þann dag munu úrslitin úr póstkosningunni milli Davis og Cameron liggja fyrir. Hans hlutverk er þó að mestu formlegt nú, enda er sviðsljós allra nú á leiðtogaefnunum sem berjast um að hljóta sess hans innan flokksins.

David Cameron

Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrr á árinu. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram.

Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Cameron er því rétti maðurinn að mínu mati fyrir íhaldsmenn. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!

Saga gærdagsins
1728 Mikill eldur kom upp í Kaupmannahöfn - þar brann stór hluti bókasafns Árna Magnússonar.
1905 Landsdómur stofnaður til að dæma í málum gegn ráðherrum fyrir brot á stjórnarathöfnum - allt frá stofnun dómsins hefur hann aldrei komið saman, enda ekki þótt neitt tilefni að svo skyldi vera.
1968 Jacqueline Bouvier Kennedy fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ekkja John F. Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, giftist milljarðamæringnum Aristotle Onassis í Grikklandi - brúðkaup þeirra olli mjög miklum deilum. Það var ástlaust að mestu, en entist til andláts Onassis 1975 - Jackie lést 1994.
1973 Óperuhúsið í Sydney formlega tekið í notkun - ein glæsilegasta menningarbygging sögunnar.
1989 Borgarleikhúsið í Reykjavík var vígt - það var 13 ár í byggingu og var um 10.000 fm. að stærð.

Saga dagsins
1916 Pétur Ottesen, 28 ára bóndi, var kjörinn á þing fyrir Borgfirðinga - Pétur sat á þingi samfellt í 43 ár, er hann lét af þingmennsku 1959 hafði hann setið á þingi lengst allra sem þar hafa tekið sæti.
1933 Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um afnám bannlaganna - 15.866 greiddu atkvæði með afnámi en 11.625 greiddu atkvæði á móti tillögunni. Áfengisbann var svo formlega afnumið hinn 1. febrúar 1935.
1944 Ríkisstjórn Ólafs Thors, Nýsköpunarstjórnin, tók formlega við völdum - Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn áttu aðild að henni. Hún sat að völdum í rúmlega þrjú ár. Meginmarkmið hennar var nýsköpun atvinnulífsins og uppbygging eftir seinni heimsstyrjöldina.
1961 Bjarni Jónsson vígslubiskup og fv. forsetaframbjóðandi, varð fyrsti heiðursborgari í Reykjavík.
1998 Útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, fór fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík - þjóðhöfðingjar Norðurlandanna voru viðstaddir jarðarför forsetafrúarinnar. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands flutti hugljúfa minningarræðu um hana, en hann jarðsöng. Ríkisstjórn Íslands bar kistu hennar úr kirkju. Að afhöfninni lokinni var kista forsetafrúarinnar flutt í Fossvogskapellu þar sem bálför fór fram. Duftkeri forsetafrúarinnar var komið fyrir í Bessastaðakirkju skömmu eftir útförina.

Snjallyrðið
Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
Íslands er það lag.

Eða fugl í eyjum kvaka,
undir klöpp og skútar taka:
Íslands er það lag.
Heyrið brim á björgum svarra,
bylja þjóta svipi snarra:
Íslands er það lag.

Og í sjálfs þín brjósti bundnar
blunda raddir náttúrunnar:
Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði og eins í harmi
ymur Íslands lag.
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) (Íslandslag)

Þetta þjóðlega og kraftmikla ljóð Gríms Thomsens snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Þetta er fallegra en orð fá lýst. Þetta fagra ljóð var svo fært í unaðslegan búning við lag Björgvins Guðmundssonar. Stórfenglegt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband