Engin fyrirsögn

Gerhard SchröderDr. Angela Merkel

Stjórnmálaferli þýska kratans Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, lýkur bráðlega. Hann mun láta af kanslaraembætti um miðjan nóvembermánuð þegar að Angela Merkel leiðtogi CDU, tekur við embættinu í stóru samsteypu, ríkisstjórn krata og íhaldsmanna. Schröder flutti ræðu á þingi verkalýðsfélaga í heimabæ sínum Hanover í gær og var þar hylltur sem þjóðhetja. Þar lýsti hann því yfir formlega sem flestir vissu en hafði ekki verið sagt hreint út áður af honum sjálfum: að hann myndi ekki taka sæti í stjórn Merkel. Hann var klökkur er hann flutti ræðu sína og þurfti margoft að gera hlé á máli sínu til að taka við fagnaðaróskum stuðningsmanna sinna í verkalýðsstétt. Schröder hefur alltaf verið vinsæll í heimahéraði sínu, en flokkur hans missti þó völdin þar í héraðskosningum eins og víða um landið. En Schröder hefur alltaf verið vinsæll sem karakterpólitíkus heima fyrir.

Þáttaskil verða í þýskum stjórnmálum við brotthvarf Schröders. Hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Hann vann nauman sigur í kosningunum 2002. Lengi vel þeirrar kosninganætur var útlit fyrir að Schröder missti völdin en fylgisaukning græningja undir lok talningarinnar gerði það að verkum að stjórnin hélt velli. Schröder háði erfiðan slag seinustu misseri valdaferils síns. Hann neyddist til að boða til kosninga í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí. Alla kosningabaráttuna var Schröder að spila pólitíska vörn og sótti fram gegn keppinaut sem hafði markvisst forskot í könnunum.

Tókst honum að saxa verulega á fylgismuninn. Úrslit kosninganna voru viss varnarsigur fyrir kratana, en engu að síður náði hann ekki að halda stöðu sinni. Stjórnin féll og með því féll yfirburðastaða hans í þýskum stjórnmálum. Fljótt varð ljóst eftir kosningarnar að Schröder gæti ekki tekist að halda kanslarastólnum nema sækjast eftir samstarfi við íhaldsmenn. Á þeim bænum kom aldrei til greina að krati leiddi stjórnina, síst af öllu Schröder. Merkel sóttist eftir stólnum, enda voru kristilegir demókratar með stærri þingflokk en kratarnir. Svo fór að kratarnir urðu að fórna Schröder. Greinileg eftirsjá er á honum við þessi þáttaskil, en nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um þennan litríka stjórnmálaleiðtoga þýskra krata. Við Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Að kvöldi mánudags skrifaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, um dóm Hæstaréttar í svokölluðu Baugsmáli, á vef sinn. Þar sagði svo: "Stórfrétt dagsins er að sjálfsögðu niðurstaða hæstaréttar í kærumálinu vegna Baugs. Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Lögheimildir eru til þess, að ákæruvaldið taki mið af því, sem fram hefur komið hjá hæstarétti við frekari ákvarðanir um framhald málsins." Þessi sakleysislegu orð ráðherrans urðu til þess að allt stjórnmálalitróf stjórnarandstöðunnar tók kast á þriðjudeginum og þingmaður Framsóknarflokksins sagðist reyndar ekki taka ábyrgð á verkum ráðherrans. Sannarlega undarleg viðbrögð og kostulegt hvernig stjórnarandstaðan talaði. Var hún hneyksluð á orðavalinu og sagði að ráðherra væri vart sætt. Fóru þingmenn Samfylkingar, lögfræðingarnir Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður flokksins, mikinn í ræðustóli Alþingis eftir hádegið á þriðjudeginum.

Segja má að umfjöllunin hafi verið einn allsherjarstormur í litlu vatnsglasi. Ruku þessir þingmenn upp til handa og fóta og urðu sér til minnkunar með því að reyna að koma höggi á dómsmálaráðherra. Svo fór þó að þeir samfylktu félagar sem börðust fyrr á árinu um varaformennsku flokksins, fóru sneyptir frá þeirri för sinni að reyna að vega að Birni. Greinilegt var á öllum umræðunum að málshefjendur hefðu varla lesið dóm réttarins eða gert tilraun til að skilja skrif Björns á vef sínum. Var gleðiefni hvernig þingmennirnir og lögfræðingarnir Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar, og Sigurður Kári Kristjánsson tóku málflutning samfylkingarmannanna og sneru honum glæsilega upp. Eins og vel kom fram í umræðunni segir í dómi réttarins nákvæmlega það sama og kom fram í máli dómsmálaráðherra. Þetta var því sneypuför hin mesta hjá þingmönnunum, svo vægt sé til orða tekið.

Fannst mér sérstaklega ómerkilegt hvernig formaður VG, hinn mikli skapmaður frá Gunnarsstöðum, tók málið fyrir og gerði að umtalsefni utanferð ráðherrans sama dag. Fór hann til útlanda vegna starfa sinna og gat því auðvitað ekki svarað fyrir sig á þingi þennan dag. Fannst mér ummæli Steingríms J. um Björn og ferð hans fyrir neðan virðingu hans. En eftir stendur hversu málið var illa unnið hjá andstöðunni. Þar átti að slá greinilega pólitískar keilur með utandagskrárumræðu til að reyna að klekkja á ráðherranum. Svo fór ekki - málið snerist í höndum stjórnarandstæðinganna. Í raun má segja að þessi sneypuför beri allt bragð pólitísks vindhöggs - aðra einkunn geta þessar aðfarir þeirra ekki hlotið.

Edda Heiðrún Backman

Í kvöld ræddi Eyrún Magnúsdóttir við Eddu Heiðrúnu Backman leikstjóra og leikkonu, í vönduðu og heilsteyptu viðtali í dægurmálaþættinum Kastljósi. Þar ræddi Eyrún við Eddu Heiðrúnu um listina miklu og sanna lífsbaráttu. Ég varð mjög snortinn að horfa á Eddu Heiðrúnu tala opinskátt um veikindi sín, en hún greindist á síðasta ári með MND-hrörnunarsjúkdóminn. Leiddu veikindin til þess að hún varð að hætta alfarið leik. Hóf hún leikstjórn í kjölfarið og hefur leikstýrt nokkrum leikverkum seinustu tvö árin. Áður hafði Edda Heiðrún sýnt og sannað að hún var ein besta leikkona sinnar kynslóðar. Hafði hún hlotið bæði Eddu- og Grímuverðlaunin fyrir leik sinn skömmu fyrir veikindin. Talaði Edda Heiðrún um þessi alvarlegu veikindi eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Dáðist ég að styrk hennar og krafti. Lítur hún á veikindin eins og hvert annað verkefni sem takast þarf á við í lífinu. Er viðhorf hennar og styrkur aðdáunarverður, svo hreint út sé sagt. Hún er mjög öflugur talsmaður fyrir þá sem þurfa að eiga við þennan sjúkdóm, sem er algjörlega dauðans alvara og hefur áhrif jafnt á þann sem veikist og þá sem nærri standa. En Eyrún ræddi við Eddu Heiðrúnu með næmum og góðum hætti og viðtalið var virkilega gott. Það dró fram hliðar sem þurfa að koma fram og heyrast hvað varðar fólk sem berst við þennan lífshættulega sjúkdóm. Edda Heiðrún er mjög öflug og styrk kona og hefur jafnan verið þekkt fyrir það. Segja má að þessir kostir hennar komi vel fram nú í þessu veikindastríði hennar.

Frú Guðrún Katrín Þorbergsdóttir

Þegar forsetaferill núverandi forseta Íslands verður rakinn síðar meir af sagnfræðingum framtíðarinnar mun vonandi aldrei gleymast framlag Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, fyrri konu hans, í öllum verkum hans og í sögu þessa embættis. Guðrún Katrín var forsetafrú fyrstu tvö ár forsetaferils Ólafs Ragnars, en hún lést úr hvítblæði, á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, á þessum degi fyrir sjö árum, á köldum haustdegi hér á Íslandi. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir hafi verið hinn sanni sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún kom, sá og sigraði. Framlag hennar í sigrinum þá var mikill og hún markaði sér spor í sögu þessa embættis, þó hennar nyti við alltof skamma stund.

Ég gleymi aldrei þegar Guðrún kom hingað á listaviðburð í apríl 1998, skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana því miður að velli síðar sama ár. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar, sem reyndi mjög á hana og fjölskyldu hennar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi. Framlag Guðrúnar Katrínar í þessari erfiðu baráttu skiptu því fleira máli en þá sem næst henni stóðu. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu. Guð blessi minningu hennar.

Sjálfstæðisflokkurinn

36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á morgun. Ber hann yfirskriftina: Hátt ber að stefna. Í dag opnaði svo ný heimasíða Sjálfstæðisflokksins. Er þar um að ræða glæsilegan vef, góða upplýsingaveitu um starf flokksins og verkefnin framundan á vegum hans. Þáttaskil verða auðvitað í flokknum á þessum landsfundi. Formaður flokksins hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs og við blasir að núverandi varaformaður gefur ekki kost á sér til varaformennsku. Það eru því miklar breytingar sem verða og ljóst að allavega verða miklar breytingar á forystusveitinni og miklar áskoranir framundan fyrir þessa nýju forystu.

Saga dagsins
1905 Verzlunarskóli Reykjavíkur, sem nú ber heitir Verzlunarskóli Íslands, tók formlega til starfa.
1918 Eldfjallið Katla gaus eftir tæplega 60 ára hlé. Var kraftmikið gos, hið mesta á Íslandi á 20. öld.
1962 Kvikmyndin 79 af stöðinni, byggð á skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, var frumsýnd. Var fyrsta mynd okkar í fullri lengd og skartaði Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld í aðalhlutverkum.
1984 IRA reynir að ráða Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, og aðra forystumenn breska Íhaldsflokksins, af dögum í sprengjutilræði í hóteli í Brighton þar sem landsfundur íhaldsmanna var haldinn. Mjög litlu munaði að Thatcher og eiginmaður hennar, Denis Thatcher, létu lífið í árásinni.
1998 Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú, lést á sjúkrahúsi í Seattle í Bandaríkjunum, 64 ára
að aldri. Guðrún Katrín varð forsetafrú 1996 og hafði mikið persónufylgi þann stutta tíma sem hún
var við hlið forsetans á embættistíma hans. Er almennt litið svo á að hún hafi haft mikil áhrif á það að hann hlaut kjör til embættisins. Guðrún Katrín greindist með hvítblæði 1997 og barðist hetjulegri baráttu gegn því uns yfir lauk. Við útför hennar voru viðstaddir allir þjóðhöfðingjar Norðurlandanna.

Snjallyrðið
Þar sem englarnir syngja sefur þú.
Sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú.
Að ljósið bjarta skæra.
Veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljóss.
Lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert, mín lífsins rós.
Tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól.
Lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta.
Vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál.
Svala líknarhönd.
Og slökk þú hjartans harmabál.
Slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Kveðja)

Eitt af fallegu og táknrænu ljóðunum hans Bubba - í þessu ljóði er sönn tilfinning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband