Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fór um helgina. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sigraði Gísla Martein Baldursson í baráttunni um leiðtogasætið á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Konur hlutu góða kosningu og er jöfn skipting kvenna og karla í tíu efstu sætum framboðslistans. Það er enginn vafi á því að þetta prófkjör hefur styrkt mjög grunnstoðir flokksins í borginni – tryggt líf og snerpu í innra starfið sem menn búa að nú þegar að kosningabaráttan hefst. Nú er prófkjörinu lokið. En með því er baráttan aðeins rétt að byrja. Stærstu átökin - þau mikilvægustu - eru eftir nú. Borgin verður að vinnast með sannfærandi og öflugum hætti. Nú er mikilvægt að allir sjálfstæðismenn, ungir sem gamlir, sameinist í lykilverkefni: tryggja öflugan og góðan sigur í kosningum. Tryggja að þessi góði listi verði sú sigursveit sem við flokksfólk erum öll sannfærð um að hann sé. Andstæðingar eiga erfitt með að tala nú þegar listinn liggur fyrir. Hann er svo sterkur – umfram allt kraftmikill – að andstæðingarnir eiga ekki mörg góð svör við honum.

- í öðru lagi fjalla ég um pólitísk vandræði George W. Bush og Tony Blair – sem horfðust í augu við áföll á pólitísku sviði heima fyrir í vikunni sem leið. Bush þurfti í vikunni að horfast í augu við sitt lægsta persónufylgi á tæplega fimm ára forsetaferli – jafnframt eitt lægsta fylgi sem sitjandi forseti Bandaríkjanna hefur haft. Er hann þar að mælast með svipað fylgi og Nixon mældist með á þeim tíma sem hann var á leið til pólitískrar glötunar í miðju Watergate-málinu. Það er alveg óhætt að fullyrða að Bush forseti sé nú að glíma við mestu erfiðleika sína til þessa á forsetaferlinum. Ekki aðeins mælist persónulegt fylgi hans lágt heldur hafa nánir samstarfsmenn hans flækst í hneykslismál og rannsókn á því hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög. Á sama tíma er Blair í vandræðum. Einn nánasti samstarfsmaður hans, David Blunkett, neyddist til að víkja vegna hneykslismála og mál hans eru föst í þinginu og blokkeruð af andstæðingum hans innan eigin flokks.


Fullkomið brúðkaup

Fullkomið brúðkaup

Í gærkvöldi fór ég á miðnætursýningu í leikhúsið á hinn frábæra farsa, Fullkomið brúðkaup, eftir Robin Hawdon. Um er að ræða drepfyndinn og rómantískan farsi um brúðkaupsdag sem fer á annan endann. Sýningin hafði hlotið frábærar viðtökur, bæði frá gagnrýnendum og áhorfendum, og því höfðum ég og fleiri vinir mínir áhuga. Skelltum við okkur á sýningu sem hófst kl. 23:30. Þá voru línurnar orðnar ljósar í prófkjörinu í borginni og upplagt að fara í leikhúsið og líta á verkið. Hafði ég ætlað að fara í síðasta mánuði en varð að hætta við. Hefur verið svo mikil eftirspurn að bæta varð við fjölda aukasýninga og gafst mér þá og vinafólki mínu færi á að skella sér. Var þetta alveg frábær kvöldstund - mikið hlegið og mikið gaman. Í stuttu máli sagt er söguþráðurinn með þessum hætti: "Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni á hótelherbergið, það er í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað..."

Fullkomið brúðkaup er alveg stórfenglegt verk - virkilega vel skrifað og hratt stykki sem allir ættu að hafa sannkallað gaman af. Þetta var alveg frábært kvöld í leikhúsinu - maður hlær frá upphafi til enda. Sérstaklega fer biskupssonurinn Guðjón Davíð Karlsson á kostum í hlutverki hins einstaklega seinheppna brúðguma. Álfrún Örnólfsdóttir er stelpan í rúminu sem hann veit ekkert hver er - en á svo sannarlega eftir að valda einhverjum furðulegasta degi í lífi brúðgumans, brúðarinnar og öllum sem nærri koma. Jóhannes Haukur Jóhannesson er svo frábær í hlutverki vinar brúðgumans, sem kemur honum til bjargar með ófyrirséðum afleiðingum. Esther Thalia Casey leikur svo brúðina sem telur sig eiga í vændum sæluríkasta dag ævi sinnar en lendir í atburðarás sem sífellt spinnur upp á sig. Senuþjófur sýningarinnar er að mínu mati Maríanna Clara Luthersdóttir sem fer algjörlega á kostum í hlutverki herbergisþernunnar á hótelinu. Gamli góði meistarinn Þráinn Karlsson fer svo enn einu sinni á kostum - að þessu sinni sem faðir brúðarinnar.

Höfundur verksins er sá sami og samdi leikritið Sex í sveit. Það er vinsælasta sýning Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi - algjörlega ógleymanleg sýning sem mér er í fersku minni. Sjaldan hef ég allavega hlegið meira en þá. Nema ef vera skyldi í gærkvöldi. Þetta var mikið fjör - hláturkirtlarnir voru allavega í essinu sínu í gærkvöldi. Var salurinn alveg í hláturkrampa allt frá upphafi til enda. Leikstjóri verksins er Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri. Þýðingu annaðist Örn Árnason leikari. Er vægt til orða tekið að honum hafi tekist vel upp. Hvet ég alla Norðlendinga til að reyna að komast á aukasýningarnar og sjá þetta frábæra verk. Sjón er sögu ríkari - verkið er allavega lykill að góðri kvöldstund.

Hvet ég alla til að hlusta á titillag verksins: Steggur og gæs - sungið af aðalleikurunum Guðjóni Davíð og Esther Taliu. Höfundur lags er Björn Jr. Friðbjörnsson, en textann samdi Hallgrímur Helgason. Lagið var samið sérstaklega fyrir þessa sýningu. En allavega gærkvöldið var allavega í senn bæði mjög hressilegt og ánægjulegt.

Saga dagsins
1900 William McKinley endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - var myrtur 6. sept. 1901 í New York.
1968 Richard Nixon kjörinn forseti Bandaríkjanna - náði naumum sigri gegn Hubert Humphrey.
1983 Þorsteinn Pálsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í stað Geirs Hallgrímssonar sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þorsteinn var formaður flokksins í rúm sjö ár. Hann tapaði fyrir Davíð Oddssyni í formannskjöri 1991. Hann var fjármálaráðherra 1985-1987, forsætisráðherra 1987-1988 og sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra 1991-1999. Þorsteinn var sendiherra í Danmörku árin 1999-2005.
1996 Bill Clinton endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - sigraði Bob Dole með mjög afgerandi hætti.
1999 Ástralir ákveða í kosningu að hafna sjálfstæði og vera áfram í konungssambandi við Bretland.

Snjallyrðið
The only real prison is fear, and the only real freedom is freedom from fear.
Aung San Suu Kyi friðarverðlaunahafi Nóbels (1945)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband