Ungliðar gagnrýna yfirlýsingar frjálslyndra

Forsvarsmenn ungliðahreyfinga í öllum stjórnmálaflokkum nema Frjálslynda flokknum hafa sent frá sér ályktun og gagnrýnt þar yfirlýsingar Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns Frjálslyndra, um innflytjendamál. Þeir lýsa vonbrigðum með þá ákvörðun nokkurra forystumanna Frjálslyndra að ala á trúarbragðafordómum og tortryggni í garð útlendinga í tilraunum sínum til að auka fylgi flokks síns.

Þetta er góð og öflug ályktun sem mikilvægt var fyrir ungliðahreyfingar fjögurra stærstu flokka landsins að senda frá sér og ég fagna henni, enda skrifaði ég ítarlegan pistil um málið í gær á vef SUS og lét í ljósi sömu skoðanir á málinu.

Ályktun ungliða


mbl.is Lýsa yfir vonbrigðum með trúarbragðafordóma meðal Frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, Stebbi. Er þetta eitthvert nýtt hræðslubandalag ungliða? Og hvernig datt þeim í hug að tala í þessari ályktun sinni um "ákvörðun nokkurra forystumanna í Frjálslynda flokksins að ala á trúarbragðafordómum." Þau orð voru hvergi studd neinum rökum né tilvitnunum í ályktun ungliðanna. Eru þeir kannski sjálfir ráðnir í því að ala á fordómum gegn þeim, sem vilja ræða þessi mál? "Ákvörðun" um að "ala á ..." eru afar stór orð þarna -- ætla Frjálslyndum greinilega illan ásetning.

Blaðs-grein Jóns Magnússonar var virðingarverð, skýr og tímabær, og Magnús Þór Hafsteinsson hefur komið mjög vel fram í þessu máli, kurteislega og rökvíslega (ég var einn fárra á áheyrendapöllum þingsins í dag); kynþáttahaturs-ásökun nýkratískra ýkjuafla var loftið tómt. Að gleypa við stöðluðum svörum félagsmálaráðherra er eins og að láta bjóða sér steina fyrir brauð. Þeir hafa ekkert verið að gera í þessum málum, ríkisstjórnarflokkarnir, þrátt fyrir hátíðleg orð, t.d. um íslenzkukennsluna, sem þeir vanrækja nær algerlega. Þetta er allt í nösunum á þeim, "samráðið" við ASÍ og verkalýðsfélögin meðtalið. Og heyrðirðu í Gerði G....dóttur í Speglinum í kvöld? (Ef ekki, verður hún aftur á 1. tímanum á Rúvinu í nótt.) Mér finnst leitt að svo ágætur maður sem þú taki (sennilega fyrir algera yfirsjón) þátt í yfirhylmingunni sem hefur verið í gangi þessa dagana varðandi þessa ríkisstjórn sem hefur með svo sorglegum hætti vanrækt þessi mál, útlendingana í landinu og börnin þeirra sem og ófaglærða Íslendinga á vinnumarkanum, sem nú fá í vaxandi mæli að upplifa launafall í stað launaskriðs. Og neitaðu því ekki.

Endanlega rothöggið á "fordóma"-yfirlýsingarnar gefur svo ríkisstjórnin sjálfri sér og vinum sínum með þeirri tilkynningu félagsmálaráðherra í þinginu í dag, að Ísland muni notfæra sér undanþáguákvæði vegna Rúmena og Búlgara, hinna nýju ESB-þjóða, til ársins 2009 a.m.k. Það sem í gær og fyrradag hétu "fordómar" (að vilja útiloka nokkra), það er stjórnarstefna dagsins í dag. En af því geturðu séð það, vinur minn, að meint upphlaup Magnúsar Þórs var vissulega þjóðinni til gagns og náði að hreyfa hér við einhverju þyngslalegasta fyrirbæri landsins: ríkisstjórninni.

Jón Valur Jensson, 7.11.2006 kl. 21:56

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Mér finnst sjálfsagt að ræða þessi mál af yfirvegun og rólegheitum. Mér fannst Magnús Þór fullákafur í þætti Egils á sunnudaginn og hann hefði getað leyft þeim sem voru með honum í þættinum allavega að tala án þess að grípa endalaust fram í. Þetta er framkoma sem mér líkar ekki.

Eftir að Magnús Þór skrifaði fyrir tæpum þrem árum að það ætti að sprengja mig til helvítis (svo nákvæmt orðalag sé notað) og reyndar Björn Bjarnason og Halldór Blöndal með, ber ég enga virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni og ég vona að honum verði hent út af þingi í næstu kosningum. Fyrir honum ber ég enga virðingu.

Annars er honum auðvitað frjálst að hafa skoðanir og tala fyrir þær. Hann er ekki umboðslaus í sínum störfum. Fólk kaus hann á þing, en það er ekki þar með sagt að allir verði að vera sammála honum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.11.2006 kl. 00:11

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mér er sagt að Magnús Þór hafi verið í erfiðu þreytu- og svefnleysisástandi þegar hann lét þessa vitleysu sína flakka (sem hneyklslaði mig líka). En síðan hefur hann staðið sig býsna vel og á alveg virðingu mína fyrir ýmislegt á liðnum mánuðum. Það á ekki að láta menn gjalda eilíflega einna ummæla, sem þar að auki voru greinilega ekki mælt í alvöru. En ég get svo sem mætavel skilið þig, ef hann sagði þetta beinlínis um þig sjálfan -- þú lítur hann ekki réttum augum næsta áratuginn, það er ljóst. En í þeim orðum mínum felst líka sannleiki í meira en bara einfaldri merkingu. -- Svo má ég nú til með að benda þér á það, að með þessu svari þínu tókst þér 100% að sniðganga innleggið mitt hér ofar -- þú ert ekkert að ræða málefnið, sem þar er til umræðu, en ég á svo sem von á því, að þú gerir það fljótlega. -- Með góðum óskum.

Jón Valur Jensson, 8.11.2006 kl. 00:37

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

PS. Ég sá ekki Silfraða þáttinn með Agli. Þetta kann að skýra mismunandi sjónarmið okkar -- nema þú hafir horft á hann í sérstöku "ljósi" reynslu þinnar.

Jón Valur Jensson, 8.11.2006 kl. 00:44

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

 

Þetta er ályktun ólíkra ungliðahreyfinga, með ólíkar grunnskoðanir í stjórnmálum og hafa oft tekist á í skoðunum á fjölda vettvanga. Þessi ályktun er í nafni forystumannanna sem auðvitað tjá sig í nafni þeirra ungliðahreyfinga sem þeir leiða. Ég lít svo á að þau séu að tjá sínar skoðanir á þessum ummælum frá frjálslyndum, það vekur vissulega athygli að þau séu jafnsamhent og raun ber vitni.

Það ber að minnast á það að Jón Magnússon er fyrrum formaður SUS og það vekur vissulega athygli að SUS standi að ályktun gegn skrifum og skoðunum fyrrum formanns síns, sem hefur reyndar fyrir margt löngu gengið úr flokknum og reynt við margan vettvang fyrir skoðanir sínar. Hann setur skoðanir sínar fram í sínu nafni og ég veit ekki betur en að Jón sé dagfarsprúður maður sem er þekktur fyrir stillingu.

Ég hef svosem sagt það sem mér finnst um þessi mál. Ég get ekki annað en talað fyrir mig. Ég hef ekki farið leynt með það að ég tel að regluramminn verði að vera vel til staðar og að innflytjendur verði að aðlaga sig að íslensku samfélagi, læra íslensku og lifa í samfélaginu sem það kemur í. Það verður að aðlaga sig samfélaginu en ekki öfugt. Það er allavega mitt mat.

Heilt yfir hefur hver frelsi til að hafa skoðanir og láta þær í ljósi. Aldrei geta þó allir verið sammála og það er eins og það er bara. Ég hef ekki alltaf verið ósammála Magnúsi Þór, en hann er bara eins og hann er og það er best að ég tjái mig ekki meira um hann persónulega. Ég hef það sem okkar hefur farið á milli fyrir sjálfan mig, en fyrir honum ber ég enga virðingu.

Það er mjög einfalt mál og til vansa fyrir Frjálslynda flokkinn að hafa mann af hans tagi, sem enga stjórn hefur á skapi sínu í forystusveit.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.11.2006 kl. 01:58

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jú, ég held hann Magnús Þór hljóti nú að hafa nokkra stjórn á sjálfum sér, ekki missti hann sig í ræðustóli í gær þrátt fyrir mikla gagnrýni á hann og mjög ósanngjarnar árásir á köflum eins og frá Guðrúnu Ögmundsdóttur (ég sat þarna sjálfur og hlustaði á það allt).

En þakka þér svarið, Stebbi, þetta var ágætt. Verð bara að bæta því við, að ég tek undir létta undrun þína á því, hve langt ungliðahreyfingarnar gengu -- já, "það vekur vissulega athygli að þau séu jafnsamhent og raun ber vitni" með því meðal annars að tala í þessari ályktun sinni um "ákvörðun nokkurra forystumanna í Frjálslynda flokksins að ala á trúarbragðafordómum." Þessu var sennilega beint gegn Jóni Magnússyni vegna fyrri greinar hans í Blaðinu, en önnur birtist þar eftir hann í dag, með ýtarlegri umfjöllun um afstöðu hans til Islams annars vegar og öfgakennds islamisma hins vegar, og getum við ekki alveg tekið undir það sem hann segir þar? -- Jón er skýr maður og enginn veifiskati, hygginn og laus við öfgar í þessum málum.

Jón Valur Jensson, 8.11.2006 kl. 10:20

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

SUS-grein þín endar á þessum orðum: "Ég verð aldrei þessu vant að taka undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í skrifum á vef hennar. Strategía Frjálslyndra er að reyna að koma sér frá skelli í kosningunum með því að reyna að hala sig inn á þessari áherslu. Það blasir við öllum sem sáu Silfur Egils í gær. Það er ýmislegt svosem alltaf reynt í lífróðri í pólitík. Það gildir um Frjálslynda flokkinn eins og flest annað greinilega."

Já, Stebbi, reyna ekki allir flokkar að hala inn fylgi, stundum með einföldum brögðum, jafnvel þvert gegn heilbrigðri skynsemi? Hvað með kúvendingu ríkisstjórnarinnar -- þrátt fyrir alla þá þenslu sem nú ríkir (eins og Davíð sagði á Seðlabankafundinum í gær eða fyrradag, þvert á móti orðum Geirs í Alþingi) -- sem sneri við sinni ákvörðun um að draga úr þenslu með því að skera niður framlög til vegamála? Var sú ákvörðun nokkuð annað en tækifærismennska til að vinna næstu kosningar? Reyndar finnst mér afleitt að skera niður einmitt í vegamálum, nema hvað Héðinsfjarðargöng hefðu auðvitað átt að bíða fram yfir núverandi þenslutímabil, og svo er um fleiri verkefni á ýmsum sviðum. Það er einmitt þenslan sem er aðalástæðan fyrir því ójafnvægisástandi sem nú ríkir á vinnumarkaði og í innflytjendamálum. En auðvitað kannast ríkisstjórnin ekki við ábyrgð sína -- stöðvar jafnvel ekki fráleit áform um að þrefalda Straumsvíkurverksmiðjuna!

Og hvað var svo ákvörðun ríkisstjórnarinnar í gær, um að við notum okkur undanþáguákvæði vegna Rúmena og Búlgara, a.m.k. til ársins 2009, annað en skelfingu lostin tillitssemi við okkar blessuðu kjósendur, úr því að straumurinn liggur til Frjálslyndra?!

Jón Valur Jensson, 8.11.2006 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband