Turnarnir þrír - örlagatímar Sjálfstæðisflokksins

Könnun Gallups markar nýtt pólitískt landslag með þrem álíka stórum turnum sem gnæfa yfir. Framsókn bætir engu við sig og Frjálslyndir hverfa. VG nær traustri stöðu við hlið Samfylkingarinnar, sem er nú byrjuð að dala líka. Ég er ekki hissa á því að fylgið hrynji nú af Sjálfstæðisflokknum. Rétt eins og hann var leiðandi afl í góðærinu og treyst fyrir forystu þegar allt lék í lyndi er honum kennt um þegar allt fer á versta veg. Ef honum tekst ekki að byggja upp traustar undirstöður fljótlega og færa þjóðinni trausta forystu fær hann þungan skell.

Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tryggðu Sjálfstæðisflokknum góðan kosningasigur fyrir einu og hálfu ári og voru sterkt forystupar, nutu þess að stöðugleiki var í landinu og fólk treysti þeim best fyrir því að færa okkur trausta forystu. Aðstæður hafa breyst og pólitísk staða þeirra beggja veikst til mikilla muna. Þau eiga mikið undir því að þessi ríkisstjórn haldi velli og hún geti fært þjóðinni forystu sem skiptir máli. Mikið hefur vantað á það að undanförnu - tilraunir til að fegra stöðuna um of hafa mistekist hrapallega.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur í gegnum erfiða tíma í kreppunni. Á þeim bæ þarf að líta í kringum sig, tala við baklandið og horfast í augu við framtíðina. Þessi könnun eru skilaboð sem forysta Sjálfstæðisflokksins verður að horfast í augu við. Flokkurinn þarf að flýta landsfundi sínum, gera upp mistökin á síðustu mánuðum, sem blasa við öllum, og horfa til framtíðar. Auk þess þarf að kjósa sterka forystu til framtíðar.

Geir og Þorgerður Katrín fengu traust umboð á síðasta landsfundi og þurfa nú að tala við baklandið í flokknum - marka stefnu í gegnum þessa örlagaríku tíma og leitast við að fá endurnýjað umboð flokksmanna. Mikilvægt er að þau horfist í augu við baklandið og bæði leiti þar ráða og fá styrk til verka áfram. Mjög margt hefur breyst. Í Sjálfstæðisflokknum þarf að horfast í augu við að pólitíska landslagið breytist nú.

Þetta eru örlagatímar, ekki aðeins í efnahagsmálum heldur og mun frekar í stjórnmálasögu landsins. Mikilvægt er að allir flokkar færi þjóðinni trausta forystu og tali við baklandið sitt nú. Þeir sem ekki gera það eiga ekki von á góðu.


mbl.is Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Stefán

Ég er sjálfstæðismaður til yfir 30 ára og verð að segja að ég hef aldrei séð það svona svart. Við getum ekki stungið höfðinu lengur í sandinn! Þessi könnun var gerð áður en bankarnir fóru á hausinn. Á skrifstofunni, sem ég stýri eru 14 manns og þar af eru 10 sjálfstæðismenn. Það ætlar enginn nema ég að kjósa flokkinn núna!

Ég held að Geir þurfi að leita ráða, því Þorgerður Katrín veit um hvað þetta snýst. Ef við höldum ekki landsfund í janúar og styðjum ekki ESB aðildarviðræður fyrir næstu kosningar, sem eru ekki langt undan, ef marka má ræðu utanríkisráðherra í morgun, þá erum við búnir að vera og flokkurinn fer niður í 10-15%.

Breytist afstaða okkar ekki mun innan nokkurra vikna eða mánuða verður stofnaður nýr flokkur: Nýi Sjálfstæðisflokkurinn. Hann verður stofnaður til höfuðs þess gamla og hann fær þá sennilega 10-15%. Síðan fer sá nýi með Samfylkingunni inn í ESB.

Þessu er hægt að bjarga ef menn vakna strax til lífsins. Minn ótti er að flokkurinn þurfi að fara í gegnum eitthvað auðmýkingartímabil áður en menn átta sig á hvað er að gerast. Það hefur sýnt sig á ummælum Árna Johnsen um færeyska krónu, Birgi Ármanns um að frysta ekki eigur auðmanna, Sigurðar Kára um opinbera starfsmenn og vín í kjörbúðir að það vantar algjörlega jarðtenginguna í ráherrana og þingflokkinn!

Góð samlíking þetta með turnana og þar er einmitt okkar fólk núna!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.10.2008 kl. 20:34

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Geir verður að fara, ásamt fleirum auðvitað, en samt aðallega Geir. Einnig þarf að gera meiriháttar uppstokkun á skipan mála í Seðlabankanum, svo nokkuð er ljóst. Þeir sem sjá ekki þessar augljósu staðreyndir eru frekar hjákátlegir að vera með sólgleraugu núna í skammdeginu.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.10.2008 kl. 21:36

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Bakland Sjálfstæðisfl.er margklofið t.d.vill merihluti kjósenda  flokksins ganga í ESB,en ráðhr.flokksins og þingmenn vilja það ekki.Meirihluti kjósenda flokksins vill ekki lengur halda í handónýta krónumynt,en ráðhr.og þingmenn vilja tryggja framgang hennar.

Það er rétt hjá þér Stefán að hið pólutíska landslag flokksins hefur breyst og baklandið  þarf að styrkja.Það verður þó ekki gert með Geir sem forsætisráðhr.og samvinnu hans við Seðlabankastj.sem nýtur nú aðeins 5 % fylgi.

Kristján Pétursson, 30.10.2008 kl. 21:37

4 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Samkvæmt Gallup var Samfylking á hraðri uppleið síðustu vikuna af könnunartímabilinu.... var með 33% síðustu vikuna...meðan Sjallar duttu niður í 21%. Það er talið í 3 vikur og síðasta vikan býr til þessa sveiflu. VG fór í 29.5% í síðustu vikunni..... en það eru ekki nema 66% sem svara.

Jón Ingi Cæsarsson, 30.10.2008 kl. 22:12

5 identicon

Hef trú á því að fylgi Samfylkingar eigi eftir að dala, þrátt fyrir ýmsa skelegga og baráttuglaða þingmenn, (þá eru kannski of margir þar sem vilja halda í stólana sína) og aukið fylgi við VG stafi af megnri óánægju fólks með ástandið og m.a. afar slælega upplýsingamiðlun af hálfu forsætisráðherra og yfirþyrmandi tryggð við hrokafull ummæli Seðlabankastjóra til kjósenda. Almenningur þarfnast stuðnings og skilnings, upplýsinga og að talað sé til hans af einhverju viti, fái að fylgjast með framvindu mála o.s.frv. VG gera út á grasrótina og þá fátækt sem ríkir hér í algerri afneitun stjórnarflokkanna. Þetta með turnana þrjá verður fljótt að breytast, hins vegar er líklegt að VG verði einn risaturn ef framkoma stjórnarflokkanna breytist ekki gagnvart almenningi.  Ég er ekki flokksbundin neinum stjórnmálaflokki,  hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn utan einu sinni að ég gaf atkvæði mitt til flokksins í viðleitni til að koma konu í baráttusæti að á Alþingi, því ég taldi hana eiga þangað fullt erindi vegna mannkosta hennar og skilnings á þörfum fólks. Hitt er annað mál að mér finnst upplagt fyrir Geir að fara á smánámskeið hjá Þorgerði Katrínu, sem sýnir óhrædd sveigjanleika miðað við aðstæður, en hangir ekki í einhverjum fornum skotgröfum flokksins svipað og japanski hermaðurinn sem fannst 25 árum eftir stríð í einhverjum frumskógi enn að berjast gegn óvininum. Hvað heldur Geir t.d. að myndi gerast þó hann segði að svar Davíðs við spurningu fréttakonu væri utan við velsæmi Seðlabankastjóra? Skyldi hann halda að himinn og jörð myndu farast?  Mér er til efs að Sjálfstæðisflokkurinn myndi klofna þó nútímalegri og sveigjanlegri umræður færu fram á landsfundi því sjálfstæðismenn eru jú , ekki satt, bara þverskurður af þjóðfélaginu, fólk af öllum stéttum og margir hverjir í uppstokkun viðhorfa sinna og skoðana til sín og annarra. Það er þroskamerki að breytast og aðlagast. Og oft hafa einhver brot úr sjálfstæðisflokknum klofnað í gegnum tíðina. Og hvað með það? Svo - við hvað ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera hræddur? Spyr sú sem ekki veit.

Nína S Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 19:39

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Bofs: Kannski er þetta bara rétt hjá þér?

Kristján: Sjálfstæðisflokkurinn er alls ekki margklofinn, heldur aðeins klofinn í afstöðu sinni til ESB. Nái flokkurinn saman þar mun hann áfram verða sterkasti flokkur landsins - hafðu engar áhyggjur af okkur!

Jón Ingi: Nákvæmlega - svarhlutfall er 66% eða 57% líkt og í skoðanakönnum Fréttablaðsins fyrir skömmu. Það er Flokkur óákveðinna - eins og svo oft áður - sem ræður ferðinni! 

Nína:Þetta er einhver besta "analísa", sem ég hef séð lengi af einhverjum, sem maður hefur ekki séð á blogginu til þessa!

Endilega að halda áfram að blogga!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 31.10.2008 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband