Obama fórnar símanum, sígarettum og netfanginu

obama1
Ljóst er nú orðið að fórnarkostnaðurinn fyrir Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, við flutninginn í Hvíta húsinu verður að láta af hendi Blackberry-símann sinn, hætta að reykja og senda tölvupóst. Obama sást varla án Blackberry-símans síns í kosningabaráttunni, notaði hann meira að segja þegar dætur hans voru að keppa í íþróttum og á löngum flugferðum vítt og breitt um Bandaríkin, auk þess að vera með hann á sér á kosningafundum og stuðningsmannasamkomum. Ekki er hefð fyrir því að forsetar hafi farsíma og mun Obama ætla að beygja sig undir ægivald leyniþjónustunnar í þeim efnum.

Nokkrir forsetaframbjóðendur töluðu mikið um það að þeir sendu ekki tölvupóst. George W. Bush sagði í kosningabaráttunni 2000 að hann væri ekki með netfang og hann hefur alveg örugglega ekki komið sér upp einu slíku í Hvíta húsinu. Að sögn gárunga sagði Al Gore eitt sinn að hann hefði fundið upp internetið svo hann hefur örugglega verið með netfang á árum sínum í Hvíta húsinu. Bill Clinton notaði ekki tölvupóst á árum sínum í Hvíta húsinu. John Kerry spurði eitt sinn á fundi fyrir reyndar þónokkuð löngu hvað þetta at-merki þýddi eiginlega.

Barack Obama var með mjög tæknivædda kosningabaráttu og ætlaði sér að nota netfang í Hvíta húsinu, en hefur sætt sig við boð leyniþjónustunnar um að gefa það eftir við flutninginn í Hvíta húsið. Hann hefur því engan einkapóst eftir 20. janúar en í staðinn munu skrifstofufólk hans fara yfir allt sem kemur til hans í gegnum póstinn á vefsíðu Hvíta hússins, rétt eins og var á dögum Clintons og Bush yngri. Eitt er þó ljóst: Obama mun væntanlega flytja vikulegt forsetaávarp sitt á netinu og hefur þegar byrjað á því eftir kosningasigurinn.

Og svo eru það reykingarnar. Obama ætlar að hætta að reykja endanlega við flutninginn en hefur átt erfitt með að gefa þann ósið upp á bátinn. Kjaftasögurnar segja að hann hafi lofað dætrunum og eiginkonunni að hætta að reykja ef hann yrði forseti, auk þess að gefa dætrunum hund. Hvort hann muni standast freistinguna að reykja ekki utan hins reyklausa Hvíta húss verður svo að koma í ljós.

En hver segir svo að það sé tekið út með sældinni að flytjast í 1600 Pennsylvaníu-stræti? Meira að segja valdamesti maður heims verður að gefa eftir það sem öðrum þykir sjálfsagt og sætta sig við að leyniþjónustan hefur sín boð og bönn fyrir yfirmann sinn.

mbl.is Obama lofar að reykja ekki í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Það er nú þjóðsaga að Gore hafi í raun sagst hafa fundið upp internetið. Grey maðurinn var bara álitinn svo leiðinlegur að fjölmiðlar kepptust við að skjóta á hann (m.a.s. þeir vinstri sinnuðu).

Svona eftir á að hyggja þá held ég að heimurinn hefði þó verið betur settur með leiðindapúkann heldur en Texasbúann =)

Páll Jónsson, 8.12.2008 kl. 08:32

2 identicon

Hvar er hægt að nálgast þetta vikulega forsetaávarp, veistu það?

Ólöf Ragnars (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 14:55

3 identicon

Dauðvorkenni aumingja manninum að þurfa að hætta að reykja. Þegar maður er nikki út í ystu æðar, margbúinn að hætta, lofa öllu fögru, o.s.frv. þá er þetta eitt það erfiðasta. Og hætta að nota símann og tölvunetið um leið, allt í einu. Maðurinn þarf virkilega á sálfræðiaðstoð að halda. Ef hann er alvöru nikki og getur ekki Alveeeg hætt að reykja, þá finnur hann smugur, göngutúr í garðinum, skreppa aðeins á milli trjánna, smáreykur, nei, nei, þetta var bara vegfarandi. Það má víða finna smugur. Grafa sérbyrgi í garðinum sem enginn annar veit af t.d. , skreppa þangað til að slaka á, það væri góð hugmynd. Finna gemsa í grasinu á röltinu um garðinn; minn sími, neinei, bara einhver sem týndi honum. En sjáið, hægt að fara á netið og senda tölvupóst og allt, sjáiði bara lífverðir mínir góðir, þetta er almennileg græja. Ok, hendi þessu. Eigið þið vasaklút?  Jæja, gangi honum vel að hætta þessu öllu.

Nína S (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband