Ritskoðun eða heiðarleg stjórn á bloggkerfinu

Ég missti af mestu ólgunni í samskiptum moggabloggara og yfirstjórnar blog.is vegna bloggskrifanna um Óla Klemm um helgina þar sem ég var lítið við tölvu og las ekki fréttina fyrr en lokað hafði verið á bloggmöguleikann. Við sem erum á moggablogginu verðum að sætta okkur við að það er yfirstjórn á þessu bloggi. Hún markar svæðinu reglur og heldur utan um kerfið. Við fáum að skrifa hér ókeypis og höfum flest valið okkur það sjálf að tengjast kerfinu og nota okkur möguleikana þar.

Nú um áramótin breyttist bloggkerfið þannig að þeir sem eru nafnlausir fá enga tengingu inn á kerfið umfram það að bloggsíðan er virk. Mér finnst það alveg sjálfsagðir skilmálar enda mikilvægt að orðum fylgir ábyrgð. Yfirstjórnin hér hefur markað þessa reglu og eftir því er fylgt. Mér finnst líka eðlilegt að þeir sem tjá sig hafi nafnið sitt. Slíkt blogg verður alltaf miklu traustari vettvangur en ella. Nafnleyndin býður oftar en ekki upp á skítkast og leiðindi. Mörkin eru ekki afgerandi.

Hvað varðar möguleikann að blogga um það sem er að gerast, fréttir og fleira hér, er eðlilegt að þeir sem eru yfir svæðinu meti það á hverjum tíma. Sumar fréttir eru einfaldlega þannig að engu er við þær að bæta, skoðanir annarra eiga ekki rétt á sér í þeim efnum. Ég held að þetta sé fjarri því í fyrsta sinn að lokað er á möguleikann eftir að fréttin er skrifuð.

Moggabloggið hefur verið vinsælasta bloggkerfi landsins. Sumir elska að hata það en taka samt fullan þátt í að skoða það og fylgjast með. Þetta er sennilega ástarhaturssamband fyrir einhverja. Við sem höfum valið þann möguleika að vera í þessu bloggsamfélagi höfum flest notið þess og átt ágætis samskipti, bæði milli okkar og yfirstjórnarinnar.

Stundum kemur að því að taka þarf á málum. Heiðarleg stjórn er oft mikilvæg, enda er þörf á skýrum mörkum í svo stóru samfélagi.

mbl.is Fréttablogg og nafnleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: dvergur

Það geta allir bloggað um hvaða frétt sem er, hvenær sem er og hvar sem er, það eina er að möguleikinn að smella á takkann "blogga um frétt" verður tekinn af einhverjum notendum.Lítill skaði það.

Mín vegna má taka það alfarið af, og ekki væri verra ef hætt yrði endanlega að birta við hverja frétt, hverjir hafa "bloggað" um hana. Það væri meira en nóg að lista nýjustu bloggin á blogg hluta moggans. http://mbl.is/mm/blog/ 

En það er náttúrulega bara mín skoðun...

Auðvelt er að fylgjast með sínum uppáhalds bloggurum með RSS straumum. 

dvergur, 5.1.2009 kl. 14:48

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæll Stefán. Mér finnst þessi stjórn ekki sérstaklega heiðarleg. Það er látið  bitna á öllum hvort sem þeir eiga það skilið eða ekki. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 5.1.2009 kl. 14:51

3 identicon

Sæll Stefán

eftri því sem ég best veit að þá var búið að útiloka nafnlausa bloggara á þeim tíma sem blogg kommentum við frétt um Ólaf Klemenzson og bróður hans var hent út af mbl.is og lokað var á frekari blöggmöguleika við fréttina. Við þessa frétt, Taldi sér ógnað, þar sem Ólafur heldur því fram að honum hafi staðið ógn af mótmælendum og því m.a. hrint ungri konu, þurfti einmitt að bæta heilmiklu við, þ.s að myndbandið sýndi allt annað, þ.e. að Ólafi hafi ekki staðið ógn af mótmælendum og sést ganga að konu og hrinda henni. M.ö.o. þá passaði fréttin engan veginn við fyrri frétt mbl. sem sýndi myndband af atburðinum. Sástu þetta myndband?

Bloggurum sem skrifuðu undir nafni og margir án þess sem gæti talist til fúkyrða var sömuleiðis hent út.

Þórdís (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 15:09

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað er verið að koma í veg fyrir Stebbi með að gera þennan hóp nánast ósýnilegan og meina honum að tjá sig beint um fréttir dagsins?  Hvaða atvik eða hvati varð til þess að þetta þótti nauðsynleg ráðstöfun?  Geturðu sýnt fram á fullyrðingu þína um að nafnleysi bjóði frekar upp á skítkast umfram aðra?

Þetta er ritskoðun, misjöfnun, lögbrot, stjórnarskrárbrot og brot á mannréttindum. Svo einfalt er það. Engin ástæða eða rökstuðningur fyrir aðgerðinn hefur enn sést. Ekki gerir þessi sleikjulega grein þín það heldur.

Þeir báru fyrir sig ábendingu frá fulltrúa neytenda, en þessi ábending hefur aldrei verið birt, aldrei verið skýrt hver þessi fulltrúi neytenda er né hvert umboð hans er.  Hvaðan kemur skipunin? Hvers vegna? Er til of mikils ætlast að fá því svarað?

Jón Steinar Ragnarsson, 5.1.2009 kl. 18:57

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þetta var bara of vélrænt. T.d. má ekki stytta föðurnafn sem er notað sem millinafn með . Sbr. L. það þarf að vera L

Ekki glóra í vinnubrögðunum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.1.2009 kl. 20:30

6 identicon

Jón Steinar segir:

Þetta er ritskoðun, misjöfnun, lögbrot, stjórnarskrárbrot og brot á mannréttindum. Svo einfalt er það. Engin ástæða eða rökstuðningur fyrir aðgerðinn hefur enn sést. Ekki gerir þessi sleikjulega grein þín það heldur.

Og maður hlýtur að spyrja sig hvort að menn eru ekki að grínast. Er ekki örugglega bara verið að tala um það að einhverjir kverúlantar fengu ekki að auglýsa skoðun sína á við hliðina á einhverri frétt? Var notendum blog.is meinað að tjá sig um fréttina, grisjuðu stjórnendur út allar færslur sem fjölluðu um þetta?

Ótrúlega er fólk að taka sjálft sig allt of alvarlega, mbl.is ber engin skylda til að auglýsa einstakar bloggsíður inni í fréttum og það að halda því fram að fólki sé valdinn einhver skaði með því að meina þeim að auglýsa sig er einfaldlega bara hlægilegt!

Bjarni (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 21:59

7 Smámynd: Anna Guðný

Ég fékk að skrifa athugasemd við fréttina um Ólaf Klemens. Las svo seinna lista yfir orð og setningar sem höfðu verið skrifuð við þessa frétt. Og eftir þeim lista að dæma þá skil ég mjög vel að þessi möguleiki var tekinn út. Bloggarar fengu sko sinn sjens þarna en höndluðu hann bara ekki.

Ef þetta var séra Jón, þá hef ég einnig áður séð frétt um hann Jón, þar sem þó nokkrir aðilar komu inn og gjörsamlega hraunuðu yfir manneskju sem hafði lent í slysi. Það var líka tekið út en það tóku fáir eftir því, kannski vegna þess að fréttin var bara um Jón en ekki séra.

Anna Guðný , 5.1.2009 kl. 22:29

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég vil bara gera athugasemd við eina setningu: „Sumar fréttir eru einfaldlega þannig að engu er við þær að bæta, skoðanir annarra eiga ekki rétt á sér í þeim efnum“

Sennilega ætti frekar að segja: „Sumar fréttir eru einfaldlega það viðkvæmar að skoðanir annarra eru óæskilegar“

Ég held nefnilega að engar fréttir séu þannig að ekki sé hægt að bæta við þær. Annars bara nokkuð sammála að öðru leiti.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.1.2009 kl. 22:41

9 identicon

Gott og vel.
Getur ritstjórn morgunblaðsins þá ekki a.m.k. sýnt fordæmi með því að birta Staksteina undir nafni?

Kristján Skúlason (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband