Forsetinn nýtur sviðsljóssins í pólitísku tómarúmi

Ég reyndist sannspár síðdegis þegar ég spáði því að Ólafur Ragnar Grímsson myndi sækja sér meiri völd í pólitísku tómarúmi landsins en áður hefði þekkst. Á sögulegum blaðamannafundi gekk hann lengra en nokkur forseti í lýðveldissögunni og setti forystumönnum flokkanna fjórar áherslur og vinnureglur að hans vali í stjórnarmyndunarviðræðunum. Með framgöngu sinni er Ólafur Ragnar að móta nýjar slóðir og rita nýjan kafla um hlutverk forseta íslenska lýðveldisins. Hann nýtur sviðsljóssins í botn.

Merkilegasta hugtakið og pólitíska nýyrðið sem forsetinn kynnti var mikilvægi þess að koma á samfélagslegum frið. Eðlilega spurði Helgi Seljan, frændi minn, að því hvort samfélagslegur friður ríkti um störf hans sjálfs. Ólafur Ragnar hefur jú skálað í kampavíni við auðmennina og flogið í boði þeirra á heimsenda og verið sameiningartákn hinnar gjaldþrota útrásar, enda verið á öllum myndunum með útrásarvíkingunum á erlendri grundu og verið sérstakur sendiherra hennar og táknmynd öðrum fremur. Hans staða getur varla talist góð til að leika einhvern siðapostula - hann er innantómur í besta falli í því.

Ólafur Ragnar átti vissulega stjörnuleik á Bessastöðum síðdegis. Þetta er stóra tækifærið hans til að stimpla sig í pólitískar sögubækur með framgöngu sinni. Hann var allt í senn gamli háskólaprófessorinn, stjórnmálamaðurinn og fjölmiðlafulltrúinn með framgöngu sinni. Minnti mun frekar á leikara en sameiningartákn þjóðar. Samfélagslegi friðurinn um hann og verkin hans er ekki til staðar og eiginlega hlýtur að vera spurt um hvort hann ætti ekki að líta sér nær.

Hann er einn af örfáum sem græðir á tómarúmi þjóðarinnar - hann spilar það óspart sér í hag. En gallinn er bara sá að hann er ekki sameiningartákn þjóðarinnar heldur mun frekar sameiningartákn hinnar hamfaralegu útrásar sem setti þjóðina á hausinn og kom okkur á kaldan klaka í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó að ég sé enginn sérstakur aðdáðandi ÓRG þá er þessi pistill er gjörsamlega óskiljanlegur.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 18:40

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

úff já...maður saknar Vigdísar svo að hjartað særir!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.1.2009 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband