Klókindi Sigmundar Davíðs - vænleg oddastaða

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur spilað snilldarvel úr oddastöðu sinni í íslenskum stjórnmálum og minnir nú á stöðu sína og flokksins í nýju pólitísku landslagi. Hann er með mjög mörg tromp á hendi og hefur með klókindum tekið vinstriflokkana og lokað þá inni saman í ríkisstjórnarsamstarfi og mun passa vel upp á sérstöðu sína og þau mál sem Framsókn getur hugsað sér að styðja eður ei. Minnihlutastjórnin situr upp á náð og miskunn framsóknarmanna svo þeir hafa náð mjög vænlegri stöðu.

Í Kastljósi kvöldsins kom Sigmundur Davíð sem aðalspilarinn í íslenskri pólitík núna; sá sem hefur líf einnar ríkisstjórnar í hendi sér og getur spilað hlutina að sinni vild. Hann talaði gegn skattahækkunum, gegn því að hætta við hvalveiðarnar og því að frysta eigur auðmanna nema fyrir lægi rökstuddur grunur um eitthvað ólöglegt. Augljóst er að gamla Framsókn hefur náð vopnum sínum og mun passa vel upp á landsmálin og hafa vinstriflokkana undir kontról.

Þetta kallar maður kænsku par excellance. Framsóknarmaddaman gamla er lifnuð við og orðinn örlagavaldur í íslenskum stjórnmálum að nýju. Þeirra skilyrði verða vel áberandi á næstunni, enda kemur minnihlutastjórnin engu í gegn nema Framsókn leggi henni lið.

mbl.is Samþykkja stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Það var soldið krípí að horfa á Sigmund Davíð...... þetta var bara pókergeim. Ekki bara hefur Framsókn eina ferðina enn töglin og halgdirnar, líkt og í borgarmálunum síðustu ár, heldur fannst mér ég sjá strengi bifast í kringum Sigmund, strengi sem maður hélt að hefði verið hoggið á með nýjum manni. En þá ber að athuga að með kosningu Sigmundar var eingöngu um facelift að ræða að því er virðist, engin stefnubreyting varð í neinu máli og engar fréttir hafa borist af endurskoðun málefna innan flokksins. Þetta er allt eins og áður, valdabröltið algert, mann klígjar við því að sjá alla gömlu og nýju flokksbelgina gramsa og kjamsa í valdagrægði sinni og hrossakaupum. Það þarf að mynda nýtt afl strax, það má engan tíma missa, þetta er það sem fólk er búið að hárreyta sig yfir aftur og aftur. Við megum ekki upplifa að allt fari í sama farið aftur, það bara má EKKI ske.

Harpa Björnsdóttir, 30.1.2009 kl. 01:14

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Það fer kannski ekki á milli mála að VG er vinstri flokkur. En SF er það nú varla. SF virðist vera miðjumoðsuða, stefnulaus og hugsjónalaus. Valdagræðgin knýr flokkinn áfram. Ég hef miklar efasemdir um ríkisstjórnina sem nú virðist í burðarliðnum. Reyndar er það mikið fagnaðarefni ef Gylfi Magnússon og Björg Thorarensen verða ráðherrar. En alvöruríkisstjórn fáum við ekki fyrr er þjóðin hefur kosið. Og það er skondið að nýja stjórnin verður algjörlega í gíslingu framsóknar. Við bíðum samt og vonum hið besta.

Sigurður Sveinsson, 30.1.2009 kl. 07:19

3 identicon

Sælir, maddaman var ekki dauð, hún var að hvíla sig.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 07:38

4 identicon

Sammála Harpa. Gamaldags valdaklíku stjórnmálastefna, sem hefur það eitt að markmiði að passa uppá sinn eigin pott. Því miður. Ég vildi óska að Framsókn bæri þá gæfu að verða heiðarlegt afl í íslenskum stjórnmálum, sem bæri þjóðarhag fyrir brjósti. Nýir vendir sópa ekki alltaf best ef þeir eru byggðir úr sama efninu og þeir sem hættu að virka. Ég vildi óska að menn hefðu burð til að henda "game-inu" út og færu bara að vera heiðarlegir vinnumenn með þjóðarheill í fyrirrúmi. Er þreytt á pókerspili drengjanna.

Maríanna Fridjonsdottir (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 07:57

5 identicon

Verulega óhuggulegt andlit áfram á Framsóknarflokknum. Sama undirferlið og hagsmunapotið þrátt fyrir "nýja" forystu. Héldu menn virkilega að "einhver" af götunni gæti gengið inn á landsfund flokksins og náð kjöri sem formaður. Ætli einhverjar af gömlu valdablokkunum í flokknum hafi ekki sent drenginn til að gæta hagsmuna sinna áfram innan flokksins- og hinna mörgu kjötkatla sem þar leynast. Að sjálfsögðu voru gömlu klíkurnar ekki í vandræðum með að tryggja Sigmundi Davíð örugga kosningu. Hefði Framsókn virkilega viljað nýtt andlit með óflekkaða fortíð þá hefði Höskuldur Þórhallsson að sjálfsögðu verið kjörinn nýr formaður flokksins.

Leibbi (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 08:18

6 identicon

Sama gamla tuggan komin á stað.  Nákvæmlega ekkert hefur breyst.  Það skiptir þetta fólk engu máli hvernig staðan er í þjóðfélaginu. 

itg (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband