Ásta talar hreint út - Geir á að biðjast afsökunar

Mér fannst Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, skauta ómerkilega framhjá tímamótariti endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, sem eru orð í tíma töluð. Geir á að biðja þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem gerð voru og klára þetta mál með sóma áður en hann víkur af hinu pólitíska sviði. Nú er tímabært að tala hreint út við fólkið í landinu. Augljóst er að mistök voru gerð og það er tímasóun að ætlast til þess að fólk hafi þolinmæði fyrir mörgum orðum um mistökin. Þau eru augljós og þarf að gera upp heiðarlega og traust.

Ásta Möller, alþingismaður, á hrós skilið fyrir að segja hlutina hreint út í sama fréttatíma. Þar sagði hún það sem flestir flokksmenn telja að þurfi að gerast. Viðurkenna þarf mistökin og reyna að læra af þeim. Því fannst mér Ásta tala um skýrslu endurreisnarnefndarinnar heiðarlega og traust, þetta er fyrsta skrefið í því að viðurkenna mistökin og reyna að feta sig fram á veginn. Mjög einfalt mál í sjálfu sér.

Endurreisnarnefndin þarf vissulega að líta til framtíðar. En við getum ekki horfst í augu við nýja tíma nema að gera upp fortíðina. Því er plagg endurreisnarnefndarinnar traust uppgjör á því sem gerðist. Þeir sem bera ábyrgð eiga að axla hana og viðurkenna hlut sinn í því að hafa ekki komið í veg fyrir það sem gerðist.

Ábyrgð þeirra er augljós og hana eiga þeir að viðurkenna. Þetta ætti fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins að átta sig á sem fyrst.

mbl.is Baðst afsökunar á mistökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Varðandi Geir, Ástu og flesta aðra ráðherra og fyrrverandi stjórnarþingmenn, verða menn ekki samt að sanna á sig mistök áður en þeir þurfa að biðjast afsökunar?

Ég veit ekki til þess að Ásta hafi gert neitt af sér. Hvað Geir varðar þá hafa ekki sannast á hann mistök. Málin eru flóknari en þau kunna að virðast og einn segir eitt og annar annað. 

Þegar bankahrunið átti sér stað sagði annað hvort Ólafur Ísleifsson eða núverandi viðskiptaráðherra að viðbrögð seðlabankans og stjórnvalda hafi verið nokkurn veginn eftir bókinni.

Það er síðan alveg merkilegt með ykkur Sjálfstæðismenn að þið dissist í Geir núna en verjið ráðningu Guðlaugs á Eggerti upp á 2, 5 milljónir króna á kostnað skattborgara.

Hvaða tilgangi þjónuðu annars þessi störf Eggerts Skúlasonar fyrir Heilbrigðisráðuneytið? Eiga ráðherrar og æðstu embættismenn ekki bara að segja satt og rétt frá og koma til dyranna eins og þeir eru klæddir? Eiga þeir ekki að vera færir um það? Snerist málið kannski um að segja ekki satt og rétt frá og læra aðferðir og fellusvipi til þess?

Þú hefur áður skammast yfir símakostnaði forsetaembættisins. Það er þó stofnun og í rauninni litla utanríkisráðuneytið.

Ég get í sjálfu sér réttlætt það eins og  ferðalag mennta- og íþróttamálaráðherrahjónanna á Ólympíuleikanna og meira að segja gjörðir nafna míns Johnsen sem þú hefur lítið álit á.

Ég get hins vegar engan veginn fundið réttlætingu fyrir verktöku Eggerts Skúlasonar.

Hvað segja þeir sjálfstæðismenn sem lesa bloggið um það?

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 2.3.2009 kl. 21:27

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Geir, Davíð og Ingibjörg Sólrún eru greinilega öll mikið Elton John áhugafólk og kyrja í kór "Sorry seems to be the hardest word"

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.3.2009 kl. 21:28

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sammála frummælanda.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.3.2009 kl. 22:16

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er sammála Stefáni varðandi þetta.  Sérstaklega eftir orð hans í viðtalinu um daginn:  "Maybe, I should have" eða hvað það var nú nákvæmlega sem maðurinn sagði.

Marinó G. Njálsson, 2.3.2009 kl. 22:53

5 identicon

Sérðu virkilega ekki hræsnina í þessu? Þetta er sagt í einhverju hræðslukasti við að vera detta út af þingi og hvað Geir varðar þá forherðist hann bara meir og meir eftir því sem lengra líður frá hruninu. Ótrúlegt að láta þetta lið blekkja sig.

Valsól (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 22:54

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Sammála frummælanda að mestu leyti EN ég er sammála Geir H. Haarde að þeir sem standa að þessu fræga áliti eru heldur til dómharðir í fyrstu umferð. Vissulega hafa þeir fullan rétt á því en í úttektum sem þessum verður að varast að alhæfa um of.

Hins vegar er það rétt hjá þér Stefán Friðrik að Geir H. Haarde verður að stíga það erfiða skref fyrr en síðar að viðurkenna að hann hafi ekki staðið vaktina fyrir þjóðina - já og Sjálfstæðisflokkinn. Og vegna þessa yfirsjónar á hann að biðja okkur afsökunar, eins og Ásta Möller hefur gert og áður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Geir verður nefnilega að átta sig á því að til þess að við getum haldið áfram og horft til framtíðar, eins og hann leggur til, þá þarf að gera upp fortíðina til að læra af mistökunum sem voru gerð.

Jón Baldur Lorange, 2.3.2009 kl. 23:40

7 identicon

Árni....

Óli Ís var ekki sáttur við Davíð enda er Ólafur hámenntaður á sviði hagfræðinnar og áttar sig á því hvað var gert rangt.

Fann þetta haft eftir Ólafi í Markaðinum:

"Seðlabankinn gerði tveggja daga vanmáttuga tilraun til að festa krónuna, vanmáttuga af því að tilrauninni fylgdu engar stefnuyfirlýsingar og enginn fjárhagslegur bakhjarl. Ekkert hefur unnist en þjóðinni hefur verið bakað ólýsanlegt tjón með falli krónunnar.

Seðlabankanum ber að gæta að stöðugleika fjármálageirans en hann brást því hlutverki meðal annars með því að stækka ekki gjaldeyrisforðann í tæka tíð eða efla aðrar varnir.

Svo gæti farið að leita þurfi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en ekki er hægt að útiloka að yfirlýsingar bankastjórnar Seðlabankans í Kastljósi hafi endanlega lokað öllum lánamöguleikum Íslendinga erlendis.

Óskiljanlegt er að Seðlabankinn hafi ekki lækkað vexti þegar seðlabankar allt um kring lækka vexti til að bregðast við fjármálakreppunni og greiða fyrir atvinnulífi og heimilum. Fráleitt er að bregða fæti fyrir þjóðina með ofurvöxtum sem gegna engu gagnlegu hlutverki og hafa ekki dugað til að verja gengi kónunnar."

Arnþór (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband