Eftirlaunalögin felld úr gildi - góð málalok

Ég held að það sé jákvætt og gott skref að hin umdeildu eftirlaunalög hafi verið felld úr gildi. Þau voru mjög gölluð frá fyrstu stundu og voru ótæk og óverjandi að flestu leyti. Á þeim voru augljósir annmarkar sem hefði átt að taka af skarið með mun fyrr -  sá hinn stærsti að fyrrum ráðherrar gætu þegið eftirlaun á sama tíma og þeir væru á fullum starfslaunum hjá hinu opinbera. Slíkt gengur ekki upp og varð að taka á. Slíkt hefði átt að gera fyrir margt löngu.

Eftirlaunalögin voru samþykkt í pólitískum hita rétt fyrir jólin 2003. Fyrst stóðu þingmenn allra stjórnmálaflokka landsins að málinu sem flutningsmenn frumvarpsins í þinginu. Á örfáum dögum skipti stjórnarandstaðan meira og minna um kúrs og snerist við. Sérstaklega eru dramatískar og eftirminnilegar frásagnir af viðsnúningi innan Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi varaformaður flokksins, tók forystu gegn lögunum og vann þeim málstað fylgis á kvöldfundum í þinghúsinu og tók forystu málsins af Össuri Skarphéðinssyni. Er yfir lauk studdi aðeins Guðmundur Árni Stefánsson, einn af varaforsetum Alþingis, málið af hálfu stjórnarandstöðunnar og fylgdi eftir hlutverki sínu við að leggja frumvarpið fram.

Deilt hefur verið um málið alla tíð síðan. Tvöfaldar launagreiðslur til ráðherra, sem fyrr eru nefndar, eru ekki hið eina sem er umdeilt við eftirlaunalögin. Allt frá því frumvarpið var rætt hefur mér fundist óeðlilegt að þingmenn njóti sérréttinda í lífeyrismálum og óviðunandi með hvaða hætti það var ákveðið.

Starfskjör þingmanna eru að mínu mati orðin það góð að þeir ættu að geta náð vænum lífeyrisauka fyrir eftirlaunaárin sín með frjálsum lífeyrissparnaði. Engin sérréttindi eiga að vera þar.

mbl.is Eftirlaunafrumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir þætti Valgerðar Bjarnadóttur...

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband