Kynslóðaskipti í Sjálfstæðisflokknum

bjarniben2
Ég var að koma heim til Akureyrar eftir yndislega helgi í Reykjavík á fjölmennasta landsfundi í sögu Sjálfstæðisflokksins, öflugum og góðum landsfundi. Kynslóðaskipti urðu í forystu flokksins á þessum fundi. Nýjir tímar hefjast með því að valdaskeiði þeirrar kynslóðar sem náði undirtökum í Sjálfstæðisflokknum með formannskjöri Þorsteins Pálssonar sem eftirmanns Geirs Hallgrímssonar árið 1983 lýkur. Eftirmenn hans, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, hafa verið ólíkir forystumenn að mörgu leyti en allir eru þeir sömu kynslóðar.

Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki fyrir forystunni þegar Geir Hallgrímsson hætti formennsku og sama gerist aftur nú. Þorsteinn var vel innan við fertugt þegar hann varð einn valdamesti stjórnmálamaður landsins og varð forsætisráðherra á fertugsafmæli sínu árið 1987. Davíð Oddsson varð 34 ára gamall borgarstjóri í Reykjavík og forsætisráðherra rétt rúmlega fertugur. Hann hætti í pólitík eftir að hafa verið forsætisráðherra í hálfan annan áratug fyrir sextugt. Þessar staðreyndir sýna vel að ungu fólki er treyst í flokknum.

Þáttaskil verða nú, ekki aðeins í landsmálum heldur og í sveitarstjórnarmálum. Forystumenn flokksins í borg og landsmálum eru fulltrúar nýrra tíma. Augljóst er að miklar breytingar verða á þingliði Sjálfstæðisflokksins í vor og nú hefur flokksforystan í Valhöll verið yngd verulega upp.

Í þessum þáttaskilum felast mikil tækifæri og ég efast ekki um að flokkurinn mun breytast mikið með því að ný kynslóð taki þar við völdum, kynslóð með nýjar áherslur og sýn á framtíðina, trausta framtíðarsýn. Mikilvægt er að uppstokkun verði í pólitíkinni og nýtt fólk taki við forystunni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lengi talað um mikilvægi þess að frelsinu fylgi ábyrgð, áður en bankahrunið skall á. Nú er það hans að leiða stefnumótun til framtíðar í flokknum og stokka hann markvisst upp. Sú vinna hófst af miklum krafti á þessum landsfundi.

Nú er það forystumanna flokksins um allt land að leiða nýtt upphaf í flokksstarfinu. Bjarni og Þorgerður Katrín eru flott tvíeyki í forystunni og njóta trausts flokksmanna og hafa traust umboð eftir þennan fjölmenna og góða fund.

Ég vil þakka öllum þeim sem ég ræddi við og átti skemmtilegar stundir með á landsfundi fyrir spjallið og vináttuna. Þetta var frábær helgi í góðra vina hópi.

mbl.is Nýrri kynslóð treyst til verks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

sæll Stefán,

þið talið um að þið séuð lýðræðisinnar, er það ekki?

Af hverju fékk þá Snorri formannsefni ekki að tala á fundinum?

Hilmar Dúi Björgvinsson, 30.3.2009 kl. 09:19

2 identicon

Það eru margir sem sjá þessi kynslóðaskipti öðruvísi en þú Stefán. Bjarni er af sömu kynslóð og Jón Ásgeri, Björgólfur yngri og hannes Smárason. Svo eru þetta kynslóðaskipti vegna þess að Björn Bjarna hættir og Bjarni ben tekur vð til að viðhalda völdum ættarinnar yfir flokknum.

Valsól (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 09:39

3 identicon

Þið sjálfstæðismenn hljótið í alvörunni að vera að grínast. Maður veit ekki hvort á að vorkenna þessum saumaklúbb eða halda áfram að hrista höfuðið yfir ruglinu sem borið er á borð fyrir landsmenn.

Alveg merkilegur félagsskapur.

Gudni (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 10:52

4 identicon

Sæll Stefán.

Ég hef verið flokksbundinn í fjölda ára en núna er ég búin að fá nóg og mun ganga úr flokknum, flokkur sem hefur enga stefnu og engar lausnir í gjaldmiðils og peningamálum er ekki sá flokkur sem ég mun styðja. Það er makalaust hvað menn geta verið blindir og látið teyma sig endalaust, ég vona að blindir fái sýn.

Sævar Matthíasson (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 12:34

5 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

Ég ætla að vona að fleiri taki þig til fyrirmyndar Sævar og gangi úr Sjálfstæðisflokknum.

Hilmar Dúi Björgvinsson, 31.3.2009 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband