Örlagarík mistök óreyndrar framsóknarforystu

Augljóst er að stuðningurinn við minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og VG er að snúast upp í örlagaríkustu og dýrkeyptustu mistök Framsóknarflokksins áratugum saman. Er sennilega þegar búin að kosta flokkinn möguleikann á endurreisn fylgislega og forystulega séð næstu árin. Óreyndri forystu flokksins skjöplaðist á oddastöðu sinni og missti taflið úr höndunum og eru nú eins og viljalaus verkfæri, í einskonar gíslingu, hjá vinstriflokkunum. Hvort reynsluleysi Sigmundar Davíðs er einu um að kenna skal ósagt látið, en það er stór hluti vandans vissulega.

Framsóknarflokkurinn kom mjög sterkur af flokksþingi sínu í janúar. Með nýjum formanni hafði hann öll tækifæri til að ná oddastöðu í íslenskum stjórnmálum, halda henni eftir næstu þingkosningar og endurbyggja sig aftur sem sterkt afl, eftir afhroðið í þingkosningunum 2007, þar sem fimm þingsæti fóru fyrir borð og flokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík og varð fyrir miklu áfalli í nær öllum kjördæmum nema rótgrónustu lykilsvæðum í sögu sinni.

Sigmundi Davíð hefur ekki tekist að halda um taumana eftir að minnihlutastjórnin tók við og er í mjög vondri stöðu. Hann tók þann kostinn að spila öllu undir, gaf kost á sér í Reykjavík í stað þess að fara í öruggt þingsæti í Suðurkjördæmi. Áhættan verður flokknum dýrkeypt gangi hún ekki upp. Fátt bendir til þess að sætið í Reykjavík sé öruggt. Fjarri því. Þar verður barist upp á allt og flokkurinn verður í krísu gangi það ekki upp.

Þessi stjórnarstuðningur tryggði að Framsókn fékk kosningarnar sínar. Hinsvegar misstu þeir taflið annars úr höndunum. Hafa lent úti í horni og oddastaðan virðist skammverm pólitísk sæla. Varnarbarátta bíður Framsóknar enn og aftur, rétt eins og 2007. Fátt bendir til þess nú að þeir nái vopnum sínum og eflist mikið frá því sem var síðast. Þeir eru ekki öfundsverðir af því að hafa klúðrað sínum málum svo svakalega.

mbl.is Þolinmæði framsóknarmanna þrotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigum við nokkuð að vera að velta okkur uppúr mistökum Framsóknarmanna eða að vera að spá nokkru um næstu ár hjá þeim.  Miklu frekar held ég að þú ættir að hafa áhyggjur af klúðrinu í þínum flokki Stefán.  Sjálfstæðismenn ættu miklu heldur að peppa Framsókn upp og reyna að ná þannig fylgi frá S og V , og reyna um leið að forða okkur frá nokkurskonar kommúnistastjórn.

takk,

Gunnar

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 16:50

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur kosið sér nýja forystu og gert upp mál fortíðarinnar. Lestu endurreisnarskýrsluna og það uppgjör sem þar fer fram. Enginn annar flokkur hefur lagt í viðlíka verkefni að klára þá umbrotatíma sem áttu sér stað eða hefur stokkað meira upp í forystu sinni að undanförnu, nema kannski Framsókn.

Ég bar miklar væntingar til Sigmundar Davíðs. Taldi hann hafa eitthvað fram að færa annað en hlutverk útfararstjóra Framsóknarflokksins. Þau eru vonbrigðin og á þeim forsendum skrifa ég. Hann hefur ekkert bit sýnt í garð vinstriflokkanna og hljómar ekki trúverðugur í tali þessa dagana.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.3.2009 kl. 17:28

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þeir hefðu átt að krefjast þess að fá forseta þingsins og í gegnum það embætti reyna að keyra mál sín í gegnum þingið frekar en framkvæmdarvaldið. Hefði verið góður leikur í erfiðri stöðu en var kannski ekki svo auðveldur að framkvæma þar sem það var enginn í þingliðinu sem hefði spókað sig vel sem þingforseti og viðkomandi hefði verið í einkennilegri stöðu gegnvart formanninum.

Héðinn Björnsson, 31.3.2009 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband