Ennio Morricone fær heiðursóskarinn

Ennio Morricone Bandaríska kvikmyndaakademían hefur ákveðið að ítalska kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone muni fá heiðursóskarinn við afhendingu Óskarsverðlaunanna í febrúar. Það er svo sannarlega verðskuldaður heiður og löngu kominn tími til að hann fái þessi virtustu verðlaun kvikmyndabransans. Ennio Morricone er eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga.

Morricone á að baki mikinn fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (það allra besta af glæsilegum ferli) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: Very Best of Ennio Morricone. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone.

Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Names is Nobody, Unforgiven, The Bridges of Madison County, Malena, Il Postino, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.

Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau.

Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem elska kvikmyndirnar og stefin í þeim. Það er gleðilegt að loksins fái hann óskarinn. Hann á hann fyrir lifandis löngu skilið fyrir að setja ódauðlegt mark á kvikmyndasöguna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband