Örlagaferðin til Istanbúl - raunalegur vinstrifarsi

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, á hrós skilið fyrir að tala tæpitungulaust við BBC um Icesave, IMF og íslensk efnahagsmál. Þar talar hann máli Íslands betur en allir ráðherrar hefur gert í þessari lánlausu vinstristjórn, enda varla heyrst múkk í þessu liði á alþjóðavettvangi á meðan þörf hefur verið fyrir trausta forystu. Hann á eftir að verða skeinuhættur fyrir stjórnarparið þreytulega, Jóhönnu og Steingrím, í þessari rimmu - gæti orðið örlagavaldur þeirra.

Utan ríkisstjórnar mun Ögmundur hafa fríspil til að láta sannfæringuna ráða. Jóhanna sætti sig víst ekki við að ráðherrar undir hennar verkstjórn hefðu eigin sannfæringu í þessu lykilmáli - hún á eftir að bíta úr nálinni með það. Enda tel ég að Ögmundur tali máli sem Jón og Gunna úti í bæ bæði skilji og styðji alla leið. Jóhanna hefur múrað sig af og er á fallanda fæti - vinsældir hennar eru að gufa upp og hún er aðeins orðin lánlaus ráðvillt kona í óvissuferð. Ekki traustvekjandi.

Innan vinstri grænna virðist vera mikil óvissa og kaos. Steingrímur J. er á ferðalagi í Tyrklandi, bæði að reyna að leysa þennan rembingshnút og leita að lausn sem friðar alla í flokknum sínum. Hann fékk ekki opið umboð allra þingmanna sinna í veganesti fyrir þessa ferð, heldur fyrirvara allra þeirra sem hafa tjáð andstöðu. Nú er komið að örlagastundu í því hvort einhver lausn sé. Ögmundur bíður á hliðarlínunni og minnir á sig. Eflaust er hann farinn að brýna sína kuta.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem hefur verið á flótta frá ástandinu og varla birst í íslenskum fjölmiðlum nema sem einhver váleg skuggamynd á bakvið Jóhönnu, talar hreint út og það við BBC af öllum fjölmiðlum. Kannski ágætt að íslenskur ráðherra tali loks við þá stöð. Hann má skilja þannig að úrslitatilraun Steingríms í Tyrklandsförinni ráði örlögum vinstristjórnarinnar, sem lafir á einhverjum óljósum þræði.

Hann biðlar þar til Hollands og Bretlands að vera nú mild við kinnfiskasogna og þreytulega fjármálaráðherrann sinn. Merkileg tíðindi frá Össuri, sem eins og flestir vita er maðurinn sem ræður öllu fyrir konuna á formannsstóli í Samfylkingunni, heldur á öllum þræðum fyrir hana á meðan hún er inni á kontór. Þetta er raunalegur farsi sem við erum að fylgjast með hjá vinstrimönnum.

Ætli hann fari bráðum að taka enda?


mbl.is Segir Breta og Hollendinga fjárkúga Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er alltaf erfið tiltektin eftir að unglingarnir bjóða í partý og allt hefur ferið úr böndunum. En það er þó til fólk sem tekur að sér erfiðustu verk og þau Steingrímur J og Jóhanna eiga mikinn heiður, sæmd og stuðning skilinn.

Alltof margir hinsvegar kjósa að taka sér stöðu með partý-liðinu sem enn virðist ölvað og stendur álengdar og gerir hróp að hreingerningafólkinu. - Ekki eru það nú merkilegir pappírar.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.10.2009 kl. 01:03

2 Smámynd: Jón Daníelsson

Sæll Stefán.

Hreint ekki slæmur pistill. Get tekið undir margt af þessu. En því miður virðist mér margt skrifað af trú fremur en skynsemi. Um leið og skynsemin er látin ráða sjáum við að ALLIR stjórnmálaflokkar hafa nokkuð til síns máls.

Vegna þess að mér þykir þú hugsa skynsamlega, þykir mér leitt að sjá öll þessi lýsingarorð. Það er hverjum manni augljóst að þú kýst Sjálfstæðisflokkinn - og ert að öllum líkindum flokksbundinn. Ekki veit ég hvort þú gegnir einhverjum "trúnaðarstörfum" fyrir flokkinn. Það gæti svo sem afsakað þessa rosalegu flokksbundnu afstöðu. "Allt sem xD gerir er rétt" og "Allt sem aðrir gera er rangt".

Sem sagt: Mér finnst þú hugsa margt af skynsemi. En hvernig væri að blogga af hlutleysi, sem sagt frá eigin persónulegu sjónarmiði, án þess að byggja inn í aðra hverja málsgrein að vinstri stjórn megi aldrei vera við völd á Íslandi. Gríp hér þitt eigið orðalag: "í þessari lánlausu vinstristjórn".

Eða ertu kannski sjálfur í þeirri "lánlausu" aðstöðu að þurfa að treysta á flokkinn til að halda vinnunni?

Sjálfur er ég flokksbundinn í Samfylkingunni og held úti eigin heimasíðu þar sem ég blogga flesta daga. þar hef ég iðulega leyft mér að gagnrýna mitt fólk. Ég hef meira að segja gengið svo langt að taka undir fáeinar tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Hvernig líst þér að gera slíkt hið sama?

Allavega er heimasíðan mín hér: http://www.jondan.is/jondan/?D10cID=news

Góðar kveðjur - Jón Dan.

Jón Daníelsson, 3.10.2009 kl. 01:24

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það eru engin ný tíðindi að Jóhanna vilji ekki að stjórnarþingmenn kjósi samkvæmt sinni sannfæringu enda undir hennar formennsku i sf þá er það hennar skoðun sem ræður og þingmennirnir eiga að hafa sömu skoðun - það er bara þannig -
Þá má hrósa tveimur ráðherrum í þessari ríkisstjórn - annarsvegar Jóni Bjarnasyni í ESB-málinu og nú Ögmundi fyrir að ganga úr ríkisstjórn frekar en að láta undan hótunum OG einnig er rétt að hrósa Guðfríði Lilju fyrir að neita að taka sæti í þessari ríkisstjórn -
Það er allt í uppnámi og kaos í þessari ríkisstjórn

Óðinn Þórisson, 3.10.2009 kl. 10:25

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ólygin sagði mér að Svika-Móri hefði tekið hatt sinn og staf, förinni heitið til Tyrklands.

Sigurður Þórðarson, 3.10.2009 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband