Dramatíska hliðin á Guð blessi Ísland

Geir H. Haarde
Ég hef aldrei skilið dramatíkina vegna þess að Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland þegar hrunið var að skella á af fullum þunga. Alþekkt er að þjóðarleiðtogar biðji Guð að blessa þjóð sína í ræðum og þarf stundum ekki hamfarir, efnahagslegar eða náttúrulegar, til þess.

Forsetar í Bandaríkjunum, bæði demókratar og repúblikanar, hafa margoft gert þetta. Bæði Clinton og Reagan voru sérstaklega frægir fyrir að halda varla ræður án þess að biðja Guð að blessa bæði þjóðina og alla sem hlustuðu á þá. Obama hefur gert þetta líka.

Hér heima vissu sumir ekki hvernig þeir ættu að höndla það að íslenskur forsætisráðherra gerði þetta á örlagastundu í þjóðarsögunni. Svolítið spes, en kannski dæmi um hvernig sumir fóru af límingunum af minnsta tilefni á þessum mánuðum.

Þessi lokaorð í ávarpi Geirs munu eflaust fylgja honum. Ekki aðeins voru þetta örlagarík orð þessa daga sem allt hrundi, heldur hefur heimildarmynd verið gerð með þessum titli og oft er vitnað í það.

Hvað mig persónulega varðaði fannst mér ræða Geirs á þessum tíma frekar eftirminnileg fyrir að tala dramatískt hvað væri að fara að gerast en aldrei segja það beint.

Þorgerður Katrín kom með eftirminnilega eftiráskýringu á ávarpi Geirs þegar því lauk og væntanlega voru fáir þá að spá beint í þessum fleygu lokaorðum.

Sumir vilja ekki ákalla Guð, sumum fannst óviðeigandi að blanda Guð í efnahagshrun. En ég er viss um að þetta var vel viðeigandi, þó umdeilt sé.

En dramatíkin lifir enn og ummælin orðin fleyg.


mbl.is Átti að vera vinaleg kveðja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nokkur eftirsjá af McDonalds?

Ég er einn þeirra sem hef aldrei orðið sérstaklega hrifinn af McDonalds-hamborgurum og mun því sjá lítið eftir þeim. Er miklu meira fyrir gamla góða týpíska sveitta borgarann, þennan eina og sanna íslenska þjóðvegaborgara með frönskum og helst tómatsósu frekar en kokteilsósu. Þeir eru auðvitað í sérflokki og ég held að flestir séu mér sammála.

En auðvitað fór ég stundum í McDonalds, en fannst borgararnir þar ekki spennandi. Einna helst að ég fékk mér Big Mac þegar farið var í McDonalds. Síðustu dagana hefur fjöldi fólks flykkst til að smakka herlegheitin áður en öllu er skellt í lás. Væri viðeigandi að Jóhanna Sigurðardóttir fengi sér síðasta Big Mac seint í kvöld, sé hugsað til sögunnar.

Auðvitað hefur það vakið heimsathygli að skellt sé í lás á McDonalds á þessum tímum. Sumir fjölmiðlar sýnt því meiri áhuga en aðrir, sumir vitnað í að Davíð Oddsson hafi borðað fyrsta íslenska Big Mac. Ágætt að þeir fjalli um þessi litlu þáttaskil.

Eitt kom mér reyndar meira á óvart en annað þegar tíðindin voru kynnt: það að allt hráefnið væri flutt að utan. Taldi alltaf að kjötið væri íslenskt, en það er varla undrunarefni að erfitt sé að reka sjoppuna þegar allt er innflutt.

McDonalds kveður með hvelli. Í staðinn kemur Metro. Stóra spurningin er hvort nokkur eftirsjá sé af sjoppunni. Hana er altént ekki að finna hjá mér.


mbl.is Davíð fær ókeypis borgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrrealíski brandarinn um Icesave



Icesave fer eflaust í sögubækurnar sem botnlaust klúður eða samfélagslegt vandamál næstu kynslóða - fær þungan áfellisdóm. Eitt sinn var það metin tær snilld og fékk meira að segja verðlaun hér heima fyrir að vera algjört meistaraverk þeirra sem stóðu að því. Súrrealískt. Þessi auglýsing fyrir Icesave er hálfgerður brandari - kostulegt að horfa á hana nú.

Góð tíðindi fyrir Suðurnes - áfall fyrir Svandísi

Endurnýjuð ákvörðun Skipulagsstofnunar um að Suðvesturlínur verði ekki metnar með öðrum framkvæmdum er mikið pólitískt áfall fyrir Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, sem ætlaði að bregða fæti fyrir álverið í Helguvík - stöðva framkvæmdina til að skemma fyrir á Suðurnesjum.

Þessi hugsunarháttur er stórundarlegur á þessum tímum þegar reynt er að byggja upp. Niðurrifsstarfsemi vinstri grænna er ekki alveg í takt við tilraunir þeirra sem reyna að byggja upp einhverja framtíð.

Vonandi mun ákvörðun Skipulagsstofnunar verða til þess að Svandís fari að stunda vinnuna sína í stað þess að rífa niður.


mbl.is Ekki sameiginlegt mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikburða ríkisstjórn í pólitísku stórmáli

Ágætt er að norska pressan fjalli um hversu veikburða ríkisstjórnin hefur verið í Icesave-málinu frá upphafi til enda. Þessi stjórn gerði afleitan samning við Breta og Hollendinga í júní undir verkstjórn Svavars Gestssonar án þess að hafa þingmeirihluta. Sumarið fór svo í að endurvinna samninginn til að geta komið honum gegnum þingið.

Óánægjuarmurinn í VG og þingmenn Sjálfstæðisflokksins leiddu þá vinnu nær algjörlega og léku lykilhlutverk í að breyta samningnum til að hann endurspeglaði þingvilja, samningi sem hafði ekki stuðning meirihluta Alþingis. Samningurinn var þó er á reyndi aðeins á ábyrgð ríkisstjórnarinnar - ekki náðist stuðningur út fyrir S + VG.

Enn hefur verið samið, nú með því að útvatna fyrirvara Alþingis. Enn er óljóst um hvort málið fari í gegn, þó flest bendi reyndar til að snuddu hafi verið stungið upp í Ögmund og Liljurnar. Altént er spuni Ögmundar stórmerkilegur fyrir breyttri afstöðu þegar ljóst er að fyrirvararnir hafa verið veiktir. Björn Bjarnason rekur það í góðri bloggfærslu í dag. 

Mér finnst reyndar merkilegt hvað erlenda pressan hefur verið sofandi fyrir þeirri staðreynd að vinstristjórnin hefur verið að semja við sjálfa sig mánuðum saman hvað varðar Icesave. Hefur ekki haft meirihluta til að gera neitt. Fyrst var samið við Breta og Hollendinga, svo samið við Ögmundararminn og svo unnið á því - fyrirvararnir veiktir og sett snudda upp í Ögmundarliðið. Frekar fyndið en samt absúrd.

En svona er víst pólitíski veruleikinn í sundurleitri vinstriveröldinni hér heima - þar sem pólitíski stöðugleikinn er enginn.


mbl.is „Hneyksli á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð best treyst fyrir uppbyggingarstarfinu

Mér kemur ekki að óvörum að þjóðin treysti best Davíð Oddssyni fyrir uppbyggingarstarfinu, skv. skoðanakönnun. Þjóðin vill leiðtoga til að taka ákvarðanir og gera eitthvað í staðinn fyrir fólk sem gerir ekkert nema blaðra endalaust. Davíð var umdeildur, en hann þorði að taka ákvarðanir og gera eitthvað. Hann var líka alveg ófeiminn við að stuða og keyra hlutina áfram. Þannig fólk þurfum við til að byggja upp, þessa týpu af fólki, hvort sem það er Davíð eða einhver annar.

Ég sé að sumir undrast þessa útkomu og efast um hana. Varla þarf að efast um að niðurstaðan er traust, miðað við hversu mjög sumir hafa reynt að magna upp ófriðarbál haturs og illinda gegn Davíð Oddssyni og kennt honum einum um hvernig fór á síðasta ári. Ég tel að sagan meti að stjórnmálamennirnir á vaktinni við hrunið hafi borið miklu meiri ábyrgð. Þeir flutu sofandi að feigðarósi, hvorki þorðu að taka ákvarðanir né leiða þjóðina áfram.

En sagan hefur líka sýnt okkur að þeim farnast best sem þora að leiða, taka ákvarðanir og keyra hlutina áfram í staðinn fyrir að tala endalaust.... það er eftirspurn eftir þannig fólki nú í uppbyggingarstarfið.

Er hægt að treysta stjórnarparinu?

Góðs viti ef satt er að stjórnarparið Jóhanna og Steingrímur ætli að endurskoða áform um orkuskattinn. Vonandi er hægt að treysta þeim fyrir því að halda lífinu í stöðugleikasáttmálanum og standa við gefin orð. Það er til marks um sáttahug að aðilar vinnumarkaðarins hafi tekið orð þeirra trúanleg öðru sinni og reynt að byggja upp á rústum samningsins, sem stjórnvöld hafa ekki unnið heilshugar að.

En nú verða verkin að tala - ekki dugar að blaðra endalaust en sýna ekki fram á nein verk eða trausta forystu þegar hana vantar sárlega. Eins og allir muna ætlaði ríkisstjórnin í sáttmálanum að lækka vexti og styðja við bakið á atvinnulífinu. Ekki hefur það gerst að neinu marki. Þrátt fyrir marga mánuði hefur ekkert gerst - stjórnin hefur ekki staðið við sinn hluta dílsins.

En nú reynir á hvort eitthvað var að marka þessi orð og heitstrengingar nú, þegar samningurinn hékk á bláþræði. Fyrr en verkin tala er ekki hægt að taka mark á stjórnarparinu.


mbl.is Áform um orkuskatt endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott hjá Bjarna Ben að rífa kjaft í Stokkhólmi

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á hrós skilið fyrir ádrepu sína til Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í dag. Tímabært var að íslenskir stjórnmálamenn töluðu hreint út um gildi norræns samstarfs og hvort það sé einhvers virði eftir að Norðurlöndin horfðu þegjandi og hljóðalaust á aðförina að Ísland eftir efnahagshrunið.

Algjör óþarfi er að Ísland láti þegjandi og hljóðalaust yfir sig ganga endalaust og eigi svo að mæta brosandi og þegjandi á fund með þessum sömu stjórnvöldum á Norðurlöndum og hafa ekkert fyrir okkur gert og verið með haltu kjafti mola uppí sér mánuðum saman.

Þetta er flott hjá Bjarna - mikið var að einhver þorfði að rífa kjaft á þessari heilögu samkundu sem er ekkert nema húmbúkk.

mbl.is Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundruð ríkisstjórn rústar stöðugleikasáttmála

Flest bendir til þess að stöðugleikasáttmálinn heyri sögunni til vegna samstöðuleysis ríkisstjórnarflokkanna - á þessum örlagatímum er það skelfilegt að við völd sé ríkisstjórn sem getur hvorki tekið ákvarðanir né stýrt málum af festu.

Þegar þörf er á þjóðarsátt af sama tagi og gerð var fyrir tveimur áratugum til að rífa samfélagið upp úr doða og drunga virðist ekkert gerast. Stjórnarparinu virðist algjörlega ómögulegt að skapa von og framtíðarsýn. Sá er vandinn.

Við búum við algjöra pólitíska upplausn - ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið, getur ekki þokað málum áfram og sætt aðila vinnumarkaðarins í uppbyggingarstarfinu. Henni er ekki gefið að skapa nýja Þjóðarsátt til framtíðar.

Í þessu landi vantar samhenta og sterka ríkisstjórn sem þorir að skapa framtíðarsýn, byggja upp á rústunum og reyna að skapa stöðugleika. Hún er föst í gömlum og úreltum hjólförum, er bæði ósamhent og fjarlæg.

Trúverðugleikann vantar algjörlega. Auðvitað er sorglegt að við skulum ekki hafa neinn stöðugleiuka í stjórnmálum landsins, ríkisstjórnin er ekki samhent en virðist lafa saman við óttann að þurfa að viðurkenna að hafa mistekist.

Raunalegt og ömurlegt.


mbl.is Hafa ekkert nálgast niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flosi Ólafsson látinn



Við andlát Flosa Ólafssonar, leikara, minnist þjóðin eins besta grínista síns, föður Áramótaskaupsins og einstaks gleðigjafa, sem alltaf átti auðvelt með að létta lund þjóðarinnar. Flosi naut mikilla vinsælda og hann átti vísan sess í þjóðarsálinni. Hann var alltaf einlægur og traustur í húmor sínum og aldrei að þykjast vera eitthvað annað en hann var. Einn af þeim húmoristum sem var fyndinn bæði prívat og á sviði.

Tengsl Flosa við Akureyri eru órjúfanleg, tel ég, þó hann hafi reyndar ort einn kaldhæðnasta brag um bæinn fyrr og síðar. Hann nam hér og tók oft þátt í leiklistarstarfinu hér og var tíður gestur á leiksýningum hér. Hann var snillingur bæði í tjáningu og skrifum, hafði þá miklu náðargáfu að tala á mannamáli og vera sannur sagnamaður sem alltaf náði til fólks. Gamansögur hans í ræðu og riti urðu ógleymanlegar.

Hver mun nokkru sinni gleyma laginu um að það sé svo geggjað að geta hneggjað, húsverðinum Sigurjóni Digra, Eiríki hinum digra í Hrafninum flýgur (sem er veginn af eigin fóstbróður eftir mikil klækjabrögð gestsins), Varða varðstjóra í Löggulífi og rulluna í Hvítum mávum, svo og öllum hlutverkum hans og skrifum í Skaupinu, sem hann skapaði í kringum 1970 og gerði ódauðlegan hlut í áramótagleðinni.

Sjónvarpið ætti að taka sig til og heiðra nú minningu þessa meistara íslenska grínsins með því að gera þátt honum til minningar með öllum brotunum þar sem hann hefur farið á kostum bæði í eigin hlutverki sem og við að tjá allar hinar eftirminnilegu rullur sem hans verður minnst fyrir. Skaupið er 40 ára um þessar mundir og það er við hæfi að minnast þess um leið og Flosi er kvaddur.



Já, og að lokum: hver getur nokkru sinni gleymt auglýsingunni sem Flosi lék í fyrir Hreyfil við símanúmerabreytinguna árið 1996 um númerið í miðjunni: 5 88 55 22.... pjúra klassík.

Blessuð sé minning meistara Flosa.

Ólafur Ragnar ætti að feta í fótspor Baldurs

Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú birt helming bréfanna umdeildu, væntanlega bréfin sem líta betur út. Ég held að Ólafur Ragnar sé algjörlega rúinn trausti og sé á góðri leið með að gera íslenska forsetaembættið algjörlega óþarft. Styrkur þess og staða hefur veikst gríðarlega á örfáum mánuðum.

Forsetinn er ekki sannfærandi í verkefnum sínum og hefur glatað stuðningi þjóðarinnar til verka. Væri Ólafi Ragnari umhugað um þjóð sína væri hann búinn að segja af sér embætti.

Baldur Guðlaugsson tók þá virðingarverðu ákvörðun í gær að segja af sér til að skapa vinnufrið í menntamálaráðuneytinu - Ólafur Ragnar ætti að feta í þau fótspor.

Ef íslenska forsetaembættið á að lifa í gegnum þennan ólgusjó þarf að skipta um andlit á embættinu og reyna að endurheimta virðinguna.

Íslenska þjóðin þarf sameiningartákn - ekki sundrungarafl útrásartímanna á borð við Ólaf Ragnar.


mbl.is Forsetinn birtir bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðarverðlaunahafinn Obama fjölgar í herliðinu

Mér finnst það eilítið skondið að friðarverðlaunahafinn Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sé að fara að fjölga hermönnum í átökunum í Afganistan. Kannski er þetta leið hans til að fagna friðarverðlaunum Nóbels? Hver veit. Kannski betra að gera þetta núna en rétt áður en Obama tekur við friðarverðlaunum 10. desember?

En auðvitað er það nettur brandari að þessi maður, sem er pólitískt óskrifað blað að mestu - hefur engu afrekað, og er að fara að fjölga hermönnum, hafi fengið þessi verðlaun. Þau hafa verið gengisfelld gríðarlega.

Obama fékk verðlaunin víst vegna þess að Thorbjörn Jagland, fyrrum krataforsætisráðherra Noregs og formaður dómnefndarinnar, var með blæti fyrir honum. Krötunum fannst þetta víst mjög flott.

Efast um að Obama sé eins glaður með þennan "heiður". Hann þarf núna kannski að fara að standa undir nafni og gera eitthvað en ekki bara kenna öðrum um allt sem aflaga fer.

mbl.is Ný áætlun í bígerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun hjá Baldri

Baldur Guðlaugsson tekur rétta ákvörðun með því að láta af störfum sem ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu. Engin sátt mun nást um hann meðan óvissa ríkir um útkomu rannsóknarnefndar og uppgjörinu á hruninu.

Auk þess efast ég um að Baldri þyki þægilegt að starfa innan Stjórnarráðsins við þessar aðstæður. Það kallar aðeins á tortryggni og neikvæða umfjöllun sem mun hundelta hann.

mbl.is Baldur lætur af störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki óeðlilegt að krafist hafi verið uppstokkunar

Ekki þarf pólitískan sérfræðing til að sjá að mikil óánægja var meðal sjálfstæðismanna með forystu flokksins í janúar 2009. Landsfundur átti að vera í lok mánaðarins og eðlilega voru þeir komnir af stað sem vildu uppstokkun, breyta til í flokksforystunni. Enda hefði ekki verið óeðlilegt að það hefði verið kosið milli manna og gert upp fortíðina.

Eins og flestir vita kom ekki til þess: formaður flokksins vék vegna veikinda og hætti í stjórnmálum: landsfundi var frestað um tvo mánuði. Kosningar á landsfundi tóku á sig annan blæ og svo fór að tveir þingmenn sem aldrei höfðu setið í ríkisstjórn tókust á um formennskuna. Ekki var mikil eftirspurn eftir ráðherrum fyrri tíðar í það.

Enda er eðlilegt að horft sé til framtíðar með nýju fólki sem var ekki í eldlínu ákvarðana fyrir og eftir hrun.


mbl.is „Átti bara að vera okkar á milli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben slær á kjaftasögurnar

Ein lífseigasta kjaftasagan að undanförnu er að Jónína Benediktsdóttir og Gunnar í Krossinum eigi í ástarsambandi, en trúarhöfðinginn er nýskilinn eins og öllum ætti að vera kunnugt. Jónína Ben slær á kjaftasögurnar á facebook-síðu sinni og segir söguna ættaða frá Gróu á Leiti. Vel gert hjá henni, enda held ég að margir hafi haft gaman af því að koma sögunni áfram, og ekki alltaf leitað eftir hinu sanna.

Jónína Ben hefur lengi verið vinsæl hjá Gróu á Leiti. Væntanlega er hún orðin þreytt á hinum ýmsu sögum gegnum tíðina og hefur leiðrétt sumar ansi mynduglega. Sumir láta Gróu á Leiti stjórna hugsunum sínum og hugleiðingum. Forvitnin oft of mikil til að bíða eftir sannri frásögn í hinum ýmsu málum.

Mér finnst það töff hjá Jónínu Ben að tækla umræðuna og tala tæpitungulaust. Facebook er þannig vettvangur að þar er auðvelt að ná til margra. Hvað varðar Gróu á Leiti fékk hún vænt högg frá Jónínu. Hún er eins og venjulega ófeimin að tala hreint út.

Forsetinn á að birta öll bréfin

Ólafur Ragnar Grímsson hefur átt í miklum erfiðleikum með að svara fyrir bréfin sem hann hefur skrifað fyrir útrásarvíkingana í forsetatíð sinni. Leyna átti þeim í þrjá áratugi þrátt fyrir mikilvægi þeirra í rannsókn á efnahagshruninu. Þessi bréf eiga fullt erindi í umræðuna og þau á öll að birta sem fyrst.

Ólafur Ragnar er greinilega farinn að gefa eftir, enda veit hann að vandræðin eru fjarri því að baki vegna málsins. Hann ætti að klára málið með þeim hætti er bestur telst: að birta bréfin og leggja spilin á borðið.

mbl.is Íhugar að birta bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handrukkunarferlinu lokið - IMF heldur áfram

Seint og um síðir hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn komið málum Íslands áfram. Eins og fram kemur í yfirlýsingunni hefur allt verið stopp vegna þess að Bretland og Holland hafa haldið okkur í algjörri gíslingu. Þjónað hefur verið duttlungum þeirra mánuðum saman og við fryst á meðan. Lengi vel var því neitað að það væri ástæðan en auðvitað hefur handrukkunarblærinn verið augljós á vinnuferlinu með Ísland.

Hversu oft neituðu stjórnvöld hér heima að þetta tengdist; biðin eftir IMF og vinnubrögð viðsamjenda okkar. Þetta er til skammar fyrir IMF, enda var komið fram við Ísland af mikilli óbilgirni og óheiðarleika. En auðvitað er það svo að þessi stofnun er handrukkari stóru þjóðanna. Þessi yfirlýsing staðfestir það hafi einhver verið í vafa.

mbl.is Lán AGS tilbúið í lok október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingjaskapur stjórnvalda á örlagastundu

Fróðlegt var að sjá söguna á bakvið samskiptin við Bretland örlagadagana eftir hrunið í október 2008 í þætti Þóru Arnórsdóttur í kvöld. Sú spurning er áleitin hvers vegna íslensk stjórnvöld tóku ekki slaginn við Bretland í upphafi málsins, þegar einhver vörn var í boði. Auðvitað áttu stjórnmálamenn hér heima að fara með mál sitt fyrir NATÓ - ekki átti að sætta sig við að eitt NATÓ-ríki beitti hryðjuverkalögum gegn bandalagsþjóð.

Í staðinn var hummað og hóstað máttleysislega. Ekkert var gert. Íslenskir ráðamenn horfðu þegjandi á Gordon Brown vega að Íslandi og veita því mikið og þungt högg með orðum sínum á SKY 9. október 2008. Kippt var í einhverja diplómatíska spotta með því að kalla sendiherrann til forsætis- og utanríkisráðherra en ekkert meira var gert. Íslenskir ráðamenn höfðu ekki það í sér að taka til sinna ráða, ekki einu sinni tala við bresku pressuna.

Sumum fannst ég djarfur þegar ég sagði í bloggfærslu 9. október 2008, eftir viðtalið við durtinn Brown á Sky þar sem hann jós skít og skömmum yfir Ísland, að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Æ betur sést að það hefðum við átt að gera. Íslensk stjórnvöld áttu að svara fullum hálsi og taka málið föstum tökum frá fyrsta degi í stað þess að lympast niður.

Við höfum með þögn og aðgerðarleysi okkar í alþjóðasamfélaginu, t.d. með því að mótmæla ekki harðlega á leiðtogafundi NATÓ fyrr á þessu ári, vanið Bretana á að sparka í okkur án þess að svara í sömu mynt. Ég held að síðar meir verði þetta hik og aðgerðarleysi metið sem mikil og taktísk mistök. Slíkt blasir reyndar við öllum sem sjá þessa sögu nú ári síðar.

Þegar ein þjóð í NATÓ-samstarfinu beitir annarri hryðjuverkalögum og reynir að sparka henni til helvítis með því að eyðileggja orðspor hennar með vísvitandi hætti á slíkt heima innan NATÓ til umræðu.

Eitt annað var merkilegt í þessum þætti: mótmælin fyrir ári þegar allt var að fuðra upp. Ekki verður séð að mikið hafi breyst á þessu ári sem liðið er. Kosningarnar í vor skiluðu engum marktækum breytingum.

Ráðaleysið er enn algjört og leyndin engu minni, jafnvel meiri ef eitthvað er. Við vitum enn mjög lítið hvað er að gerast, erum enn í algjöru myrkri í lykilmálum.

Eina sem hefur breyst er kannski það að vinstrimenn eru hættir að mótmæla og eru á bömmer yfir því að stjórnin sem þeir kusu til valda er alveg máttlaus.

mbl.is Telja hollensk stjórnvöld líka bera ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siggi stormur rekinn af Stöð 2

Ég held að þeir á Stöð 2 geri mistök með því að reka Sigga storm, Sigurð Þ. Ragnarsson, veðurfréttamann. Hann er einn af þeim örfáu mönnum í íslenskri sjónvarpssögu sem hefur tekist að gera veðrið skemmtilegt sama hvernig það er.

Hann hefur getað gert leiðinlega veðurspá að skemmtiefni með útskýringum og tjáningu um lægðir og veðurkerfi. Man í seinni tíð aðeins eftir Þór Jakobssyni og Páli Bergþórssyni sem komast nærri Sigga stormi í þeim efnum.

Veður er þurrt og fræðilegt sjónvarpsefni í sjálfu sér, en allir fylgjast með því. Þeir sem geta gert það að skemmtilegum og fræðandi dagskrárlið með tjáningu sinni og fasi eiga hrós skilið.

mbl.is Siggi Stormur kominn á Kanann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin játar sig sigraða í Icesave-málinu

Enn einu sinni hafa Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon komið fram með "viðunandi" niðurstöðu í Icesave-málinu að eigin mati. Eins og við mátti búast játar vinstristjórnin sig sigraða í málinu og ætlar nú að breyta lögfestum fyrirvörum Alþingis. Þetta er allt eftir bókinni.... Samfylkingunni langar jú svo mikið í ESB. Blautur draumur.

Væntanlega á að keyra þetta í gegn fljótlega, svipaðar tilraunir og í sumar þegar átti helst að keyra Icesave-málið í gegn án fyrirvara og almennilegrar umræðu. Helst án þess að enginn fengi að lesa samninginn hræðilega sem Svavar Gestsson kom með heim... stóra skuldabréfið.

Jóhanna er orðinn fagmaður í að gefa eftir... enn einu sinni segir hún að ekki verði lengra komist með viðsamjendur. Þetta er orðin svo auðveld rulla að Jóhanna fer orðið sannfærandi með eftirgjöfina. Á ekki erfitt með að játa sig sigraða.

Þeir höfðu greinilega rétt fyrir sér sem sögðu í sumar að það yrði dýrkeypt fyrir Samfylkinguna að reyna að koma Íslandi í Evrópusambandið.

mbl.is Lengra varð ekki komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband