Vanvirðing við Alþingi

Niðurstaðan í Icesave-málinu er algjör vanvirðing vinstristjórnarinnar við Alþingi: algjör eftirgjöf og ósigur Íslands. Ekki aðeins þurfa Íslendingar að taka á sig auknar byrðar heldur er þingræðið algjörlega beygt. Í sumar tók þingið af skarið og setti fyrirvara sem styrktu stöðu Íslands í málinu.

Í stað þess að láta þingræðið eiga lokaorðið af hálfu Íslands gefa vinstriflokkarnir eftir og semja af sér það sem þingið sagði. Þetta er ein mesta niðurlæging Alþingis í stjórnmálasögu Íslands.

Vel við hæfi að kynna þetta í skjóli nætur... þetta eru algjör myrkraverk.

mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarlegt uppgjör

Fyrir öllu er að hrunið og allir þættir þess verði gerðir upp með heiðarlegum og traustum hætti. Annað er ekki viðunandi. Síðustu vikur hefur almenningur loksins fengið á tilfinninguna að eitthvað sé verið að gera og farið verði markvisst yfir alla þætti fyrir og eftir hrunið.

Fyrr verður ekki friður en uppgjörið er frá, hversu sársaukafullt sem það má vera fyrir alla sem því tengjast. Fólkið í landinu vill gera upp hrunið og þá gildir enginn hvítþvottur.

mbl.is Hlutabréfasala ráðuneytisstjóra rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grjóti kastað úr glerhúsi

Greinilegt er að Gunnar Björnsson ætlar að taka slaginn við Karl Sigurbjörnsson, væntanlega með því að fara í mál. Væntanlega er það besta leiðin fyrir hann til að verjast ef hann telur sig geta snúið aftur til starfa á Selfossi eftir allt sem á undan er gengið. Vandséð er hvernig hann geti sameinað söfnuðinn að baki sér eftir hið umdeilda mál.

Staða hans hefur gjörbreyst. Reyndar hefur óeining og ólga einkennt verk Gunnars hvar sem hann hefur starfað - hann hefur sundrað söfnuðum en ekki styrkt þá. Og það víðar um land. En það er réttur hans að berjast vilji hann reyna að halda í brauðið á Selfossi.... þó hann hafi sundrað söfnuðinum.

mbl.is Viljum fá prestinn okkar aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkileg aðför að Rögnu

Mér finnst aðförin að Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, í Háskólanum mjög ómerkileg. Sá skríll sem hefur sig þarna í frammi hefði átt að leyfa ráðherranum að flytja ræðu sína og heyra hvað hún hefur fram að færa. Hví er svona skríl ekki vísað á dyr?

Er leyfilegt að eyðileggja eitt stykki ráðstefnu af því nokkrir eru í fýlu og ekki fullorðnari en svo að leyfa ekki öðrum að tala?

Er þetta fólk í fýlu yfir því að ráðherra fer að landslögum í störfum sínum? Er þetta bara uppeldislegt vandamál?

mbl.is Gerðu hróp að ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfingin fer til Sjálfstæðisflokksins

Könnun Fréttablaðsins færir okkur tvenn stórtíðindi: annars vegar að fjórflokkurinn hefur sjaldan ef aldrei verið traustari í sessi og að kjörfylgi Borgarahreyfingarinnar fer til Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að mjög margir sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki kosið flokkinn í vor en treyst nýja framboðinu fyrir atkvæðinu, viljað prófa eitthvað nýtt - bæði til að refsa Sjálfstæðisflokknum og senda honum skilaboð sem eftir yrði tekið.

Ég tel að það verði nokkuð langt í að nýtt grasrótarframboð muni fá traust kjósenda. Borgarahreyfingin spilaði rassinn úr buxunum á mettíma - allur trúverðugleiki á þeim bænum er löngu farinn. Hreyfingin virðist aðallega vera til Sjálfstæðisflokkins, í orðsins fyllstu merkingu.

Mér finnst þetta gefa til kynna að fylgi Borgarahreyfingar á kjördegi var að mestu ættað frá Sjálfstæðisflokknum og frjálslyndum. Borgarahreyfingin fór fyrst að mælast fyrir alvöru eftir styrkjahneykslið.

Margir flokksmenn úr Sjálfstæðisflokki og þeir sem áður hölluðu sér að frjálslyndum virðast hafa kosið Borgarahreyfinguna frekar en treysta vinstriframboðum og þannig stimplað hana inn á þing.

Nú er þetta fylgi komið "heim" í orðsins fyllstu merkingu. Í þessu felst að fáir kusu Borgarahreyfinguna frá vinstri - þeir á þeim kanti treystu frekar VG.


mbl.is Ríkisstjórnin rétt héldi velli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúruleg aðför að Davíð

Mér finnst það auvirðilegt hvernig fréttastofa Ríkisútvarpsins fullyrti að brotthvarf Björgvins Guðmundssonar af Morgunblaðinu tengdist ráðningu Davíðs Oddssonar þrátt fyrir að Björgvin hefði sjálfur tekið fram í samtali við fréttamann að svo væri ekki. Þetta er ekki mjög fagmannleg fréttamennska, frekar lituð og ömurleg. Þetta er frekar lágkúruleg aðför, enda hljóta fréttamenn á fjölmiðli að vita að það eigi að vitna rétt í viðmælanda.

Mjög er reynt að sækja að Davíð Oddssyni eftir að hann varð ritstjóri Morgunblaðsins. Frægir eru tilburðir vissra fjölmiðla sem hafa manninn á heilanum, en enn verra er að fjölmiðill sem löngum hefur haft einhvern trúverðugleika reyni ekki að vinna sína vinnu almennilega.

mbl.is Yfirlýsing vegna fréttar RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ys og þys út af engu

Hinn sex ára Falcon Heene fékk aldeilis sínar 15 mínútur af frægð í dag. Eins ánægjuleg og fréttin um að hann hafi ekki verið í loftbelgnum hlýtur þeim að hafa gramist sem voru á milli vonar og ótta í leit að honum eftir að loftbelgurinn fannst mannlaus. En það er gott að þessi saga fékk farsælan endi. En þarna gildir eins og jafnan að líklegasta skýringin sé sú einfaldasta.

mbl.is Drengurinn fannst á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biskup færir Gunnar til - góð ákvörðun

Ég tel að Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hafi gert rétt í því að færa Gunnar Björnsson úr starfi. Ekki er hægt að bjóða íbúum á Selfossi upp á að prestur snúi aftur eftir svo umdeilt mál - slíkt hefði leitt til þess að söfnuðurinn hefði sundrast upp, í fylkingar með og á móti prestinum, og haft mikla eftirmála, meiri en málareksturinn hafði. Heiðarlegast og best er að skipt sé um prest.

Auðvitað hefði verið einfalt fyrir biskup að hafa mál áfram með sama hætti. En þessi ákvörðun er djörf en um leið ákveðin leið til að sýna að biskup þorir að færa presta til sem hafa verið umdeildir og skipt sókn sinni í fylkingar í erfiðu máli.

mbl.is Gunnar til Biskupsstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnlaus gunguskrif - umdeildur fjölmiðlamaður

Ég er að mörgu leyti sammála Sturlu Böðvarssyni, fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis, um netskrif. Mér finnst það alveg óþolandi þegar fólk þorir ekki að tjá sig digurbarkalega nema í skjóli nafnleyndar eins og t.d. í kommentakerfi Eyjunnar og hjá Agli Helgasyni. Slík skrif dæma sig þó alltaf sjálf. Hvað þau varðar er ég algjörlega sammála Sturlu.

Egill Helgason er umdeildur, hann kemur þannig fram að hann kallar eftir því að fólk dýrki hann eða þoli ekki. Ekkert að því kannski, skrif hans eru beinskeytt og afgerandi. Hann kallar ekki beint eftir hlutlausum skoðunum á sér með því að skrifa þannig. Þó ég sé ekki alltaf sammála Agli virði ég við hann að tala hreint út og þora að hafa skoðanir.

Svo er það annað mál hvernig það fer saman við þá stefnu RÚV að vera hlutlaust í umfjöllun. Það er svosem mál Egils og hans yfirmanna. En mér finnst það betra að menn hafi skoðun og séu ekkert að fela hana. Það gerir þáttinn eflaust beittari, og kallar fram skýrari línur á mati fólks á viðkomandi fjölmiðlamanni.

Sá sem þannig talar vill verða umdeildur, þannig er það bara. Því er kannski ekkert undarlegt að Sturla t.d. hafi á honum skoðun.

mbl.is Sturla: Egill heldur úti ritsóðasíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum enn á upphafsreit

Napri veruleikinn ári eftir hrun er sá að við erum enn á sama reit. Ekkert hefur breyst. Ekki verður séð að pólitíski veruleikinn sé öðruvísi eða við lifum í einhverju öðru eða betra andrúmslofti. Við erum enn að upplifa að okkur er ekki sagt frá öllu sem er að gerast... við erum enn í hálfgerðu myrkri.

Eins og ég sagði í gær er engu líkara en við séum komin í kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray þar sem hann upplifir sama daginn aftur og aftur.

mbl.is Flestir lykilmennirnir farnir frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemst forsetinn upp með að leyna bréfunum?

Eðlilegt er að spyrja hvort Ólafur Ragnar Grímsson komist upp með að leyna í þrjá áratugi bréfunum sem hann skrifaði til að tala máli útrásarvíkinganna. Ætlar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að skrifa upp á þessa leynd? Ef þessi þriggja áratuga leynd verður staðreynd er það leynd skrifuð upp á af ríkisstjórninni ekki síður en forsetaembættinu.

Raunalegt er að sjá bréfaskrif forsetaembættisins til Fréttablaðsins í dag, þegar blaðið reynir að fá bréfin til birtingar. Það er mjög dapurlegt að sjá forsetaembættið, sem forðum var táknmynd virðingar og var sameiningartákn þjóðarinnar, á kafi í slíku máli, að reyna að leyna óþægilegum bréfaskriftum forsetans fyrir auðmenn.

Illa er komið fyrir þessu embætti, enda er það rúið trausti og engum dettur í hug að nefna íslenska forsetaembættið eitthvað sameiningartákn hérlendis. Eitt prósent sagði það þó í nýlegri könnun. Þessi forseti er rúinn trausti og reyndar er það rannsóknarefni að hann skuli reyna að sitja áfram eins og komið er málum.

mbl.is Rætt við yfir 300 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslu rannsóknarnefndar seinkað

Seinkun á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru nokkur vonbrigði. Ég tel að margir hafi beðið spenntir eftir uppgjörinu um næstu mánaðarmót og séð þá dagsetningu sem ljóstýru í því mikla myrkri sem er yfir íslensku samfélagi um þessar mundir. Fjölmargir binda miklar vonir við skýrsluna og niðurstöðu í rannsókn saksóknarans sem þáttaskil í þessu máli.

Eftir heilt ár frá hruninu hefur lítið breyst. Upprifjun á atburðarás októberdaganna fyrir hrunið 2008 í þætti Þóru Arnórsdóttur kallar enn frekar fram þá tilfinningu að við séum í algjöru tómi, ekkert hafi gerst. Enda er engu líkara en við séum komin í kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray þar sem hann upplifir sama daginn aftur og aftur.

Vonandi er þessi seinkun ekki merki um annað en nefndin þurfi meiri tíma. Seinkunin gerir að verkum að biðin verður enn lengri og væntingarnar verða enn meiri. Vonandi verður þessi bið einhvers virði. Þjóðin þarf á uppgjörinu mikla að halda.


mbl.is Rannsóknarskýrslu seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sótt að landsbyggðinni

Ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðar er í takt við skoðanir mjög margra á landsbyggðinni með stöðuna sem blasir við nú. Sótt er að landsbyggðinni þegar þrengir að, svæði sem aldrei sáu neitt góðæri sitja uppi með að taka á sig skellinn stóra þegar á reynir. Þrengt er að hinum dreifðu byggðum landsins alveg miskunnarlaust.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa að mörgu leyti sérstaklega slæmar afleiðingar fyrir fólk á landsbyggðinni. Greinilega á að láta niðurskurðarhnífinn ganga þar alveg miskunnarlaust. Ekki er þessi ríkisstjórn heldur að tala upp nýjar framkvæmdir sem skipta lykilmáli til að rífa okkur upp úr lægðinni.

Þar er ekki horft til framtíðar... heldur mun frekar fortíðar... reyna að rífa niður frekar en byggja upp. Það er sorgleg framtíðarsýn.

mbl.is Telja vegið að landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að halda bréfum forsetans leyndum í 30 ár?

Í dag heyrði ég að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vilji halda leynd á bréfum sem hann skrifaði erlendum þjóðhöfðingjum til að tala máli útrásarvíkinganna í heil 30 ár. Er þetta rétt? Heldur maðurinn virkilega að það verði hægt að gleyma því að forseti Íslands hafi verið í bréfaskriftum til að skjalla útrásarvíkingana og reyna að fá aðra til að taka þátt í ómerkilegri maskínu þeirra?

Af hverju þarf að fela þessi bréfaskipti í þrjá áratugi? Hvað er þarna sem þarf að fela? Á borðið með þetta allt saman! Þetta á að birta, sem allra fyrst.


mbl.is 49 mál í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð vísbending - áhættan enn til staðar

Samkomulag um uppgjör á eignum og skuldum Landsbankans er góðs viti hvað varðar Icesave-málið og gefur góða vísbendingu um framtíðina, þó vissulega sé ljóst að áhættan sé enn til staðar í þessu stóra máli. Í þessu máli eru enn miklar efasemdir um hvað verður og áhættan af matinu enn nokkur sé litið til framtíðar.

Því ber að fagna að meiri vissa sé um stöðuna, því verður ekki neitað. Icesave-málið hefur verið sem mara yfir íslensku samfélagi. Vonandi fara örlög þess máls að ráðast. Þau sliga stjórnarsamstarfið og hafa haft mikil áhrif á íslensku þjóðina.

En framtíðin er óljóst. Þetta mat gefur væntingar en jafnframt má öllum vera ljóst að óvissan um framtíðina er til staðar. Áhættan er öllum ljós.


mbl.is 90% upp í forgangskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðin mikla

Hvað svo sem segja má um Sigurjón Árnason og myrkraverk þeirra í Landsbankanum með Icesave er alveg ljóst að orð hans um ríkisábyrgðina og afleitan samning við Breta og Hollendinga eru allrar athygli verðar. Augljóst var að íslensk stjórnvöld sömdu herfilega af sér og gerðu mikil mistök, fyrst og fremst með því að setja viðvaninga í forystu samninganefndar sem hélt utan um eitt mikilvægasta mál lýðveldissögunnar.

Auðvitað er það líka rétt að ríkisábyrgðin varð ekki endanleg fyrr en þingið skrifaði upp á hana. Svo má auðvitað deila um það hvort við áttum að taka á okkur þessar skuldbindingar eða viðurkenna að skuldir óreiðumanna hafi verið þjóðarskuldir. Slíkt voru mikil mistök, ég er viss um að dómur sögunnar verður þungur yfir þeim þingmönnum sem samþykktu slíkt.

Hitt er svo annað mál að Sigurjón ber mikla ábyrgð - ég er viss um að hann mun þurfa að axla hana fljótlega.

mbl.is Sigurjón: Ekki ríkisábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna kallaði eftir staðfestingu á fyrra svari

Ég tek undir með Höskuldi að bréfaskrif Jóhönnu kölluðu á staðfestingu Stoltenbergs á fyrri samskiptum en ekki nýrri áherslu á lánveitingu. Vekur eiginlega enn meiri spurningar um fyrri samskipti milli kratanna. Framsókn hefur verið djörf í orðavali og farið fram af nokkrum krafti. Ég ætla ekki að nefna ferð þeirra til Noregs sneypuför.

Eðlilegt var að fara og kanna þennan valkost alla leið, enda borist meldingar um að það væri glufa í þessu ferli. En enn augljósara er hver afstaða norrænu vinaþjóðanna er til Íslands... þar er í besta falli vilji til að Ísland beygi sig undir vald stóru ríkjanna og taki á sig þungar byrðar en hreint út sagt er þetta meðvirkni með handrukkaranum.

mbl.is Kallaði á neikvæð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna birtir loks tölvupóstana

Gott er að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi loks birt bréfaskipti sín og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Þau varpa ljósi á samskiptin og hver staða málsins er milli þjóðanna. Reyndar finnst mér orðalagið hjá Jóhönnu þess eðlis að eðlilegt er að velta fyrir sér hvaða svari hún óskaði eftir. Tónninn kallar frekar á staðfestingu um að veita ekki lánið en ella.

En það er reyndar fyrir löngu ljóst að Samfylkingin hefur tekið þá afstöðu að semja við Breta og Hollendinga, breyta fyrirvörunum sem voru lögfestir og sætta okkur við það sem rétt er að Íslendingum. Tónninn er markaður af undirgefni.

mbl.is Birtir bréf Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar Jóhanna ekki að birta tölvupóstinn?

Ef Jóhönnu er svona illa við orðróm framsóknarmanna og talið um skilaboð hennar til Stoltenbergs ætti hún að birta tölvupóstinn strax... í raun um leið og hún gaf út þessa yfirlýsingu sem svar við ummælum Höskuldar.

Ekki er eftir neinu að bíða... nú þegar líður á daginn er eðlilegt að spurt sé hvort þetta verði ekki birt í dag. Hvers vegna þarf að fabúlera um tölvupóst sem auðvelt er að birta svo allir viti hvað kom þar fram?

mbl.is Mun ekki biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagðist Jóhanna gegn norskri lánveitingu?

Sé það rétt sem Höskuldur Þórhallsson bendir á varðandi samskipti Jóhönnu við Stoltenberg er það alvarlegt mál. Í þessum efnum duga engar kjaftasögur og hálfkveðnar vísur. Jóhanna birtir vonandi öll gögn svo allt sé á borðinu, eins og ég sagði reyndar strax eftir miðnættið áður en Höskuldur kom fram með þessar ásakanir í garð íslenska forsætisráðherrans.

Jóhanna hlýtur að leggja spilin á borðið ef allt er í lagi.

mbl.is Jóhanna beitti sér gegn láninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband