10.10.2009 | 00:57
Mun Jóhanna ekki birta tölvupóstinn til Noregs?
Þá er norska nei-ið staðreynd. Þetta var svosem orðið augljóst, enda hafði Kristin Halvorsen ekkert gert fyrir Steingrím J. né höfðu norskir kratar viljað leggja okkur lið. Mér finnst eðlilegt að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, birti samt tölvupóstinn sem hún sendi til flokksbróður síns í Noregi, Jens Stoltenberg.
Hvernig er svona orðað.... hvernig bar Jóhanna erindið upp og hvernig var svar forsætisráðherrans. Ágætt fyrir okkur að sjá orðalagið... sérstaklega hvernig erindið var borið upp... enda ekkert smámál.
Hvernig er það annars... er þetta ekki í fyrsta skipti sem sagt er frá því í fjölmiðlum að íslenski forsætisráðherrann hafi haft bein samskipti við aðra en ráðherra sína og starfsmenn ráðuneytisins?
![]() |
Hærra lán ekki í boði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2009 | 21:05
Einleikur Jóhönnu - pólitískar hótanir
Einleikur Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í dag túlkast ekki öðruvísi en sem úrslitakostir til VG: annað hvort sameinist þeir um Icesave eða samstarfinu sé lokið. Þau vinnubrögð að leka vinnugögnum, sem voru trúnaðarmál, til fjölmiðla án þess að tala við fjármálaráðherrann (leiðtoga hins stjórnarflokksins), viðskiptaráðherrann og seðlabankastjórann er til vitnis um pólitískar hótanir og undirstaða stjórnarsamstarfsins sé orðin veik.
Jóhanna er auðvitað sérfræðingur í pólitískum hótunum, enda algjörlega ófær um að sinna verkstjórahlutverki í ríkisstjórninni, miðla málum og leiða viðkvæm mál til lykta með diplómatískum hætti. Þetta eru skilaboð Samfylkingarinnar um að við eigum að sætta okkur við Icesave með breytingum, í raun verið að búa okkur undir það að við sættum okkur við það sem okkur er rétt. Spuninn er: Sorrí, en við verðum að gefast upp.
Eftir rúma átta mánuði við völd er vinstristjórnin í raun enn á upphafsreit. Jóhanna virðist illa áttuð og þreytt, er bæði orðin óvinsæl og rúin trausti meðal þjóðarinnar. Er komin á pólitíska endastöð hvernig sem fer. Þessir einleikir hennar er til vitnis um að traustið er að þverra og þá standa aðeins hótanirnar eftir. Svona eru vinnubrögðin... kemur kannski ekki á óvart, enda hefur á þeim bænum verið til siðs að vinna svona.
Stóra spurningin er sú hvort einleikur Jóhönnu breyti stöðu mála.... í og með liggur í loftinu að verið sé að undirbúa okkur fyrir stór tíðindi. Örlagadagar þessa máls nálgast og svara verður af eða á, auk þess liggur brátt fyrir hvort hægt sé að starfa áfram með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Svo verður að ráðast hvert límið er eftir í þessari lélegu vinstristjórn sem virðist ráðalaus og sundruð á vaktinni - sennilega að falla í valinn í þeirri pólitísku kreppu sem hefur staðið meira og minna frá hruninu. Frekar líklegt er að forsætisráðherrann sé að gufa upp, hennar kapítal er búið.
Forsætisráðherra sem kemur svona fram og spilar svona sóló án þess að tala við nokkurn mann er ekki í jafnvægi til að taka á málum. Hennar tími er liðinn, hafi hann svosem einhvern tímann komið, sem ég efast orðið um. Hún veldur ekki þessu embætti. Burt með þig Jóhanna.
![]() |
Funduðu í Karphúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2009 | 13:38
Vanhugsuð vitleysa
Vanhugsuð vitleysa... þeir sem koma með svona tillögur nú eru einnota stjórnmálamenn, í besta falli.
![]() |
Vilja að borgarfulltrúar verði 61 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2009 | 11:10
Obama fær friðarverðlaunin fyrirfram
Obama er að mörgu leyti merkilegur stjórnmálamaður sem hefur markað söguleg þáttaskil. Ég held að þrátt fyrir að hann sé umdeildur víða efist enginn um að hann meinar vel og hefur margt ágætt fram að færa. Vandinn er sá að hann hefur ekki komið neinu í verk enn. Forsetinn hefur sett margt af stað, hefur reynt að koma hlutum áfram, t.d. í Mið-Austurlöndum, skipað samningamenn og talað við þjóðarleiðtoga. Þó er ekki hægt að benda á nein afrek hans, enda er hann óskrifað blað að mestu.
Þetta er svona eins og að verðlauna íþróttamann á fyrsta stórmóti með heiðursverðlaunum fyrir ferilinn, svona af því að fólki líst svo vel á hann - það sé öruggt að hann verði afreksmaður. Hljómar eins og brandari. Ég efast ekki um að með þessu er verið að vonast eftir að hann geri eitthvað. En hann verður þá undir mikilli pressu. Fari Obama úr Hvíta húsinu án afreks í mannúðarmálum verður valið enn fyndnara og afkáralegra.
Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir friðarverðlaunum Nóbels. Svona val gerir þó ekkert annað en rýra trúna á að friðarafrek leiki lykilhlutverk í valinu. Þetta á að vera heiðursverðlaun fyrir afrek, en ekki væntingar. Menn eiga að fá þau fyrir feril en ekki fyrir að vera óskrifað blað og líta vel út á pappírnum.
![]() |
Obama fær friðarverðlaunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2009 | 13:49
Fréttablaðið fikrar sig á áskrifendamarkaðinn
Eins og árar þarf það ekki að koma á óvart. Í raun er það stórmerkilegt hvernig fríblað af þessu tagi hefur gengið þetta lengi án þess að gera miklar breytingar eða hreinlega að hafa haldist á floti mánuðum saman eftir kreppuna, þegar auglýsingatekjur hafa dregist stórlega saman.
Fréttablaðið hefur verið í forystusessi fyrst og fremst vegna þess að því er dreift um allt land og fólk fær það heim hvað sem gerist. Þeir tímar eru liðnir að fjölmiðlar geti gengið með þeim hætti að fólk fái þá ókeypis. Allar aðstæður kalla á nýja tíma.
Eflaust er þetta fyrsta merki þess að blaðið sé feigt... við sjáum hvað setur.
![]() |
Fréttablaðið selt úti á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2009 | 00:39
Vinstri grænir þora ekki að ræða átakamálin
Þetta hljómar jafn traustvekjandi og síðasti þingflokksfundur vinstri grænna þar sem Steingrímur fékk umboð fullt af fyrirvörum andstöðuhópsins í Icesave-málinu innan þingflokksins. Fundurinn var túlkaður í fyrstu sem mjög merkilegur og formaðurinn hefði fengið fullt umboð... síðar kom í ljós að hann fékk í besta falli umboð til að fara, en ekki fullan stuðning til að gera eitt né neitt.
Enda hefur það komið á daginn... allt er í lausu lofti í stærstu málum þessarar ríkisstjórnar og ekki augljóst hvort það sé þingmeirihluti innan ríkisstjórnarinnar um IMF og Icesave.... varla svosem. Yfirlýsingar síðustu daga hafa sýnt og sannað að flokkurinn er klofinn í herðar niður. Við völd situr minnihlutastjórn varin af Ögmundarhópi. Það loga neistar víða.
Eðlilegt að vel gangi og allt sé í góðum fíling þegar ekki er snert á hitamálunum. Nú eigum við eftir að sjá hvað verður úr þessu. En ég hlakka til að sjá hvernig Jóhanna, Steingrímur og Ögmundur leysa úr þessum ágreiningsmálum. Sé eitthvað orðið augljóst eftir atburðarás síðustu daga er það að Ögmundur er orðinn einn leiðtoga þessa stjórnarsamstarfs.
Hann leiðir þriðja arminn í samstarfinu, arminn sem ræður hvort stjórnin lifir eða deyr. Svo verður að ráðast hvort þau geti öll dansað tangó saman.
![]() |
Fundi VG lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2009 | 22:51
Guð blessi Ísland

Ég fór í bíó í kvöld og sá heimildarmyndina Guð blessi Ísland eftir Helga Felixson - vel við hæfi ári eftir að Geir H. Haarde lét hin fleygu orð falla þegar hann færði fólkinu í landinu hin válegu tíðindi að allt væri að hrynja. Myndin er lífleg deigla og heiðarleg tjáning um ástandið eftir hrunið og þar til efnahagskreppan varð að stjórnmálakreppu með falli ríkisstjórnar í skugga átakanna á Austurvelli þegar allt fór úr böndunum.
Í myndinni er fléttað saman, mjög traust, svipmyndum frá þessum örlagatímum í sögu þjóðar í krísu, viðtölum við útrásarvíkingana umdeildu sem breyttust úr goðum í djöfla í huga fólksins í landinu, pólitískum innslögum þegar atburðarásin tók á sig æ drastískari mynd og hugleiðingum stjórnmálamanna í miðju átakanna og hrunsins mikla. Stærsti og mikilvægasti þátturinn er innsýn í hugarheim þeirra sem misstu allt sitt í þessum ólgusjó.
Merkilegasti punkturinn í myndinni að mínu mati er spennufallið sem var hjá fólki þegar ríkisstjórninni var bolað frá með mótmælum. Sumir önduðu léttar, aðrir sáu framtíðina fyrir sér sem jákvæða eða neikvætt upphaf hins sanna uppgjörs. Þegar við sjáum myndina og upplifum janúarbyltinguna vitum við að í raun erum við á sama punkti og fyrir ári þegar Geir bað Guð að blessa þjóðina. Hvað hefur breyst? Ekki neitt.
Kerfið er enn hið sama, stjórnmálamennirnir veita enn jafn loðin og undarleg svör. Þjóðin var illa upplýst fyrir ári og við erum enn í sama myrkrinu - ljósu punktarnir eru í það minnsta fáir. En myndin gerir meira en sýna okkur að við erum enn í sama feninu - hún sýnir okkur hugarheim útrásarvíkinganna í fókus og eins í spjalli þegar þeir halda að enginn hlusti á nema spyrillinn. Merkileg sýn í það minnsta - umdeild. En er þetta ekki fín viðbót? Held það.
Myndin verður eflaust umdeild.... hver metur eins og hann vill þetta sjónarhorn. Ég held að það sé samt mjög heiðarlegt.... þetta er lítið kíkjugat frá merkilegu sjónarhorni. Örlagatímar eru það.... og við veltum eflaust fyrir okkur þegar myndinni lýkur hvort og hvað hefur breyst til góðs eða ills. Ég held að við bíðum enn eftir nýjum og heiðarlegum tímum... margir urðu fyrir vonbrigðum með afrakstur byltingarinnar.
En svona er þetta bara.... fókusinn er altént stórmerkilegur - ég tel að þetta sé skylduáhorf fyrir alla. Svo metum við hvert og eitt okkar hvort myndin sé meistaraverk. Mér finnst hún heiðarleg innsýn og góð fyrir sinn hatt. Þarna fá tilfinningar að njóta sín frá öllum hliðum.... tónlistin og umgjörðin kallar fram tilfinningar þeirra sem horfa á, bæði jákvæð og neikvæð. Hið besta mál.
![]() |
Mörgum spurningum ósvarað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2009 | 15:36
Hannes Smárason missir húsið
Þetta þýðir væntanlega að mótmælendur geta hætt að sletta málningu á Fjölnisveginum.
7.10.2009 | 13:42
Er þetta Steingrímur J. á leið til Bessastaða?

Ég hélt þegar ég sá myndina fyrir ofan að þetta væri Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á leið til Bessastaða, en svo virðist ekki vera - hann hefur verið þekktur fyrir að draga fram gamla Volvóinn sinn á tyllidögum og þeysa á honum til funda á forsetabústaðnum.
Sjálfur talsmaður loftslagsmála og umhverfisverndar - sýnir gott fordæmi, eða hvað?
![]() |
Skiptar skoðanir um loftslagsmál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2009 | 11:47
Ögmundur lætur sverfa til stáls
Eðlilegt að spyrja hvernig Steingrími muni takast að vinna þeirri áherslu fylgis innan VG að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist með samstarfið við IMF. Ögmundur dissar allar tilraunir Steingríms og gerir lítið úr honum... tímasetningin auðvitað engin tilviljun. Hvernig verður hægt að sætta þessar tvær gjörólíku áherslur?
Nú reynir á alla pólitíska lagni Steingríms. En eflaust skiptir það engu máli. Þessi ríkisstjórn er auðvitað feig. Pólitíska kreppan heldur áfram og ekki þarf að efast um glundroðakenninguna um vinstristjórnir.
![]() |
Höfum ekkert við AGS að gera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2009 | 01:03
Þokkagyðjan Liz
Enda hver getur nokkru sinni gleymt senunni flottu í Ketti á heitu blikkþaki, hinni yndislegu mynd byggðri á sögu Tennessee Williams, þar sem hún fór á kostum með Paul Newman, en hún lék í myndinni á tímamótum í lífi sínu, rétt eftir að eiginmaðurinn Mike Todd fórst í flugslysi. Stóra umfjöllunarefnið var þar í senn ástin og dauðinn.
Risinn var eitt hinna ógleymanlegu meistaraverka undir lok gullaldartíðar Hollywood, sem lýsti hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Samleikur Liz með Rock Hudson og James Dean er rómaður, öll áttu þau stjörnuleik. Þetta var síðasta myndin hans Dean. Alveg yndisleg... og Liz túlkaði kjarnakonu í gegnum aldarfjórðung ævi hennar með bravúr.
Stóra perlan hennar er þó auðvitað Martha í Who´s Afraid of Virginia Woolf... leiftrandi og öflug í sjóðandi heitri mynd. Hrein snilld... og hver getur nokkru sinni gleymt þessari senu? Taylor og Burton, dýnamíska dúóið í stuði.
![]() |
Elizabeth Taylor í hjartaaðgerð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2009 | 23:14
Vinstrimenn vilja að ríkið hugsi fyrir þig!
Fyrir nokkrum árum var merkileg fréttaskýring í Sjónvarpinu. Þar fjallaði Páll Benediktsson um sykur í matvælum. Ég mun aldrei gleyma myndskeiði frá MS þar sem starfsmaður gekk að mjólkurtanki með sykursekk og hellti úr honum út í mjólkina. Það var verið að búa til kókómjólk, jógúrt og skyr.is að mig minnir. Skiptir svosem ekki máli. Varla eru þetta hreinar mjólkurafurðir... reyndar er umhugsunarefni hvort sé hollara kók eða kókómjólk í skólanestið.
Ef það er eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki er það forræðishyggja af öllu tagi. Tal um neyslustýringu landans fer alltaf jafn mikið í pirrurnar á mér. Enn einu sinni hafa fulltrúar vinstrimanna minnt á sig og lífsskoðanir með því að reyna að hafa vit fyrir fólki með neyslusköttum. Sami gamli boðskapurinn... ríkið eigi að hugsa fyrir alla og setja alla í sama formið.
Eðlilegt er að þeir sem selja vörur mótmæli því að smurt sé ofan á 45% neyslusköttum sisvona... þegar eftir sitja sykraðar vörur sem taka ekki á sig hið sama. Er einhver munur á sykri og sykri?
![]() |
Undrast allt að 45% álögur ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2009 | 16:51
Vandræðalegar yfirlýsingar hjá Steingrími J.
Ávallt er það merki um að eitthvað sé stórlega að þegar stjórnmálamenn þurfa að koma fram æ ofan í æ og ítreka að allt sé í himnalagi. Steingrímur J. Sigfússon hljómar ótrúverðugur þegar hann þarf að segja æ ofan í æ í símanum frá Istanbúl að það sé nú allt í lagi með vinstristjórnina. Maður bíður eiginlega eftir að hann segi hið sama og Georg Bjarnfreðarson: Þetta er allt einn stór misskilningur!
Heiðarlega matið segir öllum sem fylgist með að algjört stjórnleysi er í vinstristjórninni sem kosin var til valda í vor. Hún ræður ekki við verkefnið og er strand, er í raun orðin að minnihlutastjórn með fulltyngi Ögmundararmsins í VG. Sá er veruleikinn, þetta er einfaldlega staðan. Hvernig svo sem úr henni spilast.
Glundroðakenningin lifir góðu lífi - þetta er normið hjá vinstristjórnunum. Þær lifa í besta falli árið, en geta lifað lengur og þá skaðað þjóðarbúið meira en orð fá lýst. Enda er það hin gullna staðreynd að þær lifa aldrei út kjörtímabilið. Ekki virðist þessi líkleg til afreka, er í raun orðið algjört hræ.
![]() |
Hefur trú á að stjórnin lifi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2009 | 15:11
PR-sýndarmennska Jóhönnu
Samfylkingin hefur nú setið í þremur ríkisstjórnum frá árinu 2007 og sat í stjórn í tæpt eitt og hálft ár áður en kom að hruninu og hafði viðskiptaráðuneytið og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins á sinni könnu. Hún flýr því ekki ábyrgðina svo glatt. Kannski er ágætt að þetta fólk biðjist afsökunar, nógu lengi hefur það aðeins viljað kenna öðrum um það sem aflaga fór.
![]() |
Biður þjóðina afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2009 | 11:06
Jóhanna lætur loks í sér heyra á alþjóðavettvangi
Það tók heilt ár að tjá sig á mannamáli um þessa ömurlegu framkomu Breta - sama á hverju hefur dunið hefur þögnin verið eina vörn lélegra stjórnvalda á Íslandi. Ári eftir setningu hryðjuverkalaganna heyrist eitthvað. Ætli Jóhanna sé búin að átta sig á því að fólkið í landinu nennir ekki að styðja þá lengur sem halda kjafti þegar ráðist er að Íslandi.
Eflaust átta Jóhanna og ráðgjafar hennar sig á því að betra er að segja eitthvað en ekki neitt, sérstaklega þegar stórmál eru undir. Seint og um síðir hefur sú staðreynd komist til Jóhönnu í gegnum herráðið hennar.
![]() |
Jóhanna gagnrýnir Brown |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2009 | 10:58
Dramatíkin í VG
Ögmundur heldur áfram að dissa Steingrím J. í Fréttablaðinu í dag. Ekki nema von að maður velti fyrir sér hvernig verði hægt að sætta þessa tvo risa vinstri grænna eftir það sem á undan er gengið. Dramatíkin í þessum eitt sinn samhenta flokki Steingríms J. er farin að minna illilega á Framsóknarflokkinn undir lok formannsferils Halldórs Ásgrímssonar - þar var hver höndin upp á móti annarri, allt lak út af þingflokksfundum og hatur meðal þingmanna hvor í annars garð var gríðarleg.
Kannski má fullyrða með sanni eitt augnablik að VG hafi ekki verið eins lengi og Framsókn í ríkisstjórn og vel megi vera að allir finni taktinn sinn aftur. Líkurnar á því hafa þó minnkað gríðarlega. Svona stórar yfirlýsingar eru skaðlegar og það er erfitt fyrir alla að halda andlitinu í svona stórum yfirlýsingum dag eftir dag. Heift og reiði Ögmundar er óbeisluð og ekki við því að búast að honum renni reiðin á næstu dögum, né heldur sé sáttatónn í huga.
Flokkurinn virðist óstarfhæfur án Steingríms J. á formannsstóli. Þeir sem næst honum standa bíða eftir heimkomu hans, ekki aðeins til að lægja öldur heldur til að taka forystuna aftur í sínar hendur. Þar er stjórnleysið algjört og ekki við því að búast að nokkur maður búist við að vinstristjórnin geti haldið velli í svona dramatík.
En staðreyndin er reyndar orðin sú að vinstristjórnin er fallin í þekkta gjá glundroðans. Hver getur mótmælt því í dag að vinstrimenn séu fastir í viðjum glundroðans, sem svo löngum hefur einkennt vinstristjórnir? Þessi stjórn er jú orðin óstarfhæf vegna glundroða og trúnaðarbrests.
![]() |
Var ekki heppilegur talsmaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2009 | 00:53
Ögmundur grefur undan Steingrími J.
Ólgan og óeiningin hjá vinstri grænum er meiri en svo að úr verði leyst með einhverjum samningafundum Steingríms J. Sigfússonar í Istanbúl. Klofningurinn er orðinn staðreynd og vandséð hvernig settlað verði í þeim átökum. Friðurinn var úti aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Steingrímur J. hélt til Istanbúl - hvernig ætli honum hafi liðið þegar Ögmundur tjáði sig við BBC, örfáum klukkutímum eftir að hann hélt úr landi.
Síðar hefur verið kynt undir með yfirlýsingum þeirra sem standa nærri Ögmundi í þessum væringum í flokknum. VG lítur út sem klofinn flokkur. Ríkisstjórnin stendur ekki traustum fótum. Engu líkara en við völd sé minnihlutastjórn varin af Ögmundi og stuðningsmönnum hans. Þar verði kippt í spotta í hverju stórmáli - Steingrímur J. hefur örlög stjórnarinnar í höndum Ögmundar.
Eftir að hann fór úr stjórninni hefur hann spilað sig djarft og gefur í frekar en hitt. Í kvöld segir Ögmundur í samtali við vísi að Sigmundur Davíð hafi átt ræðu kvöldsins í þinginu. Er hægt að tala skýrar? Hvað verður eftir af stjórninni þegar Steingrímur kemur heim? Þarf hann ekki að semja við Ögmund um næstu skref sín?
Hvernig getur stjórnin setið áfram án þess að Ögmundarhópurinn hafi öll tromp á hendi? Er Steingrímur J. til í þann dans?
![]() |
Hétu öll stuðningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2009 | 20:52
Mónótónískur forsætisráðherra á örlagatímum
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, bauð þjóðinni upp á gamlar tuggur í stefnuræðu sinni í kvöld. Hún var mónótónísk og fjarlæg, hefur ekkert fram að færa sem skiptir máli. Tími hennar er liðinn. Ríkisstjórnin er sundruð á þessum erfiðu tímum og verkstjórn forsætisráðherrans er í molum. Fólkið í landinu á ekki að þurfa að sætta sig við svo lélega ríkisstjórn á þessum örlagatímum í sögu íslensku þjóðarinnar.
Stjórnarbræðingur Samfylkingar og vinstri grænna er sundraður og ræður ekki við verkefnið. Hann hefur haft átta mánuði til að sýna hversu lélegur hann er. Þar talar hver höndin upp á móti annarri, forsætisráðherrann ræður ekki við verkefnið og fjármálaráðherrann horfir upp á flokkinn sinn molna hægt og hljótt á meðan hann makkar í Istanbúl. Þetta er sorglegur farsi.
Á meðan flytur forsætisráðherrann hálftíma stefnuræðu án framtíðarsýnar. Hún er með lélegt pólitískt bakland, þingmeirihlutinn er ekki til staðar. Það eru erfiðir tímar, stöðugleikinn er enginn og ekki von á betri tímum á vakt þessarar stjórnar. Hún ræður ekki við verkefnið. Glundroði vinstrimanna er sá hinn sami og ávallt.
![]() |
Vill óráðsíu og græðgi burt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.10.2009 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.10.2009 | 17:03
Frábært regnhlífarinnslag hjá Degi
Ég verð að viðurkenna að ég hafði mjög mikið gaman af því að horfa á þetta flotta innslag Dags Gunnarssonar um bandarísku geimregnhlífina... ekki aðeins að hugleiða hvort þetta væri flott uppfinning heldur og þá enn frekar að sjá svipinn á þeim sem fengu að prófa gripinn og voru greinilega frekar vandræðalegir.
Skemmtileg viðbót við fréttaumfjöllunina. Lífgar aðeins upp á hversdagslegu fréttirnar um allt það leiðinlega, sem nóg er af, heima sem erlendis.
![]() |
Ný regnhlíf vekur kátínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2009 | 15:59
Ögmundur brýnir hnífa - stjórnarkreppa í augsýn?
Augljóst er að stjórnin hefur engan starfhæfan þingmeirihluta ef Ögmundur og Liljurnar ætla að spila sóló í öllum málum. Í raun má segja að þau ætli að spila djarft og haga hlutum eftir eigin hag. Auðvitað var það rétt spá að Ögmundur yrði miklu erfiðari stjórnarparinu utan ríkisstjórnar - hann hefur fríspil.
Ég held að stjórnin sé að fjara út meðan Steingrímur er í Istanbúl. Væntanlega eru örlög hennar að ráðast með leikfléttu Ögmundar og Guðfríðar Lilju. Þau hafa rofið friðinn innan vinstri grænna og ætla greinilega ekki að gefa þumlung eftir í átökunum sem standa yfir.
Kannski mun Steingrímur koma heim í nýjan veruleika, svona rétt eins og Margaret Thatcher, en leiðtogaferill hennar fjaraði út eins og frægt er í Parísarferð í nóvember 1990. Þegar hún kom heim var öllu lokið.
![]() |
Ögmundur: Var stillt upp við vegg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)