Fjórburar í sviðsljósinu

Þessi frétt um fjórburana í Mosfellsbæ er yndisleg og sæt svona mitt í öllu svartnættinu sem fer yfir samfélagið. Þegar fátt er um virkilega góðar fréttir skína þær notalegu eins og litlar perlur í myrkrinu. Nógu mikið er af leiðinlegum fréttum núna. Sumir sem ég þekki eru meira að segja hættir að hlusta á fréttir því þeir hafa einfaldlega fengið nóg.

Fjórburarnir hafa verið í fréttum gegnum tíðina og við höfum séð þær vaxa úr grasi. Er líka mjög gaman að heyra hversu ólíkar þær eru í raun og hafa ákveðið frekar að feta sinn stíginn hvern í lífinu og halda í sína sérstöðu, fara t.d. ekki í sömu skólana og hafa ólíkar áherslur.

Ég hef þekkt tvíbura og þríbura meira að segja sem hafa verið mjög líkir og meira að segja valið sér sama námið og áherslur í lífinu. Eru meira að segja svo lík erfitt er að átta sig á hvor þeirra er hvað.

mbl.is Íslensku fjórburarnir tvítugir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCain vs. Obama > 4 dagar

Obama-McCain
Aukin harka er að færast í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Skv. flestum könnunum er munurinn á bilinu 3-5% á milli McCain og Obama; t.d. 4% hjá Rasmussen á meðan munurinn er 11% í könnun CBS/NYTimes og Gallup. Kannanir hafa verið mjög misvísandi að undanförnu en eiga allar það sameiginlegt að spá Obama Hvíta húsinu. Þó er erfitt að spá bara í prósentumælingu á landsvísu, enda er þetta barátta um kjörmenn - miðað við kjörmannamælingu er Obama að fara að vinna traustan sigur á þessari stundu, á bilinu 280-310 kjörmenn. Kannanir sýna þó að einn af hverjum sjö kjósendum gætu enn skipt um skoðun.

Mér finnst kannanir í lykilríkjunum sýna tvö scenario; Obama gæti náð öllum stóru ríkjunum og tryggt stórsigur á landsvísu með því að breyta repúblikanaríkjum í demókrataríki með sögulegum hætti og hinsvegar gæti McCain klórað í bakkann og tryggt spennandi kosninganótt. Annað hvort vinnur Obama stórt eða þá að biðin verður löng eftir úrslitum og hvert fylki getur skipt máli. Eftir því sem dagarnir líða verður æ augljósara að Obama þarf að passa aðallega upp á að klúðra ekki sjálfur kosningunum, því hann á að vera með þetta nokkuð tryggt.

Þó fjórir dagar séu til kosninga og munurinn þetta augljós á milli fylkinganna getur lokahelgin verið örlagarík og breytt atburðarásinni. Í síðustu tveim kosningum hefur föstudagurinn verið mikilvægur í lokaspretti baráttunnar. Árið 2000 komu fram upplýsingar um að George W. Bush hefði verið handtekinn fyrir ölvunarakstur árið 1976, upplýsingar sem haldið hafði verið leyndu. Sumir í stuðningsmannahópi Bush sökuðu Gore-hópinn um að leka þessu í fjölmiðla. Almennt er talið að Bush hafi frekar grætt á þessari uppljóstrun en tapað á því.

Fyrir fjórum árum birtist á föstudeginum fyrir kosningar myndband með Osama Bin Laden þar sem hann kom með óbeina stuðningsyfirlýsingu við John Kerry og réðist að Bush forseta. Ummæli hryðjuverkaleiðtogans voru í kastljósinu á meðan frambjóðendurnir fóru um lykilríkin. Bush græddi mjög á myndbandinu og hann náði traustu forskoti þessa helgi og hélt því allt til loka. Kerry hefur margoft talið myndbandið náðarhöggið fyrir framboðið og hafi skaðað hann í miðvesturríkjunum sérstaklega.

Erfitt er að spá um hvort Bin Laden láti sjá sig núna. Kosningarnar 2004 voru fyrst og fremst um utanríkis- og varnarmál, enda miklir örlagatímar þá, fyrstu kosningarnar eftir 11. september 2001 og mikið tekist á um viðbrögð við þeim örlagadegi. Nú er kosningabaráttan fyrst og fremst um efnahagsmál og varla verið talað um Írak og Osama Bin Laden í margar vikur. Myndi Bin Laden láta sjá sig myndi kastljósið færast ósjálfrátt að utanríkismálum aftur og það gæti styrkt stöðu McCain. En ekkert hefur enn gerst.

Ferðadagbókin

McCain
verður annan daginn í röð í Ohio og heldur þar fjölda framboðsfunda. Greinilegt er að McCain leggur mikla áherslu á Ohio. Það er eðlilegt, enda verður hann ekki forseti nema hann haldi Ohio. Arnold Schwarzenegger kemur fram á kosningafundi með McCain í Columbus, rétt eins og fyrir fjórum árum þegar hann var þar á fundi með Bush forseta. McCain þarf á stjörnuljóma að halda á kosningaferðalaginu til mótvægis við að Clinton-hjónin og Al Gore leggja Obama mikið lið.

Obama heldur hinsvegar kosningafundi í Des Moines í Iowa og fer svo til Indiana, ríkis sem hann hefur reynt mikið að ná. Mikla athygli hefur vakið að Obama hafi ákveðið að fara til Iowa, enda er það ríki sem hann ætti að hafa nokkuð tryggt. Iowa kom Obama á kortið í forkosningunum en hann hefur haft þar trausta forystu um nokkuð skeið og þarf ekki að hafa mikið fyrir þessu þar.

Palin verður í Pennsylvaníu í allan dag. Enn heldur McCain-liðið í þá veiku von að geta snúið málum þar við á lokasprettinum, þó allar kannanir gefi til kynna að Obama vinni þar stórsigur.

Biden hóf daginn í heimafylki sínu, Delaware. Biden hefur verið mjög lítið í sviðsljósinu og fáir fréttamenn fylgja honum miðað við hin þrjú. Delaware hefur aðeins þrjá kjörmenn og skiptir engu máli í heildarmyndinni. Hann fer síðar til Ohio og heldur þar fund.

Skiptar skoðanir eru um strategíu Obama. Hálftímaauglýsingin sögulega, sem er bæði sú lengsta og dýrasta í bandarískri stjórnmálasögu, fær misjafnar viðtökur. Á meðan sumir telja þetta sterka kynningu á frambjóðandanum er hún gagnrýnd fyrir að vera peningaaustur sem gefi höggstað á frambjóðandanum og færi repúblikunum tækifæri til að saka hann um elítuisma og persónudýrkun framboðsins.

Obama hefur einfaldlega miklu meiri peninga en McCain og getur leyft sér að ganga langt og telur þetta besta tækifærið til að klára baráttuna, bæði sýna að hann sé ríkasti frambjóðandinn og með traustustu undirstöðurnar. Annað hefur vakið meiri athygli í dag, en Obama-liðið ákvað að vísa þremur fjölmiðlum sem hafa lýst yfir stuðningi við McCain úr framboðsflugvél frambjóðandans og banna þeim aðgang.

Þetta hefur verið aðalfréttamál dagsins á Drudge og mælist misjafnlega fyrir. Mikið er svo talað um hvort ungt fólk styðji frekar McCain nú en oft áður vegna ótta við skattahækkanir verði Obama forseti. Obama-liðið þarf að feta mikinn línudans næstu dagana. Þetta er þeirra barátta en minnsta klúður gæti snúið þessu við á lokasprettinum.

mbl.is Schwarzenegger í lið með McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er smá kampavín eftir í glösum Baugsmanna

Svei mér þá ef maður komst ekki í gamla góða útrásarfílinginn við að lesa fréttina um nýju verslunarmiðstöð Baugsmanna í London sem opnar á meðan allt er að fara á versta veg hér heima á Íslandi. Verst að staðreyndin er sú að útrásin hefur ekki falið neitt annað í sér en skipbrot íslensku þjóðarinnar. Þeir sem eru hér núna og upplifa hópuppsagnir og hnignun efnahagslífsins hugsa ekki sérstaklega hlýlega til hinnar margfrægu útrásar þó sumir víkinganna séu enn á fullu í sínum verkefnum fjarri Íslandsströndum.

mbl.is Fagna nýrri verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feluleikur stjórnmálamanna um IMF-skilyrðin

Mér finnst það stórundarlegt að íslenskir stjórnmálamenn geti ekki sagt hreint út við þjóðina ef samkomulagi við IMF fylgja sérstakar kvaðir og skilmálar og hverjir þeir eru. Er ekki augljóst að IMF hefur sett skilmála um vaxtahækkun? Með hverju öðru en IMF-aðild er hægt að skýra muninn á milli vaxtalækkunar og svo vaxtahækkunar skömmu síðar en aðkomu IMF að málum. Stjórnmálamenn eiga að tala hreint út við fólkið í landinu í stað þess að reyna að milda höggið með undarlegum svörum.

Mér finnst eðlilegt að spurt sé hvað stjórnvöld hafa samþykkt að gera til að fá IMF að borðinu og semja við þá. Feluleikurinn er ekki trúverðugur. Hitt er svo annað mál að hægt er að velta fyrir sér hvort Seðlabankinn sé tilneyddur að gera það sem aðrir vilja. Finnst það augljóst að yfirmenn bankans, ríkisstjórnin, hafi samið um skilmála sem gerðu það að verkum að stýrivextir hækka.

En eitt er þó ljóst, þessum feluleik verður að ljúka.

mbl.is Óbarinn seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru aðferðir IMF töfralausn fyrir íslensku þjóðina

Ég hafði alltaf efasemdir um að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og get ekki sagt að ánægja mín með þá lausn hafi aukist eftir því sem líður á vikuna. Vel má vera að við höfum ekki átt neinn betri kost í stöðunni en þetta verður ekki töfralausnin sem allir vonuðust eftir. Ég fann miklar væntingar til IMF hér í samfélaginu - sumir töluðu eins og þetta væri himnasending fyrir íslensku þjóðina og gulls ígildi.

Eftir stýrivaxtahækkunina, að hætti IMF, hef ég fundið þennan kór gleði og ánægju hjassast allhressilega niður. Vandi okkar er að mörgu leyti sá að engar töfralausnir eru í stöðuna. Verið er að velja á milli vondra valkosta og erfiðra úrlausna. Þetta verður sársaukafullt tímabil sem við eigum í vændum. Þeir sem hafa lifað hátt og skuldsett sig mikið eiga von á nýjum tímum og harkalegri lendingu.

En kannski er það ljós í myrkrinu að smúla duglega til og byggja á rústum þess sem var, þó sársaukafullt verði um skeið. Svo verður sagan að meta hvort IMF var töfralausn Íslendinga og hvort margfrægar aðferðir þeirra hjálpi okkur eða verði til enn meiri bölvunar.

mbl.is Stjórn IMF fjallar um Ísland 5. nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EM-sætið tryggt - til hamingju stelpur!

Alveg var það yndislegt að sjá leikgleðina og kraftinn í íslenska kvennalandsliðinu í kvöld þegar þær tryggðu farseðilinn á EM í Finnlandi að ári. Liðið er í fyrsta klassa og hefur gert glæsilega hluti á síðustu árum; komið kvennaknattspyrnunni sannarlega á kortið. Öll þjóðin getur verið stolt af þessum glæsilega árangri.

Þeir dagar eru sem betur fer liðnir að litið sé á kvennaboltann sem minna spennandi en karlaboltann. Þetta er hið besta mál. Þetta er lið sem getur farið mjög langt - liðsheildin er öflug og landsmenn styðja stelpurnar 110%. Allt skiptir þetta máli - úr verður sigursæl blanda, sem varla getur klikkað.


mbl.is Ísland á EM 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Turnarnir þrír - örlagatímar Sjálfstæðisflokksins

Könnun Gallups markar nýtt pólitískt landslag með þrem álíka stórum turnum sem gnæfa yfir. Framsókn bætir engu við sig og Frjálslyndir hverfa. VG nær traustri stöðu við hlið Samfylkingarinnar, sem er nú byrjuð að dala líka. Ég er ekki hissa á því að fylgið hrynji nú af Sjálfstæðisflokknum. Rétt eins og hann var leiðandi afl í góðærinu og treyst fyrir forystu þegar allt lék í lyndi er honum kennt um þegar allt fer á versta veg. Ef honum tekst ekki að byggja upp traustar undirstöður fljótlega og færa þjóðinni trausta forystu fær hann þungan skell.

Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tryggðu Sjálfstæðisflokknum góðan kosningasigur fyrir einu og hálfu ári og voru sterkt forystupar, nutu þess að stöðugleiki var í landinu og fólk treysti þeim best fyrir því að færa okkur trausta forystu. Aðstæður hafa breyst og pólitísk staða þeirra beggja veikst til mikilla muna. Þau eiga mikið undir því að þessi ríkisstjórn haldi velli og hún geti fært þjóðinni forystu sem skiptir máli. Mikið hefur vantað á það að undanförnu - tilraunir til að fegra stöðuna um of hafa mistekist hrapallega.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur í gegnum erfiða tíma í kreppunni. Á þeim bæ þarf að líta í kringum sig, tala við baklandið og horfast í augu við framtíðina. Þessi könnun eru skilaboð sem forysta Sjálfstæðisflokksins verður að horfast í augu við. Flokkurinn þarf að flýta landsfundi sínum, gera upp mistökin á síðustu mánuðum, sem blasa við öllum, og horfa til framtíðar. Auk þess þarf að kjósa sterka forystu til framtíðar.

Geir og Þorgerður Katrín fengu traust umboð á síðasta landsfundi og þurfa nú að tala við baklandið í flokknum - marka stefnu í gegnum þessa örlagaríku tíma og leitast við að fá endurnýjað umboð flokksmanna. Mikilvægt er að þau horfist í augu við baklandið og bæði leiti þar ráða og fá styrk til verka áfram. Mjög margt hefur breyst. Í Sjálfstæðisflokknum þarf að horfast í augu við að pólitíska landslagið breytist nú.

Þetta eru örlagatímar, ekki aðeins í efnahagsmálum heldur og mun frekar í stjórnmálasögu landsins. Mikilvægt er að allir flokkar færi þjóðinni trausta forystu og tali við baklandið sitt nú. Þeir sem ekki gera það eiga ekki von á góðu.


mbl.is Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlarisar á brauðfótum

Þetta eru erfið mánaðarmót hjá fjölmiðlarisanum 365, sem er nú á brauðfótum og í skuldafeni. Þetta hefur víðtæk áhrif á starfsemi Fréttablaðsins og fréttastofu Stöðvar 2. Fækkað mikið á blaðinu og m.a. verða hádegisfréttir Stöðvar 2 aflagðar. Við bætast svo launalækkanir og uppsagnir, þó innan við þann ramma sem flokkast sem hópuppsögn samkvæmt lagarammanum.

Erfiðir tímar. Forðum var sú tíð að allt lék í lyndi hjá fjölmiðlum og við gátum fengið tvö dagblöð ókeypis og horft á sjónvarpsstöð ókeypis. Þessir tímar hafa væntanlega liðið undir lok í kreppunni og herðist um einkarekna fjölmiðla.

mbl.is Skjárinn segir öllum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCain vs. Obama > 5 dagar

Obama-McCain
Harkalegar málefna- og persónuárásir milli John McCain og Barack Obama einkenna kosningabaráttuna í Bandaríkjunum á lokasprettinum. Þegar aðeins 5 dagar eru þar til kjósendur ganga að kjörborðinu er baráttan orðin að óvægnu og harkalegu áróðursstríði sem virðist sífellt verða neikvæðari eftir því sem á líður. Frambjóðendurnir eru á fleygiferð um lykilríki baráttunnar, þar sem úrslitin munu ráðast. Obama hefur pálmann í höndunum á meðan McCain berst í kappi við tímann við að snúa taflinu við.

Allar kannanir gera ráð fyrir því að Barack Obama verði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Munurinn hefur þó minnkað mjög síðustu dagana á landsvísu og virðist stefna í spennandi lokasprett baráttunnar. Mesti vandi McCain nú er þó sá að hann er undir í ríkjum sem Bush forseti vann árið 2004 og tryggðu endurkjör hans. Barack Obama nægir að sigra í öllum ríkjum sem John Kerry vann fyrir fjórum árum og bæta Ohio við þann hóp. Fari svo hefur hann hlotið 272 kjörmenn og sigrað í baráttunni.

McCain verður fyrst og fremst að sigra í Ohio og Flórída (ríkjunum sem tryggðu sigur Bush 2000 og 2004) eigi hann að eiga raunhæfa möguleika á að komast í Hvíta húsið. Við það bætast Missouri (enginn repúblikani hefur komist í Hvíta húsið í manna minnum án þess að sigra þar), N-Karólínu (repúblikanar hafa unnið þar síðan Carter varð forseti 1976), Virginíu (repúblikanar hafa unnið frá 1964 er Johnson vann þar í stórsigri á Barry Goldwater á landsvísu) og Indiana (kosið repúblikana frá 1936).

Ekkert annað kemst að í kosningabaráttunni nema efnahagsmálin. Stóri viðsnúningurinn varð þegar hrunið hófst. Utanríkis- og varnarmál, sterkasti málaflokkur McCain hafa ekki komist að (enginn talar núna um Írak eða Afganistan - þetta er kosningabarátta um innanríkismál). McCain hefur þurft að tækla efnahagsmálin, sem eru ekki sterkasti hlekkur hans pólitískt og hefur orðið á mikil mistök í málflutningi. Með Mitt Romney sem varaforsetaefni hefði hann betur getað tæklað þessi mál.

Stærsti vandi McCain er sá að framboðinu hefur gengið illa, síðan efnahagskreppan skall á, að ná til óháðra kjósenda. Valið á Söru Palin styrkti hann innan Repúblikanaflokksins en hefur ekki tryggt stuðning óháðra. McCain ætlaði með valinu sennilega fyrst og fremst að styrkja flokksgrunninn. Honum tókst það en aftur á móti hefur honum ekki tekist að ná til óháðra kjósenda með sama hætti og í forkosningunum. Sá hópur tryggði honum útnefninguna á mikilvægum tímapunkti.

Þegar við bætist að Obama hefur mikið af peningum úr að spila verður slagurinn mjög erfiður. Repúblikanar eiga undir högg að sækja um allt land. Þeir eru við völd í Hvíta húsinu og sú vonda ára fylgir þeim í öllum kosningaslagnum. George W. Bush hefur ekki sést í kosningabaráttunni og kom heldur ekki á flokksþing repúblikana. Hans vald og áhrif er löngu gufað upp. Þegar við bætist vond staða hans í könnunum og efnahagskreppan vill enginn láta sjá sig með honum.

Hálftíma auglýsing Obama í gær var vegleg og flott. Hinsvegar vaknar spurningin um hvort þetta peningaaustur komi niður á framboðinu. Bush var gagnrýndur mjög síðast fyrir að eyða miklu og spandera í allar áttir. Nú hefur taflið snúist við. Obama hefur fulla vasa fjár á meðan McCain hefur úr mun minna að spila og þarf að horfa í hvern eyri. Peningar skipta mjög miklu og svo gæti farið að hálftímaauglýsingin hafi úrslitaáhrif í kosningabaráttunni.


Ferðadagatal dagsins

McCain
verður í allan dag í Ohio; heldur framboðsfundi í Defiance, Sandusky, Elyria og Mentor. Nýjustu kannanir sýna að McCain er undir í Ohio - munurinn á bilinu 4 til 8 prósentustig. Ohio verður mikilvægt fyrir McCain og mun ráða úrslitunum með einum eða öðrum hætti.

Obama hóf daginn á framboðsfundi í Sarasota í Flórída. Al Gore, sem tapaði naumlega í Flórída fyrir átta árum, og Clinton-hjónin munu taka mikinn þátt í baráttunni þar. Obama kom fram á framboðsfundi í gær í Flórída með Clinton forseta - í fyrsta skiptið sem Clinton kom fram opinberlega með Obama á kosningafundi. Clinton-hjónin eiga traustan fylgishóp í Flórída og mikilvægt fyrir hann að virkja þau með sér í baráttuna. Síðar í dag verður hann á framboðsfundi í Virginíu og endar daginn í Columbiu í Missouri.

Varaforsetaefnin Palin og Biden verða á sömu slóðum í dag - bæði verða í Pennsylvaníu og Missouri.

Ferðalög frambjóðendanna segja allt um mikilvægi þessara ríkja - þau verða öll í lykilhlutverki. Missouri hefur löngum verið mjög mikilvægt og Flórída gæti aftur orðið sami örlagavaldur og fyrir átta árum. Sumir horfa til ríkja á borð við Colorado og Nýju Mexíkó. Mikil bjartsýni er þó að telja þau í slagnum. Nær öruggt er að Obama vinni þar. McCain verður því að eiga fullkominn lokasprett til að eiga möguleika.

Og þó; nú er óhætt að segja að Bradley-áhrifin (þegar blökkumaðurinn Tom Bradley, borgarstjóri í LA, tapaði ríkisstjórakosningu í Kaliforníu þvert á allar kannanir) muni ráðast og hvort þau skipti virkilega máli.


mbl.is Palin næsta forsetaefni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður að fá erlenda sérfræðinga til rannsóknar

Ég held að það verði mjög erfitt að fá menn að borðinu til að rannsaka fall bankakerfisins sem eiga engin tengsl við þá sem voru í forystu bankanna eða eiga ekki einhverra hagsmuna að gæta. Get ekki betur séð en nauðsynlegt verði að kalla til erlenda sérfræðinga til að rannsaka fallið; menn sem eiga engar tengingar og geta farið yfir ferlið án þess að vafi leiki á því að þeir séu að gæta hagsmuna einhverra.

Þetta er hinn napri sannleikur. Við lifum í litlu samfélagi, þar sem tengsl er mikil á milli aðila og flestir kannast við næsta mann. Eigi að taka allt kerfið fyrir og gera á því trúverðuga rannsókn skiptir þetta lykilmáli.

mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjóst einhver við að IMF setti ekki vaxtaskilyrði?

Nú er það ljóst svart á hvítu, sem flestir vissu eða áttu að vita, að IMF krafðist 50% hækkunar stýrivaxta, í 18%, eða samið var um það við ríkisstjórnina, sem síðar skipaði Seðlabankanum þar með fyrir verkum. Þetta er ekki mjög flókið, engin geimvísindi. IMF hefur alltaf tekið þetta skref þar sem þeir koma að - Ísland er engin undantekning því miður frá þeirri reglu. Mér fannst umræðan eftir stýrivaxtahækkunina þannig að kenna ætti einum manni um þessa hækkun á meðan ríkisstjórnin hljóp frá þeirri ákvörðun. Hætta þarf þeim feluleik og stjórnmálamenn þurfa að tala af ábyrgð.

Mér finnst mjög margir hafa verið í miklum Pollýönnuleik að undanförnu. Því miður eru margir í afneitun og sjálfsblekkingu og verst af öllu er að ríkisstjórnin segir okkur ekki allan sannleikann. Fram eru að koma bitar hér og þar sem segja aðra sögu en það sem pólitískir foringjar landsins eru að segja. Þetta gengur ekki upp. Burt með leyndina og fagurgalann. Stjórnmálamönnum er ekki minna ætlandi en geta talað hreint út við fólkið í landinu.

Þó erfitt sé að viðurkenna, greinilega, skilmálana sem samið var við um IMF er enginn greiði gerður með því að loka augunum fyrir þeim. Þetta er bara einfalt mál og ekki boðlegt að ekki sé hægt að leggja spilin á borðið.

mbl.is Ákvæði um 18% stýrivexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg staða - verður þjóðargjaldþrot umflúið?

Ég fagna því að Geir Haarde, forsætisráðherra, talar ákveðið og afgerandi gegn því að þjóðin greini allar kröfur Bretanna. Hann hefur gert það oft áður, en þetta er sterkasta yfirlýsing hans til þessa finnst mér. Annars er fyrir öllu að spilin séu lögð á borðið og almenningi í landinu sagt hreint út hvernig staðan sé og hvað framtíðin ber í skauti sér. Ekki er ráðlegt að standa áfram í þeirri tálsýn sem hefur verið svolítið áberandi að undanförnu. Pólitíska forystan þarf að tala hreint út við fólkið í landinu.

Mér finnst afleitt ef það er satt að stjórnvöld hafi ekki sagt rétt frá í málefnum IMF. Ef talsmaður IMF hefur rétt fyrir sér í því að það sé upp á einsdæmi ríkisstjórnarinnar komið að skýra frá skilmálum og lykiláherslum í samningum við IMF er það alvarlegt mál. Ríkisstjórnin verður að tala við fólk og segja hver staðan sé. Mér hefur fundist nóg af því að reynt sé að fegra stöðuna um of. Kannski er líka ábyrgðarhluti að mála skrattann á vegginn, en staðreyndir verða að tala sínu máli.

Staðan er alvarleg - mikilvægt er að stjórnvöld tali við fólkið í landinu sem skynsamlegt og traust fólk en ekki eins og það sé of heimskt til að skilja lykilpunkta hinnar alvarlegu stöðu sem blasir við.

mbl.is Efnahagur myndi hrynja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsamstaða í baráttunni gegn Bretunum

Þegar ég skrifaði um indefence.is og setti nafnið mitt í undirskriftasöfnunina þar fyrir viku óraði mér ekki fyrir því að svo margir myndu skrifa undir, þó ég gerði mér vissulega væntingar um eitthvað í þá átt. En þjóðin hefur svo sannarlega sameinast í andstöðunni gegn Bretum og tekið slaginn með því að setja inn myndir og láta í sér heyra. Enda er eðlilegt að Íslendingar séu reiðir í garð Breta en þó fyrst og fremst sárir yfir því að þeir gengu endanlega frá orðspori þjóðarinnar með verklagi sínu.

Íslendingar eru þannig að þeir láta ekki bjóða sér svona aftöku á orðspori sínu án þess að grípa til varna. Þetta er þjóðareðlið okkar. Við getum verið stolt af því. Enda eiga Bretar ekkert inni hjá okkur. Við fórum ekki í nokkur þorskastríð gegn þeim án þess að læra að þeir geta ekki ráðist að okkur án þess að við spörkum frá okkur á móti. Þetta er stóra lexían fyrir okkur. Við erum vissulega lítil þjóð en við látum ekki traðka á okkur.

Þetta eru því vel heppnuð mótmæli sem sýna þjóðarsamstöðuna og karakterstyrkleika okkar. Við getum verið stolt af þessu, enda hafa þessi mótmæli og samstaðan vakið athygli víða.

mbl.is Mótmæli vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldauppsagnir - erfið mánaðarmót framundan

Hinn napri veruleiki kreppunnar er nú að skella á þjóðinni með fjöldauppsögnum og miklum erfiðleikum. Mikið hefur verið talað um mögulegar hliðarverkanir fjármálakreppunnar og hvað geti gerst. Þessi mánaðarmót verða mörgum fjölskyldum í landinu mjög erfið og margir hafa fengið uppsagnarbréfið í dag.

Engin orð geta lýst þeirri stöðu sem er framundan. Vonandi kemst þjóðin í gegnum þessi áföll. Nú reynir svo sannarlega á samstöðu þjóðarinnar.

mbl.is Starfsmönnum BYGG sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flýta þarf landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Ég hef verið flokksbundinn sjálfstæðismaður frá árinu 1993 og var um nokkra hríð mjög virkur í innra starfi Sjálfstæðisflokksins. Enginn vafi leikur á því að nú eru örlagaríkustu tímar í sögu hans í áratugi, altént síðan ég gekk í hann. Nú þegar óvissan er mikil í lykilmálum þjóðarinnar horfa flestir til þess hvernig haldið verði á málum innan Sjálfstæðisflokksins.

Mikilvægt er að mínu mati að landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði flýtt, ekki aðeins til þess að tryggja forystu flokksins umboð til verka áfram í breyttum aðstæðum, heldur og mun frekar til að rætt verði opinskátt um framtíðarstefnu hans; ekki aðeins á kjörtímabilinu heldur og inn í næstu alþingiskosningar hvenær svo sem þær verða.

Ár er um þessar mundir til landsfundar að öllu eðlilegu. Auðvitað er það of langur tími, einkum nú þegar fátt ef nokkuð er öruggt um framtíðina nema það að við verðum hér áfram í lífsbaráttunni á þessu landi, óvíst hver staðan verði. Því þarf landsfundur að koma saman á næstu mánuðum og fara yfir næstu skref.

Ég tel ekki óvarlegt að ætla að allir flokkar muni hugsa með sama hætti; forystur allra flokka þurfa traust umboð og ræða þarf um stefnumótun lykilmála þegar sverfir að.

Áhugaverð umfjöllun - pressan stendur sig

Mér finnst áhugavert að lesa umfjöllun bresku pressunnar um bréfaskrif íslenskra og breskra stjórnvalda skömmu fyrir bankahrunið hér á Íslandi. Þar er kafað mjög djúpt og komið með athyglisverða vinkla og punkta sem ekki hafa verið mikið í gangi hér. Annars er íslenska pressan öll að koma til og sérstaklega eru fréttaskýringarnar í kvöldfréttum RÚV vel gerðar og vandaðar. Nú er sannarlega tíminn fyrir beinskeytta en vandaða fréttamennsku, krafist svara og ekki hikað við að koma með trúnaðargögn á borðið, til að upplýsa almenning.

Gott dæmi um þetta var þegar Kastljósið skúbbaði samtali Darling og Árna Matt. Lykilmál var að fá það á borðið, enda hefur það opnað aðra vinkla og komið málinu áfram í skemmtilegar pælingar. Bresk stjórnvöld voru skiljanlega ósátt við að það væri opinbert, enda hefur stjórnarandstaðan þar tekið málið lengra og komið því í þingsali.

mbl.is Geysirgate: Dularfulla bréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýraleg fréttamennska - hverjir eru sekir?

Ég átti ekki beinlínis von á að stuðningur væri mikill við yfirstjórn Seðlabankans nú. Árferðið er þannig að enginn verður beinlínis vinsæll í slíkum erfiðleikum, hvorki ríkisstjórn né embættismenn sem framfylgja ákvörðunum hennar. Hinsvegar finnst mér fréttin um könnunina um Davíð Oddsson verulega færða í stílinn. Rúmur helmingur aðspurðra tekur ekki afstöðu - aðeins 40% þeirra sem eru í úrtakinu svara og þar af er 90% greinilega óánægður. Mér finnst stóru tíðindin hversu margir hafa ekki skoðun á þessu máli.

Mér finnst það mikil einföldun að spyrja bara um Davíð Oddsson í þessari stöðu. Því er ekki spurt um alla bankastjórana þrjá sem heild? Þeir bera allir jafnmikla ábyrgð í þessum efnum. Svo er það þannig að mér finnst afleitt eða í besta falli heimskt að kenna einum manni um það hvernig komið er fyrir þjóðinni í þessari alþjóðlegu fjármálakrísu.

Átta mig ekki alveg á stöðu ríkisstjórnarinnar núna. Hún er fjarri því stikkfrí og hefur spilað sig út fari svo að Seðlabankinn þurfi nýja yfirstjórn. Svo er hlutur Fjármálaeftirlitsins eftir. Á þeim bæ hafa menn sloppið mjög billega. Þar var sofið mest á verðinum og eigi einhver að fara skal byrjað á þeim enda.

Annars eru allir að leita að sökudólgum. Enginn er sáttur. Finn mikla reiði. Hún er samt mismikil eftir því við hverja er talað. Kannski fer það svo að öllu verður sópað út. Vel má vera, en við verðum fyrst að muna það að hafi Seðlabankinn brugðist hefur ríkisstjórnin og flokkarnir í henni brugðist líka.

Svo má spyrja sig; er fólk svo einfalt að telja að allt lagist bara við það að Davíð myndi fara? Í besta falli er það mikil einföldun, en kannski eru einhverjir sem telja það í sínu svartnætti að þetta sé vandi tengdur einum manni, en því fer víðsfjarri.

mbl.is 10% styðja Davíð í embætti seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar styðja Íslendinga í kreppunni

Mér þykir vænt um hlýjan hug Færeyinga til okkar Íslendinga. Þeir sýna okkur sannarlega samhug í verki. Hverjum hefði órað fyrir því fyrir nokkrum árum að Færeyingar ættu eftir að veita þjóðinni lán, að til þessa myndi koma? En Færeyingar svosem þekkja vel tilfinninguna sem við upplifum nú. Þeir tóku mikinn skell í upphafi tíunda áratugarins - þá var mikið uppgjör í færeysku samfélagi. Uppbyggingarstarfið var þeim sárt en þeir komust í gegnum það.

Held að við getum um margt lært mikið af Færeyingum hvernig þeir komust í gegnum erfiða tíma, þó kannski séu aðstæðurnar ekki algjörlega eins.

mbl.is Færeyingar vilja lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin kalda hönd IMF

Um leið og tilkynnt hafði verið um stýrivaxtahækkun Seðlabankans varð ég var við að sumir vildu ólmir kenna Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, um hækkunina. Sá kór hefur eitthvað dofnað eftir að ljóst varð að þarna var aðeins hin kalda hönd IMF að verki. Átti fólk virkilega ekki von á því að IMF myndi hækka stýrivextina hér á Íslandi? Var fólk svo grænt að halda að aðstoðin að utan væri ekki dýru verði keypt?

Nú virðist sá kór sem talaði um að IMF væri lausnin á öllum vanda eitthvað hafa þagnað. Sumir áttu hreinlega ekki von á þessu, ef marka má skrif og ummæli fólks, t.d. Vilhjálms Egilssonar og fleiri. Of langt mál að telja upp nöfnin. Held að flestir viti hvaða kór þetta var. IMF er ekki þekkt fyrir neitt annað en taka stjórnina og gera hlutina á sínum hraða en ekki annarra. Þetta er fórnarkostnaðurinn.

Svo verður að ráðast hvort þetta er farsæl vegferð sem við erum komin á. IMF hefur nú sína köldu krumlu á samfélaginu og mun sýna okkur vel hver ræður. Þeir munu vera í hnakkadrambinu á okkur um nokkuð skeið, vonandi ekki alltof mörg ár. Þetta verður hörð brotlending, svo verður að ráðast hverjir lifa þessa hreinsun af.

Þessi aðgerð er ekkert annað en hreinsun. Nú verður smúlað út. Þeir sem vilja kenna Davíð um allt sem aflaga fer, meira að segja skipanir að ofan frá IMF sem skipa yfirmönnum Seðlabankans fyrir verkum nú, eiga eftir að átta sig á nýjum veruleika. Þetta eru aðeins skilmálar frá boðvaldinu sem nú ræður för.

mbl.is Erfitt fyrir fólk og fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF tekur þjóðina með svæsnu kverkataki

Fórnarkostnaðurinn við að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er nú að koma í ljós. Þeir keyra upp vextina og taka íslensku þjóðina kverkataki, hafa okkur algjörlega undir þeirra valdi og ætla nú að sýna okkur hvað felst í björgunaraðstoðinni. Finnst nú frekar hlægilegt að sjá þá vitringa koma fram sem grátbáðu um þennan valkost og segja að þetta sé ósanngjarnt. Svona eru bara skilmálarnir. Hélt einhver að IMF væri að bjarga okkur án þess að taka völdin í sínar hendur og setja fram afarkosti til þjóðarinnar?

Mjög erfiðir mánuðir eru framundan. Erfitt er að spá um hversu margir fari í gjaldþrot og verða gerðir upp en vonandi fer þetta betur en á horfist á þessum dökka degi. Skammdegið er að skella á í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband