30.11.2008 | 22:11
Hillary verður í lykilhlutverki í forsetatíð Obama

Enginn vafi leikur á því að Hillary Rodham Clinton, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, muni verða einn valdamesti stjórnmálamaður heims í hlutverki sínu - hiklaust einn valdamesti utanríkisráðherrann í stjórnkerfinu síðan Henry Kissinger sat á þeim stóli. Hún verður fyrst þeirra sem kemur í ráðuneytið beint úr pólitískt kjörnu embætti síðan Edmund Muskie gegndi embættinu síðla á forsetaferli Carters undir lok áttunda áratugarins. Hún hefur mikinn stjörnuljóma, er vel þekkt á alþjóðavettvangi og með mikla innsýn í pólitískri baráttu eftir fjögurra áratuga feril, bæði sem áhrifakona á eigin forsendum og við hlið eiginmanns síns.
Varla þarf að koma að óvörum að fyrsta konan sem náði eitthvað áfram í forkosningaferlinu fyrir forsetakjör vestanhafs, hlaut átján milljón atkvæða, leiði mál á eigin forsendum fumlaust heldur en verði litlaus embættismaður á bakvið tjöldin. Umboð hennar verður miklu traustara og meira afgerandi en forvera hennar um langt skeið. Sem forsetafrú og öldungadeildarþingmaður hefur hún byggt upp eigin valdastöðu og allir vita hver hún er á þeim forsendum. Því blasir við að valið sé í senn djarft útspil fyrir Barack Obama en um leið mjög klókt.
Hlutverk Joe Biden á varaforsetavakt verður mjög óljóst í þessu samhengi. Obama valdi Biden sem varaforsetaefni sitt til að hífa upp reynsluhliðina, enda Obama með mjög litla pólitíska reynslu, aðeins verið í öldungadeildinni í tæp fjögur ár og þar áður stjórnmálamaður í Illinois. Reynsla hans í utanríkismálum var engin og fáir vita enn hvar hann stendur í lykilmálum, þó eitt sé vitað að tryggð hans við Ísrael er innmúruð með Rahm Emanuel sem starfsmannastjóra Hvíta hússins.
Með valinu á Hillary er öllum ljóst að á vaktinni verður konan sem sagðist geta tekið örlagaríka símtalið klukkan þrjú að nóttu, kona sem hefur verið virk í umræðu um alþjóðastjórnmál og heimsþekkt sem slík. Hún er manneskja með traustan prófíl, sem þarf ekki að taka tímann sinn í að kynna sig og sín afrek eða þekkingu á málaflokknum. En um leið er grafið eilítið undan Biden. Enginn þarf að búast við að Hillary hringi fyrst í Biden og svo Obama til að leiða mál áfram.
Kröfur hennar fyrir því að taka við embættinu voru að ráða sjálf starfsliði sínu og hafa úrslitaáhrif um mótun utanríkisstefnunnar með Obama sjálfum. Joe Biden verður altént enginn Dick Cheney og Al Gore á áhrifamælikvarða. Nú verður það mun frekar utanríkisráðherrann en varaforsetinn sem verður leikmaður á alþjóðavettvangi, svipað og þegar Kissinger skyggði á Agnew og Ford þrátt fyrir að þeir væru næstir forsetanum að völdum og sá síðarnefndi orðið forseti síðar meir.
Lekinn af vali Obama á Hillary var kerfisbundinn og traustur, einkum til að kanna hvort þeir sem kusu breytingar í forsetakosningunum, kusu Obama fram yfir Hillary á flokksvísu og McCain á landsvísu myndu sætta sig við Hillary. Skilaboðin voru giska einföld. Valið á henni féll í góðan jarðveg meira að segja meðal repúblikana. Þó heyrast raddir þess efnis að nánir samstarfsmenn Obama treysti enn ekki Hillary og telji að hún muni spila sóló vel fram úr hófi.
Augljóst er að allir munu fylgjast með keppinautunum úr einum harkalegasta forkosningaslag bandarískrar stjórnmálasögu vinna saman á forsetavakt. Þeir sem þekkja til Hillary vita að hún mun nota sviðsljósið í botn og leika sína rullu í aðalhlutverki. Hún er ekki með kalíber í annað.
![]() |
Clinton verði kjölfestan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2008 | 17:14
Spillingarfenið kemur í ljós - sofandagangur FME
Ekki er til of mikils mælst að krefjast þess að þeir sem voru á vaktinni í Fjármálaeftirlitinu víki. Get ekki séð hvernig þeir geti verið traustsins verðir, einkum eftir að þeim var tilkynnt um málefni Stíms, sérstaklega eignarhlut Glitnis í þessu leyndarfélagi. Ef þessir rannsóknaraðilar væru staddir í sömu afglöpum í einhverju öðru landi væru þeir löngu farnir frá sérstaklega. Þarna verður að hreinsa algjörlega út.
![]() |
FME tilkynnt um eignarhlut Glitnis í Stími |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2008 | 00:26
Geir opnar Evrópudyrnar með gjaldmiðilstalinu

Sú yfirlýsing Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, að til greina komi að taka upp annan gjaldmiðil er mjög merkileg, því verður ekki neitað. Þetta er í fyrsta skiptið sem hann ljær opinberlega máls á því, svo ég muni eftir, að snúa baki við krónunni og horfa í aðrar áttir. Hann hefur til þessa neitað öllu slíku og verið afdráttarlaus andstæðingur aðildar og evrunnar á meðan Samfylkingin hefur horft mjög afdráttarlaust til ESB-aðildar en þó verið róleg í yfirlýsingum í þær áttir meðan á stjórnarsamstarfinu hefur staðið.
Mér finnst þessi yfirlýsing auka líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn taki tímamótaafstöðu í þessum málum á landsfundi sínum; Evrópunefndin muni með velvilja forystunnar taka upp þá stefnu að stefna að aðildarviðræðum. Ekki aðeins er yfirlýsing Geirs afgerandi merki í þá átt heldur líka orð Friðriks Sophussonar, fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að horfa eigi til aðildarviðræðna. Þó Friðrik sé löngu hættur þátttöku í stjórnmálum vega orð hans mjög þungt og segja mjög margt um stöðu mála.
Ég tel að það verði mjög lífleg umræða um ESB-afstöðuna á landsfundi og á von á að hraustlega verði þar skipst á skoðunum. Ég velti því þó fyrir mér hvort Geir H. Haarde muni fara á þann fund með afgerandi skoðun með Evrópusambandinu á fundinn eða muni láta nefndinni og forystumönnum hennar alfarið eftir að marka þann stíg hvort verði niðurstaða hennar og fari inn í fundardrögin þar með. Geir mun væntanlega ekki taka afstöðu í aðra áttina fyrr en nær dregur landsfundi og sér til.
En þessi yfirlýsing eykur mjög líkurnar á því að Geir taki u-beygju í Evrópumálum í aðdraganda landsfundar. Í besta falli er þetta upphaf þeirra skoðanaskipta eða annars í öllu falli vangaveltur um að hann hugleiðir báða kosti. Hann er ekki lengur með þá skoðun að útiloka ESB og evru eins og á Valhallarfundi fyrir nokkrum mánuðum, í ræðu sem ég túlkaði þá svo sterkt innlegg gegn ESB að hann myndi aldrei á formannsferli sínum horfa til ESB. Tímarnir breytast fljótt.
![]() |
Allt opið í gjaldeyrismálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.11.2008 | 18:05
Huldumaðurinn og leynifélagið
Ég skil ekki af hverju þessar upplýsingar hafi ekki komið fram fyrir þónokkru og þeir sem áttu þar stóran hlut hafi verið í feluleik þetta lengi. Mikilvægt er að kafa dýpra ofan í þetta mál.
![]() |
Yfirlýsing frá Stími |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.11.2008 | 16:39
Friðsamleg mótmæli - rólegra á Austurvelli
Ég fagna því að mótmælin á Austurvelli voru friðsamleg og rólegra yfir þeim en um síðustu helgi. Veit ekki hvort það skrifast á að færri mættu eða að skipuleggjendur mótmælanna hafi áttað sig á því að þeim var meiri akkur í að tryggja svona týpu af mótmælum. Kannski er líka kominn jólahugur í þá sem hafa mótmælt og rólegra yfir fólki. Þetta er allavega góðs viti eftir það sem laganeminn sagði í hita augnabliksins um síðustu helgi og þegar Hörður Torfa hvatti fólk til að fjölmenna að lögreglustöðinni.
Margoft hef ég sagt að nauðsynlegt sé að almenningur tjái sig um stöðuna og hafi á því skoðanir. Slíkt er aldrei rangt eða óeðlilegt. Málefnaleg mótmæli geta líka haft mjög mikil áhrif. Traustur málstaður felur í það í sér að hægt sé að tjá hann án ofbeldis. Held að þetta sé gullin lexía fyrir mjög marga.
![]() |
Áttundi mótmælendafundurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.11.2008 | 14:26
Erfiðir tímar framundan hjá kaupmönnum
Haframjölið kláraðist hér á Akureyri í vikunni, svo dæmi sé tekið, og ég gat ekki keypt mér pakka fyrr en ég hafði farið í allar verslanir í bænum þar og fann einn pakka. Hverjum hefði órað fyrir því fyrir aðeins ári að þetta myndi verða svona? Fleiri eru svosem sögurnar um matvöru sem fæst ekki. Held að flestir upplifi þessa stemmningu einhversstaðar. Þeir sem reka verslanir eru hræddir um sinn hag og ekki undarlegt svosem.
Ef ekki mun takast að tryggja jólaverslunina á þeim hlutum sem við teljum mikilvægt, föt og mat, er erfitt framundan. Sumir óttast reyndar að lifa ekki af jólaverslunina og þeir sem tóra af næstu vikur óttast um sinn hag á nýju ári. Óvissuferðin hjá kaupmönnum er því algjör, rétt eins og hjá flestum landsmönnum.
![]() |
Kaupmenn þrauka fram yfir jól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 22:36
Rannsaka verður málefni Giftar
Ég velti fyrir mér hvort þetta verði eitt mesta fjársvikamál Íslandssögunnar, einn mesti þjófnaðurinn? Það væri þá eftir öðru sem þeir er halda utan um sjóðina þar í kring hafa gert.
![]() |
Vilja opinbera rannsókn á fjárþurrð Giftar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 19:02
Páll líti sér nær og skeri niður laun og jeppa
Nú er eðlilegt að spyrja sig að því hvort Páll verði sá maður að leggja jeppanum. Þeir eru fáir sem verja jepparuglið hans og fer örugglega fækkandi eftir þessar erfiðu aðgerðir, ætli hann sér að halda honum eftir það sem á undan er gengið.
![]() |
Meiri aðgerðir en starfsfólk vænti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2008 | 15:51
Sorgardagur fyrir svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins
Mér finnst það afleit skilaboð sem sýnd eru með því að leggja niður mestallt starf á svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins, í raun leggja í rúst allt það góða starf sem þar hefur verið unnið í rúma tvo áratugi, á meðan Páll Magnússon heldur jeppanum sínum. Hver er forgangsröðin hjá þessu liði? Hefði ekki verið nær að skera niður sporslur og fríðindi toppanna fyrst og fara svo í uppstokkun. Þetta eru ekki góð skilaboð. Krafa dagsins er því burt með jeppann. Hreint út sagt.
Þetta er sannarlega sorgardagur fyrir fjölmiðil sem á tyllidögum stillir sér upp sem fjölmiðli allra landsmanna. Eftir daginn í dag er það blaður bara orðaflaumur á blaði.
![]() |
700 milljóna sparnaður hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 13:28
Svartur dagur hjá Ríkisútvarpinu
Auðvitað er ljóst að RÚV þarf að taka til hjá sér eins og aðrir. En umfang uppsagnanna er meiri en við höfum vanist áður á þeim bænum og hlýtur að vekja spurningar um hversu mikið þær komi niður á gæði dagskrár og þess góða efnis sem við höfum getað treyst á að komi frá RÚV. Og auðvitað er ömurlegt fyrir starfsmenn að heyra fréttir um að hinn eða þessi fái uppsagnarbréf áður en að uppsögnum kemur. Þetta er auðvitað óþægileg staða.
En það er auðvitað löngu vitað að erfiðir tímar eru framundan á fjölmiðlamarkaði hérna heima. Niðurskurður og hagræðing verður einkennisorð þar á næstunni, eins og víða annarsstaðar. Með því er auðvitað ljóst að gæði dagskrár minnkar og ekki er sjálfgefið að við fáum sömu góðu þjónustu hjá fjölmiðlum og áður var.
![]() |
Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 13:12
Hvar voru eftirlitsaðilarnir í málefnum Giftar?
![]() |
Hart tekist á í stjórn Giftar á meðan verðmæti brunnu upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 00:50
Skiljanleg óánægja atvinnurekenda í nýju landslagi
Vilhjálmur Egilsson, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í rúman áratug og lengi formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, veit alveg hvað hann segir. Varnaðarorð hans og atvinnurekenda almennt er skiljanlegur. Þetta er nýtt landslag. Reyndar er óvissuferðin algjör. Eitt er þó ljóst og það er að stjórnvöld eru tilbúin í mjög vandasamar aðgerðir til að reyna að reisa samfélagið við aftur. Kannski veitir ekki af því að stokka spilin upp og setja umgjörð sem eftir verður tekið.
En erfitt verður að vera í mikilli hugsjónapólitík fyrir suma þingmenn Sjálfstæðisflokksins á meðan þeirri óvissuferð stendur. Svo mikið er víst.
![]() |
Mun stórskaða viðskiptalífið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 21:26
Sterk staða Seðlabankans í breyttu samfélagi
Lagasetning um gjaldeyrismál breytir miklu í íslensku samfélagi. Sett verða mikil höft á hreyfingar á fjármagni og skilaskylda á gjaldeyri. Með þessu eru Seðlabankanum færð mjög mikil völd, allt að því verkstjórnarhlutverk í að byggja upp nýtt samfélag og koma böndum á vandann. Við yngra fólkið í þessu samfélagi höfum aðeins heyrt um höft í sögubókunum og slík mörk en nú verða þau hinn blákaldi raunveruleiki.
Ég ætla rétt að vona að ekki þurfi lengi að hafa þessi lög í gildi og þetta fyrirkomulag, en það er sannarlega nauðsynlegt núna. Ekki er annað hægt þegar þessi lagasetning er að fara í gegn en velta því fyrir sér hvernig næstu mánuðir verða. Margt mun breytast og við horfumst í augu við mun þrengri skorður en settar hafa verið á samfélagið í áratugi. Við komumst í gegnum það, þó erfitt verði.
![]() |
Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 17:51
Verður byltingarástand á Austurvelli um helgina?
Mér finnst samt staðan vera þannig að sé fólk tilbúið í alvöru ofbeldi gegn stjórnvöldum muni það gerast um helgina eða á mánudaginn, fullveldisdaginn 1. desember, þegar laganeminn vildi grípa til byltingar, ef ég skildi hana rétt. Við verðum að sjá til hvað gerist. Löggan virðist minna á sig.
![]() |
Á ekki von á byltingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 16:16
Davíð þarf að segja frá vitneskju sinni
Ég velti þó fyrir mér hvort Davíð hafi með yfirlýsingu sinni verið að tala til einhvers í gegnum myndavélarnar og hópinn á morgunverðarfundinum? Hvers þá? Einhvers af ráðherrum Samfylkingarinnar?
![]() |
Davíð frestar komu sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 01:18
Skiljanleg óánægja með ræðu Katrínar
Hef reyndar heyrt ólíkar skoðanir á ræðunni. Sitt sýnist auðvitað hverjum. En mér finnst það of langt gengið að hóta ráðamönnum ofbeldi og gefa í skyn að valdarán og bylting sé rétta svarið í vanda íslensku þjóðarinnar. Slíkt er ekki vænlegt fyrir þá sem fóru af stað með friðsöm mótmæli á Austurvelli og rýrir boðskap þeirra.
![]() |
Óánægð með ræðu á heimasíðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2008 | 17:55
Ætlar fólk aldrei að læra neitt - nýtt "Lúkasarmál"
Mér finnst beinlínis ömurlegt að lesa fréttina um að setið sé um strák í Reykjanesbæ sem eigi að hafa tekið þátt í hinni grófu líkamsárás, en er alsaklaus um það. Hvernig er það, ætlar fólk aldrei að læra neitt? Á að svara ofbeldi með því að beita ofbeldi? Á að trúa því að fullorðið fólk hafi ekkert til málanna að leggja nema hóta þessum strákum og nafngreina þá - niðurlægja meira en orðið er. Verst af öllu er að rangur strákur sé sakaður um þetta ofbeldi og þurfi að upplifa hreint umsátursástand fyrir utan heimili sitt, reynt sé að ráðast á hann í orði og verki.
Ég spyr bara aftur, ætlum við aldrei að læra neitt?
![]() |
Grímuklæddir menn sitja um heimili hjá saklausum pilti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2008 | 17:34
Traustur heiðarleiki
Ég held að heiðarlegasti maður dagsins hljóti að vera sá sem skilaði 30 þúsund evrum, sem hann fékk inn á reikninginn. Veit ekki hvort það sé orðið sjálfsagt að fólk sé heiðarlegt og tilkynni um slík mistök en þetta er allavega gott dæmi um að einhversstaðar í þessum kuldalega heimi er enn til heiðarleiki og traustur karakter.
![]() |
Fékk 30 þúsund evrur inn á reikning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008 | 12:58
Er illa komið fram við Íslendinga í Danmörku?
Leitt er að heyra hvernig komið sé fram við Íslendinga í Danmörku, ef marka má ýmsar sögur sem heyrst hafa að undanförnu. Ég hef heyrt ansi margar sögur í þessa átt, að íslensku fólki hafi verið sýnd hrein lítilsvirðing þegar í ljós hafi komið hvaðan það kom. Þetta er mikið þjóðaráfall vissulega, enda hafa Íslendingar getað borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi og haft mikil tækifæri. Í einu vetfangi virðist það hafa breyst.
Þeir sem ég hef talað við og eru erlendis, einkum í Bretlandi, segjast hafa misst sjálfsvirðinguna yfir að vera Íslendingar, einkum fyrst eftir bankahrunið. Ég skil það mjög vel ef þetta er framkoman sem landar okkar verða fyrir á erlendri grundu. Ég hef eiginlega ekki viljað trúa því að Danir, frændur okkur, komi svona fram við okkur, en kannski þarf maður að fara að endurskoða það mat.
![]() |
Neitað um viðskipti í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2008 | 20:21
Eðlileg krafa Páls - ófagleg framkoma Péturs
Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að Páll Magnússon, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, krefjist þess að fréttamaður sem hefur starfað á þess vegum skili myndefni sem hann er að opinbera löngu eftir starfslok og hefur í sjálfu sér engan traustan rétt á að sýna eða eiga. Þetta efni var unnið á meðan hann var á launaskrá hjá Ríkisútvarpinu og er eign þess að öllu leyti. Mér finnst eiginlega ótrúlegt hversu langan tíma þó það tók fyrir Ríkisútvarpið að setja fram þessa kröfu, enda átti ég í sannleika sagt von á henni í gær eða um helgina.
Pétur hefði alveg getað sagt frá samskiptum sínum við Geir, hafi honum fundist þau óeðlileg. En að flagga efni sem er eign þeirra sem hann vann hjá er fyrir neðan allar hellur, enda sýnist mér á öllu að Pétur skili nú efninu. Svo vaknar við þetta spurningin - eru fréttamenn með efni sem þeir vinna heima hjá sér eða eiga þeir rétt á að afrita það? Mér finnst eðlilegt að þetta verði tekið fyrir með eðlilegum hætti og útkljáð á þar til gerðum stöðum.
Svo er það annað mál að lengi má segja frá og tjá sig um mál. Af hverju var Pétur ekki búinn að blogga um þetta viðtal eða tala um það fyrir löngu, segja frá án þess að ganga svo langt að sýna myndskeið sem hann átti ekki? Þetta vekur auðvitað spurningar um hvort fréttamenn gera þetta almennt, fari heim með gögn, spólur og myndbönd, og liggi á því um langt skeið, enda er t.d. nokkuð um liðið síðan Pétur hætti hjá RÚV.
![]() |
Krafa um að viðtali við Geir verði skilað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)