FL Group - In Memoriam



Ekki er hægt að segja annað en skammlíf saga FL Group hafi verið ævintýri líkust - fallið mikla varð þó dramatískt rétt eins og tímabundin velgengni Hannesar Smárasonar. Fyrir nokkrum árum vildu allir verða eins og Hannes - þetta var aðallínan í skaupinu 2006. Frægðarsól hans hneig til viðar og FL Group fuðraði upp.

Fjöldi sérfræðinga í viðskiptum hafa sagt söguna alla í mörgum orðum og í löngum skrifum, analíseraða í botn. Myndklippan um FL Group er hinsvegar alveg frábær og segir alla söguna á örfáum mínútum. Skylduáhorf, hvorki meira né minna!

Væri sagan af þessu kvikmynduð, með einkalífi aðalsöguhetjanna með, væri þetta örugglega eins og Dallas með Ewing-fjölskyldunni í forgrunni í miðju olíubraskinu og sukkinu.

Kannski væri tilvalið að Stöð 2 próduseri seríu um þetta yfirgengilega rugl með Jóni Ásgeiri sjálfum í gestahlutverki.

Aðgát skal höfð....

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki vel til Jósafats Arngrímssonar. Hinsvegar varð ég svolítið hissa þegar ég las skrif þeirra sem höfðu tjáð sig vegna andláts hans. Fannst þar ráðist ómerkilega að honum og fannst það einum of langt gengið. Vel má vera að Jósafat hafi verið umdeildur maður, en ég held að fólk eigi að vanda orðaval sitt betur en raun ber vitni í þessu máli.

Aðgát skal höfð... eins og frægt var sagt.

mbl.is Jósafat Arngrímsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegt grín um bandaríska forsetakjörið



Innan við fjórir mánuðir eru þangað til 44. forseti Bandaríkjanna verður kjörinn og styttist óðum í flokksþing repúblikana og demókrata, auk valsins á varaforsetaefnum John McCain og Barack Obama. Kosningabaráttan er hafin af fullum krafti. Þeir hjá Jib Jab hafa sett saman magnaða klippu þar sem baráttan er sett í kómískt ljós - lagið Time for some campaignin´sem byggt er á lagi Bob Dylan Times they are changin´. Mæli með því að allir sem hafa einhvern minnsta áhuga á bandarísku forsetakosningunum líti á það.



Jib Jab var með nokkrar ansi góðar slíkar myndklippur vegna forsetakosninganna 2004, en þeirra eftirminnilegust var sú sem þeir gerðu eftir að George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Bendi á hana hérmeð.

Synt yfir Ermarsundið - glæsilegt hjá Benedikt

Benedikt Hjartarson Ég vil óska Benedikt Hjartarsyni innilega til hamingju með hið mikla afrek sem sundið yfir Ermarsund er. Þetta er glæsilegur áfangi og ánægjulegt að loksins hafi íslenskum sundmanni tekist þetta ætlunarverk. Finnst reyndar alltaf merkilegt að heyra fréttir af svona afrekum, enda þarf mikið að leggja á sig og vera mjög einbeittur og agaður til að klára verkið.

Ég hef reyndar aldrei skilið fyllilega í því hvað það er sem keyrir fólk í að reyna að leggja svona afrek á sig. Sennilega er lykilatriðið að hafa kraft og kjark til að leggja í svona, hvort sem það er sund um heimsins höf, klifur á heimsins tinda, gönguferð á pólana eða hvaða annað afrek það er. Við sem lifum okkar hversdag og teljumst góð að komast í gegnum hann hljótum að dást að þeim sem leggja svona á sig.

Viss ævintýraþrá og löngun í að ná settu marki hlýtur að vera það sem ýtir fólki af stað í svona erfitt verkefni, sem tekur á og reynir á þrek og þor. En það er sætt að ná settu marki og því erum við öll stolt af Benedikt og hans afreki.

mbl.is Tókst að synda yfir Ermarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfis jörðina á 80 lygasögum

Hún er allsvakaleg svikamyllan sem unga bandaríska parið spann til að ferðast um heiminn og lifa hátt, á annarra manna kostnað. Hvernig getur fólk svikið vini sína og nágranna með öðrum eins ómerkilegum hætti? Þarf að vera verulega ósvífið og ómerkilegt fólk sem gerir annað eins. Finnst samt stórmerkilegt hvað þetta gekk lengi hjá þeim. Hvernig er hægt að svíkja út fé endalaust án þess að nokkur verði þess var.

Sennilega hefur ferðalagið og ljúfa lífið verið skemmtilegt meðan á því stóð, en það hlýtur að vera að þetta par iðrist sáran núna, þegar þau eru á leið í vist sem er ansi mörgum þrepum neðar en heimsreisurnar.

 


mbl.is Fóru í heimsreisur á kostnað nágrannanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsisbeiðni morðingja Sharon Tate hafnað

Susan Atkins Susan Atkins, morðingja leikkonunnar Sharon Tate, eiginkonu óskarsverðlaunaleikstjórans Romans Polanski, var í kvöld hafnað um náðun og mun því deyja í fangelsi, en hún er langt leidd af krabbameini og á aðeins örfáa mánuði eftir ólifaða að mati lækna. Mikið hafði verið rætt í bandarísku samfélagi að undanförnu um hvort ætti að náða Atkins og hún gæti fengið að deyja sem frjáls kona.

Morðið á Tate og fjórum vinum hennar árið 1969 er með ógeðfelldustu morðum í bandarískri sögu - einkum vegna þess hversu kaldrifjað það var. Engin miskunn var sýnd, en Tate var komin átta og hálfan mánuð á leið með barn sitt og Polanski er hópurinn að baki morðunum slátraði henni. Susan veitti Sharon banastungurnar þrátt fyrir að hún grátbæði Susan um miskunn fyrir sig og son sinn.

Susan gekk reyndar það langt þegar að hún slátraði Sharon að hún skrifaði Pig utan á hurðina á húsi Polanski-hjónanna með blóði úr Sharon. Hún sýndi aldrei neina iðrun á morðunum þegar málið var fyrir dómi og hreykti sér meira að segja af því hvernig hún drap Sharon Tate.

Vissulega er það áleitin spurning hvort frelsið sé valkostur fyrir þá sem fremja svo alvarlega glæpi, hvort þeir eigi að fá tækifæri til að upplifa lífið án refsingarinnar sem markaði örlög þeirra. Í þessu tilfelli hefði fyrirgefning ekki verið rétt skilaboð, enda aldrei iðrun sýnd.

Mér finnst ekki hægt að horfa framhjá því sem Manson-hópurinn gerði á sínum tíma, með því að slátra ekki aðeins hinni 26 ára gömlu leikkonu, Sharon Tate, heldur öðru fólki á þeim tíma. Því er þessi niðurstaða bæði rétt og eðlileg.

Snobbið í laxveiðinni

Sennilega er það eitt besta dæmið um það hversu snobbuð þessi blessaða þjóð er orðin þegar fólk er farið í frí og útivistina með þyrlu. Kannski þarf þetta ekki að koma að óvörum en svona er þetta víst. Flestir þeir sem ég þekki eru að fara í laxveiði sér til heilsubótar og ánægju og eru ekki svo efnaðir að geta farið með þyrluflugi þangað.

Svolítið fyndið.


mbl.is Með þyrlum í laxveiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýtur Heath Ledger óskarinn fyrir Dark Knight?

heathledger joker Kvikmyndagagnrýnendur vestanhafs hafa lofað The Dark Knight, nýjustu Batman-myndina, í bak og fyrir og einkum túlkun Heath Ledger á Jókernum. Eru margir þeirrar skoðunar að Heath verðskuldi óskarsverðlaunin fyrir svanasöng sinn á hvíta tjaldinu. Eftir andlát Heaths í janúar hafa kvikmyndaáhugamenn beðið spenntir eftir Dark Knight og einkum því að sjá Jókerinn í túlkun hans, en kynningartrailerinn úr myndinni varð opinber skömmu fyrir dauða hans.

Enginn vafi leikur á því að Dark Knight verður ein stærsta mynd ársins og sumarsmellurinn í ár - andlát Heath Ledger hefur vissulega mikil áhrif á það, enda munu margir vilja fara í bíó til að sjá hann í síðasta sinn á hvíta tjaldinu í alvöru stórmynd. Óskarstilnefning yrði merkileg viðbót við þá umræðu. Heath vann ekki óskarinn fyrir stórleik sinn í Brokeback Mountain fyrir tveim árum og eflaust taldi akademían að hann myndi fá annað tækifæri til að vinna. Kannski gerist það nú fyrir þennan svanasöng hans.

Held að flestir aðdáendur Heaths muni líta á Dark Knight sem síðustu stórmynd hans. Heath var þó vissulega að vinna að gerð The Imaginarium of Doctor Parnassus þegar hann lést en mikið verk var eftir til að klára myndina. Eru aðstandendur myndarinnar þó staðráðnir í að klára myndina og verður söguþræðinum breytt verulega til að persóna Heath persónugerist í öðrum leikurum, þeim Johnny Depp, Colin Farrell og Jude Law, sem eru tilbúnir til að taka þátt í verkefninu, honum til heiðurs, og jafnframt tryggja að myndin verði kláruð. Engin dagsetning er komin á frumsýningu.

Aðeins einu sinni í sögu óskarsverðlaunanna hefur það gerst að leikari vinni óskarinn fyrir leiktúlkun eftir lát sitt. Fyrir þrem áratugum, árið 1977, hlaut Peter Finch óskarinn fyrir stórleik sinn í hlutverki fréttaþulsins Howard Beale í Network nokkrum vikum eftir að hann lést úr hjartaslagi. Tók eiginkona hans, Aletha Finch, við verðlaununum. Var þessi heiður því mjög sögulegur en margir töldu sigurlíkur hans minni þar sem hann hafði dáið áður en kosningin fór fram og margir veðjuðu á túlkun William Holden í Network eða Robert De Niro, sem hafði farið á kostum í hlutverki leigubílstjórans Travis Bickle í Taxi Driver.

Auk þess hefur það aðeins gerst örfáum sinnum að leikari hafi hlotið tilnefningu eftir andlát sitt. James Dean hlaut tvisvar tilnefningu eftir að hann lést í bílslysi árið 1955; í East of Eden árið 1956 og Giant árið 1957. Hann hlaut þó ekki óskarstilnefningu fyrir þá kvikmynd sem talin hefur verið hans besta verk á ferlinum, Rebel Without a Cause, sem markaði ímynd hans sem töffarans í kvikmyndabransanum, við hlið Marlon Brando. Hávær orðrómur var um að Dean myndi vinna verðlaunin fyrir East of Eden en mörgum að óvörum vann Ernest Borgnine óskarinn fyrir túlkun sína á Marty.

Spencer Tracy var tilnefndur nokkrum mánuðum eftir að hann lést fyrir stórleik sinn í Guess Who´s Coming to Dinner?, sem markaði ekki aðeins endalok merkilegs leikferils heldur sögufrægs leynilegs ástarsambands og vinnusamstarfs hans með Katharine Hepburn, bestu leikkonu 20. aldarinnar. Myndin er stórmerkileg endalok á merkum ferli, en ekki er hægt annað en hrífast af næmum samleik Tracy og Hepburn í þessari síðustu mynd, en þau vissu bæði að þetta væru endalokin á litríku sambandi þeirra á hvíta tjaldinu.

Svo má auðvitað ekki gleyma því að Massimo Troisi var tilnefndur árið 1996 fyrir túlkun sína á póstberanum Mario Ruoppolo í hinni ljúfu og yndislegu Il Postino. Troisi lést aðeins örfáum klukkustundum eftir að hann lauk vinnu við myndina og myndin var tileinkuð minningu hans. Il Postino varð hans merkasta leikverk á ferlinum og hans var minnst sérstaklega á óskarsverðlaunahátíðinni 1996 með myndklippu um verk hans. 

Miðað við umræðuna um The Dark Knight má búast við að Heath Ledger bætist í hóp þeirra leikara sem fyrr eru nefndir, þeirra sem kláruðu feril sinn með eftirminnilegum leikframmistöðum og voru heiðraðir fyrir það í Hollywood eftir andlát sitt. Það verður svo að ráðast hvort að Heath Ledger vinnur óskarinn fyrir túlkun sína á Jókernum.

mbl.is Stjörnurnar votta Ledger virðingu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær Britney að komast af botninum?

Britney Innan við ári eftir að endurkoma Britney Spears fór í vaskinn hefur hún náð áttum og er vonandi að rísa úr öskustónni, taka sig á, halda sér edrú og ná sér af botninum. Þó að fræg ímynd hennar sem saklausrar blondínu með englablæ sé endanlega fokin út í veður og vind eftir fjölmiðlaáföll hennar og fátt minni á forna frægð, t.d. eftir að hún rakaði af sér hárið og tattúveraði sig, virðist hún staðráðin í að rífa sig af botninum.

Pressan hefur varla litið af henni og fært okkur misjafnlega spennandi fréttir sem dókúmentera hratt fall stjörnu. Hún gekk þó ekki alla leið til heljar og lét tattúvera skipperamerki á upphandlegginn eða djöflatákn á bakið heldur lét sér þá nægja að fá lítið brostákn á upphandlegg. Vonandi mun tilveran brosa við henni núna. Ég man reyndar þegar Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð.

Fjölmiðlar vestanhafs voru reyndar orðnir svo vissir um að hún myndi ekki ná að rétta sig við að CNN og fleiri fréttastöðvar voru tilbúnir með umfjöllun um hana látna, var þar í hópi með fólki á borð við Kirk Douglas, Paul Newman, Oliviu De Havilland, Jimmy Carter, Betty Ford og Elizabeth Taylor, svo nokkrir séu nefndir. Britney er of ung fyrir fallið mikla og vonandi nær hún að halda sér á þeirri braut sem hún er á nú.

mbl.is Britney blómstrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild skopteikning af Obama-hjónunum

Umdeild forsíða New Yorker Tímaritið New Yorker, sem lýsti yfir stuðningi við John Kerry í forsetakosningunum 2004 á síðustu dögum kosningabaráttunnar, birti í dag umdeilda skopmynd af Michelle og Barack Obama í líki hermanns með alvæpni og múslima. Myndbirtingin hefur verið fordæmd víða í Bandaríkjunum í dag.

John McCain, forsetaefni repúblikana, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann talar harkalega gegn myndbirtingunni og fordæmir mjög á hversu lágu plani hún sé. Auðvitað hefur svo kosningabarátta Obama-hjónanna látið í sér heyra og farið hörðum orðum um þá pólitík sem New Yorker gefur í skyn með myndbirtingunni.

Ekki er hægt að segja að þetta sé fögur pólitísk barátta eða tjáning á pólitískri baráttu sem sést með þessari mynd og að gefið sé í skyn að maður með raunhæfa möguleika á forsetaembættinu sé kaldrifjaður öfgamaður og kona hans til í hernaðarleiki við hlið hans og kyndi undir hryðjuverk.

En kannski er þessi myndbirting lík mörgu sem sést hefur í bandarískum stjórnmálum hvað það varðar að skopmyndateikningar þar hafa oft verið harðskeyttar og óvægnar í meira lagi og ekkert hikað í þeim efnum. Þessi myndbirting er þó með þeim daprari. Margar skopmyndir fá fólk til að hlæja. Held að fáir hlæji að þessari.

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort New Yorker harmi mjög að Hillary Rodham Clinton varð ekki forsetaefni Demókrataflokksins og sé enn í forkosningagírnum - hafi ekki sætt sig við möguleikann á því að Obama verði forseti Bandaríkjanna. Reyndar er það nokkuð augljóst enda myndu þeir aldrei birta þessa mynd ef þeir gætu sætt sig við hann, rétt eins og John Kerry síðast. En kannski koma þarna fram fordómar fólks á New York-svæðinu á Obama.



Barack Obama hefur verið að vinna mjög ákveðið að því að heilla gyðingaatkvæðin í New York og reyna að tala upp Ísrael og tala harkalega niður til Írans. Gott dæmi um það er ræða hans hjá AIPAC fyrir rúmum mánuði, þar sem hann talaði um stjórnina í Íran sem einræðisstjórn, Irani regime, líkt og Bush gerði um Íraksstjórnina, Iraqi regime. Ekki er að sjá að mikill munur sé á milli McCain og Obama hvað varðar Ísrael og Íran.

En þetta verða óvægnar kosningar. Obama hefur ekki með þessari myndbirtingu séð fyrstu né síðustu atlöguna að mannorði hans og konu sinnar, sem virðist vera mjög umdeild samkvæmt nýjustu könnunum, mun umdeildari en Cindy McCain, og fá yfir sig heift fjölda fólks, mun frekar en eiginmaður hennar. Gæti orðið álíka umdeild og Tereza Heinz Kerry í síðustu forsetakosningum, en á öðrum forsendum.

Væntanlega verður Obama að halla sér betur að gyðingaatkvæðunum á New York-svæðinu ef marka má þessa myndbirtingu. En væntanlega er þetta fyrsta merki þess að alvöru hiti sé kominn í baráttuna fyrir forsetakosningarnar eftir tæpa fjóra mánuði.

mbl.is Skopteikning veldur uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínið hækkar - 200 kallinn í sjónmáli

Bensínverðið er orðið ískyggilega hátt - hækkunin ætti svosem varla að koma að óvörum þó hún komi sér illa fyrir landsmenn alla. Ég spáði því hér í marsmánuði að bensínlítrínn yrði kominn í 200 krónur fyrir sumarlok og svo mun verða raunin. Þessi þróun hefur þó hraðvirkari en mörgum óraði fyrir og er sam martröð fyrir þá sem þurfa að keyra mikið.

Verð samt ekki mikið var við að fólk keyri minna og spari bílinn. En kannski mun það fara að breyta einhverju þegar bensínlítrinn fer yfir 200 kallinn. Þessar hækkanir koma illa niður á fólki og væntanlega spyrja margir sig að því hvar eigi að spara þegar harðnar meira á dalnum en þegar er raunin.

Fór í sumarbústaðinn um daginn, austur fyrir Vaðlaheiðina, og mætti þar húsbílum og stórum og miklum bílum með fellihýsi og tjaldvagna í eftirdragi. Varla er slík sumarkeyrsla um landið ódýr en þegar farið er á bílasölurnar blasa þar við jeppalengjurnar. Varla er gósentíð á bílasölunum núna.

mbl.is Eldsneytisverð snarhækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf og dauði í spítaladrama

Liðið í Grey´s Anatomy Ég er einn þeirra sem er ekki beint hrifinn af spítalaframhaldsþáttum, einskonar blöndu af rómans og raunveruleika sjúkrahúsanna. Þannig að það verður seint sagt að ég hafi gaman af Grey´s Anatomy og ER.

Finnst tilveran á sjúkrahúsunum þar stundum einum of slétt og felld í bland við alvöru lífsins sem þar er, en það er bara mitt heiðarlega mat. Fjöldi fólks eru miklir aðdáendur svona þátta eins og áhorfsmælingar sýna.

Enginn vafi leikur á að Grey´s Anatomy er einn heitasti þátturinn vestanhafs. Er samt einn þeirra sem er nokkuð sama hvort Izzie lifir eða deyr í þættinum, en dáist að þeim sem velta því fyrir sér.

Hinsvegar er ég ánægður með hversu sjálfstæð Katharine Heigl hefur verið en hún afþakkaði Emmy-tilnefningu vegna þess að henni fannst hún ekki verðskulda hana vegna lélegs handrits sem skrifað var fyrir hana.

Grey´s Anatomy á stóran aðdáendahóp hér og ekki er langt síðan Ísland fékk sína stundarfrægð í þættinum. Minnst var á landið í hugleiðingum dauðvona sjúklings sem vildi fá að kveðja þennan heim sáttur við lífið og tilveruna á Íslandi.

mbl.is Er Izzie dauðvona?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sætur sigur fyrir Fylki

Ég átti von á að FH myndi eiga auðvelt með að taka Fylki í kvöld. Varð ekki sannspár þar. Fyrir Fylki og þjálfarann var mikilvægt að snúa vörn í sókn og ná sigri. FH missir niður forystuna og deildin er alveg galopin. Allt getur gerst á toppi og botni, þó að staða ÍA og HK sé að verða ískyggilega dökk í botnbaráttunni. HK er enn að leita sér að þjálfara og margir gefa verkefnið frá sér, ekki undrunarefni það.

Akureyringurinn Jóhann Þórhallsson stóð sig vel, tryggði Fylki farmiða frá mesta hættusvæðinu í deildinni, í bili að minnsta kosti. Hann þekkir fallbaráttuna vel en hann féll eins og flestir muna með Þór, KA og Grindavík og ætlar greinilega ekki að taka fallið með Fylki.

mbl.is Jóhann hetjan í sigri Fylkis á FH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölnir leikur sér að ÍA - lánleysi Skagamanna

Nú er það svart fyrir Skagamenn Nýliðar Fjölnis í Grafarvogi gerðu sér lítið fyrir í kvöld og rassskelltu Skagamenn á heimavelli. Lánleysi Skagamanna er algjört en þeir hafa nú leikið átta deildarleiki í röð án sigurs. Guðjón Þórðarson hefur ekki átt daprari sumar á sínum þjálfaraferli í efstu deild íslenskrar knattspyrnu og greinilegt að fátt er að ganga upp hjá liðinu.

Botnbarátta blasir við Skaganum, rétt eins og fyrir tveim árum. Skagamenn mega varla við fleiri skakkaföllum enda með aðeins sjö stig úr ellefu leikjum. Enn hefur liðið tíma til að bjarga sér af botninum en ekki blæs byrlega. Frekar dapurlegt hefur verið að sjá til Skagamanna á þessu sumri og deilur þeirra við dómara ekki beinlínis verið uppbyggilegar. Nær væri fyrir liðið að taka á sínum vandamálum og ná áttum í botnbaráttunni.

Skaginn hefur lengst af verið gullaldarlið í íslenskri knattspyrnu. Þetta er vond staða og hlýtur að vera erfið fyrir stuðningsmenn liðsins. Flestir spyrja sig að því hvernig Skaginn ætli að vinna sig upp í sumar eftir þessa martröð í upphafi mótsins. Þar eru góð ráð orðin mjög dýr og algjör skelfingarbragur yfir þessu forna knattspyrnuveldi sem er að upplifa dökka daga.

Stóra spurningin verður hvort að Guðjón Þórðarson muni klára sumarið sem þjálfari Skagamanna, hvort honum verði kennt um slæmt gengi liðsins eða takist að snúa vörn í sókn.

mbl.is Nýliðar Fjölnis lögðu Skagamenn, 2:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggðin við Ísrael - verða breytingar í janúar?

TrioNú þegar hálft ár er eftir af forsetaferli George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, tjáir hann afgerandi tryggð við Ísrael. Í því felast engin ný og stór tíðindi í utanríkismálapólitík Bandaríkjanna. Ég efast reyndar um að það breytist mikið sama hver verður kjörinn eftirmaður hans í Hvíta húsinu eftir tæpa fjóra mánuði. Báðir hafa þeir John McCain og Barack Obama tjáð sömu tryggð við Ísrael og Bush forseti og Clinton-hjónin gerðu alla tíð, svo varla verður mikil breyting í þeim efnum.

Greinilegt er eftir ræðu Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, hjá AIPAC í júníbyrjun að hann verður ötull málsvari Ísraels ef hann nær kjöri sem forseti Bandaríkjanna og mun vinna af krafti gegn Íran, ekkert síður en bæði John McCain og Hillary Rodham Clinton höfðu talað um í forsetabaráttu sinni á síðustu mánuðum. Ræða Obama voru tíðindi í augum einhverra, sennilega þeirra sem trúðu tali hans um miklar breytingar í forkosningunum.

Varla þurfti AIPAC-ræða Obama að koma að óvörum, í sannleika sagt, enda mun Obama þurfa á öllu sínu til að ná kjöri í kosningunum í nóvember. Fyrir nokkru varð vart við þann misskilning hjá íslenskum vinstrimönnum og svosem fleiri slíkum um víða veröld að Obama myndi ekki taka upp sömu stefnu og Bush forseti í málefnum Írans og Ísraels. Það reynist markleysa.

Bæði þarf hann að tala eins og Bush forseti í þessum þýðingarmiklu málum til að ná til lykilhópa í kosningabaráttunni og auk þess vill hann ekki marka sig sem mann sem veitir afslátt í varnarmálum nái hann kjöri sem forseti. Með þessu er Obama að sýna vel að hann hefur í raun sömu stefnu í málefnum Ísraels og báðir keppinautar hans um forsetaembættið og fráfarandi forseti.

Mikið verður hamrað eflaust á næstunni með það að Obama sé reynslulaus og veiti afslátt í mikilvægum málefnum. Þessi ræða skýrði línur og eftir hana vitum við betur hvernig forseti Barack Obama myndi verða í lykilmálefnum. Tryggð hans við Ísrael og andstaða við kjarnorkuuppbyggingu í Íran verður varla dregin í efa af vinstrimönnum um víða veröld eftir þetta.

Bush er búinn að vera pólitískt, situr sína síðustu mánuði á valdastóli. Mun meira máli skiptir hvað mögulegir eftirmenn hans gera. Báðir virðast þeir í grunninn hafa sömu stefnu sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir einhverja.

mbl.is Bush gefur gult ljós á árás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsemi í myrkrinu - græðgin og óhófið að baki?

Ólafur Jóhann Ólafsson kemst vel að orði í helgarviðtali Moggans um orkumál og einkum REI-málið margfræga. Græðgin og óhófið drap alla mögulega skynsemi í REI-málinu. Almenningi ofbauð spillingin og vinavæðingin sem var í forgrunni allra ákvarðana, hvernig skammta átti nokkrum vildarvinum úr sjóðum almennings og nota fyrirtæki almennings sem stökkpall fyrir auðmenn og til að maka krókinn fyrir sig sjálfa. Þar var lykilpunktur þess máls.

Enn veit reyndar enginn hvað snýr upp og niður í því máli. Þeir stjórnmálamenn sem réðu för í REI-málinu síðasta haust eru ekki lengur á hinu pólitíska sviði og reyndar flestir þeir yfirmenn sem umdeildastir voru í því ferli. Guðmundur Þóroddsson ekur reyndar enn um á jeppa og talar í síma í eigu borgarbúa og á þeirra kostnað þó hann hafi fengið 30 milljónir fyrir að fara, þar sem hann átti ekki lengur trúnað þeirra sem fara með umboð kjósenda.

Þvílíkur farsi var annars að horfa á þennan mann muldra sig í gegnum sína stöðu í Kastljósi á föstudag. Ætlar maðurinn ekki að skila þessum trúnaðargögnum sem hann á engan rétt á að valsa með út úr húsi með? Nú er helgin að verða liðin og allir bíða eftir að maðurinn skili því sem hann á engan rétt á að vera með í sínum fórum. Varla er við því að búast að fólk hafi samúð með þessum manni og ekki var hann að fiska eftir henni með Kastljósviðtalinu.

Orkuútrásin getur jafnvel verið fjári sniðug og kúl. En þar eiga einkaaðilar að gambla með fé ekki á að leggja undir á spilaborð viðskiptanna með fé almennings, setja undir fyrirtæki sem á að þjóna borgarbúum og tengdum aðilum. Þar er helsta deilan.

Eins og komið var fram í REI-málinu í fyrra er eðlilegt að véfengt sé fyrir hvern er unnið með þessari orkuútrás. Ekki eru það eigendur þessa borgarrekna fyrirtækis, þó menn eins og Guðmundur hafi spilað sig sem forstjóra í einkafyrirtæki.

Ólafur Jóhann talar þó, að því er virðist, af meiri einlægni en margir forsvarsmenn þessara fyrirtækja sem hafa tjáð sig um þessi mál lengi. Kannski vantar einlægnina og heiðarleikann í þennan hráskinnaleik er allt kemur til alls. 


mbl.is Ólafur Jóhann: Tími gífuryrða liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöföld ánægja hjá þokkaparinu í Hollywood

Brad Pitt og Angelina Jolie Sennilega segir það sitt um fréttadaginn þegar stærsta fréttin af erlendum vettvangi er að óskarsverðlaunaleikkonan Angelina Jolie sé búin að eiga tvíburana sína. Reyndar var fullyrt þegar 30. maí sl. að leikkonan hefði átt börnin þá en það reyndist ekki rétt. Fjölmiðlar hafa átt svo erfitt með að bíða eftir börnunum að sérstök vakt hefur verið á eftir þeim og sátu þeir um sjúkrahúsið, svo mjög að þekja varð gluggana á sjúkrastofu leikkonunnar með dökku efni til að ekki yrði hægt að mynda þar.

Angelina Jolie hefur verið umdeild eins lengi og hún hefur verið fræg, ekki aðeins talin ein mesta þokkadís síðustu ára, heldur auk þess mjög góð leikkona sem hefur túlkað dramatík og húmor í hæfilegri blöndu og skapmikil að auki. Jolie er eins og flestir vita ekki ættarnafn. Þetta er franska orðið yfir hina fögru. Því vel við hæfi að hún eigi börnin sín í Frakklandi. Ættarnafn hennar er Voight, enda er faðir Angelinu óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight. Ekki er langt síðan þau sömdu frið eftir að hafa ekki talað saman í fimm ár. Bæði þekkt fyrir svæsin skapgerðarköst.

Ástarsamband Brad Pitt og Angelinu Jolie hefur verið eitt af þeim mest áberandi á síðustu árum og telst eitt það heitasta í kvikmyndabransanum til fjölda ára. Umtalið við upphaf sambands þeirra við gerð kvikmyndarinnar Mr. and Mrs. Smith árið 2005 var enda engu minna en þegar að Elizabeth Taylor og Richard Burton voru að byrja að draga sig saman við gerð kvikmyndarinnar Kleópötru í upphafi sjöunda áratugarins. Og myndirnar af upphafi sambands þeirra minntu marga á hinar heitu myndir sem staðfestu að Burton og Taylor voru að draga sig saman fyrir fjórum áratugum.

Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.

Enn hafa þau þó ekki gift sig og um tíma virtist sambandinu ætla að ljúka á deilum um það. Jolie vildi ekki festa sig og hinn 45 ára ráðsetti fjölskyldufaðir sem var farinn að róa sig eftir litríkan feril vildi skuldbindingu. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, fullyrða má að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) 1996 og skildi við hann 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.

Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.

Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Börnin hafa sameinað þau - þau eiga saman dótturina Shiloh (sem er lifandi eftirmynd föður síns) og auk þess hafa þau ættleitt heilan helling af börnum, minnir að þau séu þrjú eða fjögur sem Jolie hefur ættleitt og Pitt hefur gengið í föðurstað.

Fróðlegt verður að sjá hvort að tvíburarnir sameini stjörnurnar endanlega og þau gifti sig eftir áralangar vangaveltur um tímasetningu þess.


mbl.is Brangelina-tvíburarnir fæddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðalda í London - vandamál í bresku samfélagi

Gabriel Ferez og Laurent Bonomo Lögreglan í London hefur nóg að gera við að leysa hnífstungumorðmálin í borginni, en þau eru sem faraldur nú og fjöldi ungra manna fallið í valinn. Fimm manns hið minnsta voru stungnir nú um helgina. Held þó að morðið á frönsku námsmönnunum slái út allt annað í þessum ófögnuði sem skekur breskt samfélag, er hiklaust með ógeðfelldari morðmálum síðustu áratugi.

Ánægjulegt er að lögreglan sé komin á spor þeirra sem frömdu verknaðinn. Ekki var nóg með að morðinginn (morðingjarnir) veittu mönnunum tveimur um 250 stungusár heldur var kveikt í líkunum. Lýsingar á þessu voðaverki eru skelfilegar og vonandi munu þeir sem frömdu verknaðinn svara til saka fyrir það og fá sinn dóm. Hef fylgst með fréttum af þessu máli á bresku fréttastöðvunum. Greinilegt er að yfirvöld ráða ekki við stöðuna og fátt er til ráða.

Þeir á Sky hafa fjallað jafnan um þessi mál af ábyrgð og talað um allar hliðar þessara sorglegu morða og reynt að varpa ljósi á þá þætti sem mestu skipta. Sérstaklega áhrifaríkt var að sjá viðtal við blökkumann í einu af gengjunum í borginni þar sem hann talaði um ofbeldið og sagði enga vera neitt nema þeir ættu hníf og gætu varið sig. Villimannseðlið og tilfinningaleysið er algjört. Morð eru líka framin oft af mjög litlu tilefni og fórnarlömbin eru berskjölduð nema þau geti varið sig með hnífum.

Þess eru dæmi að gengi taki vissa einstaklinga fyrir og vilji taka þá úr umferð. Er grimmdin í þessum málum mjög mikil og ekki hægt að sjá betur en að ríkisstjórnin og borgaryfirvöld í London standi ráðalaus andspænis þessum mikla vanda, sem versnar með hverjum deginum. Dökkur blær er yfir nokkrum borgarhverfum og þar horfir fólk upp á hvert morðið á eftir öðru, vill komast úr hverfinu en getur ekki losnað við fasteignina sína.

Blasir við að þetta sé uppsafnaður vandi í bresku samfélagi. Hef heyrt marga sérfræðinga tala um hættulega framkomu ungs fólks í gengjunum; finna megi fyrir einmanaleika og þunglyndi ungmenna almennt sem stafi m.a. af ábyrgðarleysi fullorðinna - mjög skorti á ást og umhyggju í samfélaginu. Er fylgst er með fréttum af hnífstungumorðunum má finna vel fyrir því að ekki er hægt að ráða við stöðuna.

Nú er talað um það sem einhverja lausn að gera hnífa upptæka og gera herferð sérstaklega gegn þeim sem ganga um borgina með hníf á sér. Varla verður það auðvelt verkefni og ekki hægt að ná tökum á stöðunni með því. Vonandi mun takast að stöðva þessa morðöldu í heimsborginni London. Ekki er þó ástæða til bjartsýni miðað við hversu alvarleg staðan er.

mbl.is Ákærður vegna námsmannamorða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einars Odds Kristjánssonar minnst

EOK
Það er vel til fundið hjá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins að heiðra minningu Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, með því að reisa honum bautastein á Flateyri, nú réttu ári eftir að hann varð bráðkvaddur. Einar Oddur var lykilmaður í gerð Þjóðarsáttarinnar árið 1990, sem formaður Vinnuveitendasambands Íslands, og hlaut viðurnefnið bjargvætturinn á Flateyri vegna þeirrar framgöngu.

Mikilvægt er að mótmæla sögufölsunum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í afmælisræðu fyrir Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann tók greinilega heiðurinn af gerð þjóðarsáttasamninganna með því að ætla að tengja þá nafni Steingríms. Sjálfhól Ólafs Ragnars hefur eðlilega farið illa í þá sem stóðu að gerð þeirra samninga og mikið verið um þá ræðu verið fjallað.

Mikilvægt er að heiðra minningu þeirra heiðursmanna sem léku þar lykilhlutverk; Einars Odds og Guðmundar J. Guðmundssonar, fyrrverandi alþingismanns, formanns Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands. Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og fyrrverandi forseti ASÍ, var líka einn lykilmanna í þessum samningum, sem voru leiddir af forystumönnum verkalýðsins og atvinnulífsins.

Andrés Magnússon, Guðmundur Gunnarsson og Guðmundur Magnússon hafa allir ritað prýðisgóðar greinar að undanförnu þar sem farið er yfir sögu þeirra samninga og lykilhlutverk Einars Odds Kristjánssonar í þeim efnum, sem forseti Íslands ætlaði að eigna sér. Ómerkilegt er að sjálfur þjóðhöfðinginn geri svo lítið úr sér að ætla að taka heiðurinn af verki látinna manna og mun verða honum til lítils vegsauka að tjá sig með þeim hætti.

Einars Odds er minnst á þessum degi, hans merka ævistarf lifir í huga fólks. Einars Odds er saknað í íslensku þjóðlífi. Skarð hans var mikið er hann varð bráðkvaddur á hæsta tindi Vestfjarða, Kaldbaki, fyrir ári - við sjálfstæðismenn söknum hans úr þingflokknum. Enginn getur fyllt upp í skarð hans. Einar Oddur var þeirrar gerðar að tjá sig óhikað um menn og málefni og fór eigin leiðir. Stjórnmálaumræðan varð litlausari við fráfall hans.

Blessuð sé minning Einars Odds Kristjánssonar.


mbl.is Bautasteinn í minningu Einars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæfralegur hraðakstur

Í þriðja eða fjórða skiptið á örfáum dögum er ökumaður tekinn á manndrápshraða í umferðinni, nú eftir ævintýralegan flótta undan laganna vörðum rétt eins og fyrr í þessari viku í Hafnarfirði. Eins og ég hef svo margoft sagt er þetta ekkert annað en manndrápsakstur, ökumaðurinn setur sjálfan sig í lífshættu með slíku aksturslagi og er um leið með beint tilræði við aðra ökumenn í umferðinni. Þrátt fyrir öll þessi mál æ ofan í æ virðast aðrir ekki læra sína lexíu.

Veit ekki hvað ökumenn sem taka ákvörðun um að taka slíka rússneska rúllettu í umferðinni fyrir sjálfa sig og aðra eru að hugsa. Væntanlega er ekki mikil vitglóra eftir hjá þeim sem geysast af stað af slíku hugsunarleysi. Verst af öllu er að þrátt fyrir fjölda þessara mála sé alltaf nóg af þeim sem hugsa ekkert um afleiðingar hraðaksturs og taka áhættuna fyrir sig og aðra í umferðinni.

Dapurlegt er að þrátt fyrir allar auglýsingarnar um hraðakstur læri fólk aldrei af reynslunni, enda varla heillaríkt að taka þessa áhættu.

mbl.is Mældur á 212 km hraða; reyndi að stinga af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband