Alþingi hafnar því að þjóðin kjósi um ESB

Mér finnst það alveg gríðarleg hneisa fyrir Alþingi og stjórnarflokkana sem mynda þar meirihluta, einkum vinstri græna, að þar hafi verið hafnað að þjóðin hafi fyrsta og síðasta orðið hvað varðar viðræður við Evrópusambandið, bæði að fara í aðildarviðræður og eins að taka ákvörðun um þann samning sem komið yrði með heim. Lágmarkskrafa er að þjóðin hafi bindandi lokaákvörðunarvald.

Þessu hefur nú verið hafnað. Þeir sem hafa skreytt sig með því að fólkið í landinu eigi að fá meira vald, leita álits þjóðarinnar í lykilmálum og færa valdið nær fólkinu hafa nú gleypt þennan boðskap fyrir völdin og afhjúpað sig sem algjöra hræsnara.

mbl.is Atkvæðagreiðslan í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svínaflensa eða fjölmiðlaflensa?

Auðvitað var bara tímaspursmál hvenær svínaflensan myndi berast hingað til Íslands. Ekki við því að búast að við myndum komast hjá því að velta henni fyrir okkur. Gárungarnir hafa hinsvegar sagt að svínaflensan sé hálfgerð fjölmiðlaflensa. Augljóst er að ástandið hefur verið svolítið yfirdramatíserað í fjölmiðlum og reynt að gera fólk hrætt eða óttaslegið.

Óttinn er skiljanlegur að vissu marki, en samt sem áður verður ástæðan til að óttast undarlegri eftir því sem meira liggur fyrir varðandi flensuna og staðreyndirnar verða meira áberandi í umræðunni. Þetta minnir að sumu leyti á umræðuna um fuglaflensuna fyrir nokkrum árum. Reynt var að gera fólk um allan heim svo óttaslegið að það þyrði varla að ferðast.

Er á reyndi var fuglaflensan aðeins fjölmiðlaflensa. Nokkuð er um liðið síðan talað var um fuglaflensuna í fjölmiðlum, en um tíma var þetta í öllum fréttatímum, öllum blöðum og tímaritum.

Fjölmiðlar segja oft mikilvægar fréttir og miðla upplýsingum. Þeir geta þó stundum yfirdramatíserað hlutina. Gott ef svínaflensan fer ekki í sömu kategóríu og fuglaflensan bráðlega.

mbl.is Mæðgur fárveikar af svínaflensu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brenglað fréttamat Ríkisútvarpsins

Í miðjum klíðum lokaumræðu um aðild að Evrópusambandinu finnst mér trúverðugleiki fréttastofu Ríkisútvarpsins dala gríðarlega. Í kvöld margtuggði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir upp að afstaða þingmanna Borgarahreyfingarinnar væri fráhvarf frá kosningastefnu og gerði mikið úr því í viðtali við Birgittu Jónsdóttur, alþingismann Borgara, að hún væri í plotti með atkvæði sín og hefði svikið málstaðinn. Þetta var svo endurtekið vel eftir viðtal Jóhönnu við Þór Saari í Kastljósi.

Eðlilegt er að spyrja hvort skipti meira máli eitthvað sem Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir sögðu fyrir kosningar eða algjör viðsnúningur Steingríms J. Sigfússonar og fleiri þingmanna VG í ESB-málinu, aðeins fyrir völdin. Veit ekki betur en Steingrímur J. hafi kokgleypt kosningastefnu VG og flokksstefnuna um ESB fyrir það að verða einn valdamesti maður landsins, ferðafélagi Jóhönnu og Samfylkingarþingmannanna, ESB-trúboðanna 20.

Hvar er mat Ríkisútvarpsins? Ætla þeir að tapa trúverðugleikanum í þessari ESB-hringekju Samfylkingarinnar, þeirri sömu og Steingrímur J. er orðinn svo áttavilltur í?


mbl.is Niðurstaða um ESB á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplausn á Alþingi - leyndarhjúpur yfir ESB

Alveg kostulegt er að fylgjast með Alþingi. Upplausnin þar er algjör... fundum frestað og þeir svo settir á til að tilkynna enn frekari frestanir. Vinstriflokkarnir eru algjörlega búnir að gera upp á bak... búnir að klúðra sínum málum og algjörlega strandaðir.

Hvers vegna slá þeir leyndarhjúp um mikilvægar skýrslur - ætluðu þeir ekki að auka gegnsæið og miðla upplýsingum til fólksins í landinu?

Ég yrði ekki hissa á því að þessi stjórn sligaðist brátt vegna þrýstings frá grasrót vinstri grænna, sem vilja ekki svona vinnubrögð.

mbl.is Þingfundi frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin vill beinskeytta þjóðmálaumræðu

Augljóst er að vinsældir spjallþáttarins á Skjá einum er til marks um mikinn áhuga almennings á beinskeyttri þjóðmálaumræðu. Því er undarlegt að Ríkisútvarpið hafi sent Kastljósið í sumarfrí þegar mestu hitamál samtímans eru til umræðu í þinginu og verið að taka mikilvægar ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar. Með þessu er ríkisfjölmiðillinn ekki að sinna skyldum sínum við almenning. Sú ákvörðun að kalla þáttinn til baka eitt kvöld lítur fyrst og fremst út sem úrræði gegn þætti samkeppnisaðilans.

Eftir að Ísland í dag á Stöð 2 varð að Séð og heyrt í sjónvarpi og glansandi glamúrshow er hlutverk Kastljóssins enn mikilvægara að mínu mati. Sumarfrí þar á þessum tíma er því frekar óraunverulegt þó sennilega þurfi að spara til að færa okkur Lost, Ugly Betty og Leiðarljós.... undarleg forgangsröðun það.

mbl.is Davíð Oddsson setti Skjáinn á hliðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harkaleg viðvörun til Steingríms J. úr heimahéraði

Mér hlýnaði nokkuð um hjartarætur þegar ég las bréf tólf (kunnugleg tala) félaga og frambjóðenda úr VG til Steingríms J. Sigfússonar, lærisveina úr héraði myndi einhver segja. Þetta bréf sýnir kraft, kjark og þor flokksmanna í VG í kjördæminu, sem hingað til hafa fylgt Steingrími J. hvað sem tautar og raular. Þarna sést að kjarninn í flokksstarfinu í heimahéraði Steingríms sættir sig ekki við hvað sem er.

Þetta er viðvörun til flokksleiðtogans um að ekki verði sætt sig við svik á kosningaloforðum og u-beygju frá flokkssamþykktum í mikilvægum málum, lykilmáli á borð við Evrópusambandsaðild. Skilaboðin eru mjög skýr.

Eflaust er þetta mesta pólitíska áfall Steingríms J. Sigfússonar. Þarna sést að það molnar undan honum á heimavelli, í lykilhéruðum í Norðausturkjördæmi. Vissulega merkileg tíðindi.

Eflaust blása vindarnir í aðrar áttir innan VG á næstu mánuðum. Ekki þarf að efast um að mjög gengur nú á pólitískt kapítal Steingríms.

mbl.is Steingrímur „ómerkingur orða sinna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skorað á Davíð að taka þátt í baráttu örlagatímanna

Ég er ekki undrandi á því að skorað sé á Davíð Oddsson til þátttöku í stjórnmálum eða með því að tjá sig um þjóðmál. Skoðanir hans eiga sér samhljóm meðal stórs hluta þjóðarinnar, einkum þeirra sem vilja taka slaginn við stjórnvöld í landinu og þann afleita Icesave-samning sem þau eru að reyna að koma í gegnum þingið, samningi sem á ekki stuðning þjóðarinnar.

Fjöldi fólks telur Davíð góðan fulltrúa sinn í þeirri baráttu og eðlilegt að hann taki þeim áskorunum og verði virkur í þeim átökum með einum eða öðrum hætti.

mbl.is Skorað á Davíð á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkrabílar og forgangsakstur

Mildi var að ekki var sjúklingur í sjúkrabílnum sem ekið var í hliðina á. Þetta vekur spurningar um hvort ökumenn víki ekki fyrir sjúkrabílum í forgangsakstri. Lágmarkskrafa til ökumanna er að þeir virði að sjúkrabílar hafi algjöran forgang á veginum og hliðri til fyrir þeim. Ég hef séð nokkur dæmi þess í umferðinni að þetta hafi ekki gerst. Sumir flýta sér mikið í umferðinni og hugleiða ekki hversu mikilvægt er að hliðrað sé til fyrir sjúkrabílum í umferðarhnút eða ös.


mbl.is Var í forgangsakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð snýr aftur í miðju átaka á örlagatímum

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, kom vel fyrir í góðum og ítarlegum viðtalsþætti Sölva og Þorbjörns á Skjá einum í kvöld og fór að vanda yfir stöðuna af víðsýni og þekkingu. Stóru tíðindi viðtalsins eru þau að Davíð útilokar ekki endurkomu í stjórnmál eða virka þátttöku í þjóðmálum.

Undrast það ekki, enda augljóst að hann ætlar sér hlutverk í þjóðmálum, hvort sem það verður með virkri þátttöku í fremstu víglínu eða með því að vera álitsgjafi og tjái sig á netinu eða í fjölmiðlum. Enda eðlilegt að Davíð Oddsson tjái skoðanir sínar. Full þörf á því ef marka má viðbrögðin.

Auðvitað benti Davíð á hið augljósa að ríkisábyrgð hvíldi ekki á bönkunum eftir einkavæðingu þeirra. Hví var farið fram á ríkisábyrgð hafi hún verið til staðar? Svo er undarlegt að þurfi að rífast um réttarríkið og hví mál eigi að reka fyrir íslenskum dómstólum.

Davíð er þannig maður að hann kallar fram miklar tilfinningar og skoðanir meðal þjóðar sinnar. Þetta viðtal er rétt eins og Morgunblaðsviðtalið traust tjáning manns sem var í miðri örlagaríkri atburðarás í sögu þjóðarinnar.

Hann er þó fyrst og fremst að taka slaginn gegn auvirðilegum samningi stjórnvalda, sem hafa meðal annars verið flokkuð sem landráð og svik við þjóðina. Fjöldi fólks finnur sinn traustasta málsvara í Davíð.

Með þennan boðskap í farteskinu og afgerandi tjáningu gegn þessum samningi er eðlilegt að fólk taki afstöðu og virði fyrst og fremst að hann tali þjóðina upp til baráttu gegn illum örlögum.

mbl.is Engin ríkisábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aum eftiráskýring Steingríms - slappt haldreipi

Mér fannst það meira en eilítið kostulegt að hlusta á Steingrím J. Sigfússon segja á Skjá einum í kvöld að EES-samningurinn hafi verið undir í samningaviðræðum um Icesave. Hví sagði hann þetta ekki fyrr? Er þetta ein af þessum aumu eftiráskýringum stjórnarflokkanna til að réttlæta þetta risastóra skuldabréf sem þeir eru með til meðferðar í þinginu eða bara slappt haldreipi í máli sem erfitt er að réttlæta fyrir fólkinu í landinu?

Reyndar er eðlilegt að velta fyrir sér hverslags aumingjaskapur felst í þessum lélegu vörnum fyrir þennan afleita Icesave-samning. Augljóst er að stjórnvöld voru kúguð til samkomulags og svo blasir við að Samfylkingin taldi eðlilegt að semja um hvað sem er fyrir veika von um blautan draum um Evrópusambandsaðild. Forgangsröðunin er meira en lítið brengluð hjá þeim sem eru á vaktinni.


mbl.is EES-samningurinn var í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð talar hreint út um Icesave

Búast má við líflegum og góðum þætti um Icesave-málið á Skjá einum í kvöld. Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, náði athygli áhugamanna um stjórnmál með ummælum sínum í Moggaviðtali fyrir rúmri viku og mun eflaust gera það aftur á Skjá einum í kvöld. Þegar hann talar hlusta allir á. Það er bara þannig.

Líst vel á það hjá Sölva og Þorbirni að fá marga gesti og fara heiðarlega yfir þetta mál. Þetta verður eflaust beitt og góð yfirsýn yfir mesta átakamál samtímans, mál sem hefur kallað fram gjá milli þings og þjóðar.

mbl.is Davíð í Málefninu í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna hótar vinstri grænum stjórnarslitum

Mér fannst það frekar dapurt fyrir þingræðið að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, hóta þingmönnum vinstri grænna stjórnarslitum með orðum sínum á Alþingi í dag. Hún gerði ekkert annað en staðfesta ummæli Ásmundar Einars Daðasonar, alþingismanns, á föstudag um hvað gerðist ef hann yrði ekki þægur í umræðunni, annað hvort léti sem minnst í sér heyra eða styddi tillögu um Evrópusambandsaðild.

Þessi stjórnmál hótana, með því að hóta þingmönnum í þingsalnum að þeir eigi nú að vera þægir og ganga í takt, eru víst starfshættirnir sem tilheyra vinstristjórninni. Samfylkingin hótar vinstri grænum alveg miskunnarlaust, fyrst undir rauðri kratarós en nú í sjálfum þingsalnum með orðavali forsætisráðherrans. Þeir hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum sem kusu þessa flokka til að fá breytingar.

En við hverju var annars að búast af formönnum stjórnarflokkanna sem hafa verið á þingi í um eða yfir þrjá áratugi? Þetta er kerfispar sem er bæði gamaldags og úrelt að öllu leyti. Undarlegast af öllu er að sjá Steingrím kúgaðan á stjórnarheimilinu. Aumingja þeir sem treystu þeirri gungu og druslu fyrir þjóðarhag.

mbl.is Vonandi starfhæf ríkisstjórn eftir atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg landsmótshelgi á Akureyri

Helgin var virkilega notaleg og góð hér á Akureyri. Mjög vel tókst upp með landsmótið, öll aðstaða á nýjum íþróttaleikvangi á Þórssvæðinu var hin besta og mikil ánægja með uppbygginguna þar. Við hér á Akureyri getum því verið stolt af mótinu, hingað kom fjöldi fólks og átti mjög góða stund.

Leitt að heyra af þessum eftirmálum maraþonhlaupsins. Þetta er ekki skemmtileg lokafrétt vel heppnaðs móts og ekki til sóma.


mbl.is Deilt um úrslit í maraþoni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afglöp íslenskra stjórnvalda

Eftir því sem meira verður ljóst um vinnubrögð íslensku samninganefndarinnar í mikilvægum málum eftir hrun kemur æ betur í ljós hversu mikil afglöp íslenskra stjórnvalda voru. Þau hafa samið af sér í hverju lykilmálinu á eftir öðru og látið spila með sig. Þetta er grafalvarlegt mál, skrifast fyrst og fremst á úrelt vinnubrögð þar sem skipað hefur verið í stöður á pólitískum forsendum frekar en faglegum. Spilað er með fjöregg þjóðarinnar og ekki lagt viturlega undir.

Vond eru örlög einnar þjóðar sem telur sig njóta virðingar en hefur verið barin til hlýðni, er tekin og flengd öðrum til viðvörunar fyrir Evrópubáknið í Brussel. Eitt er að láta aðra fara svona með sig en þegar stjórnvöld láta spila með sig og fífla sig er eðlilegt að spyrja hvort pólitískri forystu sé treystandi fyrir forystu lykilmála.

mbl.is Starfsmenn AGS mótmæltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknrænn bruni á Þingvöllum

Afar sorglegt er að sjá kranann jafna Hótel Valhöll, sögufrægt hús á Þingvöllum, við jörðu. Döpur sjón. Ég er sammála þeim sem telja brunann táknræn tíðindi - einkum í ljósi þess hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni og umræðunni á Alþingi um aðild að Evrópusambandinu og hinn afleita Icesave-samning sem verður sífellt daprari eftir því sem dýpra er kafað í vinnubrögðin og tilraunir sumra til að semja þjóðina í skuldafangelsi fyrir opnar dyr Samfylkingarinnar til Brussel.

Já, þetta er táknrænt í meira lagi. Symbólískt að sjá bruna á helgasta stað þjóðarinnar á þessum tímum í sögu þjóðarinnar, þegar við stjórnvölinn er fólk sem er meira umhugað um að leika sér með þeim beittu Íslendinga harðræði.

mbl.is Hótel Valhöll jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótel Valhöll brennur

Hið sögufræga hús, Hótel Valhöll, brennur nú til grunna á Þingvöllum. Mikil og merkileg saga fylgir þessu hóteli og mikill sjónarsviptir af því. Mjög táknrænt er að Hótel Valhöll brenni á þessum degi, en 39 ár eru liðin frá því að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Sigríður Björnsdóttir, eiginkona hans, og Benedikt Vilmundarson, dóttursonur þeirra, fórust þegar forsætisráðherrabústaðurinn brann 10. júlí 1970.

Í hvert sinn sem ég fór til Þingvalla leit ég við í Hótel Valhöll og hef alltaf metið húsið mikils. Þetta eru leiðinleg endalok á hótelstarfinu á svæðinu en vonandi ekki endalok á veitingarekstri á þessum stað.

mbl.is Valhöll brennur til grunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarverð afstaða - sannfæring og samviska

Mér finnst að aðrir þingmenn geti lært nokkuð af yngsta þingmanni þjóðarinnar, Ásmundi Einari Daðasyni, sem lætur ekki kúga sig til fylgilags og stendur vörð um sannfæringu sína, þorir að skamma formenn stjórnarflokkanna, sérstaklega formann flokksins síns, í ræðustól og vera alveg ófeiminn við það. Svona á að gera það, hafa sannfæringu og samvisku og láta hana ráða för. Þetta er virðingarverð afstaða. Sannfæring þingmanna á ekki að vera aukaatriði. Þeir sem hafa mest talað um sannfæringu þingmanns en vilja brjóta hana niður nú með þessum hætti eru aumkunnarverðir hræsnarar.
mbl.is Ásmundur farinn í heyskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannfæring þingmanns víkur fyrir formannaræðinu

Eftir allt blaðrið árum saman hjá vinstri grænum um sannfæringu hvers þingmanns er skondið að sjá það skotið í kaf af Steingrími J. þegar þeir hafa einhver völd. Mér finnst það til fyrirmyndar hjá Ásmundi Einari Daðasyni að fara í ræðustól, gera grein fyrir vinnubrögðunum þar sem sannfæring hans átti að víkja vegna þröngra flokkshagsmuna, hinu gamalkunna formannaræði í þinginu, og yfirgefa síðan þingsalinn.

Þetta er traust yfirlýsing og honum til fyrirmyndar. Hann kastar gegnblautri tuskunni beint framan í formann flokksins og fjármálaráðherrann, sem virðist vera að örmagnast, orðinn áttavilltur og pólitískt aumur, væntanlega að fjara pólitískt út í boði Samfylkingarinnar. Ásmundur, sem er nýliði á þingi, gerir þetta flott og þetta er honum til mikils sóma.

mbl.is Hefði þýtt stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningarík söngvastund



Minningarathöfnin um Michael Jackson var tilfinningarík - ég tel að umgjörðin hafi mýkt skaddaða ímynd söngvarans og opnað nýja sýn á manneskjuna bakvið hinn umdeilda söngvara. Er ekki í vafa um að dóttir hans hafi þar haft mest áhrif á og svo flutti Brooke Shields mjög hugljúfa ræðu.

Lögin við athöfnina kölluðu fram tilfinningar ekki aðeins í salnum heldur um allan heim, enda var þar staða Jacksons í tónlistarsögu síðustu áratuga og í samtímanum, eftir hans dag, endanlega staðfest. Áhrif hans eru óumdeild.

mbl.is Kistan sló Carey út af laginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágmarkskrafa að ríkisstjórnin biðjist afsökunar

Mér finnst það algjör lágmarkskrafa að ríkisstjórnin biðji þjóðina afsökunar á að stinga lögfræðiáliti bresku lögmannsstofunnar undir stól. Þetta er ólíðandi vinnubrögð stjórnvalda í miklu krísumáli sem varðar heill og hag íslensku þjóðarinnar. Þeim er ekki treystandi sem vinna með þessum hætti og eiga að hugsa um hagsmuni þjóðarheildarinnar.

Ekki er hægt að bjóða neinn afslátt á því trausti eða sætta sig við vinnubrögðin. Afsökunarbeiðni skiptir máli, þó erfitt sé að líta framhjá þessum vinnubrögðum stjórnvalda sem ekki er hægt að treysta.

mbl.is Fór fram á afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband