In Memoriam



Hvalfjarðargöng í áratug - tvöföldun í sjónmáli

Frá vígslu Hvalfjarðarganganna Áratugur er í dag liðinn frá því Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, opnaði Hvalfjarðargöngin, sem voru ein mesta samgöngubót Íslandssögunnar og markaði mikil þáttaskil þar sem þau voru fyrstu neðansjávargöngin hérlendis. Svo er nú komið nú að það þarf að bæta við og tvöfalda þau. Ekki kemur það að óvörum miðað hversu vinsæl þau eru og hversu margir velja þau framyfir veginn um Hvalfjörðinn.

Þó er það eins með Hvalfjarðargöngin og með mörg farsæl mannanna verk að þau voru mjög umdeild og til eru þeir sem lögðu mikið á sig bæði til að tala gegn þeim og hugmyndinni á bakvið þau, að neðansjávargöng væru ekki traustur samgöngukostur og það væri óðs manns æði að ætla að leggja í gangnagerð undir fjörðinn. Fjöldi manna skrifaði greinar og beittu sér á öðrum vettvangi en vilja væntanlega ekki við það kannast nú. Enda fara flestir landsmenn um Hvalfjarðargöngin á leið sinni til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru fáir sem velja gamla veginn um Hvalfjörðinn framyfir göngin.

Á sínum tíma var fjöldi fólks sem sagðist frekar myndu fara fjörðinn en göngin og töluðu ansi kuldalega um þessa samgöngubót. Væntanlega eru þeir flestir búnir að brjóta odd af oflæti sínu og greiða fyrir að fara þessa leið. Enda minnir mig að nýjustu rannsóknir sýni að vel innan við fimm prósent þeirra sem þurfa að fara þarna um velji göngin og væntanlega fer þeim enn fækkandi. Þegar göngin voru vígð voru settar fram spár um hversu margir færu um Hvalfjarðargöngin. Þær spár voru stórlega vanmetnar - göngin urðu vinsælli en þeim bjartsýnustu óraði fyrir.

Held að flestir muni taka undir mikilvægi þess að tvöfalda Hvalfjarðargöngin, líka þeir sem töluðu svo mjög gegn þeim á sínum tíma. Allir vilja nú Lilju kveðið hafa.

mbl.is Tvöfalda þarf Hvalfjarðargöng á næstu 5 til 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttatilraunir fanganna

Auðvitað er gott að lögreglunni tókst að koma í veg fyrir flótta fanga í þeirra vörslu. Varla er hægt að ætlast til annars en lögreglan geti komið í veg fyrir slíkar flóttatilraunir. Varð þó mjög hugsi eftir að Annþóri Karlssyni tókst að sleppa úr varðhaldi úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þar komu fram alvarlegar brotalamir í varðhaldsvistun, meira að segja í höfuðstöðvum lögreglunnar, þar sem einangrunarfanga tókst að sleppa og ætlaði sér að pússa sig upp fyrir afmæli síðar sama dag.

Flótti Annþórs var vandræðalegt klúður fyrir lögregluna. Þar voru verklagsreglur brotnar og mjög illa staðið að málum á meðan að hann var í varðhaldi. Vonandi hafa menn lært sína lexíu vel á þeim bænum. Auðvitað er afleitt að margdæmdur ofbeldismaður, grunaður um alvarleg afbrot og í einangrun, geti leikið lausum hala á lögreglustöð, komist í síma, fundið reipi og stokkið út um glugga án þess að nokkur tæki eftir því.

Ofan á allt annað að þá liðu að minnsta kosti tveir tímar frá flóttanum þar til löggan áttaði sig loks á honum. Auðvitað má búast við að fangar notfæri sér glufur í kerfinu, sem þeir finna, og reyni að sleppa. En lögreglan á að geta brugðist við því fumlaust og vera undir það búin að svo geti farið. Vonandi hafa mistökin í máli Annþórs leitt til þess að löggan standi sig almennt betur og læri sína lexíu.

Svo er það auðvitað grunnatriði að mér finnst að fangar sem verið er að flytja á milli staða eigi að vera bæði í hand- og fótajárnum. Ef koma á í veg fyrir flóttatilraunir og taka á málum er það eina lausnin.


mbl.is Fangi reyndi að flýja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að nafngreina grunaða kynferðisbrotamenn?

Ég tók eftir því í vikunni að nokkrir bloggarar ákváðu upp á sitt eigið fordæmi að nafngreina háskólakennarann sem grunaður er um að hafa misnotað börn sín. Ekki hafði nafn hans verið birt fyrr, svo ég viti til, og fjöldi fjölmiðla hafði tekið þá ákvörðun að birta ekki nafnið að svo stöddu, meira að segja DV, eftir því sem ég best veit allavega. Stóra spurning þessa máls er auðvitað hvort það sé eðlilegt að grunaðir kynferðisbrotamenn séu nafngreindir áður en dómur fellur yfir þeim og hvort það skipti máli hver bakgrunnur málsins er áður.

Sjálfur hef ég aðeins tvisvar skrifað um slík mál og nafngreint grunaða menn í slíkum málum. Nöfn þeirra beggja höfðu þá verið birt í fjölmiðlum og sú umfjöllun var ekki tíðindi á minni bloggsíðu. Var þar um að ræða sóknarprest og lögmann og málin voru alþekkt og í fjölmiðlaumræðu áður en ég skrifaði. En við lifum á öðrum tímum en áður og bloggið er mun öflugri fjölmiðill hvað varðar að setja fram ýmislegt, bæði kjaftasögur og staðreyndir sem aðrir hafa ekki fjallað um. Virðist kynferðisbrotamál vera eitt af því sem bloggarar fjalla um og nafnbirting á þeim vettvangi greinilega það sem koma skal ef marka má þessi skrif.

Hitt er svo annað mál að Moggabloggið var fljótt að taka á þessum málum og tóku greinilega bloggarana fyrir sem nafngreindu manninn. Þeir eru eftir því sem mér skilst best tveir eða þrír hið minnsta sem birtu nafnið, þó einn hafi verið meira umtalaður vegna þess en aðrir. Greinilegt er að Mogginn vildi ekki taka ábyrgð á skrifunum og tók málið fyrir, þó bloggararnir skrifuðu allir undir nafni. Töldu þeir ábyrgðina á nafnbirtingunni ekki bara bloggarans heldur þeirra sem umsjónaraðila kerfisins og hýsingaraðila skrifanna.

Þetta mál er merkilegt að mörgu leyti. Til þessa hefur reyndar verið lítið um svona nafnbirtingar fyrr en dómur fellur. DV á dögum Mikaels Torfasonar, Jónasar Kristjánssonar og Illuga Jökulssonar tóku þó afstöðu og nafngreindu menn svo mjög umdeilt þótti. Samfélagið logaði vegna þessara mála. Í fleiri málum hafa nöfn birst og verið talað um hitt og þetta málið sem helst hafa þótt sláandi, vegna umfangs þess og alvarleika brotanna. Flest dagblöðin tala þó bara um hvað viðkomandi aðili gerir og þrengir hópinn vissulega með því.

Afstaða Moggabloggsins í þessu máli hlýtur að teljast stefnumarkandi. Þarna er ritskoðun eiganda bloggkerfisins staðreynd og greinilegt að virk umsjón er á kerfinu. Þar sé ekki hægt að segja og skrifa hvað sem er án ábyrgðar, bæði bloggarans og þeirra. Þetta hlýtur að opna á alvöru umræðu um hvert stefnir í þessum málum. Mér finnst afstaða Moggamanna góð og tel hana ábyrga og rétta.

Flóttasvipur á Þórunni

Þórunn Sveinbjarnardóttir Frekar fyndið var að sjá Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, á flótta undan Kristjáni Má Unnarssyni, fréttamanni, í fréttatíma Stöðvar 2 fyrir stundu. Greinilegt er að umhverfismálin eru orðin svo heit innan Samfylkingarinnar í júlíhitanum að ekki er hægt að svara saklausum spurningum fréttamanna í kjölfar þingflokksfundarins þar sem Þórunn kvartaði undan Björgvini og Össuri í stóriðjumálunum.

Svona flótti frá myndavélum og spurningum fjölmiðlafólks leysir varla neinn vanda fyrir Samfylkinguna, nú þegar stefnuplagg þeirra "Fagra Ísland" á greinilega í mikilli kreppu. Varla gengur vel í samskiptum fólks þegar að svona er komið. Er kannski Þórunn ein á báti í sínum málum innan flokksins núorðið?

Ekki er hægt annað en spyrja eftir nýleg greinaskrif í Herðubreið, en margir tala um að staða hennar sé veik innan ráðherrahópsins og geti verið að hún missi ráðherrastólinn í væntanlegri uppstokkun á næsta ári þegar Samfylkingin fær þingforsetastólinn.

Til styrktar Myndlistaskólanum á Akureyri

myndak2008Í kvöld verða haldnir styrktartónleikar og listaverkauppboð til styrktar Myndlistaskólanum á Akureyri vegna brunans sem varð í húsnæði hans 27. júní síðastliðinn á veitingastaðnum Marínu hér á Akureyri kl. 20:00. Verk á uppboðinu eiga velunnarar skólans, bæði fyrrverandi og núverandi nemendur við skólann.

Opnaður hefur verið styrktarreikningur þar sem fólk getur lagt inn frjáls framlög til söfunarinnar. Númer reikningsins er 0565-14-400044 og kennitalan er 550978-0409.

Ég hvet alla til að koma á tónleikana í kvöld og eða leggja söfnuninni lið með öðrum hætti.

Mikilvægt er að hlúa vel að Myndlistaskólanum á Akureyri og tryggja að uppbygging skólans muni ganga vel.


Jesse Jackson vill skera undan Barack Obama

Barack Obama og Jesse Jackson Blökkumannaleiðtoginn Jesse Jackson hefur síðustu klukkutímana reynt allt sem hann getur til að biðjast afsökunar á því að hafa sagst vilja skera undan Barack Obama þar sem hann tali niður til blökkumanna, en að mestu án árangurs, skiljanlega. Ummælin náðust á myndband án vitundar Jacksons og voru fyrst ekki spiluð víða vegna orðbragðsins, stóru fréttastöðvarnar þögðu um sjálf ummælin en æ fleiri tala þó opinskátt um það nú.

Jesse Jackson er enginn aukvisi í bandarískum stjórnmálum. Hann hefur verið virkur þátttakandi í réttindabaráttu blökkumanna í áratugi og var við hlið dr. Martins Luthers Kings er hann var myrtur í Tennessee í apríl 1968 og verið lykilmaður í blökkumannahreyfingunni frá dauða hans. Jackson barðist tvisvar fyrir því að hljóta útnefningu demókrataflokksins sem forsetaefni hans, árin 1984 og 1988, en hefur þó af mörgum verið talinn gloppóttur og hefur oft skemmt fyrir sér með ummælum sínum.

Hvað er þetta annars með Obama og predikarana hans? Ekki nema von að það sé spurt hvað Obama gerði í fyrra lífi til að verðskulda þessa trúarleiðtoga sína sem hafa æ ofan í æ skemmt fyrir honum. Jeremiah Wright var næstum búinn að gera út af við forsetadrauma Obama, en honum tókst að bjarga því með að skera á öll tengsl við hann og yfirgefa söfnuðinn og Wright hefur verið hálfpartinn í felum síðustu vikur. Auk þess talaði Michael Pfleger talaði niður til Hillary Clinton og þurfti Obama að biðjast afsökunar á ummælum hans.



Veit eiginlega ekki hvernig Jesse Jackson getur verið trúverðugur hluti kosningabaráttu Barack Obama úr þessu. Hvað sem hann segir eða gerir til að tala Obama upp geta menn grafið upp klippuna þar sem hann segist vilja skera undan frambjóðandanum vegna þess að hann sé montinn og hagi sér eins og hvítur maður. Hver þarf á óvinum að halda þegar menn eiga svona vini og bakhjarla?

Ekki virðist stemmningin beysin í baklandi Obama þegar svona ummæli falla. Blökkumenn greinilega ósáttir með Obama, þó þeir brosi í gegnum tárin. Bakhjarlar Hillary Rodham Clinton neita að styrkja hann nema Hillary verði varaforsetaefnið og æ fleiri stuðningsmenn hennar neita að bakka Obama upp, samkvæmt könnunum. Demókrataflokkurinn er alvarlega klofinn og skaddaður, þó reynt sé að brosa.

mbl.is Jackson biður Obama afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Guðmundur að gera með trúnaðargögn?

Guðmundur Þóroddsson Ekki er nóg með að Guðmundur Þóroddsson fái 30 milljónir fyrir að hætta sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og REI heldur tekur hann trúnaðargögn með sér úr vinnunni sem hljóta að teljast eign fyrirtækisins. Það er ekki beint eins og honum hafi verið falið að skrifa sögu Orkuveitunnar svona í kaupbæti þegar hann hætti þar störfum og þurfi að halda utan um vinnupunkta, fundargerðir og tengd skjöl.

Guðmundur hagaði sér í mörg ár hjá Orkuveitu Reykjavíkur eins og kóngur í eigin ríki og lét eins og hann væri forstjóri fyrirtækis sem hann ætti sjálfur ráðandi hlut í. Því ætti þessi frétt varla að koma að óvörum. Stóra spurningin er hvort hann muni skila þessum vinnugögnum og jeppanum eða túri á honum út árstímabilið, sem hann er á launum hjá borgarbúum.

Veit ekki hvort þessi starfslokasaga Guðmundar komi svosem nokkuð á óvart. Þetta er svona eitt absúrdið enn hjá þessu blessaða fyrirtæki.

mbl.is Guðmundur tók gögn með sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru siðprúðu samfylkingarmennirnir núna?

Grindavík Við fregnir af falli meirihlutans í Grindavík, þar sem Samfylkingin sleit samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn án sýnilegrar ástæðu og nefna eitt mál sérstaklega, verður mér ósjálfrátt hugsað til allra stuðningsmanna Samfylkingarinnar sem töluðu svo hátt þegar meirihlutar í Reykjavík og Bolungarvík féllu fyrr á þessu ári. Þá voru stór orð látin falla og mikil dramatík sett á svið og meira að segja mótmælt vinnulaginu.

Ekki virðist vera jafnmikil hneykslan yfir sambærilegri atburðarás í Grindavík nú. Veit ekki hvort það segir meira um sveitarstjórnarpólitík eða Samfylkingarfólk. Eflaust voru mótmæli þeirra fyrr á árinu bara hrein pólitík en ekki bara umhyggja fyrir sveitarfélagi sínu eða hagsmunum þess. Þar var sett á svið leikþáttur til að gráta valdamissinn sem fylgir falli meirihluta. Erfitt er að finna út hver veldur slíkum slitum, eflaust eiga allir hlutaðeigandi einhvern hlut að máli, og furðulegt að menn reyni að kenna öðrum um slíkt eða ofurdramatíseri hlutina rétt eins og við munum eftir af mótmælum í Ráðhúsinu í janúar.

Meirihlutar koma og fara í sveitarstjórnum. Þannig getur hið pólitíska eðli orðið þar sem engum einum aðila eru falin völd með skýrum hætti. Vissulega er þetta sögulegt kjörtímabil í Reykjavík. Í síðustu kosningum náði enginn einn flokkur eða bandalag flokka meirihluta í borgarstjórn í fyrsta skipti frá borgarstjórnarkosningunum 1978 og semja þurfti. R-listinn hafði geispað golunni og Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki umboð til að leiða borgina einn, eins og kannanir höfðu bent til að gæti orðið lengi vel í kosningabaráttunni. Þá þegar var ljóst að staðan öll væri mun opnari og opið á ítalskt ástand þar sem meirihlutar gætu komið og farið, eins og gerist oft í öðrum sveitarfélögum víða um landið.

Auðvitað er fall meirihluta á miðju tímabili aldrei merki stöðugleika. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa umboð til verka. Ekki verður kosið aftur þó einn meirihluti falli og stuðningsmönnum fallins meirihluta líki ekki valdaskiptin. Umboðið er fjögur ár og kjörnum fulltrúum ber sú skylda að mynda nýjan meirihluta falli sá sem fyrir er og ekkert annað er í stöðunni. Fjarstæða er að tala um upplausn þegar að kjörinn fulltrúi með fullt umboð úr kosningum sér hag sínum ekki borgið í meirihlutasamstarfi og heldur í aðrar áttir og myndar nýjan meirihluta.

Ánægja Samfylkingarmanna með svipaða atburðarás nú og þeir kvörtuðu yfir fyrr á árinu vekur allavega athygli, svo ekki sé meira sagt. Get ekki séð hvað er öðruvísi. Er leiðtogi Samfylkingarinnar í Grindavík ekki bara að fiska eftir bæjarstjórastól?

mbl.is Nýr meirihluti í bæjarstjórn Grindavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manndrápsakstur í umferðinni

Enn og aftur berast fregnir af ökumönnum sem keyra um á manndrápshraða, keyra langt yfir hraðamörk og eru stórhættulegir. Akstur á þessum hraða og við þessar aðstæður flokkast ekki undir neitt annað en hreinan háska, algjöran manndrápsakstur, enda eru í senn bæði ökumaðurinn og þeir sem hann mætir í lífshættu vegna þess. Hvað er fólk að hugsa þegar að það keyrir á slíkum hraða eða hvað fer í gegnum huga þess á meðan? Eða sennilega hugsar það auðvitað ekki neitt, þeysir bara áfram hugsunarlaust í vímuástandi.

Ætla að vona að við séum ekki komin í biðferli eftir banaslysi, þar sem ökumaður á háskahraða drepur jafnvel fjölda fólks með hugsunarleysi sínu. Auðvitað er það mikið áhyggjuefni hversu alvarleg staðan er í umferðarmálum. Búið er að tala vel og reyndar mjög lengi um að úrbóta sé þörf - taka verði á þessum augljósa vanda. Fara þarf að gera eitthvað meira en bara tala. Dapurlegt er þegar fólk tekur þá ákvörðun að geisast áfram á kolólöglegum hraða og jafnvel í vímu.

Þeir sem keyra svona bera ekki einu sinni virðingu fyrir sjálfum sér og hvað þá þeim sem það mætir á leið sinni. Þetta hefur gerst of oft á síðustu mánuðum. Þetta hlýtur að fara að leiða til þess að fólk hugsi sitt ráð og fari í umferðina í annarlegu ástandi. Akstur í vímu, annaðhvort af völdum áfengis eða eiturlyfja, er orðið eitt mesta vandamálið í umferðinni í dag.

Engin trygging er fyrir því þegar fólk sest undir stýri og heldur út í umferðina að það mæti ekki fólki undir áhrifum vímugjafa - út úr heiminum í sínu annarlega ástandi. Mjög alvarlegt mál, vægast sagt.

mbl.is Glæfraakstur í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Björk fá jazzaða tengdadóttur í fjölskylduna?

Adele Björk Guðmundsdóttir á sér aðdáendur um allan heim og er eflaust einn vinsælasti tónlistarmaður Íslendinga á alþjóðavísu til þessa. En aðdáunin getur haft fleira í för með sér en bara kaup á plötum og merkjavöru. Nú er bresk blús-söngkona búin að lýsa yfir svo mikilli aðdáun á Björk að hún vill helst verða tengdadóttir hennar og komast þar með í fjölskyldu söngkonunnar.

Af öllum merkilegum sögum um aðdáun tónlistarunnenda á Björk og verkum hennar held ég að þessi sé bæði fyndnust og áhugaverðust. Veit svosem ekki hvort taka skal þessa yfirlýsingu trúanlega, hvort þetta sé grín. Annaðhvort er þessi yfirlýsing jazzistans Adele ein auglýsing út í eitt og ákall á fjölmiðlaathygli eða upphaf á áberandi baráttu fyrir því að komast í fjölskylduna. Hún segði þetta varla nema henni væri alvara eða þá vantaði athygli.

Ætli einhver fjölmiðillinn spyrji Sindra Eldon núna að því hvort hann sé jafnhrifinn af jazzsöngkonunni og hún af honum?

mbl.is Með augastað á syni Bjarkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnar yfirlýsingar á G8-fundinum

Leiðtogar á G8-fundinum
Leiðtogafundur átta helstu iðnríkjanna fer nú fram á Hokkaídó-eyju í Japan. Eins og síðustu árin eru umhverfismál og þróunaraðstoð aðalmál fundarins að þessu sinni og greinilegt að vilji er meðal leiðtoganna til að staðfesta ákvarðanir síðustu ára, en þar var náð merkilegum áföngum bæði í Þýskalandi í fyrra og Rússlandi fyrir tveim árum. Mikilvæg mál eru þó að mörgu leyti í biðstöðu. Beðið er þess hver verði kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna í nóvember og því líklegt að fundurinn að ári á Ítalíu muni verða mun öflugri þar sem þá mætir nýr forseti með sterkara umboð frá Bandaríkjunum.

Hópur leiðtoga valdamestu iðnríkja heims var stofnaður árið 1975 og er þetta því 34. fundurinn. Fyrst í stað voru sex lönd í samstarfinu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og V-Þýskaland. Það var í nóvember 1975 sem þáverandi leiðtogar landanna hittust í fyrsta skipti saman í Rambouillet í Frakklandi í boði Valéry Giscard d'Estaing, þáv. forseta Frakklands, og ákveðið var að funda framvegis árlega að sumarlagi. Alla tíð síðan hafa þjóðirnar skipst á að halda fundinn og leiða starfið á fundinum. Gestgjafinn hefur leitt umræður og haldið utan um fundaformið.

Ári eftir fyrsta fundinn, árið 1976, bættist Kanada í hóp þjóðanna sex. Hópurinn var óbreyttur í rúma tvo áratugi eftir það. Allt frá árinu 1991, við lok kalda stríðsins, hefur Rússland þó verið hluti fundarins en varð ekki fullgildur aðili í hópnum fyrr en árið 1998, er Boris Jeltsin, þáverandi forseti Rússlands, varð fyrsti leiðtoginn frá þessu forna fjandveldi vesturríkjanna til að vera tekinn í þeirra hóp. Rússland var gestgjafi G8-fundanna fyrst fyrir tveim árum, en þá var fundað í St. Pétursborg. Orðrómur er um að bæta Kína og Indlandi í hópinn, en ekkert verið ákveðið þar um.

Fundinn sátu Yasuo Fukuda, forsætisráðherra Japans, George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Dmitri Medvedev, forseti Rússlands. Þetta er áttundi og síðasti leiðtogafundur Bush en hann lætur af embætti 20. janúar nk. Hann hefur setið lengst allra leiðtoganna við völd, eða allt frá árinu 2001. Mörg lykilmál bíða þess líka að hann hætti.

Eitt helsta umræðuefni leiðtogafundarins fyrir ári var kólnun í samskiptum vesturveldanna og Rússlands, og leiðtogar vesturveldanna ósáttir við Pútín. Nú þegar hann hefur látið af forsetaembætti má merkja vissa breytingu. Mun betur fer á með Medvedev og leiðtogum vesturveldanna. Hinsvegar er Pútín enn maðurinn sem ræður ferðinni í rússneskum stjórnmálum, einn valdamesti forsætisráðherra í sögu Rússlands. Veik staða Medvedev er augljós og flestir búast við að Pútín verði aftur forseti árið 2012.

Að ári verður leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims haldinn á Sardiníu. Gestgjafi verður þá hinn umdeildi Silvio Berlusconi. Hann verður starfsaldursforseti í hópi leiðtoganna að ári, en hann hefur þrisvar gegnt embætti forsætisráðherra, lengst allra frá stríðslokum, samtals í sex ár. Fyrir þá sem vilja kynna sér dagskrá fundarins og meginatriði um hann er eindregið bent á að líta á heimasíðu hans.

mbl.is G8 lofa Afríku aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsisbarátta Surtlu enn í minnum höfð

SurtlaÉg er ekki hissa á því að þeir Strandamenn á Sauðfjársetrinu vilji minnast sauðkindarinnar Surtlu og telji það mikilvægan feng að geta sýnt höfuð hennar. Saga Surtlu er um margt stórmerkileg og eltingarleikurinn við hana á sínum tíma ævintýralegur í meira lagi. Með réttu ætti Surtla auðvitað að vera þar í öndvegi og ætti hvergi betur heima en þar.

Margar skemmtilegar frásagnir og sögur eru til um Surtlu og las ég eitt sinn bók þar sem sagt var frá nokkrum þeirra og þessum stórmerkilega eltingarleik við sauðkindina lýst nokkuð vel. Kindinni tókst að komast undan í að mig minnir eitt ár og gekk ekki þrautalaust að fella hana.

Daginn sem hún var að lokum drepin var hún elt langa leið og hafði klifið klettahamar sem ætti með réttu að vera ófær öllum venjulegum skepnum. Þeir sem felldu hana fóru með hausinn til yfirvalda og hann hefur varðveist. Fyrir verkið fengu þeir 2000 krónur, sem þótti mikið á þeim tíma. Ekki urðu þeir þó miklar þjóðhetjur fyrir vikið og voru allt að því hataðir fyrir.

Fjöldi fólks, einkum til sveita, voru ósáttir við að skepnan væri felld, hún hefði átt skilið að lifa og deilt var reyndar um hvort hún væri haldin mæðuveiki. Frelsisbarátta Surtlu lauk því með að þjóðin var á hálfgerðum bömmer yfir að sauðkindin væri felld og vísur voru ortar og greinar skrifaðar um hana.

Ætli að það sé ekki rétt að fullyrða að Surtla sómi sér vel sem frelsisboðberi íslenskra dýra. Nógu lengi barðist hún allavega fyrir frelsi sínu og sýndi áræðni sem höfð er í minnum.


mbl.is Tákngervingur frelsis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jim Webb vill ekki verða varaforsetaefni Obama

Barack Obama og Jim WebbMörgum að óvörum gaf Jim Webb, öldungadeildarþingmaður í Virgíníu, út sérstaka fréttatilkynningu í dag þess efnis að hann vildi ekki verða varaforsetaefni Barack Obama í forsetakosningunum í nóvember eftir þrálátan orðróm og óskir margra demókrata þar um. Ekki aðeins var fréttatilkynningin afgerandi orðuð um að Webb hefði engan áhuga, svo eftir var tekið, heldur var hún greinilega stílfærð og sett fram til að ná mikilli athygli.

Með þessu fækkar vænlegum varaforsetaefnum Obama enn frekar. Mikla athygli hefur vakið hversu margir öflugir demókratar hafa lagt lykkju á leið sína til að slá opinberlega út af borðinu möguleikann á því að fara fram með Obama í kosningunum. Í ljósi þess að hann er frambjóðandi breytinganna að þessu sinni og þykir vænlegur til árangurs er því eðlilega velt fyrir sér hvers vegna svo margir hafa lýst yfir áhuga frekar á því að verða ekki varaforsetaefni frekar en gefið því undir fótinn. Yfirlýsing Webb er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess hversu margir töldu nær öruggt um að Obama myndi vilja hann sér við hlið.

Jim Webb hefði um margt verið hið fullkomna varaforsetaefni fyrir Barack Obama. Hann er þingmaður í fylki sem Obama vill leggja allt í sölurnar til að vinna, hann hefur reynslu fram að færa og mikla þekkingu á utanríkis- og varnarmálum sem gömul stríðshetja. Hann hefði t.d. verið öflugt mótvægi við John McCain í þeim efnum í kosningabaráttunni og bætt úr fyrir víðtækt þekkingarleysi Obama í utanríkismálum. Það er einn af allra veikustu hlekkjum kosningabaráttunnar fyrir Obama og honum mjög mikilvægt að varaforsetaefnið fylli upp í þau skörð sem veikust eru í framboðinu.

Demókratar hafa ekki unnið Virginíu-fylki frá því í forsetakosningunum 1964 er Lyndon B. Johnson vann Barry Goldwater með glans í einum glæsilegasta sigri í sögu bandarískra forsetakosninga á landsvísu. Obama gerir sér vonir um að ná að vinna í fylkinu. Með Webb sér við hlið hefði framboðið verið vissulega mjög sterkt og ég held að þeir hefðu getað verið sterkt tvíeyki. Nú þegar bæði Webb og Mark Warner hafa sagt pent nei við varaforsetapælingum er aðeins Tim Kaine, ríkisstjóri, eftir sem sterkur valkostur fyrir Obama úr Virginíu. En hann er enginn Jim Webb.

Mikla athygli vakti reyndar að Webb hefur í raun aldrei lýst yfir stuðningi við Barack Obama. Hann sat á hliðarlínunni í forkosningunum, valdi ekki á milli Obama og Hillary. Sú ákvörðun hans að afþakka pent og í kastljósi fjölmiðla að eigin ósk að fylgja Obama á leiðarenda er merkileg endalok á vangaveltur pólitískra bloggara og spekinga vestanhafs um að Webb myndi verða fyrir valinu.


Heilsteyptur boðskapur hjá Sigurbirni

Hr. Sigurbjörn Einarsson Sannarlega er ánægjulegt hversu vel ern Sigurbjörn biskup er, en hann keyrir enn sinn bíl, ritar áhugaverðar hugleiðingar og flytur ræður og predikanir við opinber tækifæri og messur. Heilsteypt viðhorf hans í umferðarmálum er lærdómur fyrir alla í umferðinni og ég held að allir geti lært mjög mikið af boðskap hans í þeim efnum.

Sigurbjörn hefur alla tíð talað kjarnyrta íslensku til þjóðarinnar hvort sem er úr predikunarstól eða í viðtölum og ritað bækur og íhuganir sem lifa með þjóðinni. Hann er einn áhrifamesti maðurinn í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Segja má að Sigurbjörn Einarsson sé í senn ennfremur merkasti Íslendingur 20. aldarinnar og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi.

Áhrif hans innan kirkjunnar eru óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra. Sigurbjörn er einn þeirra manna sem hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo að fólk hlustar. Þjóðinni er mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann.

mbl.is 97 ára bílstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinheppni þjófurinn fellur á eigin bragði

Sagan af seinheppna innbrotsþjófnum er mjög áhugaverð, enda gaman að heyra af því þegar þjófar falla á eigin bragði og eru gripnir við iðju sína. Við erum blessunarlega laus við mikinn innbrotsfaraldur hér á Akureyri og því eru fréttir af þessu enn meiri tíðindi en ella væri. Ekki hægt annað en hrósa löggunni sem stóð sína vakt með sóma heima hjá sér og lék lykilhlutverk í að leysa þetta mál.

Þetta er klárlega frétt helgarinnar hér á Akureyri. Bæði er þjófnaðurinn viss tíðindi og enn skemmtilegri frétt að heyra hvernig málinu lauk. Prik til lögreglunnar hér á Akureyri.

mbl.is Seinheppinn þjófur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ABBA.... Thank You For The Music

abbaEkki verður um það deilt að hljómsveitin ABBA markaði söguleg skref í tónlistarsögunni á áttunda og níunda áratugnum. Þó hljómsveitin hafi ekki verið starfandi í hálfan þriðja áratug hafa lögin staðist algjörlega tímans tönn og enn er fólk að vonast eftir endurkomunni sem aldrei varð. Ekki kemur það að óvörum að saga hljómsveitarinnar sé öll og endurkoman margumtalaða sé endanlega blásin af.

ABBA þarf ekki að koma saman aftur til að sess hennar sé staðfestur á okkar dögum. Nóg er að sjá tilvísanir í verk hljómsveitarinnar síðustu áratugi, kvikmyndir og söngleiki byggða á lögunum margfrægu og fjölmargar eftirapanir af lögunum og stíl hljómsveitarinnar síðustu áratugi. Þetta er einfaldlega vörumerki sem enn skiptir miklu máli þó hljómsveitin og saga hennar sé komin í sagnfræðihlutann í tónlistarsögunni.

Alla mína ævi hefur ABBA hljómað í bakgrunninum. Ekki hefur verið hægt annað en hrífast með og meta mikils þessa hljómsveit. Á mínu heimili voru þessar plötur spilaðar í tætlur af systrum mínum og minningarnar eru óteljandi frá þessu gullaldartímabili þegar norræn hljómsveit náði heimsfrægð og varð vinsælli en nokkur önnur frá því svæði á alþjóðavísu. Auðvitað hafa komið viss tímabil í lífi mínu að ég hef ekki haft áhuga á ABBA og hef eiginlega fengið nóg af henni en alltaf kemur þetta tímabil og þessi lög sterk aftur og hafa sinn sess. Því er ekki hægt að neita.

Sagan um hatur vissra aðila á ABBA er margfræg. Fjölmargir þeirra sem aldrei sögðust fíla ABBA og ekki vilja hlusta á tónlist hljómsveitarinnar, fannst hún of glaðvær og glammúr-leg, enduðu samt alltaf út í plötubúð og keyptu verk ABBA. Þetta minnir mig reyndar mjög mikið á einn vin minn sem talaði alltaf svo illa um ABBA og fannst ekkert varið í lögin, gerði lítið úr óumdeildum sögulegum sess hljómsveitarinnar. Þegar ég fór eitt sinn í heimsókn til hans í gleðskap sá ég ABBA-geisladiska upp í hillu. Nett fyndið að sjá þetta.

Vissulega er margt við ABBA hallærislegt. Búningarnir og glammúrinn varð kannski yfirmáta hallærislegur eins og svo margt á þessu blessaða tímabili. Hver hlær ekki þegar hann sér myndir af foreldrum sínum eða ættingjum á þessu tímabili og með hárgreiðslu sem er svo gjörsamlega out of date. En tónlistin hefur lifað tískustælana af og skiptir alltaf mestu máli. Enda á tónlist að geta staðið af sér tíðarandann í tískufyrirbrigðum. Enda sést alltaf í gegn hvort tónlist sé góð eða hvort hún er yfirkeyrð af ytri áhrifum.



Tónlist ABBA lifir um alla eilífð - endurkoma, þó áhugaverð væri, hefur engin áhrif á stöðu hljómsveitarinnar eða styrkir sögulegan sess hennar. Og brátt munu allir yfirlýstir aðdáendur hljómsveitarinnar fara í bíó og sjá myndina nýju og eins allir hinir líka. Og öll þökkum við fyrir tónlistina í stíl við margfrægt lag ABBA, undir lok ferilsins.


mbl.is Aldrei saman á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg ferðahelgi

Laxá í Aðaldal Var að koma heim til Akureyrar eftir yndislega daga án netsambands. Hef verið á ferð og flugi síðustu dagana og því ekki bloggað nema mjög stopult og ekki haft tíma til að skoða athugasemdir eða umræðuna almennt, ekki séð póstinn eða neitt. Ágætt að taka smá frí frá þessu og hugsa um eitthvað annað.

Veðrið hefur líka verið þannig að nauðsynlegt er að gefa tölvunni frí. Sérstaklega var veðrið gott í gær og yndislegt að sleikja sólina og finna ylvolga hlýjuna. Mætti mörgum sem ég þekkti á ferðalaginu. Greinilegt að margir tóku þá ákvörðun að fara í ferðalag, enda víða skemmtilegar hátíðir og nóg hægt að gera í slíkri veðurblíðu.

Umferðin heim var ansi mikil og eiginlega er þetta ekki orðin minni ferðamannahelgi en verslunarmannahelgin, enda er 17. júní helgin, þessi fyrsta helgi í júlí og versló, allar orðnar svipað stórar að umfangi og fólk er á ferð og flugi þessa dagana. Ekki er það amalegt eins og veðrið var sérstaklega um þessa helgi núna.

Þar sem ég hef ekki verið við tölvu síðustu dagana hef ég ekki getað staðfest athugasemdir, en þær eru allar komnar inn núna. Þakka þeim sem sendu komment við síðustu færslu.

mbl.is Þung umferð á hringveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Ramses hafa sömu áhrif og Gervasoni?

Paul Ramses Ekki er hægt að komast hjá því að skynja mikla ólgu í samfélaginu vegna máls Paul Ramses. Sama hvaða lagabókstaf er vitnað í til varnar ákvörðunum í þessu hugsa fjöldi fólks til eiginkonu hans og sex vikna barns. Þetta virkar kuldalegt og ómannúðlegt. Saga konunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 var mjög tilfinningarík og ég held að hún hafi haft mikil áhrif á fjölda fólks.

Hef heyrt í mörgum vegna þessa máls í gær og í dag. og heyrt sterkar skoðanir á málinu úr öllum áttum. Finn mjög vel að samúðin í málinu er með Ramses, konu hans og barni. Mér finnst það heldur ekki skrítið. Hefði þetta verið afbrotamaður og stórhættulegur glæpamaður hefði hann ekki átt sér neinar málsvarnir og ekki haft almenningsálitið með sér en í ljósi þess að svo er ekki og ekki er vitnað til neins nema túlkana á lögum finnst fólki illa farið með manninn.

Get ekki betur séð en þetta sé pólitískur flóttamaður sem hafi gert margt mjög gott. Mér finnst það mjög kuldalegt ef það fer svo að maðurinn verði sendur beint út í dauðann með heimför til Kenýa. Finnst mjög ólíklegt að hann staldri lengi við á Ítalíu og endi á heimaslóðum fyrr en síðar. Eftir því sem ég hef heyrt slapp hann þaðan við ótrúlegar aðstæður og á sér ekki bjarta framtíð ef hann lendir í klóm þeirra sem þar fara með völd. Einkum sá þáttur málsins finnst mér skipta mjög miklu máli og leiðir til þess að ég hef samúð með þessum manni og fjölskyldu hans.

Mannlega taugin í mér allavega fær mig til að skrifa um þetta mál. Finnst þetta ekki eðlileg meðferð. Hef tjáð skoðanir mínar hér og endurtek þær aftur. Finnst þær mun sterkari en allar tilvitnanir í lagabókstafinn. Að mörgu leyti minnir þetta mál mig á mál flóttamannsins Patrick Gervasoni á sínum tíma. Mál hans varð pólitískt bitbein og hann hafði áhrif á stöðu þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat við völd. Guðrún Helgadóttir, alþingismaður, beitti sér fyrir málstað Gervasonis og setti ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens í mikla hættu vegna þess árið 1980.

Mál Gervasoni vakti líka mikla athygli og hann varð einn umtalaðasti maður ársins 1980. Því máli lauk þó með því að hann fór. Man satt best að segja ekki hver örlög hans urðu, en væntanlega tókst Guðrúnu með sínu afli og baráttunni fyrir málstað hans að ljúka málinu farsællega. Gott ef hann endaði ekki í Danmörku. En hvað með það. Þar sást að stjórnmálamaður getur sett heilt kerfi út af sporinu með því að berjast einlæglega og af sannfæringarkrafti fyrir því sem viðkomandi telur rétt, hvað svo sem kerfið og lagabókstafurinn segir.

Kannski fer það svo að Paul Ramses kemur aldrei hingað aftur og fær ekki að vera hér. En eftir umtalað mál þar sem tengdadóttur þáverandi umhverfisráðherra var hyglað sérstaklega finnst mér fjarstæðukennt að þegja um akkúrat þetta mál. Vonandi finnst á því einhver lausn sem allir geta sætt sig við. Mér finnst ekki eðlilegt að koma svona fram við mann sem ekkert hefur brotið af sér, en er aðeins landflótta maður vegna stjórnmálaskoðana sinna.

mbl.is Undirskriftarlisti til stuðnings Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn og útum gluggann-viðskipti hjá Baugsfeðgum

Jón Ásgeir og Jóhannes

Mjög áhugavert er að lesa viðskiptatilfærslurnar hjá Baugsfeðgum. En afhverju kemur þetta ekki á óvart? Þetta eru auðvitað svona ekta inn og út um gluggann-viðskipti. Hvað mun breytast? Eru fyrirtækin ekki að fara úr einum vasa yfir í annan hjá sama aðilanum? Get ekki betur séð. Það er fiffað til og frá svo hratt að meðaljóninn nennir ekki að fylgjast með.

Allt er þetta gert því Jón Ásgeir Jóhannesson getur ekki tekið á sig dóm eins og honum var gert í hæstarétti fyrir nokkrum vikum. Ekki eru nú allir svona heppnir að geta sleppt því að taka út sína refsingu en það eru ekki allir svo heppnir að eiga mikla peninga og geta búið til hjáleið frá dómskerfinu. Kannski er þetta aðdáunarvert á sinn hátt, enda eru ekki allir sem fá dóm á sig sem geta komist hjá því með því að flytja allt sitt hafurtask á erlenda grund.

Hitt er svo annað mál að Baugur er fyrir lifandis löngu orðið alþjóðlegt fyrirtæki og því þarf það varla að koma að óvörum að klippt sé á tengsl móðurfyrirtækisins á landið. Fyrirtækin hér eru einfaldlega bara færð í annan vasa því það hentar betur og FL Group fær á sig undarlega breytingu sem fáir skilja nema þeir allra innvígðustu í bransanum. En breytingarnar eru í sjálfu sér engar, þetta heitir á góðri íslensku fiff og hókus pókus tilfærslur. Svosem gaman að sjá svona sjónhverfingar á hásumri.


mbl.is FL Group verður Stoðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband