30.7.2008 | 23:39
Ólafur F. er gjörsamlega að spila sig út

Hvers vegna gat borgarstjórinn ekki bara svarað einföldum og eðlilegum spurningum fjölmiðlamanna um lykilatriði? Við erum að tala um að hann sparkar út í ystu myrkur konu sem hann sjálfur valdi sem aðstoðarmann sinn og hafði inn á kontór hjá sér á hverjum degi. Við erum ekki að tala um einhverja konu úti í bæ. Ef Ólafur F. getur ekki svarað svona eðlilegum spurningum er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé kominn tími til að hann gerist læknir í fullu starfi úti í bæ aftur og láti borgarbúa lifa sínu lífi án hans á borgarstjórakontórnum.
Mér finnst saga þessa meirihluta verða æ vitlausari með hverjum deginum sem líður. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins líta út eins og fólk í sjálfsmorðssprengiför sem það hefur engin tök á að losna út úr. Er virkilega ekki hægt að binda endi á þennan fjárans farsa eða í það minnsta gera hann skiljanlegan fyrir pólitíska áhugamenn? Plús, það væri ágætt að þessi borgarstjóri færi að svara spurningum.
Fannst Ólafur F. reyndar gefa það í skyn að hann nyti ekki virðingar og væri illa komið fram við hann. Kannski væri ráð fyrir hann að fara að mæta með borgarstjórakeðjuna í viðtöl hér eftir og túlk við hliðina á sér sem talar íslensku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
30.7.2008 | 14:05
Þessi fallegi dagur....
Við eigum ekki alltof marga svona sæludaga á hverju ári og því tilvalið að nýta hann alveg í botn.
![]() |
29 gráður og sólskin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2008 | 17:28
Árni kærir Agnesi - dapurt endaspil úr Eyjum

Ég hef í sjálfu sér aldrei farið leynt með að ég vildi ekki Árna í þingframboð á síðasta ári. Fannst það rangt að hann færi aftur í framboð eftir alvarleg lögbrot sín fyrir nokkrum árum. Fannst það hvorki honum né Sjálfstæðisflokknum til góða. Fór meira að segja í viðtal á Stöð 2 til að tala gegn þingframboðinu eftir ítarleg bloggskrif. Er enn sömu skoðunar og finnst ekkert hafa breyst í þeim efnum að afleitt hafi verið að Árni hafi aftur farið á þing.
Enda sýnist mér það hafa sannast af því að Árna hefur ekki verið treyst fyrir trúnaðarstörfum innan flokksins, eftir að flokksmenn í Suðurkjördæmi völdu hann á þing, þó þeir hafi reyndar lækkað hann um sæti með útstrikunum á kjördegi og veikt pólitíska stöðu hans til muna. Hann hefur verið utangarðsmaður í þingflokknum. Var ekki treyst fyrir formennsku eða varaformennsku í þingnefndum á kjörtímabilinu, né öðrum embættum, þó hann hafi átt fjórtán ára þingferil áður að baki er hann sneri aftur á þing.
Árni hefur strikað sig út í þjóðmálaumræðunni og hefur jafnmikil eða minni pólitísk áhrif og óbreyttir stjórnarandstöðuþingmenn. Sjálfstæðismenn eru ekki sáttir við endurkomu hans og munu aldrei sætta sig við að hann hafi komist aftur á þing. Held að sagan muni dæma endurkomu hans á þing sem mistök og mér finnst forysta flokksins hafa fellt þann dóm vel með því að velja Árna ekki til neinna trúnaðarstarfa.
Ætla rétt að vona að sjálfstæðismenn á Suðurlandi vandi sig betur við val á næsta framboðslista sínum.
![]() |
Árni stefnir Agnesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.7.2008 | 15:12
Frábært framtak - grasið á að vera á torginu
Ég er mjög ánægður með framtak þeirra sem þökulögðu Ráðhústorgið hér á Akureyri í nótt. Að mínu mati eiga bæjaryfirvöld að leyfa þökunum og blómunum að vera á miðju torginu, allavega fram eftir sumri. Síðan eiga þau að taka þá pólitísku ákvörðun að breyta Ráðhústorgi aftur og hafa grænt svæði þar, eins og var lengi vel. Þetta á ekki að vera flókið mál.
Í bernskuminningu minni, þegar Hanna amma og Anton afi bjuggu í Brekkugötu 9, var Ráðhústorgið notalegur staður þar sem var líf og fjör. Eftir að svæðið var allt hellulagt dó þessi stemmning algjörlega. Eru orðin mörg ár síðan staldrað var við á Ráðhústorgi og notið þess að vera þar. Kannski hefur myndasýningin þar gefið manni tækifæri til þess, annað ekki.
Grámygla steinsteypunnar hefur alla tíð verið lítið spennandi þar og ég tel að eyðilegging torgsins sé ein ástæða þess hvernig komið sé fyrir miðbænum. Þeir sem stóðu að þessu hafa fært bæjaryfirvöldum gott tækifæri til að taka af skarið og staðfesta að þarna eigi að vera grænt svæði.
Ég skora á Sigrúnu Björk að sýna myndugskap og trausta pólitíska forystu og beita sér fyrir því að Ráðhústorgið verði fært til fyrri tíðar, þegar þar var notalegt að vera lengur en eina mínútu.
![]() |
Ráðhústorgið þökulagt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.7.2008 | 11:26
Ólafur F. sparkar í Ólöfu Guðnýju

Ólafur F. virðist vera mjög laginn við að missa traust þeirra sem vinna með honum. Ekki aðeins tókst honum að missa þær sem sátu í öðru og þriðja sæti framboðslistans sem hann leiddi úr hópnum heldur hefur hann losað sig við pólitískan aðstoðarmann sinn, sem hann valdi sjálfur, á fyrstu mánuðum borgarstjóraferils síns. Stórar spurningar um pólitískt bakland borgarstjórans í Reykjavík og styrk hans hljóta að vakna í kjölfarið.
Mér finnst svona verklag ekki til sóma fyrir borgarstjórann. Varla er þetta stöðugleikamerki, hvorki fyrir hann, né meirihlutann sem situr við völd. En hvað segir Ólöf Guðný? Forðum daga, í pólitískum ólgusjó, sagði hún að trúverðugleiki borgarstjórans væri hafinn yfir allan vafa. Hver er staðan með þann trúverðugleika nú?
![]() |
Borgarstjóri skiptir um varaformann skipulagsráðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.7.2008 | 00:52
Brown búinn að vera - kuldaleg endalok

Árið 2005 leiddi hann flokkinn áfram til sigurs fyrir Tony Blair, sem var stórlega skaddaður í sínum síðustu kosningum. Þá var Gordon Brown hetja flokksins og táknmynd sigursins, mun frekar en Blair sem var búinn að vera pólitískt og var pólitískt lamaður - í gíslingu órólegu deildarinnar innan flokksins. Þá óraði engum fyrir því að hinn vinsæli og trausti fjármálaráðherra ætti svo stutt pólitískt líf fyrir höndum og myndi mistakast við leiðtogahlutverkið.
Hann beið í þrettán ár eftir stólnum. Biðin var löng og erfið og hann plottaði sig miskunnarlaust á leiðarenda og ýtti Blair út áður en hann vildi yfirgefa Downingstræti 10. Nú er allt útlit fyrir að Blair-armurinn muni hefja endalokin fyrir Gordon Brown - sparka honum út úr breskum stjórnmálum. Þeir hafa lengi beðið færis í að gera upp Gordon Brown og launa honum lambið gráa og munu nú ganga frá honum pólitískt, brosandi á vör.
Þeir vildu aldrei að hann fengi hnossið mikla og reyndu að berjast gegn því að hann yrði forsætisráðherra. Blair og lykilmenn hans töldu Brown þó of sterkan og afgerandi pólitíkus til að hann yrði stöðvaður. Þeir lögðu ekki einu sinni í að finna kandidat gegn honum. Á rúmu ári er Brown búinn að vera. Hann hefur sópast út í þeim ólgusjó sem einkennir bresk stjórnmál, nú þegar sigur Íhaldsflokksins í næstu þingkosningum er í kortunum.
Fyrir Brown eru þetta vissulega mjög kuldaleg endalok. Hann fékk tækifærið en klúðraði því. Og nú munu þingmennirnir sem óttast um eigin hag sparka honum til að eygja von á endurkjöri. Já, hún er skrýtin þessi pólitík. En hvað ætla kratarnir eiginlega að gera við Gordon Brown þegar þeir hafa sparkað undan honum stólnum?
![]() |
Ráðherrar hvattir til að ýta Brown til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2008 | 11:16
Veruleikafirring á Bessastöðum

Við bætist svo léleg ákvörðun Ólafs Ragnars um að fara á Ólympíuleikana. Forsetaembættið sendi út yfirlýsingu um förina og lét með fylgja langhund um för hans á ráðstefnu í Bangladesh, eins og það væri bæði aðaltilgangur ferðarinnar og um leið að afsaka að hann væri nú að fara á Ólympíuleikana í miðju einræðinu.
Að við skulum þurfa að láta bjóða okkur fjögur ár í viðbót af þessu fjárans rugli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
23.7.2008 | 01:30
The Dark Knight er algjörlega frábær mynd

Var farinn að hugsa um það síðustu dagana hvort myndin væri að fá allt lofið aðeins vegna þess að þetta er lokapunkturinn á glæsilegum leikferli Heath, sem lést langt um aldur fram eða hvort að þetta væri bara sumarbóla án verðskuldaðra hæfileika á að verða eftirminnilegt meistaraverk. Þetta er hiklaust besta Batman-myndin. Handritið, tónlistin, klippingin og kvikmyndatakan er brilljans og heildarpakkinn allur eins og best verður á kosið.
Heath Ledger er leiftrandi og yndislega illkvittinn sem Jókerinn - hann lagði allt í þessa túlkun og færir okkur enn dýpri og kuldalegri karakter en Jack Nicholson gerði í fyrstu Batman-kvikmyndinni fyrir tveim áratugum. Þessi frammistaða verður ekki síður eftirminnileg en leiksigrar James Dean á sjötta áratugnum í East of Eden, Giant og Rebel Without a Cause, ógleymanlegum meistaraverkum sem halda minningu hans á lofti um eilífð. Dean dó ungur en afrek hans voru verðskuldaðir leiklistarsigrar sem eru í minnum hafðir.
Sama má segja um Jókerinn sem gnæfir yfir allt í myndinni. Þetta er myndin hans Heath, minnisvarði hans. Og hann á að fá óskarinn fyrir stórleik sinn, hvorki meira né minna. Það var auðvitað til skammar að hann fékk ekki verðlaunin fyrir tímamótatúlkun sína á Ennis í Brokeback Mountain. Hollywood á að heiðra minningu þessa hæfileikaríka og frábæra leikara með óskarsstyttu, ekki aðeins til minningar um ógleymanlega leiktúlkun merks leikara heldur sem minnisvarða um hvað hefði getað orðið.
![]() |
Leðurblökumaðurinn kominn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.7.2008 | 18:53
Ábyrgðarleysi foreldra
Reglulega heyrast sögur um að foreldrar reddi ólögráða börnum sínum áfengi og sígarettur áður en þau ná löglegum aldri til að kaupa það og ráða sér sjálf en mér finnst það hálfu verra þegar að foreldrar bregðast skyldu sinni í að ala upp börnin sín frá upphafi og fari í slíka hasssölutúra með kornabarn með sér.
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og það er ekki til að auka trúverðugleika foreldra þegar að svona nokkuð klúður gerist og allt undir eftirliti foreldranna.
![]() |
Tóku barn með í hasssöluferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.7.2008 | 16:22
Fyrirsjáanleg hagræðing hjá Spron

Væntanlega er uppstokkun mála hjá Spron aðeins fyrsti hlutinn af fyrirsjáanlegri hagræðingu á fjármálamarkaði almennt í þeirri stöðu sem við blasir nú og eiginlega enn meira spennandi að fylgjast með atburðarásinni í kjölfarið. Hvaða hagræðing er næst á dagskrá?
![]() |
Allt að 200 missa vinnu við samruna SPRON og Kaupþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2008 | 11:16
Karadzic fer til Haag - uppgjör grimmdarinnar

Eðlilega hafa margir velt fyrir sér hvernig Karadzic gat verið í felum svona lengi - eftir þrettán ár var talið að ekki væri hægt að handsama hann og klára þessi mál. Þjóðernissinnar hafa haldið hlífðarskildi yfir Karadzic öll þessi ár og falið hann fyrir alþjóðasamfélaginu og komið í veg fyrir að réttvísin nái fram að ganga. Þeir tímar eru nú sem betur fer liðnir. Kominn tími til að reikningsskil verði og uppgjör á þeirri grimmd sem Karadzic sýndi með pólitískri forystu sinni.
Myndin af Karadzic vekur eðlilega mikla athygli. Hann er algjörlega óþekkjanlegur og hefur dulbúist svo vel að enginn hefur vitað neitt, nema þá vitorðsmenn hans. Karadzic hafði byggt sér upp nýtt líf, gat unnið að sínum verkum og komist hjá því að svara til saka. En nú fær hann farmiða til Haag, ætli það verði ekki farmiði aðra leiðina?
![]() |
Karadzic framseldur til Haag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2008 | 00:46
Loksins! - fjöldamorðinginn Karadzic handtekinn

Mér finnst biðin hafa verið of löng eftir því að réttlætið hafi sinn framgang í þessu máli. Of lengi hefur verið beðið eftir því að Karadzic yrði svældur úr greni sínu og fái þá meðferð sem hann á skilið. En betra er hinsvegar seint en aldrei í þessum efnum eins og mörgum öðrum.
Þetta er vissulega sögulegur dagur. Nú loksins er hægt að heiðra minningu þeirra þúsunda manna sem voru drepnir í grimmdarlegustu fjöldamorðum frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar með því að draga þann fyrir dóm sem stóð að þeim hryllingi.
Milosevic dó því miður áður en hann var dæmdur fyrir afbrot sín, eftir fimm ára vist í Haag. Nú vonandi verður Karadzic fluttur á sama stað, helst í sama klefann og Milosevic dó forðum í.
![]() |
Karadzic handtekinn í Serbíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2008 | 16:28
Má ekki Bubbi hafa skoðanir á Björk?
Furðulegt er að fylgjast með umræðunni um ummæli Bubba Morthens um Björk. Sumir skrifa og tala eins og Bubbi megi ekki hafa skoðanir á henni, eins og hún sé alveg heilög. Auðvitað er bara jákvætt og gott að Bubbi tali þegar hann hafi skoðanir, sama hvort við séum svo öll sammála því sem hann segir. Það er allt annar hlutur í sjálfu sér. Við þurfum heldur ekkert að vera sammála honum, en eigum að virða það við hann að tjá sig.
Veit ekki hvort Bubbi er ósáttur við Björk eða var að dissa hana létt eða harkalega. Skiptir svosem ekki öllu máli. Fylgdarlið Bjarkar á tónleikaferðalagi hennar virðist ekki ánægð með að Bubbi vísi til Bjarkar og finni að því hún syngi frekar gegn stóriðju en fyrir bættum hag almennings, tali upp fátæka fólkið. Lætur harkaleg ummæli falla, sem gerir þá ekkert meira fólk en Bubba, hafi það annars átt að vera tilgangurinn að upphefja sig með því að tala niður Bubba.
Kannski er ráð að þau snúi bökum saman og taki lagið. Hafa þau annars nokkurn tímann tekið dúett eða gert einhverja tónlist saman. Hvernig væri nú það að þau tækju friðaróð saman og gæfu út - allt í nafni ástar og friðar, líka alþýðunnar.
![]() |
Bubbi liggur undir ámælum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2008 | 11:26
Guðjón rekinn - tvíburarnir reyna aftur
Þetta er auðvitað vond staða fyrir lið og stuðningsmenn með sjálfstraust, sem eru vanir öllu öðru en botnstöðu vikum og mánuðum saman yfir sumarið. Skaginn átti sömu baráttuna fyrir nokkrum árum og sóttu þá tvíburabræðurna Arnar og Bjarka, sem björguðu liðinu frá falli. Þrátt fyrir það fengu þeir ekki samning áfram heldur var leitað til Guðjóns. Með þann mannskap sem Skaginn hefur yfir að ráða var gert ráð fyrir toppbaráttu og alvöru krafti, liðið væri meistaraefni. Annað hefur komið á daginn.
Ósigurinn í Kópavogi var eins og ég sagði hér áður endalokin fyrir Guðjón Þórðarson. Eftir það var þetta búið og ákvörðun Skagamanna skiljanleg. Þeir þurfa að stokka sig upp og feta aðrar slóðir, undir stjórn nýrra þjálfara. Fróðlegt verður að sjá hvort tvíburunum tekst hið sama og fyrir nokkrum árum. Þá voru öll sund lokuð en deildarsætið var þrátt fyrir það varið.
![]() |
Guðjón hættur með ÍA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2008 | 01:34
Niðurlæging Skagamanna - verður Guðjón rekinn?

Eftir tólf umferðir hefur Skaginn aðeins sjö stig og er á botnslóðum og hefur gert vikum saman - liðið hefur unnið aðeins einn leik í sumar, gert fjögur jafntefli og lotið í gras sjö sinnum. Eðlilega er spurt um stöðu Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara Skagamanna, í þessari stöðu. Þetta er versta sumarið á hans þjálfaraferli og ekkert virðist ganga upp.
Þegar er einn þjálfari fokinn á þessu sumri. Guðjón virðist vera í sömu vandræðum og félagi hans af Skaganum, Teitur Þórðarson, í fyrra en hann var látinn fara frá KR við svipaðar aðstæður og blasa nú við Skagamönnum.
![]() |
Blikar kafsigldu Skagamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.7.2008 | 22:00
Mannvonska í Íran
Lýsingarnar um það hvernig fer fyrir þessu fólki eru alveg skelfilegar. En varla kemur þetta að óvörum. Ekki er langt síðan því var lýst í sjónvarpsþætti og blaðaskrifum hvernig samkynhneigðir eru drepnir í Íran. Þeir eru þurrkaðir út, enda er ekki leyfilegt að tveir einstaklingar af sama kyni verði ástfangið.
Mahmoud Ahmedinejad, forseti Írans, neitaði því með öllu að til væri samkynhneigð í Íran í frægum fyrirlestri í Columbiu-háskólanum í New York síðasta haust og lét þau ummæli falla að helförin hefði aldrei átt sér stað. Þarna er grimmdin og mannvonskan ein refsingin í alvarlegum málum.
Staðreyndum í daglegu lífi er þar afneitað. Skilningur er enginn. Þeir sem ekki fara eftir ægivaldinu eru einfaldlega drepnir. Það hvernig murka á lífið úr þessu fólki er því miður ekkert einsdæmi. En þetta er dapurlegur veruleiki.
![]() |
Níu manns bíða þess að vera grýtt til bana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.7.2008 | 13:01
Umdeild snilld hjá Monty Python

Ég veit að Life of Brian hefur gert marga menn trúarinnar algjörlega æfa af bræði en ég hélt þó að flestir hefðu jafnað sig á boðskapnum eftir öll þessi ár. Trúarlegt grín eða nýtt sjónarhorn á lykilatriði trúarbragða hefur ekki alltaf hitt vel í mark. Öll munum við eftir skopmyndum og gamansemi um trúarbrögð sem hafa kveikt bál, misjafnlega mikil og langvinn. Spaugstofan var allt að því bannfærð á sínum tíma fyrir trúarlegt grín, Jón Gnarr var álitinn svikari af kaþólskum fyrir Símaauglýsingarnar og öll munum við eftir Múhameðsteikningunum.
Trúarlegt grín fær einhverja til að hlæja en aðrir taka kast yfir því. Skiptir þar svosem máli hversu langt er gengið. Monty Python fékk yfir sig mikla reiðiöldu þegar þeir fóru yfir í trúarlega grínið og gamla góða myndin þeirra enn umdeild. Flestir muna svo eftir því hvað gerðist þegar Martin Scorsese gerði The Last Temptation of Christ. Myndin hefur ekki verið sýnd í Ríkissjónvarpinu árum saman vegna þess hversu umdeild hún var. Allavega hefur verið hætt við sýningar á henni, reyndar orðið svolítið langt síðan. Og ekki er hún sýnd daga og nætur á Stöð 2 Bíó heldur.
Þó Monty Python hafi leikið sér að því að verða umdeildir, stuða með gríni sínu er sögulegur sess þeirra í gamanleik traustur. Gamanþættir þeirra voru tær snilld og myndirnar alveg frábærar. Þeir voru pottþétt blanda og Cleese, Palin og Idle með vinsælustu grínistum allra tíma. Kannski er kominn tími til að Ríkissjónvarpið sýni þessa snilld fyrir okkur. Eða eru kannski einhverjir enn argir yfir gríninu eftir öll þessi ár hér heima á Fróni?
![]() |
Bannað að sýna Life of Brian |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.7.2008 | 16:57
Ólafur Ragnar og Dorrit sleikja upp Mörthu Stewart
Alltaf er það nú jafn skondið að fylgjast með forseta Íslands smjaðra fyrir viðskiptajöfrum og öðru celeb-inu á erlendri grundu - skemmtilegur lokakafli á litríkan feril framsóknarmannsins sem varð formaður Alþýðubandalagsins. Núna er Martha Stewart á Íslandi í boði forsetahjónanna og eðlilegt að spurningar vakni um hvort það sé viðeigandi að forseti Íslands taki á móti henni, ekki Ólafur Ragnar prívat og persónulega.
En eru þetta einhver tíðindi? Ólafur Ragnar hefur fært forsetaembættið út í glamúr og glys, dekur við auðmenn og peningakalla er í forgrunni. Embættið er komið óravegu frá þeim tíma er Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir sátu á forsetastóli. Mörgum fannst Vigdís höll undir fræga fólkið, en hún var þó órafjarri þeim botni sem Ólafur Ragnar er á. Ekki er annað að sjá en Ólafur Ragnar hafi gleypt sannfæringu sína og hugsjónir fyrir löngu, hafi hann á annað borð haft nokkrar meðan hann var formaður Alþýðubandalagsins.
Reyndar fannst mér fyndnast af þessu öllu þegar Ólafur Ragnar bauð George H. W. Bush í laxveiði hingað til Íslands fyrir tveim árum og gaf honum flugusett og stöng að gjöf, og fór svo skömmu síðar í kertaljósakvöldverð í Hvíta húsinu í boði Bush-hjónanna. Efast um að margir íslenskir vinstrimenn hafi brosað hringinn yfir vináttu Ólafs Ragnars við Bush-fjölskylduna. Skrifaði grein um þetta á sínum tíma, sem ég bendi á.
Kannski finnst einhverjum eðlilegt að forsetahjónin skáli við Mörthu Stewart og séu gestgjafar hennar á sama sumri og henni er meinað að koma til Englands vegna afbrota sinna. Efast má þó um að það sé heiður fyrir forsetaembættið að fá þessa konu til landsins á vegum forsetahjónanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.7.2008 | 12:18
Bubbi dissar Björk
Bubbi er oft ágætur, fer stundum einum of mikið fram úr sjálfum sér. Hef ekki alltaf verið sammála honum. En ég hef oft verið hrifinn af hinum pólitíska tóni í honum, yfirlýsingum um mann og annan. Það er hægt að taka því oft hæfilega alvarlega. Þetta er bara hans stíll. Enda væri stílbrot ef Bubbi færi að breyta sér á sextugsaldri fyrir einhverja besservissera úti í bæ.
En eflaust fær Bubbi yfir sig gusu af neikvæðni vegna þessara kommenta um Björk, sem geta ekki túlkast öðruvísi en sem nett diss. En, þetta er víst bara Bubbi, hann var fílaður svona í denn og varla þörf á að breyta því á 21. öld - sama hvort alþýðutaugarnar hans verði minna áberandi.
![]() |
Björk ætti frekar að syngja gegn fátækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.7.2008 | 13:58
Í minningu séra Birgis

Fyrir það þakka allir Akureyringar og minnast hans með hlýhug. Ég vil votta fjölskyldu séra Birgis innilega samúð mína.
Guð blessi minningu hans.
![]() |
Andlát: Birgir Snæbjörnsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)