26.8.2008 | 15:11
Súmmering: Tár, bros og væntingar í Denver
Flokksþing demókrata hófst á tilfinningalegum nótum í Denver í gærkvöldi. Lykilorð kvöldsins voru sannarlega tár, bros og væntingar. Stemmningin var óbærilega hugljúf á köflum. Þingfulltrúar grétu á meðan síðasti Kennedy-bróðirinn var heiðraður, jafnvel á sínu síðasta flokksþingi, og vinir og vandamenn Obama kepptust við að lýsa hvað hann væri nú vandaður og einlægur maður. Í heildina var þetta kammó og sætt en yfirmáta sykurhúðað. Ekki er hægt að segja annað en demókrötum hafi mistekist að tækla pólitíkina á þessu kvöldi og fara yfir lykilmál kosningabaráttunnar.
Demókratar þurfa að standa sig mun betur á næstu þremur dögum en í gærkvöldi ef þeir ætla að koma út úr þessu flokksþingi tilbúnir í alvöru átök næstu 70 dagana. Þetta var einum of uppstillt væmni og dramatísk leiksýning til að taka á þeim málum sem mestu skipta og gera Barack Obama að þeim leiðtoga sem flokksmenn vilja að vinni Hvíta húsið í nóvember. Þrátt fyrir allt talið um Obama og fjölskylduvæna kosti hans er almenningur litlu nær um hver þessi maður er og hvað hann muni gera í Hvíta húsinu. Skilaboðin komast ekki til skila, einfalt mál.
Hitt er svo annað mál að demókratar horfast í augu við erfiðar kosningar á ári þar sem allt ætti að leika þeim í lyndi. Þrátt fyrir að Obama hafi alla heimsins peninga, traust stuðningsmannanet og pólitískar kjöraðstæður til að hafa mikið forskot hefur hann misst kosningarnar niður í jafna baráttu við 72 ára frambjóðanda flokks sem hefur haft Hvíta húsið í átta ár, átta mjög umdeild pólitísk ár, og hefur einn óvinsælasta forseta í sögu Bandaríkjanna. Þetta ætti að vera demókrötum áhyggjuefni og því furðulegt að þeir noti þingið ekki betur.
Nýjustu kannanir gefa til kynna að engu hafi breytt fyrir Obama að velja Joe Biden sem varaforsetaefni. Í fyrsta skipti í ótalmörg ár fær framboð demókrata ekki trausta fylgisaukningu út úr tilkynningu á varaforsetaefni. Með því staðfestist að Biden mun ekki sækja óháða kjósendur, Obama verður að sjá um stjörnuljómann. Biden mun geta leikið lykilhlutverk í Pennsylvaníu en varla öðrum fylkjum. Auk þess er greinilegt að hann á að treysta reynslugrunninn. En eftir sem áður verður Obama að vinna fyrir sigrinum.
Förum yfir helstu punkta fyrsta þingkvöldsins í Denver.
- Michelle Obama heillaði flokksmenn augljóslega með einlægri ræðu sinni um fjölskyldugildin og lífsbaráttu fjölskyldu sinnar í fátækt og ríkidæmi, fyrr og nú. Hún var einlæg þegar talið barst að lífsskilyrðum í æsku, hún fékk allan salinn til að gráta þegar hún lýsti baráttu pabba síns við MS-sjúkdóminn, kraftinum í mömmu sinni, því hvernig hún heillaðist af Barack og hversu vænt henni þykir um dæturnar. Einlægt og sykursætt, en hún hefði þurft að ganga lengra til að heilla óháða kjósendur, t.d. tala um þjóðerniskennd og trúarmál til að gera upp helstu vandamál sín til þessa. Enn á hún eftir að máta sig af alvöru í hlutverk forsetafrúarinnar.
- Dætur frambjóðandans, Sasha og Malia, heilluðu alla með því að fara langt út fyrir handritið þegar þær töluðu við pabba sinn og fóru að spyrja hann spurninga þegar hann birtist á sjónvarpsskjá eftir ræðu Michelle. Greinilegt var að þetta hafði ekki verið planað. Sú yngri hreif hljóðnemann af mömmu sinni og talaði á fullu og tók pabba sinn í hálfgert viðtal. Þetta átti örugglega að vera annarskonar móment en þær stálu heldur betur sviðsljósinu og gerðu þetta vel. Augljóst var á svipbrigðum Obama að þetta var ekki eins og það átti að vera.
- Ted Kennedy var hiklaust stjarna fyrsta kvöldsins. Gegn ráðleggingum lækna fór hann til Denver, flutti þar leiftrandi og trausta ræðu eins og hans var von og vísa. Teddy er baráttumaður og það skein í gegn í ræðunni, eins og ávallt áður. Hann leit virkilega vel út miðað við hvað hann hefur gengið í gegnum síðustu mánuði. Teddy var í raun kvaddur eins og þetta væru pólitísku endalokin hans, síðasta ræðan á síðasta flokksþingi þar sem gamli valdakjarni Kennedy-fjölskyldunnar kemur saman.
Allir sem horfðu á ræðuna óttuðust en vonuðu ekki að þetta væri svanasöngur baráttumannsins frá Massachusetts, fjölskylduföður Kennedy-ættarinnar, sem hefur gengið í gegnum svo margt. Mér fannst aðdáunarvert að hann hefði ákveðið að leggja þetta á sig og hann var hylltur eins og hjartað og sálin í þessum flokki. Ekki undrunarefni, enda verið þar í lykilhlutverki lengur en flestir er á horfðu vilja muna. Hann afhenti kyndilinn til næstu kynslóðar. Þetta var tárvotur og notaleg kveðjustund.
Vantaði aðeins að Ted kæmi með gamla frasann hans Reagans forseta: Win One for the Gipper, fræg setning sem hann sagði á flokksþinginu 1988 sem fráfarandi forseti Bandaríkjanna, flokksþinginu hans Bush eldri. Var það tilvísun í kvikmyndina Knute Rockne sem Reagan lék í árið 1940. En Kennedy-ar eru sennilega of stórir til að vitna í Reagan forseta.
- Caroline Kennedy kynnti föðurbróður sinn af stakri snilld. Talaði um framlag hans til stjórnmálabaráttu af virðingu og þekkingu um öll lykilmálefni ferils hans. Caroline hefur verið áhorfandi að pólitískum verkum hans og Kennedy-bræðranna alla tíð, er mörkuð af sorgum og sigrum fjölskyldunnar, allt frá því faðir hennar var myrtur og til dagsins í dag. Caroline hefur erft ræðusnilld forfeðra sinna og stjörnutakta í pólitískri baráttu.
Mér finnst Caroline efni í frábæra stjórnmálakonu. Af hverju fer hún ekki í framboð? Ég er ekki fjarri því að hún yrði efni í frábæran öldungadeildarþingmann fyrir Massachusetts þegar Teddy hættir þátttöku í stjórnmálum, hvort sem það verður í kjölfar þessara veikinda eða síðar. Caroline hefur allt sem þarf til að ná langt og hún hefur þokka móður sinnar og stjórnmálatakta föður síns, sem komu honum alla leið í Hvíta húsið. Vona að við sjáum meira af henni.
- Bróðir Michelle, Craig Robinson, flutti flotta ræðu er hann kynnti systur sína. Hann var traustur, talaði íþróttamál, enda körfuboltaþjálfari, og talaði um hvernig manneskja Michelle Obama væri og hversu traustur lykilmaður mágur sinn væri, ekki bara á taflborði stjórnmálanna heldur á körfuboltavellinum. Virkilega vel sett saman, einlægt án falsheita. Hvar hafa þeir falið máginn fram að þessu? Mér fannst hann alveg frábær.
- Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var hylltur á þinginu er hann kom fram með eiginkonu sinni, Rosalynn. Á undan var sýnd frábær klippa um mannréttindaverk Carters og hvernig hann hefur unnið til hjálpar bágstöddum og þeim sem minna mega sín. Carter má vera stoltur af verki sínu. Er hann kom á sviðið hljómaði auðvitað Georgia On My Mind, lagið sem Ray Charles söng um heimafylki Carters. Var alveg gáttaður á því að hann fékk ekki að flytja ræðu. Fannst það afleitt, enda er Carter fínn ræðumaður. Er Obama að forðast tengingar við Carter? Vill hann ekki fá á sig stimpilinn að vera að sækjast eftir seinna kjörtímabili Carters?
- Systir Obama talaði einlæglega um æsku sína og hversu traustur bróðir hennar hefði verið alla sína ævi. Fannst þetta notaleg ræða, enda er þetta manneskja sem hefur þekkt frambjóðandann alla tíð og verið við hlið hans. Pólitíski lærifaðirinn hans Obama í Chicago flutti ágætis ræðu, en mér fannst allir sem fjölluðu um Chicago-árin hans Obama skauta ofurlétt yfir það hvernig honum tókst að komast alla leið þar. Þetta var hálf sagan.
- Claire McCaskill flutti leiftrandi ræðu fyrir Obama - tókst að flytja femíniska stuðningsræðu fyrir manninn sem sigraði konuna með 18 milljón atkvæðin. Visst pólitískt afrek það. Fannst samt stóra stjarnan í þessum hluta vera sonur hennar sem kynnti þingmanninn frá Missouri af krafti og orðfimi. Gott ef strákurinn hennar Claire McCaskill færði ekki einlægustu og traustustu rökin fyrir því af hverju Barack Obama ætti að verða næsti forseti Bandaríkjanna af öllum ræðumönnum kvöldsins. Er ekki viss hvað hann heitir en hann á klárlega framtíðina fyrir sér.
- Nancy Pelosi dró fram beittustu hnífana í eldhúsinu og réðst beint að John McCain. Hún ein gerði það sem ég taldi að allir myndu gera, ráðast harkalega að repúblikunum og forsetaframbjóðanda þeirra. Pelosi var ein um það verk og eiginlega kom það mér á óvart hvað þetta var sykursæt glansmynd af Obama án pólitískrar vígfimi og átakapunkta sem skipta. Pelosi gerði þetta vel en var einmana í talinu.
- Síðast en ekki síst var stemmningin sykursæt og létt. Það vantaði áþreifanlega pólitískan þunga. Þetta var misheppnað kvöld í pólitískum pælingum séð en var vel heppnað show og fjölskyldusýning fyrir Obama. En kosningarnar munu að lokum snúast um stjórnmál og því var fyrsta kvöldið í gegnum öll tárin og brosin ekki eins vel heppnað og getað hefði orðið.
Finnst alltaf magnað að sjá stemmninguna á flokksþingunum. Þar eru karlar og konur að baða út höndunum, dilla sér við fjöruga tónlist, sumir í litríkum fötum og eru merkt í bak og fyrir með nælum og öðru litskrúðugu. Kúnstugt að sjá. Fannst leitt að sjá ekki Silju Báru og Dag Eggertsson í mynd dillandi sér við stuðlögin sem voru á milli atriða.
En í heildina, merkilegt kvöld fyrir demókrata. Tár, bros og væntingar eftir betri tíð. En það vantaði þungann þrátt fyrir allan glamúrinn. Þetta var misheppnað kvöld í pólitískum skilningi, enda þurfa demókratar að sýna að Obama sé leiðtogi, reiðubúinn á forsetavakt og tækla vandamálin innan flokksins.
![]() |
Draumurinn lifir í Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2008 | 10:49
Tilræði við börn - akstur í dópvímunni
Auðvitað eru þeir ógæfumenn sem stunduðu þennan ofsaakstur á skólalóð. Í dópvímu fer hausinn á flug út í vitleysuna og engin dómgreind til að meta aðstæður. Ég vona að þeir sem þetta gerðu læri sína lexíu. Ekki veitir þeim af.
![]() |
Eiginlega bara enn í sjokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.8.2008 | 00:15
Michelle mátar sig í hlutverki forsetafrúarinnar
Michelle Obama, eiginkona Barack Obama, mun eftir miðnættið ávarpa flokksþing demókrata sem aðalræðumaður fyrsta kvöldsins. Þar mun hún máta sig við hlutverk forsetafrúar Bandaríkjanna og reyna að styrkja ímynd sína og eiginmannsins, gera hana bæði fjölskylduvænni og traustari. Kannanir sýna að Michelle á langt í land með að fá á sig blæ hinnar traustu forsetafrúar.
Michelle hefur frá fyrsta degi leikið lykilhlutverk í kosningabaráttu eiginmanns síns, rétt eins og Hillary Rodham Clinton í baráttu Bill Clinton í forsetakosningunum 1992 og 1996, verið hans nánasti pólitíski ráðgjafi og aðalleikkona í að skapa umgjörð baráttunnar. Samkvæmt könnunum er Michelle mjög umdeild og mörkuð átökum í pólitískum eldi, landsmenn eru mun hræddari við hana en eiginmanninn og því þarf hún að sýna mjúku hliðina.
Obama og Kerry eiga það báðir sameiginlegt að eiga eiginkonu sem er mjög umdeild og þarf að fara í gegnum karakterbreytingu á flokksþinginu, snúa við blaðinu til að verða trúverðugar í hlutverki sínu og um leið styrkja ímynd eiginmannsins. Teresa Heinz Kerry flutti langa og hugljúfa ræðu á flokksþinginu í Boston árið 2004 til að kynna mann sinn en um leið tala sjálfa sig upp í hlutverkið eftir umdeild ummæli og eigin mistök í baráttunni. Henni mistókst að byggja þessa umgjörð þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð að takast það. Hún varð einn veikasti hlekkurinn í framboðinu.
Nú þarf Michelle Obama að styrkja eigin ímynd til að byggja traustari undirstöðu fyrir eiginmanninn. Þess vegna er fjölskyldustemmningin svo mikil fyrsta kvöldið. Þetta er mál sem skiptir miklu á þessum tímapunkti í kosningabaráttunni. Michelle Obama þarf að sýna að hún sé efni í góða forsetafrú, sé einlæg kona, sé konan við hlið frambjóðandans en ekki bara pólitísk bardagakona í baklandi eiginmanns síns. Þetta er ímynd sem enn þarf að vinna í. Þetta segja kannanir og þetta staðfestist af þeim áherslum sem hún markar á fyrsta kvöldi þingsins.
Hún opnar þingið í þessu hlutverki og reynir að sýna að hún geti orðið forsetafrú Bandaríkjanna. Þess má geta að Laura Welch Bush þurfti ekki að leika þetta hlutverk á flokksþingum eiginmanns síns. Þar var hún trausti aðilinn í hjónabandinu og með annað hlutverk. Hún hafði trausta stöðu í skoðanakönnunum og kynningin á henni var sjálfsögð sem eiginkonu forsetaefnis. Hann þurfti frekar á þessari kynningu að halda en hún.
Fyrir stundu fékk ég tölvupóst frá Michelle í póstkerfi Obama-baráttunnar þar sem hún talar einlæglega um fjölskylduna og hugljúf mál. Og svo var hún áðan í viðtölum að segja fjölskyldusögur og sýna að hún sé nú einlæg og traust húsmóðir, en ekki bara hin umdeilda kona við hlið Barack Obama. Á henni fer fram karakterbreyting á þessu þingi. Þar þarf að mýkja og styrkja. Þetta er aðalverkefni þeirra hjóna í upphafi þingsins.
Margir Bandaríkjamenn muna helst eftir Michelle sem konunni sem var í forystu söfnuðar Jeremiah Wright, sem bölsótaðist út í Bandaríkin og tækifæri landsins í predikunum sínum, mannsins sem gifti þau hjónin og skírði börnin þeirra, og þá sem sagðist í fyrsta skipti vera stolt af því vera bandarísk í kosningabaráttu mannsins síns. Hún þarf heldur betur að fara í gegnum uppstokkun til að bæta stöðu sína, ná traustari stöðu sem konan á vaktinni.
Hlutverk forsetafrúar Bandaríkjanna hefur lengst af verið hið sama. Þar er jafnan konan við hlið eiginmannsins sem sér um heimilið og hlúir að forsetabústaðnum. Á þessu hafa þó verið undantekningar. Nancy Reagan og Hillary Rodham Clinton voru konur sem höfðu mikil pólitísk áhrif á forsetavakt. Verði Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna og stenst prófið mikla bætist hún í þann flokk en verður ekki forsetafrú ala Laura Bush.
![]() |
Michelle Obama ræðir fjölskylduna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2008 | 22:42
Flokksþing demókrata í Denver: 1. dagur
Flokksþing demókrata hófst fyrir stundu í Pepsi Center-íþróttahöllinni í Denver í Colorado. Þetta er í fyrsta skiptið í heila öld, eða frá árinu 1908, sem demókratar funda þar í aðdraganda forsetakosninga. Þar hittast 4500 þingfulltrúar til að stilla saman strengi fyrir forsetakosningarnar þann 4. nóvember nk, eftir slétta 70 daga, og útnefna Barack Obama formlega sem forsetaefni flokksins á fimmtudag.
Bandarísku flokksþingin eru miklar fjölmiðlasamkomur, leikstýrðar eins og þaulæfðasta leiksýning og minnir frekar á óskarsverðlaunaafhendingu en stjórnmálasamkomu. Þar er engin málefnaumræða, eins skondið og það hljómar rétt fyrir mikilvægar forsetakosningar, en mun frekar halelúja-samkoma fyrir forsetaefni flokksins, til að kynna persónu hans, áherslur og afstöðu til lykilmála.
Á flokksþingum eru öll hin minnstu smáatriði æfð og fundurinn fer fram eftir handriti sem leikstjórar væru stoltir af að vinna eftir, enda allt í sínum skorðum. Þannig að þetta er ekki stjórnmálavettvangur með beinskeyttri umræðu heldur mun frekar söluherferð á frambjóðandanum og til að tryggja að flokkurinn fari sterkur til kosninganna og að tryggja markaðsherferð fyrir forsetaefnið. Auðvitað snýst þetta allt um stjórnmálabaráttu í grunninn en er mun frekar eitt allsherjar show.
Í dag snýst allt um að kynna fjölskyldumanninn Barack Obama og færa flokksmönnum og landsmönnum mildu ásýndina á honum. Þar verður reynt að tala gegn þeim sögusögnum að Obama sé snobbaður elítumaður sem líti niður á annað fólk og sé fjarlægur alþýðufólki. Fjallað verður um æskuár hans, hjónabandið, eiginkonuna, börnin og hvernig Obama varð að stjórnmálamanni og náði að verða fyrsta þeldökka forsetaefnið í bandarískri stjórnmálasögu.
Förum yfir nokkra lykilpunkta fyrsta dagsins.
- Michelle Obama, eiginkona forsetaframbjóðandans, er aðalræðumaður kvöldsins. Hún reynir í tilfinningaríkri og fjölskylduvænni ræðu sinni að mýkja ekki aðeins ímynd eiginmanns síns, heldur sína eigin. Skv. könnunum er Michelle mun umdeildari í hugum bandarískra kjósenda en Cindy McCain og skaddaðist ekki síður af Wright-málinu en eiginmaður hennar.
- Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, verður heiðraður. Kennedy greindist með heilaæxli í maí og er í meðferð vegna þess nú, auk þess að hafa farið í skurðaðgerðir. Fyrst átti Ted Kennedy að tala til flokksmanna af myndbandi en hann ákvað á síðustu stundu að mæta á svæðið, gegn ráðum lækna, og ávarpar þingið.
- Fjölskylda og vinir frambjóðandans kynna hann fyrir þinginu. Systir Barack Obama, Maya Soetero-Ng, mun tala um tengsl sín við bróður sinn og hvernig hann gekk henni í föðurstað á mikilvægu skeiði í lífi sínu. Craig Robinson, mágur frambjóðandans, mun kynna systur sína Michelle og tala um samskipti þeirra. Jerry Kellman, lærifaðir og vinur Obama, talar svo um persónu frambjóðandans.
- Auk þess tala t.d. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Jesse Jackson yngri, þingmaður í fulltrúadeildinni og stuðningsmaður Obama í gegnum þykkt og þunnt, og Claire McCaskill, öldungadeildarþingmaður í Missouri, sem studdi Obama á mikilvægum tímapunkti í baráttunni og tryggði sigur hans í fylkinu.
- Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, verður hylltur á þinginu og mannréttindabaráttu hans minnst. Carter fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2001.
Þetta er því mun frekar auglýsingmennska og markaðssetning á einum manni frekar en pólitísk rökræða. Oft er talað um að ein rödd flokksins og leiðtoga hans séu áberandi á íslenskum flokksþingum og landsfundum. Þeir sem það segja hafa greinilega ekki kynnt sér bandarísku þingin. Þar er pólitík aðeins markaðsmennska. En svona er þetta víst.
Þetta verður áhugavert og sögulegt flokksþing, enda fyrsti þeldökka forsetaefnið útnefnt og gæti markað upphafið á sögulegum þáttaskilum í bandarískum stjórnmálum eftir 70 daga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.8.2008 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2008 | 15:18
"Strákarnir okkar" fá fálkaorðuna

Fáir verðskulda slíkt betur nú en íslenska handboltalandsliðið, sem hefur unnið afrek sem verður ritað gullnu letri í íslenskri íþróttasögu. Auðvitað má alltaf velta fyrir sé hvenær sé rétt að veita fálkaorðu vegna eins atburðar en ekki fyrir ævistarf, en í þessu tilfelli held ég að enginn velti því fyrir sér. Afrekið er það mikið.
Þetta er góð breyting á því að það þurfi helst að verðlauna einstakling á gamals aldri fyrir margra ára verk sín. Finnst mikilvægt að taka upp nýja siði. Þessa orðu á að veita þeim sem skara fram úr í samfélaginu, ekki aðeins fyrir ævistarf heldur og mun frekar þá sem eru að gera góða hluti á þeim tíma. Finnst rétt líka að verðlauna hópa fólks sé tilefni til. Ef einhverntímann var tilefni til er það svo sannarlega nú og því er þetta góð stefna sem mörkuð er með þessu.
Liðið sem færði okkur ágústævintýrið ógleymanlega hefur unnið fyrir þessu og gott betur en það. Óska strákunum til hamingju með þetta.
![]() |
Fálkaorðan bætist í orðusafnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.8.2008 | 11:41
Er komið að leiðarlokum hjá Óla Stef?

Ólafur Stefánsson hefur verið burðarásinn í þessu liði, verið þar mikilvægasti hlekkurinn og leikið lykilhlutverk í frábærri liðsheild sem toppaði sig í ævintýrinu í Peking þar sem flestallt gekk upp. Við eigum öll Ólafi mikið að þakka, enda hefur hann verið stolt þjóðarinnar sem mikilvægasti maður landsliðsins árum saman og fyrirliði á stórmótum. Ekkert mun toppa þessa sigurstund í Peking, ævintýrið mikla, þar sem Ólafur var arkitektinn að árangrinum.
Ekki verður auðvelt fyrir þann sem tekur við fyrirliðabandinu af Ólafi að fara í fótspor hans, einkum og sér í lagi eftir þennan frábæra árangur í Peking. En maður kemur í manns stað. Kannski er kominn tími til að það verði kynslóðaskipti í forystunni, liðið þarf ávallt að endurnýja sig.
En við munum þó öll sjá eftir Ólafi. En sess hans í íþróttasögu landsins er og verður tryggður. Hann er einn af okkar bestu handboltamönnum fyrr og síðar.
![]() |
Kveðjuleikur hjá Ólafi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2008 | 00:28
Kapphlaupið um hver studdi landsliðið best

Finnst því frekar skondið þegar Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fer að velta því fyrir sér á bloggsíðu sinni hverjir styðji nú landsliðið best og virðist hefja einhverja bjánalega keppni á milli forsetahjónanna og Þorgerðar Katrínar um hvort þeirra styðji nú liðið betur. Finnst þetta nú frekar barnalegt og klaufalegt hjá Össuri. Báðir aðilar eiga hrós skilið fyrir að sýna liðinu stuðning og tala máli þess á örlagastundu, hvort sem það væri á vettvangi eða hér heima á Fróni, ekki síður þegar vel gengur en illa.
Veit ekki hvernig skal túlka bloggyfirlýsingar Össurar um hálfgerðan slag Dorritar forsetafrúar og Þorgerðar Katrínar menntamálaráðherra. Báðar hafa þær staðið sig vel og gert gott í sínum hlutverkum á þessum leikum. En skrýtið er að snúa því upp í einhverja keppni. Kannski hefði verið í lagi að tala svona um ferðalag Þorgerðar Katrínar til Peking í handboltaleikinn um gullið í morgun væri hún ráðherra annars málaflokks. En Þorgerður Katrín fór til að bakka upp liðið og vera fulltrúi ríkisstjórnarinnar á staðnum.
Varla þarf hún að keppa við aðra um athygli, hún fer sem ráðherra málaflokksins. Auk þess er Þorgerður Katrín nátengd handboltaforystunni. Eiginmaður hennar er einn sigursælasti handboltamaður íslenskrar íþróttasögu og var einn lykilmanna handboltaliðsins árum saman. Því er för hennar mjög skiljanleg og eiginlega ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvað Össuri gengur til með þessum skriftartiktúrum.
![]() |
Árangur Íslands skiptir miklu máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.8.2008 | 21:17
Íslenska landsliðið er sigurvegari þrátt fyrir tapið
Hitt er svo annað mál að mér finnst íslenska landsliðið vera sigurvegari dagsins. Fáir þorðu að spá okkur neinu fyrirfram, ekki einu sinni við sjálf vorum viss um gott gengi. Liðið var í erfiðum riðli með sterkum landsliðum annarra þjóða og það var ekkert öruggt. Sigurinn á Þjóðverjum og Rússum í upphafi var þó undirstaðan undir þessu mikla ævintýri. Finnst liðið allt vera stóri sigurvegarinn. Finnst erfitt að velja einhverja fáa. Svona íþróttaafrek vinnst ekki nema allir leggjist á eitt.
Finnst Guðmundur hafa gert frábæra hluti með liðið. Hann tók við því þegar enginn vildi taka verkefnið að sér. Alli Gísla hafði hætt á erfiðum tímapunkti eftir EM, þegar staða liðsins var fjarri því góð. Margir framtíðarmenn í handboltanum höfnuðu því að fóstra liðið næstu skrefin og flestir töldu þrautagöngu framundan. Sú varð raunin með Makedóníuleikana þar sem HM-sætið tapaðist. Þvílíkur bömmer. Liðið reis upp úr þeim vandræðum með afreki sínu núna.
Landsmenn allir virða þetta afrek mikils, sem er skráð gullnu letri í íþróttasögu okkar um ókomin ár þó ekki hafi tekist að koma gullinu heim á klakann. Þetta styrkir íþróttirnar í heild sinni og styrkir alla íþróttamenn í verkum sínum. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
![]() |
Töpuðum ekki gullinu heldur unnum silfur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2008 | 12:16
Silfurdrengirnir okkar - þjóðarævintýrið mikla

Þetta er auðvitað bara súrrealískt augnablik fyrir okkur öll og ekki við öðru að búast en að þjóðin sé stolt og hrærð. Eiginlega er það besta af öllu þegar heil þjóð vaknar fyrir allar aldir á sunnudegi. Þá er samstaðan algjör. Sumir eru ósáttir með að þetta var silfur. Auðvitað hefði verið gaman að vinna og fara alla leið, en við gátum ekki farið fram á meira.
Strákarnir voru búnir að toppa allt sitt og gefa okkur heilt ævintýri og við eigum að sætta okkur við að ná þó þessu. Einu sinni var sagt að enginn vildi vinna silfur, aldrei væri viðunandi að tapa. Við með okkar sögu í handboltanum, þar sem oft hefur mistekist að hampa nokkru á örlagastundu en við alltaf komist nærri sælunni sjálfri hljótum að gleðjast með þetta.
Ég er svo rosalega stoltur af strákunum og þeirra stórkostlegu frammistöðu. Held að við séum það öll. Við eigum ekki að síta að gulldraumurinn rættist ekki. Vonandi fær liðið aftur sama séns síðar og tekst að ná þessu. En við með okkar sögu eigum að gleðjast með sögulegan árangur og ég held að við gerum það öll innst inni.
![]() |
Íslendingar taka við silfrinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2008 | 09:45
Strákarnir vinna silfrið - glæsileg frammistaða
Fyrir nokkrum vikum hefðu landsmenn allir verið sáttir við það eitt að ná í bronsleikinn. Allt var þetta ótrúlegur plús, himnasæla sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Þetta er mikið afrek í íslenskri íþróttasögu og ber að fagna því sem slíku, ekki með því að leggjast í bömmer með að hafa ekki náð gullmedalíunni. Strákarnir jafna hálfrar aldar afrek Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Ástralíu árið 1956 og það er frábært afrek.
Landsliðið átti glæsilega frammistöðu á þessu móti. Voru þar bestir með Frökkum og geta verið stoltir af því sem þeir hafa verið að gera. Þó alltaf sé súrt að missa af gullverðlaunum er þetta enginn heimsendir, heldur aðeins stórsigur miðað við það sem búast mátti við fyrirfram. Í silfurverðlaununum felast tækifæri í framtíðaruppbyggingu sem vonandi verða nýtt. Nú þarf að styrkja landsliðið enn frekar í uppbyggingu komandi ára. Efniviðurinn er frambærilegur og traustur.
Og við hin sláum upp heilli þjóðhátíð næstu dagana. Við eigum að fagna ótæpilega þessum árangri, slá um veislu og traustri gleði. Og það verður fjör þegar strákarnir koma heim. Þeim verður fagnað sem þjóðhetjunum einu og sönnu.
![]() |
Ísland í 2. sæti á ÓL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2008 | 08:23
Gullna stundin - Frakkar að stinga af með gullið?
Þá er komið að úrslitastundinni hjá "strákunum okkar" í Peking. Gull eða silfur undir. Svei mér þá ef Frakkarnir eru ekki að stinga af með Ólympíugullið næsta auðveldlega. Líst ekkert á byrjunina. Frakkarnir eru einfaldlega mun betri og eru að yfirkeyra íslenska liðið.
Kannski var við því að Frakkarnir væru einum of erfiðir fyrir okkur. En það er hægt að taka þá, þrátt fyrir þessa byrjun. Vona að strákarnir komi einbeittir og hressir til leiks í seinni hálfleik og reyni sitt besta að snúa þessu við. En hvað með það, mér finnst íslenska liðið sigurvegari dagsins hvort sem það tapar eða sigrar.
Óneitanlega væri það samt sætt að fá að heyra íslenska þjóðsönginn í leikslok. Vonum það besta, þrátt fyrir að Frakkarnir séu að ná góðu forskoti í fyrri hálfleik. Ef menn eru hungraðir í gullið er hægt að taka það.
![]() |
Íslendingar lýsa upp handboltann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2008 | 08:08
Demókratateymið kynnt - vandræðaleg mismæli
Barack Obama og Joe Biden lúkkuðu vel saman á fyrsta sameiginlega kosningafundi framboðsteymis demókrata í Springfield síðdegis í gær. Þeir eiga þó mikið verk framundan. Obama hefur veikst í sessi í baráttu síðustu vikna og misst vænlegt forskot niður í hnífjafna baráttu við John McCain. Með því að velja reynsluna treystir hann undirstöður framboðsins en fórnar mörgu fyrir það, einkum breytingamaskínu sinni, enda erfitt að boða breytingar með varaforsetaefni sem hefur verið í miðpunkti valdakerfisins í Washington frá árinu 1972.
Vel fór á með þeim Michelle og Barack Obama og Jill og Joe Biden í Springfield. Þau þurfa þó að finna taktinn saman í baráttunni og koma í veg fyrir mistök. Tók eftir því að ræður þeirra voru nákvæmlega jafnlangar, 16 mínútur, og Biden var sérstaklega mælskur í orðum sínum. Væntanlega verður erfiðasta verkefnið fyrir yfirstjórn kosningabaráttunnar að passa upp á að Biden missi sig ekki í orðaflaumi og verði ekki of lausmáll og kjaftfor í baráttunni. Þó hann eigi að vera varðhundur framboðsins með sína reynslu þarf að passa upp á hann.
Enda má Obama ekki við miklum mistökum. Varaforsetavalið er hans þýðingarmesta ákvörðun á ferlinum fyrir utan sjálfa ákvörðunina að fara í framboðið á sínum tíma. Hann leggur allt undir. Finnst reyndar blasa við að hann vildi ekki velja Biden með sér, hefði mun frekar viljað fjölmarga aðra, en hann telur sig verða að passa upp á að framboðið fái traustara yfirbragð og geti tekið á öllum málum. Þar vantaði reynsluna og trausta undirstöðu í alvöru átökum, sem nóg verður af næstu 70 dagana.
Mikil reiði er í stuðningsmannahópi Hillary Clinton. Ljóst er að aldrei kom til greina af alvöru hjá Obama að velja hana. Hann horfði allan tímann í aðrar áttir. Þegar kom að því að velja reynsluna í varaforsetavalinu horfði hann framhjá öllum styrkleikum Hillary og valdi frekar gráhærðan frambjóðanda í jakkafötum án stjörnusjarma fyrir óháða kjósendur en konuna sem hlaut 18 milljón atkvæða og hefði getað tekið þetta að sér án vandkvæða.
Sumir stuðningsmanna Hillary eru ákveðnir í að sitja frekar heima en kjósa Obama eftir þetta, skv. skrifum á stuðningsmannavefi hennar og almennum spjallvefum, t.d. ireports. Nýjustu kannanir sýna að helmingur stuðningsmanna Hillary hefur ekki enn munstrað sig í lestina hjá Obama. Mikið áhyggjuefni fyrir Obama á þessum tímapunkti og svo gæti farið að valið muni koma í veg fyrir að hægt sé að ná til þessara hópa sem Obama munar um að fá.
Reyndar var rosalegt klúður hjá bæði Obama og Biden einn helsti eftirmáli þessa fyrsta sameiginlega kosningafundar þeirra. Báðir mismæltu þeir sig illa og vandræðalega. Obama kallaði Joe Biden næsta forseta Bandaríkjanna og Biden kallaði forsetaframbjóðandann því kostulega nafni Barack America. Bandaríska pressan hefur ekki talað um annað eftir fundinn og telur þetta vandræðalega byrjun á óvissuferð þeirra félaga.
![]() |
Varaforsetaefni Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.8.2008 | 17:49
Framtíðarmaðurinn í íslenska markinu

Mér fannst Björgvin sérstaklega brillera í leiknum á móti Pólverjum. Markvarslan var auðvitað bara alveg stórfengleg og hann átti lykilþátt í að landa þeim sigri að mínu mati. Þetta er því klárlega ein helsta þjóðhetjan í þeirri þjóðhátíð sem við eigum um helgina.
Fannst áhugavert að lesa sögu hans og hvernig hann reis upp úr sínu og varð sá frambærilegi íþróttamaður sem hann er, framtíðarmaður í marki íslenska landsliðsins.
![]() |
Handboltinn bjargaði honum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2008 | 15:42
Sterk staða "strákanna okkar" í úrvalsliðinu
Enginn vafi á að íslenska landsliðið er stjörnulið handboltamótsins á Ólympíuleikunum. Traustasta staðfesting þess er valið á Guðjóni Val, Óla Stef og Snorra í sjö manna úrvalslið leikanna. Algjörlega ómögulegt er að velja á milli þeirra sem bestu leikmanna handboltamótsins það sem af er og auðvitað fá þeir allir sess við hæfi.
Innilega til hamingju með þetta strákar! Svo er bara að taka þetta á morgun.
![]() |
Guðjón, Snorri og Ólafur í úrvalsliði Ólympíuleikanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2008 | 14:37
McCain auglýsir ummæli Bidens um Obama
Aðeins örfáum klukkustundum eftir að Barack Obama valdi Joe Biden sem varaforsetaefni sitt hefur John McCain sett í loftið auglýsingu þar sem spiluð eru ummæli Bidens um reynsluleysi Obama. Þetta er smellin auglýsing, heldur betur.
McCain ætlar greinilega að spila á reynsluleysi Obama áfram, enda hafa þeir eitt sagt um valið að Biden eigi að vera hjálpardekk fyrir Obama.
![]() |
Segir Obama viðurkenna reynsluleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.8.2008 | 13:27
Obama - Biden: plúsar og mínusar í stöðunni

Í dag eiga þeir sína fyrstu framboðsstund í Springfield. Eflaust munu allir með snefil af pólitískum áhuga horfa á hvernig þeir lúkka saman, gamli maðurinn og vonarstjarnan. Þetta er ekta framboðstvíeyki sem reynir að samtvinna trausta reynslu og stjörnuljóma. Veit ekki hvort það á eftir að heilla alla kjósendur, enda voru margir sem vildu fá reynslu í umbúðum stjörnuljóma, t.d. í Evan Bayh eða Hillary Rodham Clinton.
Eftir margra mánaða spár um hvern Obama veldi við hlið sér var ekki óeðlilegt að hann veldi að lokum reynsluna, honum vantaði hana sárlega og veðjaði frekar á þann hestinn sem færði honum undirstöður undir stjörnuljómann. Mér finnst þetta mjög traust val en velti því fyrir mér hvort ungu fólki muni finnast Obama sami vonarneistinn um breytingar í Washington með ekta kerfiskarl með áratuga tengsl bakvið tjöldin sér við hlið. Framboðið verður auðvitað eldra í miðri reynslunni. Ekki verða allir hoppandi sælir.
En ég held að Obama hafi metið þetta rétt að því marki að reynsluna skorti. Hann gat ekki farið á leiðarenda með framboð sem byggði eingöngu á því sem hann hafði. Breytingamaskínan varð að víkja og hann sækir í þann reynslubrunn sem Hillary Rodham Clinton reyndi að marka sér. Vissulega mjög kaldhæðnislegt, en Obama varð að gera fleira en honum gott þótti. Hefði hann haft traust forskot nú hefði hann haft frjálsari hendur með valið og örugglega frekar valið Tim Kaine eða Kathleen Sebelius.
Skiljanlega eru stuðningsmenn Hillary fúlir. En það er bara staðreyndin að Hillary kom aldrei til greina, hún hafði mikinn farangur með sér og hafði auk þess stjörnuljóma sem hefði yfirskyggt bæði Michelle og Barack Obama á árinu þeirra. Þau voru búin að ná það langt að þau vildu ekki framboð með fyrstu konunni er átti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu. Er heldur ekki viss um að Hillary hafi viljað vera varaforsetaefnið. Obama er mun veikari frambjóðandi nú en í vor og hún ætlar að bíða þetta af sér.
Hverjir eru helstir plúsarnir við Biden. Förum yfir þá.
+ Traustur talsmaður fyrir framboðið í utanríkismálum. Obama var vandræðalegur þegar hann talaði um átakamál á erlendri grundu og skorti þungann í tal sitt með sína punkta við hliðina á sér. Biden getur talað blaðalaust um helstu málefni alþjóðastjórnmála og gert það bæði með því að fanga athyglina og talað af viti. Þetta skorti Obama og þetta mat hann að lokum sinn helsta veikleika, veikleika sem varð að tækla með varaforsetaefni sem ekki talaði með því að skyggja á sig sjálfan.
+ Eldri borgarar eru mjög hrifnir af honum. Hann gæti náð til eldri borgara og alþýðuhópanna sem studdi Hillary út í rauðan dauðann í leiðarlokunum í júní. Biden er sjálfur að verða eldri borgari. Hann verður 66 ára eftir nokkra mánuði og er því sex árum yngri en John McCain. Obama skortir sárlega stuðning í þessum hópum, þeim hópi gæti Biden náð.
+ Biden er góður í pólitískum árásum og rökræðum. Getur oft verið ansi beittur og sparar sig hvergi í alvöru pólitískum slag. Getur verið kjaftfor og árásargjarn. Hann mun augljóslega eiga að tækla John McCain, starfsfélaga sinn í öldungadeildinni í rúma tvo áratugi, og passa upp á rökræðuna við repúblikana. Verður einskonar varðhundur og getur rifist við McCain um hernaðar- og utanríkismál fram og til baka.
+ Eins og allir vita hefur Delaware aðeins þrjá kjörmenn og er traust vígi demókrata svo Biden kemur ekki með neitt stórt hnoss að borðinu fyrir Obama. Hinsvegar á hann traustar tengingar til Pennsylvaníu, enda fæddur þar og bjó allt þar til hann var tíu ára. Hann gæti talað fyrir framboðinu sannfærandi bæði í Ohio og Pennsylvaníu. Annarsstaðar mun hann ekki eiga séns á að leika lykilhlutverk. Obama þarf að stóla á sjálfan sig með lykilfylkin.
+ Biden er kaþólikki. Talar þó um trúmál án þess að virka eins og trúboði.
Mínusarnir eru margþekktir. Hann er lausmáll og getur sagt of mikið á örlagastundu, hefur oftar en ekki látið ummæli falla sem hann sér eftir og gæti komið framboðinu í vandræði. Er engu skárri en Bill Clinton og John Kerry hvað það varðar að geta misst sig á viðkvæmasta augnabliki. Hann er orðinn 66 ára og mun ekki fúnkera vel með breytingamaskínu Obama og spurning hvort framboðið geti auglýst sig þannig. Hann færir ekkert traust á borðið í kjörmannapælingunum.
Hvað missir Obama hinsvegar með því að hafa ekki valið Evan Bayh ekki sér við hlið? Það er eitt og annað, sumt mjög traust sem hefði getað ráðið úrslitum. Mér finnst reyndar Obama taka mikla áhættu með því að hafa ekki valið Bayh, enda hefði hann fært honum möguleika í fylkjum og haft stjörnuljóma með reynslunni.
Förum yfir nokkur atriði um hvað Obama er að missa af án Evan Bayh.
- Hann missir möguleikann á því að vinna í Indiana. Framboð með Bayh sem varaforsetaefni hefði átt mjög góða möguleika á sigri þar. Lyndon Baines Johnson er eini demókratinn sem hefur unnið Indiana í forsetakosningum frá árinu 1936. Ég er mjög efins um að Obama - Biden teymið geti tekið Indiana og fengið þar ellefu mikilvæga kjörmenn.
- Bayh var traustur stuðningsmaður Hillary Rodham Clinton og fylgdi henni í gegnum súrt og sætt. Færði henni nauman sigur í Indiana með því að tala máli hennar dag og nótt þar. Val á Bayh hefði tryggt traustar tengingar framboðsins við Clinton-hjónin án þess þó að velja þau. Fjarri því er að algjör samstaða sé meðal demókrata. Þar eru mikil sár undir niðri. Nýjustu kannanir gefa til kynna að aðeins helmingur stuðningsmanna Hillary sé kominn um borð hjá Obama. Bayh hefði getað tæklað það.
- Bayh hefði getað náð til óháðra kjósenda og haft meiri trúverðugleika í þeim hópi. Biden hefur ekki þessa sömu útgeislun. Hann er vænlegur fyrir demókrata, trausta fylgismenn flokksins, en hann mun ekki sópa að sér miklu fylgi utan flokksins. Hans hlutverk verður því að vinna í baklandinu og tryggja trúverðugleikann. Obama mun ætla sér að sjá um óháðu kjósendurna einn en hefði getað sett Bayh í það verkefni.
- Bayh á hina fullkomnu fjölskyldu í augum Bandaríkjamanna. Hann á ljóshærða myndarlega eiginkonu og þrettán ára tvíburadrengi. Hefði verið draumamyndin fyrir demókrata að hafa tvo trausta frambjóðendur á sviðinu á flokksþinginu með börnin sín. Biden á fjölskyldu en hún er kannski of gömul fyrir draumamyndina sem á að fylgja framboðinu í 70 daga.
Svona val verður alltaf með plúsum og mínusum. Ekki verður bæði sleppt og haldið og að lokum ákvað Obama að stóla á reynsluna. Ekki óeðlilegt, enda er það eini áberandi veikleikinn sem gæti sökkt framboðinu á lokasprettinum. En það er spurningin hvort Biden mun gera nokkuð annað en passa upp á kjarnafylgið. Ekki er líklegt að hann muni marka söguleg skref í að tryggja framboðinu sigur. Hann verður á vaktinni, eins og við segjum.
Annars minnir þetta val mig mjög á það þegar Michael Dukakis, ríkisstjóri í Massachusetts, valdi reynsluna árið 1988 og valdi Lloyd Bentsen, öldungadeildarþingmann í Texas, sem varaforsetaefni sitt. Bentsen var hinn vænsti maður, traustur demókrati og færði framboðinu reynsluljómann sem undirstöðu. Samt sem áður töpuðu þeir kosningunum. Að lokum tapaði Dukakis kosningunum á reynsluleysi sínu og vandræðagangi.
En Obama valdi klettinn í hafinu, einkum fyrir flokkshagsmuni, mann sem getur verið traustur og mun aldrei ógna honum. 66 ára gamall maður sem hefur tvisvar mistekist að verða forsetaefni mun sætta sig við að fá að vera á forsetavakt með yngri manni. Hann er engin ógn og mun ekki verða forsetaefni 2012 fari svo að Obama tapi.
Kannski er það stóra ástæðan. Obama vill mann með sér sem er fókuseraður á verkefnið framundan en ekki að byggja undir sig sem forsetaefni síðar.
![]() |
Obama velur Joseph Biden |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2008 | 06:11
Obama velur Joe Biden sem varaforsetaefni
Allar helstu fréttastöðvarnar vestan hafs hafa nú fengið staðfest eftir miðnættið að Joe Biden, öldungadeildarþingmaður frá Delaware, verður varaforsetaefni Barack Obama í forsetakosningunum 4. nóvember nk. Endanleg staðfesting frá traustum heimildarmönnum kemur áður en Obama tilkynnir formlega um valið með tölvupósti til stuðningsmanna.
Biðin langa eftir því að yfirstjórn kosningabaráttu Barack Obama sendi tölvupóstinn reyndist vera einum of mikið af því góða fyrir bæði bandaríska fjölmiðla og stjórnmálaáhugamenn vestan hafs. Upphaflega áttu þetta að vera stórtíðindi til kjósenda í baklandi Obama og þeir áttu að fá forskot á ákvörðunina. Þegar pósturinn loks fer út eftir fjóra til fimm klukkutíma verða það engin tíðindi. Væntanlega munu þeir sjá eftir því að hafa ekki tekið af skarið seinnipartinn í gær þegar í raun hefði verið hægt að slá af alla umræðuna og taka frumkvæðið, enda var fyrirsjáanlegt að þetta myndi berast út um allt þegar vænlegum varaforsetamöguleikum myndi fækka.
Valið á Biden á í sjálfu sér ekki að vera nein pólitísk stórtíðindi. Hann hefur mjög mikla reynslu í utanríkis- og varnarmálum og getur fært Obama styrkleika í þeim málaflokki þar sem hann er veikastur fyrir. Augljóslega hefur Obama metið það sem svo að hann þyrfti að fá mann við hlið sér með mikla reynslu til að vega upp víðtækt reynsluleysi sitt á mörgum sviðum, einkum í alþjóðastjórnmálum. Með Biden sér við hlið fær Obama á sig blæ reynslunnar og bætir upp fyrir marga veikustu punkta hans í kosningabaráttunni.
Greinilegt er að Obama hefur metið það meira að hafa mann sér við hlið sem gæti tæklað lykilmálin og fært reynslublæ yfir það, en velja einhvern sem myndi hjálpa honum við að vinna lykilfylkin. Með þessu er Obama í raun að treysta á eigin stjörnuljóma einvörðungu. Biden gæti lagt honum lið í umræðunni. Hann færir honum hinsvegar engin fylki í baráttuna né heldur alvöru kraft til þess að ná óákveðnum á sitt band, enda ekki beinlínis traustasti fulltrúi demókrata til að boða breytingaboðskap Obama í allri baráttunni.
Biden hefur verið í öldungadeildinni nærri alla sína starfsævi. Hann var kjörinn á þing þrítugur að aldri og hefur verið eigin herra í mörg ár. Nú verður hlutverk hans að styrkja undirstöður kosningabaráttu manns sem var aðeins ellefu ára þegar hann tók sæti í öldungadeildinni og hefur reynslu sem hverfur í skugga alls þess sem hann hefur nokkru sinni gert. Framundan er áhugaverð barátta þar sem Obama og Biden ná taktinum.
Hlakka til að sjá hvernig þetta teymi fer í kjósendur. Hvort það nái marktækri uppsveiflu fyrir flokksþingið og áður en þeir flytja ræður sínar í Denver á miðvikudag og fimmtudag. Obama hefur þarna tekið sína þýðingarmestu ákvörðun í allri baráttunni. Hann leggur mikið undir með að velja ekki frambjóðanda sem leggur honum lið við lykilfylkin en á að fókusera sig nær eingöngu að því að skapa framboðinu trúverðugleika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2008 | 01:24
Kastljósið beinist að Biden - fjölskyldan hittist

Æ líklegra verður með hverri stundinni sem líður á þessu kvöldi að Joe Biden, öldungadeildarþingmaður í Delaware, verði varaforsetaefni Barack Obama og hafi fengið formlega tilkynningu um það, eftir fyrri kjaftasögur um að Evan Bayh hefði verið valinn. CNN sagði fyrir stundu að fjölskylda Biden væri að koma saman á heimili þingmannsins í Delaware, lögreglulið er komið á svæðið og flest bendir til að hann sé á leiðinni til Illinois.
Vefmyndavélin á fréttavef CNN sem hefur verið beint að heimili Biden í allan dag virðist vera að koma upp um hvern Obama hefur valið. Lítil sem engin hreyfing var í kringum húsið mestan part dagsins og þegar rökkva tók voru fyrst litlar breytingar. Um áttaleytið í kvöld að staðartíma tóku hinsvegar fjöldi bíla að koma að húsinu og er nú ljóst að eiginkona Bidens er í húsinu, ennfremur dóttir hans og sonur og nánustu ráðgjafar hans.
Vel má vera að þetta sé enn eitt falsljósið á þessu kvöldi þegar allir bíða eftir að hulunni verði svipt af varaforsetaefninu en þó líklegra að Biden sé að tilkynna fjölskyldu sinni um hvert stefni. Á meðan öll ljós eru kveikt á heimili Bidens í Delaware er ekkert að gerast við heimili Bayh og Kaine, sem NBC fullyrti fyrir stundu að yrðu ekki fyrir valinu.
Spennandi klukkutímar framundan. Líklega mun tölvupósturinn margumræddi ekki verða þau stórtíðindi með morgni eins og allt benti til að hann yrði. Hver veit?
Rifjum upp plúsa og mínusa Joe Biden, úr grein fyrr í vikunni, fyrst að hann virkar allt í einu líklegasti valkosturinn af þeim þrem sem helst hefur verið nefndur.
Joe Biden
+ Með mikla og víðtæka þekkingu, einkum í utanríkismálum, er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar og komið til greina sem utanríkisráðherra fyrir demókrata. Verið þingmaður í öldungadeildinni fyrir Delaware síðan Obama var ellefu ára, árið 1973. Enginn efast um víðtæka reynslu hans og á hann er hlustað. Er þungavigtarmaður sem myndi færa Obama styrkleika í lykilmálaflokkum, sem honum vantar sárlega.
- Verið mjög lengi hluti af valdakerfinu í Washington, verið þar í innsta hring í hálfan fjórða áratug, síðan í forsetatíð Richards Nixon, og talinn táknmynd liðinna tíma af sumum, þó hann sé traustur að mörgu leyti. Gæti skaðað boðskap Obama um breytingar í DC. Er talinn lausmáll og gæti gefið höggstað á sér og framboðinu. Delaware hefur aðeins þrjá kjörmenn og skiptir ekki máli í kjörmannapælingum. Hefur ekki unnið undir stjórn annarra í marga áratugi. Er sex árum yngri en McCain, 66 ára síðar á árinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2008 | 00:41
Verður Joe Biden varaforsetaefni Obama?

Skömmu eftir að fregnir tóku að berast um að Evan Bayh yrði varaforsetaefni Barack Obama var það skotið niður af enn traustari heimildarmönnum. Þar er fullyrt að bæði Bayh og Tim Kaine hafi fengið símtöl fyrir nokkrum klukkutímum frá Obama þar sem þeim var tilkynnt að þeir hefðu ekki orðið fyrir valinu. Merkileg lok á þeirri fléttu að Evan Bayh hefði verið valinn og vitnað í að verið væri að prenta efni með nöfnunum þeirra.
Þar sem þeir eru báðir úr sögunni er eðlilegt að velta tvennu fyrir sér. Obama hefur skv. þessu ákveðið að velja ekki þann sem hafði engar tengingar við valdakjarnann í Washington en hefði getað fært honum sigur í Virginíu næstum því á silfurfati né heldur þann sem hefur traustar tengingar við Hillary Rodham Clinton og í miðvesturríki Bandaríkjanna. Merkilegar staðreyndir sé þetta rétt.
Eftir stendur stóra spurningin; hefur Obama ákveðið að velja reynslu í utanríkismálum eða traustasta kostinn, þann að velja sjálfa Hillary Rodham Clinton sem varaforsetaefni. Eftir allt tal dagsins um að Hillary komi ekki til greina og hafi ekki verið á lista Obama er líklegra að Biden hafi orðið fyrir valinu.
Biden er traustur í utanríkismálum og hefur mikla reynslu. En getur hann farið fram undir slagorðinu "Change we can believe in"? Varla, eða hvað. Auðvitað þarf Obama að gera fleira en gott þykir og utanríkismálin eru mikill veikleiki fyrir hann.
En eðlilegt er að velta því fyrir sér hvort Hillary eigi virkilega séns. Hann hafi ákveðið að velja traustasta valkostinn, þó hann sé ekki sá sem hann hafi akkúrat viljað. Geri þar með hið sama og Kennedy er hann valdi Johnson 1960.
Eða mun hann kannski velja Chet Edwards og gera það sem engum hefði órað fyrir. Velja einhvern nær algjörlega óþekktan og stóla algjörlega á stjörnusjarma sinn og styrk. Það væri óvænt en kannski einum of djarft.
Hvað með það. Sögusagnirnar eru orðnar óteljandi og erfitt að átta sig á hverju skal trúa. Hitt er þó ljóst að mjög stutt er í tilkynningu. Hún kemur ekki úr þessu í kvöld og mun væntanlega koma í bítið.
Með því fær varaforsetaefnið nokkra klukkutíma í sviðsljósi fjölmiðlanna áður en haldið verður í flugferðina til Illinois á fyrsta kosningafund framboðsins undir nýjum formerkjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2008 | 22:49
Óstaðfest: Barack Obama velur Evan Bayh

Fyrir stundu tóku traustar sögusagnir að leka út um að Barack Obama hefði valið Evan Bayh, öldungadeildarþingmann í Indiana, sem varaforsetaefni sitt. DrudgeReport hefur nú pikkað þetta upp og birt og nefnir starfsmenn sem vinna á þessari stundu að því að framleiða spjöld með nöfnum þeirra fyrir kosningafundinn í Illinois á morgun sem heimild.
Enn hefur Obama ekki sent út hinn margumrædda tölvupóst með formlegri tilkynningu. Því er þetta óstaðfest. Í allan dag hef ég reyndar fengið á tilfinninguna að Evan Bayh yrði varaforsetaefnið. Spáði því í skrifum hér í gær. Bayh hefur svo margt með sér að valið á honum er bæði rökrétt og traust fyrir Barack Obama á þessum tímapunkti.
Í skrifunum í gær rakti ég plúsa og mínusa Bayh. Förum yfir þá svona í svipinn:
Evan Bayh
+ Traustur valkostur í tæpri baráttu, unglegur og myndarlegur en samt hokinn af reynslu; verið í öldungadeildinni frá 1999 en þar áður ríkisstjóri í Indiana tvö tímabil. Studdi Hillary í forkosningaferlinu og tryggði henni nauman sigur í Indiana og gæti leikið lykilhlutverk í að græða sárin milli fylkinganna, sem enn eru til staðar. Með trausta stöðu í miðvesturríkjunum sem munu jafnvel ráða úrslitum. Gæti fært Obama sigur í Indiana, ellefu kjörmanna fylki sem repúblikanar hafa unnið í öllum kosningum frá 1936, nema einum, auk þess leikið lykilhlutverk í Ohio og Iowa. Myndi ekki skyggja á Obama.
- Studdi innrásina í Írak og allar helstu ákvarðanir Bush-stjórnarinnar í hinu umdeilda stríði áður en það hófst og á fyrstu stigum þess. Hefur ekki gengið í takt með Obama í málefnum Írak allt frá upphafi og gæti valið á honum vakið spurningar um hvort þeir séu samstíga og sammála í utanríkismálum. Gæti talist litlaus þrátt fyrir stjörnusjarmann og einum of fyrirsjáanlegur kerfiskarl. Verið í öldungadeildinni í rúman áratug og myndi fúnkera illa með breytingamaskínu Obama.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2008 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)