Tæpt var það... en hafðist hjá landsliðinu

Úr leiknum Mér fannst íslenska landsliðið heppið með að ná jafntefli við Egypta. Liðið var undir meginpart leiksins og stefndi lengst af í háðuglegan ósigur fyrir botnliðinu í riðlinum. Þetta hafðist á síðustu sekúndunum en ekkert meira en það. Þetta voru viss vonbrigði fyrir landsmenn eftir ágætis kafla í leik liðsins, en vörnin var meira og minna í rusli í leiknum.

Liðið hefur tekið miklar dýfur í leik sínum og varla við öðru að búast en að þjóðin taki þær dýfur með liðinu, enda er liðið stolt okkar á sigurstundum og bömmerinn í vonbrigðum liðsins fylgja þjóðinni. Mestu skiptir nú að fá góðan andstæðing í átta liða úrslitunum og vonandi tekst að komast í undanúrslitin og spila til verðlauna.

En þetta var allavega spennandi leikur og það er mest um vert að þjóðin fylgi liðinu, meira að segja með andvökunóttum á kínverskum tíma. En ég er viss um að stór hluti þjóðarinnar hafi reynt að kalla yfir höfin til liðsins og þar hafi einkum vörnin verið skotspónninn.

Vörnin var veikasti hlekkur liðsins og þar er ástæða þess að sigur náðist ekki. Þetta hafðist fyrir horn, enda hefði tap fyrir Egyptum verið mjög vandræðalegt, einkum eftir að liðið tók Rússa og Þjóðverja.

mbl.is Aftur gerði Ísland jafntefli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svanasöngur Ledgers - framtíð Matildu

Matilda og Heath LedgerEnginn vafi leikur á því að leikarinn Heath Ledger er stjarna kvikmyndanna á þessu sumri, hálfu ári eftir lát sitt. Hann sló í gegn sem Jókerinn í The Dark Knight og lifir í huga fólks, út fyrir dauða og gröf. Talað er um að hann fái tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Þrátt fyrir að Ledger hafi dáið ungur og ekki enn náð hátindi sinnar frægðar virðist stjörnusess hans bæði óumdeildur og tryggur á komandi árum. Hann er orðinn goðsögn.

Þó að hlutverk Jókersins sé síðasta stjörnurulla Ledgers eigum við enn eftir að sjá hann einu sinni enn á hvíta tjaldinu, í hlutverki Tony í The Imaginarium of Dr. Parnassus. Mikið verk var eftir við gerð myndarinnar þegar Ledger lést í janúarmánuði og hún í raun aðeins hálfköruð. Mér finnst það virðingarvert að myndin verði kláruð með því að breyta handritinu og söguþræðinum með því að persóna Heath persónugerist í öðrum leikurum, þeim Johnny Depp, Colin Farrell og Jude Law.

Með þessu er hægt að heiðra minningu Ledgers og um leið færa okkur eina mynd í viðbót með honum, þó hún verði auðvitað aldrei eins öflug og traust eins og hún hefði orðið fullkláruð með Heath Ledger, jafn dýnamísk og traust og t.d. The Dark Knight. En það sem mér finnst merkilegast af öllu er að leikararnir ætli að færa einkadóttur Ledgers laun sín við gerð myndarinnar og með því í raun ánafna honum bæði verk sitt og afrakstur þess, enda verður myndin augljóslega kynnt sem svanasöngur Ledgers.

Mikið hefur að undanförnu verið rætt um framtíð Matildu Ledger, í kjölfar þess að erfðaskrá föður hans var opinberuð. Erfðaskráin var gerð fyrir fimm árum, áður en hann tók saman við Michelle Williams og eignaðist einkadótturina. Dóttirin er því arflaus og fær ekkert eftir föður sinn nema þá að afi hennar og amma, sem erfa allar eigur leikarans, ákveði að veita henni einhverja peninga. Reyndar hefur komið í ljós að hann lét ekki eftir sig digra sjóði fjár og eigna.

Ledger dó ungur og áður en hann náði hátindi frægðar sinnar, sem var reyndar í sjónmáli þegar að hann dó með tækifærum sem fylgja stjörnurullum í góðum kvikmyndum. Eftir að hann var tilnefndur til óskarsverðlaunanna fyrir Brokeback Mountain tveim árum virtust honum allir vegir færir og þá fyrst öðlaðist hann virkilega stöðu í bransanum.

Enn virðist deilt bakvið tjöldin um peningana eftir Ledger. Hann hafði ekki ákveðið að breyta erfðaskrá sinni eftir að eignast barn - hefur væntanlega talið að nógur yrði tíminn til að ákveða þau mál. Hann var ungur og greinilega taldi ekki þörf á að lista upp hlutina að nýju. Eftir stendur því dóttirin arflaus í erfðaskrá sem er eldri en hún.

Efast varla um að Matilda Rose Ledger muni njóta ástúðar og frægðar þrátt fyrir að faðir hennar sé fallinn í valinn. Með rausnarskap hafa leikararnir þrír fært henni undirstöðu í lífið, peninga sem nýtast henni síðar meir, ég held líka að þessir peningar verði í raun föðurarfurinn sem hún aldrei fékk.


mbl.is Dóttir Heath Ledgers fær laun þriggja leikara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt verkefni fyrir nýjan meirihluta í Reykjavík

BorgarstjórnarsalurÉg er ekki undrandi á því að kjósendur í Reykjavík séu ósáttir við stöðu borgarmálanna nú þegar fjórði meirihlutinn hefur verið myndaður á innan við ári. Ítalska staðan sem einkennt hefur borgarmálin, þar sem enginn stöðugleiki er, á aldrei að vera viðunandi og varla tíðindi að kjósendur séu ósáttir við hvernig komið er málum.

Eitt helsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Óskars Bergssonar verður ekki aðeins að vinna sín pólitísku verk úr málefnasamningi sínum heldur og mun frekar að ná trausti borgarbúa og skapa einhvern stöðugleika í hinu ítalska ástandi á þessu kjörtímabili. Meirihlutinn nýji hefur 20 mánuði til þess að vinna sín verk en ekki svo langan tíma að ávinna sér traust. Litið verður á fyrstu 100 dagana sem prófstein á hvort hann nái að fóta sig í upplausninni sem hefur einkennt borgarmálin.

Ég held að þetta verði ekki auðvelt verkefni en það eru hinsvegar allar forsendur fyrir því að það geti tekist. Hanna Birna Kristjánsdóttir, verðandi borgarstjóri, hefur nú tekið frumkvæðið, myndað meirihluta á sínum forsendum og sýnt vel að hún er í leiðtogahlutverki stærsta flokksins í borgarstjórn. Hún þarf í verkum sínum á næstunni bæði að marka sér stöðu sem borgarstjóri í aðdraganda næstu kosninga og líka sem flokksleiðtogi. Því er mikið undir í stöðunni fyrir hana og þarf meirihlutinn undir hennar forystu að ná öflugri fótfestu til þess að hún nái pólitískri stöðu fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn.

Eðlilegt er að hver meirihluti fái sinn tíma og borgarstjórinn ennfremur. Á þessum ólgutímum er eðlilegt að rót sé á fylgi og fólk sé að átta sig. Um leið þarf reynsla að komast á meirihlutann og rykið að setjast. Þá fyrst kemur marktæk mæling á stöðu mála. En þetta eru sögulegir tímar í Reykjavík. Kjósendur eru ósáttir við að stöðugleikinn er enginn. Það er mjög skiljanlegt. Nú þurfa stjórnmálamenn að sýna að þeir standi undir nafni og geti unnið sín verk af ábyrgð og festu í miðri upplausninni.


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík í Peking - glæsilegur árangur

Sigri fagnað Ekki vantaði dramatíkina þegar íslenska landsliðið tryggði sér farseðilinn í átta liða úrslitin á Ólympíuleikunum með jafntefli gegn Dönum áðan. Frábær leikur og sannarlega ekki hægt að hafa taugar í annað en fylgjast með leiknum. Glæsilegur árangur hjá okkar mönnum, mér finnst landsliðið vera sigurvegarar hvernig sem fer úr þessu, þó auðvitað verði sérstaklega sætt að ná í undanúrslitin.

Veit svosem ekki hvaða væntingar var hægt að hafa fyrir Ólympíuleikana. Eftir að liðinu mistókst að komast á HM eftir leikina við Makedónínumenn taldi ég okkur góða að geta náð þetta langt, allt annað væri plús. Taldi vera talsverða bjartsýni satt best að segja að ná sigri gegn Rússum og Þjóðverjum. Þegar það tókst jukust eðlilega væntingarnar og tapið gegn Kóreumönnum jók því spennuna enn frekar.

Jafntefli dugir og nú getum við allavega hrósað happi með að hafa átt þátt í að senda Rússana heim. Nú er bara að ná að gera sitt besta og ég óska strákunum til hamingju með árangurinn. Svona á að gera þetta!

Nú er bara að taka Egyptana og ná hagstæðum leik í átta liða úrslitunum. Og svo heldur spennan bara áfram.

mbl.is Jafntefli gegn Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagaríkt og falskt lokalag hjá Tjarnarkvartettinum

Óskar Bergsson Greinilegt er á atburðarás síðustu daga að Samfylkingin hefur verið svo uppljómuð af velgengni í skoðanakönnunum að það gleymdist að huga að þeim möguleika að Óskar Bergsson gæti orðið oddamaður í borgarmálum, rétt eins og Björn Ingi Hrafnsson áður. Boð til hans á örlagastundu um að styðja Tjarnarkvartettinn í óljósri mynd reyndist absúrd-veruleiki.

Ég held að það komi engum að óvörum að Samfylkingin hafi gleymt að huga að samstarfsaðilum í minnihlutanum og hafi blindast af eigin velgengni þar sem himnasælan virðist í seilingarfjarlægð, en samt svo fjarri, burtséð frá því hvort flokkurinn geti svo sótt það fylgi sem hann mælist með á þessum tímapunkti á hálfnuðu kjörtímabili. Þar var talið að Óskar myndi sigla með burtséð frá öllu öðru, á þeirra skilmálum en ekki öðrum atriðum í stöðunni. Oddaatkvæðið hans hafði sín áhrif er á reyndi, en ekki fyrir þá.

Ljóst er með atburðum síðustu viku að R-listinn verður ekki endurreistur, þrátt fyrir stöðuna í borgarmálunum undanfarna tíu mánuði. Samfylkingin vildi fyrir síðustu kosningar ekki jöfn valdaáhrif í R-lista fjórðu kosningarnar í röð en hafði ekki erindi sem erfiði í sjálfum kosningunum. Nú virðist Samfylkingin geta fengið betri kosningu og þess vegna er enginn áhugi á að endurmynda það samstarf. Framsóknarflokkurinn hafði verið hliðarkarakter í borgarmálunum í minnihlutasamstarfi kenndu við Tjarnarkvartettinn og sótti auðvitað sín áhrif þegar á reyndi.

Velgengni í könnunum og niðurstaða í kosningum þarf ekki alltaf að fara saman. Samfylkingin reyndi það í kosningunum árið 2006, þegar R-listinn var sleginn af vegna framavona allra aðila. Á þeim forsendum að Samfylkingin vildi drottna yfir minnihlutanum mátti eiga von á að samstaða þeirra væri engin og myndi bresta þegar á reyndi. Með því að endurreisa sig nú hefur Framsóknarflokkurinn náð aftur valdastöðu til að hafa áhrif á stöðu mála. Kannski mun sú valdastaða tryggja þeim oddastöðu aftur í næstu kosningum, hver veit.

Umræðan um Tjarnarkvartettinn hefur verið undarleg síðustu dagana. Þegar talað var um myndun meirihluta úr minnihlutatölu en með óljósum stuðningi varamanns kjörins fulltrúa sem aldrei ljáði máls á afsögn nema til að tryggja eigin valdastöðu enn og aftur náði umræðan hringnum í fáránleika. En hver veit nema fráfarandi borgarstjóri nái aftur aðalsöngrödd í hinum falska Tjarnarkvartett eftir allt sem á undan hefur gengið.

Merkilegustu tíðindi síðustu dagana felast þó í þeim veruleika að R-listinn heyrir sögunni til og verður ekki endurreistur á rústum fallinna meirihluta. Vissulega hefði atburðarás síðustu tíu mánaða getað orðið kjörstaða fyrir minnihlutaöflin til að binda sig saman í þessum glundroða en það gekk ekki upp. Það er merkileg söguleg þróun, en væntanlega hefur prímadonnustaða Samfylkingarinnar þar lykiláhrif á.

mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Ólafur F. einhverja pólitíska framtíð?

ofm1Eitthvað virðist Ólafur F. vera farinn að róast eftir mesta pólitíska hasarinn sem fylgt hefur falli meirihlutans og endalokum borgarstjóraferils hans, ef marka má viðtalið við Þóru Kristínu. Hann ætti þó að fara að líta í eigin barm til að gera upp fall meirihlutans, enda á hann stóran þátt í hvernig fór.

Enda er það ekki trúverðugt að heyra afsakanir hans og fullyrðingar um stöðu mála, eftir að við höfum fylgst með einleik hans og sólóspili undanfarnar vikur. Sjálfstæðisflokkurinn fól honum mörg trúnaðarverkefni og treysti honum, held að ekki verði deilt um það. Hinsvegar er greinilegt að þetta þróaðist í þá átt að hann spilaði æ meira einn og án samráðs, sem hafði úrslitaáhrif á framhaldið.

Held að flestir séu sammála um það að pólitísk staða Ólafs F. Magnússonar sé mjög veik nú þegar hann skilar af sér lyklunum að borgarstjóraskrifstofunni og þarf að fóta sig í minnihluta að nýju. Það er mikið fall og ræðst mikið af því hvernig hann nær að vinna sig út úr því að hafa með einleik klárað þennan meirihluta.

Varla hafa margir trú á að F-listi síðustu tveggja kosninga rísi upp óbreyttur og sameinaður að baki Ólafi F. Er einhver heil brú eftir á milli Margrétar Sverrisdóttur og Ólafs F. til að vinna saman? Stóra spurningin er hvað verði um Ólaf F. sem stjórnmálamann í kjölfarið. Mun hann nú stökkva inn í leifarnar af Tjarnarkvartettinum eins og ekkert hafi í skorist?


mbl.is Borgarstjóri mætir í Ráðhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg afstaða - Marsibil vill frekar minnihluta

Marsibil Sæmundardóttir Erfitt er að skilja þá afstöðu Marsibilar Sæmundardóttur að styðja frekar pólitíska ævintýrafyrirbærið Tjarnarkvartettinn en meirihluta sem hennar flokkur stendur að í Reykjavík. Með því styður hún frekar aðra flokka en eigin og virðist vera að segja skilið við Framsóknarflokkinn. Erfitt er að líta öðruvísi á málið. Hún hlýtur að þurfa að skýra sitt mál við bakland Framsóknarflokksins betur en svo að halda í absúrd veruleika, fyrirbæri sem hefur engan meirihluta.

Marsibil hlýtur að hafa látið tilfinningar ráða för í upphafi þegar hún batt trúss sitt við minnihluta sem er og verður ekkert annað en minnihluti. Allir draumórarnir að mynda meirihluta með Ólafi F. Magnússyni eða varamanni hans, vinkonu hans Margréti Sverrisdóttur, voru byggðir á mjög veikburða sandrifi og dæmdir til að mistakast. Allt talið um að Ólafur F. vildi hliðra til fyrir henni hafa reynst ósannar og var ekkert annað en spuni vinstrimanna. Eftir stendur því pólitískt samband til vinstri án nokkurrar fótfestu.

Sú afstaða Marsibilar að vera frekar áfram í minnihluta en endurreisa samstarf við Sjálfstæðisflokkinn er því mjög sérstök, svo ekki sé nú meira sagt. Sjálfstæðisflokkurinn sleit ekki samstarfi við Framsóknarflokkinn fyrir tíu mánuðum en nú hafa flokkarnir náð saman aftur og komið málum á þann reit sem meirihlutinn var á fyrir REI-málið. Í því felast tækifæri sem á að nýta. Að Marsibil vilji frekar vera hluti af minnihlutanum við þær aðstæður að enginn var annar meirihlutinn til að taka við er því eins og hvert annað absúrdleikhús.

Ég yrði ekki hissa þó að erfitt yrði fyrir Marsibil að halda áfram pólitísku starfi fyrir Framsóknarflokkinn eftir að hún tekur þessa afstöðu. Það sést einna best í þessari kómísku frétt um stöðuna sem blasir við Marsibil, þegar hún vaknar upp við þá martröð að það var bara sýndarveruleiki að Tjarnarkvartettinn væri eitthvað annað en nafn á blaði, með eða án læknisins.

mbl.is Marsibil styður ekki nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr meirihluti - nýju tækifærin í Reykjavík

Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir Þá hefur fjórði meirihlutinn í Reykjavík á innan við ári verið myndaður og mál nú komin á upphafsreit, áður en REI-málið klauf sextán mánaða meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hanna Birna Kristjánsdóttir, verðandi borgarstjóri, og Óskar Bergsson, verðandi formaður borgarráðs, voru sæl og glöð, umfram allt þó ákveðin í að standa sig vel, á blaðamannafundi fyrir stundu.

Tel þetta besta kostinn í stöðunni. Þessi meirihluti var það sem kom út úr síðustu kosningum og fór af stað af krafti og hafði gert góða hluti áður en hann hrökklaðist frá í moldviðrinu og látunum sem fylgdu deilum um Orkuveitu Reykjavíkur. Nú fá flokkarnir tækifæri, sumir myndu kalla það hið gullna tækifæri, að gera betur og reyna aftur við það að stýra málum rétta leið og taka farsælar ákvarðanir án hiks og málalenginga.

Áður en kom að REI-málinu var ekki mikið sem skildi flokkana að og samstarfið gengið vel. Nú ætti að vera hægt að halda þeim verkum áfram, nú með nýju upphafi þar sem báðir leiðtogar flokkanna hafa tekið við forystunni á síðustu mánuðum, eftir að Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson viku til hliðar, Björn Ingi fór í fjölmiðla og Vilhjálmur gaf eftir leiðtogastöðuna og tilkynnti að hann færi ekki fram aftur. Því ætti að vera hægt að leiða mál áfram með betri hætti og fá aðra nálgun á það.

Hef mikla trú á Hönnu Birnu og hef alltaf haft. Hún er öflug og traust kona, sem hefur alla tíð verið farsæl og ákveðin í sínum störfum. Henni fylgir ekki hik og óákveðni. Nú hefur hún fengið tækifærið til að taka atburðarásina í sína hendur, marka sig sem sterkan leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á eigin vegum og mynda meirihluta á sínum forsendum, ekki annarra sem leiddu mál í meirihlutagerð með Ólafi F. Magnússyni, meirihluta sem var andvana fæddur frá fyrsta degi.

Vonandi verður endurmyndað samstarf upphafið á nýju og góðu. Til hamingju Reykvíkingar með að fá góða og glæsilega konu sem borgarstjóra, fyrsta kvenkyns sjálfstæðisborgarstjórann frá því Auður Auðuns var borgarstjóri fyrir hálfri öld.

mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. hafnaði Tjarnarkvartett - ósannur spuni

Ólafur F. og MargrétÉg sagði í bloggfærslu minni fyrr í dag að orðrómur um að Ólafur F. Magnússon vildi víkja fyrir Margréti Sverrisdóttur væri ósannur og vitnaði í sögusagnir sem ég hafði heyrt. Enda hefði það verið kostulegt ef Ólafur F. hefði endað á að segja af sér og upphefja Margréti eftir allt sem á undan er gengið þegar hún vildi ekki styðja hann sem borgarstjóra.

En annars skiptir þetta uppgjör og spunamennska vinstrimannanna í minnihlutanum litlu sem engu máli. Þau munu ekki verða aðalleikarar í því sem tekur við. Nýr meirihluti er að fæðast án aðkomu þeirra og Tjarnarkvartettinn mun ekki endurfæðast við völd að nýju.

Hann gafst upp í janúarmánuði og vandséð hvernig eigi að vera hægt að endurnýja þau heit á þeim rústum sem þá urðu. Auk þess væri Ólafur F. Magnússon með afsögn úr borgarstjórn að gefa þeim í minnihlutanum sem mest hafa ráðist að honum allt frá borgarstjórnarfundinum þar sem hann var kjörinn borgarstjóri sigur í þeirri rimmu sem hann hóf sjálfur með því að slátra Tjarnarkvartettinum.

Það verða margir stjórnmálaspekingar og fræðingar sem munu keppast um síðar meir að skrifa sögu þessa kjörtímabils í stærsta sveitarfélagi landsins. Sagan af borgarstjóraferli Ólafs F. verður örugglega sérstök og enn sérstakari ef svo hefði farið að hann hefði skrifað sig þar út og hleypt Margréti inn eftir vinslit þeirra.


mbl.is Bera til baka fréttir um Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. tilbúinn til að kvitta upp á eigið klúður

Ólafur F. MagnússonMér finnst það mjög kómískt að Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, hafi verið tilbúinn til að skrifa upp á eigið klúður í embætti með því að afsala sér borgarfulltrúasætinu til að reyna að endurvekja Tjarnarkvartettinn sáluga, sem hann sjálfur slátraði. Þetta er held ég besti pólitíski brandari ársins, burtséð frá mörgu öðru fyndnu.

En ég held að rétt sé að vorkenna Ólafi F. nú þegar hann missir borgarstjórakeðjuna. Hann hefur spilað svo ævintýralega rassinn úr buxunum með verklagi sínu að undanförnu að leitun er að öðru eins. Fyrst henti hann Ólöfu Guðnýju út úr skipulagsráði, svo ræður hann Gunnar Smára í óljós verkefni undir formerkjum Dægradvalar og svo þegar hann hefur misst allt býðst hann til að upphefja Margréti Sverrisdóttur.

Þvílíkt og annað eins - er þetta ekki efni í sápuóperu um ástir og pólitísk örlög frjálslyndra og óháðra, hvað svo sem sá hópur heitir annars frá degi til dags. En ætlar Ólafur F. að axla sín pólitísku skinn með því hvernig hann spilaði sig út úr borgarstjóraskrifstofunni og afhenda Margréti Sverrisdóttur sætið eða er þetta bara pólitískur leikaraskapur?

Hversu einlægt eða trúverðugt þetta boð Ólafs F. Magnússonar um afsögn telst mun eflaust ráðast. Mínir heimildarmenn innan Sjálfstæðisflokksins telja þetta uppspuna og auglýsingabrellu hjá leifum Tjarnarkvartettsins. En beðið er nú yfirlýsingar borgarstjórans fráfarandi um framtíð hans í borgarmálunum sem greinilega er í óvissu ef þessi orðrómur er réttur, burtséð frá því að hann er að missa borgarstjórastólinn.

Mikið væri það nú fyndið ef hann myndi nú standa við fyrra boð og leyfa Margréti að klára kjörtímabilið. Eða ætlar hann að sitja sem áheyrnarfulltrúi í borgarráði?


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn sprunginn - Hanna Birna borgarstjóri

ÓlafurFHanna
Nú hefur endanlega verið staðfest að meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og F-lista í borgarstjórn Reykjavíkur er lokið eftir 204 daga við völd. Heimildir herma, þó þær hafi ekki verið staðfestar, að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi handsalað samning við Óskar Bergsson og verði næsti borgarstjóri í Reykjavík, sá tuttugasti í röðinni og fjórði á innan við ári. Þetta verður fjórði meirihlutinn á tíu mánuðum við völd, sannarlega sögulegt tímabil í borgarmálunum.

Með þessu eru borgarmálin komin á upphafsreit fyrir deilur um REI-málið. Sama samstarf og var við völd í sextán fyrstu mánuði kjörtímabilsins endurreist, en auðvitað án Björns Inga Hrafnssonar. Þó þetta samstarf verði veikara en hitt í atkvæðafjölda verður það sterkara en ella, enda verður með því hægt að þoka málum áfram og taka skynsamlega afstöðu til fjölda mála sem hafa verið í gíslingu í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar.

En auðvitað er stöðugleikinn enginn í borgarmálum. Stærsta verkefni Hönnu Birnu og Óskars Bergssonar verður umfram allt að ná trausti við borgarbúa og reyna að tryggja stöðugleika við stjórn borgarinnar í því ítalska ástandi sem mun þó óhjákvæmilega verða meginpunktur þessa sögulega kjörtímabils.


mbl.is Nýr meirihluti að fæðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutasamstarfinu við Ólaf F. slitið síðar í dag

Meirihluti kynntur í janúar 2008 Síðustu daga hefur verið beðið eftir hinu óumflýjanlega; sjálfstæðismenn slíti samstarfinu við Ólaf F. Magnússon. Það mun gerast síðar í dag. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur gefist upp á samstarfinu og heldur í aðrar áttir. Enda hefur borgarstjórinn farið langt út fyrir sín mörk með ákvörðunum sínum og misboðið sjálfstæðismönnum með verklagi sínu.

Þessi meirihluti hefur allt frá upphafi verið mjög veikur og ekki til stórræðanna. Því koma endalokin varla að óvörum. Þegar menn eru farnir að hlaupa upp og niður stiga og fara huldu höfði til að sleppa við að mæta fjölmiðlamönnum er ljóst að endalokin eru ekki langt undan. Þetta er orðið allt mjög sérstakt og reyndar er niðurlægingartímabil borgarfulltrúa í Reykjavík orðið algjört og afleitt ef mynda þarf fjórða meirihlutann í þessu ítalska ástandi.

En það er ábyrgðarhluti fyrir sjálfstæðismenn að halda þessu áfram og bera ábyrgð á Ólafi F. Magnússyni sem borgarstjóra í Reykjavík. Það er ekkert eftir í þessu samstarfi sem réttlætir að hann sitji sem borgarstjóri í umboði sjálfstæðismanna eða annarra ef út í það er farið.

mbl.is Borgarfulltrúar segja fátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggskrifin halda áfram

Ég hef ákveðið að halda áfram skrifum á Moggabloggið. Eftir mikla umhugsun tel ég ekki rétt að fara héðan og hef ákveðið að skrifa áfram með þeim hætti sem verið hefur í 23 mánuði. Önnur verkefni mín munu ekki hafa áhrif á það og því verður vefurinn með þeim hætti sem verið hefur síðustu tvö árin. Mér hefur þótt vænt um þennan vettvang og það sem ég hef skrifað hér og vil halda því áfram.

Fyrst og fremst þakka ég góð orð um mig og vefinn síðustu daga. Þykir vænt um það og finnst réttast að fara hvergi við þær aðstæður sem hafa skapast síðustu dagana. Mun því halda áfram með vefinn.


Glæsilegur sigur - heimsmeistararnir fá skellinn

Sætur sigur Alveg var það nú yndislegt að sjá landsliðið taka heimsmeistara Þjóðverja áðan - traustur og góður sigur, sem var eiginlega aldrei í hættu. Endaspilið var stórfenglegt og strákarnir sýndu úr hverju þeir eru gerðir og hvað þeir virkilega geta.

Þessi sigur og gegn Rússunum ætti að vera vitnisburður þess að þetta er lið sem getur gert góða hluti og getur vel yfirstigið sín vandamál. Strákarnir tóku sig saman í andlitinu eftir Makedóníuleikina og sýndu okkur að þeir geta þetta alveg.

Flott, óska þeim innilega til hamingju með góðan árangur.

mbl.is Ísland fór hamförum gegn Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vemma í Peking - of ljót fyrir kínverska fullkomnun

olympics beijing1Eiginlega kom það mér ekki á óvart að stúlkan sem söng við setningarathöfn Ólympíuleikanna hefði mæmað. Sú sem söng í alvöru þótti víst ekki vera nógu falleg fyrir fullkomnunaráráttuna sem einkenndi hátíðina. Vissulega var hátíðin falleg og vel gerð, en mér fannst hún yfirmáta vemmuleg. Þessu var þrykkt framan í mann eins og eldibrandi.

Eitt er að vilja gera hlutina fullkomið og yfirvegað, annað að missa yfirsýn og gera hlutina of vel til að reyna að hjúpa allt sem að er. Kínverjar vissu að þeir þyrftu að gera magnað "show" til að heimsbyggðin myndi eina örskotsstund gleyma því að þessi mikla friðarhátíð íþróttanna væri komið með lögheimili í grimmu einræði, þar sem skoðanakúgun og valdníðsla er algjör. Því varð allt að vera yfirmáta fullkomið og við það tapaðist einlægnin sem á að vera grunnur alls.

Auðvitað var aldrei hægt að búast við að Kínverjar gætu gert þetta einlæglega. Margt var vel gert en þegar vantar sanna einlægni og notalegheit í verkið, hina traustu tilfinningu, þá verður allt annað svo væmið. Þetta er svona eins og að gúffa í sig heilli rjómatertu með yfirmáta þykku lagi af rjóma og glassúrkenndu bragði. Hún er eflaust góð en of mikið af henni fær mann til að fá ógleðistilfinningu. Sama var um þessa setningarathöfn. Allt einlægt vantaði í hana. Fannst svo toppur alls vera þegar hermenn gengu með fánann.

Annars skil ég ekki hvers vegna Ólympíuleikarnir eru haldnir þar sem einræðið er algjört og þegnar landsins barðir áfram og kúgaðir svo að þeir verða eins og líflausir tindátar. Afleitt í alla staði. Og aumingja stelpan sem söng lagið svo fallega þótti víst ekki nógu falleg, var of ljót fyrir alla fullkomnunina. Passaði ekki í heildarmyndina. Þvílíkur sýndarveruleiki. En bjuggust menn við öðru af kommadjöflunum í Peking?

mbl.is Allt í plati í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er það orðið svart á Skaganum

Ekki er hægt annað en vorkenna þeim á Skaganum. Útlitið er vægast sagt orðið svart. Skaginn er nú í þeirri aðstöðu að spilað er upp á hvert stig. Mér finnst mjög merkilegt að svona skuli komið fyrir ÍA. Efniviðurinn var í lið sem myndi spila upp á titla en þrautaganga hefur það orðið í sumar. Ekki virðist hafa dugað það eitt að reka Guðjón, en væntanlega getur tekið nokkurn tíma að snúa vörn í sókn.

Bæði er lánleysið algjört og samstaðan dvínandi. Mikið virðist að liðinu, þar vantar að eiga nýtt upphaf. Kannski er það orðið of seint. Staðan núna er þannig að næstu lið verða öll að klúðra stórt og Skaginn að eiga meistaraleik það sem eftir lifir af sumri til að eiga séns. Efast um að það sé hægt að snúa þessu við úr þessu.

Tvíburarnir gerðu þetta fyrir tveim árum með eftirminnilegum glans. Nú virðast öll sund lokuð. Skaginn hefur verið í efstu deild síðan árið 1992, þegar að liðið vann deildina að mig minnir fimm ár í röð. Þá hafði það tekið skellinn áður og fallið um deild en kom tvíeflt til baka.

Kannski verða það örlög Skagamanna núna að falla og eiga sitt nýja upphaf í fyrstu deild.

mbl.is Stórsigur Keflvíkinga gegn lánlausum Skagamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósblátt klám eða trúardýrkun?

Eðlilegt er að spyrja sig vegna þessarar fréttar um ljósbláa klámið hvernig það geti verið rómantísk saga að lýsa því þegar níu ára stúlka giftir sig. Annars er svo margt skrifað og sagt í nafni þess að það sé lagi að kannski trúa því einhverjir í þessu tilfelli. Veit það ekki.

Hitt er svo aftur annað mál að sumir leyfa sér að segja og skrifa hvað sem er á grundvelli trúar og telja að það geti afsakað allt annað, t.d. þessa skáldsöguritun byggðri á nöprum veruleika.


mbl.is „Ljósblátt klám“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistari Isaac Hayes látinn

IsaacHayes Meistari Isaac Hayes er látinn, 65 ára að aldri. Hayes var goðsögn í lifanda lífi í tónlistarheiminum, varð einn þeirra sem mörkuðu frægð soul-tónlistarinnar í kringum 1960 og markaði sér sess allt í senn sem lagahöfundur, upptökustjóri og söngvari. Allt við Hayes var svalt og traust, hann skapaði sér sinn stíl og var í fararbroddi með verkum sínum í tónlistarsögu Bandaríkjanna.

Saga soul-tónlistarinnar verður ekki rakin nema getið sé mikilvægs hlutverks Hayes, fyrst og fremst sem upptökustjóra og lagahöfundar í upphafi, þó hann hafi sem söngvari ennfremur gert merkilega hluti. Hayes var ein traustasta stoð þeirrar tónlistarmenningar. Með Ray Charles, Arethu Franklin, James Brown, Otis Redding og Jackie Wilson lék hann lykilhlutverk.



Árið 1971 markaði hann söguleg skref þegar hann hlaut óskarinn fyrstur þeldökkra fyrir annað en kvikmyndaleik fyrir stefið í Shaft. Shaft Theme er eitt traustasta og besta kvikmyndastef allra tíma, algjörlega ódauðlegt og traust. Mér hefur reyndar alltaf fundist Shaft algjörlega frábær mynd og met hana mikils. Shaft Theme er eitt af þessum traustu óskarslögum.

Þó Hayes ætti þátt í mörgum eftirminnilegum lögum mun stefið úr Shaft lifa þeirra lengst. Sögulegur sess þess hjá bandarísku kvikmyndaakademíunni kom reyndar vel fram þegar Burt Bacharach valdi Hayes til að flytja lagið í tónlistarprógramminu á Óskarnum 2000 þar sem farið var yfir eftirminnilegustu kvikmyndatónlist sögunnar.



Yngri kynslóðirnar muna sennilega helst eftir honum fyrir þátt sinn í South Park-ævintýrinu. Kokkurinn var traustur og fínn. En öll munum við helst eftir meistara Hayes fyrir taktinn og stuðið. Hann var svalur og flottur. Blessuð sé minning þessa snillings.

mbl.is Isaac Hayes látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sextán ára á 101 - háskaakstur í umferðinni

Væri áhugavert að vita hvað sextán ára strákurinn var að spá þegar hann keyrði á 101 km hraða á fjórhjólinu með vin sinn aftan á. Kannski er það bara orðið þannig að fólk gefur í án þess að hugsa og fer jafnvel af stað út í umferðina án þess að hafa próf. Auðvitað kitlar það að prófa en fiktið getur verið banvænt í þessu tilfelli.

Þessi áhætta er sem rússnesk rúlletta. Ökumaðurinn setur sjálfan sig í lífshættu með slíku aksturslagi og þann sem ferðast með honum. Sem betur fer fór vel miðað við aðstæður en þarna hefði getað farið mjög illa. Lögreglan verður að taka á svona málum, enda bein almannahætta um að ræða.

En þetta er svosem ekkert einsdæmi. Verst af öllu er að þrátt fyrir fjölda hraðakstursmála sé alltaf nóg af þeim sem hugsa ekkert um afleiðingar hraðaksturs og taka áhættuna fyrir sig og aðra í umferðinni.

Þrátt fyrir allar auglýsingar og baráttu gegn hraðakstri lærir fólk ekki af reynslunni. En ég held að þessi sextán ára strákur eigi eftir að læra eitthvað af þessu, ætla rétt að vona það allavega.

mbl.is Ungur ökuníðingur handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurstund í Peking - rússneski björninn fær skell

Óli Stef í kröppum dans við Rússana Mikið innilega var það nú sætt og gott að sjá íslenska liðið leggja rússneska björninn að velli í Peking í nótt. Vel þess virði að vaka í nótt og horfa á leikinn. Öll vonbrigðin vegna tapsins fyrir Makedónum í baráttunni um HM-sætið eru nú á bak og burt og vonin um góðan árangur í Kína lifir allavega af fyrsta leikinn, heldur betur.

Sigurinn í nótt minnti einna helst á þegar Svíar voru lagðir að velli í vor. Ég sagðist vonast eftir betri handbolta í Kína þegar liðið fékk skellinn gegn Makedónum. Vonandi rætist sú ósk. Freistandi að halda það eftir sigurinn.

Einn sigur þjappar þjóðinni saman og kveikir áhugann, meira að segja það að vaka um miðja nótt. Við látum okkur nú hafa það, tala nú ekki um eftir að Rússar hafa verið lagðir að velli.

mbl.is Ísland lagði Rússland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband