FL Group - In Memoriam



Skammlíf saga FL Group var ævintýri líkust - fallið mikla varð þó dramatískt rétt eins og tímabundin velgengni Hannesar Smárasonar. Fyrir nokkrum árum vildu allir verða eins og Hannes - þetta var aðallínan í skaupinu 2006. Frægðarsól hans hneig til viðar og FL Group fuðraði upp.

Fjöldi sérfræðinga í viðskiptum hafa sagt söguna alla í mörgum orðum og í löngum skrifum, analíseraða í botn. Myndklippurnar um FL Group eru hinsvegar alveg frábærar og segja alla söguna á örfáum mínútum. Skylduáhorf, hvorki meira né minna!

Væri sagan af þessu kvikmynduð, með einkalífi aðalsöguhetjanna með, væri þetta örugglega eins og Dallas með Ewing-fjölskyldunni í forgrunni í miðju olíubraskinu og sukkinu.

Kannski væri tilvalið að Stöð 2 próduseri seríu um þetta yfirgengilega rugl með Jóni Ásgeiri sjálfum í gestahlutverki.

Seinni klippan er jafnvel betri en sú fyrri ef eitthvað er.



Hér er sú fyrri.

mbl.is Nýtt myndband um FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórriddaratreyjan boðin upp - gott málefni

Ólafur Stefánsson Ánægjulegt að heyra að milljón hafi fengist fyrir treyju stórriddarans Ólafs Stefánssonar í hið góða málefni til styrktar fátækum konum og börnum í Jemen. Má til með að hrósa þeim sem stóðu fyrir þessu uppboði og söfnuðu með því peningum fyrir málefnið. Alltaf gott að heyra að fólk taki sig til og geri góða hluti.

Ólafur Stefánsson er annars klárlega maður mánaðarins. Fyrirliðinn í handboltaævintýrinu mikla sem verið hefur einskonar himnasending fyrir þjóðina núna í þessum mánuði. Algjört ævintýri og mikið afrek. Strákarnir fengu svo yndislega heimkomu og þjóðin sýndi þeim í eitt skipti fyrir öll hvað við erum stoltir af þeim og öllum sem standa að liðinu.

Óli var samt maðurinn sem leiddi þetta áfram og var hinn sanni leiðtogi. Ræðan hans á Arnarhóli í vikunni var toppurinn á öllu í þessari viku; einlæg, traust og vel flutt - einhvern varð til á staðnum í þessu mikla augnabliki. Alveg magnað.

mbl.is Treyja Ólafs fór á milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþýðuhetjan á Melanesi

Fannst mjög leitt að heyra af því að Ástþór á Melanesi, lamaður bóndi sem sinnir sínum verkum þrátt fyrir fötlun sína, hefði verið sviptur sérútbúnum landbúnaðarvélum sínum vegna einhverra smávægilegra vanskila. Undarlegt að gefa honum ekki þann tíma sem talað var um með fresti og er til skammar fyrir þá sem að koma að mínu mati.

Ég heillaðist mjög af sögu Ástþórs sem sögð var í heimildarmynd Þorsteins Jónssonar, Annað líf Ástþórs, sem sýnd var í Sjónvarpinu fyrir nokkrum mánuðum. Þar sýndi okkur hvernig lífsreynsla það er að þurfa að lifa öðru lífi þar sem fótunum er kippt undan manni í orðsins fyllstu merkingu. Dugnaðurinn og krafturinn í honum eru aðdáunarverð.

Í raun var helsta lexían fyrir okkur sem getum labbað um allt og gert það sem okkur langar til að við höfum í raun enga hugmynd um hversu erfitt er að missa undirstöðuna sem mestu skiptir. Eflaust gildir það um okkur flest að við hugsum aldrei um hvernig þetta líf er fyrr en við reynum það sjálf eða í gegnum veikindi nánustu ættingja.

Hvet Sjónvarpið til að endursýna þessa mynd um alþýðuhetjuna á Melanesi. Ætla svo rétt að vona að hann fái vélarnar sínar fljótlega.

mbl.is Lamaður bóndi sviptur sérbúnum vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hægt að drepa barnið sitt svona?

Ekki er hægt annað en fyllast óhug við að lesa um það hvernig konan í Dayton drap barnið sitt í örbylgjuofni. Hvernig er hægt að vera svona grimmur? Hvernig er hægt að drepa barnið sitt með svona grimmdarlegum hætti? Held að allir spyrji sig að þessu án þess að fá svar við hæfi.

Grimmdin í þessu máli á sér heldur ekkert rökrétt svar. Ef marka má dómskerfið í Bandaríkjunum má búast við að móðirin fái þungan dóm, jafnvel verði tekin af lífi fyrir morðið. Refsigleðin leysir kannski einhver vandamál en varla í þessu tilfelli.

Mannleg grimmd getur oft verið mikil en þegar hún drekkir sjálfri móðurástinni er eðlilegt að fólk verði bæði sárt og reitt. Enda erfitt að skilja hvernig móðir geti sett barnið sitt í örbylgjuofn og sett á fullan styrk.

mbl.is Fundin sek um að myrða barn sitt í örbylgjuofni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCain trompar demókrata með valinu á Palin

John McCain og Sarah Palin Demókratar hafa átt mjög erfitt með að leyna gremju sinni yfir því að John McCain skyldi velja Söru Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. Valið er sem kjaftshögg framan í þá. Barack Obama þorði ekki að velja Hillary Rodham Clinton við hlið sér af ótta við að hún myndi skyggja á sig og gæti ekki trompað stjörnuljóma hennar og afskrifaði konu sem varaforsetaefni í kjölfar þess. Og nú fær hann það heldur betur framan í sig.

Sárindi demókrata eru augljós, enda hefur McCain gert það sem þeir vildu að sinn frambjóðandi gerði með því að velja konu í framboðið. McCain virkar líka djarfur og ákveðinn með valinu. Tekur pólitískar áhættur og fetar sögulegar slóðir innan síns flokks. Ef Obama hefði valið Hillary eða Kathleen Sebelius með sér hefði þessi umræða ekki komið upp og þeir ekki verið svo viðkvæmir. McCain nýtti sér einfaldlega traustan veikleika þeirra með snilldarbragði. Þeir eru algjörlega mát og veittu sjálfir höggstað á sér.

Fyrstu viðbrögð frá yfirstjórn kosningabaráttu Obama við valinu á Palin fólu í sér nokkra kvenfyrirlitningu þar sem reynsluleysið var dregið upp. Þar á bæ var gengið beint í gildruna; talað var um að Palin skorti þekkingu og vit á utanríkismálum. Þetta var algjört sjálfsmark hjá talsmanni Obama, enda var viðkomandi fljótlega tekinn úr umferð við að tjá sig um málið. Með þessu opnaði talsmaðurinn bæði á reynsluleysi Obama í pólitík og þekkingarleysi hans um utanríkismál, sem leiddi til þess að Joe Biden varð varaforsetaefnið.

Síðla kvölds gáfu svo Obama og Biden út yfirlýsingu þar sem talað var um sögulegt val á Palin, henni hrósað með hlýlegum lýsingum. Ég held að Obama og menn hans hafi séð að betra væri að þegja heldur en fara með málið sömu glapstigu og fólst í fyrstu yfirlýsingunni. Bara sú yfirlýsing ein leit út eins og kvenfyrirlitning og viðurkenning á reynsluleysi Obama. Af hverju valdi frambjóðandi breytinganna þingmann með 36 ára starfsreynslu bakvið tjöldin í Washington með sér í framboðið og fórnaði þar með breytingastimplinum? Því Obama hafði svo mikla reynslu? Onei.

Þarna var því gengið beint í gildruna. Í ofanálag vakti mikla athygli sérstök yfirlýsing frá Hillary Rodham Clinton þar sem hún talaði vel um Palin og hrósaði McCain fyrir að velja hana. Merkileg skilaboð. Í herbúðum demókrata, þar sem allir töldu sig vera með pálmann í höndunum eftir flokksþingið, þarf skyndilega að tækla þetta skynsamlega val hjá McCain. Og þeir eiga ekkert svar við því, ekkert traust og afgerandi. Held að demókratar hafi verið búnir að gera ráð fyrir því að Romney yrði valinn. Voru með heilt vopnabúr tilbúið gegn því. En þeir eiga ekkert svar nú.

Obama getur heldur ekki hjólað í Palin með þeim rökum að hún sé hluti af valdakerfinu. Hún er miklu hreinni af tengslum við Washington en hann sjálfur svo að það gengur ekki upp. Eftir stendur mögulega að hægt er að ráðast að henni fyrir hugsjónir sínar og persónulegan bakgrunn. En þeir komast stutt á því. Og með reynsluleysið. Palin hefur sem ríkisstjóri haft meiri tengsl í framkvæmdavaldið en Obama hefur nokkru sinni náð eða Biden ef út í það er farið. Þannig að varla verður séð hvernig þeir geti tæklað McCain eftir þetta val. Hann trompaði þá einfaldlega.

Fyrstu viðbrögðin hjá Obama og co voru svolítil karlremba. Þeir græða ekki mikið á því og auðvitað voru þeir fljótir að skipta um plötu. Ef framboðið talar áfram eins og talsmaðurinn í gær færir það McCain enn meiri tromp á hendi. Staðan er bara einföld: demókratar eiga ekki svar við þessu. Þeir geta kannski sótt Hillary og farið með hana hringinn í kringum landið. En hún er ekki varaforsetaefni. Hún er ekki í framboði. Þetta er dæmt til að mistakast. Obama hefur ekkert svar við fyrstu konunni í framboði fyrir repúblikana í forsetakjöri. Þvílíkur bömmer sem hlýtur að vera í þeim herbúðum nú.

Sumir spunameistarar demókrata fundu svo það eitt að Palin í gær að hún þekkti nú ekkert inn á Washington, vissi ekki hvernig pólitíkin það væri. Ekki hægt annað en hlæja að þessu, enda hefur McCain næga reynslu af Washington fyrir þetta framboð og það er skynsamlegt að hann vilji alvöru frambjóðanda breytinganna með sér; konu sem hvorki á heimili í Washington né er hluti af valdakerfinu þar. Þingið undir forystu demókrata er óvinsælla en Bush forseti svo að það er aðeins hrós að vera ekki með tengingar þar inn.

Þetta verða spennandi kosningar - annaðhvort verður fyrsti blökkumaðurinn forseti Bandaríkjanna eða fyrsta konan varaforseti Bandaríkjanna. Sögulegra verður það ekki. En ég held að allir séu sammála um það að McCain trompaði demókratana í gær. Enda eiga þeir ekkert svar við valinu. Þeir eru mát.

John McCain hristir upp í bandarískri pólitík

Sarah Palin og John McCain
John McCain tókst sannarlega að hrista upp í bandarískum stjórnmálum með valinu á Söru Palin sem varaforsetaefni sínu. Fór ekki hefðbundnu leiðina sem flestir höfðu spáð með því að velja yngri karlmann, heldur velur fyrstu konuna í forystu forsetaframboðs fyrir repúblikana, unga fimm barna móður sem er augljóslega mikil vonarstjarna fyrir flokkinn. Hann hugsar til framtíðar með valinu, telur réttilega að reynsla sín sé nóg fyrir framboðið og kemur með nýjar og áhugaverðar tengingar. Með þessu er framboðið yngt verulega upp. Skilaboðin eru skýr.

Sarah Palin og John McCain lúkkuðu mjög vel saman á fyrsta framboðsfundinum í Dayton í Ohio fyrir stundu. Þau eru mjög ólík en hiklaust sterk framboðsflétta. Hann með sína miklu og víðtæku pólitísku reynslu og hún sem konan við hlið hans, með mikla lífsreynslu að baki og augljóslega mikil kjarnakona. Þetta eru söguleg tímamót fyrir Repúblikanaflokkinn, enda hefði fáum órað fyrir því þegar George W. Bush valdi Dick Cheney sem varaforsetaefni fyrir átta árum að næst á eftir yrði kona fyrir valinu. Bara með því að velja Palin breytist ásýnd flokksins.

Sarah Palin er líka frábær ræðumaður og traust baráttukona með tengsl við venjulegt fólk. Sá bakgrunnur hennar á eftir að reynast vel fyrir McCain. Hún er ekki hluti af valdakerfinu að einu né neinu leyti og færir því baráttuna á aðrar slóðir. Með þessu ætti McCain að eiga betur að höfða til kvenna og alþýðufólks, þeirra hópa sem helst fylgdu Hillary Rodham Clinton í gegnum hennar sögulegu baráttu fyrir því að vera fyrsta kvenkyns forsetaefnið. Nú hefur Sarah Palin tekið sess Hillary í baráttunni. Skilaboðin eru líka skýr að því leyti.

Palin getur nú tekið sér stöðu á sviðinu sem konan í framboðinu. Það gerði hún mjög ákveðið og áberandi í ræðunni í Dayton. Hún sagðist ætla sér að brjóta glerþakið sem Hillary Rodham Clinton setti 18 milljón sprungur í. Á þessu mun framboðið keyra alveg hiklaust. McCain mun geta talað um jafnréttismál vígreifur og hress hafandi valið fyrstu konuna í forystu forsetaframboðs í 24 ár, aðra konuna í stjórnmálasögu landsins. Allt í einu hafa jafnréttisáherslur baráttunnar breyst og McCain tekið frumkvæðið - gert það sem Obama lagði ekki í að gera.

Og svo verður Sarah Palin konan án tenginga við Washington - það sem Hillary tókst ekki að nota sér í vil. Hún er sú eina af forseta- og varaforsetaefnum stóru flokkanna sem hefur ekki unnið í höfuðborginni eða á heimili þar. Þetta er skýr yfirlýsing hjá McCain um breytingar í DC - hann ætlar sér að hrista upp með varaforseta sér við hlið sem hvorki hefur verið í fulltrúa- né öldungadeildinni. Gleymum því ekki að varaforseti Bandaríkjanna er um leið forseti öldungadeildarinnar og getur greitt þar oddaatkvæði, breytingin verður því afgerandi nái McCain kjöri.

McCain telur sig greinilega vera með næga reynslu og þekkingu á Washington, enda verið í fulltrúa- og öldungadeildinni samfellt í 26 ár. Obama hefur verið í öldungadeildinni í tæp fjögur ár og Biden er einn þaulsetnasti öldungadeildarþingmaður Bandaríkjanna með 36 ára reynslu. Þegar Biden og Palin eru sett hlið við hlið er ekki nokkur spurning hvort verður frambjóðandi breytinganna sem varaforsetaefni. Hún án nokkurra tenginga við Washington en hann einn af lykilspilurum þar bakvið tjöldin síðan Barack Obama var ellefu ára gamall.

McCain mýkir líka framboðið með þessu vali. Það er allt í einu gjörólíkt því sem var í gær. Breytingin er algjör. John McCain hefur innan við sólarhring eftir að Obama flutti ræðu sína gjörbreytt pólitísku landslagi í Bandaríkjunum og hefur allt í einu sér við hlið konuna sem gæti orðið varaforseti Bandaríkjanna. Eitt og sér er það veglegt og traust veganesti inn í næstu 66 dagana.


mbl.is Hver er Sarah Palin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegt val - McCain velur Söruh Palin sem VP

Sarah Palin
Fyrir nokkrum mínútum var staðfest að John McCain hefur valið Söruh Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni. Þetta er sögulegt val, fyrsta konan sem verður hluti af forsetaframboði fyrir Repúblikanaflokkinn, ung kona með stjörnuljóma.

Þetta er áhætta fyrir McCain en mun eflaust borga sig. Hann afþakkar reyndustu kandidatana, telur sig hafa næga reynslu fyrir framboðið, en velur þess í stað unga konu með sér, vonarstjörnu fyrir flokkinn.

Hann ætlar sér að reyna að ná óánægðum stuðningsmönnum Hillary með sér. Stórmerkilegt val í alla staði. Verður gaman að sjá fyrsta kosningafundinn þeirra á eftir.

Er viss um eitt; Obama á eftir að sjá mjög mjög mjög mikið eftir því að velja ekki Hillary Rodham Clinton með sér.

mbl.is Varaforsetaefni McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óstaðfest: Sarah Palin varaforsetaefni McCain

Sarah Palin Óstaðfestar sögusagnir herma að John McCain hafi valið Söruh Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. Enn hafa engar traustar staðfestingar fengist á valinu, en því er haldið sem algjöru hernaðarleyndarmáli hver verði valinn og kynntur í Ohio nú síðdegis. Miklar sögur um næturflug Palin til Ohio með einkaflugvél hafa lekið út og hefur algjörum leyndarhjúp verið slegið um ferðina á meðan sumir fullyrða að Palin sé enn í Alaska.

Mér finnst það mjög merkileg ákvörðun hjá John McCain ef það er rétt að Sarah Palin verði varaforsetaefnið. Með því slær hann á traustustu valkostina í stöðunni; Romney og Pawlenty og fer sínar eigin leiðir. Velur konu, unga og trausta konu sem hefur ekki verið lengi á sviðinu en nýtur mikillar virðingar. Það eitt að McCain velji konu mun verða stórmerkilegt ef satt er. Aðeins ein kona, Geraldine Ferraro, hefur áður náð í forystu forsetaframboðs í sögu Bandaríkjanna.

Palin er 44 ára gömul, varð ríkisstjóri í Alaska með því að fella sitjandi ríkisstjóra repúblikana í forkosningum og síðan sigra fyrrum ríkisstjóra demókrata í sögulegri kosningu. Hún er fimm barna móðir, á þar af eitt barn með Downs heilkenni og ákvað að eiga það þrátt fyrir að vita um það. Hún er traust íhaldskona og myndi fara létt með að færa McCain íhaldsfylgið sem hann vantar að tryggja sér.

Ef John McCain velur konu með sér er það söguleg ákvörðun. Hún yrði fyrsta konan í framboði fyrir Repúblikanaflokkinn í forsetakjöri og myndi tryggja sig sem traust forsetaefni síðar. Þetta færir John McCain gullið tækifæri til að ná kvennafylginu og það sem meira er; ná óánægðum kjósendum Hillary Rodham Clinton á sitt band.

McCain fer langt með að vinna þessar kosningar bara með því að gera það sem Obama þorði ekki, velja konu með sér.

Flokksþing demókrata í Denver: 4. dagur

Barack ObamaKomið er að lokakvöldi flokksþings demókrata í Denver og því mikilvægasta. Í nótt mun Barack Obama formlega þiggja útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins og verða fyrsta þeldökka forsetaefnið í bandarískri stjórnmálasögu. Hann heldur tímamótaræðu á sínum stjórnmálaferli á Invesco-íþróttaleikvangnum í Denver þar sem tæplega 80.000 manns komast í sæti og kynnir áherslur sínar á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Staðan í kosningabaráttunni nú er önnur en demókratar eflaust stefndu að þegar Barack Obama náði útnefningu flokksins 3. júní. Hann hefur ekki forskot í könnunum, virðist ekki hafa náð neinni marktækri fylgisaukningu á valinu á Joe Biden sem varaforsetaefni og virðist vera að missa stuðning hjá óháðum kjósendum. Í könnunum í þessari viku hafa frambjóðendurnir mælst annað hvort hnífjafnir eða John McCain hefur forystu.

Fyrst nú í dag sést einhver uppsveifla en hún er mjög hefðbundin miðað við að flokksþingið stendur. Þetta eru sláandi niðurstöður fyrir demókrata sem ættu að öllu eðlilegu að hafa mikið forskot miðað við að repúblikanar hafa ráðið Hvíta húsinu í tvö kjörtímabil og eiga óvinsælasta forseta Bandaríkjanna í sögu skoðanakannana. Þrátt fyrir allar kjöraðstæður demókrata til að klára þessar kosningar hefur John McCain raunhæfa möguleika á að sigra kosningarnar. Þetta eitt og sér hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir frambjóðanda breytinganna.

Barack Obama þarf í ræðu sinni ekki aðeins að kynna sig og áherslur sínar. Hann þarf að selja landsmönnum framboðið sem hann leiðir, bæði sig og Biden. Eins og kannanir standa núna þarf Obama að tala hreint út um lykilmál, utanríkis- og efnahagsmál, það sem mestu skiptir fyrir demókrata að tækla í þessari stöðu. Hann má heldur ekki missa sig í tæknilegu blaðri um smáatriði. Barack Obama þarf að skipta um gír, ekki aðeins kynna sig sem frambjóðanda breytinganna heldur og mun frekar sýna að framboðið hafi reynslu til að taka við á fyrsta degi. 

Förum yfir nokkra lykilpunkta fjórða og síðasta þingkvöldsins.

- Barack Obama flytur ræðu á Invesco-íþróttaleikvangnum og þiggur útnefninguna. Leggur línurnar fyrir lokasprett kosningabaráttunnar, kynnir sig og áherslur sínar. 45 ár eru í dag liðin frá hinni sögulegu ræðu dr. Martin Luther King í Washington þar sem hann tjáði draumsýn sína um jafna stöðu hvítra og þeldökkra. Því munu sagnfræðilegir tónar eflaust einkenna ræðu Obama um leið og hann horfir til framtíðar - talar um breytingarnar sem hann vill tryggja í Washington.

- Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, flytur ávarp. Gore hlaut fleiri atkvæði en George W. Bush á landsvísu í forsetakosningunum 2000 en tapaði kosningunum í kjörmannasamkundunni eftir sögulega baráttu fyrir 25 kjörmönnum Flórída í dómstólum í fylkinu og Hæstarétti Bandaríkjanna. Gore er traust söguleg tenging við fyrri tíma innan Demókrataflokksins, er mikils metinn innan flokksins og á alþjóðavettvangi sem stjórnmálamaður og friðarverðlaunahafi Nóbels.

- Framlags Dr. Martin Luther King í sögu Bandaríkjanna verður minnst á afmælisdegi draumaræðunnar margfrægu. Sýnd verður myndklippa um dr. King. Börn Dr. Kings, Martin Luther King III og Bernice King munu heiðra minningu föður síns.

- Howard Dean, formaður Demókrataflokksins, og Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, munu flytja ræður.

- Tim Kaine, ríkisstjóri í Virginíu, ávarpar þingið. Mikið var rætt um Kaine sem varaforsetaefni. Demókrati hefur ekki sigrað í Virginíu síðan Lyndon B. Johnson var kjörinn árið 1964.

- Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður fyrir Illinois - vinur og félagi Barack Obama árum saman, mun flytja ræðu og kynna Barack Obama.

- Vegleg tónlistaratriði verða flutt. Stevie Wonder og Sheryl Crow munu syngja. Auk þess mun óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Hudson syngja þjóðsönginn.


Þetta verður eflaust veglegt og eftirminnilegt kvöld, bæði fyrir demókrata og alla áhugamenn um stjórnmál. Mikilvægt er fyrir demókrata að ljúka þinginu með stæl. Obama þarf að kynna sig og áherslur sínar af krafti, sýna kontrastana á sér og McCain, auk þess sýna kjósendum bæði eitthvað nýtt og eftirminnilegt, ofan á stjörnuljómann og nýjabrumið sem færði honum útnefninguna.

Sumir hafa reyndar gagnrýnt Obama mjög fyrir umgjörðina á Invesco-leikvanginum. Þar hefur verið reist mikil sviðsmynd sem helst minnir á grískt hof og heilaga biblíuumgjörð. Spunameistarar á vegum demókratar óttast mest að augnablikið mikla fyrir Obama springi framan í hann og almennir kjósendur telji þetta bruðl og hann fjarlægist enn frekar venjulegt fólk.

Öllu mánudagskvöldinu var varið í að kynna hann sem venjulegan mann og færa hann niður á jörðina, hann væri einn af fólkinu en ekki elítumaður. Messíasarumgjörð kvöldsins gæti fælt einhverja frá. En er á hólminn kemur er þetta allt undir Obama komið. Hann þarf að toppa sig í kvöld og veit það mætavel.


mbl.is McCain hrósar Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCain búinn að velja - tekur sviðsljósið af Obama

John McCain John McCain, forsetaefni repúblikana, hefur nú valið varaforsetaefni sitt og mun tilkynna um það á fjöldafundi í lykilfylkinu Ohio kl. 11:00 í fyrramálið að staðartíma. McCain ætlar að reyna að grípa sviðsljósið í kvöld af Obama þegar hann flytur útnefningarræðu sína í Denver með því að leka nafninu á varaforsetaefninu í fjölmiðla og þar með fá forskot fyrir tilkynninguna. Er búist við að umfjöllun um málið hefjist áður en Obama talar síðla kvölds.

Fróðlegt verður að sjá hvort McCain muni velja annan af líklegustu kostunum í stöðunni. Mikið hefur verið talað um Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóra í Massachusetts, og Tim Pawlenty, ríkisstjóra í Minnesota, þar sem flokksþing repúblikana verður haldið í næstu viku. Er mjög líklegt að annar þeirra verði fyrir valinu ef McCain vill fá einhvern við hlið sér sem hefur mikla reynslu af að vera í forystu í fylkjunum og geti fært honum eitthvað af lykilfylkjunum í baráttunni auk þess. McCain vantar klárlega yngri frambjóðanda og einhvern sem getur fært honum hnoss sem skiptir máli.

Síðustu dagana hef ég æ oftar heyrt nafn Kay Bailey Hutchison, öldungadeildarþingmanns í Texas. Hún hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1993, var kjörin í þingsæti demókratans Lloyd Bentsen, sem var varaforsetaefni Michael Dukakis árið 1988. Hutchison myndi geta fært McCain eitthvað af kvennafylgi Hillary Rodham Clinton og þá demókrata sem studdu hana - myndi val á henni leiða til sögulegra þáttaskil. Ef Hutchison verður varaforsetaefnið er hún aðeins önnur konan í sögu Bandaríkjanna í framboði stóru flokkanna.

Erfitt um að spá hvað gerist. Hef samt verið viss um það nokkuð lengi að Romney yrði varaforsetaefnið. Þeir hafa verið að ná vel saman að undanförnu þó þeir hafi barist í forkosningunum af miklum krafti. Hann hefur traustar tengingar í lykilfylki og styrkleika í efnahagsmálum sem McCain vantar sárlega.

En þetta verður mikilvægt val fyrir McCain. Hann þarf að fá eitthvað mjög öflugt út úr varaforsetaefninu. Gæti því komið á óvart með djörfum valkosti sem eykur stjörnuljóma framboðsins eða valið traustan valkost, mann sem yrði með honum á forsetavakt og tilbúinn í forsetahlutverkið á örlagastundu.

Súmmering: Sættir á yfirborðinu í Denver

Joe Biden og Barack Obama
Á þriðja kvöldi flokksþings demókrata var lykilatriðið að sýna samstöðu flokksins, bæði til að kveða í kútinn sögusagnir um persónuleg átök og hjaðningavíg milli flokksmanna í kjölfar forkosninganna. Setja varð punkt á eftir sögulegum kafla um væringarnar sem klufu flokkinn í tvær sögulegar fylkingar; með fyrstu konunni og fyrsta þeldökka manninum sem áttu raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu. Það hefur nú tekist á yfirborðinu en ekkert meira en það. Samningar tókust um að tryggja flokkshag en sært stolt og heiður er enn til staðar og verður væntanlega gert upp síðar.

Gærkvöldið var sögulegt. Kjör Barack Obama var endanlega staðfest og með því mörkuð þau þáttaskil að fyrsti þeldökki maðurinn getur náð í Hvíta húsið. Ekki síður var það áhugaverð tímamót heldur hvernig þau urðu. Hillary Rodham Clinton innsiglaði sættirnar á yfirborðinu innan flokksins og stóð við hinn hluta dílsins, gekk frá kosningunni á gólfinu á þingstað, hafði áður gefið eftir þingfulltrúana sína en gekk þá skrefinu lengra með því að gefa kosninguna formlega eftir og færði þar með Barack Obama útnefninguna á silfurfati. Þetta var sterkt augnablik fyrir flokkinn.

Clinton-hjónin hafa nú gert sitt til að tryggja samstöðu í flokknum. Stóra spurningin er hvað verði um 18 milljón atkvæðin á landsvísu sem Hillary vann. Kannanir gefa til kynna að þau séu ekki öll á valdi hennar. Fjölmargir flokksmenn hafa ekki enn sætt sig við Barack Obama sem forsetaefni sitt og horfa í aðrar áttir, bæði til þess að sitja heima eða kjósa John McCain í Hvíta húsið. En nú geta Clinton-hjónin með sanni sagt að þau hafi lagt sig fram. Þau munu líka segja að nú verði Barack Obama að sækja þessi atkvæði. Ef hann tapar munu þau kenna honum um að hafa ekki sótt þau.

Við getum verið viss um að Demókrataflokkurinn hefur lægt öldurnar innbyrðis. En verkefnið er framundan. Ekki munu Clinton-hjónin sigra þessar kosningar fyrir Obama. Þau hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Hillary fékk flest atkvæði allra sem hefur mistekist að ná flokksútnefningu og hefur með því einu gríðarleg áhrif og völd. Þau áhrif hafa verið greinileg í gegnum allt þingið. Í og með var þetta flokksþingið hennar - ekki var hægt að ná flokkssamstöðu án hennar. Margir sem fylgdu henni eru illir með að Obama stóð ekki við sitt. Nú er það verkefni hans að vinna fyrir þessu.

Förum yfir helstu punkta þriðja þingkvöldsins í Denver.

Joe Biden
- Joe Biden, öldungadeildarþingmaður frá Delaware, var útnefndur varaforsetaefni samhljóða af flokksþinginu. Hann flutti tilfinningaríka og trausta ræðu en með mjög beiskum og reynslumiklum pólitískum tón. Biden fór í gegnum allan skalann í orðavali sínu; var bæði mjög persónulegur og einlægur og sneri sér svo jafnharðan yfir í hörð pólitísk átök; setti upp pólitísku brynjuna og gerðist mjög vígreifur. Þetta var þýðingarmesta ræðan á stjórnmálaferli hins gamalreynda Bidens, sem greinilega á að tala upp reynsluna í forsetaframboði hins lítt reynda frambjóðanda frá Chicago.

Biden talaði fallega um fjölskyldu sína, rakti söguna af pabba sínum og mömmu. Heiðraði sérstaklega móður sína sem var í salnum og minntist á hvað hann hefði lært af henni; að vera heiðarlegur og trúr sínu. Notalegt og vel gert; Bandaríkjamenn elska það þegar frambjóðendur eru góðir við mömmu sína á svona augnabliki. Svo talaði Biden einlægt og fallega um þá lífsreynslu þegar eiginkona hans og dóttir fórust í bílslysi nokkrum vikum eftir að hann var kjörinn í öldungadeildina árið 1972; lífsreynslu sem hefur markað hann alla tíð síðan. Traust orðaval.

Jafnharðan sneri Biden sér í það verkefni að ráðast að John McCain. Línan sem hann markaði verður örugglega sú sem notuð verður næstu 67 dagana; John sé einlægur og vandaður maður, traustur föðurlandsvinur og stríðshetja, en hann hafi einfaldlega rangt fyrir sér og sé ekki treystandi vegna þess. Þetta er traust lína og gæti skilað þeim árangri. Biden afhjúpaði sig allavega í ræðunni sem maðurinn er á að tækla John McCain. Hann á að byggja undirstöðuna fyrir lokasprettinn og standa sig í átökunum; hann á að verða varðhundurinn í framboðinu og tala einn um utanríkismál.

Biden er þannig gerður að hann þekkir utanríkismál út og inn. Í þessari ræðu talaði hann um lykilmál á svæðinu sem Barack Obama heimsótti fyrr í sumar. Bara í þessari tiltölulega stuttu ræðu fjallaði hann betur um það en Obama gerði á öllum blaðamannafundunum og ræðunum sem hann flutti í M-Austurlöndum. Þannig að enginn vafi leikur á því hver verður á vaktinni í utanríkismálum í forsetatíð Barack Obama. Það verður Biden, rétt eins og Dick Cheney var á vaktinni fyrir George W. Bush. Bush sótti Cheney vegna reynslunnar, sama gerði Obama með Biden.

Biden-feðgarnir
- Beau Biden, saksóknari í Delaware og sonur frambjóðandans, kynnti föður sinn á sviðið. Hann flutti einlægustu og traustustu ræðu sem ég hef heyrt son flytja um föður sinn mjög lengi. Auðvitað var fjallað um slysið sem kostaði móður hans lífið fyrir 36 árum. Beau talaði um lífsreynsluna og hversu vel pabbi hans stóð með honum í gegnum allt, en hann slasaðist alvarlega í slysinu og var fyrst varla hugað líf. Biden sór embættiseið sinn í öldungadeildina frá sjúkrabeði Beau, en hann vék ekki frá honum á sjúkrahúsinu vikum saman.

Beau talaði um þetta bæði til að ljá föður sínum persónulegan styrk í gegnum baráttuna en ekki síður til að tryggja honum persónulegri sjarma. Skoðanakannanir gefa vel til kynna að mörgum finnst Biden vera gamall maður án stjörnuljóma. Ein skilaboðin hafa því greinilega verið að tala hann upp sem persónu og sýna persónuna á bakvið kerfiskarlinn á þingi síðustu 36 árin. Það tókst mjög vel. Svo var þetta auðvitað framboðsræða fyrir Beau í og með. Mjög líklegt er að hann taki við þingsæti föður síns verði hann varaforseti.

Bill Clinton
- Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, flutti frábæra ræðu, að mínu mati eina sína bestu og traustustu síðan að hann lét af forsetaembætti fyrir tæpum átta árum. Hann var einlægur, traustur og kraftmikill í orðavali og sýndi allar sínar bestu hliðar. Á góðum degi er enginn ræðumaður í heiminum betri og einlægari en Clinton forseti. Hann er einfaldlega frábær. Á vondu dögunum er hann reiður, úrillur gamall karl sem enginn hefur samhug með. Of oft sýndi hann síðarnefndu týpuna í kosningabaráttu Hillary þegar á móti blés og lék sinn þátt í að Hillary tókst ekki að ná leiðarenda.

Clinton forseti var hylltur er hann kom á sviðið og varð að bíða mínútum saman eftir því að geta komist að. Eftir allt sem á undan er gengið heldur hann virðingu sinni og stöðu innan flokksins. Enda hefur hann stöðu innan flokksins sem enginn annar núlifandi maður getur státað sig af; vann tvisvar Hvíta húsið og hefur setið lengst allra demókrata á forsetastóli ef aðeins Franklin Delano Roosevelt er undanskilinn. Með ræðunni í gærkvöldi sótti Clinton forseti sér þessa stöðu að nýju og fékk hana án þess að þurfa að hafa í sjálfu sér mikið fyrir því.

Hinsvegar stóð hann við sitt, flutti ræðuna sem allir vildu fá. Hann er og verður áfram sjarmatröllið mikla í flokknum. Eftir allt sem á undan er gengið sté hann fram, gekk alla leið og studdi Obama. Hann lagði að lokum sitt af mörkum til að tryggja sameinaðan flokk. Talaði af virðingu og notalegheitum um Obama. Í öllum átökum síðustu mánaða hafði hann ekki sagt eitt einasta notalegt orð um Obama-hjónin og kosningabaráttu þeirra.

Frá því að Barack Obama náði útnefningunni og allt til gærdagsins hafði Clinton forseti aðeins slegið úr og í með afstöðu sína til Obama og ekki heitið honum traustum stuðningi og ekki sagt neitt um hvort hann væri yfir höfuð tilbúinn til að verða forseti Bandaríkjanna frá fyrsta degi. Clinton forseti sló þetta tal út af borðinu. Hitt er svo annað mál hvort hann meinti orð af því sem hann sagði. Eflaust ræðst það ekki fyrr en örlög Obama ráðast í nóvember.

Hillary Rodham Clinton
- Eitt eftirminnilegasta augnablik kvöldsins var þegar Hillary Rodham Clinton batt enda á kosninguna um forsetaefni flokksins með yfirlýsingu sinni. Hún fór í gegnum þvöguna í þingsalnum eins og stormsveipur, geystist fram ásamt sínum traustustu stoðum í stjórnmálastarfinu, tók hljóðnemann og tók forystuna um að tryggja þá samstöðu sem varð fyrirsögn gærkvöldsins. Eftir allt sem á undan er gengið er þetta stórglæsileg frammistaða. Með þessu hefur Hillary ekki aðeins tryggt stöðu sína og pólitísk áhrif, heldur og mun frekar útnefningu flokksins ef Obama tapar.

John Kerry
- John Kerry, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts og forsetaefni demókrata árið 2004, flutti einlæga, vígreifa og trausta ræðu um hermennsku og afrekin miklu í eigin lífi. Þetta var hin fullkomna ræða fyrir John Kerry, í sannleika sagt. Vandamálið var aðeins að þessi ræða kom fjórum árum of seint, allavega fyrir hann. Ef hann hefði talað svona í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum væri hann örugglega forseti Bandaríkjanna og flokksþingið í Denver væri hans. Talandi um pólitíska óheppni og kaldhæðni.

Mér fannst Kerry alltaf eins og tréhestur; fíll í postulínsbúð síðast. Var vandræðalegur og veikburða forsetaefni þrátt fyrir alla sína reynslu og pólitísk verk áratugum saman. En í gærkvöldi stóð hann sig vel, svolítill kjaftur á karlinum og hann var ekki eins skelfilega leiðinlegur og í síðustu baráttu. Kerry gerði mörg mistök síðast sem hann sér eftir. Mest sér hann eftir að velja John Edwards sem varaforsetaefni. Bigtime klúður. Edwards er fjarri núna - sleikir sárin eftir hjákonuna. Allir hafa snúið við honum baki.

Barack Obama
- Flott augnablik í blálok dagskrárinnar þegar Barack Obama sté fram á sviðið í Pepsi Center eftir ávarp Joe Biden. Þetta var fyrsta skiptið sem Obama kom fram opinberlega eftir að hann hlaut formlega útnefningu flokksins. Flutti stutta og vandaða ræðu, súmmeraði upp flokksþingið fram að því og talaði um stóra kvöldið framundan, þegar hann tekur formlega við flokknum og heldur inn í lokasprett baráttunnar. Fín fjölskyldustund fyrir Obama og Biden, sem hafði alla fjölskylduna sína á sviðinu. Þetta þurfa demókratar að gera; passa upp á fjölskyldumyndirnar sínar.

Hillary, Biden og Obama
Kvöldið var því mikilvægt fyrir demókrata, mikill success. Samstaðan hafðist í gegn, með herkjum þó. Clinton-hjónin hafa sætt sig við Obama og feta fram á veginn með honum. Nú er að sjá hversu lengi sú samstaða helst sem innsigluð var í gærkvöldi. Framundan eru 70 dagar sem ráða því hversu lengi sú samstaða helst aðeins á yfirborðinu.


mbl.is Bill Clinton styður Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dr. Sigurbjörn Einarsson látinn

sigurbjorn biskupDr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, er látinn, 97 ára að aldri. Með Sigurbirni er fallinn í valinn einn traustasti leiðtogi kristinnar trúar í sögu íslensku þjóðarinnar og einn merkasti Íslendingur vorra daga, maður sem naut mikillar virðingar fyrir verk sín og þá forystu sem hann veitti íslensku þjóðinni í blíðu og stríðu.

Sigurbjörn biskup talaði alla tíð kjarnyrta íslensku til þjóðarinnar úr predikunarstól og ritaði bækur og íhuganir sem lifa með þjóðinni. Hann er einn áhrifamesti maðurinn í sögu íslensku þjóðkirkjunnar og segja má að dr. Sigurbjörn hafi verið einn bæði merkasti leiðtogi kristinnar trúar síðustu aldir og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi.

Ekki leikur nokkur vafi á því að Sigurbjörn biskup er einn þeirra manna sem settu mestan svip á 20. öldina sem naut mestrar virðingar. Hann náði til fólks hvar svo sem í stétt það var. Áhrif Sigurbjörns Einarssonar á íslensku þjóðkirkjuna eru og verða óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.

Sigurbjörn var líka einn þeirra manna sem höfðu þá náðargáfu að geta talað bæði af visku og kærleika svo að fólk hlustaði. Predikanir hans voru ógleymanlegar. Það var þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann. Hann hafði sem biskup mikil áhrif á margar kynslóðir Íslendinga og lék lykilhlutverk í því að kynna fyrir okkur kristna trú og gildi hennar, ekki bara sem biskup heldur og mun frekar á árunum eftir að hann lét af störfum og flutti predikanir.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera margoft við predikanir hans hér í Eyjafirði og kynnast því hversu traustur og notalegur ræðumaður hann var, ekki bara um kristileg málefni heldur og mun frekar að tala um gildi samfélagsins og mannleg mál, kærleikann og lífið sjálft. Hann hafði svo margt fram að færa - það mun lifa með þjóðinni.

Nú síðustu árin minnist ég helst viðtalsins sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir átti við Sigurbjörn og sýnt var á jólunum 2006. Þar talaði Sigurbjörn bæði um sig og sín málefni, fór yfir allt sem hann taldi merkilegast í lífinu. Merkilegt viðtal og vandað.

Svo gleymir enginn ræðunni þegar hann tók við málfræðiverðlaunum Jónasar fyrir tæpu ári. Þá fór hann upp á svið með stafinn sinn og flutti blaðlaust eina merkilegustu ræðu sem ég hef heyrt í mínu lífi. Sigurbjörn þurfti ekki að hafa fyrir þessu.

Ég vil votta fjölskyldu dr. Sigurbjörns Einarssonar innilega samúð mína. Mætur Íslendingur er fallinn frá. Guð blessi minningu hans.


Strákarnir fá fálkaorðuna - verðskuldaður heiður

Strákarnir með fálkaorðuna Ég vil óska strákunum í landsliðinu til hamingju með fálkaorðuna. Mér líst mjög vel á það að þeir hafi fengið hana. Þeir hafa unnið fyrir henni og gott betur en það. Finnst það hið besta mál að fálkaorðan sé veitt Íslendingum sem skara framúr á alþjóðavettvangi.

Fáir verðskulda slíkt betur nú en íslenska handboltalandsliðið, sem hefur unnið afrek sem verður ritað gullnu letri í íslenskri íþróttasögu. Auðvitað má alltaf velta fyrir sé hvenær sé rétt að veita fálkaorðu vegna eins atburðar en ekki fyrir ævistarf, en í þessu tilfelli held ég að enginn velti því fyrir sér. Afrekið er það mikið.

Ég sé að sumir eru að ergjast yfir því að strákarnir okkar fái fálkaorðuna. Come on, segi ég nú bara á vondri íslensku. Þetta er íþróttaafrek, eitt hið mesta í íþróttasögunni. Við það tækifæri á að veita heiðursorðuna. Enda kominn tími til að sýna að hún er ekki bara skraut fyrir gamalt fólk til að verðlauna ævistarf heldur og mun frekar heiðursorða þjóðarinnar þegar mikið liggur við.

mbl.is Orðuveiting á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg stund - Obama útnefndur forsetaefni

Barack Obama
Fyrir nokkrum mínútum útnefndi flokksþing Demókrataflokksins í Denver í Colorado Barack Obama sem forsetaefni flokksins í forsetakosningunum eftir 68 daga, þriðjudaginn 4. nóvember nk. Þetta eru söguleg tímamót í bandarískum stjórnmálum. Obama er fyrsta þeldökka forsetaefnið í sögu Bandaríkjanna og verður næstyngsti forseti Bandaríkjanna ef hann nær kjöri. Aðeins John F. Kennedy var yngri, en hann var 43 ára gamall er hann var kjörinn forseti árið 1960.

Eftir kosningu á gólfinu í þingsalnum í Pepsi Center-íþróttahöllinni í tæplega klukkustund þar sem bæði Obama og Hillary höfðu verið útnefnd af stuðningsmönnum sínum og fengið atkvæði fylkjanna steig Hillary Rodham Clinton fram þegar röðin kom að New York og dró sig út úr kosningunni og bar fram tillögu um að Obama yrði forsetaefni demókrata án frekari kosningar. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og þingforseti, bar tillöguna upp og var hún samþykkt samhljóða.

Hillary færir Obama útnefninguna
Með þessu hefur Hillary tryggt endanlega flokkssamstöðuna sem hún talaði fyrir í gær. Staða hennar hefur styrkst mjög í gegnum þetta ferli. Hún hefur lagt sig fram um að vinna að flokkshag umfram allt annað, stendur við dílinn - kemur út úr þessu ferli sem viss táknrænn sigurvegari. Hún hefur ekki skaðast sem stjórnmálamaður á tapinu í forkosningunum, hefur mikil pólitísk áhrif og heldur styrkleika sínum. Með framgöngu sinni í kvöld tryggir hún sig aftur sem forsetaefni ef Obama tapar.

Þegar að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King lést fyrir fjórum áratugum átti hann sér draum um samfélag þar sem litaraft skipti ekki máli og þeldökkir hefðu sömu tækifæri í lífinu og hvítir. Sú barátta kostaði hann lífið. Á þessum sögulega degi í bandarískum stjórnmálum hefur Barack Obama látið drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast með því að ná útnefningu Demókrataflokksins. Þetta eru söguleg tímamót.

Fyrir aðeins átta til tíu árum hefði engum órað fyrir því að fyrir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar myndi þeldökkur forsetaframbjóðandi ná alla leið í forkosningaferli stóru flokkanna, hljóta atkvæði hvítra kjósenda um gervöll Bandaríkin og sverja embættiseið sem valdamesti maður heims. Ef marka má kannanir er þó hvergi nærri öruggt að Obama nái alla leið og spennandi kosningaslagur framundan.

Á morgun eru 45 ár liðin frá því að dr. King tjáði draumsýn sína í Washington í hinni frægu ræðu. Á þeim degi þiggur Obama formlega útnefninguna. Í og með er það kaldhæðnisleg tilviljun, enda var tímasetningin þingsins ákveðin nokkru áður en Obama náði útnefningunni. Nú tekur þá alvaran við. Hálfur sigurinn er aðeins unninn fyrir demókrata og Obama - mikið verk er eftir. Kannanir sýna að ekkert er öruggt.

Sigur Obama í kvöld eru engin stórpólitísk tíðindi - löngu var vitað hvernig myndi fara. Þetta eru þó umfram allt söguleg tímamót. Hillary hefur í verki tryggt sameinaðan flokk. Nú er það Obama að sýna hvort hann hafi það sem þarf til að leiða draum dr. Kings allt á leiðarenda; í Hvíta húsið - blökkumaður verði valdamesti maður heims.

mbl.is Demókratar útnefna Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksþing demókrata í Denver: 3. dagur

Jill og Joe BidenFlokksþing demókrata heldur áfram í kvöld í Denver. Í gær var reynt að tala upp samstöðuna. Hillary Rodham Clinton talaði flokksmenn saman með fítonskrafti og auk þess sóttu þungavigarmenn í flokknum að John McCain af mun meiri krafti en fyrsta þingkvöldið, þar sem mörgum fannst vanta markvissa pólitíska baráttu gegn andstæðingnum í kosningunum.

Hillary Rodham Clinton innsiglaði síðan endanlega samstöðu innan flokksins af sinni hálfu nú síðdegis og stóð við sinn hluta dílsins með því að gefa eftir rúmlega 1700 þingfulltrúa sína sem hún vann í forkosningunum. Þeir eru nú frjálsir að því leyti að þeir eru ekki bundnir henni að neinu leyti og geta kosið eins og þeir vilja í hinni formlegu útnefningakosningu, fylgja aðeins eigin sannfæringu. Bæði er það vottur um samstöðu og stuðning við Obama. Nú reynir á hversu margir hlýða samstöðukallinu frá Hillary.

Spunameistarar demókrata töldu annað kvöldið mun betur heppnað en það fyrsta, enda meiri pólitískur þungi og minna um pólitískt glys. Kannanir hafa ekki breyst mikið meðan þingið hefur staðið. Enn er staðan jöfn og sumar kannanir sýna forskot John McCain. Val á varaforsetaefni hefur ekki haft neitt að segja, skv. könnunum. Í kvöld fær valkostur Obama í baráttu næstu 70 dagana að tala og eins mun Bill Clinton reyna að tala upp þá samstöðu sem kona hans talaði um í gærkvöldi.

Förum yfir nokkra lykilpunkta þriðja þingkvöldsins.

- Formleg kosning á forseta- og varaforsetaefni Demókrataflokksins fer fram. Barack Obama verður þá formlega fyrsti þeldökki forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna sem nær útnefningu sem forsetaefni hjá stóru flokkunum. Hann náði útnefningunni í síðustu forkosningunum 3. júní en fær loks sess sem forsetaefni í kvöld.

Þar sem Hillary Rodham Clinton hefur gefið eftir kjörmenn sína má búast við samstöðukosningu, þar sem Barack Obama fær mun fleiri atkvæði en hann vann í hinum sögulegu forkosningum. Þá kemur endanlega í ljós hversu mikil samstaða er í flokknum og hversu margir styðja Hillary þrátt fyrir að hún hafi gefið eftir atkvæði sín.

- Varaforsetaefnið Joe Biden flytur formlegt útnefningarávarp sitt. Þetta verður þýðingarmesta ræða hins 65 ára gamla öldungadeildarþingmanns frá Delaware á ferlinum. Væntanlega mun hann þar afhjúpa hlutverk sitt í kosningabaráttunni, sem varðhundur framboðsins í árásum og átakapunktum gegn John McCain.

 Auk þess mun Biden reyna að tala sig upp í það hlutverk að vera hinn sterki stjórnmálamaður við hlið Obama, með reynsluna og kraftinn. Hann þarf að selja bandarískum kjósendum þá ímynd sína að vera hinn trausti reynsluhlekkur hins óreynda forsetaframbjóðanda í átökum næstu 70 dagana.

- Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, mun flytja ávarp. Beðið hefur verið eftir ræðunni mjög lengi. Hann var ósáttur með að vera úthlutað því að tala aðeins um þjóðaröryggismál og búist er við að hann muni gera það að engu og fara yfir víðan völl, sýna með því sjálfstæði sitt.

Auk þess er talið að Clinton muni tala sig upp úr átakamálum forkosningabaráttunnar þar sem eiginkona hans tapaði. Í gegnum samstöðutal muni hann minna á hversu vel hann skildi við samfélagið fyrir átta árum og bera saman við stöðuna nú, sér í vil.

- John Kerry, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts og forsetaefni demókrata árið 2004, mun flytja ávarp, auk þess Harry Reid, meirihlutaleiðtogi demókrata í öldungadeildinni og þingmaður í Nevada. Auk þess tala Evan Bayh, öldungadeildarþingmaður í Indiana, og Jay Rockefeller, öldungadeildarþingmaður í Vestur-Virginíu.

- Barack Obama kemur til Denver í kvöld. Hann hefur verið á ferð um nokkur lykilfylki síðustu dagana og fylgst með flokksþinginu úr fjarska. Nú þegar sögulegt útnefning hans er í sjónmáli kemur hann loksins á flokksþingið og verður sýnilegur þar. Útnefningarræðan er á morgun.

- Richard Daley, borgarstjóri í Chicago í Illinois, flytur ávarp. Auk þess tala Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, öldungadeildarþingmaðurinn Jack Reed og James Clyburn, fulltrúadeildarþingmaður í S-Karólínu.


Þetta verður kvöldið þar sem sagan er mörkuð með sögulegri kosningu á þeldökku forsetaefni og þar sem gráhærðir þrautreyndir menn í stjórnmálum, tveir menn sömu kynslóðar, bregða sér í ólík hlutverk. Annar talar upp samstöðu en hinn kynnir sig í nýju hlutverki og reynir að ná þeim sess að verða á forsetavakt næstu árin.

Þetta verður sannarlega áhugavert kvöld þar sem mun koma endanlega í ljós hvort samstaða demókrata sé staðreynd eða aðeins orðin tóm.


Þjóðhátíð á Arnarhóli - ótrúleg stemmning

Strákarnir fagna
Alveg er það nú yndislegt að fylgjast með þjóðhátíðarstemmningunni í Reykjavík. Allt við þessa hátíð sýnir vel hversu samhent þjóðin er í að fagna og heiðra landsliðinu eftir glæsilegt afrek í Peking. Aldrei verður það sjálfsagt að allir séu svo samhentir. Fjöldinn á Arnarhólki sagði meira en þúsund orð um það hversu samhent þjóðin er og hversu vel hún fagnar á sannri gleðistundu.

Auðvitað munu einhverjir segja að þetta hafi verið of mikið, allt við þessa hátíð hafi verið risavaxið og að erlendri fyrirmynd en samt þetta var þjóðarstund. Öll þurfum við að fagna liðinu og sýna hversu stolt við erum af þeim. Best af öllu fannst mér að heyra notaleg orð Þorgerðar Katrínar sem súmmeruðu upp stundina mjög vel.

Óli Stef flutti svo tilfinningaríka ræðu þar sem hann talaði fyrir hönd strákanna allra. En fyrst og fremst er þetta stund þjóðarinnar. Öll erum við samhent í að styðja strákana og þeir verða að finna það að við styðjum þá áfram í þeirra verkum. Það þarf að hlúa vel að þessu liði.

mbl.is Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomnir heim strákar!

Strákarnir komnir heim
Þá eru strákarnir komnir heim með Ólympíusilfrið. Gaman að sjá þegar þeir komu á Reykjavíkurflugvöll áðan. Allir með sól í hjarta á þessum gleðidegi. Samt svolítil vonbrigði að það sé ekki sól og bjart yfir borginni. Vonandi kemur einhver sólarglæta á eftir. Hér fyrir norðan er veðrið miklu betra.

Biðin eftir því að vélin með landsliðið lenti var ansi löng. Svei mér þá ef þetta minnti mig ekki á sjónvarpsmómentið þegar Bobby Fischer kom til Íslands fyrir rúmum þremur árum. Samt betur gert hjá Sjónvarpinu núna en Stöð 2 þegar Fischer kom.

Nú er bara að njóta augnabliksins. Útsending Sjónvarpsins er ansi vönduð. Þeir eru með lið á þrem eða fjórum stöðum um miðbæinn svo að við missum ekki af einu né neinu, sem betur fer.

mbl.is Landsliðið komið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súmmering: Leitað að samstöðunni í Denver

Hillary Rodham Clinton
Á öðru kvöldi flokksþings demókrata snerist allt um að leita að samstöðu í allri sundrungunni sem er undir niðri innan flokksins. Hillary Rodham Clinton, konan sem hlaut 18 milljón atkvæða í baráttu sinni fyrir því að verða fyrsti kvenkyns forseti Bandaríkjanna, gaf draum sinn um Hvíta húsið upp á bátinn og brosti í gegnum tárin er hún talaði upp andstæðing sinn í forkosningunum, Barack Obama, í langri og ítarlegri ræðu. Ræðan var traust og vel flutt, en fáir bjuggust við að hún meinti í raun það sem hún sagði. En þvílíkur ræðusnillingur þessi kona er.

Annað kvöldið var mun sterkara pólitískt og umgjörðin alvöru og traust. Þar var loksins ráðist af krafti gegn repúblikunum og frambjóðanda þeirra. Fyrsta kvöldið var minnst á John McCain í aðeins einni ræðu af alvöru. Nancy Pelosi tók þá það verkefni að sér. Nú var hún ekki eins einmana. Væmnin vék fyrir pólitískum þunga. Hver lykilmaðurinn í flokksstarfi demókrata kom fram á sviðið og talaði um hvað John McCain væri nú afleitur og komu með rökin sem þurfa ef demókratar vilja eiga einhvern séns á að sigra gömlu stríðskempuna.

Demókratar þurfa fyrst af öllu að sameinast ef þeir vilja eiga von á að ná á leiðarenda. Obama hefur ekki grætt neitt á varaforsetavalinu og að óbreyttu, skv. könnunum og stemmningunni fyrstu dagana, verður það metið sem pólitísk mistök. Hann virðist hafa valið mann sem færði honum enga fylgissveiflu eða traust kjarnafylgi inn í framboðið. En þess þá frekar verður hann að stóla á sjálfan sig. Hann verður líka að stóla á Clinton-hjónin. Hillary stóð við sinn hluta dílsins af einlægni og krafti. En það kraumar heldur betur undir niðri.

Förum yfir helstu punkta annars þingkvöldsins í Denver.

Hillary Rodham Clinton
- Hillary Rodham Clinton var stjarna kvöldsins, skein í gegnum allt og skyggði á alla aðra viðstadda, lykilræðumann þingsins, kvenkyns félaga í þingstarfinu, varaforsetaefnið og eiginkonu forsetaefnisins. Hillary leiftraði af orðfimi og krafti - algjörlega allur pakkinn, traust og ákveðin í að tala upp samstöðuna í flokknum. Hillary var hyllt mínútum saman áður en hún tók til máls, klappið ætlaði engan endi að taka - sýndi þar vel hversu sterk staða hennar er innan flokksins. Hillary er ekki að fara eitt né neitt. Ef Obama tapar mun hún sækjast eftir hnossinu aftur. Enginn vafi á því.

Hillary talaði samstöðuna upp. Talaði gegn John McCain vinnufélaga sínum í öldungadeildinni af fítonskrafti. Þakið ætlaði að rifna af Pepsi Center þegar hún sagði með blik í auga brosandi: No Way, No How, No McCain. Hún spurði stuðningsmenn sína hvort þeir hefðu stutt sig vegna áherslna sinna eða til að koma repúblikana í Hvíta húsið. Talaði eins fallega um Obama eins og mögulega var unnt og hún treysti sér til. Aldrei í ræðunni sagði hún þó Obama vera tilbúinn til að verða forseti Bandaríkjanna né talaði um bakgrunn hans í embættinu. Þetta var því hol stuðningsræða.

Chelsea Clinton kynnti mömmu sína með fáum en fallegum orðum. Chelsea er orðin pólitísk stjarna, þvert á það þegar hún varla talaði í forsetatíð föður síns opinberlega. Hún hlaut sína eldskírn í pólitískri baráttu mömmu sinnar. Þegar þurfti að mýkja baráttuna var hún sótt til að leika lykilhlutverk við að kynna mömmu sína. Nú er talað um að stutt sé í að hún sjálf fari í framboð. Er efni í það. Mikið innilega var kynningarmyndin um Hillary flott og skemmtilega klippt. Snilld.

Hyllingin á Hillary var algjörlega ótrúleg. Ætlaði engan endi að taka. Þarna sáu Obama og stuðningsmenn hans hversu traust staða Hillary er. Konur felldu tár þegar Hillary sagði lífsreynslusögur kvennanna sem studdu hana og lögðu henni til peninga bara til að eygja von á kvenforseta. Margir karlarnir í salnum voru heillaðir líka. Stjörnuljóminn er til staðar og innst inni mátti sjá að margir sáu eftir að hafa ekki tryggt Hillary útnefninguna. Enda ef flokkurinn tapar á þessu ári þar sem allt á að leika þeim í lyndi munu allir sjá eftir því að hafa ekki kosið hana.

Michelle Obama var samt heldur vandræðaleg í hyllingunni. Eins gott að Barack var ekki þarna. Hillary átti sviðið og salinn algjörlega. Drottnaði yfir og minnti á að Clinton-stjörnuljóminn er algjör. Eins gott að draga ekki í efa mátt Hillary. Hún hefur í fjóra áratugi verið í flokkskjarnanum, unnið baki brotnu og hefur reynsluna. Ekki var hægt annað en velta fyrir sér meðan Hillary talaði flokksþingið upp úr vitleysunni og til skýjanna af hverju hún varð ekki varaforsetaefnið! Bara vegna heiðurs Obama-hjónanna?

Bill Clinton
- Bill Clinton ljómaði eins og sól í heiði á meðan eiginkona hans talaði. Var stoltur og hrærður, líka íhugull og klappaði manna mest. Clinton forseti mun vera mun ósáttari við Barack Obama en eiginkona hans og hreinlega illur yfir meðferð Obama-hjónanna á eiginkonu sinni í valferlinu á varaforsetaefni og á sér í forkosningaslagnum. Auk þess varð hann trylltur yfir því að sér væri skammtað eitt umræðuefni í ræðunni sem hann á að flytja í kvöld.

Nánustu samherjar Clinton-hjónanna fullyrða að hann láti þann ramma lönd og leið og tali um það sem hann vill, sérstaklega efnahagsmálin. Hann þorir líka að láta finna fyrir sér. Hann ætlar ekki að vera viðstaddur ræðu Obama í Denver þar sem hann þiggur útnefninguna annað kvöld og ætlar að fara aftur til New York í fyrramálið á meðan Hillary hefur ákveðið að vera þingið út. Sterk skilaboð hjá sjarmatröllinu frá Hope í Arkansas. Hann þolir ekki Obama.

Mark Warner
- Mark Warner, þingframbjóðandi og fyrrum ríkisstjóri í Virginíu, flutti lykilræðu þingsins. Frekar átakalaust allt saman, slétt og fellt stuðningstal fyrir Obama. Fannst þetta flöt og léleg ræða. Má vera að Warner sé öruggur í öldungadeildina eftir nokkra mánuði en ég var að sofna yfir ræðunni hans. Sorrí, þetta var slappasta lykilræða demókrata síðan Bill Clinton talaði endalaust í lélegustu ræðu ferilsins á flokksþinginu 1988.

Dennis Kucinich
- Dennis Kucinich var alveg magnaður í sinni ræðu. Átti alveg salinn, var kjaftfor og hress, baðaði út höndunum og öskraði boðskapinn. Hjólaði í McCain fram og til baka án þess að hika. Þetta er það sem demókratar verða að gera ef þeir ætla að gera þingið að success, hjóla í andstæðinginn og gera hann ótrúverðugan. Sykurblaður kemur þeim ekki neitt.

Konur í öldungadeildinni
- Þetta var sérstakt kvennakvöld demókrata. Minnt á stöðu kvenna almennt og styrk þeirra innan flokksins. Minnt á hvað flokkurinn ætti nú marga kvenkyns ríkisstjóra og þingmenn í öldungadeildinni. Sterkt móment þegar þær komu saman fram á sviðið, en vakti samt spurningarnar um að demókrötum mistókst að tryggja konu alla leið í Hvíta húsið á sögulegu ári, sem hefði getað orðið þeirra.

Obama horfir á Bill Clinton
- Kvöldið var því allt í senn flott stjörnumóment og með miklum pólitískum þunga. Mun betur heppnað en það fyrsta. Og í kvöld mun Bill Clinton eiga sviðið, mun frekar en varaforsetaefnið Joe Biden, sem skv. könnunum virðist ekki vera að færa framboðinu neina fylgisaukningu. Allir fylgjast með því sem Clinton forseti segir og hvernig og hvort hann muni gera það sem hann hefur aldrei gert fram að þessu, tala upp Barack Obama sem forsetaefni.

Fréttaskýrendur spá því að það verði honum erfitt og því muni ræðan verða mun frekar um það sem hann afrekaði en það sem Obama gæti afrekað. Clinton forseti er langrækinn og skapmikill og gleymir engu. Hans pólitíska minni frá árinu 2008 er vel í lagi og það mun eflaust lita ræðuna. Fyrir Obama sjálfan er biðin eftir ræðunni erfið, enda veit hann að Clinton forseti hatar hann jafnmikið og pestina.


mbl.is „Erum í sama liði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksþing demókrata í Denver: 2. dagur

HillaryClintonFlokksþing demókrata heldur áfram í kvöld í Denver. Í gær var fjölskyldan í fyrirrúmi, mjúka hliðin á Barack Obama kynnt í bak og fyrir, auk þess að Ted Kennedy var heiðraður og Michelle Obama mátaði sig við hlutverk forsetafrúarinnar. Kvöldið var upp og ofan, mörgum fannst það of væmið og dæmdu það glatað í pólitískum skilningi. Meðal þeirra var James Carville, vinur og pólitískur spunameistari Clinton-hjónanna fyrr og nú.

En nú er komið að alvöru pólitískum stjörnuljóma. Í kvöld verður Hillary Rodham Clinton í aðalhlutverki á flokksþinginu sem flestir töldu fyrir rúmu hálfu ári að yrði hennar, þar myndi hún verða helsta stjarnan í hlutverki forsetaefnisins. Nú þarf hún að tala upp samstöðuna í flokknum, gefa sviðsljósið eftir til Barack Obama og sýna að hún hugsi um flokkshag umfram sinn eigin, þó fjölmargir stuðningsmenn hennar séu hvergi nærri sáttir við stöðuna. Svo verður að sjá hvort stjörnuljómi hennar mun skyggja á manninn sem sigraði hana þegar hann kemur til Denver.

Kannanir benda til þess að fjölmargir stuðningsmenn Hillary ætli ekki að styðja Barack Obama í væntanlegum forsetakosningum. Fjölmargir þeirra ætli að sitja heima eða styðja John McCain. Aðeins helmingur þeirra er kominn um borð hjá Obama. Þetta er áhyggjuefni, þegar kannanir sýna að Obama hefur ekki forskot og varaforsetavalið á Joe Biden virðist ekki hafa breytt einu né neinu. Sumar kannanir gefa meira að segja til kynna að McCain sé kominn yfir í byrjun flokksþingsins. Martröð fyrir demókrata.

Clinton-hjónin hafa enn stjörnuhlutverk. Fyrir fjórum árum voru þau höfð saman fyrsta kvöldið til að skyggja ekki á John Kerry á hans flokksþingi í Boston. Nú drottna þau yfir miðju þinginu, kvöldin tvö áður en Obama þiggur útnefninguna í Denver. Auðvitað segir það allt sem segja þarf um hlutverk þeirra í baráttunni næstu 70 dagana. Þau hafa lykilhlutverk og Obama verður að hafa þau með og þess vegna hafa þau sviðið áður en hann kemur til borgarinnar. 

Clinton forseti mun vera æfur vegna þess að honum var valið að tala um þjóðaröryggismál af kosningabaráttu Obama, án nokkurs samráðs við sig. Hann vill tala um efnahagsmál og telur sig verða að gera það. Bæði vilji hann setja ofan í við Obama, sem gerði lítið úr afrekum í forsetatíð hans í forkosningabaráttunni og eins minna á að hann hafi skilið við efnahagsmálin í toppformi. Fróðlegt verður að sjá hvort hann heldur sig við rammann.

Förum yfir nokkra lykilpunkta annars þingkvöldsins.

- Hillary Rodham Clinton er aðalræðumaður kvöldsins. Henni er ætlað að tala um lykilmál sín í kosningabaráttunni, einkum jafnréttismál. Mikilvægt er fyrir demókrata að sameina flokkinn og sýna að Hillary horfi fram á veginn en ekki aftur, hún tali stuðningsmenn sína með sér inn í lestina hans Obama, þó hún hafi ekki orðið varaforsetaefnið. Mikil ergja er í herbúðum hennar með hvernig farið var með Hillary. Ekki hafi Obama hringt sjálfur í hana til að tilkynna um valið á Biden heldur aðstoðarmenn hans haft samband við aðstoðarmenn Hillary.

Sumir lykilmenn í baklandi Hillary eru reyndar svo æfir að þeir ætla sér að yfirgefa Denver á morgun og munu því ekki verða þar þegar Obama þiggur formlega útnefninguna. Hillary tilkynnti síðdegis að hún ætlaði að vera viðstödd þegar Obama flytur ræðu sína. Greinilegt er með því að samkomulag hefur náðst um að klára þingið. Væntanlega mun Hillary hvetja þá sem styðja hana í kjörinu á morgun til að styðja Obama og gefur hún þingfulltrúa sína. Enn er þó óljóst hvort henni verður tryggt hlutverk við hæfi í baráttunni. Hillary er það mikilvæg að nærvera hennar skiptir máli.

Búast má við að Hillary flytji leiftrandi og trausta ræðu og minni vel á sögulegt hlutverk sitt á þessu kosningaári þó henni hafi ekki tekist að ná alla leið. Hún mun líka minna á að hún sé hvergi nærri búin að vera í stjórnmálum og horfir fram á veginn en ekki aftur. Þetta er mikilvægt fyrir Obama. Hann þarf að fá stuðningsmenn Hillary með sér. Algjört lykilmál. Án þess hóps eru kosningarnar dæmdar til að tapast.

- Chelsea Clinton kynnir mömmu sína. Chelsea var ein helsta stjarna forsetaframboðs móður sinnar og barðist með henni allt til enda. Chelsea var mikið í skugganum í forsetatíð pabba síns, var sjáanleg en ekkert meira en það. Foreldrar hennar vildu ekki að Chelsea yrði opinber persóna þrátt fyrir hlutverk þeirra og hún heyrðist varla tala opinberlega þau átta ár sem pabbi hennar var einn valdamesti maður heims.

Chelsea tók lykilhlutverk í baráttunni eftir ósigur mömmu sinnar í Iowa og barðist með henni í frontinum í New Hampshire og allt þar til hún viðurkenndi loks ósigurinn í júní. Tók hún enn stærra hlutverk eftir alvarleg mistök pabba síns þegar hann missti sig í suðurríkjunum á þýðingarmesta hluta baráttunnar. Síðan hafa verið sögusagnir um að hún fylgi í fótspor foreldra sinna og tímaspursmál hvenær hún fari í framboð sjálf.

- Mark Warner, fyrrum ríkisstjóri í Virginíu, er lykilræðumaður flokksþingsins (key note speaker). Fylgir hann eftir sjálfum Barack Obama í því hlutverki, en Obama var lykilræðumaður flokksþingsins í Boston fyrir fjórum árum. Warner sækist nú eftir sæti repúblikans John Warner (fyrrum eiginmanns Liz Taylor) í öldungadeildinni fyrir fylkið. Valið á honum kom ekki að óvörum, enda vilja demókratar bæði vinna sætið og tryggja Obama sigur í fylkinu í nóvember. Demókrati hefur ekki unnið í Virginíu síðan Lyndon Johnson var kjörinn forseti árið 1964.

- Helstu ríkisstjórar flokksins ávarpa þingið í kvöld; þau Brian Schweitzer í Montana; Deval Patrick í Massachusetts (fyrsti þeldökki ríkisstjórinn þar); Kathleen Sebelius í Kansas (sem var mikið orðuð við varaforsetahlutverkið); Janet Napolitano í Arizona (heimafylki John McCain); Joe Manchin í Vestur-Virginíu; Jim Doyle í Wisconsin; Ed Rendell í Pennsylvaníu; Ted Strickland í Ohio; David Paterson í New York (fyrsti þeldökki ríkisstjórinn í New York og sá fyrsti blindi á landsvísu - tók við af Eliot Spitzer sem féll á vændiskonuviðskiptum) og Chet Culver í Iowa. Mikilvægt fyrir Obama að sýna þennan trausta hóp.

- Öldungadeildarþingmennirnir Bob Casey í Pennsylvaníu og Patrick Leahy í Vermont ávarpa þingið ennfremur. Báðir lýstu yfir stuðningi við Obama á mikilvægum tímapunkti. Leahy komst reyndar sérstaklega í sviðsljósið í apríl þegar hann sagðist vilja beita flokksvaldi til að henda Hillary úr forkosningaslagnum, sem leiddir til harðvítugra átaka milli lykilmanna Clinton-hjónanna og hans. Hefur hann með því, að sögn nánustu samherja Clinton-hjónanna, fallið í ónáð hjá þeim.

- Þetta er sérstakt kvennakvöld þingsins. Allar konur í forystunni koma saman á sviðið á þessu kvöldi konunnar sem hlaut 18 milljón atkvæða í forkosningunum og til að marka afmælisdag kosningaréttar kvenna í Bandaríkjunum. Kaldhæðnislegast af öllu er að stór hluti kvennanna í lykilstöðunum studdu frekar Obama en Hillary, meira að segja harðir femínistar á þingi.

Kvöldið er því allt öðruvísi en gærkvöldið. Alvöru pólitík með lykilfólki, mikill þungi og traust áhersla á að taka slaginn við repúblikana. Sykursætt kannski í og með en samt harðari pólitík. Stóra mómentið verður auðvitað Hillary. Allir munu fylgjast með henni í kvöld og hvert orð og hvert augnablik ræðunnar verður skannað í bak og fyrir. Ekki aðeins spá menn í fatnaði hennar, heldur líkamstjáningu, svipbrigðum og áherslum.

Þetta er kvöldið hennar Hillary. Og svo er að sjá hvernig henni tekst að tala reiða stuðningsmenn sína á að munstra sig á dallinn með Obama næstu 70 dagana. Þetta er aðalmómentið sem ræður úrslitum í því hvort tekst að sameina flokkinn, eins sundraður og hann lítur út fyrir að vera á þessu þingi. 

Ég segi bara eins og Bette Davis í hlutverki Margo Channing í kvikmyndinni ógleymanlegu All About Eve; Fasten Your Seatbelts - It´s Going to Be a Bumpy Night!


Ríkisstjórnin styður við bakið á "strákunum okkar"

Strákarnir okkarMér finnst það flott hjá ríkisstjórninni að leggja landsliðinu lið. Eftir hinn frábæra árangur "strákanna okkar" í Peking þarf að tryggja að handboltinn hafi traustari umgjörð og landsliðið þarf að fá meiri pening til að vinna í sínum málum. Því er þetta gott skref.

Landsliðið tryggði árangur eftir umbrotatíma, þegar enginn vildi fóstra liðið sem þjálfari. Fjöldi manna höfnuðu því að taka starfið að sér vegna þeirrar umgjörðar sem var um starfið. Mikilvægt er að taka á því, en það mætti svosem segja mér að þeir sem höfnuðu þjálfarastöðunni öfundi Guðmund af því að hafa tekist það enginn trúði að væri hægt.

Og svo koma hetjurnar á morgun. Það er mikilvægt að þeir finni vel hversu stolt við öllum erum af þeim.


mbl.is HSÍ fær 50 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband