Ingibjörg Sólrún með góðkynja æxli í höfði

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur nú greinst með góðkynja æxli í höfði í för sinni til New York á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Alltaf er áfall að heyra slíka sjúkdómsgreiningu eins af valdamestu ráðamönnum þjóðarinnar. Þegar Davíð Oddsson greindist með krabbamein árið 2004 hugsaði öll þjóðin til hans í veikindunum.

Ég vil færa Ingibjörgu Sólrúnu góðar kveðjur og vona að vel muni ganga að eiga við þetta mein og hún nái sér fljótt og vel.

mbl.is Utanríkisráðherra veiktist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólýsanleg bilun hjá finnska fjöldamorðingjanum

Eftir því sem meira kemur fram um finnska fjöldamorðingjann í Kauhajoki verður ljóst hversu mjög hann hefur líkt eftir fjöldamorðingjanum Auvinen í Jokela og þeim Klebold og Harris í Columbine árið 1999. Kveðjubréfið hans er eiginlega nákvæmlega eins og það sem Auvinen skildi eftir fyrir ári. Sturlunin og reiðin í garð samfélagsins og allra sem voru í kringum hann er ólýsanleg. Hann hefur greinilega verið búinn að loka sig af og gera plan um þessa árás mjög lengi.

Finnst verst af öllu að finnsk stjórnvöld hafa ekki lært lexíuna fyrir ári. Þessi strákur var ekki stöðvaður, þrátt fyrir yfirheyrslur sólarhring fyrir fjöldamorðið, og enn er Finnland eitt af þeim löndum þar sem mest vopn eru af. Talað var um það í fyrra að herða ætti vopnalöggjöfina og stokka mál upp. Finnar eru í miklu sjokki, enda hlýtur að vera alveg gríðarlega mikið áfall að upplifa svona fjöldamorð tvisvar á innan við ári.

Vel sést á youtube-myndböndunum hvað Saari var truflaður og ofbeldisfullur. Algjörlega vægðarlaus í aftökunni á samnemendum sínum. Lét sér ekki nægja að drepa allan þennan fjölda heldur kveikti í eftir voðaverkið og enn á eftir að bera kennsl á fjölda nemenda. Ótrúleg klikkun og óhugnaður.

Skólinn á að vera griðastaður og skjól. Þessi finnski harmleikur er óþægilega nærri okkur. Svo margir hérlendis hafa talað um að þetta sé bara bandarískur veruleiki og beri merki klikkun þess samfélags. Við verðum að fara að líta okkur nær.


mbl.is Sagðist hata mannkynið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt mál

Morðið á Hrafnhildi Lilju Georgsdóttur er mikill harmleikur. Hún hefur verið myrt með kaldrifjuðum hætti, bæði stungin og barin illa, málið vekur mikinn óhug meðal þjóðarinnar. Við erum ekki vön því að fá fréttir af því að íslenskir ríkisborgarar séu myrtir á hótelherbergjum sínum á erlendri grundu. Í þeim efnum er þetta mál sérstaklega sorglegt.

Ætla að vona að lögregluyfirvöld á staðnum nái að raða saman púslum málsins og leysa það fljótlega.

Vil votta aðstandendum Hrafnhildar Lilju innilega samúð mína.

mbl.is Fannst látin í Dóminíska lýðveldinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorðinginn í finnska iðnskólanum deyr

Matti Juhani SaariFjöldamorðinginn Matti Juhani Saari, sem myrti að minnsta kosti tíu manns í iðnskólanum í Kauhajoki í Finnlandi, er nú látinn af sárum sínum. Þetta er mikil sorgarsaga og að vissu marki leitt að Saari lifði ekki til að hægt væri að heyra hans hlið þessa mikla harmleiks sem hann var valdur að. Þetta skelfilegasta fjöldamorð í norrænni sögu stendur enda eftir sem óráðin gáta sem þarf að leysa án fjöldamorðingjans.

Mér finnst youtube-myndböndin hans sýna mjög mikið hatur hans og innbyrgða reiði, sennilega á samfélaginu og öllu í kringum hann. Saari virðist senda ákall frá sér um að rísa upp og gefa frá sér einhverskonar yfirlýsingu. Þetta er í grunninn nákvæmlega það sama og var í Jokela í Finnlandi fyrir ári, Columbine, Virginia Tech og fleiri skólum þar sem sömu hörmungar hafa gengið yfir. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess.

Samt er það svo ólýsanlega sorglegt að norrænn námsmaður sé tilbúinn til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar. Svo mörg mál af þessum toga hafa átt sér stað síðustu árin, oftast nær í skólastofnunum. Flestir líta til Bandaríkjanna í þeim efnum. Ekki má þó gleyma því að fyrir ellefu árum áttu sér stað fjöldamorð í íþróttasalnum í barnaskólanum í Dunblane í Skotlandi. Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrti þá 16 skólabörn og kennara þeirra - var ekki tengdur skólanum en trylltist eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi á svæðinu.

Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Fyrirmyndin að Jokela-fjöldamorðinu var skotárásin í Columbine-skólanum í Colorado í apríl 1999. Auvinen spilaði lagið Stray Bullet með rokkbandinu KMFDM á Youtube myndklippu sinni, lagið sem hafði svo mikil áhrif á Klebold og Harris.

Klebold og Harris voru einfarar, menn sem voru í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Mjög margt í þessu máli líkist bæði Columbine og Virginia Tech-málunum. Bæði Cho Seung-Hui og Auvinen stúderuðu Harris og Klebold og talaði sá fyrrnefndi um þá sem píslarvætti. Klippurnar með Saari líkjast mjög því sem Auvinen gerði.

Harris og Klebold hafa reyndar öðlast sess í huga margra og er enginn vafi að Columbine er í senn bæði cult-fyrirbæri margra og fjöldi ungra Bandaríkjamanna líta t.d. á Harris og Klebold sem uppreisnarmenn sem hafi gert það eina sem þeir gátu gert

Við blasir að Saari var gangandi tímasprengja. Hann var yfirheyrður í gær og ótrúlegt að lögreglan hafi ekki gert neitt meira. En kannski var ekkert hægt að gera. Ekki er hægt að mæla hversu vitfirrtur sjúk sál mannsskepnunnar getur orðið.

Þessi harmleikur verður sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar.


mbl.is Finnski byssumaðurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsorg í Finnlandi - nöturlegur harmleikur

Byssumaðurinn Þjóðarsorg er í Finnlandi eftir fjöldamorðið í iðnskólanum í Kauhajoki. Þetta fjöldamorð í norrænum skóla hefur hreyft við öllum sem fylgjast með fréttum - þetta er nöturlegur harmleikur sem erfitt er að lýsa með orðum í sannleika sagt. Sorg hvílir yfir friðsælu skólasamfélagi og frændum okkar Finnum öllum. Mikilvægt að sýna þeim samúð, svo skömmu eftir Jokela-fjöldamorðið fyrir tíu mánuðum.

Í finnsku samfélagi gnæfa spurningarnar eins og brot í stóru púsli, þau munu vonandi ná að mynda heilstæða mynd að lokum - mynd sem sýnir atburðarásina í réttu ljósi og svarar því sem eftir stendur að lokum. Fyrst og fremst er þetta mál mikið áfall fyrir okkur á Norðurlöndum. Við höfum talið okkur trú um það að við lifum í vernduðu samfélagi, það sem gerist af þessu tagi í Bandaríkjunum sé fjarlægur veruleiki og komi okkur ekkert svo mikið við. Þetta er veruleiki sem hefur nú náð til okkar á þessu samnorræna svæði. Það er skelfilegt.

Mér finnst þetta sýna okkur mjög vel að við lifum ekki í vernduðu samfélagi. Klikkað fólk getur verið á ferli hvar sem er, fólk sem getur breytt örlögum þeirra sem við þekkjum á augabragði. Fyrst svona skelfingaratburður getur átt sér stað í norrænum framhaldsskóla þurfum við að líta á heildarmyndina öðrum augum. Það sem gerist í Bandaríkjunum er ekki lengur veruleiki sem er okkur fjarlægur. Þetta er dapurleg lexía sem við sjáum gerast með þessu. Það er ekki lengur hægt að líta á þennan veruleika sem bandarískan, sem fjarlægan.

Öll vottum við Finnum samúð okkar. Þetta er þeim gríðarlegt áfall skiljanlega, þetta er þó ekki bara áfall þeirra heldur okkar allra. Þessi veruleiki er mikill fyrir okkar norræna umhverfi.

mbl.is Níu látnir í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var góði gæinn í Kompás í kvöld?

Kompás Dúndurbyrjun hjá Kompás í kvöld. Fyrsti þátturinn hafði verið kynntur svo vel að ekki var annað hægt en fylgjast með myndklippunni af Benjamín og Ragnari. Sjónvarpið stillti upp Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, á sama tíma þar sem hann sló á umræðuna um sig og Landsvirkjun. Ég valdi Kompás fram yfir Árna, örugglega ekki einn um það.

Kompás er djarfur og öflugur fréttaskýringarþáttur. Gengur langt og hefur náð athygli út á það að vera ferskur og afgerandi, hefur komið upp um barnaníðinga og hneyksli af ýmsu tagi, kom t.d. upp um það sem gerðist í Byrginu árum saman án þess að ríkið fylgdist með því er það dældi peningum í starfsemina.

Myndefnið með földu myndavélinni var ansi öflugt - traust myndræn framsetning sem mun vekja umtal og deilur. Þátturinn fékk sína auglýsingu og gott betur en það, löngu áður en fyrsti þáttur vetrarins var sýndur og fær meira umtal á næstunni.

Eflaust átti þetta að vera svona góði gæinn vs. vondi gæinn uppsetning. Átti erfitt með að sjá hvort einhver góði gæi var í þessu. Á erfitt með að gera upp við mig hvort var ógeðfelldari og meiri durtur.

En Stöð 2 stendur sig vel með Kompás og á hrós skilið fyrir að vera með fréttaskýringarþátt, sem er eitthvað meira en Sjónvarpið getur státað sig af.


Óþolandi auglýsingahlé í Dagvaktinni á Stöð 2

Dagvaktin Mikið innilega var það nú notalegt að sjá þá félaga Georg, Ólaf Ragnar og Daníel aftur. Dagvaktin lofar svo sannarlega góðu. Hinsvegar var auglýsingahléið sem skar þáttinn í sundur í tvo búta algjörlega óþolandi. Stöð 2 gerði það sama með Næturvaktina, en svei mér þá ef þetta var ekki lengra auglýsingahlé og meira pirrandi en það.

Fyrir okkur sem erum áskrifendur að Stöð 2 er algjörlega ömurlegt að sjá svona gæðaefni skorið í sundur. Þættirnir eru með tvo styrktaraðila, auglýsta í bak og fyrir í þættinum, svo að maður hélt að kannski væri nóg að dæla nóg af auglýsingum fyrir og eftir þáttinn. Ónei, ekki beinlínis. Auglýsingum er smurt svoleiðis í þáttinn og eyðileggur skemmtanagildi hans allnokkuð.

Ríkissjónvarpið gerði ekki hið sama og skar ekki Svörtu englana í tvennt. Enda á svona gæðaefni að vera sent út í einni heild en ekki skorið í sundur. Kannski væri hægt að skilja þessa auglýsinganauðgun á leiknu íslensku efni ef Stöð 2 væri ekki áskriftasjónvarp. Stöð 2 minnir í þessu illilega á Skjá einn - mikil afturför vægast sagt.

Niðursveiflan og unga fólkið

Nú þegar kreppir að í niðursveiflunni kemur hún helst niður á ungu fólki, sem þarf að leigja og kaupir mat. Ekkert annað er í kortunum en þetta verði erfiður vetur fyrir þennan hóp og mjög þröngt um allt. Ég hef heyrt margar sögur af þessu nú þegar haustar að og ekki eru allir svo lánsamir að geta staðið undir öllum þunganum sem fylgir niðursveiflunni.

Staðan hérna heima hefur komið fram í því að ungt fólk sem fer út til að læra hefur ekki séð hag í því að flytja heim aftur, en ákveður þess í stað frekar að vera áfram á þeim slóðum.

Annars vonum við öll að niðursveiflan standi ekki lengi yfir, þó öll teikn séu á lofti um að veturinn verði mjög erfiður.


mbl.is Kreppir að fjárhag unga fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háspenna í Hafnarfirði

Frábært að horfa á háspennuleikinn í boltanum í Hafnarfirði síðdegis. Lengst af leiknum hélt ég að Íslandsmeistaratitillinn væri að fara til Keflavíkur í fimmta skiptið og það fyrsta í hálfan fjórða áratug en Dalvíkingnum Atla Viðari tókst að bjarga FH undir lokin og halda möguleikum þeirra á dollunni á lífi. Fínt að spennan haldist í baráttunni um meistaratitilinn, nú þegar ljóst er (það sem allir vissu reyndar í mestallt sumar) að Skaginn og HK falli.

Spái samt enn að dollan fari til Keflavíkur. Og þeir eiga það líka skilið. Þegar Gaui Þórðar hætti við að þjálfa Keflavík á sínum tíma og Kristján Guðmundsson var valinn í staðinn hefði manni ekki órað fyrir því að titillinn yrði þeirra fyrir lok áratugarins. Þeir hafa unnið fyrir þessu á Suðurnesjum.

mbl.is FH - Keflavík, 3:2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalok hjá Brown - slátrun blasir við krötunum

Gordon Brown Ekki verður annað séð en pólitísku endalokin blasi við Gordon Brown mjög fljótlega. Lánleysi hans og kratanna er orðið svo gríðarlega mikið að vandséð verður hvort honum verði treyst fyrir leiðtogahlutverkinu fram að kosningum sem eru dæmdar til að tapast. Nýjustu kannanir gefa allar til kynna að algjör slátrun sé framundan og flokkurinn færður aftur á niðurlægingartímabil Thatcher-tímans.

Ég hélt reyndar um mitt sumarið að Brown myndi fá tækifærið til að halda áfram, þrátt fyrir tapið í London og í Crewe og Nantwich. Tapið í Glasgow East var mjög skaðlegt í kjölfarið, voru í raun hin táknrænu endalok og fyrirboði þess sem koma skal. Brown hefur mistekist í leiðtogahlutverki sínu og bæði misst frumkvæði og kraft. Í sumarfríinu reyndi hann að raða púslum misheppnaðs leiðtogaferils síns saman og bæta stöðuna.

Eins og staðan er núna er langlíklegast að pólitíski ferill járnkanslarans (eins og Brown var kallaður á tíu ára fjármálaráðherraferli sínum) lifi ekki veturinn af. Ef kratarnir tapa þingsætinu í Glenrothes í Skotlandi í næsta mánuði verður það náðarhöggið. Nú þegar þingmenn um allt land og jafnvel ráðherrar með sterkan prófíl horfa fram á að tapa sætum sínum í blóðbaði næstu kosninga undir forystu Browns munu þeir taka fram hnífana og brýna þá, slá af Brown til að eygja von á að halda sínum áhrifum og völdum lengur en út kjörtímabilið.

Ergó: Brown horfist í augu við sömu pólitísku örlög og Margaret Thatcher. En verða þau umflúin - mun hann geta bjargað sér og haldið pólitískum völdum sínum? Ég held ekki. Eina sem gæti bjargað Brown væri snöggur viðsnúningur í efnahagsmálum. Held þó að það muni ekki duga heldur. Margir líta nefnilega svo á að veik staða efnahagsmálanna ein sé ástæða yfirvofandi falls Brown af valdastóli. Ég held ekki. Hann nær fyrir það fyrsta ekki tengslum við almenning, virðist vanta bæði kjörþokka og þann kraft sem þarf til að heilla kjósendur.

Gleymum því ekki að upphaf endalokanna fyrir Brown voru í raun ekki staða efnahagsmálanna. Hikið varð honum að falli. Hann daðraði við það í nokkra mánuði að efna til nóvemberkosninga fyrir ári og fór í gegnum síðasta flokksþing kratanna án þess að svara spurningum en gefa því undir fótinn. Þá hafði hann fengið sína rósrauðu hundrað daga í himneskri hjónabandssælu við kjósendur. Þegar kannanir fóru svo að gefa til kynna að stórsigur væri ekki í kortunum í kosningum hikaði hann og beygði af leið. Hikið var dýrkeypt.

Brown á að baki mjög merkilegan stjórnmálaferil. Hann beið eftir völdunum í þrettán ár, framan af mjög þolinmóður vegna samnings við Tony Blair en gerðist æ órólegri þegar Blair sveik samninginn og dró fram hnífana til að gera hann upp. Þau endalok voru blóðug undir niðri en gengu þó slétt og fellt fyrir á yfirborðinu. Innri sár flokksins eru mikil eftir hjaðningavíg Browns og Blairs og enn er fylkingamyndunin algjör. Nánustu stuðningsmenn Blairs bíða nú á hliðarlínunni - það hlakkar í þeim að gera upp Brown.

Könnun Observer í dag gefur til kynna að David Cameron muni fá traust og afgerandi umboð á landsvísu sem forsætisráðherra Bretlands í næstu kosningum - íhaldsmenn fái 146 þingsæta meirihluta. Afhroð Verkamannaflokksins verður svipað niðurlægingu íhaldsmanna fyrir ellefu árum. Cameron er farinn að hljóma og lúkka eins og Tony Blair gerði á tíunda áratugnum. Hann er á leiðinni í Downingstræti 10 og rauði dregilinn er til staðar.

Endalok Brown eru mörkuð óvissu. Þó er mun líklegra nú að hann verði gerður upp innan eigin raða heldur en hann fái að leiða kratana í kosningar. Blóðbað virðist blasa við. Þetta eru sorgleg endalok fyrir Gordon Brown sem hefur verið risi í breskum stjórnmálum, ekki aðeins í ellefu ára valdatíð kratanna heldur líka þegar hann vann við hlið læriföður síns, John Smith, allt þar til hann lést árið 1994, og svo í aðdraganda kosninganna 1997.

Fall hans og pólitísk endalok eru þó augljós í þessari stöðu. Þegar kannanir eru farnar að gefa til kynna að öflugir ráðherrar Blair-tímans á borð við Jack Straw, Jacqui Smith og Ruth Kelly eru dæmd til að tapa þingsætum sínum er ljóst að kratarnir eru á leið inn í enn eina eyðimerkurgönguna. Ég spái því að Blair-armurinn slátri Brown á næstu vikum eða mánuðum og leiði David Miliband, pólitískt eftirlæti Blairs, til valda.

En verða endalokin umflúin þó Gordon Brown fái pólitíska náðarhöggið? Og hvað ætla þau eiginlega að gera við gamla sorrí Brown? Karlgreyið mun eiga erfitt með að fara af velli og vandséð hvernig hann geti farið af velli nema niðurlægður og sár. Endar hann kannski í sæti fjandmanns síns Mandelsons sem kommissar í Brussel?

mbl.is Enginn bilbugur á Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama nær forskotinu - styttist í kappræður

McCain/Obama Allt stefnir í harðskeyttan og æsispennandi lokasprett í baráttunni um Hvíta húsið. Þegar 44 dagar eru til stefnu blasir við að barist er af mikilli hörku og stefnir slagurinn nú í að verða persónulegur og óvæginn rétt eins og í kosningunum 2000 og 2004 þar sem öllum brögðum var beitt.

Barack Obama hefur nú aftur náð forskotinu í baráttunni. Ekki kemur það að óvörum. Veik staða efnahagsmála skiptir alltaf máli og kemur auðvitað mun meira niður á fulltrúa þeirra sem fara með völdin heldur en þeim sem hefur frítt spil og getur gagnrýnt meira. Þó hefur John McCain nú hafið að skjóta á Bush forseta vegna efnahagsmálanna og ætlar að reyna að sækja fylgi þrátt fyrir stöðuna.

John McCain tók mikla áhættu með því að velja ekki Mitt Romney sem varaforsetaefni. Romney hefði sem varaforsetaefni getað tæklað efnahagsmálin, enda með mikla reynslu í þeim efnum, og hefði séð algjörlega um þann málaflokk í baráttunni. Sarah Palin mun þrátt fyrir sinn stjörnuljóma ekki geta lagt McCain lið í efnahagsmálunum. Því stendur það algjörlega upp á McCain að tala um efnahagsmálin og reyna að tala niður þá sem hafa talað um að hann sé veikur á svellinu þar.

Ef þessar kosningar snúast algjörlega um efnahagsmálin minnka sigurmöguleikar McCain til muna. En enn eru rúmar sex vikur eftir af baráttunni og fjarri því öruggt að þau verði aðalkosningamálið, þó flest bendi til þess núna. Mér finnst það reyndar merkilegast hvað bæði forsetaefnin standa veikt í efnahagsmálum. Obama græðir auðvitað á því að vera nýliðinn, hann getur sótt að McCain vegna stöðu mála eftir átta ára samfellda forsetatíð repúblikana og verk þeirra.

Fyrirsjáanlegt er að mikið verður rætt um efnahagsmálin í kappræðunum. Fyrstu kappræðurnar fara fram á föstudaginn í Mississippi. Þetta verður í fyrsta skipti sem Obama og McCain hittast á sama vettvangi og fara í debatt um lykilmál baráttunnar og pólitísk álitaefni. Þeir hafa báðir verið í forsetaframboði í rúmt eitt og hálft ár og tekið margar kappræður, einkum Obama í langri baráttu sinni við Hillary, en þurfa nú að fóta sig þar á nýjum forsendum.

McCain bauð reyndar Obama að taka þátt í kappræðufundum vítt um Bandaríkin í aðdraganda kappræðnanna þriggja en Obama afþakkaði það boð. Obama hefur alltaf verið miklu betri í ræðuflutningi og tali á kosningafundum en því að fara í kappræður. Hillary Rodham Clinton var miklu betri í því formi kosningabaráttunnar - Obama vildi er leið á baráttuna í vor ekki mæta Hillary lengur í kappræðum eftir að staða hans veiktist í kjölfar Wright-málsins.



Kappræðurnar eru hið formlega upphaf lokaspretts baráttunnar. Báðir frambjóðendur hafa æft sig mjög mikið að undanförnu fyrir kappræðurnar. Minnstu mistök þar fylgir frambjóðendum eftir miskunnarlaust. Fyrstu kappræðurnar árið 1960 tryggðu sennilega sigur Kennedys gegn Nixon, þar sem sá síðarnefndi vanmat mátt sjónvarpsins - var sveittur og ófarðaður á meðan kjörþokkinn geislaði af Kennedy.



Oft síðan hefur klúður frambjóðenda á viðkvæmum kappræðutímapunkti haft úrslitaáhrif. Gleymir annars nokkur þegar gamli Bush forseti leit á klukkuna sína í kappræðunum 1992 við Bill Clinton og Ross Perot? Þetta leit út eins og hann nennti þessu ekki og gæti ekki beðið eftir að komast burt. Andstæðingarnir voru fljótir að notfæra sér þetta og birtu myndir af þessu og sögðu að tími hans væri liðinn.

Lítið annars á klippuna af Bush þar sem hann flaskar rosalega á spurningunni hjá konunni en Clinton nýtir sér veikleika forsetans og gengur á lagið. Frábært svar og gott dæmi um hversu mikill pólitískur snillingur Clinton var. Lánleysi gamla Bush í þessum kosningum var reyndar algjört og allan tímann ljóst að Clinton myndi rúlla honum upp.

mbl.is Obama vinnur á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert mat - töfralausnir og tálsýn

Mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands í efnahagsmálum vekur vissulega athygli ofan í allan svartsýnissöng þeirra sem vilja leysa niðursveifluvandann með þeirri "töfralausn" einni að taka upp evruna og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst tal ansi margra sem tala fyrir því sem einhverri lausn minna mig á söguna um manninn sem fannst grasið vera betra hinumegin við ána, en þegar hann kom þangað sá hann fegurðina bara í hyllingum.

Erfitt er að meta hvenær við náum okkur út úr niðursveiflunni sem skekið hefur samfélagið, en það er ekki valkostur að hugsa um annað en reyna að ná fótfestu undir okkur. Enginn lagar okkar vandamál nema við sjálf. Við Íslendingar verðum að vinna úr okkar málum en getum ekki stólað á að aðrir bjargi okkur úr þessum darraðardansi.

Ég velti því vissulega fyrir mér hvort krónan eigi sér framhaldslíf, eðlilega gerum við það öll. En þegar við lesum þetta mat er ekki nema von að spurt sé hvort við séum farin að sjá ljósið við lok ganganna.

mbl.is Íslendingar öfundsverðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómar í Bandaríkjunum á sögulegu kosningaári

Obama-hjónin Í fyrsta skipti í bandarískri stjórnmálasögu á þeldökkur maður raunhæfa möguleika á því að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna. Barack Obama hefur sýnt og sannað að hann hefur stöðu og styrk í að hljóta forsetaembættið. En skv. könnunum skiptir enn máli fyrir þriðjung kjósenda hvort frambjóðandinn er þeldökkur eða hvítur. Vonandi munu þessir fordómar ekki ráða úrslitum.

Vissulega er þetta mjög kuldalegt mat og dapurlegt að staðan sé með þeim hætti að fordómar grasseri enn gegn þeldökkum og þeldökkum sé ekki treyst fyllilega fyrir valdaembættum. Fjórir áratugir eru liðnir frá því að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King var myrtur í Tennessee. Morðið á honum var áfall fyrir blökkumenn sem höfðu barist undir forystu hans fyrir mannréttindum sínum og komist nokkuð áleiðis með mannréttindalögum Johnsons forseta árið 1964, sem hann hafði tekið í arf frá John F. Kennedy, forvera sínum, sem myrtur var í Texas árinu áður og hafði talað mjög fyrir réttindum blökkumanna.

Þrátt fyrir að dr. King ætti sér draum um samfélag þar sem allir væru jafnir óháð litarafti hefði hvorki honum né þeim sem gengu með honum í Washington árið 1963 órað fyrir því að nokkrum áratugum síðar ætti blökkumaður alvöru möguleika á að komast alla leið í Hvíta húsið, þó þeim hafi eflaust innst inni dreymt um þann möguleika. Aðeins fjórir þeldökkir (utan Obama) hafa gefið kost á sér til forsetaembættis. Þeirra þekktastur er Jesse Jackson, sem barðist fyrir útnefningu demókrata árin 1984 og 1988, en auk hans hafa Al Sharpton, Shirley Chisholm og Carol Elizabeth Moseley Braun gefið kost á sér.

Mikið var skorað á Colin Powell, hershöfðingja í Persaflóastríðinu, um að gefa kost á sér í forsetakosningunum 1996 sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Kannanir sýndu að hann átti góða möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna. Hann velti fyrir sér þeim möguleika að fara fram af alvöru, en ákvað þó að gefa ekki kost á sér. Eiginkona hans, Alma, var mjög andsnúin framboði hans, af ótta við að hann yrði myrtur færi hann í framboð og myndi sigra Bill Clinton. Powell hefur margoft sagt þá ákvörðun rétta. Powell varð fyrsti þeldökki utanríkisráðherrann árið 2001, í forsetatíð George W. Bush, sem valdi þeldökka konu sem eftirmann hans.

Margoft hefur verið velt fyrir sér þeim möguleika að blökkumaður yrði forseti Bandaríkjanna og það verið stílfært í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Í upphafi áratugarins var það lykilsöguþráður í fyrstu sjónvarpsseríu þáttaraðarinnar 24 að ráða ætti þeldökkan forsetaframbjóðanda, David Palmer, af dögum, en hann var þá í fararbroddi þeirra sem sóttust eftir útnefningu Demókrataflokksins. Litlu munaði að þeim tækist það, en atburðarásin tók á sig ýmsar myndir er yfir lauk. Í annarri seríu var Palmer orðinn forseti, fyrstur þeldökkra, og söguþráðurinn snerist enn að mestu um hann. Hann var að lokum myrtur í fimmtu seríunni.

Auðvitað er það tímanna tákn að þeldökkur maður geti orðið valdamesti maður heims og verður söguleg þáttaskil í stjórnmálasögunni gerist það á þessu ári. En auðvitað er frekar leitt að enn sé þeldökkum ekki fyllilega treyst eða gefið í skyn að blökkumaður verði sjálfkrafa myrtur komist hann nærri flokksútnefningu eða vinni baráttu um Hvíta húsið. Kannski er þetta bara enn hinn blákaldi raunveruleiki.

Enn eru því miður til valdamiklir hópar sem vilja ekki að blökkumaður verði valdamesti maður heims og munu berjast harkalega gegn því á þeim forsendum einum. Fordómarnir lifa enn, því miður.

mbl.is Kynþáttafordómar gætu kostað Obama sigurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkur Gísla

Ég dáist að styrk Gísla Sverrissonar og fjölskyldu hans við erfiðar aðstæður. Held að okkur öllum hér fyrir norðan sé hugsað til þessarar fjölskyldu á erfiðum tímamótum sem fylgja alvarlegum veikindum Gísla, eftir að hann varð fyrir mænuskaða fyrr í þessum mánuði. Mikilvægt er að þau finni fyrir stuðningi og hlýjum hugsunum nú.

Viðtalið við Gísla í Íslandi í dag í gærkvöldi sýndi vel að hann er baráttumaður sem ætlar ekki að láta þetta slá sig út af laginu, hann ætlar að berjast og reyna að ná einhverju af fyrri styrk. Auðvitað er það mikið áfall fyrir ungan mann og fjölskylduna alla að þurfa að horfast í augu við þessi veikindi en styrkur þeirra er mikils virði í því.

Auðvitað eru það þung örlög að verða fyrir svo þungu höggi og þurfa að berjast fyrir því einu að hreyfa sig. Þjóðin hefur stutt mjög vel þá sem hafa orðið fyrir mænuskaða og söfnunin í gær sýndi mjög vel stöðu þeirra mála.

mbl.is Gengið fyrir Gísla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu mikils virði er saklaus sál?

Fátt er auvirðilegra en koma illa fram við börn, hvort sem þau eru beitt ofbeldi eða stolið af þeim. Merkilegast af öllu merkilegu í fréttinni um manninn sem dæmdur var fyrir að stela peningum af tveggja ára stelpu er hversu þungan dóm hann hlaut. Auðvitað er glæpurinn mikill og brennimerkir manninn, ekki aðeins í bandarísku samfélagi heldur um víða veröld.

Þarna er dæmt í sex ára fangelsi og undirstrikað að árásin á stelpuna var alvarleg samkvæmt bandarískum stöðlum. Í samhengi við dóminn er fróðlegt að líta á dóma í kynferðisbrotamálum hérlendis. Fyrir nokkrum vikum var háskólakennari dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sjö stelpum. Sá dómur var skammarlega vægur.

Kannski er erfitt að meta svo vel sé hvenær saklaus sál er eyðilögð og hvernig eigi að refsa í samræmi við glæpinn svo eftir sé tekið. Í samhengi afbrotanna er eðlilegt að bera saman bandaríska dóminn og þann íslenska og eðlilega vaknar spurningin um það hvers vegna dómar í kynferðisbrotamálum séu svo vægir hérlendis.

mbl.is Stal úr sparibauk ungabarns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartir englar ekki á Dagvaktinni

Dagvaktin Ég er mjög ánægður með að Þórhallur og Pálmi, dagskrárstjórar Sjónvarpsins og Stöðvar 2, komu í veg fyrir að Dagvaktin og Svartir englar tímasettir á dagskrá á sama kjörtíma á sunnudagskvöldi. Ekki hefur verið það mikið af vönduðu leiknu sjónvarpsefni að nú þegar framboðið er meira sé það keyrt á hvort annað.

Enda er miklu betra að geta horft á annan þáttinn í rólegheitum og skipt svo yfir og horft á hinn. Hef miklar væntingar bæði til Dagvaktarinnar og Svartra engla og ætla mér, eins og örugglega flestir sjónvarpsáhorfendur, að horfa á báða þætti og njóta þess að íslenskt leikið efni sé á kjörtíma á báðum stöðvunum.

Vissulega er gott að úrval sé af leiknu efni og hægt sé að velja um á sama kvöldinu hvort horft sé á tvo þætti mjög vandaða. En mér finnst betra að hægt sé að horfa á það án þess að hafa áhyggjur af því hvort eigi að horfa á eða velja þurfi á milli. Held að báðir aðilar græði á þessu samkomulagi um að tryggja gott íslenskt sjónvarpskvöld á báðum stöðvum án þess að klessa því saman.

Annars vil ég hrósa bæði Pálma og Þórhalli. Grunnkrafa er að stöðvarnar, einkum ríkisrekin sjónvarpsstöð, bjóði áhorfendum upp á íslenskt sjónvarpsefni, sérstaklega leikið efni. Ríkisútvarpið hefur ekki staðið sig í þessum efnum í árafjöld en er loksins að taka sig á.

mbl.is Báðir þættir fá að njóta sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð niðurstaða fyrir ljósmæður

Ég vil óska ljósmæðrum innilega til hamingju með nýsamþykktan kjarasamning og langri kjaradeilu þeirra sé lokið farsællega með góðri niðurstöðu. Auðvitað hefði verið betra ef samningar hefðu tekist án aðkomu ríkissáttasemjara en þetta ætti að teljast góð útkoma miðað við allar aðstæður. Þær tóku slaginn og komu sem sigurvegarar út úr því ferli.

Ljósmæður fengu stuðning þjóðarinnar með mjög afgerandi hætti í þessari kjaradeilu og ég held að mjög vel hafi sést í almennri umræðu, bæði hér á netinu og eins í spjalli almennings, að þær höfðu traustan meðbyr í sínum kröfum. Þær koma mjög sterkar út úr þessu og hafa styrkt stöðu sína mjög mikið.


mbl.is Miðlunartillagan samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsveifla á föstudegi

Mikið er það nú ánægjuleg tilbreyting að sjá jákvæðan viðsnúning á mörkuðum og vonandi er þetta aðeins upphafið á jákvæðum fréttum á næstunni. Eiginlega hefur það helst líkst svæsinni hryllingsmynd að fylgjast með mörkuðunum að undanförnu og þróunin í þessari viku helst líkst martröð. Því verða jákvæðu tíðindin alltaf miklu notalegri í svona ástandi.

Ekki er gott að spá um hvort uppsveiflan haldi áfram og botninum sé náð. Væntanlega mun þetta rokka upp og niður meira á næstunni og ekki öruggt með stöðugleikann. En jákvæðu dagarnir sannfæra allavega almenning að það mun birta upp um síðir, þegar við höfum tekið út timburmennina eftir fjármálafylleríið.

mbl.is Allt á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð greinir stöðuna og talar tæpitungulaust

Davíð Oddsson Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, talaði enga tæpitungu í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2. Hann greindi stöðuna algjörlega afdráttarlaust og var ekki að spara stóru orðin um menn og málefni. Mér fannst Davíð greina stöðuna ágætlega; hann talaði af yfirsýn og þekkingu um öll lykilmál.

Mér fannst sérstaklega gott að heyra Davíð tala niður viðurnefnið Íslandsálag sem bankarnir eru að reyna að klína á stöðuna. Auðvitað er þetta mikil hugtakabrenglun. Bankaálag er mun meira viðeigandi í ljós þess að íslenska ríkið er nánast skuldlaust á meðan bankarnir eru mjög illa staddir og skulda mjög mikið. Mikilvægt er að passa upp á að bankarnir spinni þetta ekki að sinni vild.

Davíð hefur alla tíð verið umdeildur og eflaust eru margir ósáttir við túlkun hans og tjáningu um lykilmál. En helsti kostur hans er að tala til þjóðarinnar, bæði afdráttarlaust og hefur sig algjörlega upp úr meðalmennskublaðri. Þetta var helsti styrkleiki Davíðs sem stjórnmálamanns. Hann talaði kraft og kjark í þjóðina meðan hann var forsætisráðherra og talaði barlóm og rausið niður. Þess vegna hefur hann sennilega verið hataður af sumum landsmönnum.

Davíð var miklu afdráttarlausari og ákveðnari í tali í dag en Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Ummæli hans hurfu algjörlega í skuggann af greiningu Davíðs á stöðunni. Í og með sýnir það styrkleika Davíðs enn í dag. Hann er einfaldlega á allt öðrum skala en allir þeir sem tala um þessi mál, einkum í stjórnmálunum. Enda virðist enginn gnæfa yfir meðalmennskuna í íslenskri pólitík um þessar mundir. Meðalmennskan og daufleikinn er algjör.

Davíð stuðar en hann stendur svo sannarlega fyrir sínu.


mbl.is Davíð segir að krónan muni ná sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagamenn falla

Ekki er hægt annað en vorkenna Skagamönnum með fallið úr úrvalsdeildinni. Í allt sumar hefur verið augljóst að eitthvað væri stórlega að hjá liðinu og þeir náðu aldrei takti, voru sálrænt undir miklu álagi og sukku sífellt dýpra í myrkrið. Þjálfaraskiptin breyttu ekki neinu, voru fyrir það fyrsta framkvæmd of seint og vita vonlaust að ná að breyta til á þeim tímapunkti. Tvíburunum tókst þetta síðast en náðu ekki að snúa ógæfunni við, þeir voru allavega það djarfir að taka áhættuna.

Auðvitað eru það alltaf stórtíðindi þegar stórveldi falla úr úrvalsdeildinni. Skagamenn tóku skell, svipaðan þeim sem þeir hafa átt í að undanförnu, fyrir tveim áratugum en náðu svo að komast aftur í úrvaldsdeildina og áttu samfellda sigurgöngu í fimm ár og drottnuðu yfir deildinni. Þó Skagamenn hafi aðeins einu sinni síðasta áratuginn náð að verða Íslandsmeistarar hafa þeir haft stóran sess í boltanum og verður eftirsjá af þeim.

Nú er svo að sjá hvort þeir muni eiga jafn trausta endurkomu í úrvalsdeildina og í upphafi gullaldartímans á tíunda áratugnum eða hvort við taki þrautaganga í fyrstu deildinni í nokkur ár.


mbl.is KR sendi Skagamenn í 1. deild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband