18.9.2008 | 15:04
Áfall fyrir þjóðkirkjuna
Eitt af því sem kom mér mest á óvart í þessu máli var að til væri fagráð um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar. Enn hefur þeirri spurningu ekki verið svarað hversu mörg mál hafi komið þar inn á borð frá stofnun fagráðsins, þó auðvitað sé þetta mál á Selfossi löngu orðið einstakt að umfangi og alvarleika.
Svona dapurleg mál vekja athygli og skaða það starf sem unnið er hjá kirkjunni að mínu mati. En mikilvægt að úrræði séu til staðar til að taka á málum innan kirkjunnar sem stofnunar.
![]() |
Séra Gunnari veitt lausn frá embætti tímabundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2008 | 13:42
Frjálslyndir í upplausn - uppreisn gegn formanni?
Sundrungin og sjálfstortímingin innan Frjálslynda flokksins tekur enn á sig nýjar myndir. Uppreisnin gegn Kristni H. Gunnarssyni er að snúast upp í uppreisn gegn Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni flokksins, ef marka má yfirlýsingar Valdimars Jóhannessonar. Miðstjórn flokksins og einstaka fulltrúar í henni eru farnir að sækja sér ægivald yfir formanni flokksins og skipa honum fyrir verkum í nafni stöðu sinnar innan miðstjórnar og senda honum tóninn í fjölmiðlum.
Mér finnst athyglisvert að sjá Valdimar koma fram með þessum hætti. Litlu munaði að Guðjón Arnar tryggði þessum manni þingsæti á kosninganótt 1999. Eins og flestir ættu að muna náði Guðjón Arnar kjördæmakjöri í Vestfjarðakjördæmi og tryggði þar með undirstöðu flokksins allt fram á þennan dag á persónulegu fylgi sínu. Framan af kosninganótt var Valdimar Jóhannesson inni sem alþingismaður í jöfnunarsæti í Reykjaneskjördæmi en féll síðla nætur þegar stofnandinn Sverrir Hermannsson náði sætinu af Valdimar.
Frjálslyndi flokkurinn virðist vera orðinn stjórnlaus. Fylkingarnar eru greinilega að riðlast og mér finnst umvandanir og skipanir til formannsins helst minna á tilraunir til uppreisnar og yfirtöku á flokknum. Talað er til Guðjóns Arnars eins og hann sé aukapersóna í flokknum en ekki undirstaða hans og styrkasta stoð. Þetta er nokkur breyting. Þrátt fyrir alla ólguna til þessa hefur staða Guðjóns Arnars jafnan verið trygg og enginn reynt að tala svona til hans.
Margrét Sverrisdóttir lagði ekki í formannsframboð á sínum tíma gegn Guðjóni, sem hefði þó verið það skynsamlegasta enda ekki séð hvernig hún gæti unnið með Guðjóni Arnari eftir að hann tók afstöðu gegn henni og síðar studdi Magnús Þór til varaformennsku gegn henni. Klofningur flokksins á þeim tíma var óumflýjanlegur. Þar var uppgjör um persónur en nú virðist vera sótt að Guðjóni Arnari bæði vegna persóna og málefna. Hann er eiginlega beðinn um að slá af Kristinn H. og fara eftir valdi miðstjórnar í tilteknu máli.
Yfirlýsing Valdimars Jóhannessonar er skýrasta dæmið um að hlýði Guðjón Arnar ekki sér og þeim sem fylgja Jóni Magnússyni að málum muni vera sótt ekki aðeins að Kristni H. heldur og honum sjálfum, formanninum og undirstöðu flokksins. Pólitískt er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi. Vissulega eru það tímamót en gera klofnings- og sundrunarmálin innan flokksins enn áhugaverðari og spennandi. Þetta er flokkur með mikil innanmein og virðist á góðri leið með að falla fyrir eigin hendi á kjörtíma.
Þvílíkt drama á einum stað. Stóra spurningin er nú hvort formanninum verði steypt af stóli á næsta landsfundi og ráðist verði að þeim. Allir vita að Guðjón Arnar sótti Kidda sleggju prívat og persónulega. Hann fékk þingflokksformennskuna úr hendi Guðjóns Arnars. Upphefð hans, sem er mikill þyrnir í augum fulltrúa Nýs afls innan flokksins, kom úr hendi Guðjóns Arnars. Aðför að honum nú er aðför að Adda Kitta Gau.
Hvernig verður annars samstarfið í þessum þingflokki í vetur? Einn þingmanna búinn að lýsa yfir vantrausti á þingflokksformanninn, samherjar sama manns eru búnir að senda út stríðsyfirlýsingar á þingflokksformanninn og formann flokksins um að hlýði þeir ekki muni þeir koma í bakið á þeim báðum, ekki síður Guðjóni. Þetta valdadrama á eftir að verða áhugavert í vetur.
![]() |
Glymur klukkan Kristni eða Guðjóni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 02:12
Pósthólf Söru opnað - netföng og frambjóðendur

Fyrir nokkrum dögum voru demókratar að gera grín að McCain í auglýsingu því hann gæti ekki notað tölvu og skrifað tölvupóst. Sú gagnrýni var frekar hol í ljósi þess að McCain getur ekki notað lyklaborð vegna stríðsáverka og getur t.d. ekki lyft höndum sínum eðlilega upp. Fróðlegt verður að sjá hvort ráðist verði nú að Söru Palin fyrir að hafa ekki skoðað pósthólfið sitt á yahoo svo dögum skipti. Hún hefur greinilega ekki skoðað það um skeið.
Nokkrir forsetaframbjóðendur töluðu mikið um það að þeir sendu ekki tölvupóst. George W. Bush sagði í kosningabaráttunni 2000 að hann væri ekki með netfang og hann hefur alveg örugglega ekki komið sér upp einu slíku í Hvíta húsinu. Að sögn gárunga sagði Al Gore eitt sinn að hann hefði fundið upp internetið svo hann hefur örugglega verið með netfang á árum sínum í Hvíta húsinu. Bill Clinton notaði ekki tölvupóst á árum sínum í Hvíta húsinu. John Kerry spurði eitt sinn á fundi hvað þetta at-merki þýddi eiginlega.
Barack Obama hefur verið með mjög tæknivædda kosningabaráttu og mun örugglega verða fyrsti forseti Bandaríkjanna með tölvupóstfang í Hvíta húsinu ef hann nær kjöri á meðan John McCain mun örugglega ekki vera með tölvu við hendina. Hvað varðar Söru Palin er stóra spurningin eflaust hvort hún ætlar að halda yahoo-netfanginu og nota það í Hvíta húsinu verði hún varaforseti Bandaríkjanna fyrst kvenna.
![]() |
Tölvuþrjótar komust í póstinn hjá Palin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2008 | 01:24
Tzipi Livni markar söguleg skref í Ísrael

Þegar Sharon fékk heilablóðfall fyrir tæpum þremur árum varð Livni utanríkisráðherra, aðeins önnur kvenna í sögu Ísraelsríkis og var fulltrúi Sharon-hópsins við völd. Hún lék lykilhlutverk í stofnun Kadima vikurnar á undan og hafði fylgt Sharon úr Likud á þeim örlagatímum þegar flokkurinn klofnaði. Sharon hafði verið einn stofnenda flokksins árið 1973 en beygði sig ekki undir vald harðlínukjarnans og tók mikla pólitíska áhættu með því að segja skilið við flokkinn og stofna Kadima (Áfram).
Sharon var í kjölfarið með öll völd í hendi sér og fékk fornan andstæðing í ísraelskum stjórnmálum, Shimon Peres, fyrrum forsætisráðherra, í lið með sér við stofnun flokksins. Allt benti til yfirburðasigurs Sharons og honum myndi takast að segja skilið við ísraelsk stjórnmál á toppi ferilsins. Veikindin bundu enda á litríkan stjórnmálaferil og nánustu samstarfsmenn hans voru lengi að fóta sig eftir þau þáttaskil sem óneitanlega fylgdu endalokum hans í pólitísku starfi.
Þegar Sharon stofnaði Kadima var talið öruggt að hann vildi að Livni yrði eftirmaður hans á forsætisráðherrastóli fyrir mitt kjörtímabilið. Í tómarúminu sem fylgdi veikindum Sharons náði Ehud Olmert, fyrrverandi borgarstjóri í Jerúsalem, lykilstöðu og það varð hlutskipti hans að taka við Kadima. Kadima vann góðan kosningasigur nokkrum vikum eftir að Sharon veiktist, þó mun minni en spáð hafði verið í könnunum og að mestu út á minninguna um stofnandann sem tók hina miklu áhættu, þá mestu á sínum ferli, með því að kljúfa Likud, sem var í rústum eftir.
Allir vita eftirleikinn. Olmert náði aldrei almennilegum tökum á forsætisráðherraembættinu. Fylgi Kadima hefur hrunið í leiðtogatíð hans, að mestu vegna hneykslismála og vandræðalegra afglapa í utanríkismálum, einkum Líbanon-málinu sem næstum gerði út af við stjórnmálaferil Olmerts um mitt árið 2007. Undir pólitískri leiðsögn Olmerts hefur Likud náð vopnum sínum og hefur nú sterka stöðu í könnunum og virðist líklegt að Benjamin Netanyahu takist að byggja flokkinn upp aftur sem hið mikla stórveldi á dögum Sharons.
Ariel Sharon lifir enn. Hann varð áttræður í febrúar og er enn í dái á hjúkrunarstofnun í Jerúsalem. Þegar ár var liðið frá því hann fékk heilablóðfallið sem batt enda á feril hans var stóra spurning allra fjölmiðlanna þar hvað hann myndi segja ef hann vaknaði upp við hina pólitísku stöðu í landinu. Á innan við ári gekk Olmert frá pólitískum styrkleikum þeim sem Sharon lét eftir flokknum í arf og var búinn að gera út af við eigin feril. Fjarri því er víst að takist að laga þann skaða.
Allir helstu pólitísku ráðgjafar og stuðningsmenn Sharons lögðu mikið á sig til að tryggja sigur Livni. Hún stendur nú vörð um pólitíska arfleifð hans og hefur í hendi sér hvort Kadima verði lykilafl áfram í ísraelskum stjórnmálum. Og nú reynir hún að mynda stjórn. Hún fylgir í fótspor Goldu Meir bæði sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra og opnar nýjan kafla í pólitík landsins, ekki aðeins fyrir konur heldur og við að tryggja Kadima framhaldslíf eftir afglöp Olmerts á valdastóli.
Sögulegur sess Livni við hlið Goldu Meir í pólitískri sögu Ísraels mun ráðast fyrst og fremst að því hvort henni tekst að mynda stjórn fljótt og vel - koma með því Olmert úr embætti afgerandi og traust - og hvort henni takist að verja pólitískt vígi Ariels Sharons.
![]() |
Livni kjörin leiðtogi Kadima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2008 | 18:36
Sundrung frjálslyndra - dauðvona flokkur
Ekki verður annað séð en Frjálslyndi flokkurinn sé dauðvona. Hann er að klofna upp og ganga frá sjálfum sér á þeim tímum þegar sóknarfæri stjórnarandstöðuflokka ætti að vera sem mest. Miðstjórn flokksins er farin að sækja sér ægivald yfir Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni flokksins, og skipa honum fyrir verkum með eftirlaunafrumvarpið og senda út skilaboð um hvernig gera eigi hlutina. Hvergi annarsstaðar tíðkast að miðstjórnin drottni yfir formanni og tali niður til hans.
Og svo er greinilega verið að veita Kristni H. Gunnarssyni náðarhöggið sem þingflokksformanni. Dagar hans í því hlutverki eru greinilega taldir og fylkingin að baki Jóni Magnússyni farin að sækja sér ægivald í flokknum. Ef marka má skilaboðin frá miðstjórninni er þess ekki langt að bíða að hópurinn sem styður Jón og sennilega Magnús Þór Hafsteinsson sæki sér full yfirráð yfir flokknum. Farið er að tala um Guðjón Arnar sem fortíð í pólitík, bæði af þeim sem hafa varið hann eða stutt.
Ég held að þessi flokkur muni deyja pólitískt þegar Guðjón Arnar lætur af formennsku. Honum var það að þakka að flokkurinn náði flugi. Með persónufylgi sínu fyrir vestan náði Guðjón Arnar kjöri með glæsibrag í alþingiskosningunum 1999 og tók Sverri Hermannsson með sér inn. Án þessa kjarnafylgis í gamla Vestfjarðakjördæmi hefði Frjálslyndi flokkurinn aldrei náð flugi. Þegar Guðjón Arnar fer út úr pólitík fer undirstaða flokksins með honum.
Þetta er þegar að verða eins og fjölskylda sem berst um ættargóssið, fjölskyldusilfrið og fallegu málverkin á veggjum forfeðranna. Þegar átökunum lýkur verður allt sem innanhúss er orðið verðlaust og gott betur en það. Magnús Þór er pólitískt landlaus, situr ekki á þingi og hefur veikst gríðarlega í sessi sem varaformaður.
Erfitt er um það að spá hver nær yfirráðum í þessum glundroða en ljóst er að Kristinn H. er búinn að mála sig út í horn með því að bakka ekki upp innflytjendastefnuna. Fróðlegt verður það ef Kristinn H. endar í Samfylkingunni eftir áratug á flokkaflakki, eftir að Alþýðubandalagið geispaði golunni og rann inn í Samfylkinguna.
Þá fór Kristinn H. í Framsókn til að standa vörð um stöðu sína en fór þaðan við illan leik eftir að hafa misst stuðning allra fylkinganna þar - orðinn pólitískt landlaus. Þá bjargaði Guðjón Arnar Kristjánsson honum frá pólitískum endalokum og hann hélt þingsætinu með eftirminnilegum hætti.
Kannski fer hann heim. Ef Kristinn H. yfirgefur flokkinn sem hefur þegar snúið við honum baki er hann kominn í fjórða flokkinn á sautján ára þingferli. Slær þá meira að segja við Hannibal Valdimarssyni.
![]() |
Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2008 | 15:00
Röggsemi á borgarstjóravakt

Hanna Birna er röggsöm og afgerandi í verkum sínum, eins og sést hefur af framgöngu hennar að undanförnu. Mjög sniðugt er hjá henni að fara í heimsókn í stofnanir borgarinnar, ræða við fólk og taka þátt í starfinu þar. Þessi símsvörun er kannski ekki langtímaverkefni en bara það að taka þessi verkefni að sér gerir það að verkum að borgarstjórinn virkar ekki eins og fjarlæg toppfígúra.
Mér finnst Hanna Birna vera traustasti borgarstjórinn sem setið hefur við völd á þessu kjörtímabili. Vonandi mun henni takast að færa borginni styrka og afgerandi stjórn til að taka á lykilmálum. Mikilvægt er að glundroðaskeiðinu ljúki og hægt verði að hugsa um annað en reyna að halda völdum. Síðustu tólf mánuðir hafa verið niðurlægingartímabil fyrir borgarstjórn Reykjavíkur en vonandi eru betri tímar í vændum.
Ef Hanna Birna heldur áfram á þessari braut er ég viss um að henni mun takast að snúa vörn í sókn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Verkefnið verður ekki einfalt en allir sjálfstæðismenn í borginni hljóta að vera ánægðir með að hafa eignast traustan og afgerandi forystumann sem leiðir hópinn af röggsemi og krafti.
![]() |
Símadama á borgarstjóralaunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2008 | 11:33
Hryllingsfréttir á markaðnum
Þegar traustar stoðir eins og Nýsir eru farnar að gefa sig er eðlilegt að spyrja sig hvaða fyrirtæki eigi góða daga í þessu mótstreymi. Fylleríið er svo sannarlega búið og timburmennirnir verða svæsnir í haust og sennilega mestallan vetur hið minnsta.
![]() |
Nýsir á barmi gjaldþrots |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2008 | 00:35
Ike kominn í heimsókn á norðurhjara

Mér finnst eiginlega fátt ömurlegra en vindgnauðurinn sem fylgir svona óveðri. Gersamlega óþolandi. Ég horfði áðan á kvikmyndina Key Largo með hjónunum Humphrey Bogart og Lauren Bacall, og Edward G. Robinson. Er mjög viðeigandi að horfa á myndina í þessu roki, því myndin gerist meðan að fellibylur gengur yfir og hávaðarok og það tónaði ágætlega við rokið hérna á Akureyri meðan að myndin var í tækinu.
Ætla að vona að Ike fari jafnskjótt og hann kom. Ekki skemmtilegt að hafa hann í heimsókn. Hef hugsað um hverjum Ike er nefndur eftir. Er það rokkgoðið margfræga Ike Turner eða Ike Eisenhower forseti?
![]() |
Mörg útköll vegna óveðursins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2008 | 14:39
Fréttaflutningur með bandarískum keim
Ætla að vona að svo sé ekki. Við þurfum ekkert á svona fréttaflutningi að halda hér heima á Fróni.
![]() |
Ásdís Rán í bráðri lífshættu í Búlgaríu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.9.2008 | 11:41
Sameinaðar fréttastofur RÚV - Óðinn fréttastjóri

Til þessa hafa tvær fréttastofur á sömu hæðinni í sama húsi í eigu sama aðila verið varðar með því að þær vinni svo gott verk aðskilið og engin þörf á að breyta því. Upplagt hefði verið að breyta þessu þegar auglýst var eftir fréttastjóra Ríkissjónvarpsins árið 2002 og þegar deilurnar voru um fréttastjóra Ríkisútvarpsins árið 2005 eftir að Auðun Georg hætti við að þiggja stöðuna. Þá hefði átt að skipa Elínu Hirst sem yfirmann yfir öllu dæminu og sameina það. Mörg tækifæri hafa því runnið úr greipum þessa fólks.
Verð að viðurkenna að ég er hissa á að Óðinn Jónsson verði fréttastjóri RÚV við þessar aðstæður, átti mun frekar von á að Elín Hirst fengi það hlutverk, þar sem hún hefur verið mun lengur fréttastjórnandi í Efstaleitinu en Óðinn, starfað þrem árum lengur sem fréttastjóri og er ein af mjög fáum konum sem hafði yfirmannsstöðu í fréttageiranum. Hún virðist þó ekki vera að fara frá RÚV ef marka má fréttir. Þó verður áhugavert að sjá hvaða hlutverk henni verði valið sem geti komið til móts við fyrra hlutverk hennar sem fréttastjórnandi.
Bogi Ágústsson hætti sem fréttastjóri Ríkissjónvarpsins árið 2002 til að taka við nýju hlutverki yfirmanns fréttamála hjá Ríkisútvarpinu. Skildi ég aldrei þá ráðstöfun að hafa einn yfirmann þessara mála en svo tvo fréttastjóra með fullan starfstitil sem undirmenn hans. Mun betra hefði verið að ráða Boga yfir þetta starf þá, en væntanlega hefur ekki verið áhugi fyrir því að svipta Kára Jónasson fréttastjórastöðu sem hann hafði haft allt frá árinu 1987. Ekki löngu síðar fór hann þó yfir á Fréttablaðið.
Þegar rekstrarformi Ríkisútvarpsins var breytt var staða Boga lögð niður og fréttastjórarnir sviptir sameiginlegum yfirmanni fréttamála en höfðu áfram sín störf og tvær fréttastofur voru skilgreindar í breyttu formi stofnunarinnar. Bogi endaði sem starfsmaður á erlendri fréttadeild og að ég held sem undirmaður Ingólfs Bjarna Sigfússonar. Bogi hefur líka verið með einhverja viðtalsþætti. Staðan er því sú að yfirmennirnir Elín og Bogi hafa á skömmum tíma endað sem undirmenn á fréttadeildinni.
Fjögur eða fimm tækifæri til breytinga á fréttasviði Ríkisútvarpsins hafa verið misnotuð af Páli Magnússyni og Markúsi Erni Antonssyni. Spurt er hvers vegna þetta sé gert núna, en ekki áður þegar hægt var að stokka upp án þess að láta fréttastjórnanda fara úr starfi. Freistandi er að líta svo á að þessi ákvörðun sé tekin núna til að hagræða í rekstri. Ekki er það þó sagt núna en áhugavert verður að sjá hvað gerist síðar meir.
Löngu tímabær er þessi ákvörðun. Bæði gerir hún starf fréttastofu ríkisins mun skilvirkara og einfaldara og komið er í veg fyrir tvívinnu við fréttir. Þetta ætti að gera góða fréttavinnslu enn betri og traustari. En mikið var að þeim tókst að laga þetta eftir átta ár með tvær fréttastofur hlið við hlið að vinna sama verkið. Ríkisútvarpinu veitir varla af því að hagræða til hjá sér.
![]() |
Fréttastofur RÚV sameinaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 00:45
Kuldalegar nágrannaerjur
Annars hef ég svosem heyrt svæsnari sögur af nágrannaerjum. Upplifað sjálfur hatrömm átök milli nágranna í fjölbýlishúsi þar sem ég hef búið og sögur frá vinum mínum. Stundum er þar rifist upp á nauðaómerkilega hluti sem verða að stórmáli í leiðindaátökum sem stigmagnast bara vegna þrjósku og stífni.
Skil ekki hvernig sumt fólk nennir að standa í köldu stríði við nágranna sína - koma óánægju á það stig að gera þeim allt illt og reyna að eyðileggja fyrir þeim. En eflaust er þetta sálrænt atriði eins og svo margt annað.
![]() |
Illvíg deila nágranna í Kjós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2008 | 20:30
Enn ekki samið við ljósmæðurnar
Ég hef ekki séð marga leggja í það verkefni að verja afstöðu ráðherrans. Í gær varði reyndar Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður frjálslyndra, það útspil að kæra ljósmæðurnar í Silfri Egils á meðan Sigurður Kári Kristjánsson og Dögg Pálsdóttir töluðu gegn því. Enda hver getur varið svona pólitísk afglöp? Mikilvægt er að þessi deila verði leyst með heiðarlegum viðræðum en ekki svona klúðri.
Afleitt er ef þessi verkfallsdeila verður lengri og erfiðari en orðið er. Nóg er nú samt orðið. Vonandi hefur einhver bent fjármálaráðherranum á það í réttunum um daginn, þegar hann gat ekki svarað spurningum fjölmiðlamanna.
![]() |
Samningar náðust ekki í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2008 | 11:55
Verðbréfahrun í kjölfar svarta sunnudagsins
Velti fyrir mér hvaða áhrif fall Lehman bræðra hafi hér á Íslandi. Væntanlega gerir hún Íslendingum æ erfiðar fyrir með lántökur. Fjárfestar á alþjóðavettvangi munu síður taka áhættur með lánveitingum til Íslendinga við þessar aðstæður. Annars er skjálftatíðnin á mörkuðum augljós um allan heim og algjör óvissa uppi.
Stóru tíðindin í endalokum Lehman Brothers eru þau að bankar ganga ekki lengur að því vísu að yfirvöld bjargi þeim. Eflaust eru þetta því nokkur þáttaskil í því sem koma skal.
![]() |
Skjálfti á fjármálamörkuðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2008 | 01:29
Peningahítin Nyhedsavisen
Ekki er hægt að segja annað en allt sem tengist Nyhedsavisen hafi endað sem hin mesta sorgarsaga. Tilraunin til að flytja hugmyndina á bakvið Fréttablaðið út endaði öðruvísi en ætlað var. Greinilegt er að hver vísar nú á annan um hvern eigi að draga til ábyrgðar fyrir tilraunina og endalokin margfrægu. Þeir sem urðu fyrir mestu áfallinu hér líta flestir til Morten Lund.
Nýjasta innleggið um að Lund hafi verið fenginn til að keyra blaðið í þrot og stöðva það af vekur vissulega athygli. Sú spurning sem hefur þó verið lengst í huga mér þegar hugsað er til Nyhedsavisen er þó sú hvert allir peningarnir voru sóttir sem enduðu í þessari miklu fjármunahít. Var viðskiptavitið til staðar þegar þessi för var planlögð?
![]() |
Grunuðu Lund um græsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2008 | 23:11
Skemmtun eða mannleg grimmd?
Kannski er þetta þróun að erlendri fyrirmynd að við berum ekki virðingu fyrir öðru fólki í samfélagi okkar og hugsum ekki út hlutina í gegn í ölæðinu. Er virðingarleysið orðið algjört? Því miður er ekki hægt annað en hugsa þannig. Hvers vegna gerist enda svona nokkuð nema að eitthvað stórlega sé að? Þetta er grimmd og mannvonska af verstu sort.
![]() |
Blóðug árás í Þorlákshöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2008 | 19:38
Lifandi eða dauður á leiðtogastóli?

Oftast nær sjáum við svona í hörðum einræðisríkjum, þar sem ægivaldi eins manns er beitt með persónu hans. Þegar leiðtogarnir verða hrumir er ægivaldinu frekar beitt úr fjarska en með því að sýna þá, enda myndi það grafa undan valdinu sem fylgir persónunni. Annars er svona sjónarspil með dauðvona eða heilsuveila leiðtoga orðið erfitt í framkvæmd í þeirri nútímafjölmiðlun sem við lifum í. Auðveldara er að afhjúpa svona feluleik.
Ég veit ekki hvort rétt er að Kim Jong-Il hafi verið dauður í fimm ár og tvífari hans í raun verið eins og dúkka í hlutverki mannsins með valdið. Illt er fyrir eina þjóð að lifa við það sé það í raun satt. En hitt er ljóst að þessi leiðtogi er kominn að fótum fram. En hefur Kim Jong-Il nokkru sinni verið sterkur leiðtogi?
Hann hefur fyrst og fremst verið framlengingarsnúra á veldi föður síns, sem lést fyrir tæpum fimmtán árum. Hann hefur hvorki verið vitsmunavera eða sterk leiðtogaímynd fyrir þjóð sína. Hann hefur aðeins gengið í hlutverk föðurins við að kúga heila þjóð.
![]() |
Kim veiktist í apríl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2008 | 13:57
Var John Lennon skotinn í Paul McCartney?

Þvílíkar flækjur. Skil ekki hversvegna þetta er rætt þrem áratugum eftir morðið á Lennon. Hafði reyndar aldrei heyrt að á milli Lennon og McCartney hafi verið annað en vinasamband út frá tónlist og gamalgrónum kynnum. Vissulega eru stórtíðindi hafi verið eitthvað meira en er það ekki hlutur af fjarlægri fortíð.
Stóra spurningin hlýtur að vera hvort Yoko Ono og Paul McCartney fái lögbann á bókina. Yoko hefur passað mjög vel upp á arfleifð Lennons og reynt að koma í veg fyrir að nokkuð umdeilt hafi verið birt um hann.
Eflaust var John Lennon mjög flókin persóna. Snillingar eru oftast misskildir og margflóknir. Væntanlega verður sagan á bakvið meistara Lennons aldrei sögð að fullu.
Umfjöllun um bókina
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.9.2008 | 12:32
Framtíð Geirs í stjórnmálum ræðst í vetur

Greinaskrif Óla Björns Kárasonar í Þjóðmálum voru þörf og góð. Ég var sammála mjög mörgu í greiningu hans og skrifum. Eftir fimmtán ára veru í Sjálfstæðisflokknum fann ég samhljóm í mörgu því sem Óli Björn sagði, ekki aðeins um menn heldur og mun frekar um málefni Sjálfstæðisflokksins, stöðu mála á þessum örlagatímum. Ég fer ekki leynt með það að mér finnst flokkurinn hafa fjarlægst mig á síðustu mánuðum. Er ég svo sannarlega ekki einn um þá skoðun.
Mikilvægt á þessum tímapunkti er að mál síðustu mánaða verði gerð upp, ekki aðeins hjá fréttaskrifurum heldur og þeim sem hafa verið í innsta hring Sjálfstæðisflokksins um árabil. Slíkt er ekki veikleikamerki heldur styrkleikamerki fyrir okkur öll. Mikilvægt er að ólíkar raddir heyrist og öll átakamálin séu gerð upp. Óli Björn fer vel yfir styrkleikana og veikleikana nú.
Öllum er ljóst að mikil pólitísk mistök hafa verið gerð hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík síðasta árið, ekki síst alvarleg mistök af hálfu forystu Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Þetta hef ég margoft farið yfir í skrifum á þessum vef. Ég talaði alveg hreint út í þeim efnum, enda taldi ég að þögn væri fjarri því rétta úrræðið þá. Vandinn í borginni var heimatilbúinn, einkum þegar forystan greip ekki inn í hann.
Geir gerir rétt í því að koma fram og tala um málin á opnum fundi í Valhöll, hreint út og afgerandi. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hvernig Geir hefur komið fram, verið önugur og úr fókus stundum. Auðvitað eru þetta erfiðir tímar.
En það sem mestu skiptir er að leiðtogar þjóðarinnar tali til hennar í vandræðum, mun frekar en góðæristímum. Þjóðin verður að vita að einhver sé við stýrið þegar kreppir að.
Fyrir Geir skiptir máli að komast út úr þessum ólgusjó. Annað hvort taka landsmenn leiðsögn hans eða hafna henni í þessum ólgusjó. Þar ræðst framtíðin.
![]() |
Ekki rétt að tala um kreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.9.2008 | 20:25
McCain heldur forskotinu - hræðsla demókrata
John McCain hefur nú í tæpa viku haft forskot í baráttunni um Hvíta húsið. Hann hefur nú haft lengur forskot en svo að það megi bara teljast sem táknræn fylgissveifla vegna flokksþings repúblikana. Augljóst er að valið á Söru Palin hefur breytt gangi baráttunnar og ekki aðeins styrkt framboðið heldur Repúblikanaflokkinn almennt.
Æ augljósara verður að stjörnuframmistaða Söru Palin í St. Paul voru mikil þáttaskil í þessari kosningabaráttu. Haldi þau flugi næstu vikurnar er alveg ljóst að þau eiga góðan séns á að vinna Hvíta húsið. Nú hefur McCain náð forskotinu í kjörmannamælingunni á electoral-vote.com og mælist sem sigurvegari. Þetta er í fyrsta skiptið sem það gerist eftir að ég fór allavega að fylgjast með síðunni eftir að ljóst var hverjir myndu berjast um Hvíta húsið fram í nóvember.
Eins og staðan er núna hefur Obama aðeins náð tveimur fylkjum af repúblikunum frá því í forsetakosningunum 2004; Colorado og Iowa. Það gerir sextán kjörmenn. Staðan er núna þannig að McCain hefur 270 kjörmenn en Obama 268. Kosningunum 2004 lauk með því að Bush hlaut 286 en Kerry 252. Kerry missti reyndar einn, sem studdi John Edwards í kjörmannasamkundunni. Árið 2000 var þetta tæpt eins og allir muna; Bush með 271 en Gore 267. Hann lenti í því sama og Kerry, missti einn kjörmann.
Fjöldi demókrata var farinn að búast við því snemma í sumar að leiðin væri greið fyrir Barack Obama í Hvíta húsið. Gárungarnir segja að hann hafi verið farinn að velja gluggatjöldin í forsetaskrifstofunni. Hann nýtti sumarið illa og greinilegt er að fjöldi demókrata telja nú heimsreisu Obama í júlí, sem átti að vera til að hífa upp reynslu hans í utanríkismálum, mikil mistök. Svo er greinilegt að flestir telja valið á Joe Biden sem varaforsetaefni mikil mistök. Meira að segja Biden sjálfur hefur viðurkennt það. Með Hillary sér við hlið hefði Obama minnkað mjög líkurnar á að McCain veldi Palin og hefði rammað inn kvennafylgið.
Í þessari frétt á Politico er farið nokkuð vel yfir hræðslu demókrata við að hið sama og hefur gerst skuggalega oft áður sé að endurtaka sig; að Obama verði misheppnaður frambjóðandi frá Norðurríkjum Bandaríkjanna rétt eins og John Kerry og Michael Dukakis. Gleymum því ekki að báðir núlifandi forsetar Bandaríkjanna af hálfu demókrata komu úr suðurríkjunum; þeir Bill Clinton (Arkansas) og Jimmy Carter (Georgía). Svo er greinilegt að demókratar óttast að leikurinn frá 2000 og 2004 sé að taka á sig sömu mynd árið 2008, ári sem demókratar áttu að eiga sviðið.
Ég velti því reyndar fyrir mér hvernig fylgismælingarnar verði næstu vikuna. Haldi McCain forskotinu næstu sjö dagana er ljóst að staðan hefur breyst umtalsvert og þungamiðjan í baráttunni færst á Söru Palin frá Barack Obama. Því er ekki undarlegt að demókratar vilji stöðva sóknarþungann sem hún hefur fært forsetaframboði repúblikana. Obama hefur ekki verið vanur að vera í vörn í þessari baráttu og er eiginlega ekki mjög skemmtilegur í því hlutverki. Hann hefur virkað sem úr fókus og er að fóta sig í nýrri baráttu eftir að Palin kom inn á sviðið.
Þessi frétt á vef Financial Times vakti líka athygli mína; sú staðreynd að demókratar séu farnir að óttast að hnignandi gengi Obama fari að skaða demókrata í þingbaráttunni. Ótrúlegur viðsnúningur og merkilegt að finna hversu demókratar eru orðnir hræddir við að vera komnir í tapaðan slag. Bendi allavega á þessar tvær ágætu fréttir um hræðslu demókrata við stöðuna. Þær eru ekki aðeins áhugaverðar heldur upplýsandi um hvað gerist bakvið tjöldin. Flestir vilja heimildarmennirnir ekki tala undir nafni en eru orðnir óttaslegnir um framhaldið.
Kannski fer það svo að demókratar sjá mjög eftir því að hafa ekki valið frambjóðanda reynslunnar sem forsetaefni; sjálfa Hillary Rodham Clinton. Við getum átt von á því að þau fyrstu sem stökkvi fram ef Obama tapar eftir fimmtíu daga verði Clinton-hjónin. Þau verða ekki lengi að notfæra sér tómarúmið sem verður innan Demókrataflokksins ef Obama mistekst að ná í Hvíta húsið og munu minna alla þá sem sviku þau á viðkvæmum tímapunkti á hversu mikil drottinssvik það hafi verið.
![]() |
McCain með forskot á Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.9.2008 | 00:15
Fjármálaráðherra kastar stríðshanska í ljósmæður
Eftir síðustu kosningar náðu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking saman um marga hluti, hafa orðið sammála um að vera ósammála um annað. En hvað með það. Samstaða náðist um að bæta meðal annars kjör ljósmæðra. Ef það tekst ekki bráðlega að leysa þessi mál farsællega, með vísan í þær heitstrengingar, verður talað um svik á loforðum af hálfu stjórnarflokkanna. Er það byrjað nú þegar.
Auðvitað má alltaf búast við að það taki tíma að semja í vandasömum deilum. En það er komið nóg. Meiri sómi væri af því hjá fjármálaráðherra að taka á málinu en með svona vinnubrögðum.
![]() |
Ljósmæður: Uppsagnir löglegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)