30.9.2008 | 18:09
Rússíbanareið krónunnar
Hvað gera stjórnvöld núna? Er nema von að spurt sé.
![]() |
Krónan veiktist um 5,3% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.9.2008 | 15:53
Hvaða tök hefur Jón Ásgeir á Samfylkingunni?
Eitt vakti athygli mína umfram annað í þessari lesningu. Merkilegt nokk var það ekki viðskiptaflétta heldur mun frekar pólitísk flétta - sú fullyrðing að Jón Ásgeir Jóhannesson muni hafa hellt sér yfir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra og hann hafi boðað nokkra stjórnarþingmenn á fund til sín, einskonar yfirheyrslu í skjóli nætur fyrir bankauppgjörið. Sá fundur hefur greinilega verið dramatískur í meira lagi.
Ein spurning stendur eftir þessa lesningu: hvernig stendur á því að viðskiptamaður úti í bæ telur sig geta skammað lýðræðislega kjörna fulltrúa og komið fram við þá með þessum hætti? Gat ekki Jón Ásgeir sjálfum sér um kennt hvernig komið var?
Svo fannst mér merkilegt að Össur Skarphéðinsson er æðstur ráðherra Samfylkingarinnar nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er á sjúkrahúsi í New York og ekki vinnufær við þær aðstæður. Hann hefur æðsta vald í þessu máli innan flokksins.
Því er undarlegt að viðskiptamaður úti í bæ hreyti skömmum og fyrirskipunum í Björgvin viðskiptaráðherra, þar sem hann leiðir ekki málið heldur Össur, umfram varaformanninn (sem ekki er ráðherra) og formann þingflokksins.
![]() |
Erfiðir gjalddagar framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.9.2008 | 10:26
Jón Ásgeir ætti að líta í eigin barm
Auðvitað er mikið áfall fyrir Jón Ásgeir að þurfa að horfast í augu við þessi málalok. Skárra væri það nú, ef honum sviði ekki hvernig komið væri. Mér finnst það hinsvegar heldur djarft að ætla að smíða enn eina samsæriskenninguna í kringum Davíð Oddsson til að dekka þetta mál. Nóg er komið af þessu. Þessir menn tóku sjálfir áhættur sem þeir höndluðu ekki.
Fjarri því er að saga Stoða á síðustu árum sé hvítþvegin englasaga. Þegar litið er á hvernig fór fyrir Glitni er ráð fyrir þessa stóreignamenn að líta í eigin barm og gera upp eigin mistök áður en miklar samsæriskenningar eru smíðaðar.
Ef allt var svona mikil himnasæla hjá bankamönnunum því var þá svo komið að óskað var eftir aðstoð landsmanna við að bjarga skútunni. Í þessari stöðu verðum við að hugsa um litla manninn frekar en þá stóru.
![]() |
Landsbankamenn ræddu við Geir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.9.2008 | 00:49
Baráttukveðjur til Ingibjargar Sólrúnar
![]() |
Ingibjörg Sólrún gekkst undir aðgerð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2008 | 19:58
Veruleikafirring og gremjugrátur hjá Stoðum
Ég skil mjög vel að yfirmenn og eigendur Stoða séu ekki hoppandi sælir með málalokin í Glitni. En eiga að líta í eigin barm og velta eigin klúðri fyrir sér. Mér finnst þeir þurfa að gera upp sín mál áður en þeir gagnrýna aðra. Er Stoðir virkilega að tala um að ríkið hafi átt að láta þá fá nóg af peningum og loka svo augunum og vonast til að þeir myndu rata til baka úr banka á vonarvöl. Ég held að svarið sé augljóst.
Í þeirri stöðu sem við blasti, þ.e.a.s. að bankinn er metinn á lokastöð, er eðlilegt að ríkið taki bankann yfir frekar en fara hitt skrefið. Ekki er nóg að hugsa bara um stóreignamenn í þeirri áhættu. Í þessum efnum tel ég að sparifjáreigendur hafi gengið fyrir, hagur þeirra hafi ráðið úrslitum og mest um vert að bjarga þeim. Hinn valkosturinn að bíða og vona var ekki í myndinni. Fyrir það fyrsta var hann alltof áhættusamur og ekki vogandi að taka þá áhættu að vonast til þess að Glitnir myndi standa af sér brotsjóinn.
Ég tel að Glitnismenn eigi ekki inni fyrir því að ríkið hafi átt að rétta þeim peninga til að halda sukkinu og ruglinu áfram. Stóra ástæða þess hvernig fór er hvernig sukkað var með peninga í þessum banka. Þar hefði verið hægt að taka á málum af meiri skynsemi en raun bar vitni. Núverandi bankastjóri hóf störf með 300 milljóna króna startgjald í vasanum og ekki má gleyma öllum starfslokasamningunum og sporslunum.
Stoðir mega væla eins og þeim sýnist. Þeir verða bara að gremjast sjálfum sér fyrir það hvernig fór í þessum banka. Nú þarf að hugsa um almenning og þeirra sparifé frekar en aðra. Ekki er það hlutverk ríkisins að bjarga eigendum banka.
Reyndar er saga Stoða ekki beint fögur. Ekki þarf annað en rifja upp myndbrotin tvenn sem gerð voru um sögu FL Group, nú Stoða, til að vita hvernig farið hefur verið með peninga á þeim slóðum. Sú saga er ekki mjög fögur.
![]() |
Átelja harðlega vinnubrögð Seðlabanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2008 | 15:14
Mánudagsmartröð spunameistaranna
Ég get ekki annað en vorkennt spunameisturum Baugs að vakna upp við mánudagsmartröðina. Nú á að fara að kenna Davíð Oddssyni um allt sem aflaga hefur farið í stað þess að líta í eigin barm. Paranojan er orðin algjör og almenn skynsemi víkur fyrir hræðsluspuna.
Hvað var annað í stöðunni fyrir Glitni? Vildu þeir frekar að hann færi endanlega í þrot? Á að segja manni að allt hafi verið svo fullkomið og yndislegt allt þar til "vondu mennirnir" ríkisvæddu bankann? Staðreyndin er bara sú að það var búið að keyra hann út í skurð og fáir leiðir færar nema hringja í stóra bróður og biðja hann að toga sig upp úr svaðinu. Þetta er staðan í hnotskurn.
Ég er handviss um að hefðu aðrar leiðir verið færar hefðu þær verið teknar frekar en leita þarna um aðstoð. Auðvitað er bankinn, sem kominn er í þrot, tekinn við þessar aðstæður. Þetta var orðið eins og hræ á veginum. Nöpur staðreynd en augljós engu að síður. Ég veit að það er sport Baugsmanna að kenna Davíð um allt en þeir ættu að líta í spegil áður en talað er svona.
Þessi staða er heimatilbúinn vandi þeirra sem eru með allt niðrum sig núna. Þeir ættu frekar að þakka fyrir að einhver nennti að draga þá upp úr eigin svaði. Aumkunnarvert kjaftæði!
![]() |
Stoðir óska eftir greiðslustöðvun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2008 | 12:13
Glitnir þjóðnýttur - hver er staða Jóns Ásgeirs?

Þrátt fyrir alla sína peninga og mikið ríkidæmi tókst Jóni Ásgeiri ekki að bjarga bankanum sínum frá þessum breytingum og yfirtöku ríkisins. Nú rétt fyrir hádegið bárust fréttir um stöðu Stoða, sem eru komin í greiðslustöðvun. Þetta er krúnudjásnið sjálft í eignasafni Baugsfeðga, eignasafnið mikla.
Svo má líta á málið þannig að Glitnir sé tekinn af Stoðum og þar með fer allt í óvissu. Stemmningin við höfuðstöðvar Stoða, sem sáust nú í hádegisfréttum Stöðvar 2, segir allt sem segja þarf og svipbrigðin á Sigurði G. Guðjónssyni einkennandi fyrir það sem er að gerast.
Hvað gerir Jón Ásgeir eftir þjóðnýtingu bankans hans?
![]() |
Ríkið eignast 75% í Glitni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2008 | 03:11
Bankakreppa yfirvofandi á Íslandi?
Ekki er von á góðu eftir krísufundinn í kringum miðnættið í Seðlabankanum. Ekki er þó slegið á óvissuna heldur leyft henni að grassera gegnum nóttina. Þjóðin bíður fregna og ekki óvarlegt að gefa sér að bankakreppa sé framundan. Alveg er augljóst að ekki er boðað til slíkra fundahalda á þessum tíma á sjálfum hvíldardeginum nema mjög erfiðir tímar séu framundan og illa horfi.
Mér finnst það ábyrgðarhluti að ekki sé gefin út yfirlýsing eða talað til þjóðarinnar þegar svo ber við. En kannski þarf þess ekki. Þögnin svarar væntanlega spurningunni að eitthvað mjög stórt sé að fara að gerast. Allt er þetta þó í véfréttastíl - þjóðin bíður enn þess að heyra hvað sé að fara að gerast.
Mér finnst myndin af Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde segja allt sem segja þarf. Það er svartur mánudagur framundan á Fróni. Svipbrigðin segja meira en þúsund orð. Ætli þetta verði ekki fréttamynd ársins?
![]() |
Ráðamenn funduðu fram á nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2008 | 00:13
Formenn allra flokkanna funda í Seðlabankanum

Tíðindin frá Bandaríkjunum eru mikil þáttaskil í efnahagsmálunum vestan hafs. Allir bíða viðbragða þess með morgni þegar markaðir opna og í ljós kemur hversu sterkt markaðurinn bregst við þessari niðurstöðu Bandaríkjaþings. Pólitískar ákvarðanir á æðstu stöðum í Bandaríkjunum munu væntanlega hafa áhrif langt út fyrir Bandaríkin og munu vonandi lægja öldur á markaðnum.
Sunnudagskvöldfundur af þessu tagi í Seðlabankanum felur í sér stórtíðindi og greinilegt að stjórnvöld ætla sér að fara í miklar aðgerðir. Mér fannst Geir H. Haarde, forsætisráðherra, takast nokkuð vel að reyna að komast hjá því að svara hvað væri að gerast með fundahöldunum.
Samt trúði ég því mátulega að bara hefði verið hist til að tala um daginn og veginn. Eitthvað hefur verið í farvatninu alla helgina og fróðlegt að sjá hvað gerist nú.
![]() |
Björgunaraðgerðir samþykktar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.9.2008 | 15:04
Mikilvæg stuðningsyfirlýsing fyrir Björn

Björn hefur ekki hikað í átökum vegna þessa máls. Hann kom mjög vel fyrir í Kastljósviðtali í vikunni, talaði hreint út um þessi mál og kom afstöðu sinni vel til skila. Jóhann hefur farið víða í fjölmiðlum og sagt sína hlið. Greinilegt er að einhver trúnaðarbrestur hefur orðið í samskiptum þeirra, en mér finnst helst standa upp úr hversu ósáttur Jóhann hefur verið við tilfærsluna úr utanríkisráðuneyti yfir í dómsmálaráðuneyti.
Mér finnst sífellt augljósara hversu miklar breytingar hafa orðið á starfi Jóhanns. Gamla staðan hans hefur verið lögð niður og hann hefur verið að fóta sig á nýjum vettvangi en greinilega verið þar mjög til hliðar og átt erfitt með að ná þar í gegn með sín mál og áherslur. Yfirlýsingar hans verða skiljanlegri í því ljósi.
Björn hefur í öllu þessu máli sýnt vel að hann er ekki pópúlisti í sinni pólitík. Hann hefur tekið afstöðu til málsins og hugsað þar í engu um mögulega skammtímahagsmuni en tekið skrefið. Greinilegt er að Lögreglustjórafélagið bakkar hann upp í því - sú yfirlýsing styrkir ráðherrann mjög í sessi í þessum ólgusjó.
![]() |
Styðja dómsmálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.9.2008 | 02:52
Jafntefli í litlausum kappræðum í Mississippi

Mér fannst hvorki John McCain eða Barack Obama ná yfirhöndinni í fyrstu kappræðunum í Oxford í Mississippi. Þetta voru litlausar kappræður, ekkert rothögg og enginn afgerandi sigurvegari. Báðir áttu sínar stundir en einhvernveginn endaði þetta í frekar tilþrifalitlu jafntefli sem hefur engin áhrif á baráttuna um Hvíta húsið. Hverjum finnst sinn fugl fagur og spinnið hófst um leið og Jim Lehrer hafði sagt síðasta orðið. Báðir höfðu tilbúnar auglýsingar með þeim boðskap að þeir hefðu unnið, burtséð frá því hvernig kappræðurnar myndu fara.
Þrátt fyrir nýlegt viðbótarform á fyrstu kappræðunum, sem eru að mestu byggðar á sama fyrirkomulagi og hefur verið frá kappræðum Kennedys og Nixons fyrir 48 árum, nýttu frambjóðendur það sér ekki. Rúman hálftíma tók fyrir frambjóðendurna að hætta að horfa á Jim Lehrer og fara að skjóta aðeins á hvorn annan. Lehrer minnti frambjóðendurna margoft á það fyrsta hálftímann að þeir gætu tekið slaginn við andstæðinginn og gætu snúið þessu upp í alvöru baráttu þar sem tekist er á af hörku og án mikilla málalenginga.
Eftir drjúglanga stund hætti Lehrer að reyna þetta og lét kappræðurnar fljóta áfram. McCain leit varla í áttina til Obama og Obama missti sig, eins og svo oft áður, í orðskrúði um allt og ekki neitt. Baráttueðlið vantaði í kappræðurnar og þær voru frekar lélegt sjónvarpsefni nema fyrir allra hörðustu áhugamenn um bandarísk stjórnmál og kannski varla það. Mér fannst bæði McCain og Obama tyggja upp gömlu frasana úr kosningaferðalögunum og frá flokksþingunum í St. Paul og Denver - fátt nýtt kom fram.
Mér fannst merkilegt hversu lítið pólitískt bit var í frambjóðendunum þegar kom að efnahagsmálunum. McCain kom mun betur út úr þeim hluta en ég átti fyrirfram von á. Obama tókst ekki að eiga trygg sóknarfæri í þessum mikilvæga hluta. Að óbreyttu munu kosningarnar að mestu snúast um efnahagsmálin - annað er óeðlilegt í þeirri niðursveiflu sem er nú rúmum fimm vikum fyrir kjördaginn. Ef McCain heldur sjó í þessum debatt til kjördags á hann góðan séns á að vinna Hvíta húsið.
Í utanríkismálunum var McCain veikari en ég bjóst við. Hann tafsaði og var seinn til svars á þeim stundum þegar hann átti að vera sem öruggastur, mundi ekki nafnið á Zardari, hinum nýja forseta Pakistans og eiginmanni Benazir Bhutto (kom sér illa fyrir kappann að Benazir dó fyrir ári greinilega á þessari stundu, en hann státaði sig af því er hún var myrt að hafa svo oft talað við hana) og þurfti aðra atrennu til að geta borið fram nafn Ahmedinejad. Obama var nokkuð sterkur í þessum málaflokki.
McCain hefur umtalsverða reynslu í utanríkismálum og ætti að fara auðvelt með að tækla Obama í debatt um þessi mál, sérstaklega stöðuna í Mið-Austurlöndum, enda farið þar mjög oft. En sú reynsla hljómar ekki öflug þegar tafsað er á nöfnum lykilspilara á þessu umbrotasvæði. McCain stóð sig samt að mörgu leyti vel, hjólaði í Obama á réttum nótum, var óvæginn og vægðarlaus án þess að missa kúlið og brosið þaulæfða. McCain þarf að passa sig á að sýna reynsluna en ekki bara tala um hana.
Í heildina voru þetta áhugaverðar umræður fyrir mig sem mikinn áhugamann um pólitík og bandarísku kappræðurnar. Þeir sem eru ekki eins gallharðir í þessu hafa örugglega fljótlega skipt um stöð eða fengið sér kríu yfir herlegheitunum og vaknað yfir stillimyndinni á RÚV á fjórða tímanum. Áhorfið bar þess merki. Færri horfðu á fyrstu kappræðurnar nú en þegar Bush og Kerry mættust í fyrsta skiptið fyrir fjórum árum í Flórída. Mælingarnar eru á pari við fyrsta debatt Bush og Gore og Clinton og Dole.
En ekki eru allir sem horfa á kappræðurnar bara að spá í gáfulegu tali frambjóðendanna. Þetta er myndræn sýning á frambjóðendunum ekki síður en skoðanaskipti um stjórnmál. Báðir litu þeir vel út. Aldursmunurinn á milli þeirra er löngu augljós og varð myndrænn í settinu. 25 ára aldursmunur er á frambjóðendunum, hið mesta til þessa í sögu bandarískra forsetakosninga. Fannst það þó ekki skipta máli. Þeir voru báðir mjög snöggir til svars og þeir hikuðu ekki við að hjóla hvorn í annan, þó oft ansi mikið undir rós.
Málefnaágreiningurinn kom svo sannarlega fram í lykilmálum. Þetta eru ekki aðeins menn tveggja ólíkra kynslóða heldur og mun frekar tveggja ólíkra átakapóla í bandarískum stjórnmálum. Þeir voru heldur ekki að fara leynt með að þeir væru úr tveim ólíkum áttum að mjög mörgu leyti. Mér fannst McCain snarpur og öflugur í tilsvörunum. Hann leit örsjaldan í áttina til frambjóðandans en kveikti heldur betur undir honum með hnyttnum og leiftrandi tilsvörum, gerði stólpagrín að honum og oft fyndinn - minnti á Reagan.
Mér fannst Obama frekar óöruggur stundum, taka stressköst þegar McCain hjólaði í hann og gleyma sér í óþarfa málalengingum og orðagjálfri. Sumum finnst það heillandi að heyra einn mann tala endalaust um sjálfan sig og hvað hann sé klár en of mikið af því verður eins og ofhlaðin rjómaterta. Í þessum efnum minnir Obama mig oft á Dag B. Eggertsson í borgarstjórnarkosningunum 2006; talað er mikið og lengi um hvað allt eigi að vera frábært en þetta verður ofhlaðið og tilfinningasnautt.
McCain sýndi reynsluna í átökum alveg hiklaust; bætti upp fyrir stöku hik með vægðarlausum árásum á Obama en virkaði samt einlægur í gagnrýninni. Hann fetaði millistigið, sem er svo mikilvægt í svona kappræðum. Obama er mun betri í ræðuforminu en kappræðustílnum. Það kom mjög vel fram og einkenndi sérstaklega síðari hlutann þegar McCain dró fram beittustu vopnin og lét vaða. Seinni hluti kappræðnanna var því mun betri og McCain tók forystuna í kappræðustílnum.
Í kjarnann fannst mér McCain tala bæði stutt og skýrt, hann lét vaða einbeitt og ákveðið á meðan Obama talaði mikið og lengi um áherslurnar svo að pointið kæmist til skila. Obama verður að passa sig á að gleyma sér ekki í orðavaðal á svo mikilvægum kjörtíma í sjónvarpi.
McCain virkaði því sem reyndari frambjóðandinn og með skýr svör á meðan áhorfendur þurftu að fylla sjálfir upp í gloppurnar hjá Obama. Þetta var meginniðurstaða kvöldsins - Obama þarf að vinna betur í þessu eigi honum að takast að ná á leiðarenda.
PS: Ég gafst upp á útsendingu Ríkissjónvarpsins (sem ég ákvað að nýta mér fyrst hún var í boði) þegar myndtruflanir hófust og fór yfir á BBC. Heyrði svo í dag að kappræðurnar hefðu dottið út nokkru áður en þeim átti að ljúka. Lélegt hjá Sjónvarpinu, ef þeir ætla að sýna þetta er lágmark að tryggja fólki þetta fram á síðustu mínútu.
![]() |
Obama kom betur út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.9.2008 | 18:16
Eineltið og eftirmálarnir
![]() |
Ætlaði að pynta þau og drepa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2008 | 18:01
FH meistari - hamingjuóskir í Hafnarfjörðinn
Allt fram undir hálf sex stefndi í að bikarinn færi til Keflavíkur og spennan hélst í þessu allt þar til FH-ingar kláruðu leikinn í Árbænum traust. En Keflvíkingar höfðu þetta í höndum sér - þurftu að stóla á sjálfa sig og hafa eflaust farið á taugum. Oft er erfitt að tryggja sigur sem flestir telja öruggan. Spennan getur oft komið mönnum úr jafnvægi. En þeir í Keflavík geta verið stoltir, þrátt fyrir að þeir hafi misst nær öruggan titil úr höndum sér. Þeir hafa sannað sig í sumar.
En þvílík spenna, skemmtilegt þegar þetta helst svona æsispennandi allt fram á síðustu stundu.
![]() |
FH Íslandsmeistari 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.9.2008 | 15:13
Paul Newman látinn

Ég var að heyra rétt í þessu að leikarinn Paul Newman væri látinn, 83 ára að aldri, úr krabbameini. Newman var goðsögn í lifanda lífi, dáður fyrir leik sinn og var einn mesti töffari kvikmyndabransans. Bláu augun hans voru leiftrandi og hann var jafnvígur á að túlka drama og grín.
Uppáhaldsmyndin mín með Newman var Cool Hand Luke. Mér fannst hún algjörlega frábær þegar ég sá hana fyrst og ég hef fyrir löngu misst töluna á hversu oft ég hef séð hana. Eggjasenan er algjörlega ógleymanleg.
![]() |
Paul Newman látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.9.2008 | 00:56
Kóngur eða hirðfífl - þjóðsöngurinn hans Bubba

Allt síðan Bubbi gaf út Ísbjarnarblús hefur traust staða hans komið í ljós með hverju tónlistarverki hans. Hann hefur verið umdeildur, en selt efni sitt í bílförmum ár eftir ár. Bubbi er einfaldlega með ráðandi stöðu á þessum blessaða markaði og allir kaupa efnið, sama hvort þeir elska að hata hann eða elska hann út af lífinu sem tónlistarmann. Hann er einfaldlega kóngurinn að mínu mati.
Ég hef oft verið mjög ósammála Bubba í pólitískri rimmu. Hann hefur oft samið texta sem ég hef verið ósáttur við. En ég met hann samt mjög mikils og tel hann í fararbroddi allra í íslenskri tónlist. Læt ekki pólitískan skoðanamun breyta því. Enda held ég að staða Bubba sé ljós af því hversu mikið hann selur og hversu mikið er spilað af efninu hans.
Deilt er á lagið Stál og hnífur. Mér hefur alltaf fundist þetta eitt besta dægurlag í íslenskri tónlistarsögu. Hversu margir hafa ekki sungið þetta lag einhverntímann? Hvort sem er í heimapartýi, dansleik eða bara á einhverri krá? Tilefnin eru ótalmörg.
Stál og hnífur er fyrir löngu orðin sameign okkar allra. Frábært lag, eitt helsta einkennislag kóngsins og það hefur trausta stöðu sem hálfgerður þjóðsöngur Íslendinga á góðu stundunum.
![]() |
Bubbi hefur gert betur en á Konu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.9.2008 | 00:49
Eftirminnilegar kappræður í Bandaríkjunum
Lokasprettur kosningabaráttunnar vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum þann 4. nóvember nk. hefst formlega eftir miðnættið þegar Barack Obama og John McCain mætast í fyrstu kappræðum sínum í háskólanum í Oxford í Mississippi. Kappræðurnar eru síðasta tækifæri frambjóðendanna að ná til hins óákveðna kjósanda með málflutning sinn og stefnu.
Samkvæmt könnunum eru allt að 15% landsmanna óákveðin í afstöðu sinni enn og kappræður kvöldsins gætu orðið til þess að þeir taki afstöðu, enda rætt um mikilvægasta málið nú um stundir, efnahagsmálin. Kannanir hafa oft sýnt að allt að 20% Bandaríkjamanna taki jafnvel afstöðu eftir því hvernig frambjóðendurnir tjá sig um málefnin í kappræðunum. Deilt er þó um mikilvægi kappræðnanna.
Í þessum fyrstu kappræðum kosningabaráttunnar, þar sem Obama og McCain hittast í fyrsta skipti til að ræða saman í baráttunni um Hvíta húsið standa frambjóðendurnir við ræðupúlt. Spyrill kvöldsins er fréttastjórnandinn Jim Lehrer úr þættinum NewsHour á PBS. Þetta er í tíunda skipti sem Lehrer er spyrill í kappræðum bandarískra forsetaefna. Fyrirkomulagið hefur verið nær hið sama allt frá upphafi árið 1960. Þeir eru spurðir til skiptis í 90 mínútur og flytja tveggja mínútna lokaorð að því loknu.
Í fyrsta skipti er þeim nú heimilt að spyrja hvorn annan í fyrstu kappræðunum og mega skiptast á skoðunum að vild. Í annarri kappræðunni, 7. október, verður um að ræða opinn fund með óákveðnum kjósendum sem spyrja frambjóðendur spurninga. Verða þátttakendur þar valdir af handahófi af Gallup. Er þeim frjálst þar að taka til máls og ræða saman um spurningar. Í seinustu kappræðunni verður um að ræða svipað fyrirkomulag og í þeirri fyrstu.
Í svo jafnri og spennandi baráttu geta kappræðurnar því haft lykiláhrif. Margir stjórnmálaskýrendur telja þó að kappræðurnar séu aðeins einn áfangi á langri vegferð og hafi ekki úrslitaáhrif. Þess eru þó dæmi að frambjóðendur hafi klúðrað kappræðum eða styrkt þar svo mjög stöðu sína að frammistaðan hafi haft lykiláhrif á það sem tók við. Í síðustu tveim kosningum voru Gore og Kerry taldir standa sig betur en töpuðu samt fyrir Bush, svo áhrif kappræðnanna eru mjög umdeilanleg.
Ég vil í nokkrum orðum fara yfir nokkrar eftirminnilegar kappræður frá fyrri tíð.
Fyrstu kappræðurnar í bandarískri sjónvarpssögu fóru fram fyrir nákvæmlega 48 árum, að kvöldi 26. september 1960. Richard M. Nixon, þáverandi varaforseti, og John F. Kennedy, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, tókust þar á. Kennedy kom þar mun betur undirbúinn til leiks; hann var vel farðaður og með mun betri tök á sjónvarpsforminu á meðan Nixon var sveittur, ófarðaður og þreytulegur - vanmat þar mjög mátt sjónvarpsins.
Frammistaða þeirra hafði að flestra mati úrslitaáhrif á hvernig kosningarnar fóru. Kennedy var kjörinn forseti, sigraði naumlega í atkvæðamagni en hlaut góða kosningu í kjörmönnum. Nixon tók tapið mjög nærri sér, líkt og báðir varaforsetarnir sem töpuðu síðar mjög naumt; Hubert Humphrey árið 1968 og Al Gore árið 2000. Hann tapaði tveim árum síðar ríkisstjórakosningu í Kaliforníu og flestir töldu feril hans búinn.
JFK var myrtur í Dallas í nóvember 1963 og varaforsetinn Lyndon Johnson kláraði kjörtímabilið og vann svo stórsigur 1964. Nixon tókst að eiga endurkomu; vann Hvíta húsið naumlega átta árum síðar í baráttu við Humphrey varaforseta Johnson-stjórnarinnar, sem hlaut útnefninguna eftir morðið á Bobby Kennedy og hitaþing demókrata í Chicago þar sem götuóeirðir settu mark sitt á stöðuna í flokknum.
Nixon sagði af sér árið 1974 vegna Watergate-hneykslisins, fyrstur forseta.
Eftirmaður Nixons á forsetastóli, Gerald Ford, hafði þá sögulegu pólitísku stöðu að vera aldrei kjörinn af þjóðinni í forsetakjöri. Hann hafði tekið við varaforsetaembættinu eftir afsögn Spiro Agnew haustið 1973 og tók við forsetaembættinu þegar Nixon féll á Watergate. Hann þótti klaufalegur stjórnmálamaður í meira lagi og Lyndon B. Johnson sagði eitt sinn um Ford að hann gæti ekki tuggið tyggigúmmi og gengið samtímis.
Í kappræðunum við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, gerði Ford þau miklu mistök að sýna veikleika sína og þekkingarleysi í utanríkismálum. Max Frankel, blaðamaður New York Times, bar fram mjög gáfulega spurningu um dómínerandi stöðu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu. Ford svaraði einfeldningslega með því að neita að Sovétríkin hefðu slíka stöðu í austurhluta Evrópu.
Auk þess benti forsetinn á að þetta myndi aldrei geta gerst í sinni forsetatíð. Frankel nýtti sér klaufaskap forsetans og kom með hnyttið komment eftir svarinu. Klaufalegt svarið kostaði Ford að margra mati forsetaembættið.
Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóri í Kaliforníu, var árið 1980 elsti maðurinn sem átti möguleika á forsetaembættinu. Hann nýtti sér veikleika Carters forseta í kosningunum og sneri honum upp úr veikleikunum með hnyttnum tilsvörum í eftirminnilegum kappræðum örfáum dögum fyrir kosningarnar.
Reagan vann stórsigur í kosningunum og batt enda á veiklulega forsetatíð Carters sem átti aldrei roð við hinum sjötuga Hollywood-leikara - hæfileikar hans á leiklistarsviðinu léku lykilhlutverk að margra mati.
Reagan var í essinu sínu í forsetakosningunum 1984 og jarðaði Walter Mondale, varaforseta Carter-tímans í kappræðum að kvöldi 21. október. Aðspurður um hvort aldur hans, en hann var 73 ára, skipti ekki máli í baráttunni og fyrir næstu fjögur ár svaraði hann með bros á vör að hann ætlaði ekki að gera aldur að kosningamáli, þar sem hann ætlaði ekki að nota æsku og reynsluleysi Mondale til að gera lítið úr honum.
Ummælin slógu í gegn og urðu einkennandi fyrir baráttuna um Hvíta húsið það árið. Mondale, sem hafði sér við hlið fyrstu konuna í varaforsetaframboði, Geraldine Ferraro, átti ekki séns í forsetann og beið háðuglegan ósigur og vann aðeins í heimafylkinu Minnesota og DC. Reagan sat á forsetastóli tvö kjörtímabil og var tæplega 78 ára gamall er hann lét af embætti í janúar 1989.
Framan af kosningabaráttunni 1988 þótti Michael Dukakis, ríkisstjóri í Massachusetts, öruggur um sigurinn og hafði sumarið 1988 17% forskot á George H. W. Bush, varaforseta Reagan-stjórnarinnar. Hann missti forskotið úr höndunum eftir klaufalega frammistöðu í ágústmánuði þess árs og glutraði sigurstöðu niður í háðuglegt tap.
Að margra mati tapaði hann kosningunum vegna svarsins við kappræðuspurningu Bernard Shaw á CNN um dauðarefsingar. Spurði Shaw hvort Dukakis styddi dauðarefsingu ef konu hans, Kitty, yrði myrt og nauðgað. Svarið þótti fjarlægt og kuldalegt, eins og lesið upp úr bók, og kostaði hann mörg atkvæði. Bush vann og hlaut meirihluta atkvæða.
Varaforsetakappræðurnar eru jafnan lítt eftirminnilegar. Þær eftirminnilegustu áttu sér þó stað árið 1988. Þar áttust við Dan Quayle, lítt reyndur öldungadeildarþingmaður frá Indiana, og reynslujaxlinn Lloyd Bentsen, öldungadeildarþingmaður frá Texas. Talað var um hvort Quayle væri nógu sjóaður fyrir varaforsetaembættið og hann svaraði m.a. svo að hann hefði álíka reynslu og John F. Kennedy er hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1960.
Bentsen leit brosandi á Quayle er hann svaraði spurningunni. Í kjölfarið sagði hann ískaldur við Quayle að hann hefði þekkt Jack Kennedy, hefði verið vinur hans og pólitískur félagi. Quayle væri sko enginn Jack Kennedy. Ummælin urðu fleyg og fylgdu Quayle eftir. Quayle varð varaforseti en þótti pólitískur klaufi par excellance og stafaði meira að segja orðið potato vitlaust í skólaheimsókn og er helst minnst fyrir ummæli Bentsens og kartöflukunnáttuna.
Efnahagsmálin urðu lykilmál kosningabaráttunnar 1992. Bill Clinton, ríkisstjóri í Arkansas, sótti þar fram sem ferskur vindblær gegn Bush forseta og gerði veika stöðu efnahagsmála að lykilmáli sínu og varð sameiningartákn andstöðunnar gegn forsetanum og gremjunni með stöðu mála. Í svari við spurningu þeldökkrar konu í kappræðum um hvernig efnahagsstaðan hefði áhrif á hann persónulega sýndi Bush hvað hann var fjarlægur.
Forsetinn náði ekki að svara einfaldri spurningu einlægt og ákveðið. Clinton greip tækifærið; talaði beint til konunnar og fjölda annarra Bandaríkjamanna sem fundu fyrir því sama; höfðu misst vinnuna og lífsviðurværi sitt. Bush sat hjá orðlaus og vandræðalegur. Í baráttunni var líka rifjað upp að Bush hafði svikið helsta kosningaloforð sitt 1988; Read my lips, no new taxes, og demókratar gerðu meira að segja rapplag með þeim orðum hans.
Í fyrrnefndum kappræðum við Clinton og Ross Perot leit gamli Bush á klukku sína. Myndir af honum að líta á klukkuna voru birtar út um allt strax eftir að kappræðunum lauk. Litu myndirnar út eins og forsetinn nennti þessu ekki og gæti ekki beðið eftir að komast burt. Andstæðingarnir voru fljótir að notfæra sér þetta og sögðu að tími hans væri liðinn. Lánleysi gamla Bush í þessum kosningum var algjört og allan tímann ljóst að Clinton myndi rúlla honum upp.
Eins og fyrr segir höfðu kappræðurnar 2000 og 2004 lítil sem engin áhrif á úrslitin. Fyrstu kappræðurnar 2000 á milli Bush og Gore urðu helst eftirminnilegar fyrir það hversu oft Gore stundi ergjulega eða ræskti sig eftir svörin hjá Bush og einn tók það allt saman í langa klippu af stunum varaforsetans. Árið 2004 var helst rifist um hvort Bush hefði verið með tengingu í eyra við einhvern, enda vakti undarleg bunga á baki forsetans nokkra athygli, án þess að traust niðurstaða fengist í málið. Bush auðvitað neitaði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2008 | 20:17
Rússíbanaferðalag - bandaríska óvissan

Fyrsta fréttin á Stöð 2 um hækkun matvöru ætti ekki að koma neinum að óvörum miðað við stöðuna en kemur fólki varla í gott helgarskap. Einn sem ég hitti í dag sagðist helst vilja hætta að horfa á innkaupamiðann er hann labbaði úr búðinni eða velta fyrir sér breytingunum. Nógar væru þær. En eflaust sitja margir yfir miðanum og skoða breytingarnar, sem eru orðnar daglegar.
Þetta er dökk staða og fá merki á lofti um að staðan sé að fara að batna. Óvissan í Bandaríkjunum er ekki beint traustvekjandi heldur, hvort sem er mat bandaríska seðlabankans á stöðu okkar eða valdataflið um pólitísku lausnina á bandaríska verðbréfamarkaðnum.
![]() |
Ekki þótti ástæða til að gera gjaldmiðlaskiptasamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.9.2008 | 16:47
Kappræðurnar í kvöld - McCain mætir til leiks
Þá er ljóst að fyrstu kappræðurnar á milli John McCain og Barack Obama í baráttunni um Hvíta húsið fara fram í háskólanum í Oxford í Mississippi í kvöld, eins og áður hafði verið ákveðið. McCain mætir á staðinn, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sem voru augljóslega spinn í efnahagsþrengingunum. Auðvitað ætlaði hann alltaf að mæta.
John McCain á í sjálfu sér ekki að þurfa að hræðast kappræður við Barack Obama. Kappræðuformið hefur aldrei verið sérstaklega þægilegt fyrir Obama. Ræðuformið er hans sterkasta hlið. Obama kom mjög sjaldan sérlega vel út í kappræðum demókratamegin og undir lokin forðaðist hann að mæta Hillary, þegar hún var farin að sigra forkosningar í stórum fylkjum og náði að efla framboð sitt, en þó um seinan til að ná útnefningunni. Obama hafnaði boði bæði Hillary og síðar McCain um sameiginlega kappræðufundi án spyrla (líkt og Abraham Lincoln og Stephen Douglas áttu í baráttunni um öldungadeildarsætið í Illinois árið 1858) vítt um Bandaríkin.
Eitt vekur þó spennu fyrir kappræðum kvöldsins; umræðan um efnahagsmálin. Veikasta hlið McCain í þessum kosningum eru efnahagsmálin; ekki aðeins vegna þess að hann er fulltrúi þess flokks sem fer með völd í Hvíta húsinu heldur og vegna þess að það er veikasta hlið hans sem stjórnmálamanns að tala um efnahagsmálin, þrátt fyrir langan pólitískan feril og víðtæka þekkingu á mörgum málum. Hann tók talsverða pólitíska áhættu með því að velja ekki varaforsetaefni sem hefði getað tæklað efnahagsmálin fyrir hann; t.d. Mitt Romney.
McCain hefur með yfirlýsingum síðustu dagana reynt að sýna ábyrgð með því að snúa umræðunni beint á efnahagsmálin að eigin frumkvæði, stöðva baráttuna tímabundið og beita sér fyrir fundi með þingleiðtogum og andstæðingi sínum í baráttunni um Hvíta húsið með forseta Bandaríkjanna á þeim vettvangi sem barist er um. Þetta er þó tvíeggjað sverð. Í og með er McCain að sækja sér eigin stöðu í þessum viðkvæma málaflokki fyrir þá sem taka slaginn í nafni ráðandi valdhafa. Hann hefur gagnrýnt Bush og sýnt sjálfstæði, sem er mikilvægt.
Auðvitað er eðlilegt að spyrja hvort frambjóðendur í baráttunni um Hvíta húsið sem eiga sæti á Bandaríkjaþingi eigi að sýna fjarlægð við Washington og þungamiðju erfiðra ákvarðana við þessar aðstæður. McCain beindi sjálfur sviðsljósinu til Washington og tók sér stöðu á sviðinu þar - tók frumkvæði sem Obama átti fyrst erfitt með að svara nema með andsvari í spinnformi. Meira að segja Bill Clinton talaði vel um McCain í kjölfarið, sagði fjarstæðu að hann hræddist kappræðurnar þar sem hann hefði jú óskað eftir kappræðufundum með Obama áður.
Kappræðurnar í kvöld verða því spennandi fyrir stjórnmálaáhugamenn. Umræðan um efnahagsmálin, sem stefnir í að verða lykilmál baráttunnar vegna stöðunnar á verðbréfamörkuðum, gæti ráðið úrslitum í þessari baráttu. Mikilvægt er því fyrir McCain að koma vel út úr þeim hluta kosningabaráttunnar. Þetta er ekki aðeins í fyrsta skiptið sem þeir ræða pólitík saman, eiga pólitíska sviðið saman, heldur verður að óbreyttu mikilvægasta kappræðukvöldið.
Hvorugur hefur náð afgerandi forystu í þessum málaflokki. Obama ætti við allar eðlilegar aðstæður að hafa traust og afgerandi forskot. Hann hefur ekki náð því og flest stefnir því í spennandi kosningar eftir 39 daga. Obama ætlaði í upphafi baráttunnar að breyta pólitíska landakortinu. Flest stefnir þó í jafnan slag og hefðbundna baráttu um sömu fylkin og oft áður, með örfáum undantekningum, t.d. Colorado og Virginía.
Þannig að við ættum öll að stilla á Ríkissjónvarpið klukkan eitt í nótt og fylgjast með efnahagsumræðu þeirra sem berjast um Hvíta húsið. Löngu er kominn tími til að sjá þá ræða saman pólitísk lykilmál á sama sviðinu. Þeir hafa komið saman fram í tveimur þáttum nýlega en þó aðskilið og mikilvægt að bera saman áherslur þeirra og afstöðu, sérstaklega í efnahagsmálunum, eins og staðan er nú.
![]() |
McCain ætlar að mæta til kappræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2008 | 11:56
Áhrif Columbine á fjöldamorðin í Finnlandi
Eins og ég benti á í skrifum mínum eftir fjöldamorðið í iðnskólanum í Kauhajoki var ótrúlega margt líkt með Saari og Auvinen, finnsku fjöldamorðingjunum. Nú er ljóst að þeir þekktust og heilluðust báðir af Klebold og Harris, fjöldamorðingjunum í Columbine í Colorado í Bandaríkjunum árið 1999. Augljóst er að bæði finnsku fjöldamorðin eru gerð undir mjög sterkum hughrifum af því sem gerðist í Columbine. Sturlunin og mannvonskan í þeim báðum er mjög lík hugarfari Klebold og Harris.
Einelti virðist líka blandast í þetta. Oftast nær eru fjöldamorðingjar í svona skólum utangarðsmenn skólastarfsins, hafa annað hvort orðið fyrir miklu einelti, verið taldir spes eða hreinlega beðið skipbrot að mörgu leyti. Eru algjörlega utanveltu. Cho Seung Hui, sem framdi fjöldamorðið í Virginia Tech hafði t.d. orðið fyrir einelti í skólanum og sama má segja um Auvinen, sem hafði verið mjög utangarðs í skólanum.
Oft beinist heiftin að kennurum í þessari stöðu. Árásin verður því oft á tíðum hefnd eða aðför að þeim sem byssumaðurinn telur að hafi farið illa með sig, jafnvel ekki passað sig eða ekki tekið á einelti eða árásum gegn þeim, eða ráðskast með þá. Auvinen skaut skólastýruna í Jokela-framhaldsskólanum yfir 20 sinnum og fór með um 70 skot á þá átta sem dóu. Grimmdin var því algjör.
YouTube hefur leikið lykilhlutverk í að kynna okkur árásarmennina í öllum þrem skólunum að undanförnu. Þar sést niðurbæld ólga gegn öllu í kringum árásarmennina. Nútímatæknin hefur skilið eftir mikilvæg sönnunargögn í málinu og gert auðveldara að greina þá sem fremja slík voðaverk. Löngu er vitað að einelti getur kveikt elda ólgu í huga þeirra sem verða fyrir og það getur brotist út með krafti.
Allir sem hafa kynnt sér skotárásina í Columbine í apríl 1999 vita að sá þáttur skipti lykilmáli. Skotmennirnir þar voru einfarar, í skugga félagslífsins í skólanum og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Báðir finnsku fjöldamorðingjarnir falla í þennan sama hóp og hafa þar að auki dýrkað Klebold og Harris sem goð lífs síns, hetjur sem hafi gert hið eina sem þeir gátu gert. Þeir gerðu það sem þeir vildu gera.
Bæði Auvinen og Cho Seung-Hui stúderuðu Harris og Klebold og allt þeim tengt - báðir töluðu um þá sem píslarvætti. Ég man vel þegar fjöldamorðin í Columbine áttu sér stað að því var lýst sem brenglun bandarísks hugarfars. Þetta gæti aðeins gerst þar og þetta væri skipbrot bandarísks þjóðfélags. Michael Moore gerði heila mynd um þetta.
Sú sögusögn er dauð, altént á Norðurlöndum með fjöldamorðunum tveim í Finnlandi. Þetta er því miður orðinn veruleikiu okkar. Við getum ekki sagt það lengur að þetta sé fjarlægur veruleiki þegar norræn ungmenn lifa í sama anda og dá þá tilhugsun að drepa alla í kringum sig, sem þeir telja að hafi gert eitthvað á sinn hlut.
Einelti í skólastarfi er ekki bara bandarískur veruleiki. Því breytir þessi þróun öllu, sérstaklega fyrir okkur á Norðurlöndum. Það sem eitt sinn var fjarlægur veruleiki og lýst sem skipbroti bandarísks skólalífs er ekki lengur bara þeirra vandamál.
![]() |
Umbreyttist við andlát bróður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2008 | 16:31
World Class, handrukkarinn og Kompás
Þessu var reyndar stillt þannig upp eftir þáttinn að umræðan var dæmd til að snúast um hvor væri góði gæinn og kannski mun frekar hvort handrukkarinn hafi verið djöfull í mannsmynd. Að því leyti tókst Kompás að ná umræðunni á sitt vald og hafði mikil áhrif á að kynna báða mennina fyrir þjóðina, þó þeir hafi sennilega verið fáir sem ekki þekktu þann sem var barinn.
Eftir skrif nokkurra bloggara, t.d. Jens Guð, hefur umræðan tekið á sig þá mynd að World Class vill ekki af manninum vita meira. Kannski kemur það ekki beint að óvörum eftir umræður þar sem lógó World Class hefur verið sett upp í sömu andrá og talað er um handrukkarann. Ekki beint góð auglýsing.
Svo má velta því fyrir sér hvort rétt sé að dæma einhvern fyrirfram í þessu máli. Bloggarar hafa með þessu dæmt í mjög hörðu máli og eðlilegt að velta því fyrir sér hvort það sé rétt skref. En hafa svosem ekki allir fellt einhvern dóm eftir umfjöllun Kompás?
![]() |
Starfar ekki lengur hjá World Class |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)