Engin fyrirsögn

Ár frá hörmungum


Eftir hörmungarnar

Mikill harmur var kveðinn yfir heimsbyggðinni eftir hina skelfilegu jarðskjálfta sem gengu yfir Asíu á öðrum degi jóla fyrir ári. Skjálftinn, sem varð um klukkan átta að morgni þess dags er einn sá öflugasti sem orðið hefur vart á jörðinni í yfir fjörutíu ár og sá fimmti öflugasti síðan á aldamótunum 1900. Upptök skjálftans, sem mældist 9 á Richter-skala, voru nálægt eyjunni Súmötru á Indónesíu. Hann varð neðan sjávar og minnst sex eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þar af einn sem mældist yfir 7 á Richter. Á eftir fylgdu gríðarlegar flóðbylgjur, sem líklega náðu yfir 10 metra hæð. Flóðbylgjurnar skullu á ströndum Indlands, Indónesíu og Sri Lanka og ollu þar gríðarlegri eyðileggingu. Tæplega 300.000 manns fórust. Sorglegust er sú staðreynd að aldrei verður hægt með vissu að staðfesta endanlegar tölur, enda voru engar mannfjöldaskrár til staðar yfir fjölda þeirra svæða sem urðu fyrir náttúruhamförunum. Liggur fyrir að flest fórnarlömb náttúruhamfaranna voru í Indónesíu og á Sri Lanka.

Mikið var af ferðamönnum í Asíu um jólin 2004 og ljóst að margir þeirra voru Norðurlandabúar. Fjöldi Svía fórust í hamförunum. Ekki hafa jafnmargir Svíar farist síðan farþegaskipið Estonia sökk haustið 1994 með þeim afleiðingum að 500 létust. Nú þegar minnst er árs afmælis þessara mannskæðu hamfara koma upp í hugann fréttamyndir af hörmungunum. Þar sést er öldurnar hrifsuðu með sér fólk og hluti eins og ekkert væri, rústuðu heilu bæjunum og þorpunum og eyðilagði líf fjölda fólks og fjölskyldna. Afleiðingarnar voru alveg skelfilegar, mannfall varð eins og fyrr segir gríðarlegt, milljónir manna glötuðu lífsviðurværi sínu og heimili og stóðu eftir slyppir og snauðir, misstu ættingja sína og allt annað sem það átti. Ennfremur hefur verið mjög átakanlegt að rifja upp þessa atburði og minnast þess áfalls sem maður varð fyrir um jólin fyrir ári að heyra fregnirnar af þessum miklu hamförum.

Um heim allan var fólki brugðið vegna þessara hörmunga og um allan heim var safnað til styrktar þeim sem áttu um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf. Það gerðist á Íslandi í janúar 2005 og söfnuðust um 300 milljónir króna til bjargar fólkinu og sýndi það samhug í verki af hálfu Íslendinga í garð þeirra sem allt sitt misstu. Reyndar hafði aldrei safnast áður svo há upphæð hér á landi til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins á svo skömmum tíma. Ennfremur var boðin fram aðstoð Íslendinga til hjálpar slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi. Þessir atburðir eru enn ofarlega í huga okkar allra og við minnumst þessa skelfilega atburðar og helgum þeim sem fórust í hamförunum hugsanir okkar á þessum tímamótum.

Saga dagsins
1832 John C. Calhoun verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna, sem segir af sér embætti í sögu þess.
1871 Leikritið Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrst sýnt - varð opnunarverk Þjóðleikhússins 1950.
1897 Leikritið Cyrano de Bergerac, frumsýnt í París - eitt af frægustu leikverkum í sögu Frakklands.
1908 Jarðskjálfti í Messina á Sikiley verður 75.000 manns að bana - skjálftinn í Messina varð einn af stærstu jarðskjálftum aldarinnar og telst hann hiklaust einn af 5 stærstu og mannskæðustu á 20. öld.
1967 Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun - hann varð svo hluti af Landsspítalanum árið 1999.

Snjallyrðið
Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng , er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.
Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Fögur er foldin)


Engin fyrirsögn

Jólahátíðin og jólabækurnar


Akureyrarkirkja

Ég vona að lesendur vefsins hafi haft það gott yfir jólin og hafi notið hátíðarinnar. Jólin hjá mér voru mjög hefðbundin og að mestu mjög lík því sem hefur verið í gegnum árin. Veðrið var notalegt og gott yfir hátíðirnar - snjólaust og því komust allir sinnar leiðar yfir hátíðirnar. Var staða mála þessi jólin allt önnur en á jólunum fyrir ári. Þá var stórhríð og blindbylur á aðfangadag og var lítið ferðaveður - enda mikil ófærð um bæinn jóladagana. Nú var rólegt yfir á aðfangadag og því hægt að sinna föstum hefðum dagsins með eðlilegum hætti, ólíkt árinu áður. Um hádegið fór ég upp í kirkjugarð til að vitja leiða látinna ástvina og ættingja sem hafa kvatt þennan heim - mikilvægt er á hátíðarstundu að minnast þeirra sem hafa verið manni kærir. Í fyrra fór ég upp í garð en það var nöturlegt og í raun dapurleg skilyrði sem þá voru uppi til að vera þar. Nú var notaleg og góð stemmning í kirkjugarðinum þegar ég fór þangað á aðfangadegi og margir sem leggja leið sína í garðinn á þessum helga degi.

Þessi jólin er Guðrún Gíslína Kristjánsdóttir frænka mín stödd hér á Akureyri ásamt eiginmanni sínum, Antonio Orpinelli. Hún hefur búið á Spáni í á fjórða áratug. Dvelur hún nú hér á jólum í fyrsta skipti í áratug. Faðir hennar og ömmubróðir minn, Kristján Stefánsson, veiktist alvarlega í vetur og hefur hann barist við þau veikindi með hetjulegum hætti. Áttum við notalega stund með honum á spítalanum að kvöldi aðfangadags. Dáist ég að styrk hans í veikindastríðinu og ennfremur er sjálfsagt að verða að liði fyrir Gullý og Antonio þessi jólin - leitt er að þau hafi þurft að eyða jólunum hér heima við þessar erfiðu aðstæður. Það er alltaf leitt að horfa upp á sína nánustu veika og þetta er dapurlegt. Seinna að kvöldi aðfangadags fórum við í miðnæturmessu í Akureyrarkirkju, kirkjuna mína. Sr. Svavar Alfreð Jónsson predikaði að þessu sinni og mæltist honum vel í predikun sinni. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng falleg jólalög með snilldarbrag undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar organista.

Ég hef ávallt farið í kirkju á jólum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að fara í messu og eiga þar notalega stund. Aðfangadagskvöld og upphaf jólanætur er sú stund um jól sem ég tel helgasta. Því er réttast að fara í messu þá. Það er fallegur siður að fara á þessu kvöldi í messu í kirkjuna sína.

Bækur

Þessa daga var bara haft það rólegt, notið kyrrðar hátíðarinnar og slappað af. Farið var í jólaboð og þess á milli borðaður góður matur og lesnar góðar bækur. Hef ég gegnum tíðina haft mikla ánægju af lestri góðra bóka. Fékk ég fjölmargar góðar bækur í jólagjöf, bæði ævisögur og skáldsögur. Las ég á jóladag bókina Ég elska þig stormur eftir Guðjón Friðriksson, sem fjallar um ævi fyrsta ráðherra Íslendinga, Hannesar Hafstein. Er það stórfengleg bók - sem hlýtur að verða mjög sigurstrangleg þegar kemur að veitingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún er listilega rituð og veitir okkur góða innsýn í ævi Hannesar og færir okkur nýjar hliðar á þessum þekkta manni sem er svo samofinn íslensku samfélagi á fyrstu áratugum 20. aldarinnar og markaði sér sess sem fyrsti ráðherra landsmanna. Þeir sem vilja kynna sér ævi Hannesar betur er bent á frábæran kafla Davíðs Oddssonar bankastjóra, um Hannes í Forsætisráðherrabókinni, sem kom út árið 2004. Er hann leiftrandi af skemmtilegum upplýsingum og góðri frásögn.

Nú hef ég lokið lestrinum og hef hafið lestur á Laxness, þriðja og síðasta bindi ævisögu nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Þar er lýst seinustu fimmtíu árunum á ævi skáldsins, 1948-1998 - sem telja má frægðarárin hans mestu. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 og markaði sér sess í bókmenntasögu aldarinnar og gnæfði yfir íslensku samfélagi á tuttugustu öld. Var hann valinn maður 20. aldarinnar af landsmönnum. Er það ekki undarlegt, enda var hann svo samofinn öldinni að það duldist engum. Hef ég notið mjög að lesa snilldarlega ritaðar bækur Hannesar Hólmsteins um Laxness. Þær eru alveg stórfenglegar að öllu leyti. Hannes Hólmsteinn á mikið hrós skilið fyrir að hafa fært okkur svo góðar og gagnrýnar bækur um skáldið, afrek hans og umdeild atriði á æviferlinum. Fór Hannes altént með ferskari og fróðlegri hætti yfir ævi skáldsins en Halldór Guðmundsson gerði í fyrra, í annars góðri ævisögu sem mjög gaman var að lesa um seinustu jól.

Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Best bókanna þriggja um Laxness er að mínu mati miðritið Kiljan sem kom út um jólin fyrir ári. Það er einhver besta ævisaga sem ég hef lesið - tekur hún með góðum hætti á miklum hitamálum á ferli Laxness og miklum umbrotatíma stjórnmálalega séð sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Það hefur verið hrein unun að sitja og lesa bækur Hannesar um Halldór. Vil ég færa Hannesi mikið hrós frá mér fyrir að hafa lagt í það mikla verkefni og sýnt mikið hugrekki við að skrifa um Halldór og segja okkur sögu hans alla. Það var mjög glæsilega gert hjá honum. Er þetta að mínu mati eitthvert besta ævisögusafn um einn mann hérlendis í sögu íslenskra bókmennta. Stór orð vissulega - en Hannes verðskuldar þau. Þessar bækur eru óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn. Verður fróðlegt að sjá hvað Hannes muni nú skrifa um, en áður hefur hann ritað frábæra ævisögu um Jón Þorláksson.

Framundan er lestur margra bóka. Fékk ég margar góðar bækur í gjöf. Næst á blaði er lestur á Vetrarborgum eftir Arnald Indriðason. Hef ég ætlað að lesa þá bók um nokkurn tíma en komst aldrei í að kaupa mér hana fyrir jólin og lesa vegna anna. Fékk ég hana svo í jólagjöf og ætla mér að lesa hana nú milli jóla og nýárs. Það jafnast enda ekkert á góðan krimma eftir meistara Arnald. Sem jafnan fyrr er aðalsöguhetjan, Erlendur Sveinsson lögreglumaður, og samstarfsfólk hans, Elínborg og Sigurður Óli, sem áður hafa komið við sögu t.d. í Kleifarvatni, Mýrinni, Grafarþögn og Röddinni. Hlakkar mér til að lesa bókina, enda hefur það verið virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig. Það besta er hvernig hann yfirfærir krimmann yfir á íslenskt samfélag. Arnaldur er á heimsmælikvarða sem spennusagnahöfundur - hefur hlotið alþjóðlega frægð og hlaut á árinu Gullna rýtinginn, bresku glæpasagnaverðlaunin.

Framundan er lestur á góðum bókum, t.d. Höfuðlausn eftir Ólaf Gunnarsson, Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon, Játningar Láru miðils eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson, Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson og Gæfuspor (gildin í lífinu) eftir Gunnar Hersvein. Ennfremur hef ég mikinn áhuga á bókum Þórarins Eldjárns og Steinunnar Sigurðardóttur. Fyrir jólin hafði ég lesið vandaða og góða bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins. Eins og ég hef vel sagt frá fyrir jólin var sú bók virkilega góð og ein besta bók sagnfræðilegs og stjórnmálalegs eðlis hin seinni ár. Hvet ég alla til að lesa hana, hvort sem þeir hafa fengið hana að gjöf þessi jólin eður ei. Ekki veit ég hvenær ég kemst yfir allar jólabækurnar til fulls, en ljóst er að mikill lestur er framundan og áhugaverður. Nú um helstu jóladagana hef ég helgað mig lestri á ævisögunum um þá Hannes og Halldór, en það er ljóst að góð bókajól verða á mínu heimili.

Saga dagsins
1977 Breski leikarinn Sir Charles Chaplin jarðsunginn í Sviss - hann lést á jóladag, 88 ára að aldri.
1979 Sovétríkin ná völdum í Afganistan og stjórnvöldum landsins var steypt af stóli. Leiddi það til blóðugra átaka, hörmunga og borgarastyrjaldar sem stóðu í landinu í rúma tvo áratugi með hléum.
1985 Lík bandaríska náttúrufræðingsins Dian Fossey, finnst í Rwanda. Dian sem var 53 ára, var myrt.
1986 Snorri Hjartarson skáld og bókavörður, lést, áttræður að aldri. Snorri var eitt lisfengasta skáld landsins og hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1981, fyrir bókina Hauströkkrið yfir mér.
2004 Viktor Yushchenko kjörinn forseti Úkraínu - hann hlaut 51,9% atkvæða en Viktor Yanukovych forsætisráðherra, hlaut 44,1%. Miklar deilur voru vegna forsetakjörs nokkru áður. Yushchenko vann sigur í fyrri umferðinni í byrjun nóvember og var spáð sigri í seinni umferðinni. Raunin varð þó sú að Yanukovych vann og hlaut 2% meira. Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans um kosningasvik í austur- og norðurhéraði landsins. Efndu stjórnarandstæðingarnir til mótmæla sem leiddu til þess að kosningarnar voru endurteknar. Deilur hafa einkennt forsetatíð hans og þykir sem að góð fyrirheit hafi ekki ræst. Samstarfi hans og Yuliyu Tymoshenko lauk svo um haustið 2005.

Snjallyrðið
Þau lýsa fegurst er lækkar sól
í bláma heiði, mín bernskujól.
Er hneig að jólum mitt hjarta brann
dásemd nýrri hver dagur rann.

Það lækkaði stöðugt á lofti sól
þau brostu í nálægð, mín bernskujól
og sífellt styttist við sérhvern dag
og húsið fylltist af helgibrag.

Ó, blessuð jólin er barn ég var
ó, mörg er gleðin að minnast þar
í gullnum ljóma hver gjöf mér skín.
En kærust voru mér kertin mín.

Ó, láttu, Kristur þau laun sín fá
er ljós þín kveiktu er lýstu þá.
Lýstu þeim héðan er lokast brá,
heilaga guðsmóðir, himnum frá.
Stefán frá Hvítadal skáld (1887-1933) (Jól)


Engin fyrirsögn

Jólakveðja
Ég óska lesendum gleðilegrar jólahátíðar!


Hátíð fer að höndum ein,
hana vér allir prýðum,
lýðurinn tendri ljósin hrein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Gerast mun nú brautin bein,
bjart í geiminum víðum,
ljómandi kerti á lágri grein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Jóhannes úr Kötlum (1899-1972) (Hátíð fer að höndum ein)

Engin fyrirsögn

Jólahugleiðingar


Jólatréð á Ráðhústorgi 2004

Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. Skammdegið er lýst upp með fallegum ljósum og skreytingum í tilefni hátíðarinnar. Jólin eru kjörið tækifæri til að slappa af; lesa góðar bækur, borða góðan mat og njóta lífsins. Jólin eru ánægjulegasti tími ársins. En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með.

Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Ég er ekki sammála því. Mér finnst ekki óeðlilegt að jólatíminn lengist og verði áberandi þegar í nóvember sem dæmi. Einnig þykir mér gott að skreyta snemma og njóta jólaskrautsins lengur en einungis örfáa daga. Ég man að á mínum bernskuárum var jafnan skreytt á mínu heimili tveim eða þrem dögum fyrir jól, mér þótti það alltof seint og skreyti nú alltaf í byrjun desember, enda gott að njóta þess að hafa jólalegt allan desembermánuð og lýsa upp svartasta skammdegið.

Jólasveinn

Einnig er mikið rætt um hvenær eigi að byrja að spila jólalögin. Mörgum finnst of snemmt að fara að spila þau í nóvember, aðrir fara að spila þau þá. Ég er svolítið íhaldssamur þegar kemur að jólalögunum, finnst réttast að byrja að spila þau í byrjun desember, ekki fyrr. Mér finnst t.d. svolítið stingandi þegar farið er spila heilögustu jólalögin, t.d. Ó helga nótt og Heims um ból, í lok nóvember eða byrjun desember. Mér finnst það alls ekki viðeigandi og tel að eitthvað verði að vera mönnum heilagt. Það að spila hátíðlegustu jólalögin á þeim tíma sem aðventan er að hefjast finnst mér nálgast við að mega kallast guðlast, verð bara hreinlega að segja það.

Á aðventunni og jólunum er mikilvægt að minnast ástvina og ættingja sem hafa kvatt þessa jarðvist og helga þeim hluta af hugsunum sínum, hvort sem um er að ræða ástvini sem hafa kvatt á árinu eða á seinustu árum. Ég fer alltaf fyrir jólin í garðinn hér og hugsa um leiðin sem tengjast mér eða minni fjölskyldu. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Kærleikur er ekki mældur í peningum, hann er ómetanlegur. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta. Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.

Jólaundirbúningurinn


Jólatré

Í dag hef ég verið á fullu við að klára jólaundirbúninginn. Jólalegt er orðið hér í bænum og mikil jólastemmning. Veðrið hér norðan heiða hefur verið svosem ágætt síðasta sólarhringinn. Ljóst er að það verða rauð jól að þessu sinni. Það er nokkur kuldahrollur þó en snjó hefur ekki fest. Er um að ræða allt aðra stöðu en fyrir ári, en á aðfangadag var blindbylur og á jóladag var allt ófært um bæinn. Sýnist á nýjustu veðurspánum að það verði milt veður en kalt. Það verður annars gott næstu daga eftir annir seinustu daga að hafa það notalegt, fara í jólaboð, lesa jólabækurnar, borða góðan mat eða horfa á sjónvarpið. Fór í dag í búðir við að klára að kaupa það sem eftir er. Að mestu var ég þó búinn að því sem gera þurfti fyrir jólin í byrjun mánaðarins.

Jólaundirbúningurinn hefst venju samkvæmt hjá okkur mánuði fyrir jól með laufabrauðsgerð. Um mánaðarmótin er húsið alveg skreytt og skrifað á jólakort. Að því loknu keyptar gjafir. Í gær var farið að kaupa jólamat og klára tvær gjafir sem ég vildi bæta við. Var gríðarlegur fjöldi að versla í gær og nóg um að vera. Hitti maður mikinn fjölda fólks sem maður þekkir og átti gott spjall. Fórum við nokkur í tilefni afmælis míns í gær á Greifann og fengum okkur að borða. Þetta var annasamur en góður dagur. Ekkert jafnast annars á við að fá sér að borða á Greifanum, frábær veitingastaður sem ég fer oftast á þegar ég fer út að borða hér.

Saga dagsins
1193 Þorlákur Þórhallsson biskup að Skálholti, lést, sextugur að aldri. Helgi Þorláks var lögtekin á Alþingi 29. júní 1198 og ári síðar var messudagur hans ákveðinn 23. desember. Önnur messa hans er á fæðingardegi Þorláks, 20. júlí. Jóhannes Páll páfi II, staðfesti svo helgi Þorláks, þann 14. janúar 1984.
1905 Páll Ólafsson skáld, lést, 78 ára að aldri. Páll var meðal allra bestu alþýðuskálda Íslendinga. Meðal þekktustu ljóða Páls voru t.d. Sumarkveðja (Ó blessuð vertu sumarsól) og Sólskríkjan.
1936 Lestur á jólakveðjum hófst á Þorláksmessu í Ríkisútvarpinu. Frá 1933 hafði lesturinn farið fram á aðfangadag, en hefur allt frá 1936 verið á Þorláksmessu. Ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum er að hlusta á lestur jólakveðjanna, sem berast af öllu landinu og erlendis og skreyttar með jólalögum.
1958 Ríkisstjórn Emils Jónssonar tók við völdum - hún var minnihlutastjórn Alþýðuflokksins og sat að völdum í tæpt ár. Var undanfari að viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat í 12 ár.
1968 Til mikilla átaka kom í Reykjavík milli lögreglu og fólks sem hafði þá mótmælt Víetnamsstríðinu.

Snjallyrðið
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
konungur lífs vors og ljóss.

Heyra má himnum í frá
englasöng: "Allelújá".
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
samastað syninum hjá.
Sveinbjörn Egilsson rektor (1791-1852) (Heims um ból)


Engin fyrirsögn

Afmæli


Stefán Friðrik Stefánsson

Í dag fagna ég 28 ára afmæli mínu. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Um síðustu helgi hélt ég upp á afmælið með lágstemmdum hætti hér heima og bauð til mín nokkrum vinum og ættingjum. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum - eru sannir vinir. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Ég met þetta allt mjög mikils, annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu, en ekki virðist mér skorta vinina ef marka má þessi viðbrögð. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum. Kærar þakkir!

Kristján Þór lýsir yfir framboði


Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í morgun sendi Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram sem oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og set því stefnuna á 1. sæti í prófkjöri flokksins þann 11. febrúar næstkomandi. Að því loknu hyggst ég leggja mig allan fram, ásamt félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum, um að vinna að glæstum árangri flokksins á Akureyri í næstu bæjarstjórnarkosningum.

Ég hef ítrekað verið spurður að því undanfarnar vikur hvort ég hyggist gefa kost á mér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningum til Alþingis vorið 2007. Í því sambandi vil ég taka fram:

Þegar ég tilkynnti um framboð mitt til varaformanns Sjálfstæðisflokksins sl. haust lýsti ég því yfir að ég stefndi að því að næsta viðfangsefni mitt á pólitískum vettvangi yrði að leiða lista Sjálfstæðismanna á Akureyri til forystu í bæjarstjórn að loknum kosningum vorið 2006. Þessi skoðun mín hefur ekkert breyst.

Jafnframt lýsti ég því yfir að ég hefði alla tíð haft áhuga á því að takast á við ný og ögrandi verkefni á pólitískum vettvangi. Meðan sá áhugi er fyrir hendi þá útiloka ég ekki neitt það viðfangsefni sem kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins kunna að fela mér í framtíðinni.

Á meðan mér er falið umboð til að vinna að framfaramálum í þágu Akureyringa skiptir það mig höfuðmáli að hafa sem víðtækan stuðning við úrlausn þeirra verkefna sem unnið er að hverju sinni. Ég vonast því eftir víðtækum stuðningi við þá ákvörðun mína að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Ég óska Akureyringum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs."

Ég fagna þessari yfirlýsingu Kristjáns Þórs - ég styð hann heilshugar í fyrsta sæti framboðslista flokksins í þessum sveitarstjórnarkosningum. Undir hans forystu hefur okkur gengið vel og hann hefur leitt flokkinn farsæla braut. Ég met forystu hans mikils og mun styðja hann áfram til þess að leiða lista okkar í maímánuði.

Saga dagsins
1897 Klukka er sett upp í turni Dómkirkjunnar í Reykjavík - hún telur enn stundirnar fyrir borgarbúa.
1989 Einræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu fellur í Rúmeníu. Ceausescu-hjónin reyndu að flýja höfuðborgina Búkarest þegar sýnt var að uppreisn almennings yrði ekki stöðvuð með valdi lengur, en þau voru handsömuð skömmu síðar. Þau voru tekin af lífi eftir réttarhöld á jóladag.
1989 Brandenborgar-hliðið í Berlín, sem skildi að austur- og vesturhluta Berlínarborgar opnað fyrir almenningi að nýju, eftir tæplega þriggja áratuga hlé, í kjölfar falls Berlínarmúrsins sem stóð í 28 ár.
1991 Rússneska þingið staðfestir að Rússland verði sjálfstætt ríki og hluti af samveldi sjálfstæðra ríkja frá 1. janúar 1992. Með þessu var formlega staðfest að Sovétríkin heyrðu sögunni til, flest ríki landsins höfðu þá lýst yfir sjálfstæði sínu og staðfest það. Mikhail Gorbachev forseti Sovétríkjanna, stóð eftir valdalaus sem þjóðhöfðingi án ríkis í raun og veru. Hann tilkynnti formlega um afsögn sína í ávarpi til þjóðarinnar á jóladag og batt með því enda á vangaveltur um hvað yrði um pólitíska stöðu sína eftir þessi sögulegu þáttaskil. Gorbachev, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990, hætti í pólitík.
2000 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, valinn maður aldarinnar í aldamótakönnun Gallup. Í sömu könnun var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, valin kona aldarinnar. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var hinsvegar valinn stjórnmálamaður aldarinnar.

Snjallyrðið
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hrærð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.
Sigurður Björnsson framkvæmdastjóri (1935) (Ó, helga nótt)


Engin fyrirsögn

Jólamyndir


It´s a Wonderful Life

Um jólin er viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna. Tvær þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.

Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða.

Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.

Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2005 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.

Miracle on 34th Street

Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.

Love Actually

Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir tveim árum. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu. Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!

Vonandi eigið þið annars góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Gott dæmi yfir úrvalið í bíói um jólin eru myndir á borð við t.d. King Kong, The Family Stone, Harry Potter and the Goblet of Fire, The Chronicles of Narnia, Memoirs of a Geisha og The Brothers Grimm. Er reyndar þegar búinn að sjá King Kong og ætla að skrifa um hana milli jóla og nýárs þegar að ég geri upp bíóárið. Nóg af úrvalsefni er því í boði í kvikmyndahúsunum. Gott úrval kvikmynda og þátta verður svo í sjónvarpi yfir jólin.

Jólatónlist


Elly og Vilhjálmur syngja jólalög

Get ekki annað en bent á tvo ómissandi jóladiska í lokin að þessu sinni. Jólin hjá mér koma ekki fyrr en settur hefur verið í spilarann stórfenglegur jóladiskur systkinanna Elly Vilhjálms og Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem gefinn var út árið 1971. Hann er fallegri en allt annað að mínu mati - ennfremur jólalegri en allt annað. Sígildur og góður - algjörlega ómissandi. Elly og Vilhjálmur voru með bestu söngvurum sinnar kynslóðar og sungu allt fram í andlátið. Vilhjálmur lést í bílslysi, langt fyrir aldur fram, árið 1978, aðeins 33 ára að aldri. Elly lést úr krabbameini árið 1995, sextug að aldri. Þau voru að mínu mati aldrei betri en á þessum ljúfa jóladiski sem varð fastur hluti jólanna um leið og hann kom út. Ég ólst upp með þessari plötu og keypti mér útgáfu hennar á diski árið 1992 og hef spilað hann mjög mikið síðan. Algjör snilld að mínu mati - jólalegasti jóladiskurinn.

Á jólanótt

Fyrir áratug gaf Tjarnarkvartettinn í Svarfaðardal út jóladiskinn Á jólanótt. Um leið og hann kom út ávann hann sér sess í huga mér. Diskurinn er löngu orðinn fastur liður jólaundirbúningsins. Það er afslappandi og notalegt að setja hann í spilarann og njóta þeirrar kyrrðar sem hann færir. Þar syngur kvartettinn jólalög án undirleiks. Aðeins er fagur söngur - rólegt og undurljúft. Tjarnarkvartettinn var skipaður þeim Hjörleifi Hjartarsyni, Kristjáni Hjartarsyni, Kristjönu Arngrímsdóttur og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Hann hætti að syngja opinberlega fyrir nokkrum árum, en gaf út þennan disk og tvo til. Allir sem njóta fallegrar og notalegrar jólatónlistar verða að eignast þennan.

Marga fleiri diska mætti nefna, t.d. eru jóladiskar Kristjáns Jóhannssonar, Boney M, Diddúar, Bing Crosby, Mahaliu Jackson og Borgardætra mikið spilaðir á mínu heimili. Alltaf bætist svo við - þessi jólin kom út jóladiskur systkinanna Ellenar og KK sem hefur þegar unnið sér fastan sess. Falleg jólatónlist er ómissandi í jólaundirbúningnum.

Saga dagsins
1945 Ölfusárbrú við Selfoss var opnuð til umferðar - var þá langstærsta og mesta brú sem byggð hafði verið hérlendis. Hún er 134 metra löng og leysti af hólmi eldri brú sem tekin var í notkun 1891.
1952 Kveikt var á 15 metra háu jólatré á Austurvelli í Reykjavík. Þetta var fyrsta tréð sem Oslóarbúar gáfu Reykvíkingum. Frá þessu hefur það verið árleg hefð að tré komi þaðan sem gjöf til Reykvíkinga.
1958 Charles De Gaulle hershöfðingi, kjörinn með miklum meirihluta sem forseti Frakklands, og hlaut mun meiri pólitísk völd en forverarnir. De Gaulle sat í embætti allt til ársins 1969, og lést 1970.
1988 Flugvél Pan Am-flugfélagsins, á leið frá London til New York, sprakk í loft upp yfir smábænum Lockerbie á Skotlandi. 258 létust, þarmeð taldir allir farþegar vélarinnar og fólk á jörðu niðri er vélin hrapaði til jarðar. Líbýskir menn grönduðu vélinni og voru þeir handteknir og sóttir til saka 2001.
1999 Þingsályktun um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi. Síðar var fallið frá þessum áformum, sem kennd voru við Eyjabakka og ákveðið að stefna frekar að Kárahnjúkavirkjun.

Snjallyrðið
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Sr. Einar Sigurðsson á Heydölum (1538-1626) (Nóttin var sú ágæt ein)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Í gær var framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 27. maí nk. samþykktur á fjölmennum fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í Valhöll. Listann skipa 15 karlar og 15 konur, þar af eru 5 karlar og 5 konur í 10 efstu sætum framboðslistans og 8 konur og 8 karlar í 16 efstu sætunum. Kynjaskiptingin er því mjög góð. Efstu þrettán sætin eru skipuð eftir úrslitum prófkjörs flokksins í byrjun nóvembermánaðar. Í fyrstu tíu sætunum eru: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Jórunn Ósk Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Bolli Skúlason Thoroddsen og Marta Guðjónsdóttir. Þetta er sigurstranglegur og góður listi að mínu mati. Eins og skoðanakannanir hafa verið að spilast er Sif gulltrygg inn í borgarstjórn. Reyndar virðist mér á seinustu tveim skoðanakönnunum Gallups að verið sé að spila um níunda mann sjálfstæðismanna inn í borgarstjórn. Það er að mínu mati ekki óviðeigandi að stimpla níunda sætið sem hið sanna baráttusæti - berjast eigi af krafti eftir því að ná góðum sigri með góðri útkomu með níu borgarfulltrúum.

Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar, skipar níunda sætið. Eins og fyrr segir hafa kannanir Gallups verið að spilast með þeim hætti að níundi maður framboðslistans sé inni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að menn eigi að leggja kosningabaráttuna upp með þeim hætti að tryggja kjör Bolla Thoroddsen inn í borgarstjórn – tryggja að unga kynslóðin í flokknum eigi tryggan fulltrúa inn í borgarstjórn. Það væri glæsilegt fyrir okkur alla hægrimenn ef flokkurinn hlyti sterkt og gott umboð með því að ná inn níu borgarfulltrúum í þessum kosningum. Öll hljótum við að vilja sigur flokksins sem stærstan. Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups í dag hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn rúm 55% atkvæða og hefur algjöra yfirburði. Vinstriflokkarnir eru í rúst bara, bandalag þeirra myndi ekki hljóta meirihluta og eru mjög fjarri því. Þó að þeir vildu starfa saman er það enginn valkostur haldist þessi öfluga staða Sjálfstæðisflokksins. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil hafa átt sér stað í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni.

Samfylkingin fengi rúm 25% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur rúm 12% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn þrátt fyrir að hafa nú losnað við fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson, úr forystusveitinni. Framsókn hefur um 5% fylgi og hefur bætt sig örlítið, en er samt nokkuð frá því að ná inn manni. Þetta gerist þrátt fyrir brotthvarf Alfreðs og innkomu Björns Inga Hrafnssonar inn á sviðið. Frjálslyndir hafa svo rúm 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju því kjörinn borgarfulltrúa. Þessi könnun er mjög öflug fyrir Sjálfstæðisflokkinn - sérstaklega á þessum tímapunkti er framboðslistinn liggur fyrir. Verkin eftir R-listann sáluga eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið.

Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag og tryggja níu borgarfulltrúa inn í vor!

Dimmugljúfur

Nýlega las ég bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, þar sem hann fer yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Ómar er landsmönnum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur hann seinustu fimm árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjun á Austurlandi og álver við Reyðarfjörð.Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, árið 2002 og heldur nú þeirri umfjöllun áfram í bókinni. Er hún sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni neikvæða, báðar skoðanir koma vel fram.

Er þessi bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar. Þó að við Ómar séum ósammála um þetta mál, met ég það að hann reyni af krafti að tjá báðar skoðanir með þessum hætti og fái fram umræðu um það. Það er nefnilega það nauðsynlega við þetta, að fá umræðu um kosti og galla framkvæmdarinnar og þess sem gera þarf til að styrkja og efla Austfirðina. Enginn vafi er á því að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Það stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast verulega, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Mikill uppgangur hefur verið á öllum sviðum á Austurlandi.

Fór ég austur í Fjarðabyggð í sumar og þótti mjög ánægjulegt að sjá hversu vel gengur þar núna og að finna fyrir þeim mikla krafti sem býr í fólki þar og öllum framkvæmdum sem í gangi eru. Framkvæmdirnar þar styrkja Norðausturkjördæmi í heild og efla Austurland og síðast en ekki síst mannlífið í Fjarðabyggð. Það er því rétt að taka umræðuna um málið, en eftir stendur að kostirnir við framkvæmdina yfirgnæfa alla mögulega galla sem tíndir eru fram í bók þessari. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar.

It Happened One Night

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmynd leikstjórans Frank Capra, It Happened One Night. Í aðalhlutverkum í þessari mögnuðu mynd eru Claudette Colbert og Clark Gable. Segir í myndinni frá hinni ofdekruðu Ellie Andrews sem flýr undan ofríki föður síns sem vill ekki leyfa henni að giftast glaumgosa einum. Á leiðinni í rútu til New York kynnist hún útbrenndum blaðamanni Peter Warner. Þegar rútan bilar á leiðinni lenda þau í vandræðum enda hætta á að faðir hennar komist að því hvar hún er, blaðamaðurinn þekkir auðmannsdótturina og vonast til að þarna sé komið efni í stórfrétt sem kemur honum á sporið aftur í bransanum. Vandræðin hefjast þó fyrir alvöru er þau verða ástfangin á leiðinni til New York. Stórfengleg kvikmynd sem varð gríðarlega vinsæl og hlaut 5 óskarsverðlaun 1934, sem besta kvikmynd ársins, fyrir leik Gable og Colbert, fyrir leikstjórn Capra og handritið. Var It Happened One Night fyrsta kvikmyndin sem hlaut óskarinn í 5 stærstu flokkunum; kvikmynd, leikstjórn, bestu aðalleikarar og handrit. Aðeins tvær myndir hafa náð þeim árangri frá 1934, One Flew Over The Cuckoo's Nest 1975 og The Silence of the Lambs 1991: báðar miklar gæðamyndir.

Þorsteinn Pálsson

Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og sendiherra, tilkynnti í viðtali í Laufskálanum á Rás 1 í morgun að hann hefði tekið þá ákvörðun að hætta við að rita sögu þingræðis á Íslandi. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti snemma í haust að fela honum það verk og hann hafði hafið ritunina eftir að hann lét af sendiherraembætti í Danmörku snemmvetrar. Í kjölfar þessa mótmæltu fræðimenn því að Þorsteini hefði verið falið að skrifa söguna og ennfremur var það gagnrýnt í þingumræðu, þó að allir flokkar í forsætisnefnd hefðu staðið að valinu á Þorsteini. Sagði Þorsteinn í Laufskálaviðtalinu að forsendur væru brostnar fyrir ákvörðun forsætisnefndarinnar og hann hefði ákveðið að hætta við. Þorsteinn er mikill heiðursmaður og tekur rétta ákvörðun. Hann fer frá þessu máli hnarreistur og með glæsilegum hætti. Ég óska honum góðs í þeim verkefnum sem hann tekur sér nú fyrir hendur eftir að hann lét af sendiherraembætti.

KK og Ellen

Keypti mér um daginn geisladisk systkinanna Ellenar og KK - Jólin eru að koma. Mæli mjög með þessum diski. Á honum er undurfögur jólatónlist með einföldum og tærum blæ. KK spilar á kassagítarinn og syngur ásamt Ellen ógleymanleg jólalög. Fer þetta fallega saman og skapar flotta jólastemmningu, sem flýtur notalega í gegn. Góður diskur - sem á vel við nú á aðventunni.


Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa sent mér notalegar og góðar kveðjur vegna ákvörðunar minnar um framboð í prófkjörinu í febrúar. Það er gott að eiga góða vini að!

Saga dagsins
1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa - útvarpað var í upphafi þrjá tíma á kvöldin, en eftir því sem árin liðu lengdist útsendingartíminn og er nú útvarpað á Rás 1 frá 6:45 til 01:00 að nóttu. Árið 1966 hóf RÚV rekstur fyrstu sjónvarpsstöðvar landsins og 1983 var svo stofnuð önnur útvarpsrás, Rás 2. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson, en núverandi útvarpsstjóri RÚV er Páll Magnússon.
1973 Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, ráða Luis Carrero Blanco forsætisráðherra Spánar, af dögum í sprengjutilræði í Madrid - almenn þjóðarsorg var á Spáni vegna dauða hins sjötuga forsætisráðherra.
1974 Snjóflóð féllu á Neskaupstað og ollu stórtjóni á mannvirkjum. 12 manns fórust í snjóflóðinu, margir voru grafnir lifandi upp úr snjónum. Tvítugur piltur bjargaðist eftir rúmlega 20 klukkustundir.
1975 Kröflueldar hófust með miklu eldgosi í Leirhnjúki - gosið stóð allt fram til febrúarmánaðar 1976.
1983 Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi - kerfið sem varð umdeilt tók gildi 1. janúar 1984.

Snjallyrðið
Framtíð okkar svo fallvölt er,
fortíð leit hjá sem blær
jólanóttin er nú og hér.
Nóttin heilög og kær.

Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gleymdu sorg og þraut
vittu til að vandamálin hverfa á braut.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gjöf, sem dýrmætust er.
Í kærleika að kunna að gefa af sjálfum sér.

Hér og nú hjartkær vinafjöld
hjá oss eru í kvöld sem fyrr.
Jólabarn við oss brosir rótt
björt er jólanótt, hljóð og kyrr.
Ómar Ragnarsson fréttamaður (1940) (Glæddu jólagleði í þínu hjarta)


Engin fyrirsögn

Hjallastefnan í Hólmasól


Kristján Þór Júlíusson og Margrét Pála Ólafsdóttir

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Margrét Pála Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. undirrituðu í dag, mánudaginn 19. desember, samning um rekstur leikskólans Hólmasólar við Helgamagrastræti. Samningurinn gildir til 31. desember 2009. Hugmyndafræði Hjallastefnunnar samanstendur meðal annars af nokkrum meginatriðum sem lita allt leikskólastarfið. Fyrst ber að nefna að nemendahópnum er skipt eftir kynjum í kjarna (deildir, bekki) til að mæta ólíkum þörfum beggja kynja og til að geta leyft stelpna- og strákamenningu að njóta sín jafnhliða því að unnið er gegn neikvæðum afleiðingum hefðbundinna staðalímynda og kynhlutverka um möguleika stúlkna og drengja. Í öðru lagi er áhersla á opinn og skapandi efnivið og lausnir barnanna sjálfra í stað leikfanga og hefðbundinna námsbóka. Í þriðja lagi er lagt upp úr jákvæðum aga og hegðunarkennslu þar sem nemendur læra lýðræðislega samskiptahætti innan ákveðins ramma.

Námskrá Hjallastefnunnar byggir á og uppfyllir öll skilyrði. Aðalnámskrár leikskóla. Í dag er enginn biðlisti fyrir börn 2ja ára og eldri hjá leikskólum Akureyrar. Um 95% barna á Akureyri á aldrinum 2ja – 5 ára eru í leikskóla. Meðal dvalartími þeirra í leikskóla eru um 7,4 klukkustundir á dag. Stöðugildin í leikskólunum á Akureyri eru í heild 220, þar af eru 139 stöðugildi vegna deildarstarfs og 64 % af deildarstöðugildunum eru mönnuð fagfólki. Leikskólinn Hólmsól er sex deilda leikskóli og er gert ráð fyrir að hann rúmi allt að 157 börn. Stöðugildin verða um 30. Leikskólagjöld verða þau sömu og eru í öðrum leikskólum Akureyrarbæjar. Þegar nýi leikskólinn tekur til starfa í apríl næstkomandi verða 13 leikskólar starfandi hér á Akureyri. Frá og með næsta hausti verður pláss fyrir um 1.150 börn í leikskólunum hér og þá verður 18 mánaða börnum boðið upp á leikskólapláss.

Þetta er gleðilegt og gott skref sem stigið er með þessum samningi. Lengi hef ég verið talsmaður þess að skólar hér verði einkareknir. Sérstaklega hef ég verið talsmaður þess að grunnskóli hér í bæ verði rekinn með þessu kerfi og horfi ég þar að sjálfsögðu til Naustaskóla sem rísa mun á næstu árum. Tel ég ennfremur rétt að við tökum hér á Akureyri upp sama kerfi og er í Garðabæ - það er módel sem ég tel að hafi reynst vel og rétt sé að stefna að verði virkt hér af krafti. En fyrst og fremst fagna ég þessum samningi bæjarins við Möggu Pálu og óska henni alls góðs við rekstur Hólmasólar næstu fjögur árin - þann tíma sem fyrrnefndur samningur gildir.

Saga dagsins
1901 Tólf hús brunnu í miklum bruna á Akureyri og rúmlega fimmtíu manns urðu þá heimilislausir.
1956 Lög um bann við hnefaleikum voru samþykkt á Alþingi - samkvæmt því var bönnuð öll keppni
eða sýning á hnefaleikum hérlendis. Ólympískir hnefaleikar voru leyfðir að nýju á Íslandi árið 2001.
1969 Aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, var samþykkt á Alþingi - tók gildi 1970.
1984 Bretar og Kínverjar undirrita samkomulag þess efnis að Kína taki við stjórn Hong Kong af Bretum 1. júlí 1997 - valdaskiptin fóru fram eins og samið var um og með því lauk 150 ára stjórn Breta.
2000 Hæstiréttur dæmdi að tekjuskerðing örorkubóta vegna tekna maka væri ólögleg - dómurinn sem var sögulegur, leiddi til þess að stjórnin breytti lögum um örorkugreiðslu og fyrirkomulag þeirra.

Snjallyrðið
Mundu að þakka guði
gjafir, frelsi og frið,
þrautir, raunir, náungans
víst koma okkur við.
Bráðum klukkur klingja
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði og friðarjól.

Biðjum fyrir öllum þeim
sem eiga bágt og þjást
víða mætti vera meira um kærleika og ást.

Bráðum koma jólin
bíða gjafirnar
út um allar byggðir
verða boðnar kræsingar.
En gleymum ekki guði
hann son sinn okkur fól
gleymum ekki að þakka
fyrir gleði og friðarjól.
Magnús Eiríksson tónlistarmaður (1945) (Gleði og friðarjól)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í síðasta sunnudagspistli ársins 2005 fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um þá ákvörðun mína að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, sem haldið verður 11. febrúar nk. Hef ég ákveðið að gefa kost á mér í þriðja sæti listans. Ég hef verið flokksbundinn í tólf ár og gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tel rétt að gefa kost á mér nú. Spennandi barátta er framundan. Mun ég í prófkjörsbaráttunni kynna vel mína framtíðarsýn fyrir Akureyri og hverju eigi að stefna að á næsta kjörtímabili. Það er alveg ljóst að rödd yngri kjósenda þarf að vera virk í bæjarmálum hér. Mér þykir doði vera í stjórnmálalitrófi ungra kjósenda hér og rödd þeirra hafa gleymst. Því verður að breyta. Skoðanir okkar og stefnumál skipta að mínu mati sköpum í kosningabaráttunni á næsta ári. Við þurfum að koma með okkar mat á stöðuna: hvað viljum sjá á næsta kjörtímabili? – að hverju viljum við stefna að? – hvernig á bærinn að vera á næstu árum? Allt eru þetta stórar spurningar. En það er mikilvægt að við svörum þeim. Ég mun allavega fara á þennan vettvang af krafti.

- í öðru lagi fjalla ég um bækur sem komið hafa út á seinustu árum um Halldór Kiljan Laxness. Nýlega kom út þriðja og síðasta bindi Hannesar Hólmsteins um hann – þar kemur margt nýtt fram. Sérstaklega hefur þar borið hæst umfjöllun um nóbelsverðlaunin 1955. Komið hefur í ljós nánari umfjöllun en áður hefur sést um atburðarásina sem leiddi til þess að Halldór Kiljan Laxness hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir hálfri öld. Lengi hefur verið vitað að valið stóð þá á milli Halldórs og annars öndvegisrithöfundar, Gunnars Gunnarssonar. Lengi hafa margar kjaftasögur gengið um rás atburða og hið sanna legið í þagnargildi. Það hefur nú breyst. Í bók sinni lýsir Hannes því hvernig menn reyndu með ófrægingarherferð að koma í veg fyrir að Gunnar Gunnarsson hlyti verðlaunin. Fer ég yfir það mál í pistlinum.

- í þriðja lagi fjalla ég um Geir Hallgrímsson fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, en á föstudag voru 80 ár liðin frá fæðingu hans. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Í ítarlegum pistli á vef SUS á föstudag fór ég yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Þakka ég kærlega fyrir þau góðu viðbrögð sem ég fengið við pistlinum. Þótti mér áhugavert að rita pistilinn og ánægjulegt að fara yfir merka ævi og feril Geirs í stjórnmálum. Í gær ritar svo Björn Bjarnason vandaðan og góðan pistil um Geir.


Menn ársins 2005 hjá TIME


Menn ársins 2005 hjá TIME

Í dag tilkynnti bandaríska fréttatímaritið TIME um val sitt á mönnum ársins. Fyrir ári hlaut George W. Bush forseti Bandaríkjanna, þennan heiður. Það var í annað skiptið sem forsetinn hlaut nafnbótina. Hann var valinn maður ársins 2000, skömmu eftir að hafa unnið nauman sigur í umdeildum og sögulegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í umsögn blaðsins fyrir ári sagði að forsetinn hefði verið valinn vegna þess að honum tókst að ná endurkjöri með því að hljóta rúmlega helming greiddra atkvæða og að hafa náð að efla stöðu sína fyrir kosningarnar með afgerandi hætti og að ná til hins almenna landsmanna og með því styrkt leiðtogaímynd sína. Þá kom fram í mati Jim Kelly ritstjóra blaðsins, að Bush forseti, væri áhrifamikill en jafnframt umdeildur maður í heimalandi sínu og um allan heim og það væri t.d. ein af ástæðum þess að hann hefði verið valinn sem maður ársins, öðru sinni. Hann hefði verið sá maður á árinu sem öll umræða hefði snúist um. Sigur hans hefði svo verið toppurinn á velheppnuðu ári af hans hálfu. Var það í sjötta skipti sem einhver hlaut heiðurinn tvívegis.

Að þessu sinni hlutu heiðurinn þrír einstaklingar, sem er óvenjulega mikið. Nær er því að tala um fólk ársins að mati blaðsins. Heiðurinn hlutu írski rokksöngvarinn og mannréttindafrömuðurinn Bono og bandarísku hjónin og mannvinirnir Bill og Melinda Gates. Hljóta þau titilinn vegna starfa sinna að mannúðarmálum til fjölda ára, sem náð hefði hámarki á árinu 2005. Eins og allir vita er Bill Gates einn af ríkustu mönnum heim, en hann stofnaði fyrir tveim árum hugbúnaðarrisann Microsoft. Kemur fram í mati TIME að Gates-hjónin hljóti heiðurinn vegna þess að þau hafi farið mjög nýstárlegar leiðir í góðgerðamálum og mannúðarmálum. Ennfremur hafi þau haft áhrif á stjórnmál og knúið fram af krafti við að tala máli réttlætis. Hafi þau aukið von og hvatt aðra til að fylgja fordæmi þeirra. Bono er valinn vegna forystu sinnar á árinu við að koma upp Live8-tónleikunum í júlímánuði, þar sem tónlistarmenn hvöttu stjórnmálamenn í iðnríkjunum 8 til að hlúa að vanþróuðum löndum. Hafi hann leitt verkefnið með krafti og hlýju - sem hafi skilað miklum árangri.

Ennfremur velur TIME þá George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, fyrir ötult og heilsteypt mannúðarstarf sitt í kjölfar flóðbylgjunnar í Asíu í lok ársins 2004 og fellibylsins Katrínar í suðurríkjum Bandaríkjanna í sumar. Minnist blaðið sérstaklega á það að þeir hafi orðið gegnheilir vinir eftir samstarf sitt í þessum málum. Þeir voru eins og flestir vita andstæðingar í forsetakosningunum 1992, en Clinton felldi Bush eldri af forsetastóli. Unnu þeir saman af hugsjón og krafti til að efla mannúðarstarf í kjölfar þessar hörmunga. Er mjög ánægjulegt að lesa umfjöllun TIME og er ég svo sannarlega sammála vali blaðsins á fólki ársins. Öll verðskulda þau heiðurinn, enda má með sanni segja að þau hafi öll unnið með gegnheilum og virðingarverðum hætti að mannúðarmálum á árinu. Framlag þeirra skipti sköpum.

Saga dagsins
1897 Fyrsta sýningin hjá Leikfélagi Reykjavíkur - sýndir voru þá á sviði Iðnó tveir danskir leikþættir.
1958 Spámaðurinn, lífsspeki í ljóðum eftir Kahlil Gibran, kom út í íslenskri þýðingu eftir Gunnar Dal. Bókin hefur síðan verið gefin út 12 sinnum og hefur selst hérlendis í alls fjörutíu þúsund eintökum.
1982 Kvikmyndin Með allt á hreinu, var frumsýnd. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar. Myndin sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó. Framhaldsmynd: Í takt við tímann, var frumsýnd um jólin 2004.
1997 Frumvarp um að Skotland fái eigið þing og heimastjórn kynnt í Glasgow. Áður höfðu Skotar samþykkt heimastjórn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Donald Dewar varð fyrsti forsætisráðherra landsins.
1998 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, hið sextugasta síðan árið 1200, stóð það í rúma viku. Í upphafi náði mökkur frá eldstöðvunum upp í 10 kílómetra hæð og öskufalls varð vart norðanlands.

Snjallyrðið
Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.

Ungan dreng ljósin laða
litla snót geislum baðar
Ég man það svo lengi sem lifað ég fæ
lífið þá er hátíð var í bæ.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (1930) (Hátíð í bæ)


Engin fyrirsögn

Prófkjör í febrúar - ákvörðun um þátttöku


Sjálfstæðisflokkurinn

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri ákvað á fundi sínum að kvöldi 7. desember að efna til prófkjörs vegna vals á framboðslista flokksins við komandi sveitarstjórnarkosningar þann 27. maí 2006. Hefur verið ákveðið að halda prófkjörið þann 11. febrúar nk. Á fundinum var kjörnefnd undir forystu Önnu Þóru Baldursdóttur falið að ákveða nánari tilhögun prófkjörsins í samræmi við gildandi prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins. Þessi fundur var mjög góður - tillaga kjörnefndar var samþykkt einróma og engin önnur tillaga var borin upp til atkvæða. Var mikil samstaða um það að fara prófkjörsleiðina að þessu sinni en framboðslisti flokksins hér á Akureyri hefur verið valinn með uppstillingu í tveim seinustu kosningum, árin 1998 og 2002.

Þann 17. nóvember sl. tilkynnti ég um afsögn mína úr kjörnefnd og jafnframt gerði ég opinbert að ég hefði áhuga á að gefa kost á mér í komandi sveitarstjórnarkosningum, óháð því hvort að um prófkjör eða uppstillingu væri að ræða. Fimm dögum síðar samþykkti kjörnefnd tillögu sína um prófkjör og sendi þá ákvörðun til stjórnar fulltrúaráðs, sem boðaði til fyrrnefndar fundar fulltrúaráðsins á stjórnarfundi þann 28. nóvember. Fagna ég því mjög að ákvörðun um framboðsaðferð liggi fyrir og nú sé hægt að halda í þá vinnu sem mikilvægt er að halda í á þessum tímapunkti - tryggja sterkan og öflugan framboðslista flokksins í komandi kosningum.

Ég tilkynni hér með um framboð mitt í prófkjörinu 11. febrúar nk. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í þriðja sæti framboðslistans - í seinustu kosningum sat Þórarinn B. Jónsson bæjarfulltrúi, í því sæti. Hann hefur nú ákveðið að gefa kost á sér til setu í fimmta sæti framboðslistans. Ávarpaði hann fyrrnefndan fund og tilkynnti um fyrirætlanir sínar. Orðrómur hafði verið uppi um að hann myndi draga sig í hlé eins og Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar. Svo verður ekki - Þórarinn B. gefur kost á sér í prófkjörinu - sækist eftir fimmta sætinu og tekur því ákvörðun sem kemur sumum á óvart. Þórarinn B. hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 1994 og er þekktur fyrir góð verk í bæjarmálum. Með þessu losnar þriðja sætið og því ekki óeðlilegt að sækjast eftir því.

Framundan eru spennandi vikur og mánuðir - ég gef kost á mér til verka í forystusveit flokksins hér. Svo er það flokksmanna að vega og meta frambjóðendur. Ég tel rétt að gefa fólki kost á því að velja ungt fólk til forystu og tilkynni því um áhuga minn til að taka þátt í forystustörfum hér. Engum þarf að dyljast áhugi minn á stjórnmálaþátttöku og því hið eina rétta að gefa kost á sér og taka þátt af þeim krafti sem mikilvægur er í slíku starfi. Margir hafa væntanlega áhuga á þátttöku í prófkjörinu og hið eina rétta að allir sem slíkan áhuga hafi gefi kost á sér.

Saga dagsins
1843 Bókin A Christmas Carol eftir Charles Dickens kom út í fyrsta skipti - ein þekktasta jólasagan.
1982 Lee J. Strasberg lést, áttræður að aldri. Strasberg var fremsti leiklistarkennari Bandaríkjanna á 20. öld og kenndi mörgum af helstu leikurum landsins á öldinni, t.d. Marlon Brando, Robert DeNiro, Geraldine Page, Paul Newman, Al Pacino, Marilyn Monroe, Jane Fonda, James Dean, Dustin Hoffman og Jack Nicholson. Aðeins sjö sinnum lék hann sjálfur hlutverk í kvikmynd. Þeirra þekktast er án vafa hlutverk mafíuhöfðingjans aldna í New York, Hyman Roth, í myndinni The Godfather Part II árið 1974.
1989 Fyrsti þátturinn í teiknimyndaflokknum Simpson-fjölskyldan var sýndur í bandarísku sjónvarpi. Þátturinn gengur enn, nú 15 árum síðar, og er orðinn einn lífseigasti framhaldsþáttur Bandaríkjanna.
1998 Umdeilt frumvarp Ingibjargar Pálmadóttur um gagnagrunn á heilbrigðissviði var samþykkt á Alþingi með 37 atkvæðum gegn 20. Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnina um gerræði í málinu.
2003 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á þriðja og seinasta hluta Hringadróttinssögu eftir J. R. R. Tolkien, frumsýnd í London - hlaut 11 óskarsverðlaun 2004.

Snjallyrðið
Ég man þau jólin, mild og góð
er mjallhvít jörð í ljóma stóð.
Stöfum stjörnum bláum,
frá himni háum
í fjarska kirkjuklukknahljóm.
Ég man þau jól, hinn milda frið
á mínum jólakortum bið
að ævinlega eignist þið
heiða daga, helgan jólafrið.
Stefán Jónsson alþingismaður og skáld (1923-1990) (Hvít jól)


Engin fyrirsögn

Geir Hallgrímsson (1925-1990)

Í dag eru 80 ár liðin frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins og SUS. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Honum auðnaðist þó að leiða flokkinn út úr þeirri miklu kreppu og skilaði honum heilum af sér við lok formannsferils síns í flokknum og er hann vék af hinu pólitíska sviði. Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fer ég yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma. Ég hef lesið mér mikið til um feril hans og verk hans á vettvangi stjórnmálanna. Skrifaði ég um hann ritgerð eitt sinn, sem þessi grein er að mestu byggð á. Geir hóf stjórnmálaþátttöku ungur og helgaði Sjálfstæðisflokknum krafta sína alla tíð á þeim vettvangi. Stjórnmálaferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins.

Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Það merkilegasta við arfleifð Geirs að mínu mati er það að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika - var heill í verkum sínum. Geir var að mati samherja og andstæðinga í stjórnmálum heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin og stöðu stjórnmálalega séð. Hann var maður hugsjóna og drenglyndis í stjórnmálastarfi. Óháð átökum kom hann fram með drengilegum hætti - talaði opinberlega í ræðu og riti ekki illa um andstæðinga sína, innan flokks og utan. Til dæmis er víða talað um að þrátt fyrir átök rifust hann og Gunnar Thoroddsen aldrei opinberlega. Þrátt fyrir valdabaráttu var tekist á með hætti heiðursmanna. Hann var öflugur á vettvangi stjórnmála - jafnt í meðbyr sem mótbyr.

Það er með þeim hætti sem ég tel að hans verði minnst, bæði af samtíðarmönnum og eins þeim sem síðar lesa stjórnmálasögu 20. aldarinnar og kynna sér persónu og verk Geirs Hallgrímssonar á löngum ferli. Hvet alla lesendur, sem eru áhugamenn um stjórnmál, til að lesa pistil minn.

Heath Ledger og Jake Gyllenhaal í Brokeback Mountain

Í vikunni var tilkynnt um tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, sem verða afhent 16. janúar 2006, í 63. skiptið. Golden Globe eru kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun sem erlendir blaðamenn í Hollywood veita ár hvert. Þykir kvikmyndahluti verðlaunanna veita almennt mjög góðar vísbendingar um Óskarinn, sem er afhentur í marsbyrjun. Oftast nær fara þær mjög nærri tilnefningum til Óskarsverðlauna. Kvikmyndin Brokeback Mountain, í leikstjórn Ang Lee, hlaut flestar tilnefningar, sjö alls, tvær fyrir leik, fyrir leikstjórn, auk þess sem hún var tilnefnd sem besta dramatíska kvikmyndin. Kvikmyndirnar Good Night, and Good Luck, Match Point og The Producers hlutu allar fjórar tilnefningar.

Besta dramatíska myndin
Brokeback Mountain
Match Point
Good Night, and Good Luck
The Constant Gardener
A History of Violence

Besta gaman- og söngvamyndin
The Producers
Mrs. Henderson Presents
Pride & Prejudice
The Squid and the Whale
Walk the Line

Tilnefndir sem leikari í dramatískri mynd
Russell Crowe - Cinderella Man
Philip Seymour Hoffman - Capote
Terrence Howard - Hustle & Flow
Heath Ledger - Brokeback Mountain
David Strathairn - Good Night, and Good Luck

Tilnefndar sem leikkona í dramatískri mynd
Maria Bello - A History of Violence
Felicity Hoffman - Transamerica
Gwyneth Paltrow - Proof
Charlize Theron - North County
Ziyi Zhang - Memoirs of a Geisha

Tilnefndir sem leikari í gaman- og söngvamynd
Pierce Brosnan - The Matador
Jeff Daniels - The Squid and the Whale
Johnny Depp - Charlie and the Chocolate Factory
Nathan Lane - The Producers
Cillian Murphy - Breakfast on Pluto
Joaquin Phoenix - Walk the Line

Tilnefndar sem leikkona í gaman- og söngvamynd
Judi Dench - Mrs. Henderson Presents
Keira Knightley - Pride & Prejudice
Laura Linney - The Squid and the Whale
Sarah Jessica Parker - The Family Stone
Reese Witherspoon - Walk the Line


Fjöldi athyglisverðra tilnefninga er þetta árið og stefnir allt í spennandi verðlaunaafhendingu í janúar. Bendi lesendum á að kynna sér tilnefningar til verðlaunanna, en eins og fyrr segir er bæði um kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun að ræða. Bendir flest til þess að verðlaunaafhendingin verði jöfn og áhugaverð. Mikla athygli mína, sem og flestallra kvikmyndaáhugamanna, vekur að kvikmyndir á borð við King Kong, Munich og Bewitched hljóta ekki tilnefningu sem besta mynd ársins í sínum flokkum. Spurning hvort að þær verði heppnari er kemur að Óskarnum. Svo er merkilegt að þær myndir sem hljóta tilnefningar eru flestallar gerðar af minni kvikmyndaverunum. Svo virðist sem tími stórmyndanna frá stóru verunum séu á enda - í bili að minnsta kosti. Merkileg breyting - minnir mann á það sem gerðist fyrir ca. tíu árum er gömlu veldin liðu undir lok og önnur komu til sögunnar, t.d. Dreamworks og Miramax. Er erfitt að spá um sigurvegara allavega að þessu sinni.

Sá eini sem er öruggur um að fara heim með styttu í janúar er breski leikarinn Sir Anthony Hopkins. Hann mun hljóta Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda við þetta tilefni. Verður fróðlegt að fylgjast með afhendingu Gullhnattarins eftir mánuð, en eins og venjulega mun ég fylgjast, sem allmikill kvikmyndaáhugamaður, vel með þessu.

Richard Pryor

Bandaríski gamanleikarinn Richard Pryor lést um síðustu helgi, 65 ára að aldri, eftir erfið veikindi. Hann lést úr hjartaáfalli en hann hafði barist við MS-hrörnunarsjúkdóminn í tvo áratugi. Það er óhætt að segja að Richard Pryor hafi verið einn besti gamanleikari Bandaríkjanna á 20. öld. Sennilega varð hann fyrsti blökkuleikarinn sem sló í gegn fyrir gamanleik og hlaut sess sem slíkur. Hann gerði óhikað grín af litarafti sínu og upprunanum. Sló hann fyrst í gegn sem sviðsgrínisti en hóf leik í kvikmyndum á sjöunda áratugnum. Frægðarsól hans reis hæst á áttunda áratugnum en þá lék hann í fjölda óborganlegra kvikmynda. Var Pryor lengi í uppáhaldi hjá mér og hann er ógleymanlegur fyrir leik sinn, t.d. í Silver Streak, Toy, Lady Sings the Blues, California Suite og Brewster's Millions. Ég hressist alltaf þegar að ég sé seinustu stórmyndina hans, See No Evil, Hear No Evil. Þar fór hann á kostum með félaga sínum, Gene Wilder. Blessuð sé minning Richard Pryor - hann kunni þá snilld að kæta og létta tilveruna. Hann var einstakur gamanleikari.

Sagan af Jesúsi

Þeir eru algjörir snillingar á Baggalúti - segi ég og skrifa. Kíki á Baggalút á hverjum degi. Lögin hafa létt mörgum lundina. Á hverju ári bíðum við svo eftir sykursætu aðventulagi vefsins og vel rokkuðu jólalaginu. Í ár er lagið dísætara en allt sem sætt er. Aðventulagið heitir þetta árið, Sagan af Jesúsi. Alveg stórfenglegt lag - sem allir eru að tala um þessa dagana og flestallir hafa væntanlega í spilaranum sínum í tölvunni. Eins og Baggalútsmenn segja á vefnum er um að ræða lítinn helgileik byggðan á raunverulegum atburðum sem gerðust fyrir mörgum árum í útlöndum. Alveg frábærir - allir að hlusta á lagið. Þeir fáu sem eiga eftir að sækja það endilega drífið í því. Eflaust þekkja allir lagið, en það er Keeping the Dream Alive með Freiheit. Eldgamalt og gott lag sem Baggalútsmenn gera að sínu með glæsilegum hætti. Svo bendi ég á fyrri lög þeirra félaga. Ekki má svo gleyma jólalaginu í ár, Föndurstund. Rokkað og gott lag.

Pabbi

Það er bara rúm vika til jóla. Ég er búinn að skreyta allt og hef skrifað á kortin og keypt alla pakka - nema einn. Klára þetta allt um helgina. Þannig að það verður bara róleg og góð lokavika sýnist mér. Alveg merkilegt að fara í búðirnar þessa dagana og sjá allt stressið og lætin í sumum. Annars finnst mér rólegheitin reyndar meiri nú en sum fyrri jól hér - en víða er mikil örtröð í búðum. Egill Helga afgreiddi þetta með penum og flottum hætti í góðum pistli sem hann flutti á NFS í vikunni. Vonandi að flest fólk hafi lært að forgangsraða almennilega. Pabbi kom í kaffispjall um daginn og tók ég þessa mynd þá. Þarna er hann greinilega að segja frá einhverju skemmtilegu. :)

Saga dagsins
1879 Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára að aldri. Hún lést aðeins 9 dögum á eftir Jóni. Ingibjörg og Jón voru jarðsungin í Reykjavík 4. maí 1880.
1916 Framsóknarflokkurinn var stofnaður - flokkurinn var frá upphafi tengdur búnaðarsamtökunum. Fyrsti formaður flokksins var Ólafur Briem, núv. formaður er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.
1942 Ríkisstjórn Björns Þórðarsonar, utanþingsstjórnin, tók við völdum - hún sat í tæplega tvö ár.
1984 Mikhail Gorbachev síðar leiðtogi Sovétríkjanna, kemur til London og á viðræður við Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands - viðræðurnar þóttu takast vel og bötnuðu samskipti landanna.
1989 Uppreisn stjórnarandstöðunnar í Rúmeníu hefst formlega - hún leiddi til falls stjórnar landsins.

Snjallyrðið
Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,
í dvala sig strætin þagga.
Í bæn hlýtur svölun brotleg sál
frá brunni himneskra dagga.
Öll jörðin er sveipuð jólasnjó
og jatan er ungbarns vagga.

Og stjarna skín gegnum skýjahjúp
með skærum lýsandi bjarma.
Og inn í fjárhúsið birtan berst
og barnið réttir út arma,
en móðirin, sælasti svanni heims
hún sefur með bros um hvarma.

Og hjarðmaður birtist, um húsið allt
ber höfga reykelsisangan.
Í huga flytur hann himni þökk
og hjalar við reifarstrangann.
Svo gerir hann krossmark, krýpur fram
og kyssir barnið á vangann.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Hin fyrstu jól)


Engin fyrirsögn

Frelsisdeildin


Frelsisstyttan

Frelsisdeild hefur aftur hafið göngu sína á vef SUS, nú undir stjórn mín og Kára Allanssonar. Í tilefni þess settumst við félagar og góðvinir niður saman og rituðum grein saman á vef SUS um upphaf deildarinnar. Birti ég hérmeð þann pistil hér á bloggvefnum:


Í gær hófst Frelsisdeildin að nýju á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna. Deildin hafði áður verið hér á vefnum og tók ný ritstjórn strax í upphafi þá ákvörðun að henni skyldi haldið áfram með svipuðum hætti og verið hafði. Tekin var sú ákvörðun að við, Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri, og Kári Allansson, myndum taka við stjórn hennar. Fyrsta umferð hefur nú farið fram þar sem tekin voru fyrir málefni þingsins frá upphafi þinghalds til miðs nóvembermánaðar. Birgir Ármannsson leiðir deildina eftir fyrstu umferðina. Fyrir jól verður önnur umferð þar sem málefni þingsins til loka þinghalds fyrir jólin verður fært inn.

Að mati okkar sem sitjum í ritstjórn vefs SUS er mikilvægt að hafa Frelsisdeildina. Með því förum við yfir málefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, leggjum mat okkar á málefni þingsins og dæmum hvort og þá hvernig þingmenn séu að standa sig. Það er nauðsynlegt að við leggjum okkar mat á það hvort þingmenn séu að vinna að framgangi frelsismála eða vinni að því að halda á lofti baráttumálum Sambands ungra sjálfstæðismanna. Frelsisdeildin er án nokkurs vafa öflugasta merkið af okkar hálfu til að færa þingmönnum þá kveðju að við fylgjumst með verkum þeirra og dæmum þau í þessari góðu deild.

Deildinni hefur tekist að vekja athygli og þingmenn hafa unnið af krafti við að vinna að þeim málum sem mestu skipti af enn meiri krafti eftir tilkomu hennar. Það er við hæfi að hrósa þeim þingmönnum sem vel gera og verðlauna þá með þeim hætti sem gert hefur verið. Það er líka við hæfi að ungliðar flokksins fylgist með þeim verkum sem þingmenn flokksins gera á vettvangi sjálfs þingsins. Það er altént hægt að fullyrða að hér á vef SUS sé öflug umræða um málefni þingsins. Utan Frelsisdeildarinnar er hér Þingvörðurinn þar sem farið er yfir þingvikur og störf og málefni þingsins með mjög góðum hætti. Þar er bæði farið yfir það sem vel er gert og almennt ekki vel gert - hæfileg blanda það.

Á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna á að finna góða umfjöllun um þingmál. Í pistlum er fjallað ennfremur um hitamál samtímans sem oft eru til umræðu á vettvangi þingsins. Með þessu er hægt að finna góða umfjöllun um hitamálin, bæði hér heima og erlendis. Hér í vetur hafa verið öflug greinaskrif og því viðeigandi að hafa þessa umfjöllun með, sem er fólgin í Þingverðinum og í Frelsisdeildinni. Það er allavega ákvörðun ritstjórnar að þessi deild eigi að starfa áfram og grunngildi hennar séu í fullu gildi áfram. Það er enda eðlilegt að SUS fylgist með þingstörfum og fjalli um þau af einbeittum krafti og af sönnum áhuga.

Það er svo vonandi að þingmenn flokksins fylgist með stöðunni í deildinni eftir því sem fram líður næstu vikurnar og finni sig knúna til að leggja fram fleiri þingmál og berjist af krafti fyrir skoðunum sínum á vettvangi þingsins. Margir eru sammála um það að þinghaldið hafi verið dauft nú fram að jólum. Það verður að taka undir það. Vissulega er einn þáttur þess hversu dauf stjórnarandstaðan hefur verið. Þegar við fórum yfir þingmál fyrstu vikna þinghaldsins fundum við, okkur til gleði og ánægju, mörg mál sem eru til frelsisáttar og til samræmis við stefnumál okkar í SUS. Það er ánægjuefni. En betur má ef duga skal og vonandi munu þingmenn fylgjast með deildinni og koma með komment til okkar næstu vikurnar.

Frelsisdeildin er allavega hafin að nýju. Allar góðar ábendingar og athugasemdir um deildina og störf þingsins, svo og auðvitað skoðanir annarra á þingmálum eru vel þegnar. Allir áhugamenn um málin eru hvattir til að hafa samband vilji þeir fara yfir þingmálin og stöðu deildarinnar. Að lokum vonum við auðvitað að með deildinni verði þingmenn betur meðvitaðir um það að við munum fylgjast með því hverjir vinna af krafti við að leggja fram öflug og góð þingmál sem vinna að því að tryggja að stefnumál SUS eigi sér málsvara inni í sölum Alþingis.

Stefán Friðrik Stefánsson - Kári Allansson


Saga dagsins
1939 Kvikmyndin Gone with the Wind frumsýnd í Atlanta í Georgíu-fylki. Hún varð ein af vinsælustu kvikmyndum 20. aldarinnar og hlaut 10 óskarsverðlaun árið 1940, t.d. sem besta kvikmynd ársins.
1953 Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega í notkun, þar voru í upphafi rúm fyrir 120 sjúklinga - fyrsti yfirlæknir var Guðmundur Karl Pétursson en nú er Þorvaldur Ingvarsson yfirlæknir.
1966 Walt Disney deyr, 65 ára að aldri, úr krabbameini. Disney náði heimsfrægð er hann skapaði margar af helstu teiknimyndapersónum sögunnar og hóf framleiðslu teiknimynda fyrir börn á fjórða áratugnum. Hlaut 26 óskarsverðlaun á ferli sínum og var tilnefndur 64 sinnum, oftar en allir aðrir.
1993 John Major forsætisráðherra Bretlands, og Albert Reynolds forsætisráðherra Írlands, kynntu á blaðamannafundi í London að samkomulag hefði náðst um að hefja friðarviðræður á Norður Írlandi.
2000 Samkeppnisráð tilkynnti í skýrslu að fyrirhugaður samruni Landsbankans og Búnaðarbankans myndi leiða til of mikillar samþjöppunar og markaðsráðandi stöðu. Hætt var við samruna bankanna.

Snjallyrðið
Jólin, jólin alls staðar
með jólagleði og gjafirnar.
Börnin stóreyg standa hjá
og stara jólaljósin á.

Jólaklukka boðskap ber
um bjarta framtíð handa þér
og brátt á himni hækkar sól,
við höldum heilög jól.
Jóhanna G. Erlingsson kennari (1935) (Jólin allsstaðar)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um væntanlegar breytingar á Ríkisútvarpinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur lagt fram á þingi nýtt frumvarp til breytinga á útvarpslögum sem gerir ráð fyrir því að RÚV verði gert að hlutafélagi en ekki sameignarfélagi eins og stefndi áður í, en ESA gerði út af við með penum en glæsilegum hætti. Mikilvægasta skrefið á þessari vegferð er hiklaust það að hið gamalkunna miðstýringarskrímsli stofnunarinnar sem gengur almennt undir nafninu útvarpsráð mun brátt heyra sögunni til. Rekstrarstjórn kemur til sögunnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Ríkisútvarpið verður loksins eins og hvert annað fyrirtæki. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Nú verða menn að fara að reka RÚV sem hvert annað fyrirtæki en ekki stofnun, sem er kyrfilega njörvuð á jötuna.

- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um meinta endurkomu Jónanna á hið pólitíska svið. Talað hefur verið undir rós víða um það að undanförnu að hinir gömlu kratahöfðingjar Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, sem hafa sest í helgan stein, komi aftur í innsta hring stjórnmála og fari í framboð fyrir Samfylkinguna árið 2007. Tel ég þetta mjög til marks um tilvistarkreppu hægrikrata í flokknum - sem von er enda njóta þeir mjög fárra sæludaga undir pólitískri forystu Ingibjargar Sólrúnar. Er reyndar skondið að fylgjast með pólitískri eymd innan Samfylkingarinnar, sem sést einna best með þessu hjali um endurkomu þeirra félaga - þeir eigi að koma á hið pólitíska svið af vettvangi eftirlaunanna og verði í fylkingarbrjósti flokksins við alþingiskosningarnar 2007. Þeir eigi að verða fylgihlutir hinnar klaufalegu Ingibjargar Sólrúnar sem virðist á góðri leið með að koma flokknum niður í lægstu mörk.

- í þriðja lagi fjalla ég um bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins, sem fjallar um stjórnarmyndanir í forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns. Mæli ég mjög með bókinni - enda eru þar athyglisverðar lýsingar úr dagbókum og minnisblöðum Kristjáns sem varpa skemmtilegu ljósi á stjórnmálin, sérstaklega á árunum 1978-1980 þegar að ókyrrð var á hinu pólitíska sviði og mikið stjórnleysi í raun.


Bókmenntaverðlaun - jólabækurnar

Bækur

Tilkynnt var í Kastljósinu þann 1. desember sl. hvaða 10 bækur væru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þau verða afhent á Bessastöðum í janúarmánuði og eru veitt sem fyrr í tveim flokkum, í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis annarsvegar og fagurbókmennta hinsvegar. Eftirtaldar bækur hlutu tilnefningu:

Í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis
Ég elska þig stormur - eftir Guðjón Friðriksson
Fuglar í náttúru Íslands - eftir Guðmund Pál Ólafsson
Íslensk tunga - eftir Guðrúnu Kvaran, Höskuld Þráinsson og Kristján Árnason
Jarðhitabók - eftir Guðmund Pálmason
Kjarval - verk eftir fjölda höfunda

Í flokki fagurbókmennta (skáldsagna)
Hrafninn - eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Rokland - eftir Hallgrím Helgason
Sólskinshestur - eftir Steinunni Sigurðardóttur
Sumarljós og svo kemur nóttin - eftir Jón Kalman Stefánsson
Tími nornarinnar - eftir Árna Þórarinsson


Allt eru þetta áhugaverðar bækur og margar þeirra eru það spennandi að þær eru vænlegar til að lesa um jólin og að fá í jólapakkann. Fyrirfram átti maður von á að sjá sumar aðrar tilnefndar en aðrar koma ekki á óvart inn í þennan hóp. Það er alveg ljóst að keppnin er opin og margir eiga möguleika á þessu. Það verður allavega fróðlegt að sjá hverjir vinna verðlaunin í næsta mánuði. Það er jafnan mikið að gera hjá mér í desember, miklar annir og nóg um að vera, og það er því tilhlökkunarefni að geta um jólin sest niður og lesið góðar bækur og haft það gott. Margar bækur koma til greina sem lesefni yfir jólin.

Bækur sem ég hef áhuga á (nokkrar nefndar)
Laxness - eftir Hannes Hólmstein Gissurarson
Vetrarborgir - eftir Arnald Indriðason
Ég elska þig stormur - eftir Guðjón Friðriksson
Höfuðlausn - eftir Ólaf Gunnarsson
Völundarhús valdsins - eftir Guðna Th. Jóhannesson
Thorsararnir - eftir Guðmund Magnússon
Sólskinshestur - eftir Steinunni Sigurðardóttur
Flugdrekahlauparinn - eftir Khaled Hosseini
Eldhuginn - eftir Ragnar Arnalds
Pétur poppari - eftir Kristján Hreinsson
Játningar Láru miðils - eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson
Sumarljós og svo kemur nóttin - eftir Jón Kalman Stefánsson
Tími nornarinnar - eftir Árna Þórarinsson
Veronika ákveður að deyja - eftir Paulo Coelho
Zorro - eftir Isabel Allende
Kvöldganga með fuglum - eftir Matthías Johannessen
Í fylgd með fullorðnum - eftir Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur
Gæfuspor (gildin í lífinu) - eftir Gunnar Hersvein
Við enda hringsins - eftir Tom Egeland


Saga dagsins
1941 Þýskaland og Ítalía lýsa yfir stríði á hendur Bandaríkjunum - samstundis lýstu bandarísk stjórnvöld yfir stríði á hendur löndunum. Þátttaka Bandaríkjanna í seinna stríðinu var því hafin.
1975 Breski dráttarbáturinn Lloydsman sigldi tvívegis á varðskipið Þór í mynni Seyðisfjarðar, innan við tvær sjómílur frá landi. Þetta voru alvarlegustu átökin í landhelgisdeilunni. Kærðu Íslendingar Breta fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og stjórnmálasambandi landanna var slitið í ársbyrjun 1976.
1981 Hnefaleikakappinn Muhammad Ali keppti í síðasta skipti - veiktist af Parkinson sjúkdómi 1988.
1993 Happdrættisvélar Happdrættis Háskóla Íslands, sem kallaðar voru Gullnáman, voru gangsettar.
1994 Boris Yeltsin forseti Rússlands, fyrirskipar rússneska hernum að ráðast með valdi inn í Téténíu.

Snjallyrðið
You've got to know your limitations. I don't know what your limitations are. I found out what mine were when I was twelve. I found out that there weren't too many limitations, if I did it my way.
Johnny Cash söngvari (1932-2003)


Stjórnmálaþurs

Unnur Birna Vilhjálmsdóttir
krýnd ungfrú heimur


Unnur Birna Vilhjálmsdóttir ungfrú heimur 2005

Unnur Birna Vilhjálmsdóttir fegurðardrottning Íslands, var krýnd ungfrú heimur í Sanya í Kína í dag. Í öðru sæti í keppninni varð ungfrú Mexíkó og ungfrú Púertó Ríkó varð í hinu þriðja. Unnur Birna er dóttir Unnar Steinsson sem kjörin var fegurðardrottning Íslands árið 1983. Unnur Birna Vilhjálmsdóttir er þriðja íslenska stúlkan sem hlýtur titilinn ungfrú heimur, frá því að keppnin fékk á sig það yfirbragð sem við höfum séð seinustu áratugina. Hólmfríður Karlsdóttir var krýnd ungfrú heimur fyrir tveim áratugum, í nóvember 1985. Þrem árum síðar, árið 1988, var Linda Pétursdóttir krýnd ungfrú heimur ennfremur. Guðrún Bjarnadóttir var krýnd ungfrú alheimur á Long Beach í Flórída árið 1963.

Þetta er stórglæsilegur árangur og ég óska Unni Birnu og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.



Tók aftur þátt í tröllaprófinu - fékk þessa líka flottu útkomu þessu sinni. Þeir sem þekkja mig sjá sennilega mig í þessari lýsingu hehe. :)



Stjórnmálaþurs


Þú ert vanaföst, tilfinningarík félagsvera.

Í margmenni á stjórnmálaþursinn oftar en ekki orðið. Ef einhver hyggst grípa fram í fyrir honum talar hann bara hærra - og það virkar. Hann hefur sterkar skoðanir á flestu, hvort sem um er að ræða fjárlagahalla ríkisins eða það hvort SS eða Goða pylsur eru betri, og gerir hvað hann getur til að þröngva þeim upp á aðra. Stjórnmálaþursinn þarf að passa sig þegar hann er í nærveru þeirra sem eru ósammála honum því blóðþrýstingurinn á það til að rjúka upp.

Stjórnmálaþursinn vantar ekki nýja skó fyrr en það er komið gat á þá gömlu... sem skósmiðurinn segist ekki geta gert við. Stjórnmálaþursinn veit hvar Guðsteinn er með verslun.

Hvaða tröll ert þú?



Saga dagsins
1907 Bifreið var ekið í fyrsta skipti á Norðurlandi - henni var ekið frá Akureyri að Grund í Eyjafirði.
1924 Rauði kross Íslands, stofnaður í Reykjavík - fyrsti formaðurinn var Sveinn Björnsson forseti.
1982 Íslendingar skrifuðu undir hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, ásamt fulltrúum 119 annarra þjóða - setning slíks sáttmála hafði verið baráttumál Íslendinga í rúm 35 ár. Hann öðlaðist gildi 1994.
1999 Franjo Tudjman forseti Króatíu, lést úr krabbameini, 77 ára að aldri. Tudjman var fyrsti forseti landsins og sat allt til dánardægurs, þrátt fyrir að hann hafi verið alvarlega veikur seinustu mánuðina.
2005 Unnur Birna Vilhjálmsdóttir krýnd ungfrú heimur - þriðja íslenska stúlkan til að hljóta titilinn.

Snjallyrðið
To enjoy freedom we have to control ourselves.
Virginia Woolf rithöfundur (1882-1941)


Engin fyrirsögn

John Lennon
1940-1980


John Lennon (1940-1980)

Í dag eru 25 ár liðin frá því að söngvarinn John Lennon var myrtur fyrir utan heimili sitt í New York. Lennon var þá fertugur að aldri - fæddist 9. október 1940. Heimsbyggðin var slegin við sviplegt lát Lennons - flestir sem upplifðu þennan atburð muna hvar þeir voru staddir er þeir heyrðu andlátsfregnina. Lennon var sá maður sem setti að mínu mati eftirminnilegast mark á tónlistarsögu 20. aldarinnar. Hann og hljómsveit hans, The Beatles, slógu í gegn og unnu sér frægð fyrir ógleymanlega tónlist í upphafi sjöunda áratugarins. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar - ekkert varð samt eftir að þeir komu til sögunnar í tónlistinni. Bítlarnir liðu undir lok árið 1970. Seinustu ár ævi sinnar gaf Lennon út tónlist einn síns liðs á sólóferli eða með eiginkonu sinni, Yoko Ono.

Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar hans, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Lennon lifði ekki að komast á elliár - hann varð ekki 64 ára eins og sagði í frægu Bítlalagi. Hann var myrtur eins og fyrr sagði, af geðsjúkum aðdáanda á þessum degi fyrir aldarfjórðungi. Minningu hans er haldið hátt á lofti um allan heim - þó langt sé orðið um liðið frá dauða hans. Í gærkvöldi hlustaði ég enn einu sinni á síðasta meistaraverk hans, Double Fantasy. Þegar hlustað er á þá plötu verður manni ósjálfrátt hugsað til þessa merka tónlistarmanns og hversu margt hann hefði getað áorkað ef hann hefði lifað lengur. Eitt er þó ljóst - ævistarf hans verður lengi í minnum haft.

John Lennon (1940-1980)

Meistari Lennon afrekaði á löngum ferli að semja ógleymanleg lög og orti marga svipmikla texta. Það er því best að ég sé fáorður um snilli hans, en birti þess í stað fallega texta hans. Sá fallegasti og táknrænasti er hiklaust Imagine, af hinni samnefndu plötu - sem var sú allra besta á sólóferli Lennons. Lagið við ljóðið er látlaust - en algjörlega ógleymanlegt! Textinn er snilldarverk.

Imagine there's no heaven,
It's easy if you try,
No hell below us,
Above us only sky,
Imagine all the people
living for today...

Imagine there's no countries,
It isn't hard to do,
Nothing to kill or die for,
No religion too,
Imagine all the people
living life in peace...

Imagine no possesions,
I wonder if you can,
No need for greed or hunger,
A brotherhood of man,
Imagine all the people
Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer,
but Im not the only one,
I hope some day you'll join us,
And the world will live as one.


John Lennon (1940-1980)

Árið 2004 tóku tölvugrafíklistamenn upp á því að reyna að bregða upp mynd af því hvernig meistari Lennon myndi líta út ef hann væri á lífi. Á því ári hefði hann orðið 64 ára. Eins og fyrr segir var eitt flottasta lag Bítlanna: When I'm 64. Hér að ofan má sjá þessa táknrænu mynd af Lennon.

Annað ógleymanlegt lag Lennons á sólóferlinum er jólalagið Happy Xmas (War Is Over) frá árinu 1972. Órjúfanlegur partur jólanna að mínu mati - stórfenglegt lag. Með táknrænustu og hugljúfustu verkum Lennons.

So this is Christmas
And what have you done
Another year over
And a new one just begun
And so this is Christmas
I hope you have fun
The near and the dear ones
The old and the young

A very merry Christmas
And a happy New Year
Let's hope it's a good one
Without any fear

And so this is Christmas
For weak and for strong
For rich and the poor ones
The world is so wrong
And so Happy Christmas
For black and for white
For yellow and red ones
Let's stop all the fight

A very merry Christmas
And a happy New Year
Let's hope it's a good one
Without any fear

War is over if you want it
War is over now.


The Beatles

Annar texti Lennons sem snertir taug í hjartanu á mér er textinn að einu fallegasta bítlalaginu In My Life - fallegra verður það varla að mínu mati.

There are places I'll remember
all my life though some have changed
some forever not for better
some have gone and some remain.
All these places have their moments
with lovers and friends I still can recall,
some are dead and some are living
In my life I've loved them all.

But of all these friends and lovers
There is no one compares with you
And these memories lose their meaning
When I think of love as something new
Though I know I'll never lose affection
For people and things that went before
I know I'll often stop and think about them
In my life I love you more

Though I know I'll never lose affection
For people and things that went before
I know I'll often stop and think about them
In my life I love you more


John Lennon (1940-1980)

John Lennon verður ávallt minnst. Dauði hans fyrir 25 árum hryggði heimsbyggðina - en verk hans stóðu eftir. Nú þegar aldarfjórðungur er liðinn frá því að lífi hans lauk með kuldalegum hætti minnumst við þessa merka tónlistarmanns sem setti órjúfanlegan svip á tónlistarsöguna. Hann er horfinn - en tónverk hans og framlag til tónlistar munu aldrei hverfa. Þau eru sígild.

Saga dagsins
1971 Samkomulag var formlega undirritað milli Íslands og Kína um stjórnmálasamband ríkjanna.
1978 Golda Meir fv. forsætisráðherra Ísraels, deyr, áttræð að aldri - var forsætisráðherra 1969-1974.
1980 Söngvarinn John Lennon myrtur fyrir utan heimili sitt í New York. Lennon var fertugur er hann var myrtur. Hann var einn stofnenda hljómsveitarinnar The Beatles árið 1962 og varð heimsþekktur með henni og var eitt virtasta tónskáld tónlistarsögu 20. aldarinnar. Öfundsjúkur aðdáandi Lennons, Mark David Chapman, myrti söngvarann - Almenningur varð undrandi á morðinu og syrgði Lennon.
1987 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, undirrita samkomulag um eyðingu kjarnavopna. Samkomulagið markaði mikil þáttaskil og var mjög sögulegt.
1991 Leiðtogar Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu undirrita samkomulag sem gerði ráð fyrir því að Sovétríkin yrðu lögð niður og löndin yrðu sjálfstæð - Sovétríkin voru lögð niður frá 1. janúar 1992.

Snjallyrðið
Love is a promise, love is a souvenir, once given never forgotten, never let it disappear.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980)


Engin fyrirsögn

David Cameron kjörinn
leiðtogi breska Íhaldsflokksins


David Cameron

7 mánuðum eftir að Michael Howard tilkynnti að hann myndi láta af leiðtogaembætti í breska Íhaldsflokknum hefur eftirmaður hans loks verið kjörinn. Í gær var tilkynnt um úrslit í póstkosningu almennra flokksmanna á milli þeirra tveggja, David Cameron og David Davis, sem flest atkvæði hlutu í útsláttarkosningu innan þingflokksins. Hlaut David Cameron kjör í leiðtogaembættið og hefur því tekið formlega við stjórn flokksins. Cameron hlaut afgerandi kosningu. Hann hlaut 2/3 greiddra atkvæða. Cameron hlaut 134.446 atkvæði en keppinautur hans hlaut 64.398 atkvæði. Umboð Cameron er því afgerandi og ljóst að hann hefur gott veganesti er hann tekur nú við forystunni í flokknum og leiðir stjórnarandstöðuna í komandi verkefnum. Stuðningsmenn flokksins vonast að sjálfsögðu eftir því að yfirburðasigur hans leiði til þess að flokkurinn eflist.

David Cameron er tæplega fertugur, fæddur 9. október 1966. Hann er fyrsti leiðtogi flokksins í fjóra áratugi sem er af hefðarættum og nam t.d. við Eton og Oxford. Síðasti leiðtogi flokksins sem telst af hefðarættum var Sir Alec Douglas-Home, en hann leiddi flokkinn 1963-1965, eða þar til að Edward Heathvar kjörinn í hans stað. Hann gegndi forsætisráðherraembætti fyrra ár sitt á leiðtogastóli, en flokkurinn tapaði í þingkosningunum 1964. Flokkurinn hafði þá verið samfellt við völd í þrettán ár. Cameron var lengi framan af talinn eiga litla möguleika í leiðtogakjörinu. Hann hafði fyrst hlotið kjör á breska þingið í kosningunum 2001 fyrir Whitey-kjördæmi. Lengi vel þótti flest benda til þess að David Davis, sem setið hefur á þingi frá árinu 1987, myndi sigra í kjörinu. Eftir fremur lélega ræðu á flokksþinginu í Blackpool í október missti hann öflugt forskot sitt til Cameron.

Cameron talaði þar blaðlaust til þingfulltrúa – hann flutti þar í senn bæði kraftmikla og hrífandi ræðu. Eftir það hafði hann yfirburði í leiðtogaslagnum. Stuðningur við Davis minnkaði mjög í kjölfar flokksþingsins og hann missti flugið jafnt og þétt á skömmum tíma. Er útsláttarkosningunni lauk í þingflokknum blasti við að baráttan milli þeirra nafna væri ójöfn og sýndu allar skoðanakannanir meðan póstkosningin stóð að Cameron myndi vinna afgerandi sigur. Fór það enda svo. Er fyrrnefndu ferli innan þingflokksins lauk í október og þeir stóðu einir eftir bjuggust sumir við að Davis myndi veita Cameron embættið án frekari baráttu. Svo fór ekki. Hann háði þó öfluga baráttu og barðist af krafti til enda. En ósigur varð þó ekki umflúinn. Þrátt fyrir tap kemur hann sterkur úr kjörinu og hlýtur væntanlega verðugan sess í liðssveit flokksins á komandi árum.

Michael Howard

Með úrslitum gærdagsins lýkur eins og fyrr segir leiðtogaferli Michael Howard innan breska Íhaldsflokksins. Gegndi hann embættinu í tvö ár. Tók hann við embættinu á umbrotatímum innan flokksins. Forvera hans, Iain Duncan Smith, var steypt af stóli með vantraustskosningu innan þingflokksins í októberlok 2003. Bauð hann sig fram að því loknu og sameinuðust flokksmenn um hann. Svo fór að hann varð einn í kjöri. Tók hann við leiðtogastöðunni þann 6. nóvember 2003. Þegar Michael Howard tók við forystu Íhaldsflokksins var almennt litið á hann sem einn af hinum misheppnuðu leiðtogum flokksins sem til komu eftir kosningaósigurinn 1997 og hann settur í sama flokk og forverar hans, William Hague og Iain-Duncan Smith, sem mistekist hafði að höfða til kjósenda. Hann átti því alla tíð risavaxið verkefni fyrir höndum.

Niðurstaða kosninganna í vor voru vissulega vonbrigði fyrir flokkinn og Howard sem leiðtoga hans. Honum mistókst altént að leiða flokkinn til þess sigurs sem stefnt var að. Tony Blair náði kjöri þriðja sinni og Verkamannaflokkurinn hélt völdum. Þó styrktist flokkurinn – hann bætti við sig mörgum þingsætum og náði inn mönnum í fjölda kjördæma sem Verkamannaflokkurinn réð yfir. Þingmeirihluti kratanna rýrnaði enda verulega og Blair veiktist í sessi, eins og vel hefur sést seinustu vikurnar í innbyrðis valdatafli á þeim bænum. Michael Howard tókst í þessari kosningabaráttu að taka vissa grunnvinnu í að efla grunn flokksins og náði að styrkja hann mjög til komandi verkefna - þó sigur næðist visulega ekki. Flokkurinn er enda mun samhentari og öflugri nú en áður í stjórnarandstöðu seinustu átta ára. Hann er til í þá vinnu sem þarf.

Mörgum kom reyndar á óvart að Howard skyldi tilkynna strax daginn eftir kosningar að hann hyggðist víkja af leiðtogastólnum. Það vissulega veikti umboð hans að vera einungis starfandi leiðtogi flokksins í rúmt hálft ár og leiðtogaslagurinn innan flokksins var að flestra mati einum of langvinnur. Það helgast vissulega fyrst og fremst af því að Howard vildi ná fram tillögu um að breyta lögum um valið á leiðtoga flokksins. Hann vildi afnema póstkosninguna og láta þingflokkinn um leiðtogavalið, eins og var alla tíð fram til ársins 2001 er Iain Duncan Smith var kjörinn leiðtogi. Svo fór að það var ekki samþykkt og því tók leiðtogavalið lengri tíma en ella. Mörgum þótti kjörið taka of langan tíma: fyrst fór fram fljótvinnt kjör í þingflokknum á milli Cameron, Davis, Kenneth Clarke og Liam Fox. Póstkosningin tók sex vikur – þótti mörgum kerfið á bakvið kosninguna vera einum of tímafrekt.

David Cameron

En úrslit liggja nú fyrir. Nú er hinn nýji leiðtogi hefur valið skuggaráðuneyti sitt tekur við barátta næstu ára – að byggja upp öflugan flokk sem getur tekið við völdum í Bretlandi í næstu kosningum. Strax í dag mætti Cameron forsætisráðherranum Tony Blair í fyrirspurnartíma í breska þinginu og stóð sig fantavel. Það blasir hinsvegar við að hinn nýji leiðtogi Íhaldsflokksins mun ekki mæta Tony Blair í næstu kosningum. Blair hefur fyrir löngu tilkynnt að hann fari ekki oftar í kosningar og muni víkja á kjörtímabilinu. Hefur staða Blairs veikst mjög eftir kosningarnar og því aðeins tímaspursmál hvenær nýr húsbóndi tekur við völdum í forsætisráðherrabústaðnum að Downingstræti 10 í London. Flest bendir til þess að eftirmaður Blairs á valdastóli verði fjármálaráðherrann Gordon Brown. Hefur Brown lengi beðið á hlíðarlínunni en við blasir að stutt sé í að hans tími renni upp.

Þykir því vera nokkuð augljóst að Cameron muni mæta Gordon Brown í næstu kosningum. Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari kosninganna í vor, ekki Tony Blair. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Hann fylgdi enda Blair eftir hvert fótmál á lokaspretti kosningabaráttunnar, þegar stefndi í að munurinn milli stærstu flokkanna væri að minnka, og hann var sá sem mesta athyglin snerist um. Segja má að Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum. Þótti Verkamannaflokkurinn vinna kosningarnar merkilegt nokk þrátt fyrir Blair en ekki vegna hans, eins og 1997 og 2001.

Hinsvegar blasir auðvitað við að Gordon Brown hefur verið lengi við völd. Hann hefur verið fjármálaráðherra allan valdatíma Verkamannaflokksins, eða frá maíbyrjun 1997. Það verður því auðvelt fyrir Íhaldsflokkinn að stilla baráttunni upp í næstu kosningum að valið snúist um hinn ferska Cameron og kerfiskallinn Brown, sem verið hafi við völd allan kratatímann og því arfur af liðnum tíma undir forystu Blair. Cameron hefur af mörgum verið líkt við Tony Blair eins og hann var fyrir rúmum áratug – er hann varð keppinautur John Major um völd og náði völdunum út á sjarma sinn og kjörþokka. Sama sjarma þykir Cameron búa yfir. Sennilega hefur sá kjörþokki ekki síst haft mikið um það að segja að hann hefur nú hlotið leiðtogaembætti flokksins. Þykir flestum enda að hann búi yfir þeim stjörnuþokka sem alla leiðtoga flokksins hefur skort frá því að Margaret Thatcher leiddi flokkinn á árunum 1975-1990.

David Cameron

Hefur mörgum þótt nóg um hversu Blair og Cameron eiga að vera líkir. Gárungar hafa reyndar gengið svo langt að kalla Cameron hinu skondna nafni Tory Blair. Tony Blair er þrettán árum eldri en Cameron. Mörgum þykir að Cameron sé að sigla sömu leið og Blair fór fyrir rúmum áratug. Hann varð leiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994 og leiddi flokkinn svo til sigurs þrem árum síðar. Sá munur er þó vissulega á þeim að Blair hafði mun meiri þingreynslu. Hann tók sæti á þingi árið 1983 og hafði lengi verið í skuggaráðuneyti flokksins. Margir íhaldsmenn sem styðja Cameron hafa gert lítið úr meintu reynsluleysi hans og bent á að hann hafi verið öflugur allan feril sinn á þingi, verið náinn samstarfsmaður Michael Howard og hann hafi hlotið eldskírn sem skuggaráðherra menntamála af hálfu flokksins seinustu mánuði. Þar hefur hann verið öflugur og þótt taka vel á menntamálaráðherranum Ruth Kelly.

Nú er komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Með kjöri öflugs ungs manns í leiðtogastólinn hefur átt sér stað að mínu mati fyrsta skrefið í mikilvægu ferli. Í flokknum þarf að fara fram bæði mikil endurnýjun í forystuliði en ekki síður byggja á mikilvægri reynslu sem til staðar er. Mikilvægast af öllu er að fram fari hugmyndafræðileg vinna við að marka flokknum í senn bæði nýja tilveru og sóknarfæri. Cameron hefur mætt þessu nú þegar með vali nýrra og öflugra manna í skuggaráðuneytið og byggir á mikilvægri reynslu þeirra sem fyrir er. Mikla athygli vekur að hann skipar einn af forverum sínum, William Hague, sem leiddi flokkinn á árunum 1997-2001, í þann hóp. Hague þótti lengi gjalda fyrir að hafa verið of ungur er hann var kjörinn í forystu flokksins og fannst mörgum að hans kraftar hafi ekki nýst til fulls eftir að hann vék af leiðtogastóli. Hann kemur nú aftur á fremstu bekki flokksins.

Það verður nú verkefni David Cameron sem nýs leiðtoga breska Íhaldsflokksins að taka við keflinu af Michael Howard og halda verki hans við uppbyggingarstarf flokksins áfram af krafti. Ég tel að Cameron geti byggt á góðum verkum Howard og lagt sjálfur til í þá vinnu góða kosti sína. Með því verði hægt að gera flokkinn enn öflugri - flokk sem verður raunhæfur valkostur fyrir breska kjósendur í næstu kosningum. Með því komi til sögunnar flokkur sem getur tekið völdin með öflugum hætti. Það var alltaf mat mitt að fara þyrfti nýjar leiðir og fela þyrfti yngri kynslóð flokksins það hlutverk að leiða flokkinn – fá fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn inn í nýja tíma. Því þótti mér Cameron hafa meira fram að færa við þessi þáttaskil flokksins en David Davis, þó hann sé vissulega mætur maður. En mikilvægt er að reynsla Davis njóti sín í forystunni samt sem áður á næstu árum.

David Cameron

Breski Íhaldsflokkurinn hefur mörg sóknarfæri við þessi leiðtogaskipti. Tækifærin blasa altént við þegar að nýr leiðtogi hefur tekið við forystunni og heldur af stað – vonandi á sanna sigurbraut.

Saga gærdagsins
1593 Yfirdómur, æðsti dómstóll á Alþingi var stofnaður - Yfirdómurinn starfaði í rúmar tvær aldir.
1916 Dr. Kristján Eldjárn þriðji forseti Íslands, fæddist að bænum Tjörn í Svarfaðardal. Kristján varð þjóðminjavörður árið 1947 og sat á þeim stóli þar til hann var kjörinn forseti Íslands 1968. Hann sat á forsetastóli til ársins 1980. Kristján lést á sjúkrahúsi í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum 14. sept. 1982.
1949 Þriðja ráðuneyti undir forystu Ólafs Thors tók við völdum - stjórnin sat í tæplega hálft ár.
1965 Íþróttahöllin í Laugardal, Laugardalshöll, formlega tekin í notkun - markaði mikil þáttaskil.
1985 Hafskip hf. var tekið til gjaldþrotaskipta - var eitt stærsta gjaldþrot í sögu landsins. Yfirmenn fyrirtækisins voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og málaferli vegna gjaldþrotsins tók rúm fimm ár.

Saga dagsins
1879 Jón Sigurðsson forseti, lést í Kaupmannahöfn, 68 ára að aldri. Hann var jarðsettur í Reykjavík 4. maí 1880 ásamt Ingibjörgu Einarsdóttur, konu sinni, sem lést skömmu síðar, 16. desember 1879.
1881 Minnisvarði um Jón Sigurðsson forseta, var afhjúpaður á gröf hans og eiginkonu hans í kirkjugarðinum við Suðurgötu, tveim árum eftir lát hans. Minnisvarðinn var gerður fyrir samskotafé.
1941 Japanir ráðast óvænt á herstöð Bandaríkjanna í Pearl Harbor á Hawaii - 2400 Bandaríkjamenn létu lífið í árásinni, sem varð til þess að Franklin Roosevelt forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir stríði á hendur Japönum. Bandaríkjamenn urðu með þessu beinn þátttakandi að seinni heimsstyrjöldinni.
1975 Indónesar ráðast inn í Austur-Tímor, sem Portúgalar höfðu yfirgefið nokkrum mánuðum fyrr.
2001 Áhöfn þyrlu varnarliðsins bjargaði skipbrotsmanni úr Sigurborgu við mjög erfiðar aðstæður, en skipið hafði strandað við Svörtuloft á Snæfellsnesi. Þrír fórust. Eitt mesta björgunarafrek seinni ára.

Snjallyrðið
I think a prime minister should be intimidating - it's not much good being a weak, floppy thing in the chair.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um fylgistap Samfylkingarinnar, sem missir fylgi sjötta mánuðinn í röð. Bendi ég á að Ingibjörg Sólrún, sem verða átti leiðtoginn mikli að mati stuðningsmanna í formannskjöri í vor, reynir að firra sig ábyrgð á fylgistapinu. Fer ég yfir tal Samfylkingarmanna sem virðast kenna t.d. Staksteinum Morgunblaðsins um fylgistapið, eins hlægilegt og örvæntingarfullt og það frekast má vera. Gott dæmi um vandræðin innan flokksins vegna fylgistapsins er að enginn þingmanna flokksins sem hefur heimasíður hefur ritað um fallandi gengi flokksins og “vonarstjörnunnar”. Sennilega hlakkar í Össuri Skarphéðinssyni yfir stöðu mála, þó hann hafi auðvitað ekki tjáð það opinberlega. Það átti að koma honum frá og koma flokknum til einhverra áður óþekktra hæða en þess í stað fellur hann um mörg prósentustig við formannsskipti. Það sjá allir áhugamenn um stjórnmál að allt tal stuðningsmanna Össurar um stöðuna ef ISG yrði formaður hefur ræst.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðu Háskólans á Akureyri í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem staðfestir að kostnaður á hvern háskólanema sé lægstur við HA. Bendi ég á mikilvægi þess að ráðherra grípi til aðgerða. Eins og allir sjá af stöðu mála getum við ekki sætt okkur við hvernig búið er að skólanum. Fjársvelti hans er nú staðfest og við hljótum að krefjast þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, grípi til sinna ráða og komi skólanum til varnar. Ef marka má viðtöl í fjölmiðlum er svo fjarri lagi. Hún hefur borið á móti því að skólinn sé fjársveltur þó að tölur Ríkisendurskoðunar sanni það með óyggjandi hætti. Er svo komið að maður efast orðið um hvort menntamálaráðherra ber hag skólans í raun og sann fyrir brjósti. Varð ég satt best að segja undrandi á orðum hennar í fjölmiðlum á föstudag. Nú reynir svo sannarlega á hvernig ráðherrann kemur fram við skólann eftir að þessar tölur liggja fyrir – nú verða verkin að tala ekki aðeins orðahjal!

- í þriðja lagi fjalla ég um 75 ára afmæli Sjálfstæðisfélags Akureyrar, 1. desember sl. Ennfremur þakka ég af hálfu fjölskyldu minnar Halldóri Blöndal fyrir að hafa í ræðu við það tilefni í afmælishófi félagsins minnst á framlag langafa míns, Stefáns Jónassonar frá Knarrarbergi, í starfi félagsins og í bæjarstjórn Akureyrar af hálfu Sjálfstæðisflokksins á árunum 1936-1940. Stefán langafi var þekktastur enda fyrir störf sín í útgerð hér á Akureyri, en hafði lengi mikinn áhuga á stjórnmálum.


Halldór Kiljan Laxness

Halldór Kiljan Laxness

Mikið hefur á seinustu árum verið rætt og ritað um nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxness. Allt frá andláti hans í febrúar 1998 hefur Halldór verið áberandi bæði í ræðu og ekki síst á riti. Hefur þetta verið áberandi einkum seinustu þrjú árin, en nú fyrir þessi jól og eins þau seinustu hafa komið út ítarlegar ævisögur um Halldór. Í fyrra komu út annað bindið af þrem eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson um skáldið, sem bar nafnið Kiljan. Jafnframt kom þá út ítarleg ævisaga Halldórs Guðmundssonar bókmenntafræðings, í einu bindi. Hlaut Halldór íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína, sem var vönduð og vel rituð. Nú fyrir þessi jól kemur út þriðja og seinasta bindi ritsins eftir Hannes, sem ber nafnið Laxness. Fjölskylda skáldsins var mjög andvíg því frá upphafi að Hannes ritaði um Halldór. Reyndi hún að hindra aðgang hans að skrifum skáldsins með því að loka bréfasafni hans næstu þrjú árin. Einungis Halldóri Guðmundssyni og Helgu Kress prófessor var veittur aðgangur að því.

Eins og flestir vita er Hannes umdeildur vegna skoðana sinna, hann hefur aldrei farið leynt með skoðanir sínar. Væntanlega vegna þess tók fjölskylda skáldsins þá ákvörðun að loka bréfasafninu og gat ekki sætt sig við það að hann ritaði um ævi hans. Um er að ræða þjóðskáld Íslendinga, að mínu mati merkasta rithöfund 20. aldarinnar, og hann settur á þann stall af vissum hópi þannig að ekki megi skrifa um hann nema af útvöldum. Mikið var rætt og ritað um fyrsta bindið eftir Hannes. Margir höfðu á því skoðanir, eins og gefur að skilja, enda bók skrifuð af umdeildum manni um enn umdeildari mann í sögu landsins. Athygli vakti þó jafnan að þegar spekingarnir sem dæmdu fyrsta bindið fyrir tveim árum voru spurðir að því hvort viðkomandi hefðu lesið bókina sem málið snerist um kom fram að svo var ekki. Var fróðlegt að margir höfðu skoðun á ritinu en ekki lesið það eða kynnt sér ítarlega áður en það felldi dóma yfir því. Það var ansi einkennandi um allt talið gegn Hannesi.

Kiljan, annað ritið, var virkilega skemmtileg lesning og var mjög gaman að sökkva sér í hana um seinustu jól. Hannes dró þar saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Bókin var heilsteyptari og ítarlegri en fyrsta bókin, sem fjallaði um bernskuár skáldsins og mótunarár hans, en hún var vissulega einnig mjög vönduð og umfangsmikil. Er það helst vegna þess að fjallað er um mikil hitamál á ferli skáldsins og mikinn umbrotatíma stjórnmálalega sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Bókin spannar 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn. Er þetta ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur eftir að lesa seinasta bindi ævisögunnar um Laxness, eftir Hannes.

Nú á föstudag kom út þriðja og seinasta bindið, Laxness. Fjallar bókin um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998. Ætla ég að lesa bókina um jólin og hlakka mjög til að fara yfir það rit. Þegar hefur verið fjallað um það talsvert í fréttum og greinilegt að margt áhugavert er þar að finna, sem ekki hefur verið fjallað um áður. Það er ljóst að Halldór Kiljan Laxness verður áberandi í bókmenntaumræðunni fyrir og eftir þessi jólin - rétt eins og seinustu jól.

Saga gærdagsins
1739 Steinn Jónsson biskup á Hólum, lést, 79 ára að aldri. Steinn sat á biskupsstóli á Hólum í 28 ár.
1970 Verslunarmiðstöðin Glæsibær í Reykjavík vígð - þar var þá stærsta matvöruverslun á landinu.
1981 Menntamálaráðuneytið staðfesti þá ákvörðun Náttúruverndarráðs um að friðlýsa Þjórsárver.
1992 Georgíumaðurinn Grigol Matsjavariani kom til Íslands í boði ríkisstjórnarinnar, en hann var sjálfmenntaður í íslensku. Grigol dvaldi hér í hálft ár við fræðistörf. Grigol lést í bílslysi í Tbilisi 1996.
1998 Kvótadómurinn - Hæstiréttur kvað upp þann dóm að fimmta grein laga um stjórn fiskveiða væri í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands. Dómurinn var kenndur við Valdimar Jóhannesson.

Saga dagsins
1954 Kvikmyndin Salka Valka, gerð eftir skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, var frumsýnd hérlendis.
1971 Veitingahúsið Glaumbær við Fríkirkjuveg í Reykjavík brann. Glaumbær var einn af vinsælustu skemmtistöðunum í borginni í rúman áratug. Húsið var síðar gert upp, þar er nú Listasafn Íslands.
1981 Stytta af heilagri Barböru var afhjúpuð á messudegi hennar í kapellu í Kapelluhrauni við Straumsvík. Lítið steinlíkneski af Barböru fannst í kapellunni árið 1950 og þótti sá fundur merkur.
1991 Síðasta bandaríska gíslinum í Líbanon, fréttamanninum Terry Anderson, var sleppt úr haldi.
1993 Bandaríska rokkgoðið og tónskáldið, Frank Zappa, lést úr krabbameini - var þá 52 ára að aldri.

Snjallyrðið
The price of greatness is responsibility.
Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)


Engin fyrirsögn

75 ára afmæli
Sjálfstæðisfélags Akureyrar


Sjálfstæðisflokkurinn

Í gær varð Sjálfstæðisfélag Akureyrar 75 ára. Félagið var stofnað á fullveldisdaginn, 1. desember 1930, og varð fyrsti formaður þess Axel Kristjánsson. Héldum við sjálfstæðismenn upp á afmælið með hófi í Hamborg, Hafnarstræti 94 á milli kl. 18:00 og 20:00. Þetta er mikið merkisafmæli og héldum við upp á það með því að koma saman og eiga góða og notalega stund. Félagið hefur alla tíð verið öflugt og sinnt mikilvægu starfi á vegum flokksins hér í Eyjafirði og hafa margir heiðursmenn leitt það í tímanna rás. Hamborg verður vettvangur kosningabaráttunnar okkar - við hefjum því baráttuna á þessum tímapunkti og opnum kosningamiðstöð okkar á afmælisdegi félagsins okkar. Það er mjög góð aðstaða í Hamborg, við verðum þar á besta stað í bænum og getum verið ánægð með aðstöðuna þar og það opnar okkur mörg góð tækifæri að vera staðsett þar með kosningamiðstöð í þeim kosningum sem framundan eru.

Mikið fjölmenni kom saman í Hamborg á þessum merkisdegi. Var gestum boðið þar upp á veitingar og áttum við gott og notalegt spjall um málin á þessum fyrsta degi desembermánaðar - það er orðið jólalegt í miðbænum og allir komnir í jólaskap. Í upphafi flutti Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélagsins, gott ávarp og fór yfir ýmsa hluti í tilefni afmælisins. Því næst flutti Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ávarp og fór yfir sögu Sjálfstæðisfélagsins. Það var áhugavert að heyra ræðu hans og fara yfir sögu félagsins með honum. Hefur hann kynnt sér vel sögu félagsins og þekkir vel mikilvæga punkta hennar. Þótti mér mjög vænt um að hann skyldi benda á framlag langafa míns, Stefáns Jónassonar útgerðarmanns frá Knarrarbergi, í ræðu sinni. Stefán langafi hafði alla tíð mjög ákveðnar skoðanir og tók þátt í starfi flokksins hér og víðar á langri ævi sinni.

Halldór

Stefán langafi var alla tíð hægrisinnaður og var stofnfélagi í Sjálfstæðisfélaginu og í flokknum var hann alla tíð. Hann var sannur sjálfstæðismaður og sat í bæjarstjórn Akureyrar á árunum 1936-1940. Að öðru leyti er hann sennilega þekktastur fyrir útgerð sína. Hann var með fjölda skipa er hann sinnti útgerð, sennilega er Sjöstjarnan þekktust - hún var allavega alltaf stoltið hans. Hann var fengsæll skipstjóri og þekktur hér í bæ fyrir verk sín. Sem afkomandi Stefáns Jónassonar þótti mér vænt um að Halldór skyldi geta framlags hans til félagsins og stjórnmála á svæðinu, þó vissulega hafi hann eins og fyrr segir verið þekktari fyrir annað en beina þátttöku í pólitík. Stefán langafi sagði lífssögu sína í bók Erlings Davíðssonar, Aldnir hafa orðið, árið 1973. Var það annað bindið af sautján binda ritröð Erlings undir því heiti. Stefán langafi lést í janúar 1982, 101 árs að aldri - þá var hann elsti íbúi Akureyrarkaupstaðar.

Þeir sem þekkja til hans og verka hans minnast hans - hann var kraftmikill og traustur maður. Sennilega er hann þekktastur fyrir það að hafa verið ákveðinn - án þess eiginleika hefði honum sennilega aldrei auðnast að reka trausta útgerð til fjölda ára og sinna því með því trausta yfirbragði sem einkenndi verk hans. Það var mér gleðiefni að hans skyldi vera minnst í gær í Hamborg. Oft er mér sagt að við séum mjög líkir ég og langafi. Ef marka má myndir erum við sláandi líkir - sem er varla undur. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að ræða við Gunnar Árnason í Hamborg í gær. Hann var á skipi í eigu langafa til nokkurs tíma. Hann þekkti ennfremur afa minn, Guðmund Guðmundsson. Þeir voru á sama tíma að æfa á skíðum og voru miklir félagar. Fórum við í spjallinu yfir margar skemmtilegar sögur af þeim tíma þeirra. Meðan að afi bjó hér á Akureyri var hann að æfa fyrir félagið hér í bæ og þeir því traustir vinir.

En gærdagurinn var mjög gleðilegur í Hamborg - húsinu okkar í miðbænum. Þar verður aðstaða okkar í kosningabaráttunni. Hefur okkur í Verði verið falið að sjá um húsið í kosningaslagnum. Er stefnt að jákvæðri og öflugri kosningabaráttu. Við höfum góð verk að baki - farsæla forystu fram að færa. Umfram allt verðum við jákvæð - við getum verið stolt í baráttunni framundan, sem og af 75 ára farsælli sögu Sjálfstæðisfélags Akureyrar.

Saga dagsins
1914 Sigurður Eggerz ráðherra, sendi Stjórnarráðinu 2000 orða skeyti og sagði frá því fundi ríkisráðs í Kaupmannahöfn, rætt var um stjórnarskrár- og fánamálið. Lengsta skeyti er hafði verið sent hingað.
1988 Benazir Bhutto verður forsætisráðherra Pakistans - Bhutto varð fyrsta konan til að taka við forsætisráðherraembætti í íslömsku ríki. Hún sat í embætti til 1990 en tók aftur við 1993 og sat í 3 ár.
1993 Kólumbíski eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar drepinn - var einn helsti eiturlyfjabarón sögunnar.
1995 Nick Leeson fyrrum verðbréfamiðlari hjá Barings banka í Singapore, hlýtur dóm vegna aðildar sinnar í gjaldþroti bankans, en hann setti bankann á hausinn 1995 með áhættufjárfestingum sínum.
2000 Björk Guðmundsdóttir hlaut evrópsku kvikmyndaverðlaunin í París sem besta leikkonan fyrir leik sinn í Dancer in the Dark. Ingvar E. Sigurðsson hlaut verðlaun fyrir leik sinn í Englum alheimsins.

Snjallyrðið
A banker is a fellow who lends you his umbrella when the sun is shining, but wants it back the minute it begins to rain.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)


Engin fyrirsögn

Stephen Harper og Paul Martin

Paul Martin forsætisráðherra Kanada, rauf kanadíska þingið í dag og boðaði til kosninga í landinu þann 23. janúar nk. Fór hann á fund Michaëlle Jean landsstjóra Kanada, og bað hana um að leysa upp þingið. Samþykkti hún það og tilkynnti Martin um kjördag og ákvörðun landsstjórans á blaðamannafundi að fundinum loknum. Martin neyddist til að boða til kosninga eftir að stjórn hans féll í vantraustskosningu á kanadíska þinginu í gærkvöldi. Studdu bara frjálslyndir stjórnina undir lokin - annar stuðningur hafði gufað upp. Samþykktu 171 þingmenn vantraustið en 133 greiddu atkvæði gegn því. Stefnir því í fyrstu kosningar í landinu að vetrarlagi í rúma tvo áratugi, eða frá árinu 1984. Martin varð forsætisráðherra þann 12. desember 2003, er forveri hans, Jean Chretien, sagði af sér eftir tíu ára valdaferil. Frjálslyndir komust til valda undir forystu Chretien árið 1993. Þá varð Martin fjármálaráðherra. Hann var rekinn úr stjórninni árið 2002 er hann lýsti yfir leiðtogaframboði gegn Chretien. Svo fór að Chretien boðaði brotthvarf sitt úr stjórnmálum á árinu 2003 og Martin beið á hliðarlínunni, eftir því að leiðtogaskipti yrðu. Hann varð svo eftirmaður Chretien sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við brotthvarf hans.

Tók Martin við öflugum þingmeirihluta úr valdatíð Chretien, sem sigrað hafði með afgerandi hætti í þrem þingkosningum. Ákvað hann að sækjast eftir umboði landsmanna til valda. Boðaði hann til kosninga sumarið 2004. Fór svo að Frjálslyndi flokkurinn missti afgerandi stöðu sína, en var áfram stærsti flokkur landsins. Var mynduð minnihlutastjórn undir forsæti Martins. Hafði hún setið í sautján mánuði er hún féll í gær. Hafði forsætisráðherranum tekist að komast nokkrum sinnum hjá falli stjórnarinnar. Í maímánuði lagði stjórnarandstaðan fram vantraust á stjórnina. Tókst frjálslyndum þá naumlega að komast hjá falli. Einu atkvæði munaði þá hvort stjórnin félli eða héldi völdum. Tæpara mátti það því vart vera í það skiptið. Eftir kosninguna í þinginu voru atkvæðin jöfn og fór þá svo að forseti þingsins greiddi oddaatkvæðið með stjórninni, enda er hann þingmaður Frjálslynda flokksins. Segja má að vendipunktur alls málsins hafi verið innganga Belindu Stronach þingmanns kanadíska Íhaldsflokksins, í Frjálslynda flokkinn. Varð hún þá ráðherra í stjórn Martins og Frjálslynda flokksins. Það blasir við að atkvæði hennar veitti Frjálslynda flokknum oddastuðning. Það dugði ekki til í gær, enda höfðu nýjir demókratar hætt stuðningi við stjórnina.

Það voru spillingarmál sem einkum urðu stjórn Martins að falli. Frjálslyndi flokkurinn var sakaður um peningaþvætti og fjárspillingu í valdatíð sinni undir forystu Chretien. Var í raun að mestu um að ræða upplýsingar um að ráðamenn flokksins hefðu greitt ýmsum vildarvinum hans um 100 milljónir dollara, jafnvirði um 5.400 milljóna króna, fyrir auglýsingaverkefni og framkvæmdir sem voru ekkert nema sýndarmennska. Martin tengist málinu óverulega sjálfur, en margir aðrir forystumenn flokksins, þar á meðal forveri hans, eru mun meira í kjarna þessa hitamáls. En það hefur hvílt sem mara yfir verkum Martins eftir valdaskiptin í desember 2003. Segja má að Chretien og nánir samstarfsmenn hans hafi yfirfært skandalinn á Martin, sem í margra huga er táknmynd vandans, enda er hann nú við völd af hálfu flokksins. Við blasir að mikil valdþreyta er komin í frjálslynda og þetta mál sligar þá mjög, enda hafa lög að öllum líkindum verið brotin. Rannsókn á málinu hefur staðið nokkurn tíma og niðurstaða gæti komið á hverri stundu. Blasir við að vont verður fyrir frjálslynda að fara inn í kosningabaráttu með málið á bakinu.

Valgerður Sverrisdóttir

Í dag beindi Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þeim tilmælum til stjórnar Byggðastofnunar og Aðalsteins Þorsteinssonar forstjóra, að lánastarfsemi verði hafin að nýju þrátt fyrir að hlutfall eiginfjár stofnunarinnar sé komið niður fyrir þau 8% sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Ekki er gert ráð fyrir því að Byggðastofnun haldi áfram lánastarfsemi til lengdar í núverandi mynd og ekki er gert ráð fyrir að stofnuninni verði lagt til nýtt fé. Þetta er alveg ótrúleg ákvörðun í ljósi allra aðstæðna. Mér finnst með ólíkindum að ríkisstjórnin taki undir þessa þvælu í ráðherranum. Er algjörlega ósammála þessum vinnubrögðum. Hef ég reyndar verið lengi þeirrar skoðunar að Byggðastofnun sé barn síns tíma og orðin með öllu óþörf. Engin þörf sé á aðkomu ríkisins á þennan markað. Kostulegt hefur annars verið seinustu daga að fylgjast með hnútuköstum Valgerðar og Kristins H. um Byggðastofnun. Það er óhætt að segja að snarki af skrifum Valgerðar á vef sínum um Kristinn og skrif hans á sínum vef fyrir um viku. Þar kallar hún Kristinn andstæðing sinn í stjórnmálastarfi. Það er óhætt að segja að andi köldu milli Valgerðar og Kristins H.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir harðlega þá framgöngu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að fara fram á það við stjórn og forstjóra Byggðastofnunar að stofnunin lánastarfsemi að nýju, þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar sé komið niður fyrir þau mörk sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Telur SUS það forkastanlegt af hálfu ráðherrans að hvetja til lögbrota með þessum hætti. SUS bendir á að þær stofnanir sem í hlut eiga, þ.e. Byggðastofnun og Fjármálaeftirlitið, sem fer með eftirlit með starfsemi Byggðastofnunar, heyra báðar undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. SUS hvetur til þess að vonlausum lífgungartilraunum á úreltri ríkisstofnun verði hætt þegar í stað. Hafi Byggðastofnun á einhverjum tíma átt tilverurétt, þá er sá tími löngu liðinn nú þegar bæði fyrirtæki og einstaklingar geta nálgast lánsfé á almennum markaði á góðum kjörum." Traust og góð ályktun - mjög góð.

SjónvarpsÖldin

Það er ekki hægt annað en að lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun RÚV að gefa út gamla fréttaannála Sjónvarpsins á DVD-diskum. Er byrjað á fréttaannáli ársins 2004. Það var auðvitað sögulegt ár í stjórnmálum. Forseti synjaði lögum sem réttkjörinn þingmeirihluti hafði samþykkt og forsætisráðherraskipti urðu er Davíð Oddsson lét af embætti eftir lengsta samfellda setu á forsætisráðherrastóli hérlendis, rúm þrettán ár. Er þetta fyrsti diskurinn, en í byrjun nýs árs verða eldri fréttaannálar endurútgefnir í öskjum sem innihalda fimm mynddiska. Er mikið ánægjuefni fyrir áhugamenn um fréttir að geta keypt sér gamla annála og kynnt sér fréttatíðindi liðinna ára í myndformi. Á þessum fyrsta diski er ennfremur fjórar fréttaskýringar úr þættinum Í brennidepli, atriði úr Spaugstofunni og íþróttaannáll ársins 2004.

Dr. Kristján Eldjárn forseti

Eins og fram kom í bloggfærslu sunnudagsins birtist á laugardag ítarlegur pistill minn á vef SUS um stjórnarmyndanir í forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns, 1968-1980. Fékk ég góð viðbrögð við þessum pistli og vil nota tækifærið og þakka fyrir þá pósta sem ég fékk í kjölfar hans. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á sagnfræðilegum málum og þótti rétt í tilefni útgáfu bókarinnar Völundarhús valdsins eftir Guðna Th. Jóhannesson að rita um þessi mál. Fannst mér svo athyglisvert að sjá umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi vegna útkomu bókarinnar. Bendi ég lesendum á að horfa á hana.

Saga gærdagsins
1700 Nýi stíll, núverandi tímatal (gregoríanískt) tók gildi - dagarnir 7. - 17. nóv. felldir niður það ár.
1921 Rússneskur strákur sem Ólafur Friðriksson ritstjóri, hafði haft með sér til landsins mánuði áður, var sendur utan. Drengurinn var haldinn sjaldgæfum augnsjúkdómi og kom til harðra átaka þegar að lögregla sótti hann heim til Ólafs. Málið olli allnokkrum deilum og átökum í íslensku þjóðlífi í mörg ár.
1975 Héraðið A-Tímor hlýtur sjálfstæði frá Portúgal - heyrði svo undir Indónesíu allt til ársins 1999.
1990 Margaret Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands og leiðtogaembætti breska Íhaldsflokksins, eftir að setið í embætti forsætisráðherra lengur en nokkur stjórnmálamaður frá því á átjándu öld, í rúm 11 ár. John Major sem kjörinn hafði verið leiðtogi flokksins, daginn áður, tók við.
1994 Kjósendur í Noregi hafna naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild Noregs að Evrópusambandinu

Saga dagsins
1211 Páll Jónsson biskup að Skálholti, lést, 56 ára að aldri - hann var sonur Jóns Loftssonar og varð biskup í Skálholti árið 1195. Steinkista Páls biskups fannst við fornleifauppgröft við Skálholt árið 1954.
1906 Fánasöngur Einars Benediktssonar skálds, Rís þú Íslands unga merki, var fluttur í fyrsta skipti á almennum fundi í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík. Það var samið við fagurt lag Sigfúsar Einarssonar.
1963 Lyndon Baines Johnson forseti Bandaríkjanna, skipar formlega rannsóknarnefnd til að stjórna rannsókn á morðinu á John F. Kennedy. Formaður nefndarinnar var Earl Warren forseti hæstaréttar.
1986 Leikarinn Cary Grant lést, 82 ára að aldri - Grant lék í mörgum af bestu myndum aldarinnar. Hann hætti leik árið 1966. Leikur hans einkenndist jafnan af fáguðu yfirbragði og fínlegu skopskyni.
2001 Söngvarinn George Harrison lést úr krabbameini, 58 ára að aldri. Harrison var í hljómsveitinni The Beatles allt frá stofnun árið 1962 til loka árið 1970. Harrison var almennt nefndur þögli bítillinn.

Snjallyrðið
I cannot and will not cut my conscience to fit this year's fashion.
Lillian Hellman rithöfundur (1907-1984)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fer ég yfir litlausa stjórnmálaumræðu seinustu vikna. Fer ég yfir nokkra punkta sem þar bera hæst, t.d. málefnalega fátækt Samfylkingarinnar og leiðtoga hennar, fangaflugið, forsætisráðherrann, för forsetahjónanna til Mónakó við embættistöku furstans, skrifin á vef SUS og vegsauka Alfreðs Þorsteinssonar er hann hættir stjórnmálaþátttöku. Nokkur deyfð hefur verið yfir þinginu. Átök hafa þó verið um fjárlög. Þar er nýlega lokið annarri umræðu og stefnir í að fjárlögin verði samþykkt vel fyrir jólaleyfi þingmanna. Stjórnarandstaðan er í sama gírnum og venjulega í þeirri umræðu.

Frumvarpið er vandað og gott – mikill afgangur fyrirsjáanlegur á ríkiskassanum og því úr litlu að moða fyrir stjórnarandstöðuna. Það er þó reynt að tjalda til öllum mögulegum og ómögulegum nöldurpunktum og skreyta andstæðingarnir sig með þeim lítt veglega búnaði í umræðunni. Sérstaklega fannst mér koma vel fram að stjórnarandstaðan er algjörlega málefnalega fátæk þegar það eina sem þau gátu fundið að í umræðunni væri að menntamálaráðherra væri stödd erlendis í embættiserindum og að nokkrir ráðherrar væru ekki staddir í salnum. Þar voru þó bæði forsætis- og fjármálaráðherra sem auðvitað gátu svarað öllum spurningum um fjárlögin og tekið umræðuna frá öllum þeim hliðum sem máli skiptir. Stjórnarandstaðan sannaði með tali sínu hversu illa hún stendur.

- í öðru lagi fjalla ég um þau þáttaskil sem fylgja því að Angela Merkel hefur tekið við kanslaraembættinu í Þýskalandi, fyrst kvenna. Er hún áttundi stjórnmálamaðurinn sem er kanslari frá stríðslokum. Forverar hennar í embættinu eru: Konrad Adenauer, Ludwig Erhard, Kurt Georg Kiesinger, Willy Brandt, Helmut Schmidt, Helmut Kohl og Gerhard Schröder. Angela Merkel er þriðji kanslari sameinaðs Þýskalands - en austrið og vestrið voru sameinuð árið 1990 eftir fall Berlínarmúrsins árið áður. Það er því enginn vafi á því að söguleg þáttaskil verða með því að hún tekur við æðsta valdaembættinu í landinu.


Stjórnarmyndanir í forsetatíð
dr. Kristjáns Eldjárns


Dr. Kristján Eldjárn forseti

Nýlega kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggist bókin á ítarlegum minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980. Er þar sjónum einkum beint að stjórnarmyndunum í forsetatíð hans og því hvernig hann hélt á þeim málum á ferli sínum. Áður hefur verið fjallað um ævi og forsetaferil Kristjáns í ævisögu hans sem rituð var af Gylfa Gröndal og kom út árið 1991. Seinni hluti forsetaferils Kristjáns einkenndist af hörðum stjórnarkreppum og því þurfti hann sem forseti að grípa til þess að taka ákvarðanir sem leiddu til þess hvernig ferlið vannst að lokum. Er ljóst að forseti Íslands getur með aðkomu sinni að þeim málum haft veruleg söguleg áhrif. Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í gær fór ég yfir sögulega þróun stjórnarmyndana í forsetatíð Kristjáns og hvernig hann er metinn í sögubókunum eftir feril sinn í embættinu.

Dr. Kristján Eldjárn var kjörinn forseti Íslands með afgerandi hætti í forsetakosningunum 30. júní 1968. Bar hann þar sigurorð af dr. Gunnari Thoroddsen, sem verið hafði um árabil einn af helstu leiðtogum Sjálfstæðisflokksins. Hann hafði horfið úr sviðsljósi stjórnmálanna árið 1965 og látið af embætti fjármálaráðherra og varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og tekið við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Var Gunnar tengdasonur annars forseta lýðveldisins, Ásgeirs Ásgeirssonar. Hlaut Kristján 2/3 greiddra atkvæða og komu yfirburðir hans mörgum að óvörum á sínum tíma. Tók Kristján við embætti þann 1. ágúst 1968. Strax þá varð ljóst að þáttaskil höfðu átt sér stað. Vel menntaður alþýðumaður norðan úr landi hafði sigrað þekktan stjórnmálamann til fjölda áratuga. Einkennandi þóttu með þessu áhrif tíðarandans. Þá þótti í tísku að vera á móti ráðandi öflum og varð Kristján holdgervingur þess að fólk vildi aðrar áherslur og aðra nálgun á forsetaembættið en hefðu ella orðið með kjöri Gunnars í embættið.

Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947 og gegndi embættinu allt þar til hann tók við forsetaembætti. Kristján þótti á tólf ára forsetaferli vera forseti fólksins – alþýðumaður sem auðnaðist að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Hann var ólíkur því sem við kynntumst síðar í embættinu. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.

Ég hvet alla lesendur til að líta á pistilinn og kynna sér stjórnarmyndanir í forsetatíð Kristjáns og skoðanir mínar á þeim málum. Ennfremur hvet ég auðvitað alla til að lesa bók Guðna Th. og ævisögu Kristjáns eftir Gylfa Gröndal.

Saga gærdagsins
1594 Tilskipun þess efnis að Grallarinn (Graduale) skyldi notaður sem messusöngbók á Hólum og Skálholti tók gildi - bókin var gefin út hérlendis af Guðbrandi Þorlákssyni biskup á Hólum í Hjaltadal.
1943 Kvikmyndin Casablanca sem skartaði Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum, var frumsýnd - myndin sló mjög í gegn um allan heim og hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1944.
1981 Útgáfa DV hófst - þá sameinuðust Dagblaðið og Vísir í eitt blað - Vísir hafði komið út frá 1910 en Dagblaðið frá 1975. DV varð svo gjaldþrota 2003 en hélt áfram að koma út af hálfu nýrra eigenda.
1981 Veitinga- og skemmtistaðurinn Broadway við Álfabakka í Reykjavík var opnaður - lokaði 1990.
1992 Tilkynnt í breska þinginu að Elísabet II Englandsdrottning, hafi ákveðið að eigin ósk að borga skatta. Fram að þeim tíma hafði aldrei tíðkast að þjóðhöfðingi Englands borgaði skatta til ríkissjóðs.

Saga dagsins
1896 Grímur Thomsen skáld, lést, 76 ára að aldri. Hann starfaði mjög lengi í utanríkisþjónustu Dana, bjó síðar á Bessastöðum og sat t.d. á Alþingi. Meðal þekktustu kvæða Gríms er t.d. Á Sprengisandi.
1956 Vilhjálmur Einarsson, 22 ára háskólanemi, vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Vilhjálmur stökk þá 16,25 metra, sem var þá bæði Íslands- og Norðurlandamet.
1975 Sjónvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Ross McWhirter var myrtur fyrir utan heimili sitt í London - McWhirter var mikill gagnrýnandi IRA og var hann myrtur af leigumorðingjum samtakanna.
1981 Halldóra Bjarnadóttir lést á Blönduósi, 108 ára gömul. Halldóra er sá Íslendingur sem hefur náð hæstum aldri. Hún var kennari og skólastjóri til fjölda ára og gaf svo út ársritið Hlín í marga áratugi.
1990 John Major kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins í stað Margaret Thatcher sem verið hafði leiðtogi flokksins í 15 ár og forsætisráðherra Bretlands í 11 ár - Major tók við embætti daginn eftir.

Snjallyrðið
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband