Engin fyrirsögn

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson

Merkilegt hefur verið að fylgjast með ritdeilu Morgunblaðsins og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, að undanförnu. Um síðustu helgi voru forsetahjónin, Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff, við embættistöku Alberts fursta af Mónakó. Var forseti Íslands eini þjóðhöfðinginn á staðnum. Fannst mörgum þetta merkilegt. Var ekki fjarri því að margir spyrðu sig að því hvað forsetinn væri að gera á staðnum. Það verður enda vart komið auga á ástæður þess að forseti Íslands af öllum þjóðhöfðingjum ætti þar að vera staddur. Skrifaði Vef-Þjóðviljinn um málið í vikubyrjun og í kjölfarið var fjallað um för forsetans í Staksteinum í Morgunblaðinu. Í gær svaraði forsetinn skrifunum í Staksteina í grein á miðopnu Morgunblaðsins. Þar fór hann yfir málið. Þar kom fram að margar ástæður hafi legið að baki förinni. Ein hafi verið áherslan á tengsl smáríkja, önnur sú að Albert fursti kom til Íslands á Smáþjóðaleikana árið 1997 og sú þriðja að furstinn sé mjög mikill áhugamaður um málefni norðurslóða. Forsetinn sagði í grein sinni það þjóna fjölþættum hagsmunum Íslendinga að vera við athöfnina og að orðalagið í pistli Morgunblaðsins væri ekki við hæfi, er í hlut ætti ríki og furstafjölskylda sem ávallt hefði sýnt Íslendingum vináttu.

Þessi grein forsetans er mjög skondin, svo ekki sé meira sagt. Hana skrifar maður sem vildi ekki fara til Danmerkur við brúðkaup krónprinsins. Það lék enginn vafi á því að þar var komið fram með ómaklegum hætti við konungsfjölskyldu Danmerkur, sem hefði alla tíð sýnt Íslandi mikla tryggð og mikinn sóma í gegnum árin. Ástæðurnar að baki heimveru forsetans í maí 2004 voru enda á miklu reiki. Hann þóttist ekki geta farið vegna aðstæðna hérlendis. Voru þær hreinn fyrirsláttur, enda ljóst að lagafrumvarp það sem orsakaði dramatíska heimkomu hans frá Mexíkó yrði ekki samþykkt á þeim sólarhring sem hann ætti að vera í Kaupmannahöfn. Þingsköp tækju einfaldlega fyrir það að málið færi í gegn með slíkum hraða. Varð enda sú raunin, enda liðu tíu dagar frá áætlaðri för forsetans til Danmerkur þar til lögin voru samþykkt. Þannig að það er greinilegt ósamræmi í tali forseta Íslands. Það er allavega í hæsta máta óeðlilegt að för við embættistöku furstans af Mónakó hafi verið mikilvægari en að fara að brúðkaupi afkomanda þjóðhöfðingja Íslands. Þetta blasir við flestum. Það er þó ekki hægt að segja að ekki sé húmor á Mogganum. Þar er forsetanum svarað í dag með skondnum hætti.

Orðrétt segir: "Staksteinar sjá ástæðu til að þakka forseta Íslands fyrir að bregðast skjótt við tilmælum, sem til hans var beint hér í þessum dálki í fyrradag um að hann upplýsti íslenzku þjóðina um hvers vegna nauðsynlegt væri að forseti, einn þjóðhöfðingja, sækti krýningarathöfn Alberts fursta í Mónakó. Svar forsetans birtist hér í Morgunblaðinu í gær. Nú er sem sagt komið í ljós, að Morgunblaðið hefur ekki áttað sig fyllilega á pólitískri þýðingu þess, að efla tengslin við smáríki á borð við Lichtenstein, Andorra, Kýpur (heimilisfesti þeirra, sem vilja losna undan sköttum á Íslandi) og San Marínó. Og ekki ástæða til að gera lítið úr því. Slík pólitísk tengsl geta t.d. hjálpað til við að finna skattsvikið fé, sem aftur eru rök fyrir því, að Ísland rækti pólitísk tengsl við Tortillaeyjur í Karíbahafinu en þangað liggja t.d. athyglisverðir þræðir úr íslenzku viðskiptalífi. Morgunblaðið hafði heldur ekki áttað sig á því mikilvæga hlutverki, sem Albert fursti gegnir í rannsóknum á norðurslóðum og áhrifum loftslagsbreytinga á lífshætti og náttúru í þeim heimshluta og biðst velvirðingar á því.

Orð forseta Íslands um mikilvægi framlags Alberts fursta verða ekki dregin í efa og sjálfsagt að fylgjast betur með framlagi furstans. Hins vegar er erfitt að skilja athugasemdir forsetans við lýsingu Staksteina á Mónakó. Er það ekki staðreynd, að þar er að finna helztu spilavíti Evrópu og að þar er samkomustaður þotuliðsins? Hvað er ljótt við það? Enginn hefur haldið því fram að forseti Íslands væri orðinn partur af því þotuliði.
" Svo mörg voru þau orð. Eins og flestir vita er ekki vanalegt að forseti og dagblað skrifist á reglulega - nú verður athyglisvert að sjá hvort forseti Íslands pikkar aftur á lyklaborð sitt grein til Morgunblaðsins.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórnarfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 19. nóvember sl., samþykkti eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar samkomulagi milli aðila vinnumarkaðsins um breytingar á kjarasamningum. Þar með er tryggt að almennum kjarasamningum verður ekki sagt upp og stöðuleikanum teflt í tvísýnu. Samvinna og traust á milli launþegahreyfinga og atvinnurekenda er grundvöllur fyrir hagstæðum skilyrðum til frekari hagsældar og velmegunar fyrir fólk í landinu. Þess vegna var það mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðsins öxluðu þá ábyrgð sem á þeim hvíldi og lögðu sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu til handa öllum. Undanfarin ár hefur hið opinbera ekki axlað þá ábyrgð sem til þarf til þess að tryggja stöðuleika á vinnumarkaði. Launahækkanir starfsmanna hins opinbera, langt umfram það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, er frekar til þess að grafa undan stöðuleika og skapa óþolandi togstreitu milli hins opinbera og einkageirans.

Útgjaldaaukning ríkisins undafarin ár er að stærstum hluta að rekja til þessar launahækkana. SUS telur mjög brýnt að framvegis taki ríkið fullt tillit til samkomulags á almennum vinnumarkaði og hagi sínum launasamningum samkvæmt því. SUS mótmælir harðlega því að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar. Samkomulag er meðal fólks að tryggja þurfi sameiginlega velferð þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Samhjálp er mikilvæg og ein undirstaða velferðarsamfélagsins. Því er það mikið óheillaskref að hverfa frá þeirri samstöðu að bæta skuli hag þeirra sem minnst mega sín yfir í það að miða bætur hins opinbera við ákveðin réttindi einstakra hópa burtséð frá efnahag þeirra. SUS lítur svo á að efnameiri einstaklingar séu betur í stakk búnir til að mæta tekjuskerðingu sökum atvinnumissis en þeir efnaminni Jafnframt er mikil hætta á því að tekjutenging atvinnuleysisbóta dragi úr sjálfsbjargarviðleitni og letji fólk til að leita sér að atvinnu.
"

Tony Blair og Angela Merkel

Eins og ég sagði frá hér á þriðjudag hefur Angela Merkel tekið við embætti kanslara Þýskalands. Fyrsta embættisverk hennar var að halda ásamt Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra, til Parísar í opinbera heimsókn til Jacques Chirac forseta Frakklands. Er það til marks um að Merkel vilji halda áfram tryggum samskiptum Frakklands og Þýskalands. Fræg er náin samvinna Helmut Kohl og Francois Mitterrand hér áður og síðar Jacques Chirac og Gerhard Schröder. Frá París héldu Merkel og Steinmeier til Brüssel og ræddu við forystumenn Evrópusambandsins. Í dag héldu þau í Downingstræti 10 í London og ræddu við Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Það er greinilegt að Merkel ætlar í þessari ferð sinni til lykilborga Evrópu að halda í góð tengsl milli Þýskalands og stjórna þessara landa - tryggja trausta brú og efla tengslin. Það kemur því varla á óvart að næst mun Merkel einmitt halda til Washington og hitta George W. Bush forseta Bandaríkjanna, með það að markmiði að efla tengsl landanna. Þau hafa verið nær við frostmörk síðan að Schröder og stjórn hans neitaði að styðja Bandamenn í innrásinni í Írak í mars 2003. Merkel telur mikilvægt að hafa samskiptin við Bandaríkin betri.

Akureyrarkirkja á aðventu 2003

Í dag er mánuður til jóla. Jólaundirbúningurinn er því að fara af stað hjá flestum af krafti. Skammdegið er skollið á með sínu tilheyrandi myrkri, snjórinn sem fallið hefur seinustu daga hefur lýst upp myrkrið. Á stöku stöðum er fólk farið að setja upp jólaljós og bærinn er óðum að verða jólalegri. Starfsmenn Akureyrarbæjar eru nú í óða önn að koma bænum í jólabúninginn. Aðventa hefst á sunnudag - á laugardag verða kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi sem er gjöf frá vinabæ Akureyringa, Randers í Danmörku. Þá hefst jólaundirbúningur flestra Akureyringa með almennum hætti. Flestir telja óhætt að hefja undirbúninginn þann dag. Þessi stund á Ráðhústorginu er jafnan mikil hátíðarstund í bænum og fólk mætir þar og ræðir saman og á notalega stund. Ávörp munu flytja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Preben Smed aðstoðarborgarstjóri í Randers. Lúðrasveit Akureyrar mun leika létt lög við þessa hátíðarstund og stúlknakór Akureyrarkirkju mun syngja nokkur jólalög. Þessi athöfn á torginu er alltaf jafn hátíðleg og fjölmennt er á hana ár hvert. Aðventan er alltaf jafn heillandi og skemmtilegur tími og ekki síður gefandi.

Kvef

Þessi vika hefur verið mjög róleg hjá mér - enda hef ég verið heima nær alla vikuna. Hef verið að ná mér eftir slæmt kvef. Missti ég röddina vegna slæmrar sýkingar í hálsi og var ráðlagt að læknisráði að vera heima meðan það væri að ganga yfir. Er svona að koma allt stig af stigi. Ég er frekar þekktur fyrir það að vera harður af mér og því ekki vanur að slá slöku við þó veikindi sæki að. En það geri ég nú. Annars er merkilegt að vera heima við allan daginn og hafa ekkert fyrir stafni nema lesa bækur eða líta í tölvuna. Það er tilbreytingalaust líf - satt best að segja. En þetta er allt að koma. :)

Saga gærdagsins
1963 Lyndon Baines Johnson tók formlega við embætti forseta Bandaríkjanna, á fyrsta vinnudegi eftir morðið á John F. Kennedy - fyrsta verk Johnson var að skipa rannsóknarnefnd vegna morðsins.
1990 Íslenska alfræðiorðabókin kom út - umfangsmesta bókmenntarit í sögu íslenskra bókmennta.
1995 Björk Guðmundsdóttir var valin söngkona ársins 1995 af áhorfendum tónlistarstöðvarinnar MTV.
1997 Karl Sigurbjörnsson, fimmtugur prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík, var vígður biskup íslensku þjóðkirkjunnar. Karl sem hlotið hafði 58% atkvæða í biskupskjöri, tók við embætti af Ólafi Skúlasyni.
2003 Eduard Shevardnadze sagði af sér embætti forseta Georgíu eftir uppreisn andstöðunnar gegn stjórn landsins. Shevardnadze, sem hafði verið utanríkisráðherra Sovétríkjanna 1985-1990, hafði verið leiðtogi Georgíu í ellefu ár, allt frá árinu 1992. Eftirmaður hans á forsetastóli var Mikhail Saakashvili.

Saga dagsins
1963 Lee Harvey Oswald meintur morðingi Kennedy forseta, myrtur í Dallas - Oswald var skotinn af næturklúbbaeigandanum Jack Ruby í lögreglustöðinni í Dallas í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva er flytja átti hann í alríkisfangelsi Texas. Oswald lést síðar um daginn í Parkland sjúkrahúsinu, á sama stað og forsetinn var úrskurðaður látinn tveim dögum áður. Ruby upplýsti aldrei um tildrög morðsins.
1963 Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna, tilkynnir í ræðu í bandaríska þinginu um helstu áherslur stjórnar sinnar fram að forsetakosningunum 1964. Eitt aðalatriða í stefnunni var að herlið Bandaríkjanna í Víetnam skyldi styrkt til muna - stríðið leiddi til þess að hann varð sífellt óvinsælli. Hann ákvað að hætta sem forseti árið 1968 og gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakjöri það ár.
1989 Kommúnistastjórnin í Tékkóslóvakíu fellur með mildum hætti - bylting stjórnarandstöðuaflanna hefur jafnan verið kölluð flauelsbyltingin sökum þess hversu mildilega hún gekk fyrir sig á endanum.
1991 Freddie Mercury söngvari rokkhljómsveitarinnar Queen, lést úr alnæmi, 45 ára að aldri. Fráfall hans kom mjög óvænt, en aðeins degi áður en hann lést hafði verið tilkynnt formlega að hann væri HIV smitaður. Hann veiktist snögglega af lungnabólgu sem dró hann til dauða. Mercury varð einn af risum rokktónlistarinnar á 20. öld og markaði talsverð þáttaskil með hljómsveit sinni í sögu tónlistar.
1998 Elísabet drottning, tilkynnir um breytingar á starfsemi hinnar sögufrægu bresku lávarðadeildar.

Snjallyrðið
We will always remember. We will always be proud. We will always be prepared, so we will always be free.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)


Engin fyrirsögn

Angela Merkel og Gerhard Schröder

Angela Merkel leiðtogi Kristilega Demókrataflokksins (CDU) í Þýskalandi, var kjörin kanslari Þýskalands í kosningu í þýska sambandsþinginu í Berlín í morgun. 397 þingmenn kusu hana en 202 greiddu atkvæði gegn henni. Er hún áttundi stjórnmálamaðurinn sem er kanslari frá stríðslokum. Hún er þriðji kanslari sameinaðs Þýskalands. Það sem er auðvitað sögulegast við valdatöku hennar er sú að hún er fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands og jafnframt fyrsti A-Þjóðverjinn sem tekur við embættinu. Það er því enginn vafi á því að söguleg þáttaskil verða með því að hún tekur við æðsta valdaembættinu í landinu. Með valdatöku hennar hverfur Gerhard Schröder af hinu pólitíska sviði. Það gerði hann með táknrænum hætti. Er tilkynnt hafði verið um kjör Merkel í embættið labbaði hann til hennar og óskaði henni til hamingju með kjörið. Að því loknu labbaði hann út úr þingsalnum og að því loknu yfirgaf hann þinghúsið og settist upp í bíl sem flutti hann í kanslarabústaðinn þar sem hann sótti fjölskyldu sína. Að því loknu flugu þau til heimilis síns í Hanover. Með þessu yfirgaf hinn 61 árs gamli Schröder sviðsljósið. Margir vilja eflaust vita hvað hann taki sér fyrir hendur nú. Hann hefur gegnt stjórnmálastörfum lengi en þarf nú að halda í aðrar áttir.

Síðar í dag tók hin stóra samsteypa hægri- og vinstriaflanna formlega við völdum. Hefur stjórn af því tagi ekki setið í landinu frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, eða 1966-1969. Það verða því óneitanlega gríðarleg þáttaskil með valdatöku hennar. Við Angelu Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni. Merkel tókst að landa stjórnarsamstarfinu - með miklum fórnum tókst henni að binda hnútana saman. Fá hægrimenn sex ráðherrastóla en kratarnir alls átta. Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Það að kona verði kanslari í Þýskalandi eru stórfréttir, ánægjulegar fréttir í jafnréttisbaráttu kvenna. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í hinum verðandi kanslara og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík. Hún komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans.

Angela Merkel er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus – er því með ímynd framakonunnar sem leggur allt í sölurnar fyrir frama á sínum vettvangi. Kaldhæðnislegt er að Angela Merkel skuli taka við embætti í dag. Fimmtán ár eru nú liðin frá því að eitt helsta átrúnaðargoð hennar í stjórnmálum, járnfrúin Thatcher, baðst lausnar frá forsætisráðherraembættinu í Bretlandi. Nú mun reyna á Merkel sem stjórnmálamann er hún tekur við forystu þýskra stjórnmála - hún tekur á sig mikla ábyrgð og bundnar eru miklar vonir við þennan fyrsta kvenkanslara Þýskalands. Getur Merkel glaðst yfir þeim áfanga að ná kanslarastólnum, fyrst kvenna. Mörg verkefni blasa við nýrri stjórn og ráðherrum hennar. Stuðningsmenn hennar binda vonir við að hún standi sig vel og sanni að hún sé öflugur stjórnmálamaður sem ráði við erfið verkefni og áskoranir - andstæðingarnir vona auðvitað að hún misstígi sig. Eitt er víst: vel verður fylgst með verkum hennar og stjórnarinnar fyrstu 100 dagana - hætt er þó við að fjölmiðlar veiti stóru samsteypu fáa hveitibrauðsdaga.

Margaret Thatcher

Í dag eru 15 ár liðin frá því Margaret Thatcher baðst lausnar sem forsætisráðherra Bretlands, eftir að hafa gegnt embættinu í 11 ár. Það blandast engum hugur um að hún yfirgaf ekki stjórnmálaforystu með glöðu geði - enda beið hún ósigur í harðvítugum valdaslag innan flokks síns. Thatcher hafði á valdaferli sínum mikil áhrif á stjórnmálasögu Bretlands og sat lengur en nokkur stjórnmálamaður á forsætisráðherrastóli í Bretlandi á 20. öld. Hún varð leiðtogi breska Íhaldsflokksins árið 1975, en hún hafði setið á þingi af hálfu flokksins fyrir Finchley-kjördæmi frá árinu 1959. Thatcher varð forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga í Bretlandi þann 3. maí 1979. Íhaldsflokkurinn vann þá afgerandi sigur og hlaut 43 sæta meirihluta á breska þinginu. Kjör hennar í embætti forsætisráðherra landsins markaði mikil þáttaskil. Vann hún af krafti að breytingum á bresku þjóðlífi frá fyrsta degi í embætti. Umskipti urðu, staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja.

Thatcher tók ennfremur á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Er ráðist var að henni vegna verka sinna og hún varð umdeild vegna framgöngu sinnar, spurði hún hvort þeir ætluðu að víkja af leið framfara. Hún myndi hvergi hvika. Fleyg urðu ummæli hennar á flokksþingi Íhaldsflokksins 1980. Járnfrúin, eins og hún var kölluð vegna staðfestu sinnar, fékk sínu framgengt. Þáttaskil höfðu orðið í breskum stjórnmálaheimi og ekkert varð samt aftur. Hún vann stórsigur í þingkosningunum 1983 og jók þingmeirihluta sinn og vann þriðja kosningasigurinn 1987 og þann táknrænasta í sínum huga, enda var með því sýnt fram á að forgangsverkefni hennar nutu stuðnings almennings. Í kjölfar þriðja kosningasigursins tók hún á sig óvinsæl málefni, kom á frægum og óvinsælum nefskatti sem leiddi til þess að persónulegt fylgi hennar minnkaði verulega. Thatcher, sem fram að því hafði verið óumdeild að mestu innan flokksins, fékk á sig mótspyrnu frá andstæðum öflum sem setið höfðu á sér lengi vel. Andstæðingarnir lögðu til atlögu.

Fer ég nánar yfir upphaf endaloka valdaferils Thatchers í umfjöllun á vef SUS í dag. Fyrir rúmum mánuði varð þessi sigursæli leiðtogi breskra hægrimanna á 20. öld áttræð. Í tilefni þess ritaði ég ítarlegan pistil um ævi hennar og litríkan stjórnmálaferil. Ég bendi þeim á þann pistil sem vilja kynna sér nánar ævi þessarar kraftmiklu konu.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórnarfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 19. nóvember sl., samþykkti eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fer fram á að íslensk stjórnvöld krefji bandarísk stjórnvöld skýrra svara um hvort fangar, sem sætt hafa pyntingum og ómannúðlegri meðferð, hafi verið fluttir með flugvélum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, eða annarra aðila á vegum Bandaríkjastjórnar, um íslenska lögsögu. Afar mikilvægt er að öll tvímæli verði tekin af um þetta mál. Ef í ljós kemur að slíkir fangaflutningar hafi átt sér stað um íslenska lögsögu ber íslenskum stjórnvöldum að fordæma slíkt og fá fyrir því fullvissu hjá bandarískum stjórnvöldum að slíkt muni ekki endurtaka sig." Þetta er góð og öflug ályktun - þótti mér og öðrum í stjórn mikilvægt að tjá okkur um þessi mál af hálfu SUS, en þetta hefur verið hitamál í umræðunni nú um nokkurn tíma.

Skopmynd frá Guardian

Óhætt er að segja að Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, hafi komið af stað pólitískum jarðskjálfta í gær með því að biðjast lausnar og segja skilið við Likud-bandalagið. Bendir nú flest til þess að kosningar muni fara fram þann 6. mars nk. Skv. nýrri skoðanakönnun myndi hinn nýji miðjuflokkur forsætisráðherrans verða sigurvegari yrðu kosningar haldnar ný. Myndi flokkurinn fá á bilinu 30-35 þingsæti á þinginu sem telur alls 120 þingsæti. Ef marka má nýjustu könnunina myndi Likud gjalda afhroð og hljóta aðeins um 12-16 þingsæti. Verkamannaflokkurinn myndi ekki bæta miklu við sig frá seinustu kosningum, þar sem hann galt afhroð. Það stefnir því að óbreyttu við að Sharon takist að gjörbreyta stjórnmálalitrófi landsins með ákvörðun sinni. Skopmyndateiknarar Guardian eiga auðvelt með að gera grín að fréttum nútímans - eins og sést hér að ofan.

Elín Hirst

Á sunnudag horfði ég á tvo þætti Elínar Hirst fréttastjóra Sjónvarpsins, um Spænsku veikina - þá gerði hún skömmu fyrir aldamótin. Er þar ítarleg umfjöllun um það ástand sem skapaðist hérlendis með komu veikinnar árið 1918. Fjöldi fólks féll í valinn vegna veikinnar og setti hún sorglegan svip á fullveldisstofnunina þann 1. desember 1918. Í gær sé ég svo tilkynningu um það að Elín hafi gert viðbótarþátt vegna umræðunnar um fuglaflensuna. Er þátturinn í kvöld kl. 21:25. Ég hvet alla til að sjá þáttinn - ennfremur er mikilvægt að fólk sjái eldri þætti Elínar um málið. Eru þetta mjög vandaðir og góðir þættir.

Saga dagsins
1907 Giftar konur í Reykjavík fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna. Alþingi féllst ekki á að allar konur fengju þennan rétt fyrr en tveimur árum seinna. Fullt kjörgengi kvenna tók gildi 1915.
1907 Vegalög staðfest - vinstri umferð tók gildi. Ekki var svo skipt í hægri umferð fyrr en í maí 1968.
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, myrtur í Dallas í Texas í opinberri heimsókn sinni. Hann var þá 46 ára að aldri. Fráfall hans var gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Miklar vonir voru bundnar við forsetann sem tákn nýrra tíma og andlát hans var því mikið reiðarslag. Lyndon Baines Johnson varaforseti, tók svo formlega við embætti sem 36. forseti Bandaríkjanna, um borð í forsetaflugvélinni.
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti. Hún hafði setið í forsæti ríkisstjórnar Bretlands í ellefu ár - varð að víkja vegna ágreinings um störf hennar innan eigin flokks.
1997 Kristinn Björnsson, frá Ólafsfirði, sem þá var 25 ára, varð í öðru sæti á heimsbikarmóti í svigi í Park City í Utah-fylki. Um var þá að ræða besta árangur Íslendings í skíðaíþróttum fram að þeim tíma.

Snjallyrðið
Being prime minister is a lonely job... you cannot lead from the crowd.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

ISG og Össur

Í gær birtist ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Samfylkingin dalar þar á meðan að VG og Sjálfstæðisflokkur styrkja stöðu sína. Sjálfstæðisflokkurinn hlyti 38,7%, Framsóknarflokkurinn hlyti 9,9%, Frjálslyndi flokkurinn 3,4%, Samfylkingin 29,4% og VG 18,2%. Þetta hlýtur að vera vonbrigði fyrir Samfylkinguna - enda sér maður að margir þar innanborðs eiga erfitt með að leyna gremju sinni. Aðrir þegja bara - fúlir með stöðuna. Í dag er hálft ár liðið frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Staðan hefur legið sífellt niður á við allan þennan tíma - engin uppsveifla hefur orðið í flokknum. Þetta er auðvitað merkilegt í því ljósi að þessi flokkur hefur aldrei setið í stjórn og hefur markvisst spilað vinsældapólitík. En kannski er það einmitt það sem hefur snúist í höndum flokksins og ISG. Pópúlismi endar oft þannig að fólk verður ótrúverðugt. Ég tel að þetta sjáist vel í almennri stjórnmálaumræðu að undanförnu þar sem vandræðagangur Samfylkingarinnar bæði kemur vel og kristallast í vinnubrögðum innbyrðis.

Tölur í skoðanakönnunum hljóta að vera Ingibjörgu Sólrúnu og stuðningsmönnum hennar í formannskjörinu fyrr á árinu allnokkur vonbrigði. Varla bjuggust stuðningsmennirnir við því að formennska hennar myndi skila um tíu prósent lægra fylgi næstu mánuðina á eftir? Varla. En sú er nú samt raunin. Vandræðagangur Ingibjargar Sólrúnar virðist vera algjör staðreynd sé fyrsta hálfa árið metið nú þegar hún hefur setið á stólnum nákvæmlega í sex mánuði. Ingibjörg Sólrún hefur enda átt verulega erfitt með að fóta sig á sviðinu eftir að hafa loks fengið að leiða þennan flokk. Henni virðist sérstaklega reynast erfitt að fóta sig pólitískt eftir að Davíð fór úr stjórnmálum. Öll hennar stjórnmálabarátta seinustu árin, eftir að hún kom aftur inn í landsmálin, eftir misheppnaða útgöngu úr hlutverki sameiningartákns R-listans (sem lauk með harkalegum hætti) hefur enda miðast við andstöðuna við Davíð Oddsson. Hún hefur allan þann tíma reynt að skáka Davíð. Henni hefur ekki tekist það og er vandræðaleg eftir brotthvarf hans.

Óhætt er að segja svo að gullkorn hafi fallið á þingi í vikunni þegar að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, svaraði gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar um verkefnaleysi ríkisstjórnarinnar í þingmálum - sakaði Ingibjörg Sólrún stjórnina um að eiga erfitt með að leggja mál sín fram. Þessu svaraði forsætisráðherra með góðu háði. Ummæli hans kölluðu fram hlátur þingmanna - á meðan var formaður Samfylkingarinnar ekki brosmild. Hún var ekki glöð - ólíkt flestum þingmönnum sem áttu erfitt með að verjast hlátri. Með þessu tókst forsætisráðherra að afvopna málflutning formanns Samfylkingarinnar og ekki síður að gera hana hlægilega í augum þingmanna - og áhugamanna um stjórnmál. Eins og kannanir eru að sýna okkur þessa dagana er vandræðagangur Samfylkingarinnar og leiðtoga hennar orðinn öllum sýnilegur. Kannanir eru vissulega bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í könnunum seinasta hálfa árið.

Staða mála í þeim mælingum liggur fyrir. Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún heldur á forystukeflinu hjá þessum flokki. Væntanlega setur hún allt sitt í að reyna að rétta kúrsinn fyrir næstu kosningar - hún leggur jú allt í þær kosningar. Enda veit hún að sénsarnir verða vart fleiri misheppnist sú pólitíska forysta sem hún leggur þá í dóm landsmanna. Þá er hætt við að þeir sem studdu hana til forystusessins og töluðu svo digurbarkalega um forna sigra hennar leiti í aðrar áttir eftir einhverjum til að mæra til forystu í Samfylkingunni.

Ariel Sharon

Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, baðst í dag lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Hann gekk á fund Moshe Katsav forseta Ísraels, og bað hann um að rjúfa þing og boða kosningar fljótlega. Skömmu síðar tilkynnti Sharon opinberlega að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið, sem hann hefur leitt frá árinu 1999. Hann var einn af stofnfélögum í flokknum árið 1973 og verið lykilforystumaður innan hans alla tíð. Sharon, sem er 77 ára gamall, er ekki að víkja af pólitísku sviði með þessu. Hann hyggur á stofnun nýs stjórnmálaflokks. Vinna við stofnun nýja flokksins mun vera komin á fullt. Sharon, sem verið hefur forsætisráðherra Ísraels í tæp fimm ár, leggur margt að veði með því að boða fyrr til kosninga en ella og að segja skilið við Likud-bandalagið.

Reyndar var stjórn hans fallin - hafði misst þingstyrk sinn - en Sharon leggur allt að veði með því að segja skilið við grunnstöð sína í stjórnmálabaráttu. Er augljóst að hann ætlar með þessu að einangra harðlínumenn innan Likud og ná miðjunni á sitt vald á meðan að Verkamannaflokkurinn er á greinilegri vinstrisiglingu eftir að lítt þekktur verkalýðsleiðtogi varð foringi flokksins nýlega. Heppnist þessi leikflétta Sharons mun blasa við gjörbreytt pólitískt landslag á komandi árum.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, átti sína bestu viku á forsætisráðherraferlinum að mínu mati í síðustu viku. Það er orðið mjög merkilegt að sjá hvernig Halldóri er að takast að snúa áður lánlausri stöðu sér nú í vil. Svo virðist sem að formaður Samfylkingarinnar hafi tekið við hinu mikla lánleysi sem áður einkenndi Halldór. Nú yfirfærist það yfir á Ingibjörgu Sólrúnu. Eru annars ekki allir sammála um það að ISG er orðin pólitískt aðhlátursefni? Það blasir við flestum. Væntanlega eru helstu flokkshestar Samfylkingarinnar ekki sammála þessu af skiljanlegum ástæðum. Ég hélt að ég myndi seint hrósa Halldóri beint. En ég ætla að gera það. Hann hitti í mark í gær að mínu mati. Hann afvopnaði gagnrýni Spaugstofunnar í sinn garð og talið um að hann væri í fýlu yfir því að Pálmi hermdi eftir honum og fengi Edduna fyrir. Hvað gerði Halldór? Jú, hann mætti í afmælishóf Spaugstofumanna í Þjóðleikhúskjallaranum - flutti skondna ræðu og heillaði salinn og þjóðina um leið. Þar allt að því losaði hann sig við neikvæðu áruna sem yfir honum hefur verið. Hann er greinilega að ná sér á strik.

Helmut Schmidt og dr. Kristján Eldjárn

Í síðustu viku kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggist bókin á minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980. Er þar sjónum einkum beint að inngripi hans í stjórnarmyndanir í forsetatíð sinni. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir Kristjáni Eldjárn. Þar fór maður sem kunni að feta millistig í innri deilum í þjóðfélaginu. Hann leiddi átakamálin til lykta. Niðurstaðan er sú að hann virkar í sögubókunum hafa verið óumdeildur forseti sem sameinaði landsmenn í pólitískum og þjóðfélagslegum átökum. Eins og sést af bók Guðna og hinni snilldarvel rituðu ævisögu Gylfa Gröndal um Kristján tók hann á stórum átakamálum. Hann leysti þau með sóma. Hinsvegar þurfti hann að vera forseti á átakatímum í stjórnmálum. Það var stanslaus stjórnarkreppa öll seinustu misseri forsetatíðar Kristjáns og þurfti í raun að vera sá sem hélt á stjórnmálalitrófinu. Það gerði hann með sóma - svo leitun er að faglegri vinnubrögðum. Enda á forseti að vinna með þeim hætti að meirihluti þingsins ráði för við myndun stjórna og fara á ella eftir stærð flokka við myndun þeirra.

Akureyri

Á laugardag kom stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna saman á Akureyri og fundaði. Ennfremur komu þar saman formenn aðildarfélaga í SUS og fóru yfir málin á formannaráðstefnu SUS. Var þar farið yfir málefni Norðausturkjördæmis, innra starfið í ungliðahreyfingunni og málefni Sjálfstæðisflokksins. Kl. 16:00 hófst opinn fundur á Hótel KEA á Akureyri, sem fjallaði um kosti einkaframkvæmdar í samgöngum. Framsöguerindi flutti Pétur Þór Jónasson formaður Greiðrar leiðar, félags um göng undir Vaðlaheiði. Eftir fróðlega kynningu hans á málinu gafst fundarmönnum kostur á að spyrja og tjá sínar skoðanir. Var þetta góð og skemmtileg helgi og ánægjulegt fyrir okkur forystufólk í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, að fá forystumenn SUS og aðildarfélaga sambandsins hingað norður til fundahalda. Mikilvægt er að hlúa að landsbyggðarstarfinu og er ljóst að fundahald ungliða á landsbyggðinni skiptir máli - í aðdraganda tveggja mikilvægra kosninga.


Að lokum vil ég í dag minna á hina vel heppnuðu endurútgáfu Þorvaldar Bjarna og Einars Bárðarsonar á laginu Hjálpum þeim, eftir Axel Einarsson og Jóhann G. Jóhannsson. Það var vel til fundið hjá þeim að taka upp lagið að nýju. Það er sígilt - á sama erindi til landsmanna nú og það gerði fyrir tveim áratugum. Hvet ég alla til að hlusta á lagið á tonlist.is og auðvitað að kaupa geisladiskinn þegar hann kemur út - og styrkja verðugt málefni.

Saga dagsins
1974 Sprengja grandar 21 manns í sprengjuárás IRA í Birmingham - 6 einstaklingar voru sakfelldir fyrir að hafa átt aðild að verknaðinum en sakleysi þeirra var staðfest árið 1991. Málið varð aldrei upplýst.
1975 Gunnar Gunnarsson skáld, lést, 86 ára að aldri - Gunnar var eitt helsta skáld Íslands á 20. öld. Meðal þekktustu verka Gunnars á löngum ferli voru Saga Borgaraættarinnar, Svartfugl og Fjallkirkjan.
1985 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, hittust á leiðtogafundi í Genf í Sviss - fundurinn var upphaf að ferlinu sem leiddi til endaloka kalda stríðsins.
1995 Leiðtogar Bosníu-Herzegóvínu, Króatíu og Serbíu sömdu um frið í Bosníu á fundi í Dayton.
2002 NATO samþykkir formlega aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu að bandalaginu - aðild þessara fyrrum kommúnistaríkja tók formlega gildi hinn 1. apríl 2004.

Snjallyrðið
Every young man would do well to remember that all successful business stands on the foundation of morality.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um bæjarmálin í kjölfar ákvörðunar minnar að sækjast eftir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins við komandi bæjarstjórnarkosningar. Fer ég yfir ástæður þess að ég gef kost á mér og sækist eftir því að vera áberandi í bæjarmálum af hálfu flokksins. Þessi ákvörðun kemur varla fólki sem hefur fylgst með mér í stjórnmálastarfi, þekkir mig og verk mín, á óvart. Segja má að á seinustu árum hafi stjórnmálaþátttaka verið mín þungamiðja í lífinu. Ég hef unnið að því að styrkja flokkinn og stoðir hans í flokksstarfinu hér með mikilli vinnu og verið áhugasamur í þeim efnum. Það er viðeigandi að ég láti nú reyna á stöðu mína og sem formaður flokksfélags í bænum sem hefur verið vel sýnilegt er eðlilegt að maður hafi metnað fyrir sér í þá átt að hljóta ábyrgðarfyllri og öflugri verkefni en verið hefur. Ég hef verið mjög öflugur í innra starfinu í Sjálfstæðisflokknum – það er því auðvitað mjög eðlilegt að áhugi sé fyrir því af minni hálfu að sækja fram og óska eftir stuðningi og trausti til frekari verkefna.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Svo virðist vera að flokkurinn sé í frjálsu falli eftir að Ingibjörg Sólrún tók við formennsku. Hefur hún nú verið á þeim stóli í hálft ár og ljóst að flokkurinn dalar markvisst undir hennar stjórn. Í dag birtist ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Samfylkingin dalar þar enn. Þetta hlýtur að vera vonbrigði fyrir Samfylkinguna - enda sér maður að margir þar innanborðs eiga erfitt með að leyna gremju sinni. Aðrir þegja bara - fúlir með stöðuna. Í dag er hálft ár liðið frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Staðan hefur legið sífellt niður á við allan þennan tíma - engin uppsveifla hefur orðið í flokknum. Þetta er auðvitað merkilegt í því ljósi að þessi flokkur hefur aldrei setið í stjórn og hefur markvisst spilað vinsældapólitík. En kannski er það einmitt það sem hefur snúist í höndum flokksins og ISG. Pópúlismi endar oft þannig að fólk verður ótrúverðugt.

- í þriðja lagi fjalla ég um þáttaskil í fréttamennsku hérlendis með tilkomu hinnar nýju fréttastöðvar, NFS, sem hóf útsendingar í vikunni. Það virðist vera mikill ferskleiki á nýju stöðinni – góður mannskapur heldur allavega vel á þessu verkefni og hefur stöðin vakið óskipta athygli fréttaþyrstra landsmanna. Óska ég nýrri stöð velfarnaðar og vona að henni muni ganga vel í samkeppninni.


John F. Kennedy
1917-1963


John F. Kennedy (1917-1963)

Á þriðjudag eru liðin 42 ár frá því að John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið.

Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt 42 ár séu liðin frá morðinu á forsetanum. Fyrir tveim árum, þegar fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á Kennedy forseta, birtist á vef Heimdallar ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi hans. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1955 ritaði Kennedy bókina Profiles in Courage. Í henni ræðir hann um menn sem á örlagastundu sýna hugrekki og siðferðisþrek.

Í bókinni segir hann frá ákvörðunum manna sem þorðu að standa við skoðanir sínar og gjörðir, hvað svo sem það í raun kostaði. Enginn vafi er á því að í þessari bók er að finna lykilinn að lífsskoðun John F. Kennedy, þ.e. að gera verði það sem samviskan býður hverjum manni. Fyrir bók sína hlaut Kennedy, Pulitzer verðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Kennedy sigraði Richard Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli eins og fyrr segir í rúmlega 1000 daga, ferlinum lauk með hörmulegum hætti í Dallas í Texas. Hann kvæntist í september 1953, Jacqueline Bouvier. Þau eignuðust tvö börn, Caroline (1957) og John Fitzgerald yngri (1960). John Fitzgerald Kennedy var jarðsunginn í Washington, 25. nóvember 1963. Var hann jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington. Á gröf hans lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.

Saga gærdagsins
1875 Thorvaldsensfélagið, elsta kvenfélag í Reykjavík, var stofnað til að sinna mannúðarmálefnum.
1946 Ísland fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum er gengið var að sáttmála þeirra í kosningu á þingi.
1959 Auður Auðuns tók við embætti borgarstjóra í Reykjavík, fyrst kvenna - hún varð ráðherra fyrst kvenna árið 1970. Auður sat í borgarstjórn Reykjavíkur 1946-1970 og var forseti borgarstjórnar 1954-1959 og 1960- 1970. Auður var alþingismaður fyrir Reykjavík árin 1959-1974. Hún lést í október 1999.
1974 Geirfinnur Einarsson hvarf í Keflavík - þar með hófst rannsókn eins umfangsmesta sakamáls 20. aldarinnar. 1977 lágu fyrir játningar þriggja manna um að hafa ráðið honum bana. Dómur yfir þeim var kveðinn upp í Hæstarétti 1980. Sakborningar í málinu hafa síðan neitað því að hafa ráðið Geirfinni bana. Hæstiréttur hafnaði 1998 beiðni þeirra um endurupptöku málsins. Lík Geirfinns fannst aldrei.
1977 Anwar Sadat forseti Egyptalands, verður fyrstur leiðtoga Araba til að fara í opinbera heimsókn til Ísraels. Hann fór þangað eftir að Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, bauð Sadat formlega. Í ferð sinni til Ísraels ávarpaði Sadat ísraelska þingið, Knesset. Þessi ferð forsetans varð upphafið að friðarferli milli Ísraels og Egyptalands og sömdu leiðtogar landanna um frið formlega í Camp David 1978 - friðarviðleitanir Sadats kostuðu hann lífið, öfgamenn myrtu forsetann á hersýningu í október 1981.

Saga dagsins
1945 Réttarhöld yfir 24 af háttsettustu nasistaforingjunum hefjast í bænum Nürnberg í Þýskalandi.
1959 Viðreisnarstjórnin, samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Ólafs Thors tekur við völdum. Þetta var fimmta og síðasta ráðuneytið undir forsæti Ólafs á löngum ferli. Stjórnin sat með nokkrum breytingum í 11 ár og 236 daga, lengur en nokkur önnur ríkisstjórn í sögu landsins.
1975 Francisco Franco einræðisherra á Spáni, deyr, 82 ára að aldri - hann hafði ríkt frá árinu 1936.
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, mistekst að hljóta tilskilinn meirihluta atkvæða í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins. Thatcher baðst lausnar frá embættum sínum tveim dögum síðar.
1995 Díana prinsessa af Wales, tjáði sig ítarlega um skilnað sinn í sögulegu viðtali í Panorama á BBC.

Snjallyrðið
The young man knows the rules, but the old man knows the exceptions.
Oliver Wendell Holmes rithöfundur (1809-1894)


Engin fyrirsögn

Dr. Angela Merkel

Ný ríkisstjórn Þýskalands tekur við völdum á þriðjudag í kosningu á þýska þinginu. Í dag var stjórnarsáttmáli nýrrar stjórnar undir forsæti Angelu Merkel leiðtoga CDU, undirritaður. Með því er stjórnarkreppunni í landinu lokið. Í dag eru tveir mánuðir frá þingkosningum í Þýskalandi. Ljóst varð strax að eina stjórnarmynstrið sem gæti fúnkerað af krafti væri samstjórn íhaldsmanna og krata. Og það varð niðurstaðan. Stóra samsteypa - eða grosse koalition - tekur völdin. Grosse koalition hefur ekki setið í Þýskalandi frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það verða því óneitanlega gríðarleg þáttaskil með valdatöku hennar í næstu viku. Eins og fram kom í vikunni marka stjórnarskiptin þáttaskil fyrir þýska Jafnaðarmannaflokkinn. Gerhard Schröder kanslari Þýskalands í rúm sjö ár, lætur af völdum við valdaskiptin. Hann verður ekki í stjórn Merkel og víkur af hinu pólitíska sviði. Hefur Matthias Platzeck kjörinn leiðtogi SPD. Mun Franz Müntefering, forveri hans á leiðtogastóli, verða varakanslari Þýskalands.

Óhætt er að segja að stjórnarsáttmálinn sé ítarlegur - hann er ritaður á alls 190 blaðsíður. Hefur hann að geyma áætlanir um hvernig standa skuli að því að rétta við viðskiptahalla Þýskalands. Stendur til að hækka virðisaukaskatt um 3% - úr 16% upp í 19% á árinu 2007. Ennfremur koma fram áætlanir um að standa fyrir fjárfestingarátaki upp á fjölda milljarða evra til að koma hagvexti landsins á skrið. Á þriðjudaginn fara Merkel og leiðtogar hinna tveggja flokkanna fyrir þingið og kynna stjórnina og sáttmálann formlega fyrir þingmönnum. Þar verður kosning um það. Jafnframt verður kanslari kjörinn. Mun þar með Merkel taka við embættinu. Kaldhæðnislegt er að hún tekur við embætti 22. nóvember, en þann dag eru fimmtán ár liðin frá því að eitt helsta átrúnaðargoð hennar í stjórnmálum, járnfrúin Margaret Thatcher baðst lausnar frá forsætisráðherraembættinu í Bretlandi. Mörg verkefni blasa við Merkel í embættinu - sem fyrsta konan á kanslarastóli í Þýskalandi. Stuðningsmenn binda vonir við að hún standi sig vel - andstæðingarnir vona að hún misstígi sig.

Eitt er víst: vel verður fylgst með verkum hennar og stjórnarinnar fyrstu 100 dagana - hætt er þó við að fjölmiðlar veiti stóru samsteypu fáa hveitibrauðsdaga.

Akureyri

Í dag kynnti stýrihópur á vegum Akureyrarbæjar í umhverfisráði tillögur sínar um nýjan miðbæ. Þessar tillögur eru umfram allt unnar upp úr þremur bestu verðlaunatillögunum úr íbúaverkefninu Akureyri í öndvegi. íbúaþing var haldið 18. september 2004 í Íþróttahöllinni og þar komu bæjarbúar saman og tjáðu skoðanir sínar á málefnum miðbæjarins. Á þingið mættu um 10% bæjarbúar eða um 1.500 manns. Helsta breytingin ef marka má tillögurnar er að síki verður grafið frá sjónum upp í gegnum miðbæinn. Íþróttavöllurinn mun víkja fyrir útivistarsvæði og íbúabyggð. Um 330 íbúðir verða reistar á þessu svæði - jafnframt mun rísa stórmarkaður í miðbænum - annaðhvort milli Skipagötu og Glerárgötu eða á Sjallareitnum. Ekki er gert ráð fyrir háhýsabyggð en nokkur mannvirki verða þó reist á svæðinu. Er um að ræða byggð upp á hámarkshæð 5-6 hæðir. Bæjarsjóður gerir á fjárhagsáætlun sinni ráð fyrir um 50 milljónum króna í undirbúningsvinnu en breytingarnar við síkið, gatnagerð og niðurrif húsa gætu kostað bæinn um rúmlega 500 milljónir króna.

Ef marka má tillögurnar er ekki gengið eins langt og í vinningstillögunni sem hafði gert ráð fyrir að fjarskiptahjarta bæjarins hefði orðið að flytja til: t.d. jarðlagnir og aðstöðu Símans. Mér líst vel á þessar tillögur - verður áhugavert að sjá þær verða að veruleika.

Akureyrarkirkja

Í gær voru liðin 65 ár frá vígslu Akureyrarkirkju. Í tilefni afmælis kirkjunnar verður hátíðarmessa í kirkjunni sunnudaginn 20. nóvember nk. klukkan 14:00. Í hátíðarmessunni verður frumflutt nýtt tónverk, "Da pacem Domine" eftir Jón Hlöðver Áskelsson, sem hann samdi að beiðni Listvinafélags Akureyrarkirkju. Verkið er skrifað fyrir kór, orgel og málmblásara. Það er Kór Akureyrarkirkju sem frumflytur verkið en á þessu ári minnist kórinn þess að 60 ár eru liðin frá stofnun hans. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson predikar en sr. Svavar A. Jónsson, sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Valgerður Valgarðsdóttir djákni þjóna fyrir altari. Að messu lokinni verður Kvenfélag Akureyrarkirkju með kaffisölu og lukkupakkasölu í Safnaðarheimilinu. Ég hvet alla til að mæta - við sem unnum kirkjunni okkar fallegu og trúarstarfinu hér í bæ munum mæta.

NFS

Í dag hóf ný fréttastöð 365-miðla, NFS, útsendingar. Er þetta mjög áhugaverð þáttaskil sem þarna verða í fréttamiðlun í íslenskum fjölmiðlum. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig muni ganga með stöðina. Sjá allir hversu miklar breytingar verða í fjölmiðlun með tilkomu fréttastöðvar í sjónvarpi sem muni ganga í 16 tíma á dag - með því halda úti fréttaveitu til landsmanna í gegnum daginn. Spyrja má sig að því hver tilgangur RÚV sé orðinn ef einkaaðilar geta haldið úti fréttaveitu með þessu tagi sem gengur allan daginn og getur með því haldið á almannavarnarhlutverkinu sem RÚV hefur jafnan haft. Með tilkomu fréttastöðvar af þessu tagi er komin fréttaveita sem haldið getur á stórfréttum allan sólarhringinn, hvað svo sem RÚV gerir. Óska ég nýrri stöð velfarnaðar og vona að henni muni ganga vel í samkeppninni.

Saga dagsins
1709 Biskupsstofan á Hólum í Hjaltadal, brann til kaldra kola - tapaðist mikið af fornum dýrgripum.
1920 Sr. Matthías Jochumsson prestur, skáld og heiðursborgari á Akureyri, lést - viku áður á 85 ára afmæli sínu var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar og heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands. Matthías orti þjóðsöng Íslands, Lofsöng, og fjölda ljóða og samdi ennfremur fjölda leikrita.
1959 Kvikmyndin Ben-Hur í leikstjórn William Wyler frumsýnd - hún hlaut 11 óskarsverðlaun 1960.
1984 Jón Baldvin Hannibalsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins - hann sigraði Kjartan Jóhannsson sitjandi formann flokksins, en hann hafði setið á formannsstóli allt frá árinu 1980. Jón Baldvin var fjármálaráðherra 1987-1988 og utanríkisráðherra 1988-1995. Jón Baldvin varð sendiherra árið 1998.
1991 Terry Waite sleppt úr gíslingu hryðjuverkaafla í Beirút í Líbanon - honum hafði verið haldið frá árinu 1987, en hann hafði verið valinn til að vera samningamaður af hálfu breskra stjórnvalda til að reyna að leysa aðra gíslinga úr haldi. Hann var sjálfur hnepptur í varðhald, og sleppt seinast úr haldi.

Snjallyrðið
I love argument, I love debate. I don't expect anyone just to sit there and agree with me, that's not their job.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Sveitarstjórnarkosningar verða að vori. Í tilefni þess er fólk farið að velta fyrir sér málefnum baráttunnar og hvað það ætli að gera - hvort það verði í kjöri eður ei. Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þessa ákvörðun hef ég íhugað nokkuð lengi með sjálfum mér og hef nú tekið endanlega ákvörðun. Segja má að ég hafi sífellt færst nær ákvörðun. Í gærkvöldi má segja að þessi ákvörðun hafi orðið endanlega til. Auk þess hefur atburðarás í stjórnmálum hér innan flokksins seinustu daga fært mig nær endanlegri ákvörðun. Það er rétt að þessi ákvörðun liggi fyrir vel tímanlega og því er hún hér með tilkynnt á vef mínum - vel tímanlega.

Ég hef verið nokkuð lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum. Ég gekk í flokkinn árið 1993, nokkrum mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar og hef síðan unnið af miklum krafti fyrir flokkinn, fyrst á Dalvík og síðar hér á Akureyri. Ég hef verið virkur penni á fjölda vefsíðna tengdum flokknum til nokkurra ára - skrifað fleiri hundruð pistla um stjórnmál á seinustu árum og held úti persónulegum heimasíðum. Fyrir tveim árum var ég kjörinn stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna fyrir Norðausturkjördæmi og hef því unnið fyrir flokkinn á víðum vettvangi. Hlaut ég endurkjör í stjórnina í haust í kosningu á átakaþingi í Stykkishólmi. Hef ég nú nýlega svo tekið við ritstjórn á vef SUS.

23. september 2004 var ég kjörinn formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Áður hafði ég setið í stjórn félagsins og sinnt verkefnum fyrir það og flokkinn hér í bænum. En þessi ákvörðun liggur fyrir - það sem ekki liggur fyrir er hvernig valið verði á lista. Var ég í haust kjörinn í kjörnefnd flokksins í bænum sem tekur ákvörðun um val sem lagt er fyrir fulltrúaráðsfund. Tel ég ekki rétt að ég komi að þeirri ákvörðun og hef því í bréfi til Önnu Þóru Baldursdóttur formanns nefndarinnar, beðist lausnar úr henni. Bíð ég nú formlegrar ákvörðunar kjörnefndar og fulltrúaráðs um hvernig listinn verði valinn.

En ég gef semsagt kost á mér - nú hefst baráttan af alvöru. Ég er til í slaginn og vil vinna af krafti fyrir flokkinn hér í bænum. Ég vil gera það í fremstu víglínu ekki sem þögull áhorfandi að þessu sinni. Hlakkar mér til kosningabaráttunnar sem framundan er - við höfum góða stöðu við sjálfstæðismenn - góð verk og farsæla forystu seinustu ára að bjóða kjósendum. Hef ég áhuga á að taka þátt í þeirri baráttu af heilum hug.

Stefán Friðrik Stefánsson
formaður Varðar

Saga dagsins
1913 Fréttamyndir, hinar fyrstu íslensku, birtust í Morgunblaðinu. Voru dúkristur sem voru gerðar til skýringar á frétt um morð í Dúkskoti í Reykjavík, þar sem kona eitraði fyrir bróður sínum í mat hans.
1940 Akureyrarkirkja, minningarkirkja sr. Matthíasar Jochumssonar heiðursborgara Akureyrar, vígð - hún var þá langstærsta guðshús landsins og rúmaði rúmlega 500 manns í sæti. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna og réð umhverfi hennar. Upp að henni liggja um 100 tröppur.
1983 Mikligarður, stærsta verslun landsins á þeim tíma, opnuð í Reykjavík - verslunarrýmið var 4.700 fermetrar. Mikligarður sem var rekinn af SÍS fór á hausinn 1993 - þar er nú fjöldi mun minni verslana.
1988 Linda Pétursdóttir, 18 ára menntaskólanemi frá Vopnafirði, var kjörin Ungfrú Heimur í London.
2000 Þjóðþing Perú sviptir Alberto Fujimori embætti forseta landsins, eftir 10 ára setu á þeim stóli.

Snjallyrðið
In order to become the master, the politician poses as the servant.
Charles De Gaulle forseti Frakklands (1890-1970)


Engin fyrirsögn

Pallborðsumræður

Helgi Vilberg tók þessa fínu mynd af pallborðsumræðunum í Kaupangi í gærkvöldi fyrir Íslending - mátti til með að birta hana hér á vefnum. (Kristján Þór, ég, Sigrún Björk, Þóra og Jóna)

Þóra Ákadóttir gefur ekki kost á sér

Þóra Ákadóttir

Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, hefur gefið út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Ég hef tilkynnt félögum mínum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til endurkjörs í bæjarstjórnarkosningunum að vori.

Stjórnmálaafskipti mín hófust með því að taka sæti á framboðslista sjálfstæðismanna árið 1998 og ná kjöri sem varamaður í bæjarstjórn. Árið 2001 tók ég sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn og var þá kjörin forseti hennar. Í kosningunum 2002 skipaði ég annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins og hef verið forseti bæjarstjórnar frá upphafi kjörtímabilsins auk þess að vera varaformaður félagsmálaráðs og varamaður bæjarráðs, framkvæmdaráðs og fasteigna Akureyrar.

Vissulega kom til álita að halda áfram þessu stjórnmálastarfi enda er það bæði gefandi og skemmtilegt. Niðurstaðan var hins vegar sú að láta gott heita þegar yfirstandandi kjörtímabili lyki og gefa þar með öðrum færi á að spreyta sig á vettvangi bæjarmálanna. Sjálfstæðismenn eru í forystu á Akureyri og það er tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að leggja verk okkar í dóm kjósenda.

Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í að kynna starf og stefnu sjálfstæðismanna, stuðla að því að flokkurinn fái sem glæsilegast brautargengi í kosningunum 2006 og leggja flokknum áfram lið eftir mætti.
"

Þóra Ákadóttir

Ég vil er þessi yfirlýsing liggur fyrir þakka Þóru Ákadóttur fyrir gott samstarf í bæjarmálum hér á Akureyri. Ég hef þekkt Þóru mjög lengi. Meðan ég bjó á Dalvík var hún búsett þar og leiðir okkar hafa því mjög lengi legið saman. Þóra er mikil heiðurskona sem hefur unnið vel og dyggilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn - sinnt þar lengi miklum verkefnum og skilað þeim öllum með mjög miklum sóma. Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð undrandi á þessari ákvörðun Þóru en virði hana að sjálfsögðu.

Þóra hefur verið í forystusveit okkar sjálfstæðismanna í tvö kjörtímabil. Hún tók sæti í bæjarstjórn fyrir fjórum árum er Valla (Valgerður Hrólfsdóttir) lést eftir erfið veikindi. Það var okkur áfall að missa Völlu, en hún tapaði erfiðri baráttu fyrir ólæknandi sjúkdómi, langt um aldur fram. Þóra hefur síðan verið enn meira áberandi í forystunni og varð svo forseti bæjarstjórnar er Sigurður J. Sigurðsson hætti í bæjarmálum síðla árs 2001 - skipaði svo annað sætið í kosningum 2002.

Þóra hefur sinnt þessum forystuverkum með glæsilegum hætti - hún kom inn í bæjarmálin í sigursveitinni 1998 - þegar við unnum af krafti fyrir forystuskiptum. Hún kom í bæjarstjórn svo á erfiðum tímamótum fyrir flokkinn og tók sæti Völlu með miklum sóma við þær erfiðu aðstæður sem fyrr er lýst. Hún hefur stýrt bæjarstjórn með tignarlegum hætti og sett svip á fundi bæjarstjórnarinnar. Ég vil þakka Þóru fyrir öll góðu samskiptin á þessum árum - góða viðmótið hennar, trygglyndið og heiðarleikann sinn sem hún hefur sett í öll verkefni sín.

Hún er heiðurskona sem hefur verið forréttindi að vinna með - við njótum krafta hennar áfram en með öðrum hætti. Kærar þakkir fyrir allt Þóra mín!

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins á Akureyri lauk í gærkvöldi. Seinasta kvöld skólans hófst með fyrirlestri Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, um stjórnskipan og stjórnsýslu. Fór hann yfir fjölda málefna í ræðu sinni og vék sérstaklega talinu að endurskoðun stjórnarskrár og málefni 26. greinarinnar eftir að forseti Íslands synjaði lagafrumvarpi staðfestingar sumarið 2004. Eins og kunnugt hefur Sjálfstæðisflokkurinn á landsfundi sínum ályktað um að efnisatriði greinarinnar skuli falla úr gildi við endurskoðunina. Urðu miklar umræður um málið og fékk Björn margar góðar spurningar frá fundarmönnum. Að loknu hléi fóru fram pallborðsumræður undir minni stjórn um bæjarmál.

Stýrði ég fundi - erindi fluttu Kristján Þór Júlíusson, Þóra Ákadóttir, Sigrún Björk Jakobsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Kristján Þór fór yfir málefni kjörtímabilsins, Þóra fór yfir heilbrigðis- og öldrunarmál, Sigrún Björk um fjölskyldu- og menntamál og Jóna (sem á sæti í áfengis- og vímuvarnanefnd) fór yfir málefni fíkniefnavandans sem hefur verið til umræðu hér í bæ á seinustu mánuðum og leiðir til lausnar honum. Eftir framsögur stýrði ég fyrirspurnartíma. Flestar spurningar fékk að sjálfsögðu leiðtogi okkar, Kristján Þór bæjarstjóri. Voru líflegar og góðar umræður um bæjarmálin.

Að þeim loknum, á ellefta tímanum sleit Kristján Þór skólanum - en þetta var sjötta og seinasta kvöldið á velheppnuðu námskeiði um stjórnmál. Þakka ég öllum þeim sem komu fyrir góða samveru og góð kynni - margir komu nýir til leiks í starfið þarna og var gaman að kynnast þeim. Þetta verður skemmtilegur kosningavetur tel ég.

Saga dagsins
1907 Stytta af Jónasi Hallgrímssyni afhjúpuð í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Styttan var eftir Einar Jónsson. Fyrst sett upp við Amtmannsstíg en síðar flutt í Hljómskálagarðinn.
1946 Jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar skálds, voru lagðar í moldu í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, á afmælisdegi hans. Jarðneskar leifar Jónasar lágu í kirkjugarði í Danmörku frá 1845.
1957 Nonnahús á Akureyri opnað sem safn er 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Hann fór ungur til útlanda til náms og kom tvisvar eftir það heim, 1894 og 1930. Jón lést árið 1945.
1995 Dægurlagasöngkonan Elly Vilhjálms, lést, sextug að aldri - Elly var ein af allra bestu söngkonum landsins í fjöldamörg ár. Elly var árið 1999 valin besta söngkona aldarinnar í aldamótakönnun Gallups.
1996 Dagur íslenskrar tungu var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur. Efnt var þá til málræktarþings og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent fyrsta sinni, þau hlaut þá Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur.

Snjallyrðið
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða þetta og hitt sem er og var
og hún á orð sem geyma gleði og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú
það gerir enginn nema ég og þú.
Þórarinn Eldjárn rithöfundur (1949) (Íslenskt mál)


Engin fyrirsögn

Gerhard Schröder

Þáttaskil verða brátt í þýskum stjórnmálum. Stjórnmálaferli þýska kratans Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, lýkur í næstu viku. Hann mun þá láta af kanslaraembætti og afhenda Angelu Merkel leiðtoga CDU, völdin. Þann 22. nóvember nk. mun hin stóra samsteypa, ríkisstjórn krata og íhaldsmanna, taka við völdum. Schröder kvaddi pólitíska sviðið í gær á fundi SPD í Karlsruhe. Hann var þar hylltur sem þjóðhetja og talaði af sannfæringarkrafti í sinni síðustu pólitísku ræðu. Þáttaskil verða við brotthvarf Schröders. Hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Hann vann nauman sigur í kosningunum 2002. Lengi vel þeirrar kosninganætur var útlit fyrir að Schröder missti völdin en fylgisaukning græningja undir lok talningarinnar gerði það að verkum að stjórnin hélt velli. Schröder háði erfiðan slag seinustu misseri valdaferils síns. Hann neyddist til að boða til kosninga í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí.

Hann lagði mikið undir - tókst að auka fylgi SPD en ekki að halda sér í kanslarastólnum. Úrslit kosninganna voru viss varnarsigur fyrir kratana, en engu að síður náði hann ekki að halda stöðu sinni. Stjórnin féll og með því féll yfirburðastaða hans í þýskum stjórnmálum. Fljótt varð ljóst eftir kosningarnar að Schröder gæti ekki tekist að halda kanslarastólnum nema sækjast eftir samstarfi við íhaldsmenn. Á þeim bænum kom aldrei til greina að krati leiddi stjórnina, síst af öllu Schröder. Merkel sóttist eftir stólnum, enda voru kristilegir demókratar með stærri þingflokk en kratarnir. Svo fór að kratarnir urðu að fórna Schröder. Greinileg eftirsjá er á honum við þessi þáttaskil, en nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um þennan litríka stjórnmálaleiðtoga þýskra krata. Við Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni. Merkel hefur tekist að landa stjórnarsamstarfinu - með miklum fórnum tókst henni að binda hnútana saman. En hún getur samt sem áður glaðst yfir þeim sigri að ná kanslarastólnum, fyrst kvenna.

Í dag var svo Matthias Platzeck kjörinn leiðtogi SPD á þinginu í Karlsruhe. Er hann frá A-Þýskalandi eins og Merkel. Eru mun meiri líkur á farsælu samstarfi SPD og CDU eftir þessar breytingar en þótti áður. Þau þykja um margt lík og geta unnið vel saman. Framundan eru því umbrotatímar fyrir hina sterku samsteypu - margar pólitískar áskoranir.

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er að vakna upp við breytt pólitískt landslag eftir auðmýkjandi tap sitt í breska þinginu um daginn. Hann er að átta sig á því að honum tekst ekki að halda völdum mikið lengur nema bugta sig og beygja fyrir þingmönnum flokksins á aftari bekkjunum. Það er vissulega beiskt fyrir hann að uppgötva það. Hann hefur enda jafnan farið eigin leiðir og keyrt á sínum hraða. Það er ekki freistandi fyrir hann að keyra á annarra hraða í gegnum heimasvæði sitt í pólitík. Eins og vel hefur komið fram krefst órólega deildin í flokknum þess að hann hlusti á þá og vinni með þeim að málum. Það hefur skort. Staðan hefur hinsvegar breyst - þessi hópur hefur oddaatkvæði sem Blair þarf eigi hann að geta setið með einhverjum sóma fyrir sig næstu árin. Blair er að átta sig á því að harði tónninn sem hann sló í seinustu viku en var gerður afturreka með dugar ekki lengur. Annars er flokkurinn að því er virðist í mikilli krísu - stjórnin segir eitt en hópur óánægðra annað. Það er bara spurning um tíma hvenær þetta grasserar meira en orðið er. Blair var allavega tekinn í gegn um daginn og þá kynntist hann hvað hefur breyst og hvað hann þarf að gera til að halda sér áfram á pólitíska landakortinu.

Shimon Peres

Mörgum að óvörum beið Shimon Peres leiðtogi Ísraelska Verkamannaflokksins, ósigur í leiðtogakjöri í síðustu viku fyrir hinum nær óþekkta verkalýðsleiðtoga Amir Peretz. Peres, sem er kominn á níræðisaldur, hefur lengi verið einn af litríkustu leiðtogum flokksins. Það hefur hinsvegar lengi háð honum að honum hefur aldrei tekist að leiða flokkinn til sigurs í kosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Arafat og Rabin árið 1994. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir verk sín í stjórnmálum. Heima fyrir hefur hann alltaf verið umdeildur. Það má segja að myndin hér að ofan sem tekin var á minningarathöfn vegna þess að áratugur væri liðinn frá morðinu á Rabin tali vel sínu máli - Shimon Peres hefur jú alltaf verið í skugga hins öfluga leiðtoga Rabins. Hans verður minnst að lokum fyrir verk sín - en að hafa aldrei tekist að komast úr skugga hans heima fyrir.

Háskólinn á Akureyri (Borgir)

Í sunnudagspistli mínum um helgina fjallaði ég um málefni Háskólans á Akureyri. Þakka ég fyrir þau góðu viðbrögð sem pistillinn fékk eftir birtingu á sunnudaginn. Fékk ég fjölda tölvupósta frá ýmsu fólki og góðar ábendingar á efnið - er ég ánægður með þau viðbrögð og skoðanaskipti um HA. Það er alveg ljóst að við hér fyrir norðan megum ekki vera sofandi á verðinum hvað varðar stöðu Háskólans á Akureyri. Við verðum að standa vörð um hann af miklum krafti – tryggja að hann haldi styrk sínum og stöðu með markvissum hætti. Hann hefur byggst upp af miklum krafti og nýtt námsframboð hefur verið einkenni hans. En blikur eru á lofti eftir atburði seinustu vikna - það blandast engum hugur um það. Við hér fyrir norðan vitum og skynjum að ekkert er sjálfgefið með skólann og berjumst fyrir því að hann verði áfram sterkur og kraftmikill.

SUS

Á laugardaginn mun stjórn SUS funda hér á Akureyri. Þann dag verður ennfremur haldin á Hótel KEA formannaráðstefna Sambands ungra sjálfstæðismanna. Síðar sama dag verður fundur undir yfirskriftinni: Einkaframkvæmd í samgöngum, á Hótelinu. Það er gleðiefni fyrir okkur í stjórn Varðar að stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skuli funda á fyrsta fundi tímabilsins utan Reykjavíkur hér á Akureyri. Staðfestir þetta að mínu mati að ný stjórn SUS hefur í hyggju að vinna af krafti í landsbyggðarstarfinu - telur það skipta sköpum og vilji vinna með okkur í því sem skiptir máli. Það er ánægjuefni fyrir okkur að sjá hversu vel nýr formaður sér að starf okkar hér úti á landi er mikilvægt. Hlökkum við til að vinna með honum í þeim verkefnum - sé ég allavega ekki eftir þeirri ákvörðun minni að styðja hann til formennsku í SUS. Tel ég að þessi ákvörðun um fundahald hér sýni okkur vel hvernig starf okkar hér á Akureyri sé metið.

Saga gærdagsins
1917 Lögræðislög voru staðfest - samkvæmt þeim urðu menn sjálfráða 16 ára og fjárráða 21 árs. Fjárræði var lækkað í 20 ár, 1967, og í 18 ár, 1979. Sjálfræðisaldur var svo hækkaður í 18 ár, 1998.
1963 Eldgos hófst á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum. Þar sem áður var 130 metra dýpi kom upp eyja sem var nefnd Surtsey. Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, fram í júní 1967, og mun vera með lengri gosum frá upphafi Íslandsbyggðar. Surtsey var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur minnkað mjög í tímanna rás, hún var hæst 174 metrar. Eldgosið í sjónum árið 1963 er alveg einstakt.
1963 Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum - hún sat við völd í tæp sjö ár og var hluti af viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat á árunum 1959-1971. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést á Þingvöllum, 10. júlí 1970. Bjarni fæddist þann 30. apríl 1908. Á löngum ferli sínum var dr. Bjarni, borgarstjóri í Reykjavík, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og varð loks forsætisráðherra, Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í 9 ár, allt frá 1961 til dauðadags 1970. Var líka ritstjóri Morgunblaðsins.
1983 Tómas Guðmundsson skáld, lést, 82 ára að aldri - hann var einna fyrstur skálda til að yrkja um Reykjavíkurlíf og mannlífsbraginn í borginni við sundin. Hann vakti mikla athygli með ljóðabók sinni Fögru veröld, sem kom út 1933. Tómas vakti mikla athygli með liprum og undurljúfum skáldstíl sínum.
1985 Hólmfríður Karlsdóttir, 22 ára fóstra úr Garðabæ, kjörin Ungfrú Heimur (Miss World) í London.

Saga dagsins
1923 Þórbergur Þórðarson rithöfundur, hóf að rita bréf til Láru Ólafsdóttur á Akureyri - bréfin sem hann skrifaði henni urðu undirstaðan í bók hans, Bréf til Láru, sem varð mikið tímamótarit í sögu bókmenntanna og gerði Þórberg landsfrægan sem rithöfund - Þórbergur Þórðarson lést árið 1974.
1969 Samtök frjálslyndra og vinstri manna, stofnuð - hann var stofnaður sem sérframboð Hannibals Valdimarssonar og bauð fyrst fram í alþingiskosningunum 1971 og sat í ríkisstjórn 1971-1974. Eftir slit stjórnarinnar og brotthvarf Hannibals úr pólitík fjaraði fljótt undan flokknum - var lagður niður 1979.
1978 Mesta slys íslenskrar flugsögu varð þegar 197 manns fórust er þota sem var í eigu Flugleiða hf. hrapaði í lendingu á Colombo í Sri Lanka. 8 íslenskir flugliðar létu lífið en fimm komust lífs úr slysinu.
1990 Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að gefa afgreiðslutíma verslana í borginni alveg frjálsan.
1999 Edduverðlaun, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, voru afhent í fyrsta skipti. Mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Ungfrúin góða og húsið, byggð á sögu föður hennar, var þá mjög sigursæl.

Snjallyrðið
Success is having a flair for the thing that you are doing; knowing that is not enough, that you have got to have hard work and a sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um málefni Háskólans á Akureyri í kjölfar niðurskurðar þar og uppstokkunar í vikunni. Minni ég á mikilvægi skólans fyrir okkur hér á Akureyri og hversu sterka stöðu hann hefur í vitund okkar hér - hann skiptir miklu máli og við munum óhikað verja stöðu hans. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið þrengt að skólanum með þeim skrefum sem stigin hafa verið á þessu ári og það verður að horfast í augu við það. Þó að skólinn hafi styrkst mjög á seinustu árum með nýjum deildum verður að líta á hvert stefnir í kjölfar þessarar ákvörðunar sem kynnt var í vikunni. Oft er vissulega gott að hagræða en það er verra ef það stefnir stöðu skólans í tvísýnu. Við hér fyrir norðan skynjum allavega vel hversu stór partur samfélagsins skólinn er. Framtíð Eyjafjarðarsvæðisins og uppbygging hér veltur að stóru leyti á framtíð Háskólans á Akureyri. Við getum alls ekki horft þegjandi á stoðir skólans veikjast og bogna til.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í rústunum í R-listanum og vinnubrögð sumra þeirra sem þar standa eftir. Mikil innri barátta er greinilega í gangi í Samfylkingunni fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Fyrir skömmu birtist blaðagrein eftir formann Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóri þar sem hún allt að því lýsir yfir frati á báða borgarfulltrúa flokksins, Stefán og Steinunni, og svo gott sem kallar eftir óflokksbundnu liði í forystu flokksins - greinilega átt þar við Dag B. Eggertsson sem hún handvaldi sem frambjóðanda óháðra í kosningunum 2002 og fékk ekki borgarstjórastólinn (þrátt fyrir trakteringar í þá átt) í fyrra frekar en Stefán Jón þegar Þórólfur hrökklaðist burt. En eymd Samfylkingarinnar er mikil í borgarmálum núna - virkar á mann óneitanlega eins og sökkvandi skip úti á sjó.

- í þriðja lagi fjalla ég um prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri og fer yfir merkilega sögu af kynjakvótum sem þar komst í hámæli er miðaldra stjórnmálamaður sló út unga konu í krafti kvótans. Það er undarleg auglýsing fyrir Samfylkinguna á Akureyri að þeir vísi 23 ára gamalli konu, sem áhuga hefur á stjórnmálum og hlotið lýðræðislegt kjör í fjórða sætið, niður og taki upp afdankaðan karlmann sem hefur verið sparkað í prófkjöri áður. Það er ekki nema furða að þessi staðreynd sé lítt auglýst af Samfylkingarfólki hér í bæ. Ef þessi niðurstaða sannar ekki hversu ruglaðir kynjakvótarnir eru, ja þá veit ég ekki hvað sannar það.


All the President's Men

All the President's Men

Í kvikmyndinni All the President's Men er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974. Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.

Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins. Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: blaðamennirnir Carl Bernstein og Bob Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post.

Í kvikmyndinni All the President's Men, sem segir sögu alls málsins, var Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði því verið bæði deilt um hver heimildarmaðurinn var og ekki síður reynt af krafti að upplýsa það af öðrum fjölmiðlum. Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.

Að mínu mati besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína. Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Þið sem hafið séð hana - sjáið hana aftur! Pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana.

Saga dagsins
1939 Þýska flutningaskipinu Parana var sökkt út af Patreksfirði. Áhöfnin yfirgaf skipið daginn eftir og var tekin til fanga af breska herskipinu Newcastle - var fyrsta skipið sem sökk hér í seinna stríðinu.
1946 Vestmannaeyjaflugvöllur formlega tekinn í notkun - þá eitt mesta mannvirki sinnar tegundar.
1963 Þriggja alda afmælis Árna Magnússonar handritasafnara, minnst - nýbygging við Háskóla Íslands nefnd eftir honum í tilefni dagsins. Þar eru geymd handrit Íslendinga, sem Danir afhentu okkur.
1973 Samningur við Breta um lausn landhelgisdeilunnar (varðandi 50 mílur) var samþykktur á þingi.
2002 Írak samþykkir að hlíta ályktun 1441 - ályktunin leiddi til þess að ráðist var í Írak í mars 2003.

Snjallyrðið
My definition of a free society is a society where it is safe to be unpopular.
Adlai Stevenson sendiherra (1900-1965)


Partítröll

Tók tröllaprófið margfræga á netinu - hér er niðurstaðan. :) Alveg mergjað hehe - hló mjöööög mikið af þessu. ;)



Partítröll


Þú ert nýjungagjörn, tilfinningarík félagsvera.

Partítröllið fylgist vel með nýjustu straumum og stefnum hvort sem um er að ræða föt, tónlist eða græjur. Það eru 74.5% líkur á því að það eigi iPod, 61% líkur á því að það eigi Fred Perry póló bol og 96% líkur á því að það eigi Adidas skó. Partítröllinu finnst The OC vera skemmtilegur þáttur.

Partítröllið er vinsælt - eða telur sig að minnsta kosti vera það. Þótt margir laðist að því eins og flugur að mykjuhaug eru aðrir sem eru ónæmir fyrir þokka þess og enn aðrir sem hafa jafnvel ofnæmi fyrir því. Það eru þeir sem eru í eldhúspartíinu á meðan partítröllið hristir rassinn og baðar út öngum á dansgólfinu.

Þegar gamaninu slotar er partígríman þó fljótt tekin niður og undan henni kemur viðkvæma blómið sem partítröllið raunverulega er.

Hvaða tröll ert þú?

Engin fyrirsögn

Yasser Arafat

Í dag er ár liðið síðan að Yasser Arafat fyrrum forseti Palestínu, lést. Hann var 75 ára er hann lést, hinn 11. nóvember 2004 á Clamart-hersjúkrahúsinu í París eftir mikil veikindi. Yasser Arafat fæddist í Kairó í Egyptalandi í ágúst 1929, að því talið er. Sjálfur hélt Arafat því alltaf fram að hann hefði fæðst í Jerúsalem. Fæðingardagur hans var nokkuð á reiki og ekki allir sérfræðingar sammála um hvort það hafi verið 4. eða 24. ágúst, sjálfur sagði Arafat alltaf að fæðingardagurinn væri 4. ágúst 1929. Hann var nefndur við fæðingu Mohammed Yasser Abdul-Raouf Qudwa al-Husseini. Hann var sonur vefnaðarkaupmanns, af palestínskum og egypskum ættum, en móðir hans var frá Jerúsalem. Hann var alinn upp í Egyptalandi, flutti síðar til Jersúalem og loks á Gaza-svæðið. Snemma varð Arafat baráttumaður fyrir frelsi heimalands síns. Hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann byrjaði að smygla vopnum fyrir palestínska skæruliða sem áttu í höggi við vopnaða gyðinga og Breta í seinni heimsstyrjöldinni og allt fram að stofnun Ísraelsríkis 1948. Um 1950 flúði Arafat til Kaíró, settist á skólabekk og stofnaði þar samtök palestínskra námsmanna. Hann lauk svo prófi í verkfræði árið 1956.

Árið 1960 var Arafat einn af stofnendum Fatah-hreyfingarinnar sem er hryðjuverkahópur sem hefur alla tíð síðan barist gegn ísraelskum stjórnvöldum. Frá Kaíró hélt Arafat til Kuwait og 1964 hélt hann til Jórdaníu til að stýra árásum al-Fatah á Ísrael. Sama ár voru Frelsissamtök Palestínu, PLO, (Palestinian Liberation Organization), stofnuð en þau eru samtök ýmissa lykilhópa Palestínumanna. Arafat hafði forgöngu um það að Fatah varð meðlimur í PLO. Arafat var fyrst kjörinn formaður framkvæmdastjórnar PLO og varð síðar yfirmaður hermála þeirra. Eftir niðurlægjandi og auðmýkjandi ósigur araba fyrir Ísraelum í sex daga stríðinu árið 1967 varð al-Fatah leiðandi forystuhreyfing Palestínumanna, og 1969 varð Arafat leiðtogi PLO og gegndi því embætti til dauðadags. Hussein Jórdaníukonungi og Arafat kom saman á árunum í kringum 1970, hraus koninginum hugur við veldi Frelsissamtakanna og hermenn hans hröktu þau burt eftir blóðbað. Frá Jórdaníu lá leið Arafats til Líbanon. Þaðan stýrði Arafat hryðjuverkaárásum á ísraelsk stjórnvöld og almenning. Árið 1974 varð sögulegt á ferli Arafats en hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna það ár og flutti eftirminnilega ræðu.

Árið 1982 var Arafat ekki lengur vært í Beirút eftir mannskæða innrás Ísraela. Þaðan flúði Arafat með samtök sín og pólitíska forystu landsins til Túnis, þar sem hann dvaldi nokkurn tíma. Árið 1988 urðu mikil þáttaskil í stefnu og forystu Arafats sem eins helsta leiðtoga Palestínumanna. Þá lýsti hann því yfir að öll ríki ættu tilverurétt í Austurlöndum nær, t.d. Ísrael. Um var að mikla tímamótayfirlýsingu sem greiddi veginn fyrir friðarviðræðum. Bakslag kom í hugmyndir um friðarviðræður árið 1990, þegar Arafat lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi við Saddam Hussein leiðtoga Íraks, eftir innrás Íraks í Kuwait og studdi PLO og Arafat einræðisstjórn Husseins í Persaflóastríðinu árið 1991. Enginn vafi er á því að sá stuðningur veikti nokkuð stöðu Arafats. Friðarferli hófst þó formlega á næstu mánuðum. 30. október 1991 hófust formlega viðræður milli deiluaðila í M-Austurlöndum í Madrid á Spáni, og var George H. W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, aðalhvatamaðurinn að því að ferlið hófst með fundinum. Um var að ræða sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna.

Yasser Arafat

Leiddu ráðstefnan til friðarviðræðnanna sögulegu í Osló þar sem Ísrael og Palestína sömdu frið 1993. Johan Jörgen Holst þáverandi utanríkisráðherra Noregs, stjórnaði viðræðunum og leiddi þær til lykta skömmu fyrir lát sitt, en hann lést 1994. 13. september 1993 var Óslóarsamningurinn svonefndi undirritaður í Washington af Arafat og Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels. Ári síðar sneri Arafat aftur til Gaza og var ákaft fagnað. Í lok þess árs fékk Arafat friðarverðlaun Nóbels ásamt Rabin og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels. 20. janúar 1996 kusu Palestínumenn heimastjórn. Arafat var kjörinn forseti heimastjórnarinnar með 83% atkvæða og gegndi embættinu til dauðadags. Rabin var myrtur á útifundi í Tel Aviv, 4. nóvember 1995. Framlag hans til friðar í Mið Austurlöndum kostaði hann lífið, en öfgasinnaður maður skaut hann til að hefna fyrir friðarsamkomulagið við Palestínumenn. Morðið á Rabin í nóvember 1995 leiddi til hnignunar friðarferlisins. Reynt var til þrautar árið 2000 að ná heildarsamkomulagi um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.

Hittust Arafat og Ehud Barak þáv forsætisráðherra Ísraels, á fundi með Bill Clinton þáv. forseta Bandaríkjanna í sumarbústað forsetaembættisins í Camp David í Maryland. Reyndi Clinton til þrautar að ná heildarlendingu í málinu fyrir lok forsetaferils síns, en hann lét af embætti 2001. Fóru viðræðurnar út um þúfur og kenndu Bandaríkjamenn Arafat um að viðræðurnar strönduðu. Friðarviðræðurnar árið 2000 í Bandaríkjunum urðu seinasta tækifæri Yasser Arafat til að láta draum sinn um frjálst ríki Palestínumanna rætast á ævi sinni. Harðlínumenn á borð við Benjamin Netanyahu og Ariel Sharon komust til valda í Ísrael og ný uppreisn Palestínumanna, Intífada, braust út. Friðarferlið sem Arafat og Rabin hófu í byrjun tíunda áratugarins beið endanlegt skipbrot. Árið 2001 umkringdi ísraelskt herlið höfuðstöðvar Arafats í Ramallah, sem er vestan Jórdanár, og þar var hann stofufangi í tæp þrjú ár. Honum var ekki leyft að fara til jólamessu í Betlehem og Bandaríkjastjórn sem hafði stutt hann í forsetatíð Bill Clinton sneri við honum bakinu eftir að George W. Bush tók við embætti í byrjun ársins 2001.

Arafat sem hafði verið reglulegur gestur í Hvíta húsinu í Washington og meðal þjóðarleiðtoga víða um heim á tíunda áratugnum var innikróaður í höfuðstöðvum sínum allt þar til hann var fluttur helsjúkur á hersjúkrahús í París í lok októbermánaðar 2004. Margir þjóðarleiðtogar heimsóttu Arafat í höfuðstöðvar hans og ræddu við hann sem þjóðarleiðtoga lands síns. Ísraelsmenn sóttu reglulega að honum og mátti litlu muna að hersveitir þeirra réðu honum bana um páskana 2002. Arafat sem hafði lifað við brothætta heilsu seinustu fjögur árin, veiktist snögglega haustið 2004 og hrakaði honum ört. Lengi vel neituðu talsmenn hans og nánustu samverkamenn í Ramallah að hann væri alvarlega veikur og nefndu að veikindi hans væru minniháttar og hann væri á batavegi. Málið tók nýja stefnu þegar Arafat hné niður í höfuðstöðvum sínum, þann 28. október 2004 og missti meðvitund um tíma. Eftir það tjáðu talsmenn hans og forystumenn palestínskra stjórnmála sig loks af hreinskilni og viðurkennt var að veikindi Arafats væru slíks eðlis að heilsa hans væri mjög brothætt og liti illa út. Læknar ráðlögðu honum að leita sér læknishjálpar.

Yasser Arafat

Ákveðið var að flytja leiðtogann til Parísar á Clamart hersjúkrahúsið. Það var ekki fyrr en ísraelsk stjórnvöld höfðu samþykkt að Arafat fengi að snúa aftur til síns heima, að lokinni meðferðinni sem Arafat ákvað að fara til Parísar. Það var óneitanlega táknræn stund þegar hann kvaddi þjóð sína hinsta sinni, föstudaginn 29. október 2004, með tár á hvarmi í dyrum þyrlu jórdanskra stjórnvalda sem flutti hann seinustu ferðina, fárveikan til að leita sér læknishjálpar. Hann kvaddi þegna sína þá með sama hætti og hann hafði stjórnað henni, með kraftmiklum hætti. Fljótlega eftir komu Arafats til Parísar var sá orðrómur á kreiki að heilsa hans hefði batnað og hann væri á öruggum batavegi. Sú mynd af stöðu mála var tálsýn ein, enda blasti við nokkrum dögum síðar að Arafat væri haldinn ólæknanlegum sjúkdómi og féll hann í dauðadá þann 5. nóvember. Ísraelskir fjölmiðlar tilkynntu þann dag að Arafat væri í raun látinn og hefði verið úrskurðaður heiladauður á sjúkrahúsinu eftir að hafa sífellt hrakað allan daginn. Yfirlýsingin var dregin til baka af yfirlækni sjúkrahússins. Þó var ljóst að Arafat var ekki hugað líf. Honum hrakaði hratt eftir það og ljóst stutt væri í endalokin.

Deilt var um það undir lokin hvar hann yrði jarðsettur. Fjölskylda Arafats og nánustu samstarfsmenn lögðu mikla áherslu á að efnd væri hinsta ósk Arafats, um að hann yrði grafinn í Jerúsalem þar sem hann sagði alla tíð að hann væri fæddur. Ríkisstjórn Ísraels neitaði þráfaldlega öllum viðræðum eða skoðanaskiptum um slíka tillögu. 10. nóvember 2004 náðist sú niðurstaða sem allir gátu sætt sig við að Arafat skyldi jarðsettur við höfuðstöðvar sínar í Ramallah. Hann lést um nóttina. Banamein hans var heilablóðfall, en ekki varð ljóst í læknismeðferð þess stutta tíma sem hann var í París hvað varð honum í raun að aldurtila, hver hefði verið orsök veikinda hans. Skv. hefð mátti ekki kryfja leiðtogann né heldur taka öndunarvél hans úr sambandi. Beðið var því allt þar til líffæri hans gáfu sig eitt af öðru og hann lést, með að úrskurða hann endanlega látinn. Flogið var með lík Arafats til Kaíró í Egyptalandi daginn sem hann lést. Þar var formleg jarðarför Arafats og viðhafnarkveðjuathöfn hans haldin degi síðar. Síðar þann sama dag var haldið með líkkistu hans til Ramallah. Mikil ringulreið skapaðist þegar þyrla lenti með kistu Arafats á Vesturbakkanum.

Þúsundir manna ruddust að lendingarpallinum og öryggislögreglumenn skutu úr byssum upp í loftið til að reyna að dreifa mannfjöldanum. Greftrun Arafats var flýtt og í stað þess að kistan stæði á viðhafnarbörum í nokkrar klukkustundir og hún væri jörðuð við sólsetur var hún grafin strax við höfuðstöðvar heimastjórnarinnar. Mikil sorg var á Vesturbakkanum vegna andláts Arafats, og var lýst þar yfir 40 daga þjóðarsorg. Arafat lét eftir sig eiginkonu, Suhu Tawil, sem hann giftist árið 1990, og dótturina, Zöwhu Ammar. Suha var lengi umdeild meðal Palestínumanna. Hún er kristin og aðeins rétt rúmlega fertug og því rúmum 30 árum yngri en Arafat. Skarð Arafats í palestínskum stjórnmálum var bæði stórt og mjög vandfyllt. Hann hafði haft bæði tögl og hagldir í PLO og í stjórnmálaheimi Palestínu í vel yfir fjóra áratugi. Forsetakjör fór fram í janúar 2005 og var einn af samstarfsmönnum hans innan PLO og eftirmaður hans í forystunni þar, Mahmoud Abbas, kjörinn forseti heimastjórnarinnar. PLO er enn í forystusess í palestínskum stjórnmálum.

Yasser Arafat

Segja má með sanni að ævi Yasser Arafat hafi verið órjúfanlega samofin sögu palestínsku þjóðarinnar og frelsisbaráttu landsins í marga áratugi. Hann leiddi baráttu landsins fyrir frelsi og sjálfstæði af krafti. Arafat náði ekki að lifa þann dag að frjálst ríki Palestínu liti dagsins ljós. Vonandi mun þegnum hans auðnast að sjá slíkt ríki koma til sögunnar á næstu árum og að friðarferlið milli deiluaðila skili árangri á komandi árum.

Saga dagsins
1907 Grímseyingar héldu fyrsta sinni upp á "þjóðhátíðardag" sinn - er fæðingardagur prófessors Willard Fiske, sem gaf t.d. fé til skólabyggingar þar. Minnismerki um hann vígt þennan dag 1998-
1991 Áformum um að reisa álver á Keilisnesi var frestað um óákveðinn tíma - álverið reis aldrei-
1992 Breska þjóðkirkjan leyfir konum að taka prestsvígslu - mikill áfangasigur fyrir breskar konur.
1994 Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér embætti félagsmálaráðherra vegna hneykslismála. Hann var heilbrigðisráðherra 1993-1994 og hafði verið félagsmálaráðherra í nokkra mánuði er hann sagði af sér - hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði í 7 ár og talinn einn af krónprinsum íslenskra krata. Guðmundur Árni lét af þingmennsku haustið 2005 og tók hann þá við sendiherrastörfum í Svíþjóð.
2004 Yasser Arafat forseti Palestínu, lést á hersjúkrahúsi í París, 75 ára að aldri. Hann hafði þá verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í rúmlega fjóra áratugi. Hann varð einn af forystumönnum PLO árið 1964 og leiðtogi þess árið 1969 og leiddi baráttu Palestínu fyrir sjálfstæði. Hann var kjörinn forseti landsins árið 1996 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin og Shimon Peres.

Snjallyrðið
Accept the challenges so that you can feel the exhilaration of victory.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)


Engin fyrirsögn

Tony Blair

Það er alveg óhætt að fullyrða það að mikil þáttaskil hafi orðið á stjórnmálaferli Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, í gær. Eftir að hafa setið nær ósigraður á forsætisráðherraferli í rúm átta ár kom að því sem margir höfðu beðið eftir að gerast myndi á kjörtímabilinu en fáir höfðu talið að myndi gerast svo skömmu eftir þingkosningarnar í vor þar sem þingmeirihluti Verkamannaflokksins rýrnaði verulega. Hann beið þá í fyrsta skipti á valdaferlinum ósigur í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Tekist var í atkvæðagreiðslu þar á um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um hryðjuverkavarnir. Var einkum deilt þar um ákvæði þess efnis að halda mætti mönnum í allt að 90 daga í stað 14 í gæsluvarðhaldi án formlegrar ákæru væru þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi. Svo fór að 322 þingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en 291 með því. Munurinn varð mun meiri en mörgum óraði fyrir. Blair ákvað fyrr í vikunni að semja ekki við uppreisnarliðið í Verkamannaflokknum sem hefur verið órólegast vegna forystu forsætisráðherrans frá því í deilunum vegna Íraksstríðsins og ákvað að kosið skyldi um 90 dagana.

Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fer ég yfir málið. Fer yfir helstu punktana. Eins og gefur að skilja lagði forsætisráðherrann nokkuð undir og ákvað að kjósa skyldi um tillöguna eins og hann vildi að hún væri. Allt var dregið fram til að verjast í stöðunni. Blair kallaði heim ráðherrana Jack Straw og Gordon Brown úr starfsferðum sínum til Moskvu og Tel Aviv. Brown var nýkominn til Ísraels og hélt um leið heim með flugi og mætti með hraða í þingsalinn í London. Sama gerðist í tilfelli Straw. Einn þingmaður Verkamannaflokksins sem var að jafna sig eftir hjartaaðgerð nýlega var kallaður til atkvæðagreiðslunnar. Allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan er sláandi fyrir forsætisráðherrann - hann lagði mikið undir og setti málið í dóm þingmanna. Hann tapaði - að því er sumir segja ægivaldinu sínu. Í þau átta ár sem Blair hefur verið forsætisráðherra gat hann lengst af farið sínu fram í ljósi gríðarlega öflugs þingmeirihluta og þurfti ekki í raun að taka tillit til vinstrisinnaðasta arms flokksins. Það breyttist með úrslitum þingkosninganna í maí, þegar að þingmeirihluti flokksins rýrnaði, fór úr 160 niður í tæp 70.

Tony Blair

Hann hefur síðan orðið að spila fleiri millileiki og venjast því að vera með brothættari meirihluta sem gæti leitt til þess að vissir þingmenn verði honum óþægur ljár í þúfu og leiki meiri sóló - staðan verði óútreiknanlegri og um leið auðvitað erfiðari viðfangs. Hann hefur hinsvegar ekki farið alltaf eftir þessum óútreiknanlega hópi sem hefur nú í raun örlög hans í gíslingu og getur sett hann í klemmu hvenær sem er. Blair er að margra mati leiðtogi með hugsunarhátt ljónsins. Hann hefur lagt í vana sinn að gefast ekki upp og berjast meðan hann getur staðið í lappirnar. Í þessu tilfelli var lagt nokkuð undir - og tapið er áberandi. Það er mjög merkilegt að nærvera Brown, sem litið er á sem hinn sjálfgefna eftirmann Blair, í þinginu hafði ekkert að segja fyrir forsætisráðherrann. Tapið varð ekki umflúið. Það blasir við flestum sem þekkja til breskra stjórnmála og hafa kynnt sér litríkan stjórnmálaferil Tony Blair, sem ríkt hefur nú í tæpan áratug, að sæludagar hans sem öflugs leiðtoga flokks og þjóðar séu taldir.

Það var merkilegt að sjá viðbrögð forsætisráðherrans við tapinu þar sem hann var í þingsalnum. Hann leit með alvörusvip til hliðar og hristi höfuðið með ákveðnum hætti. Sennilega hefur hann hugleitt þá hvert hann er kominn á valdaferlinum - hvernig hann gæti haldið áfram með trúverðugum hætti eftir fyrsta tap sitt í þinginu. Tapið er mjög niðurlægjandi og skaðandi fyrir pólitíska forystu hans. Niðurstaðan var jú beisk - einkum og sér í lagi í ljósi þess að 49 þingmenn Verkamannaflokksins kusu gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er því varla undrunarefni að Blair hafi hugleitt þetta áberandi tap sitt - en eins og fyrr segir studdu 20% þingmanna flokksins ekki frumvarp eigin flokks. Niðurstaðan er ósköp einföld. Umboð Tony Blair sem forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins er stórlega skaddað - ægivald hans á breskum stjórnmálum og umfram allt eigin flokki hefur beðið verulegan hnekki.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, mælti fyrir fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2006 við fyrri umræðu í bæjarstjórn Akureyrar á þriðjudag. Var þetta nítjánda fjárhagsáætlunin sem Kristján Þór leggur fram á ferli sínum sem forystumaður sveitarfélags. Kristján Þór var bæjarstjóri á Dalvík í 8 ár, á Ísafirði í 3 ár og hefur verið bæjarstjóri á Akureyri í rúmlega 7 ár. Hans reynsla er því mikil í sveitarstjórnarmálum og nítjánda fjárhagsáætlunin á ferli hans blasir við. Það er ánægjulegt að kynna sér stöðu Akureyrarbæjar og athyglisvert að sjá hversu litlar umræður voru um áætlunina í bæjarstjórn á þriðjudag. Fáir tóku þar til máls. Væntanlega verða umræður líflegri við seinni umræðu, en það er mjög merkilegt að sjá hversu bæjarstjórnarminnihlutinn hér í bæ hefur lítið um málin að segja. Enda er það vart óeðlilegt sé litið á grunntölur fjárhagsáætlunarinnar. Heildartekjur Akureyrarbæjar verða tæpir 10,7 milljarðar króna en heildargjöld rétt um 10,3 milljarðar skv. samstæðureikningi og rekstarafgangur því tæpar 400 milljónir króna. Veltufjárhlutfall samstæðureiknings er 1,03 og eiginfjárhlutfall er 0,36 %. Fjárhagsstaða bæjarins verður því að teljast mjög sterk.

Fjárhagsáætlun ársins 2006 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Samkvæmt framkvæmdayfirliti Akureyrarbæjar eru framkvæmdir A-hluta tæpir 1,2 milljarðar. Þar af eru 208 milljónir vegna félags og öldrunar-þjónustu, 264 milljónir vegna fræðslu- og uppeldismála, 184 milljónir vegna menningarmála og 234 milljónir vegna æskulýðs- og íþróttamála. Í B-hluta eru 445 milljónir áætlaðar til framkvæmda og munar þar mestu um framkvæmdir á vegum Norðurorku fyrir 155 milljónir og Fráveitu Akureyrar-bæjar fyrir 171 milljónir og Hafnarsamlags Norðurlands fyrir 82 milljónir króna. Skatttekjur aðalsjóðs eru áætlaðar um 5 milljarðar króna og aðrar tekjur Akureyrarbæjar eru tæpir 5,8 milljarðar skv. samstæðureikningi. Þannig að við blasir góð staða - sterk staða sem við í meirihlutanum getum verið stolt af, nú þegar styttist í kosningar. Ég hvet alla lesendur til að kynna sér fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2006.

John Lennon

Horfði á upptöku af stuttum bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Að því loknu horfði ég á kvikmyndina Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.

Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Skopmynd Martin Rowson af Tony Blair

Í dag er endað á því sama og byrjað var á, aldrei þessu vant. Allir sjá eftir atburði gærdagsins að pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur veikst verulega. Alltaf er hægt að sjá spaugilegar hliðar á pólitíkinni - fyrir okkur hægrimenn er allavega auðvelt að sjá grínið í vandræðum Blair Að mínu mati eru skopmyndateiknarar Guardian, þeir Steve Bell og Martin Rowson, algjörir snillingar. Í vikunni birti Guardian flotta og táknræna mynd eftir Rowson sem sýnir hinn fyrrum sigursæla leiðtoga breskra krata í skondnu ljósi - nú þegar pólitískt veldi hans er tekið að veslast mjög upp - eftir tæplega áratug við völd.

Saga gærdagsins
1932 Gúttóslagurinn - átök urðu í Reykjavík þegar bæjarstjórnin hélt fund í Góðtemplarahúsinu og fjallaði um lækkun launa í atvinnubótavinnu. Útkoman varð eftirminnilegasta vinnudeila hérlendis.
1960 John Fitzgerald Kennedy kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann vann nauman sigur á Richard Nixon varaforseta, einungis munaði 0,2% á þeim en munurinn í kjörmannasamkundunni varð meira afgerandi. Kennedy varð yngsti forseti landsins, aðeins 43 ára, og fyrsti kaþólikkinn sem settist á forsetastól - Kennedy var forseti í rúmlega 1000 daga. Hann var myrtur í Texas 22. nóvember 1963.
1988 George H. W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - vann yfirburðasigur á Michael Dukakis ríkisstjóra í Massachusetts. Bush hafði verið varaforseti Ronald Reagan í átta ár. Bush varð fyrsti varaforseti landsins frá 1836 til að vinna forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hann leiddi Bandamenn í gegnum Persaflóastríðið árið 1991. Bush forseti, tapaði í forsetakosningunum árið 1992, fyrir Bill Clinton. Sonur Bush forseta, George Walker Bush yngri, var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2000.
1989 Berlínarmúrinn fellur - stjórnvöld í A-Þýskalandi leyfa þá íbúum landsins að ferðast yfir til V-Þýskalands í fyrsta skipti í þau 28 ár sem múrinn hafði staðið. Þessi ákvörðun táknaði í raun endalok múrsins og almenningur fór með sleggjur og hamra og byrjuðu að brjóta múrinn niður. Síðar var komið með stórvirkar vinnuvélar og múrinn, sem haldið hafði íbúum A-Þýskalands í gíslingu og örbirgð í fjölda ára, var loksins felldur. Atburðarásin leiddi til þess að A- og V-Þýskaland voru sameinuð 1990.
2004 Þórólfur Árnason biðst lausnar frá embætti borgarstjóra, vegna þátttöku sinnar í samráðsmáli olíufélaganna - Þórólfur sem verið hafði markaðsstjóri ESSO 1993-1996 flæktist inn í miðpunkt þess í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Hann missti trúnað og traust samherja sinna innan meirihluta R-listans í borgarstjórn og varð að segja af sér. Hann hafði þá gegnt embætti borgarstjóra í tæpa 22 mánuði.

Saga dagsins
1949 Þjórsárbrú vígð - brúin þótti mikið samgöngumannvirki og marka þáttaskil í samgöngumálum.
1967 Strákagöng voru formlega tekin í notkun - þau voru þá lengstu veggöngin, um 800 metrar. Göngin voru mikil samgöngubót, endu komust íbúar Siglufjarðar þá loks í vegasamband allt árið.
1970 Charles De Gaulle fyrrum forseti Frakklands, lést á heimili sínu í Colombey-les-deux-Églises,
79 ára að aldri. De Gaulle var einn af helstu stjórnmálamönnum Frakka á 20. öld, og forystumaður landsins í seinna stríðinu. Hann var forsætisráðherra landsins 1958-1959 og loks forseti 1959-1969.
1982 Leonid Brezhnev Sovétleiðtogi, deyr, 76 ára að aldri - hann hafði lengi barist við veikindi.
1996 Sighvatur Björgvinsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins í stað Jóns Baldvins Hannibalssonar. Sighvatur sigraði Guðmund Árna Stefánsson þáverandi varaformann flokksins, í formannskjörinu. Alþýðuflokkurinn varð hluti af nýjum flokki, Samfylkingunni, 2000. Flokkurinn er þó enn formlega til.

Snjallyrðið
Never look down to test the ground before taking your next step; only he who keeps his eye fixed on the far horizon will find the right road.
Dag Hammarskjöld framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (1905-1961)


Engin fyrirsögn

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Óhætt er að segja að prófkjörið hafi verið glæsilegt í alla staði. Sjálfstæðisflokkurinn kemur mjög sterkur út úr því - ljóst er að sjálfstæðismenn hafa valið kraftmikinn og glæsilegan framboðslista sem telst mjög sigurstranglegur í væntanlegri kosningabaráttu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem leitt hefur borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins síðan í maímánuði 2003 er Björn Bjarnason varð ráðherra að nýju, vann glæsilegan sigur í leiðtogaslagnum í prófkjörinu. Hann hlaut 6.424 atkvæði í fyrsta sætið á listanum, rúmlega helming gildra atkvæða, og því öflugt og gott umboð flokksmanna. Óska ég honum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

Gísli Marteinn Baldursson varð vissulega undir í leiðtogaslagnum, sem hafði verið snarpur og öflugur, en hann má engu að síður nokkuð vel við una. Hann fær góða kosningu í þriðja sæti listans og er kominn í forystusveit flokksins í borginni af krafti. Gísli Marteinn skipaði sjöunda sæti framboðslistans árið 2002 en náði ekki kjöri eins og allir vita í kosningunum. Hann hefur verið fyrsti varaborgarfulltrúi síðan og sem slíkur virkur í borgarstjórnarflokknum. Hann tók þá ákvörðun að sækjast eftir leiðtogastólnum og bauð flokksmönnum val um að færa nýrri kynslóð forystu listans. Það var rökrétt að hann hefði metnað og áhuga til forystu.

Niðurstaðan er með þessum hætti - umfram allt eru það flokksmenn í borginni sem taka ákvörðunina og það er fyrir öllu. Það var gott að sjálfstæðismenn í Reykjavík höfðu prófkjör og færðu hinum almenna flokksmanni valdið í þessum efnum. Mitt mat er það að Vilhjálmur Þ. hafi umfram allt í þessu prófkjöri notið reynslu sinnar og yfirburðaþekkingar á borgarmálum. Það deilir enginn um það að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þekkir borgarmálin eins og lófana á sér. Hann hefur setið í borgarstjórn frá árinu 1982, er Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til valda, og hefur verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga allt frá árinu 1990.

Á valdatíma flokksins 1982-1994 var Vilhjálmur í fjölda nefnda fyrir flokkinn og leiddi af krafti mörg lykilmál. Síðan hefur hann verið í öðru sæti framboðslistans þrisvar og lykilmaður í innra starfi borgarstjórnarflokksins og stefnumótun hin seinni ár. Það er ekki óeðlilegt að flokksmenn telji að hann eigi að fá tækifæri til að leiða listann í þessum kosningum - eigi að hafa tækifæri til að leiða flokkinn til sigurs. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Vilhjálmur Þ. mun leiða flokkinn til sigurs í þessum kosningum að vori. Reynsla hans og þekking mun allavega blandast vel við það sem aðrir frambjóðendur hafa fram að færa.

Hanna Birna Kristjánsdóttir kemur mjög sterk út úr þessu prófkjöri. Er hún hinn sanni sigurvegari prófkjörsins að mínu mati. Hún gaf kost á sér í annað sætið - fékk verðugan keppinaut í baráttu um það sæti - og hafði afgerandi sigur og glansar í gegnum prófkjörið. Hún fékk mjög öflugan stuðning til verka og fær annað sætið með mjög glæsilegum hætti. Ég hef þekkt Hönnu Birnu í allnokkur ár - unnið með henni í flokksstarfinu og tel mig því þekkja vel til verka hennar. Hún er mjög öflug og sterk - hefur staðið sig vel í starfinu fyrir flokkinn sem aðstoðarframkvæmdastjóri og sem stjórnmálamaður í borginni.

Ég man að þegar listanum var stillt upp síðast voru margir sem sögðu að Hanna Birna hefði ekki kjörþokka og gæti ekki hafa hlotið slíkan árangur í prófkjöri. Hún sannaði í prófkjörinu að hún hefur stuðning og það afgerandi stuðning til verka. Hún hefur allavega hlotið afgerandi umboð flokksfélaga í borginni til forystu og hlýtur að verða forseti borgarstjórnar er flokkurinn tekur við völdum. Óska ég henni til hamingju með góðan árangur sinn í þessu kjöri. Mesta gleðiefnið í þessu prófkjöri er að mínu mati glæsilegur árangur kvennanna sem gáfu kost á sér. Mér fannst það reyndar dapurlegt að aðeins fimm konur voru í kjöri af alls 24 frambjóðendum.

Allt voru þetta þó öflugar og glæsilegar konur sem vöktu athygli í prófkjörsslagnum. Þær náðu enda allar góðum árangri. Verða þær allar í forystusveitinni, náðu allar kjöri í efstu tíu sæti. Það er mikið styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa tryggt svo góða stöðu kvennanna fimm sem í kjöri voru. Það er allavega sannkallað gleðiefni að sjálfstæðismenn sýna að það þarf enga kynjakvóta eða hólfaskiptingar til að tryggja góðu stöðu kvenna. Þessi niðurstaða ætti að vera umhugsunarefni fyrir konur sem tala fyrir hinum arfavitlausu og ósanngjörnu kynjakvótum. Allar konurnar háðu baráttu sína vegna eigin verðleika og verka í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi.

Allar hlutu þær brautargengi til forystustarfa fyrir flokkinn. Sérstaklega er glæsilegt að sjá hversu góð útkoma Sifjar Sigfúsdóttur er. Hún var ein fárra frambjóðenda sem hvorki hafði heimasíðu eða kosningaskrifstofu. Árangur hennar er glæsilegur. Sif valdist til setu í hinu mikilvæga áttunda sæti framboðslista flokksins. Nái hún kjöri í borgarstjórn hlýtur flokkurinn meirihluta í borgarstjórn næstu fjögur árin. Er gleðiefni að þrjár glæsilegar konur skipa mikilvægustu sætin sem verða öll að vinnast. Tobba, Jórunn og Sif eru allt konur sem mikill fengur er að í baráttuna. Eins og skoðanakannanir hafa verið að spilast er Sif gulltrygg inn í borgarstjórn.

Reyndar virðist mér á seinustu tveim skoðanakönnunum Gallups að verið sé að spila um níunda mann sjálfstæðismanna inn í borgarstjórn. Það er að mínu mati ekki óviðeigandi að stimpla níunda sætið sem hið sanna baráttusæti. Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar, hlaut góða kosningu í prófkjörinu og náði kjöri í níunda sæti listans. Hlaut hann því bindandi kosningu. Árangur hans er mjög góður og vekur sérstaka athygli í ljósi deilna sem verið hafa innan Heimdallar seinustu vikurnar. Eins og úrslitin spilast leikur enginn vafi á að hann hefur í senn bæði gott og traust umboð flokksmanna á öllum aldri til setu á listanum og er kominn í baráttusveitina fyrir næstu kosningar.

Eins og fyrr segir hafa kannanir Gallups verið að spilast með þeim hætti að níundi maður framboðslistans sé inni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að menn eigi að leggja kosningabaráttuna upp með þeim hætti að tryggja kjör Bolla Thoroddsen inn í borgarstjórn - tryggja að unga kynslóðin í flokknum eigi tryggan fulltrúa inn í borgarstjórn. Það væri glæsilegt fyrir okkur alla hægrimenn ef flokkurinn hlyti sterkt og gott umboð með því að ná inn níu borgarfulltrúum í þessum kosningum. Öll hljótum við að vilja sigur flokksins sem stærstan.

Nú er prófkjöri lokið. En með því er baráttan aðeins rétt að byrja. Stærstu átökin - þau mikilvægustu - eru eftir nú. Borgin verður að vinnast með sannfærandi og öflugum hætti. Nú er mikilvægt að allir sjálfstæðismenn, ungir sem gamlir, sameinist í lykilverkefni: tryggja öflugan og góðan sigur í kosningum. Tryggja að þessi góði listi verði sú sigursveit sem við flokksfólk erum öll sannfærð um að hann sé. Þessi listi þarf að vinna kosningarnar með kraftmiklum hætti í maí. Tryggja þarf að Vilhjálmur Þ. verði borgarstjóri og taki við völdum með þennan samhenta lista að baki sér.

Andstæðingar eiga erfitt með að tala nú þegar listinn liggur fyrir. Hann er svo sterkur - umfram allt kraftmikill - að andstæðingarnir eiga ekki mörg góð svör við honum. Öflug staða kvenna og blanda reynslubolta og nýliða í borgarmálum skapar mörg sóknarfæri að mínu mati fyrir þennan lista að ná þeim árangri sem við í flokknum viljum öll að hann nái. Framundan er krefjandi verkefni fyrir frambjóðendur - að sigra kosningarnar af krafti með sterka málefnaskrá og bjartsýni á framtíðina að leiðarljósi.

Stefán Jón Hafstein

Eins og fyrr segir eru vinstrimenn í borginni óánægðir með það hversu vel tókst til í prófkjöri sjálfstæðismanna. Einn vinur minn í borginni, sem er vinstrimaður, sagði enda að listi okkar sjálfstæðismanna væri eins og hann væri hannaður á auglýsingastofu. Svo vel sé hann valinn. Eins og við er að búast eru fulltrúar hins látna R-listans teknir að ókyrrast mjög. Allar skoðanakannanir sem birst hafa eftir dauða R-listans síðsumars hafa sýnt hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Flokkarnir sem standa nú að R-listanum eru fjarri því að ná meirihluta saman. Þar að auki er ósamlyndið milli þeirra sífellt meira greinilegra dag frá degi.

Enn á þetta fólk eftir að stjórna borginni væntanlega í hálft ár - hanga sem fyrr saman valdanna vegna. Þau verða úrillari með hverjum deginum. Þessa dagana er svo borgarstjórinn á ferð um borgina og virðist komin í prófkjörsbaráttu á kostnað borgarbúa. Fagurflennuauglýsingar birtast í öllum fjölmiðlum af borgarstjóranum að reyna að bæta pólitíska stöðu sína - en hinsvegar er þessi prófkjörsbarátta í dulargervi hverfafunda. Mjög skondið. Það er svosem ekki furða að á sama tíma og borgarstjórinn sé búin að starta kosningabaráttu á kostnað skattborgara og sjálfstæðismenn hafa valið sterkan lista í prófkjöri vaknar úrillur sem aldrei fyrr Stefán Jón Hafstein.

Nafni minn birtist í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 á sunnudagskvöldið og tjáði sig um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins. Fýluna lak af honum - eins og vænta mátti er hann talaði um flottan lista sjálfstæðismanna. Þar sagði hann að leiðtogi sjálfstæðismanna, Vilhjálmur Þ., væri fulltrúi gamla íhaldsins sem borgarbúar hefðu kosið burt fyrir áratug og að úrslitin í prófkjöri sjálfstæðismanna hafi horft til fortíðar. Tek ég undir með Vilhjálmi og kalla þennan talsmáta Stefáns Jóns algjört vonskukast. Staðreyndin er sú að Vilhjálmur Þ. er kjörinn leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í fjölmennasta prófkjöri í stjórnmálasögu Íslands - þar sem rúmlega 12.000 manns tóku þátt.

Umboð hans er því skýrt - greinilegt er að Vilhjálmur Þ. hefur notið stuðnings í öllum aldurshópum. Allt tal Stefáns Jóns eru því algjörir órar. Var talsmátinn honum til mikillar minnkunar. Kostulegt var svo að sjá í fjölmiðlum í dag Stefán Jón byrjaðan í prófkjörsbaráttu gegn hinum hlustandi borgarstjóra. Byrjar hann með trompi, t.d. blaðaauglýsingu í dag þar sem hann notar merki Samfylkingarinnar. Hefur það leitt til átaka innan Samfylkingarinnar - sem von er. Mikil innri barátta er greinilega í gangi þar.

Hermann J. Tómasson

Prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri fór fram um helgina. Það kom engum á óvart að Hermann Jón Tómasson varabæjarfulltrúi flokksins og áfangastjóri í Verkmenntaskólanum á Akureyri, var kjörinn leiðtogi framboðslista þeirra með miklum yfirburðum. Sigraði hann keppinaut sinn, Hermann Óskarsson formann kjördæmisráðs Samfylkingarinnar og lektor við HA, en þeir nafnar voru einir í kjöri um fyrsta sætið. Hafði verið ljóst mjög lengi að Hermann Jón myndi fá leiðtogastólinn. Gaf Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi, ekki kost á sér þegar að ljóst var að hún nyti ekki fylgis í leiðtogastöðuna áfram og að Hermann Jón myndi gefa kost á sér í fyrsta sætið.

Hermann Jón hefur verið mjög lítið áberandi í stjórnmálum, nema þá sem varamaður Oktavíu endrum og eins á bæjarstjórnarfundum og sem nefndarmaður í skólanefnd. Reynir nú á hvernig hann sé sem leiðtogi, en hann hefur auðvitað enga reynslu af leiðtogastörfum í pólitík. Í öðru sætinu varð Sigrún Stefánsdóttir. Sigrún er hin mætasta kona. Er hún eins og Hermann Jón ættuð frá Dalvík og þekki ég því vel til þeirra beggja, og þekki fjölda fólks í fjölskyldum þeirra. Sigrún hefur verið lengi í bæjarmálunum hér og kemur árangur hennar engum að óvörum. Í þriðja sætinu varð svo Helena Karlsdóttir, sem er tiltölulega ný í stjórnmálum.

Í fjórða sætinu varð Margrét Kristín Helgadóttir, 23 ára laganemi við HA og fyrrum formaður ungliða kratanna hér í bæ. En vegna þess að Samfylkingin ákvað að styðjast við afdalakynjakvóta verður Margrét Kristín að sjá á eftir hinu örugga fjórða sæti til karlmanns. Sætið tekur sá sem varð fimmti í kjörinu, Ásgeir Magnússon fyrrum bæjarfulltrúi. Það er undarleg auglýsing fyrir Samfylkinguna á Akureyri að þeir vísi 23 ára gamalli konu, sem áhuga hefur á stjórnmálum og hlotið lýðræðislegt kjör í fjórða sætið, niður og taki upp afdankaðan karlmann sem hefur verið sparkað í prófkjöri áður.

Eins og flestir muna var Ásgeir gerður afturreka úr bæjarmálunum hér fyrir seinustu kosningar er Oktavía sigraði hann í leiðtogaslag innbyrðis í Samfylkingunni. Nú er hann endurunninn og færður upp á kostnað ungrar konu í stjórnmálum. Það er ekki nema furða að þessi staðreynd sé lítt auglýst af Samfylkingarfólki hér í bæ. Ef þessi niðurstaða sannar ekki hversu ruglaðir kynjakvótarnir eru, ja þá veit ég ekki hvað sannar það. Athygli vekur að formanni kjördæmisráðs og formanni Samfylkingarfélags Akureyrar er hafnað í kjörinu.

Það er merkilegt - svo virðist vera sem að flokksmenn meti ekki forystu þeirra og verk fyrir þennan flokk.

Akureyrarkirkja

Á sunnudaginn var allra heilagra messa. Að því tilefni fór ég snemma á fætur þann morguninn og fór eftir að hafa fengið mér morgunverð í messu í Akureyrarkirkju - kirkjunni minni. Nýr prestur okkar Akureyringa, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, predikaði þessu sinni. Hann tók til starfa í haust, eftir að sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir kvaddi okkur og hélt til annarra verkefna erlendis. Óskar er mjög góður prestur og stendur sig vel að mínu mati. Það er reyndar nokkuð merkilegt að átta sig á því að nýr prestur er jafngamall manni sjálfum. En Óskar byrjar vel. Eftir messuna var fræðslustund og léttar veitingar í safnaðarheimilinu. Þar fræddu Hirut Beyene og Kusse Koshoso frá Konsó í Eþíópíu okkur um kristniboð og hjálparstarf í Afríku. Mjög áhugavert. Eftir athöfnina átti ég stund með sjálfum mér upp í kirkjugarði. Þar hvíla ástvinir og ættingjar sem mér eru kærir. Þegar ég vil styrkja sjálfan mig og íhuga ýmis mál fer ég þangað uppeftir og á stund með sjálfum mér og hugsa um þá sem mér hefur þótt vænt um - en hafa kvatt þessa jarðvist, sumir alltof snemma.

Eftir það heimsótti ég ömmubróður minn, Kristján Stefánsson, sem nú liggur upp á spítala. Ég get ekki annað en dáðst af styrk þessa mæta manns sem mér er svo kær en hann berst nú ójafnri baráttu við skæðan sjúkdóm. Kiddi hefur alla tíð verið kraftmikill og heilsteyptur maður. Frá því ég man eftir mér hefur hann verið til staðar - hann hefur umfram allt sinnt öllum öðrum en sjálfum sér. Verið trúr ættingjum sínum og hlúð að þeim. Mér fannst aðdáunarvert að horfa á hann eyða síðustu misserum þess tíma sem hann hafði góða heilsu í að hlúa að Stínu, konu sinni, og Hugrúnu, systur sinni, en þær voru undir lok ævi sinnar báðar að berjast við Alzheimer-sjúkdóminn. Kiddi sinnti Stínu svo vel að hún fór aldrei á stofnun, nema rétt undir lokin. Þar kynntist ég hversu sterk ást og trú getur verið. Hann hugsaði um Stínu af sannri ástúð allt til loka. Vissulega er leitt að horfa upp á þá sem manni þykir vænt um kveljast. Kiddi hefur alla tíð stutt mig heilshugar - nú ætla ég svo sannarlega að styðja hann í baráttunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður stödd á Akureyri í dag og mun þá heimsækja framhaldsskólana og ræða hitamál umræðunnar í dag: styttingu náms til stúdentsprófs. Í Kastljósi í gærkvöldi var Þorgerður Katrín gestur Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og ræddi þessi mál við hana þar. Kl. 18:00 í kvöld mun Þorgerður Katrín flytja framsögu um menntamál á stjórnmálanámskeiði sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, sem haldið er í Kaupangi við Mýrarveg, flokksaðstöðu sjálfstæðismanna á Akureyri. Er þá upplagt tækifæri fyrir nemendur á Akureyri og áhugafólk um menntamál að mæta og spyrja hana spurninga um styttingu náms til stúdentsprófs, samræmd stúdentspróf og margt fleira.

Saga gærdagsins
1550 Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Hólum í Hjaltadal, og synir hans, Björn og Ari, voru hálshöggnir í Skálholti. Í kjölfarið var lúterstrú lögtekin á Hólum og kaþólsk trú var afnumin að fullu.
1956 Dwight D. Eisenhower endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann hlaut 58% atkvæða, sem var mesti sigur frambjóðanda í forsetakjöri í Bandaríkjunum frá kosningasigri Abraham Lincoln árið 1860. Adlai Stevenson ríkisstjóri í Illinois, var keppinautur Eisenhowers um forsetaembættið, líkt og 1952.
1972 Richard Nixon endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - forsetinn vann yfirburðasigur á George McGovern. Nixon vann mesta sigur sem náðst hafði í sögu forsetakjörs í Bandaríkjunum fram að því, hann hlaut 61% atkvæða og 521 kjörmann af 538. McGovern tókst aðeins að vinna í tveim fylkjum.
1984 Ronald Reagan endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - Reagan sigraði Walter Mondale með yfirgnæfandi hætti. Reagan hlaut rúm 59% greiddra atkvæða og hlaut hann 525 kjörmenn af alls 538.
2000 Hillary Rodham Clinton verður fyrsta forsetafrú í sögu Bandaríkjanna sem kosin er í opinbert embætti - hún náði með því kjöri sem öldungardeildarþingmaður New York-fylkis. Hillary var bæði þingmaður og forsetafrú í 17 daga, eða allt þar til eiginmaður hennar, Bill Clinton, lét af embætti.

Saga dagsins
1864 Abraham Lincoln endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann var myrtur hinn 15. apríl 1865.
1987 Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn formaður Alþýðubandalagsins - Ólafur sigraði Sigrúnu Stefánsdóttur í formannskjöri. Hann hlaut 60% atkvæða í kosningunni. Ólafur var fjármálaráðherra 1988-1991. Hann var formaður Alþýðubandalagsins í átta ár og varð svo forseti Íslands árið 1996.
1990 Mary Robinson kjörin forseti Írlands, fyrst kvenna - Robinson sat á forsetastóli til ársins 1997.
2000 George W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - deilt var um sigur hans, enda munaði litlu á honum og keppinaut hans, Al Gore, í Flórída fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra í fylkinu. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Ljóst var orðið að sigurvegari fylkisins yrði forseti. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Að lokum fór það svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi ósigur sinn um miðjan desember, 36 dögum eftir kjörið.
2002 Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, samþykkir ályktun 1441, þess efnis að afvopna verði Írak og Saddam Hussein forseta landsins - ályktunin leiddi svo til þess að ráðist var inn í Írak í mars 2003.

Snjallyrðið
Being powerful is like being a lady. If you have to tell people you are, you aren't.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fór um helgina. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sigraði Gísla Martein Baldursson í baráttunni um leiðtogasætið á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Konur hlutu góða kosningu og er jöfn skipting kvenna og karla í tíu efstu sætum framboðslistans. Það er enginn vafi á því að þetta prófkjör hefur styrkt mjög grunnstoðir flokksins í borginni – tryggt líf og snerpu í innra starfið sem menn búa að nú þegar að kosningabaráttan hefst. Nú er prófkjörinu lokið. En með því er baráttan aðeins rétt að byrja. Stærstu átökin - þau mikilvægustu - eru eftir nú. Borgin verður að vinnast með sannfærandi og öflugum hætti. Nú er mikilvægt að allir sjálfstæðismenn, ungir sem gamlir, sameinist í lykilverkefni: tryggja öflugan og góðan sigur í kosningum. Tryggja að þessi góði listi verði sú sigursveit sem við flokksfólk erum öll sannfærð um að hann sé. Andstæðingar eiga erfitt með að tala nú þegar listinn liggur fyrir. Hann er svo sterkur – umfram allt kraftmikill – að andstæðingarnir eiga ekki mörg góð svör við honum.

- í öðru lagi fjalla ég um pólitísk vandræði George W. Bush og Tony Blair – sem horfðust í augu við áföll á pólitísku sviði heima fyrir í vikunni sem leið. Bush þurfti í vikunni að horfast í augu við sitt lægsta persónufylgi á tæplega fimm ára forsetaferli – jafnframt eitt lægsta fylgi sem sitjandi forseti Bandaríkjanna hefur haft. Er hann þar að mælast með svipað fylgi og Nixon mældist með á þeim tíma sem hann var á leið til pólitískrar glötunar í miðju Watergate-málinu. Það er alveg óhætt að fullyrða að Bush forseti sé nú að glíma við mestu erfiðleika sína til þessa á forsetaferlinum. Ekki aðeins mælist persónulegt fylgi hans lágt heldur hafa nánir samstarfsmenn hans flækst í hneykslismál og rannsókn á því hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög. Á sama tíma er Blair í vandræðum. Einn nánasti samstarfsmaður hans, David Blunkett, neyddist til að víkja vegna hneykslismála og mál hans eru föst í þinginu og blokkeruð af andstæðingum hans innan eigin flokks.


Fullkomið brúðkaup

Fullkomið brúðkaup

Í gærkvöldi fór ég á miðnætursýningu í leikhúsið á hinn frábæra farsa, Fullkomið brúðkaup, eftir Robin Hawdon. Um er að ræða drepfyndinn og rómantískan farsi um brúðkaupsdag sem fer á annan endann. Sýningin hafði hlotið frábærar viðtökur, bæði frá gagnrýnendum og áhorfendum, og því höfðum ég og fleiri vinir mínir áhuga. Skelltum við okkur á sýningu sem hófst kl. 23:30. Þá voru línurnar orðnar ljósar í prófkjörinu í borginni og upplagt að fara í leikhúsið og líta á verkið. Hafði ég ætlað að fara í síðasta mánuði en varð að hætta við. Hefur verið svo mikil eftirspurn að bæta varð við fjölda aukasýninga og gafst mér þá og vinafólki mínu færi á að skella sér. Var þetta alveg frábær kvöldstund - mikið hlegið og mikið gaman. Í stuttu máli sagt er söguþráðurinn með þessum hætti: "Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni á hótelherbergið, það er í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað..."

Fullkomið brúðkaup er alveg stórfenglegt verk - virkilega vel skrifað og hratt stykki sem allir ættu að hafa sannkallað gaman af. Þetta var alveg frábært kvöld í leikhúsinu - maður hlær frá upphafi til enda. Sérstaklega fer biskupssonurinn Guðjón Davíð Karlsson á kostum í hlutverki hins einstaklega seinheppna brúðguma. Álfrún Örnólfsdóttir er stelpan í rúminu sem hann veit ekkert hver er - en á svo sannarlega eftir að valda einhverjum furðulegasta degi í lífi brúðgumans, brúðarinnar og öllum sem nærri koma. Jóhannes Haukur Jóhannesson er svo frábær í hlutverki vinar brúðgumans, sem kemur honum til bjargar með ófyrirséðum afleiðingum. Esther Thalia Casey leikur svo brúðina sem telur sig eiga í vændum sæluríkasta dag ævi sinnar en lendir í atburðarás sem sífellt spinnur upp á sig. Senuþjófur sýningarinnar er að mínu mati Maríanna Clara Luthersdóttir sem fer algjörlega á kostum í hlutverki herbergisþernunnar á hótelinu. Gamli góði meistarinn Þráinn Karlsson fer svo enn einu sinni á kostum - að þessu sinni sem faðir brúðarinnar.

Höfundur verksins er sá sami og samdi leikritið Sex í sveit. Það er vinsælasta sýning Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi - algjörlega ógleymanleg sýning sem mér er í fersku minni. Sjaldan hef ég allavega hlegið meira en þá. Nema ef vera skyldi í gærkvöldi. Þetta var mikið fjör - hláturkirtlarnir voru allavega í essinu sínu í gærkvöldi. Var salurinn alveg í hláturkrampa allt frá upphafi til enda. Leikstjóri verksins er Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri. Þýðingu annaðist Örn Árnason leikari. Er vægt til orða tekið að honum hafi tekist vel upp. Hvet ég alla Norðlendinga til að reyna að komast á aukasýningarnar og sjá þetta frábæra verk. Sjón er sögu ríkari - verkið er allavega lykill að góðri kvöldstund.

Hvet ég alla til að hlusta á titillag verksins: Steggur og gæs - sungið af aðalleikurunum Guðjóni Davíð og Esther Taliu. Höfundur lags er Björn Jr. Friðbjörnsson, en textann samdi Hallgrímur Helgason. Lagið var samið sérstaklega fyrir þessa sýningu. En allavega gærkvöldið var allavega í senn bæði mjög hressilegt og ánægjulegt.

Saga dagsins
1900 William McKinley endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - var myrtur 6. sept. 1901 í New York.
1968 Richard Nixon kjörinn forseti Bandaríkjanna - náði naumum sigri gegn Hubert Humphrey.
1983 Þorsteinn Pálsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í stað Geirs Hallgrímssonar sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þorsteinn var formaður flokksins í rúm sjö ár. Hann tapaði fyrir Davíð Oddssyni í formannskjöri 1991. Hann var fjármálaráðherra 1985-1987, forsætisráðherra 1987-1988 og sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra 1991-1999. Þorsteinn var sendiherra í Danmörku árin 1999-2005.
1996 Bill Clinton endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - sigraði Bob Dole með mjög afgerandi hætti.
1999 Ástralir ákveða í kosningu að hafna sjálfstæði og vera áfram í konungssambandi við Bretland.

Snjallyrðið
The only real prison is fear, and the only real freedom is freedom from fear.
Aung San Suu Kyi friðarverðlaunahafi Nóbels (1945)


Engin fyrirsögn

Sjálfstæðisflokkurinn

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram í dag og á morgun. Það stefnir allt í spennuþrungnasta prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni frá því árið 1981. Þá tókust Davíð Oddsson, Markús Örn Antonsson og Albert Guðmundsson á um leiðtogastólinn. Davíð vann naumlega og Markús Örn varð annar. Sem dæmi um hversu naumur sigurinn varð er að Davíð fékk 3948 atkvæði en Markús 3925. Það munaði því aðeins 24 atkvæðum að Markús Örn Antonsson hefði leitt framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1982. Allavega voru úrslitin söguleg - Davíð varð síðar formaður flokksins og forsætisráðherra, lengur en nokkur annar. Um leiðtogastól flokksins að þessu sinni, í komandi sveitarstjórnarkosningum þann 27. maí 2006, berjast þeir Gísli Marteinn Baldursson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Seinustu vikur hefur baráttan þeirra á milli tekið á sig ýmsar myndir og mikil spenna verið yfir vötnum hvað varðar úrslitin. Það er enda ekki óeðlilegt að áhugi sé á sigri í prófkjörinu og ekki síður úrslitum þessa prófkjörs fyrir áhugamenn um stjórnmál. Ef marka má nýlegar skoðananakannanir mælist Sjálfstæðisflokkurinn með um 60% fylgi í könnunum Gallups á fylgi flokkanna í borginni.

Um er því að ræða mesta fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í könnunum Gallups í einn og hálfan áratug - síðan í borgarstjóratíð Davíðs. Af því leiðir að sá sem sigrar prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um helgina verður næsti borgarstjóri í Reykjavík, ef marka má kannanir. Það er varla furða að tekist sé á um þann sess, það er eftir miklu að sækjast ef marka má kannanir og þetta nýja pólitíska landslag sem blasir við í borginni eftir endalok R-listans. Úrslit verða ljós annað kvöld, en áætlað er að fyrstu tölur í prófkjörinu liggi fyrir á sjöunda tímanum að kvöldi laugardags. Tölur verða eftir það birtar á hálftíma fresti þar til úrslit liggja endanlega fyrir. Stefnt er að því að úrslit séu alveg ljós fyrir miðnættið að kvöldi laugardags. Þá verður ljóst hver leiðir framboðslistann, verði semsagt borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í kosningunum, og hverjir verða í efstu sætum framboðslistans í kosningunum. Kosið er um níu efstu sætin - úrslitin verða bindandi hvað þau varðar. Annars fær uppstillinganefnd það verkefni eftir prófkjörið að velja á listann hvað varðar önnur sæti og gera hann kláran til samþykktar í fulltrúaráð flokksins. Það stefnir því aldeilis í spennandi tíma hjá flokknum og vonandi verður listinn vel mannaður.

Ef marka má fréttir í dag stefnir í sögulegt prófkjör, ekki bara hvað varðar úrslitin heldur þátttöku. Um 20.000 manns hafa gengið í flokkinn og hafa kjörgengi í prófkjörinu og ennfremur blasir við að kosningaþátttakan fari vel yfir 10.000 manns. Ánægjulegt verður ef eldra met um þátttöku í prófkjöri hjá flokknum í borginni verður slegið. Það var í prófkjörinu 2002 þegar að um 12.000 manns greiddu atkvæði. Stefnir allt í að það met falli nú. Mikil smölun virðist í flokkinn í prófkjörinu. Það er mikið gleðiefni að flokksmönnum fjölgi og ánægjulegt ef frambjóðendum tekst að tryggja það öfluga maskínu á bakvið framboð sín að þeir dragi til sín fólk sem gengur í flokkinn. Það er eðli prófkjöra að safna fólki inn í flokkinn - tryggja líf og fjör í framvarðasveit flokksins og efla innra starfið með meiri þátttöku og nýju fólki inn. Fyrst og fremst gleðst ég með það að flokksfélögum í borginni fjölgi. Hvað varðar úrslitin ítreka ég að ég voni að Gísli Marteinn vinni sigur í prófkjörinu. Svo vona ég ennfremur að ungliðum í framboði vegni vel. Svo má ekki gleyma að tryggja þarf konunum sem gáfu kost á sér góða og öfluga kosningu.

Fyrst og fremst vona ég að prófkjörið skili flokknum í borginni góðum og sigurstranglegum lista fólks sem tekur við völdum í borginni að vori.

David Blunkett

Það fór eins og ég spáði fyrr í vikunni. David Blunkett atvinnu- og lífeyrismálaráðherra Bretlands, varð að segja af sér vegna hneykslismálanna sem ég rakti í þeirri færslu. Staða hans var orðin vonlaus í byrjun vikunnar. Það staðfestist svo endanlega er leið fram að miðri viku að hann hafði brotið siðareglur og gat ekki með trúverðugum hætti haldið áfram í embætti. Tony Blair forsætisráðherra, varð að fórna þessum trygga bandamanni sínum. Blunkett baðst formlega lausnar að morgni miðvikudags. Sýnt var þá að Blair gæti ekki annað en skaðast með að hafa hann áfram í embættinu. Flestum þótti þó að Blair hefði varið Blunkett lengur en góðu hófi gegndi fyrir flokkinn í heild sinni. Trúverðugleiki forsætisráðherrans þótti hafa skaddast með því hversu mjög hann neitaði að horfast í augu við stöðu mála og afglöp Blunketts. Þegar þetta var orðið ljóst var honum fórnað. Það gerði Blair ekki með brosi á vör. Eins og ég rakti fyrr í vikunni hefur Blunkett verið einn tryggasti bandamaður Blairs - alltaf varið hann ötullega og haldið utan um hópinn. Nú er Blunkett búinn að missa öll sín pólitísku áhrif og að nýju orðinn óbreyttur þingmaður. Hann mun vart eiga sér endurkomu í ráðherrastól að þessu sinni.

Blair taldi sig eiga honum greiða að gjalda með því að taka hann aftur inn í vor, en nú má flestum verða ljóst að Blair þorir ekki að hygla þessum gamla bandamanni meira. Það sem meira er að völd Blair hafa skaddast með brotthvarfi Blunketts. Það er enginn vafi á því að Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur rétt fyrir sér þegar hann fullyrðir að Blair sé að missa tökin á Verkamannaflokknum. Áhrifastaða hans hefur allavega stórlega breyst. Hann hefur þegar tilkynnt að hann ætli sér ekki að leiða flokkinn að nýju í næstu kosningum en sitja út kjörtímabilið. Það má öllum vera ljóst að svo verður ekki. Hann mun hætta fyrr en síðar sem leiðtogi. Í þau átta ár sem Blair hefur verið forsætisráðherra gat hann lengst af farið sínu fram í ljósi gríðarlega öflugs þingmeirihluta og þurfti ekki í raun að taka tillit til vinstrisinnaðasta arms flokksins. Það breyttist með úrslitum þingkosninganna í maí, þegar að þingmeirihluti flokksins rýrnaði, fór úr 160 niður í tæp 70. Hann hefur síðan orðið að spila fleiri millileiki og venjast því að vera með brothættari meirihluta sem gæti leitt til þess að vissir þingmenn verði honum óþægur ljár í þúfu og leiki meiri sóló - staðan verði óútreiknanlegri og um leið auðvitað erfiðari viðfangs.

Enginn vafi er á því að Tony Blair hefur stefnt að því að slá met hinnar kraftmiklu járnfrúar, Margaret Thatcher, sem sat lengur á forsætisráðherraferli en aðrir í seinni tíma stjórnmálasögu. Vissulega getur Blair náð því, enda náði hann í vor kjöri á valdastól á kjörtímabil sem getur varað í allt að fimm ár. Ef hann situr til loka þess án þess að boða til kosninga áður hefur hann setið samfellt í þrettán ár og hefur þá náð að skáka frú Thatcher. Blair er ekki gamall maður, aðeins 52 ára - en er vissulega orðinn mjög pólitískt þreyttur og mæddur eftir áföll seinustu vikna. Fullyrða má að sú vika sem brátt er á enda hafi verið ein hans erfiðasta á átta ára forsætisráðherraferli. Líkurnar á því að hann sitji allavega tímabilið á enda fara ört minnkandi. Þreyta kjósenda og ekki síður flokksmanna með pólitíska forystu Blairs er orðin mjög greinileg. Vaktaskipti blasa því við á komandi árum. Breytingar eru framundan. Þrátt fyrir sögulegan sigur í vor og nokkurn áfanga þá stendur Blair á krossgötum - hann hefur misst Blunkett og hefur misst eldmóðinn sinn. Óneitanlega nálgast endastöðin hjá Tony Blair á pólitískum leikvangi.

Yitzhak Rabin

Ég mun aldrei gleyma laugardagskvöldinu 4. nóvember 1995. Það kvöld var rólegt á heimili mínu. Ég og þáverandi unnusta mín vorum að horfa á góða kvikmynd heima. Man þetta eins og gerst hafði í gær. Myndin var The Maltese Falcon með Humphrey Bogart - ógleymanleg eðalmynd. Þegar myndinni er lokið rúmlega um miðnættið skipti ég yfir á Stöð 2. Þar er þá nýlega hafinn aukafréttatími þar sem Sigmundur Ernir Rúnarsson situr í fréttasettinu alvarlegur á brá. Ég hef ekki horft á lengi þegar ég geri mér grein fyrir því hvert tilefni útsendingarinnar er. Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og leiðtogi ísraelska Verkamannaflokksins, hafði verið skotinn þrem skotum í návígi af tilræðismanni á útifundi um friðarmáli í höfuðborginni Tel Aviv, þrem klukkustundum áður. Hann hafði lifað sjálfa skotárásina af, en verið mjög illa á sig kominn og stórslasaður. Hann lést svo skömmu eftir komuna á sjúkrahús. Þetta var merkileg útsending. Gleymi ég henni ekki. Dagana á eftir var Rabin minnst um allan heim og hann var kvaddur við virðulega útför í Tel Aviv að viðstöddum fjölda leiðtoga og jarðsettur á tignarlegum stað í borginni. Rabin var að mínu mati merkilegur stjórnmálamaður - að honum var mikill sjónarsviptir.

John Lennon

John Lennon var sá maður sem setti að mínu mati eftirminnilegast mark á tónlistarsögu 20. aldarinnar. Hann og hljómsveit hans, The Beatles, slógu í gegn og unnu sér frægð fyrir ógleymanlega tónlist. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar - ekkert varð samt. Í síðasta mánuði, hinn 9. október, voru 65 ár liðin frá fæðingu Lennons. Einhverra hluta vegna gleymdi ég að fjalla um það. Er það merkilegt, enda hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar hans, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Lennon lifði ekki að komast á elliár - hann varð ekki 64 ára eins og sagði í frægu Bítlalagi. Hann var myrtur af geðsjúkum aðdáanda í byrjun desember árið 1980. Minningu hans er haldið hátt á lofti um allan heim - þó langt sé orðið um liðið frá dauða hans. Í gærkvöldi hlustaði ég enn einu sinni á síðasta meistaraverk hans, Double Fantasy. Þegar hlustað er á þá plötu verður manni ósjálfrátt hugsað til þessa merka tónlistarmanns og hversu margt hann hefði getað áorkað ef hann hefði lifað lengur. Eitt er þó ljóst - ævistarf hans verður lengi í minnum haft.

Derrick

Hef seinustu dagana verið að rifja upp kynni mín af einum besta spennuþætti seinustu áratuga - Derrick. Þættirnir, sem voru þýskir, fjölluðu um lögregluforingjann Stephan Derrick og aðstoðarmann hans, Harry Klein, sem leystu sakamál í München í Bæjaralandi. Þættirnir um Derrick voru alveg frábærir - þeir allavega eiga fastan sess í huga mínum. Maður ólst enda upp með þessum þáttum. Þeir eru vinsælustu framhaldsþættir sem Þjóðverjar hafa gert. Þættirnir voru á dagskrá í tæpan hálfan þriðja áratug, á árunum 1974-1998. Horst Tappert er mjög eftirminnilegur í hlutverki nafna míns, Stefáns Derricks. Allavega eðalþættir - ég er svo heppinn að eiga nokkra þætti á spólu sem ég horfi stundum á. Fjarri því eru þetta bestu þættirnir - en Derrick var alltaf góður og fáir voru betri á þessu sviði. Þættirnir voru enda þeirrar gerðar að þeir voru ekki að stæla um of bandaríska þætti svipaðrar gerðar - farið var eigin leiðir. Allavega, Derrick var vinsæll hér sem og í flestum af þeim rúmlega 100 löndum þar sem þeir voru sýndir. Hann átti dygga aðdáendur um allan heim. Sem er varla undrunarefni - enda þættirnir fyrsta flokks.

SUS

Ég hef tekið við ritstjórn heimasíðu SUS ásamt góðvini mínum, Gunnari Ragnari Jónssyni. Er þetta spennandi verkefni - vissulega mjög krefjandi - en virkilega spennandi sem áhugavert verður að takast á við. Vefur SUS er vettvangur allra ungra sjálfstæðismanna - þar geta þeir skrifað og hvet ég alla ungliða sem áhuga hafa á að skrifa að hafa samband við mig. Netfangið mitt er stebbifr@simnet.is. Með okkur í ritstjórn er góður hópur fólks. Það eru: Gunnar Dofri Ólafsson, Höskuldur Marselíusarson, Jarþrúður Ásmundsdóttir, Kári Allansson og Margrét Elín Arnarsdóttir. Verður þetta áhugavert samstarf sem mér hlakkar mjög til. Við ætlum að vinna vel saman í vetur og stjórna kraftmiklum og góðum vef.

Saga gærdagsins
1660 Kötlugos hófst með langvaranlegum jarðskjálfta og jökulhlaupi - eitt af stærstu Kötlugosunum.
1964 Lyndon Baines Johnson kjörinn forseti Bandaríkjanna - vann öruggan sigur á Barry Goldwater. Johnson hlaut 486 kjörmenn og vann stærsta kosningasigur sem nokkur kjörinn forseti hafði náð fram að þeim tíma. Johnson var þá þaulreyndur stjórnmálamaður - hann sat í fulltrúadeildinni 1937-1949 og öldungadeildinni 1949-1961. Hann var svo kjörinn varaforseti Bandaríkjanna í nóvember 1960. Johnson varð forseti Bandaríkjanna, þann 22. nóvember 1963, er John F. Kennedy forseti, var myrtur í Dallas í Texas. Johnson gaf ekki kost á sér í forsetakosningunum 1968 vegna andstöðu almennings við stefnu hans í Víetnamsstríðinu - Lyndon B. Johnson varð bráðkvaddur á búgarði sínum í Texas í janúar 1973.
1968 Alþýðubandalagið formlega stofnað sem stjórnmálaflokkur - hann bauð síðast fram árið 1995.
1976 Jimmy Carter fyrrum ríkisstjóri í Georgíu, kjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnum kosningum þar sem Gerald Ford sitjandi forseti, beið ósigur - Ford hafði setið sem forseti allt frá afsögn Nixons.
2004 George W. Bush endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnni valdabaráttu þar sem nokkur fylki réðu að lokum úrslitum - John Kerry viðurkenndi ósigur sinn, eftir að ljóst varð að hann hafði tapað í Ohio. Án sigurs þar varð ljóst að Bush hefði náð endurkjöri. Bush hlaut hreinan meirihluta greiddra atkvæða, fyrstur forseta í 16 ár. Hann hlaut 51% atkvæða og 286 kjörmenn. Kerry hlaut 252.

Saga dagsins
1942 Áhöfn Brúarfoss bjargaði 44 skipbrotsmönnum af enska skipinu Daleby, sem hafði verið sökkt.
1956 Yfirvöld í Sovétríkjunum ráðast inn í Ungverjaland og fella stjórn landsins sem reynt hafði að færa stjórnarfar þess í átt til lýðræðis, sem var einum of mikið fyrir sovésk yfirvöld að sætta sig við.
1980 Ronald Reagan ríkisstjóri í Kaliforníu, kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann var 69 ára er hann náði kjöri og því elstur þeirra sem kjörinn hafði verið á forsetastól í landinu. Hann sat í embætti í tvö kjörtímabil og varð einn af vinsælustu leiðtogum í sögu landsins. Reagan forseti, lést 5. júní 2004.
1992 Bill Clinton ríkisstjóri í Arkansas, kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann felldi George H. W. Bush sitjandi forseta, af valdastóli. Clinton forseti, sat í embætti í tvö kjörtímabil, eða allt til ársins 2001.
1995 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels, skotinn til bana á útifundi í Tel Aviv. Framlag hans til friðar í Mið Austurlöndum kostaði hann lífið, en öfgasinnaður maður skaut hann til að hefna fyrir friðarsamkomulagið við Palestínumenn. Þjóðarsorg ríkti í Ísrael vegna andláts forsætisráðherrans. Þjóðarleiðtogar um allan heim fylgdu Rabin til grafar - friðarferlið fór af sporinu eftir dauða Rabins.

Snjallyrðið
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)


Engin fyrirsögn

George W. Bush og Samuel Alito

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í morgun að hann hefði skipað dómarann Samuel Alito sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Er hann skipaður í réttinn sem eftirmaður Söndru Day O'Connor, sem tók fyrst kvenna sæti í réttinum árið 1981. Er hann þriðja dómaraefnið sem skipað er í stað Söndru. Upphaflega, fyrr í sumar, hafði forsetinn skipað John G. Roberts sem dómara við réttinn. Í kjölfar andláts William H. Rehnquist forseta Hæstaréttar, í haust, var Roberts skipaður í stað hans og var staðfestur sem forseti réttarins í lok september. Þá skipaði forsetinn Harriet Miers yfirlögfræðing Hvíta hússins, sem dómara. Tilkynnt var á fimmtudag að hún hefði hætt við að þiggja útnefninguna. Sýnt var að henni skorti nauðsynlegan meirihluta í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og í þingdeildinni sjálfri. Andstaða við hana innan hins íhaldssama arms Repúblikanaflokksins varð henni að falli - án þess stuðnings var borin von að hún hlyti tilskilinn stuðning í þinginu. Því fór sem fór. Brotthvarf Miers frá ferlinu og erfiðleikar hennar í stöðunni markaði vandræðalegt ástand fyrir forsetann. Það er alltaf vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið.

Nú tekur Bush forseti engar áhættur í stöðunni. Skipaður er tryggur hægrimaður - umfram allt tryggur íhaldsmaður í lykilmálum. Alito er mjög tryggur íhaldsmaður hvað varðar þau lykilmál sem deilt hefur verið um seinustu árin. Hann er allavega talinn svo líkur hæstaréttardómaranum íhaldssama Antonin Scalia, að hann er almennt uppnefndur Scalito. Þessi brandari er lífseigur og rifjast upp nú þegar hann er orðinn útnefndur dómari við réttinn og þarf að heyja baráttu í þinginu fyrir staðfestingu. Bakgrunnur Alito er allavega mjög honum til styrktar hvað varðar stuðning repúblikana í þinginu. Bush gerði sér allavega grein fyrir því hvaða stuðning þarf til að dómaraefnið komist heilt í land - vandræði Miers og harkaleg endalok staðfestingarferlisins sannfærðu hann vel um það. Því er skipaður tryggur íhaldsmaður með þær grunnskoðanir sem forsetinn telur þurfa til að dómaraefnið nái í gegnum hið langvinna og harðvítuga ferli. Búast má við umtalsverðum deilum. Nú er verið að fylla í skarð Söndru, sem var þekkt sem swing vote í réttinum. Búast má við að demókratar berjist hatrammlega gegn því að yfirlýstur íhaldsmaður taki við af Söndru. Þegar hafa þekktir demókratar tjáð andstöðu sína við Alito og líklegt að nokkur átök verði í þinginu. Um mun meira er enda verið að spila nú en þegar Roberts kom fyrir þingið.

Samuel Alito er fæddur í Trenton í New Jersey hinn 1. apríl 1950. Hann útskrifaðist frá Princeton-háskóla árið 1972 og fór í Yale lagaskólann að því loknu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1975. Árin 1976-1977 starfaði hann sem aðstoðarmaður alríkisdómarans Leonard I. Garth. Árin 1977-1981 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra New Jersey-fylkis. 1981-1985 var Alito aðstoðarmaður Rex E. Lee lagasérfræðings Hvíta hússins. Árin 1985-1987 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í ráðherratíð Edwin Meese. 1987-1990 var Alito saksóknari New Jersey-fylkis. Frá árinu 1990 hefur Alito verið alríkisdómari við áfrýjunardómstólinn í Philadelphiu. Alito og eiginkona hans, Martha, búa í West Caldwell í New-Jersey. Þau eiga tvö börn, soninn Phil og dótturina Lauru. Eins og sést á verkum Alito hefur hann gríðarlega reynslu að baki og erfitt verður að finna að verkum hans sem lagasérfræðings. Hann hefur ennfremur flutt tólf mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og býr því yfir víðtækri reynslu. Það er enda rétt sem forsetinn sagði í dag að Alito er einn virtasti og hæfasti dómari í Bandaríkjunum.

Verður merkilegt að fylgjast með því er hann kemur fyrir dómsmálanefndina og svarar þar spurningum um lagaleg álitaefni og hitamál samtímans. Má búast við átökum fyrir þinginu vegna skipunar Bush forseta á kaþólikkanum Alito í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar verða átakapunktarnir klassískir - en umfram allt harðir. Þar takast á grunnpólar, með og á móti íhaldssömum sjónarmiðum. Verður sá slagur mjög hvass, enda mun sá sem tekur sæti Söndru Day O'Connor í réttinum hafa umtalsverð áhrif á skipan mála á komandi árum og framvindu hitamálanna sem allir þekkja. Því má búast við að það muni reyna mjög bæði á Alito, sem berst fyrir staðfestingu þingsins, og ekki síður Bush, sem skipar hann til setu í réttinum.

Fall Berlínarmúrsins 1989

Í gærkvöldi horfði ég á einn þátt úr þáttaröð CNN: The Cold War. Þar var um að ræða þátt um fall Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins hinn 9. nóvember 1989 hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið-Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins, þessa merkilega tímabils. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs.

9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta nóvemberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei. Allavega man ég eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Sagan var þarna að gerast - atburður sem hóf dómínófall kommúnismans. Það er enn í dag gleðiefni að horfa á þessi miklu umskipti. Hvet alla til að sjá þessa þætti.

Vænn hamborgari

Hvað er málið með forsætisráðherrann? Nú er hann búinn að skipa einhverja þá tilgangslausustu nefnd sem ég hef heyrt af til fjölda ára. Um er nefnilega að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina á vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það er ekkert annað - góðan daginn maður minn, varð mér að orði við að lesa þessa frétt á netinu. Hvernig á nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei. Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka.

ISG

Það bar til tíðinda undir lok síðustu viku að Ingibjörg Sólrún mætti með betlistafinn til útgerðarmanna og tók lagið: "Ég vil ganga þinn veg - ef þú vilt ganga minn veg" með grátstafinn í kverkunum. Alveg sérdeilis hlægilegt. Þar talaði ISG með þeim hætti að ná mætti sáttum ef aðeins yrði farið eftir hennar leikreglum. Það fyrsta sem mér varð að orði við þessar fregnir var að nú væri greinilega orðið hart í ári í Sollukoti Samfylkingarinnar. Hún semsagt mætt til útgerðarmannanna með blik í auga en kröfuspjöld á lofti. Þetta finnst flestum fyndið - ja nema flokksfélögum hennar (sem flestir hafa vit á því að segja ekki neitt um þetta útspil) og svo auðvitað frjálslyndum sem hafa misst grínið og beina nú spjótum sínum að Samfylkingunni og láta þingmenn flokksins hátt á blaðursíðum sínum. Lítið endilega á það. En fyrir mig sem andstæðing ISG og Samfylkingarinnar er ekki ónýtt að horfa á þetta fyrrum forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningunum 2003 éta ofan í sig nú alla þvæluna um fyrningarleiðina sem þá var látin falla. Skál fyrir því áti Ingibjargar Sólrúnar!

Vetur á Akureyri

Það er bara að verða ansi jólalegt og notalegt hér norður á Akureyri. Það snjóar og snjóar - kominn ekta vetur með tilheyrandi frosti, skammdegi og kuldatíð. Þó að ég sé ekki mikið fyrir snjó finnst mér alltaf eitthvað ansi rómantískt við snjó og skammdegið. Nú styttist óðum í heilagasta tíma ársins - jólin sjálf. Innan við mánuður er í upphaf aðventunnar og upphaf jólaundirbúningsins. En ég ætla að vona að það muni ekki massasnjóa hér næstu vikurnar. Tel þetta orðið notalegt og gott. Get sætt mig við þetta - ef þetta helst svona. Þó að snjórinn sé rómantískur eru takmörk fyrir öllu þykir mér.

Saga dagsins
1955 Margrét prinsessa, tilkynnti formlega að hún muni ekki ganga að eiga heitmann sinn, Peter Townsend flotaforingja. Konungsfjölskyldan féllst ekki á ráðahag þeirra vegna þess að Peter var fráskilinn. Peter var alla tíð stóra ástin í lífi Margrétar og varð það henni þungt að geta ekki gifst honum nema að þurfa að fórna stöðu sinni innan fjölskyldunnar og í valdaröðinni. Hún giftist 1960 og eignaðist tvö börn síðar. Hún var alla tíð í ástarsorg vegna Peters og lauk hjónabandi hennar með skilnaði 1980. Margrét lést í febrúar 2002, en hún hafði seinustu árin átt við heilsuleysi að stríða.
1984 Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands, myrt af síkhum sem komist höfðu í lífvarðasveit hennar og skutu hana í garði fyrir utan embættisbústað hennar í Nýju Delhi. Indira var kraftmesti stjórnmálamaður Indlands í nokkra áratugi og leiddi Kongressflokkinn frá 1966 til dauðadags. Hún var forsætisráðherra landsins 1966-1977 og aftur frá 1980. Sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu nokkrum klukkutímum eftir lát móður sinnar. Óeirðir urðu um allt landið í kjölfar dauða hennar.
1993 Ítalski leikstjórinn Federico Fellini lést í Róm, 73 ára að aldri - var meistari í kvikmyndagerð.
1997 Breska fóstran, Louise Woodward, sakfelld fyrir að hafa valdið dauða barns sem hún passaði í Boston þegar hún var þar au-pair. Var orsök andláts barnsins sagt vera Shaken baby syndrome. Dómnum var síðar breytt í manndráp af gáleysi og Louise fékk að halda aftur heim til Englands.
2003 Mahathir bin Mohamad lætur af embætti sem forsætisráðherra Malasíu eftir 22 ára valdaferil.

Snjallyrðið
Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.
Komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig.
Minnst mildingur mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjarta borg.

Gæt, mildingur mín,
mest þurfum þín,
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
málsefni fögur.
Öll er hjálp af þér
í hjarta mér.
Kolbeinn Tumason (1170-1208) (Heyr himnasmiður)

Fallegt ljóð Kolbeins Tumasonar sem snertir alltaf streng í hjartanu mínu - í þessu ljóði er næm taug og tær sál.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um nýlegan landsfund VG. Fer ég yfir niðurstöður fundarins hvað varðar vinstriáherslur flokksins, rússneska endurkosningu forystu flokksins og það hvernig formaður flokksins biðlaði til Samfylkingarinnar um pólitísk samstarf á komandi árum. Steingrímur J. allt að því öskraði fimm slagorð byggð á heiti fundarins: NÚNA vil ég fara að fá að ráða einhverju - NÚNA er komið að mér að fá að plotta - NÚNA er komið að okkur að stjórna en ekki Framsókn - NÚNA vil ég að við Samfylking byrjum saman - NÚNA verðum við að beygja til vinstri. Örvænting Steingríms J. var allavega greinileg og það var óneitanlega skondið að fylgjast með fréttum af þessum fundi öllum. Skiljanlegt er að Steingrímur J. sé orðinn hundleiður á stjórnarandstöðuverunni - eftir að hafa dvalið þar 19 af 22 árum sínum á þingi. Hann má þó ekki gleyma þeirri gullnu staðreynd að það eru kjósendur sem hafa barið hann niður í það hlutskipti. Kannski er það vegna þess að kjósendum hugnast ekki vinstriáherslurnar og ruglið sem kommúnískur afdalaflokkur frá fortíðinni býður upp á, á okkar tímum.

- í öðru lagi fjalla ég um kvennafrídaginn, sem haldinn var í byrjun vikunnar. Hátt í 50.000 manns, mest konur eins og fyrir þrjátíu árum, komu saman í miðborg Reykjavíkur til að minnast tímamótanna, en 30 árum áður höfðu konur komið saman af sama tilefni. Þarna var að finna, rétt eins og 1975, fólk af öllum aldri og af öllum stéttum. Íslenskar konur lögðu niður vinnu klukkan 14:08 þann dag. Sú tímasetning var vissulega táknræn - enda höfðu konur þá unnið fyrir launum sínum ef litið er til þess að þær munu hafa um 64% af launum karla. Vinnudegi kvenna var þá lokið sé litið til launamunar kynjanna. Konur þessa lands eiga það skilið að vinnuframlag þeirra í sambærilegum störfum og karla sé metið jafnt. Jafnrétti verður að standa undir nafni - með viðeigandi aðgerðum. Kynbundinn launamunur er og verður óeðlilegur.

- í þriðja lagi fjalla ég um nýtt og spennandi tímarit sem ber heitið Þjóðmál og hefur vakið athygli fyrir áhugaverð skrif um stjórnmál. Hvet ég alla lesendur til að fá sér ritið og lesa það. Allir þeir sem áhuga hafa á þjóðmálum - stjórnmálum samtíma og fortíðar hafa gaman af þessu riti. Hlakkar mér til að lesa næsta tímarit af Þjóðmálum.


Kleifarvatn

Kleifarvatn

Las í vikunni aftur bestu skáldsögu ársins 2004 - Kleifarvatn eftir meistara íslenskra spennusagna, Arnald Indriðason. Hún var ennfremur söluhæsta bókin fyrir seinustu jól - seldist í metupplagi. Rúmlega 30.000 eintök hafa selst af Kleifarvatni - er hún söluhæsta skáldsaga Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Hefur engin bók selst betur síðan farið var að halda utan um sölu á bókum hérlendis með þeim hætti sem nú er, fyrir nokkrum áratugum. Kom þessi góði árangur engum á óvart sem las bókina. Las ég hana tvisvar í fyrra, um leið og hún kom út og svo aftur yfir sjálf jólin. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við. Þetta er svo sannarlega spennusagnabók á heimsmælikvarða. Að mínu mati er þetta besta bók Arnaldar.

Sem jafnan fyrr er aðalsöguhetjan, Erlendur Sveinsson lögreglumaður, og samstarfsfólk hans, Elínborg og Sigurður Óli, sem áður hafa komið við sögu t.d. í Mýrinni, Grafarþögn og Röddinni. Segir frá því að þegar vatnsborð Kleifarvatns lækkar í kjölfar jarðskjálfta finnst beinagrind af manni í sandinum sem vatnið hafði áður hulið. Rannsaka Erlendur og aðstoðarmenn hans málið og leiðir sú rannsókn þau nokkra áratugi aftur í tímann, til þess tíma er hugsjónaeldur brann í brjósti fólks sem var slökktur í viðjum kalda stríðsins. Söguþráðurinn er eins og jafnan fyrr hjá Arnaldi meistaralega spunninn og æsispennandi. Hefur það verið alveg virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig. Sem spennusagnahöfundur er Arnaldur á heimsmælikvarða og hefur hann hlotið alþjóðlega frægð og hlotið Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn.

Var Arnaldur tilnefndur loks til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, fyrir þessa bók. Slæmt var að hann fékk þau ekki - enda var Kleifarvatn langbesta skáldsaga ársins 2004, að mínu mati og margra fleiri. Hefur hann verið sniðgenginn seinustu ár, þrátt fyrir hvert meistaraverkið á eftir öðru. Á þriðjudag kemur út næsta bók Arnaldar - Vetrarborgin. Ætla ég að kaupa mér hana í vikunni og lesa hana fyrir helgina - af sama áhuga og aðrar bækur þessa góða meistara okkar í spennusagnaritun. Skrifa ég um bókina þegar ég hef lokið lestrinum.

Saga dagsins
1796 Dómkirkjan í Reykjavík var tekin formlega í notkun - hún er höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar.
1934 Fyrri hluti skáldsögunnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness, kom út. Síðari hlutinn kom út ári síðar. Sjálfstætt fólk er meistaralega vel rituð bók - hún var valin bók 20. aldarinnar árið 1999.
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, rekur Elliot Richardson dómsmálaráðherra, og William Ruckelshaus aðstoðardómsmálaráðherra, úr embættum sínum því að þeir höfðu þá neitað að reka Archibald Cox sérstakan saksóknara í Watergate-málinu, en hann hafði þá gengið nærri forsetanum með því að krefja hann um upptökur af leynifundum hans með helstu ráðgjöfum sínum. Nixon skipaði Robert Bork sem dómsmálaráðherra, og það var hann sem að lokum rak Cox. Framgangur rannsóknar á hneykslismálinu var þó ekki stöðvuð úr þessu og síðar komu í dómsmálunum loks fram upptökurnar frægu sem sönnuðu að Nixon forseti hafði fulla vitneskju, allt frá því í júnímánuði 1972, um innbrotið í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingunni. Leiddi Watergate-málið loks til afsagnar Nixons.
1974 Muhammad Ali endurheimtir heimsmeistaratitil sinn í boxi með því að veita George Foreman þáverandi heimsmeistara, allþungt rothögg í heimsfrægum boxbardaga kappanna í Kinshasa í Zaire.
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, setur friðarráðstefnu ríkjanna í M-Austurlöndum í Madrid með ræðu þar sem hann hvatti bæði Araba og Ísraeli til að horfa til framtíðar en ekki fortíðar þegar þeir settust að samningaborðinu. Um var að ræða mjög sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu þá saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló milli deiluaðila árið 1993.

Snjallyrðið
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ferðalok)

Að mínu mati eitt af allra fallegustu ljóðum íslenskrar bókmenntasögu. Falleg frásögn og næm tilfinning einkenna þetta meistaraverk Jónasar - stök snilld.


Engin fyrirsögn

Harriet Miers

Í gær tilkynnti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í yfirlýsingu til fjölmiðla að Harriet Miers hefði afþakkað útnefningu hans í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Leystist með því eitt stærsta vandamál forsetans - enda hafði blasað við að skipun Miers væri strönduð og hún myndi ekki hljóta staðfestingu þingsins í því ferli sem brátt myndi hefjast í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Engu að síður markar brotthvarf Miers frá ferlinu vandræði fyrir forsetann. Það er alltaf vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið. Fyrst í stað áttu flestir von á að forsetinn myndi ná að berja saman stuðning við Miers. Miers átti enga dómarasetu að baki og var óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira. Íhaldssamir voru mjög í vafa um að hún væri sá íhaldssami lagasérfræðingur sem Bush forseti, sagði að hún væri. Tóku hægrisinnuðustu repúblikanarnir hana í raun aldrei í sátt og því fór sem fór. Hún varð að bakka frá draumastarfinu - sem dómarasæti í Hæstarétti Bandaríkjanna er í raun.

Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fjalla ég um þessi tíðindi - jafnframt um vandræðin sem steðja nú að Bush forseta. Um þessar mundir er ár liðið frá því að hann var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann bar þá sigurorð af John Kerry öldungadeildarþingmanni frá Massachusetts, í jöfnum og spennandi kosningaslag. Tókst honum þá að hljóta meira en helming greiddra atkvæða og 286 kjörmenn - en 270 kjörmenn þarf til að hljóta lyklavöldin í Hvíta húsinu. Það hafði þá ekki gerst í 16 ár, eða síðan faðir forsetans vann sigur í forsetakosningunum 1988, að frambjóðandi hlyti meira en helming greiddra atkvæða. Bush var fyrst kjörinn í embættið árið 2000, þá mjög naumlega. Hann hefur því sigrað í tvennum forsetakosningum og getur ekki boðið sig fram aftur. Bush hefur jafnan tekist að koma öflugur úr erfiðleikum og staðið af sér allar árásir andstæðinga sinna. Það er alveg óhætt að fullyrða að Bush forseti sé nú þessa októberdaga að glíma við mestu erfiðleika á forsetaferli sínum. Ekki aðeins mælist persónulegt fylgi forsetans hið lægsta á forsetaferli hans heldur hafa nánir samstarfsmenn hans flækst í hneykslismál og rannsókn á því hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA.

Við hafa svo bæst erfiðleikarnir vegna skipunar forsetans á Miers sem dómara við hæstarétt. Skipun Miers í réttinn var vissulega nokkuð söguleg - enda var hún aðeins þriðja konan sem skipuð hafði verið til setu í réttinum. Fyrst í stað benti flest til þess að hún yrði skrautfjöður fyrir forsetann - en andstaða hægriarms Repúblikanaflokksins gerði forsetanum erfitt fyrir. Nú er hún hinsvegar hætt við tilnefninguna og þáttaskil hafa orðið hjá henni. Eins og flestir vita er hæstiréttur Bandaríkjanna stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu. Þann stuðning vantaði í tilfelli Miers og því strandaði ferlið. Hið merkilega var undir lokin að demókratar vörðu Miers en hægrisinnaðir repúblikanar vildu hana ekki. Í fyrrnefndum pistli fjalla ég meira um persónu Miers og bakgrunn hennar - það sem mikilvægt er að fara yfir í málinu.

Nú blasir við Bush forseta að velja nýtt dómaraefni. Væntanlega mun hann hugsa sig vel um áður en hann velur einhvern til setu í réttinum. Hann virðist hafa misreiknað sig svakalega þegar hann valdi Miers - talið að hún myndi verða staðfest þrátt fyrir allt og myndi kannski fá vægari meðferð vegna þess að hún væri kona. Endalok þessarar skipunar í réttinn hefur vissulega skaðað hann og varla verður anað að vali nýs dómara, sem leysa mun af Söndru Day'O Connor, fyrstu konuna sem tók sæti í réttinum, árið 1981. Mun Bush væntanlega skipa tryggan íhaldsmann til setu nú og tekur engar áhættur. Horfir hann þar væntanlega til þess stöðugleika sem einkenndi allt ferlið við skipun John G. Roberts í réttinn, en hann vakti athygli fyrir öfluga og virðulega framkomu fyrir dómsmálanefndinni. Varð andstaða lítil við skipun hans í forsetastól réttarins, en hann tók við forystu hans af William H. Rehnquist, sem lést í haust. Brotthvarf Harriet Ellan Miers frá strönduðu staðfestingarferli vegna sætis í hæstarétt Bandaríkjanna markar allavega súrsæt þáttaskil hjá forsetanum. Væntanlega er honum létt að þessu hitamáli sé lokið, en jafnframt hugsi yfir framtíðinni.

Auður Auðuns

Í byrjun vikunnar minntu íslenskar konur á stöðu sína í samfélaginu með fjölmennum útifundi í miðborg Reykjavíkur – rétt eins og þær gerðu sama dag þrem áratugum áður. Fundurinn sendi nokkuð sterk skilaboð – framlag kvenna til samfélagsins skiptir máli. Án þess framlags fúnkerar samfélagið ekki. Þau skilaboð voru jafnvel enn sterkari nú en á sama degi þrem áratugum áður. Mikið hefur verið rætt og ritað um mikilvægi kvennafrídags. Í pistli á vef SUS í vikunni þótti mér rétt að minna á framlag sjálfstæðiskvenna í jafnréttisbaráttu í pólitík. Eins og flestir vita sitja tvær sjálfstæðiskonur í ríkisstjórn nú. Alls hafa fimm sjálfstæðiskonur setið í ríkisstjórn á þeim 35 árum sem liðið hafa frá því að Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórn, fyrst kvenna. Í pistlinum fjallaði ég sérstaklega um Auði. Hún var ein af fyrstu konunum sem mörkuðu sér sess í stjórnmálasöguna fyrir stjórnmálaþáttöku á vettvangi borgarstjórnar og þings, og hlaut hún ævarandi sess í stjórnmálasögu landsins fyrir að verða fyrsta konan sem varð borgarstjóri og ráðherra. Í pistlinum bar ég fram spurningu til þeirra kvenna sem tala fyrir því að heiðra framlag kvenna í stjórnmálastarfi - hvenær ætla þær að hefja baráttu fyrir því að til sögunnar komi stytta af Auði í miðbæ Reykjavíkur?

(Ég vil þakka vefnum akureyri.net fyrir að birta þennan pistil minn á vef sínum.)

Gregory Peck í To Kill a Mockingbird

Það hefur verið nóg um að vera í vikunni. Var veikur meginpart hennar. Hinsvegar gat maður lítið pásað sig og nóg að gera. Stjórnmálanámskeiðið er byrjað og í mörg horn að líta vegna þess. Það hefur gengið alveg mjög vel þar. Eftir að hafa verið allt gærkvöldið þar kom ég heim og horfði, enn einu sinni, á kvikmyndina To Kill a Mockingbird. Enn í dag hrífur leikarinn Gregory Peck áhorfendur í óskarsverðlaunahlutverki sínu sem lögmaðurinn Atticus Finch í þessu meistaraverki frá árinu 1962. Þetta er glæsilega sögð saga um hugrekki, hugsjón og persónulega sannfæringu lögmanns sem tekur að sér málsvörn blökkumanns sem ákærður er fyrir að hafa misþyrmt hvítri konu í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í myndinni, sem byggð er á verðlaunaskáldsögu Harpers Lee frá árinu 1960, leikur Brock Peters, verkamanninn Tom Robinson, hinn meinta glæpamann. Í fyrstu lítur út fyrir að málsvörn hans sé með öllu vonlaus enda eru fordómar samfélagsins réttlætinu yfirsterkara. En Atticus trúir statt og stöðugt á sakleysi skjólstæðings síns og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að sanna mál sitt um leið og hann þarf að vernda fjölskyldu sína fyrir andstæðingum sínum. Háklassískt meistaraverk - heilsteypt saga um mannréttindi, lífsvirðingu og síðast en ekki síst réttlæti.

Gísli Marteinn BaldurssonVilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Það hefur varla farið framhjá neinum að prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni verður eftir viku. Flestallir frambjóðendur búnir að opna vefi og eða kosningaskrifstofur og kynna þar sig og sín málefni. Hef ég fylgst með þessu prófkjöri úr nokkrum fjarska og haft gaman af að fylgjast með prófkjörsslagnum. Hafa lítil átök svosem bein verið - enda eru flokksfélagar að takast á í góðu um sæti og áhrif í gegnum það. Aðalátökin eru enda borgarstjórnarkosningarnar - þar verða menn að vinna saman að því að vinna meirihluta í borgarstjórn. Sérstaklega hef ég talað máli yngri frambjóðendanna. Það er alveg klárt í mínum huga að frambjóðendur á Heimdallar aldri verða að koma þar vel út. Sérstaklega hef ég ekki farið leynt með að ég vil að Gísli Marteinn vinni - en hann er öflugur og góður maður sem ég hef þekkt nokkurn tíma og ég styð áfram til að leiða flokkinn - inn í nýja tíma. Báðir eru hann og Vilhjálmur Þ. mætir menn og tryggt að flokknum verður vel stýrt sama hvor vinnur. En ég vil að unga fólkinu sé treyst fyrir forystunni og því er ég hiklaust þeirrar skoðunar að Gísli Marteinni eigi að fá tækifærið til að leiða flokkinn - og vonandi munu sem flestir á ungliðaaldri ná öruggu sæti á framboðslista.

Kastljós

Þess var minnst bæði í Kastljósi og Íslandi í dag á miðvikudagskvöld að áratugur væri liðinn frá snjóflóðinu á Flateyri. Var fjallað um málið með næmum og tilfinningaríkum hætti á báðum stöðvum. Sérstaklega var mjög áhrifaríkt að horfa á Kastljós, en þar var viðtal við Eirík Guðmundsson og Rögnu Óladóttur. Í flóðinu lést eldri dóttir þeirra, Svana Eiríksdóttir, en yngri dóttir þeirra, Sóley, fannst lifandi í rústum hússins átta tímum eftir að flóðið féll. Þau misstu allar sínar veraldlegu eigur í flóðinu. Var eins og fyrr segir mjög áhrifaríkt að horfa á viðtalið og heyra lýsingar þeirra á þessum degi og sorginni sem þau urðu fyrir og hvernig þau horfðust í augu við hana. Kannast ég örlítið við þessa fjölskyldu, en sonur þeirra, Óli Örn, er góðvinur minn. Er aðdáunarvert hversu heilsteypt þau hafa horfst í augu við framtíðina eftir þetta mikla áfall sem þau urðu fyrir. Mjög áhrifaríkt var svo að fylgjast með stemmningunni fyrir vestan á minningarathöfninni og eins og fyrr vann frú Vigdís hug og hjarta allra landsmanna með framkomu sinni á þessum degi.

Saga dagsins
1780 Reynistaðarbræður lögðu af stað úr Árnessýslu norður Kjöl við fimmta mann, með 180 kindur og 16 hesta - þeir fórust í aftakaveðri í Kjalhrauni. Almennar sögur segja að andi þeirra sé þar enn.
1848 Dómkirkjan í Reykjavík var endurvígð eftir endurbætur - höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar.
1886 Grover Cleveland forseti Bandaríkjanna, vígir frelsisstyttuna í New York - hún var gjöf Frakka.
1962 Kúbudeilunni lýkur - John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, tilkynnir að hættuástandið sé liðið hjá og að Sovétmenn hafi látið undan og hörfað frá Kúbu. Hættuástand var í deilunni í 13 daga.
1987 Spjallþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, var í fyrsta skipti á dagskrá Ríkissjónvarpsins - varð langvinsælasti spjallþáttur íslenskrar sjónvarpssögu og var á dagskrá Sjónvarpsins í tæpan áratug.

Snjallyrðið
Og því var allt svo hljótt við helför þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta harmi lostið
sem hugsar til þín alla daga sína.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna
sem horfðu eftir þér í sárum trega
þá blómgast enn og blómgast ævinlega
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Hið bjarta vor)

Fallegt ljóð borgarskáldsins Tómasar - í þessu ljóði er næm taug og falleg sál.


Engin fyrirsögn

Áratugur frá snjóflóðinu á Flateyri

Flateyri

Í dag er áratugur liðinn frá snjóflóðinu mannskæða á Flateyri. Mikill harmur var kveðinn yfir öllum landsmönnum að morgni fimmtudagsins 26. október 1995, er þessar náttúruhamfarir riðu yfir. 20 manns létu lífið þar, þar af fjöldi barna og margir misstu þar allt sitt og sína nánustu ættingja. Það högg sem Vestfirðingar urðu fyrir á þeim degi og áður sama ár er snjóflóð féll í Súðavík snertu við allri þjóðinni. Íslendingar stóðu þá eins og jafnan á slíkum stundum saman í órjúfanlegri heild og mættu því sem að höndum bar með samhug í verki. Þessi kaldi fimmtudagur í októbermánuði fyrir áratug mun aldrei líða mér úr minni. Daginn áður og um nóttina hafði gengið yfir Norðurland sem og mestallt landið nöturlegt kuldaveður með blindbyl. Ég man vel eftir þessum morgni. Ég vaknaði við blindbyl og niðinn í óveðrinu hér á Akureyri um sexleytið um morguninn. Ófært var orðið um allan bæ og veðurofsinn enn þónokkur í upphafi þessa dags. Um sjöleytið um morguninn heyrði ég í útvarpinu frétt þar sem tilkynnt var í fyrsta skipti um snjóflóðið. Eftir því sem leið á morguninn urðu fréttir ítarlegri og umfang þessa skelfilega atburðar varð manni meira ljós. Það var dapurlegt að heyra fréttirnar berast og heyra meira um það sem gerst hafði.

Það var sannkallað áfall að heyra fyrstu fréttir af þessu snjóflóði þennan morgun og heyra nánari fréttir af gangi mála eftir því sem leið á daginn. Hugur minn og allra landsmanna var á Flateyri - hjá þeim sem höfðu misst allt sitt, bæði veraldlegar eigur sem og það sem mest er um vert í lífinu, ættingjar og vinir. Fréttir þessa tíma koma upp í huganum á þessum tímamótum - tíðarandinn og sorgin eru enn sterk í huga mínum, sem og eflaust flestra sem upplifðu þennan tíma. Um var að ræða mannskæðustu náttúruhamfarir í sögu landsins í marga áratugi. Á þessum nöturlega vetrardegi létu tveir tugir landsmanna lífið á heimilum sínum, því sem heilagast er, og eftir stóðu ættingjar í sorg. Þetta var tími sem greyptist í hjarta allra sem upplifðu þá, allavega hvað mig varðaði. Ég þekkti engan af þeim sem létu lífið fyrir vestan en þekki til fólks sem bjó á staðnum. Hafði ég komið þangað og þekkti því staðinn og vissi vel um leið og fyrstu fréttir bárust hversu mikið skarð væri komið í þennan litla og heillandi bæ vestur á fjörðum. Höggið mikla, varð einkennandi næstu vikurnar, bæði í hjarta Vestfirðinga og ekki síður landsmanna allra.

Vigdís Finnbogadóttir forseti

Ekki gleymist mér né öðrum sem upplifðu þessa dimmu októberdaga framganga Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra, sem fóru vestur og sýndu aðstandendum samúð sína við minningarathöfn sem haldin var til heiðurs hinum látnu. Samhugur Íslendinga í hörmungum ársins 1995 gleymast ekki okkur sem upplifðum þessa köldu daga og geymast í hjartanu um eilífð. Sterkust var minningin um framlag Vigdísar. Hún fór við allar minningarathafnir og jarðarfarir - hún varð þátttakandi í sorg fjölskyldna sem misst höfðu nána ættingja. Hún tók þátt í sorgarferlinu - huggaði fólk og styrkti með nærveru sinni og hlýlegum orðum. Ég tel að Vigdís hafi aldrei á sínum forsetaferli risið hærra sem þjóðhöfðingi Íslendinga og sem persónan á valdastólnum en þessa dimmu októberdaga, með því að sýna styrk sinn í verki og hugga þá sem misst höfðu allt sitt. Er enda engin furða að Vigdís sé Flateyringum kær - hún er enda þar í dag og dvelur með Flateyringum á þessum degi, er áratugur er liðinn. Mun hún þar flytja í kvöld ræðu og minnast tímamótanna.

Á þessum degi færi ég Flateyringum kærar kveðjur - þeir hafa haft stuðning þjóðarinnar í gegnum þetta áfall og hlotið góðan styrk í gegnum allt sem yfir þá hefur dunið. Á þessum degi er viðeigandi að hugsað sé til baka og farið yfir þetta áfall sem er enn ofarlega í huga Vestfirðinga, sem og allra landsmanna. Fjölmiðlar hafa fjallað um þetta vel og ítarlega í allan dag - nú sem fyrir áratug sýna Íslendingar allir samhug í verki.

Saga dagsins
1927 Gagnfræðaskólanum á Akureyri var veitt formlega leyfi til að útskrifa nemendur sem stúdenta - samhliða þeim breytingum var nafni skólans breytt og hét hann eftir það Menntaskólinn á Akureyri.
1951 Winston Churchill komst aftur til valda í breskum stjórnmálum eftir nauman kosningasigur. Churchill sat áður sem forsætisráðherra Bretlands á stríðsárunum, 1940-1945, en leiddi flokk sinn í stjórnarandstöðu í sex ár. Churchill lét af embætti og hætti í pólitík 1955 - hann lést árið 1965.
1965 Reykjanesbraut, milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, var formlega opnuð til umferðar - var fyrsti eiginlegi þjóðvegurinn sem var lagður bundnu slitlagi - fyrst í stað var vegatollur þar innheimtur.
1986 Hallgrímskirkja í Reykjavík var vígð - hún var reist til minningar um sr. Hallgrím Pétursson.
1995 20 manns fórust þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð klukkan fjögur að nóttu. Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegið. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast þangað vegna veðurs, einungis var fært þangað sjóleiðina. Aftakaveður var út um allt land á þessum degi og verst á Vestfjörðum. Snjóflóðið á Flateyri er eitt mannskæðasta snjóflóð í sögu landsins. Þjóðarsorg var í landinu vegna þessara hörmulegu náttúruhamfara, t.d. fóru þáv. forseti og forsætisráðherra vestur til að hughreysta fólk sem átti um mjög sárt að binda þar og voru viðstödd minningarathöfn á Ísafirði.

Snjallyrðið
Við andvörpum hljóðlát en hugleiðum þó
hve höggið var mikið er byggðina sló.
Hún magnar sín áhrif svo orðlaus og skýr
sú allsherjar sorg er á Flateyri býr.

Og létt er að tárast á líðandi stund
og leita sem vinur á syrgjenda fund;
í harmanna tíbrá þau titra svo glöggt
þau tuttugu hjörtu sem brustu svo snöggt.

Við barnshjartað syrgjum er sviplega brast
og sjómannsins handtakið, öruggt og fast
og alla þá kosti sem fóru svo fljótt
í framhlaupi dauðans á skelfingarnótt.

Svo biðjum við Guð að hann gefi þann frið
sem græðir og líknar og una má við.
Og alþjóðar samúð sé sýnileg gjörð
í sorginni miklu við Önundarfjörð.
Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld (1907-2002) (Sorg á Flateyri)

Fallegt ljóð skáldsins úr Önundarfirðinum í kjölfar snjóflóðsins á Flateyri - táknrænn endir á bloggfærslu á þessum degi.


Engin fyrirsögn

Kvennafundur á Ingólfstorgi - 24. október 2005

Í gær voru þrír áratugir liðnir frá hinum sögulega kvennafrídegi. 24. október 1975 tóku íslenskar konur sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist þá að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var á þessum degi haldinn fundur sem tæplega 30.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982 - eflaust átti fundurinn líka söguleg áhrif sem leiddu til þess að Vigdís Finnbogadóttir gaf kost á sér til forsetaembættis árið 1980 og náði kjöri. Þessa sögulega dags var minnst í gær, þrem áratugum síðar, með baráttufundi kvenna á Ingólfstorgi. Hátt í 50.000 manns, mest konur eins og fyrir þrjátíu árum, komu saman í miðborg Reykjavíkur í gær til að minnast tímamótanna. Þar var að finna fólk af öllum aldri og af öllum stéttum. Íslenskar konur lögðu niður vinnu klukkan 14:08 í gær. Sú tímasetning er vissulega táknræn - enda höfðu konur þá unnið fyrir launum sínum ef litið er til þess að þær munu hafa um 64% af launum karla. Vinnudegi kvenna var þá lokið sé litið til launamunar kynjanna.

Óhætt er að segja að auglýsingaherferð Verslunarmannafélags Reykjavíkur í síðasta mánuði, þar sem varpað er athyglisverðu ljósi á launamun kynjanna, hafi hitt í mark. Í auglýsingunum sáum við þekkta Íslendinga í öðrum kynjahlutverkum. Vöktu auglýsingarnar athygli á því þarfa umræðuefni sem launamunur kynjanna vissulega er. Í þessum auglýsingum birtust t.d. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi, í merkilegu ljósi. Þessar auglýsingar hófu nauðsynlega umræðu á nýtt plan og vakti þörf á líflegri umræðu um málið - sem þær og gerðu. Eins og vitað er, er launamunur kynjanna algjörlega óeðlilegur og leitt að á okkar tímum sé hann enn til staðar. Það eru eiginlega merkilegustu skilaboð kvennafrídagsins árið 2005 að ekki hafi tekist að laga þessi mál öll sem mótmælt var að væru í ólestri á árinu 1975. Konur þessa lands eiga það skilið að vinnuframlag þeirra í sambærilegum störfum og karla sé metið jafnt. Jafnrétti verður að standa undir nafni - með viðeigandi aðgerðum. Kynbundinn launamunur er og verður óeðlilegur. Á árinu 2005 er ekkert annað viðeigandi en að hann hverfi!

Ég vil nota tækifærið og gratúlera konum með gærdaginn. Þær sýndu og sönnuðu þá, rétt eins og fyrir þrem áratugum, hversu mikilvægur hluti samfélagsins þær eru. Samfélagið fúnkerar ekki án þeirra. Það er vel við hæfi að þær minni á stöðu sína - nú þarf að tryggja að konur fái jafnmikið greitt fyrir sambærileg störf og karlmenn. Annað kemur ekki til greina. Það að svona dag þurfi þrem áratugum eftir hinn öfluga kvennafrídag 1975 segir sína sögu. Ég er alinn upp af öflugum konum og hef alla tíð metið mikils framlag þeirra í mitt líf - þær kenndu mér alveg gríðarlega mikið. Ef ég lít til baka og hugsa um hvar ég lærði mest á lífið hugsa ég fljótt til móðurömmu minnar, Sigurlínar Kristmundsdóttur, föðurömmu minnar, Hönnu Stefánsdóttur og ömmusystur, Hugrúnar Stefánsdóttur. Þær ólu mig upp sem persónu og kenndu mér að meta lífið og grunn þess í raun. Það framlag er ómetanlegt og ég tel því jafnrétti skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það þarf því ekki að kenna mér eitt né neitt í þeim efnum. Þeir sem þekkja mig og mínar skoðanir í jafnréttismálum vita hvar ég stend í þessum efnum.

Í tilefni kvennafrídagsins er við hæfi að óska íslenskum konum innilega til hamingju með daginn.

Oktavía Jóhannesdóttir

Prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri verður í næstu viku. Ef marka má fréttir mun þar verða kosið á milli tólf einstaklinga um fjögur efstu sæti listans. Þeir sem lenda neðar eru ekki öruggir á lista. Er fyrirkomulagið eins og hjá VG í borginni - aðeins geta tvær konur og tveir karlar komist í gegn í örugg sæti. Oktavía Jóhannesdóttir, eini bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hér á Akureyri, ákvað að gefa ekki kost á sér í prófkjörið og víkur hún því úr bæjarstjórn eftir komandi kosningar. Oktavía hefur verið í bæjarstjórn samfellt frá árinu 1998, fyrstu fjögur árin fyrir Akureyrarlista vinstri manna, og þá í meirihlutasamstarfi við okkur sjálfstæðismenn. Frá 2002 hefur Oktavía verið bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. Það hefur blasað við seinustu vikurnar að Oktavía myndi ekki fara fram, enda við ramman reip að draga. Varamaður hennar í bæjarstjórn, Hermann Jón Tómasson, ákvað að gefa kost á sér til leiðtogastöðunnar og þótti flestum ljóst að Oktavía hefði átt erfiðan slag fyrir höndum - hefði hún gefið kost á sér. Verður fróðlegt að sjá hvað Oktavía tekur sér fyrir hendur er hún víkur úr bæjarstjórn. Persónulega vil ég þakka Oktavíu fyrir ágæt samskipti í pólitík hér í bæ og óska henni góðs gengis á nýjum vettvangi - hvað svo sem hún tekur sér nú fyrir hendur er hún víkur úr bæjarpólitík.

Um fyrsta sætið takast Hermann Jón og nafni hans, Hermann Óskarsson, formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í NA. Það verður merkilegt að sjá hvor þeirra muni vinna prófkjörið og hvernig munurinn verði á milli þeirra í atkvæðum talið, er yfir lýkur. Þeir nafnar takast væntanlega á í bróðerni, en ljóst er að sá sem tapar slagnum tapar nokkru. Annar er varabæjarfulltrúi, hinn formaður kjördæmisráðs flokksins. Báðir vilja leiða listann. Ennfremur er í framboði Ásgeir Magnússon sem leiddi Akureyrarlistann árið 1998 og varð formaður bæjarráðs á því kjörtímabili, en varð svo undir í leiðtogabaráttunni hjá Samfylkingunni árið 2002 fyrir Oktavíu. Hann tók þá ekki sæti á framboðslista og hætti í bæjarmálum. Nú kemur hann aftur - og sækist merkilegt nokk bara eftir þriðja sæti flokksins. Hann vill vera með greinilega - en hefur ekki ambisjónir í leiðtogastól. Kannski hann ætli sér að verða baráttumaður flokksins í bænum. Fróðlegt hvað forystumenn Samfylkingarfélaga í bænum segja annars um það. Um annað sætið takast á þær Helena Karlsdóttir og Sigrún Stefánsdóttir.

Það blasir við að kona verði í öðru sætinu - enda karl í hinu fyrsta. Þetta verður merkilegt prófkjör - og ljóst að ekki verða allir sáttir að því loknu. Kannski fáum við að sjá sömu fýluna gjósa upp þarna og varð fyrir þrem árum þegar Ásgeiri Magnússyni var hafnað í lokuðu forvali innan flokksins.

Abba

Haldið var upp á hálfrar aldar afmæli Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, síðastliðið laugardagskvöld. Sá ég ekki útsendinguna en horfði á upptöku af henni í gærkvöldi. Var ánægjulegt að horfa á þessa skemmtilegu athöfn - kynna sér þar þekkt lög keppninnar seinustu hálfu öldina og merkilega sögulega punkta keppninnar samhliða því. Vegna afmælisins var valið besta lag keppninnar seinustu hálfu öldina. Það kom fáum á óvart að sigurlagið á þessu tímabili var Waterloo, sem hljómsveitin Abba flutti í söngvakeppninni í Bretlandi árið 1974. Er það að mínu mati ennfremur besta lag keppninnar. Vel var valið í aðdraganda keppninnar en þar var hægt að kjósa á milli fjórtán laga sem sett hafa svip sinn á sögu keppninnar. Eins og ávallt þegar farið er yfir langan feril og valið á milli merkra sögulega punkta vantar alltaf eitthvað inn í sem manni hefði þótt getað sómað sér vel þar. Vantaði að mínu mati fjölda laga sem skarað hefur fram úr á síðustu hálfu öld og hefði getað hlotið meiri heiðurssess en önnur lög. En það er eins og það er, segi ég bara.

Niðurstaðan er glæsileg og vel viðeigandi. Fá lög hafa sett sterkari svip á tónlistarsöguna en Waterloo - varð það enda upphaf að merkum frægðarferli sænsku sveitarinnar Abba, sem starfaði af krafti í um áratug og sigraði heiminn. Í öðru sæti í kosningunni varð Volare, sem heitir réttu nafni Nel blu, di pinto di blu en Ítalinn Domenico Modugno söng það árið 1958. Í 3. sæti varð Hold me now sem Johnny Logan söng til sigurs árið 1987. Hef ég aldrei verið neinn æstur Eurovision-aðdándi - á t.d. ekkert complete safn laga þess en hef fylgst með eins og flestir. Hversu oft hefur maður ekki heyrt Jón í næsta húsi segjast ekki fylgjast með en hann er svo fyrsti maður að skjánum á hverju ári. Mörg lög íslensk sem erlend í sögu keppninnar eru eftirminnileg. Öll erum við annars aðdáendur keppninnar - hvert á sinn hátt. En það er alltaf gaman að fallegum lögum - sem vekja athygli og eignast stað í hjartanu.

Páll Magnússon útvarpsstjóri

Það hefur varla farið framhjá neinum að Páll Magnússon útvarpsstjóri, birtist nú á sjónvarpsskjám landsmanna í hverri viku og les fréttir í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Hefur þetta mælst misjafnlega vel fyrir og er umdeilt meðal sumra, að því er virðist. Er einsdæmi að útvarpsstjóri lesi fréttir í sjónvarpi. Markús Örn Antonsson las kvöldfréttir 30. september 1991, á 25 ára afmæli Sjónvarpsins. Markús Örn var einn af fyrstu sjónvarpsfréttamönnum þjóðarinnar og las hann fréttir vegna afmælisins þetta kvöld merkisafmælis Sjónvarpsins þetta afmæliskvöld, ásamt Magnúsi Bjarnfreðssyni. Var það engin tilviljun, en þeir lásu fréttir í fyrsta sjónvarpsfréttatímanum hérlendis í októberbyrjun 1966. Sá munur er þó á að Markús Örn var þá ekki starfandi útvarpsstjóri, heldur borgarstjóri. Páll tók sæti Loga Bergmanns Eiðssonar, er hann fór yfir á Stöð 2. Er að mínu mati varla hægt að kvarta yfir komu Páls á skjáinn. Hann er að mínu mati einn allra besti fréttaþulur í íslenskri sjónvarpssögu - hefur allt til að prýða sem þarf í starfið. Síðasta laugardagskvöld gerði Páll grín að þessu með kostulegum hætti - er hann lék sjálfan sig í hinum ýmsu störfum hjá RÚV. Sást þar vel að Páll hefur húmor - fyrst og fremst fyrir sjálfum sér.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri hefst í kvöld. Þá munu Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður, og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, verða með framsögur. Arnbjörg, sem setur námskeiðið, fjallar um sjávarútvegsmál en Sigrún Björk um sveitarstjórnarmál. Er um að ræða fyrsta kvöldið af sex þar sem fjallað er um fjölda áhugaverðra málefna. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um sjávarútvegsmál, heilbrigðismál, menntamál, sveitarstjórnarmál, ræðumennsku- og framkomu, frétta- og greinaskrif, umhverfismál, samgöngumál, stjórnskipan og stjórnsýslu, sjálfstæðisstefnuna og Sjálfstæðisflokkinn. Um er að ræða fjölbreytt og gott námskeið sem haldið er fyrir sjálfstæðisfélögin hér á Akureyri. Mun námskeiðið standa allt til 15. nóvember, en því lýkur með pallborðsumræðum þar sem fyrir svörum verða Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi.

Saga gærdagsins
1970 Salvador Allende kjörinn forseti Chile - honum var steypt af stóli í valdaráni hersins 1973.
1975 Kvennafrídagurinn - íslenskar konur tóku sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var haldinn fundur sem 25.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982.
1975 Sjónvarpsútsendingar í lit hófust hér á landi - deilur voru uppi um hvort ætti að taka upp litaútsendingar og var tekist á í þingsölum um hvort ætti að hafa litasjónvarp eða auka dagskrárgerð.
2002 Lögregla handtók John Allen Muhammad og Lee Boyd Malvo - þeir héldu íbúum á Washington-svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Þeir myrtu alls 10 manns í október 2002 og særðu nokkra. Muhammad var dæmdur til dauða fyrr á þessu ári og Malvo var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Báðum dómunum var svo áfrýjað til Hæstaréttar.
2003 Concorde flugvél fer í síðustu flugferðina - ákveðið hafði verið að hætta að fljúga með Concorde eftir hörmulegt slys á Charles De Gaulle flugvelli í París 25. júlí 2000 þar sem 113 létust.

Saga dagsins
1875 Fyrsta borgaralega hjónavígslan hér á landi fór fram í Vestmannaeyjum, með leyfi konungs.
1937 Ljósafossstöðin var gangsett - með því jókst afl á svæði rafveitu RVK um rúm 13.000 hestöfl.
1976 Elísabet II Englandsdrottning, opnaði formlega þjóðleikhús Bretlands, eftir mörg ár í byggingu.
1993 Jean Chretien varð forsætisráðherra Kanada - hann sat á valdastóli allt til desember 2003.
2002 Öldungadeildarþingmaðurinn Paul Wellstone frá Minnesota, ferst í flugslysi ásamt eiginkonu sinni Sheilu og dótturinni Marciu, í N-Minnesota á kosningaferðalagi. Hann var fyrst kjörinn í öldungadeildina árið 1990 og endurkjörinn 1996. Í kosningunum 11 dögum síðar var Walter Mondale fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, frambjóðandi demókrata í stað hans. Hann tapaði kosningunum fyrir Norm Coleman sem vann nauman sigur þrátt fyrir andlát Wellstone, skömmu fyrir kjördaginn.

Snjallyrðið
Svo er um ævi
öldungamanna
sem um sumar
sól fram runna;
hníga þeir á haustkvöldi
hérvistardags
hóglega og blíðlega
fyrir hafsbrún dauðans

Gráti því hér enginn
göfugan föður
harmi því hér enginn
höfðingja liðinn;
fagur var hans lífsdagur,
en fegri er upp runninn
dýrðardagur hans
hjá drottni lifanda.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Höfðinginn)

Jónas Hallgrímsson var skáld tilfinninga og sannra hughrifa - þetta ljóð hans um hinn fallna höfðingja snertir streng í hjartarót minni. Fallegt og tilfinninganæmt ljóð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband