Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.11.2006 | 14:19
Áhugavert prófkjör Samfylkingarinnar í borginni

Flest þeirra sem við bætast í prófkjörið nú er því fólk sem er þekkt fyrir störf sín að stjórnmálum. Auk þessu eru nokkrir nýliðar í slagnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er ein í kjöri um fyrsta sætið. Um annað sætið, hinn leiðtogastólinn, takast þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Samstaða virðist að mestu um að þau þrjú verði í efstu sætunum. Það verður spennandi að sjá hvort þeirra verði í öðru sætinu. Þau leiddu lista flokksins í borginni í kosningunum 2003.
Þá var Össur í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og Jóhanna í öðru, en hún sigraði Bryndísi Hlöðversdóttur í slag um annað sætið. Jóhanna hefur verið á þingi í nærri þrjá áratugi, frá árinu 1978, því með mikla reynslu að baki og er nú starfsaldursforseti þingsins. Jóhanna sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og verið drjúg í prófkjörum. Össur hefur verið á þingi í 15 ár og var formaður Samfylkingarinnar 2000-2005 og er nú þingflokksformaður. Það blasir við að það þeirra sem verður undir tekur þá annað sætið á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu. Mikið hefur verið talað um slæma útkomu kvenna í prófkjörum flokksins og það gæti hjálpað Jóhönnu Sigurðardóttur í dag.
Um fjórða sætið verður barist af krafti. Þar eru sjö í baráttunni, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þarna getur allt gerst. Hver örlög þeirra verða sem undir verða verður fróðlegt að sjá. Aftur fram á pólitíska sjónarsviðið eru svo komnir þingmennirnir fyrrverandi Ellert B. Schram og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 en Þórhildur fyrir Kvennalistann 1987-1991. Ellert fór síðast í prófkjör árið 1982 en Þórhildur hefur það aldrei gert. Fylgst verður mjög vel með hvernig þeim gengur.
Meðal annarra frambjóðenda eru Glúmur Baldvinsson (systursonur Ellerts, sonur Bryndísar Schram og Jóns Baldvins Hannibalssonar), Kristrún Heimisdóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Þau eru ungliðarnir í hópnum og hafa öll verið áberandi, hvert á sínu sviði. Kristrún er núverandi varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Reykjavík, Glúmur hefur t.d. verið fréttamaður og Bryndís Ísfold (yngst frambjóðenda) hefur verið virk í ungliðastarfi jafnaðarmanna og er t.d. í mannréttindaráði borgarinnar. Tillaga hennar um græna konu í stað karls í umferðarljós vakti svo sannarlega athygli á dögunum.
Þetta verður altént spennandi prófkjör og fróðlegt að sjá hvernig raðast upp. Meginhluti þessa fólks er allt mjög sterkt pólitískt og hefur gegnt pólitískum trúnaðarstörfum svo að það verður fróðlegt að sjá útkomuna í kvöld.
![]() |
Yfir 2.500 hafa kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2006 | 12:16
Spenna í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum

Auk þeirra er Sigurrós Þorgrímsdóttir á þingi, en hún tók sæti við afsögn Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi. Um þriðja sætið takast Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson. Er mjög erfitt að spá um úrslit í þeim slag, enda tveir mjög öflugir sveitarstjórnarmenn innan flokksins og fólk með öflugt bakland. Hörkubarátta er svo um fjórða sætið. Þar eru í kjöri Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigurrós, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir. Spenna verður því um öll sætin á milli 3-6 og mjög erfitt að spá um stöðuna í þessum sætum. Beðið er því fyrstu talna kl. 18:00 með mikilli spennu.
![]() |
Kjörsókn fer vel af stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2006 | 23:30
Örlög John Bolton hjá SÞ ráðin

Deilt var um fortíð Boltons og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin var upp dökk mynd af honum og á það m.a. minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni jókst jafnt og þétt og að því kom að hann var ekki öruggur um stuðning í embættið. Til þess kom í sumarleyfi þingsins í ágúst 2005 að Bush beitti rétti sínum að skipa Bolton án samþykkis þingsins og með flýtimeðferð og gildir sú skipun fram til 3. janúar, er nýtt þing kemur saman.
Nú er sú skipan mála að renna út og benti Bush forseti á það með mildilegum hætti í gær til fráfarandi þingmeirihluta repúblikana í öldungadeildinni að það væri lag að samþykkja Bolton fyrir lok starfstíma þingsins. Verður utanríkismálanefnd þingsins að samþykkja valið áður en það getur farið fyrir þingdeildina. Virðist sú von vera byggð á mjög veiku sandrifi enda leið ekki á löngu þar til að Lincoln Chafee, einn af þingmönnum repúblikana í öldungadeildinni, sem féll í kosningunum á þriðjudag í Rhode Island sagðist ekki myndu láta það vera sitt síðasta embættisverk í þinginu að samþykkja skipan John Bolton, eftir að utanríkisstefna forsetans hefði fengið svo afgerandi skell.
Örlög Boltons virðast því ráðin. Repúblikanar eru ekki samstíga um Bolton úr þessu og borin von er, svo vægt sé til orða tekið, að demókratar samþykki hann. Málið er því fast í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og fer ekki þaðan áður en valdaskiptin verða, enda er málið fallið á jöfnu í deildinni með afstöðu Chafee. Það er því ljóst að Bush forseti verður að fara að leita sér að nýju sendiherraefni í Sameinuðu þjóðirnar sem getur tekið til starfa þar þegar að umboð hins lánlausa John Bolton rennur út þann 3. janúar með umboði fráfarandi deilda Bandaríkjaþings.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2006 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2006 | 15:17
Misheppnaður húmor hjá Árna Johnsen

Nú þyki ég nú hafa ágætis húmor en ég verð að viðurkenna að ég undrast svona framsetningu í kosningabaráttu. Hvað yrði sagt t.d. ef að ábyrgur stjórnmálamaður hér birti mynd af heimsþekktum stjórnmálamönnum og leikurum öðrum en þessum tiltekna leikara í auglýsingum sínum án heimildar þeirra? Það er ekkert vandamál að skreyta sig með fólki til stuðnings og það er vissulega eðlilegt fylgi þar hugur máli og almennilegur stuðningur sem vigtar þungt í baráttu í stjórnmálum. En þetta er eitthvað sem varla nokkur heilvita maður skilur í.
Þetta telst því misheppnaður húmor í mínum augum allavega, enda liggur hann gjörsamlega steinflatur. Það er ekki flóknara en það.
![]() |
Russel Crowe á meðal stuðningsmanna Árna Johnsen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2006 | 11:42
Spennandi prófkjör í Suðurkjördæmi
Það stefnir í æsispennandi prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi á morgun. Þar verður nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu kjörinn og þingmannsefni valin. Það stefnir í mikla spennu, enda eru í kjöri sjö einstaklingar sem annaðhvort eru núverandi eða fyrrum alþingismenn Sjálfstæðisflokksins. Þetta verður því vettvangur mikilla átaka milli reyndra stjórnmálamanna með bæði langa pólitíska sögu og merkilega. Fylgst verður með úrslitunum af áhuga.
Það vakti mikla athygli þegar að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fráfarandi leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, ákvað að gefa kost á sér í Suðurkjördæmi. Það er ljóst að leiðtogaslagurinn verður slagur Árnanna Johnsen og Mathiesen. Það hefur vakið verulega athygli að Árni Johnsen gefi upp boltann með leiðtogaframboð eftir það sem á undan hefur gerst. Árni Matt er reyndur stjórnmálamaður og leggur mikið undir með því að færa sig um kjördæmi. Þetta verður því mjög harður slagur þarna milli manna. Það stefnir þó flest í að Árni M. muni hljóta leiðtogastólinn.
Það markar prófkjörið mjög að enginn afgerandi leiðtogi er á svæðinu. Árni Ragnar Árnason sem leiddi framboðslista flokksins árið 2003 lést ári síðar eftir erfið veikindi. Drífa Hjartardóttir tók við þeim skyldum eftir fráfall Árna Ragnars og í raun nær algjörlega sinnt því á tímabilinu. Greinilegt er að Árni M. og Drífa virðast í nokkru bandalagi, en Drífa tilkynnti sama dag og Árni gaf upp boltann með leiðtogaframboð og tilfærslu úr kraganum þar yfir að hún vildi annað sætið og styddi Árna. Hún berst við Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson um annað sætið. Þeir tveir síðarnefndu vildu auk Drífu leiða listann árið 2003 en urðu undir fyrir Árna Ragnari í uppstillingu.
Um næstu sæti fyrir neðan berjast Gunnar Örlygsson, alþingismaður, Kári Sölmundarson, sölustjóri, Helga Þorbergsdóttir, varaþingmaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþingi eystra. Gunnar kemur inn nýr á svæðið, en hann er þó vissulega frá Njarðvík upphaflega og af frægri körfuboltaætt þar, en bróðir hans Teitur Örlygsson er landsfrægur körfuboltakappi í Njarðvíkunum. Gunnar leiddi Frjálslynda flokkinn í kraganum í kosningunum 2003 en sinnaðist við menn þar og skipti um flokk með miklum hvelli fyrir einu og hálfu ári. Nú mun koma vel í ljós hver staða hans er innan síns nýja flokks, er hann sækir umboð til nú.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða kona nær sterkri stöðu. Þarna berjast mjög sterkar konur um að komast ofarlega á lista. Sérstaklega fagna ég framboði Unnar Brár, vinkonu minnar, en ég ætla rétt að vona að hún nái markmiði sínu með fimmta sætinu, enda þar um að ræða mikla kjarnakonu. En þetta er allavega nokkur kvennaslagur á svipuð sæti og spurning hvaða áhrif það hefur á stöðu kvenna varðandi að hljóta þessi sæti í slag við karlana, en það vekur athygli að þær sækja allar sem ein neðar en karlarnir öflugustu, utan Drífu auðvitað, sem hefur vissulega mun sterkari stöðu sem þingmaður allt frá árinu 1999 og kjördæmaleiðtogi stóran hluta þess tíma.
En þetta verður mest spennandi vegna slagsins um fyrsta sætið. Staða Árna M. Mathiesen hlýtur að teljast fyrirfram sterkari, en það verður hart barist og allt lagt í sölurnar. Það eitt að Árni Johnsen taki fram möguleikann á fyrsta sætinu skapar líflega kosningu og alvöru átök, en lengi vel stefndi í að Árni færi einn fram í fyrsta sætið. En þetta er mikill þingmannaslagur. Þarna eru sjö núverandi og fyrrverandi þingmenn að gefa kost á sér, þar af tveir sem færa sig úr Suðvesturkjördæmi. Ekki fá allir það sem þeir vilja og spennan verður um hverjir hellast úr lestinni og verða undir.
![]() |
13 í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 21:07
Breytt valdahlutföll í Washington

George W. Bush hefur aldrei verið maður málamiðlana eða samkomulags í bandarískum stjórnmálum. Það er svosem ekki furða, enda hefur hann getað farið sínu fram í ljósi sterkrar stöðu fylgismanna sinna. Það hefur verið afgerandi einstefna. Repúblikanar voru enda í tólf ár með völdin í fulltrúadeildinni og í rúm fjögur ár samfellt í öldungadeildinni. Hann hefur því lítið þurft að taka tillit til demókrata og skoðana þeirra. Það má því sjá merki nýrra tíma framundan í samskiptum forsetans og þingsins. Það er eðlilegt við þessar aðstæður og nauðsynlegt.
George W. Bush verður auðvitað að sætta sig við vilja þjóðarinnar. Þessi kosningaúrslit eru að mínu mati algjör áfellisdómur yfir honum og stjórn hans og hann verður að taka fullt tillit til þess, þó að hann fari ekki aftur í kosningar sjálfur, enda kemur stjórnarskráin í veg fyrir að forseti geti setið lengur en tvö kjörtímabil. Hann situr því síðara kjörtímabil nú og verður að leita samstarfs við demókrata, það er mjög einfalt mál. Það gerði allavega Clinton árið 1994 þegar að demókratar misstu báðar þingdeildir. Hann fór í samstarf við repúblikana og beitti lagni í þeim samskiptum. Bush ætlar greinilega að gera það sama.
George W. Bush er greinilega að vakna upp í nákvæmlega sömu stöðu og Bill Clinton fyrir tólf árum. Clinton nýtti sína töpuðu stöðu vel árið 1994 og sneri henni sér í vil með áberandi hætti. Hann hélt stöðu sinni og vann endurkjör sem forseti árið 1996 en náði vissulega ekki að snúa þinginu sér í vil í sömu kosningum. Hann beitti miklum klókindum og kænsku, en var þó sanngjarn í samningum við repúblikana. Til dæmis kom mörgum að óvörum er William Cohen var tilnefndur sem varnarmálaráðherra af Clinton eftir forsetakosningarnar 1996, enda var Cohen þingmaður repúblikana í öldungadeildinni. Ekki má búast við að slíkt gerist hjá Bush, en hann virðist skilja hvað gera þurfi.
Bush forseti gat ekki annað en breytt stefnu sinni eftir þetta tap og það var óumflýjanlegt að Donald Rumsfeld myndi fara frá. Val forsetans á Bob Gates sem varnarmálaráðherra mun vonandi sætta ólík sjónarmið, enda hefur Gates unnið innan CIA undir stjórn sex forseta úr ólíkum flokkum og verður nú ráðherra í ríkisstjórn þess sjöunda. Hann hefur mikla reynslu að baki og annan bakgrunn en Rumsfeld, svo að vonandi geta menn farið úr skotgröfum sem fylgdu persónu Rumsfelds og fært stöðu mála fram á veg. Raunar hefði farið betur á því að breytt hefði verið um stefnu fyrr og að Rumsfeld hefði vikið úr ríkisstjórn í kjölfar forsetakosninganna 2004 þar sem að Bush vann endurkjör.
Það verður fróðlegt að fylgjast með því þegar að Bob Gates, tilnefndur varnarmálaráðherra, fer fyrir þingið og hvernig það gengur fyrir sig. Það leikur enginn vafi á því að tilnefning Gates mildar mjög stöðu mála og tryggir nýja forystu í Pentagon, sem menn geta jafnvel orðið sáttir um, óháð flokkapólitík í Bandaríkjunum. Það er greinilegt að bæði George W. Bush og Nancy Pelosi, verðandi forseti fulltrúadeildarinnar, sem verður nú valdamesti forystumaður Demókrataflokksins, hafa í hyggju samstarf að einhverju leyti og byggja brýr á milli svæða sem hafa ekki verið til staðar og hefja samstarf með heilbrigðum og eðlilegum hætti. Því ber að fagna.
Nú fyrir stundu viðurkenndi George Allen, öldungadeildarþingmaður í Virginíu, formlega ósigur sinn fyrir Jim Webb í kosningunum í fylkinu. Með því hafa valdaskiptin í öldungadeildinni formlega verið staðfest og nýjir tímar að hefjast. Fyrr í dag hittust Bush og Pelosi í forsetaskrifstofunni ásamt trúnaðarmönnum flokka sinna og hófu viðræður um stöðu mála. Vel virtist fara á með þeim.
Það verður fróðlegt að fylgjast með bandarískum stjórnmálum næstu tvö árin, þann tíma sem demókratar og repúblikanar munu deila völdum hið minnsta. Bráðlega hefst svo hasarinn vegna forsetakosninganna 2008. Það er svo sannarlega spenna í loftinu, sem við stjórnmálaáhugamenn hljótum að fagna.
![]() |
Segir Bush hafa orðið að bíða með að tilkynna afsögn Rumsfeld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 15:31
Oops... Britney did it again

Á meðan er Paul McCartney í harðri baráttu við Heather sína, sem reyndist hið mesta skass er á hólminn kom, og vill hún nú fá vænar fúlgur Bítlafjár. Jafnast á við átök hjónanna í The War of the Roses þessi deilanna Macca við Mucca (eins og bresku slúðurblöðin kalla Heather).
Svo er allt búið hjá óskarsverðlaunaleikkonunni Reese og Ryan Íslandsvini. Átti það ekki að vera svo rock solid dæmi? Hlægilegt. Fyndin tilvera. Það er oft mesta feikið í brosum stjarnanna, ekki satt?
![]() |
Federline krefst forræðis yfir sonum sínum og Spears |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.11.2006 | 14:07
Frjálslyndir hækka á umdeildri innflytjendastefnu
Annað sem vekur mikla athygli er fylgismæling Samfylkingarinnar, sem bætir allnokkru við sig á meðan að vinstri grænir missa mikið fylgi. Framsókn er heillum horfin með aðeins rúm 6% fylgi og fjóra þingmenn, eru minni en Frjálslyndir. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með rúmlega 38% fylgi og 25 þingsæti, vel yfir kjörfylginu 2003
![]() |
Fylgi Frjálslynda flokksins eykst mikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 02:46
Demókratar ná völdum í öldungadeildinni

Demókratar tókst með naumum hætti að vinna sigra bæði í Virginíu og Montana. Nú undir lokin voru auga allra á stöðunni í Virginíu. Þar hefur Jim Webb nú tekist að fella George Allen úr öldungadeildinni og Jon Tester felldi Conrad Burns úr sæti sínu í Montana. Þetta eru stórpólitísk tíðindi. Þessir sigrar eru naumir en gríðarlega táknrænir og til marks um algjört afhroð repúblikana í kosningunum. Meirihluti repúblikana var 15 sæti í fulltrúadeildinni en 6 í öldungadeildinni. Þeir hafa nú fallið eins og spilaborg í þessum eftirminnilegu kosningum. Miklar sviptingar það.
Þessi kosningaúrslit eru gríðarlegt pólitískt áfall fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Hann hefur nú þegar fórnað Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, og liggur afsögn hans fyrir og tilnefning Robert Gates sem eftirmanns hans. Fyrir viku sagðist Bush ætla að halda Rumsfeld til loka kjörtímabilsins. Vika er langur tími í pólitík og nú er allt breytt - Rumsfeld er á útleið. Það má kannski segja að sólarhringur sé langur tími í pólitík fyrir George W. Bush. Pólitísk staða hans hefur veikst til mikilla muna. Nú þarf hann að búa við þingið undir stjórn demókrata það sem eftir lifir valdaferli hans. Það verður honum ekki auðvelt.
Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, verður nú leiðtogi meirihlutans í þinginu og sá sem þar ræður för. Það verður svo sannarlega athyglisvert að fylgjast með næstu tveim árum í bandarískum stjórnmálum. Það verður lokasprettur stjórnmálaferils George W. Bush. Hans gullaldartíð í bandarískum stjórnmálum heyrir nú sögunni til og hann verður nú að feta í fótspor t.d. Ronalds Reagan fyrir tveim áratugum og una við yfirstjórn þingsins í höndum algjörra andstæðinga sinna. Þeir ráða stöðu mála við staðfestingu dómara- og ráðherraefna forsetans og í fleiri mikilvægum málum, t.d. skipan rannsóknarnefnda. Yfirtaka demókrata á öldungadeildinni er miklu meira pólitískt áfall en það að missa fulltrúadeildina.
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í pólitískum refskákum í þinghúsinu tignarlega í heimsborginni Washington, þar sem valdahlutföll hafa færst með dramatískum hætti á örskotsstundu frá liðsmönnum forsetans til andstæðinga hans. Þær tilfærslur hafa gríðarleg áhrif á það sem við tekur og stefnumótun forsetans. Nú verður hann að hugsa sína pólitísku tilveru og hugmyndir út frá því sem andstæðingarnir vilja.
Það má telja það nokkuð öruggt að það verði erfitt fyrir mann af hans tagi. Hann hefur nú þegar boðað Nancy Pelosi og Harry Reid á sinn fund í Hvíta húsinu á morgun til að ræða stöðu mála og reyna að vinna hlutina fram á veg í sameiningu. Einstefna repúblikana í bandarískum stjórnmálum er á bak og burt og nú verður Bush að líta til demókrata við keyrslu sína í gegnum stjórnmálastörfin.
Framundan eru líflegir tímar fyrir okkur bandaríska stjórnmálaáhugamenn næstu 24 mánuðina, þangað til að Bush flýgur til Texas sem almennur borgari úr valdakerfinu í Washington.
Dems win Senate - frétt CNN
![]() |
Enn mjótt á munum í Virginíu; óljóst hvort kemur til endurtalningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 23:57
Styttist í prófkjör - fjörugur leiðtogaslagur

Nú þegar hafa leiðtogaefnin Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson opnað heimasíður á netinu og kosningaskrifstofu hér á Akureyri. Ennfremur hefur Ólöf Nordal, frambjóðandi í annað sætið, opnað hér kosningaskrifstofu. Um helgina stefnir Arnbjörg Sveinsdóttir að því að opna kosningaskrifstofu á efri hæð að Glerárgötu 20, sama húsi og Greifinn er í. Það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri að sjálfsögðu mikið gleðiefni að frambjóðendur í efstu sætin opni hér kosningaskrifstofu og kynni sig og áherslur sínar vel fyrir okkur.
Það er þessum frambjóðendum enda pólitískt séð nauðsynlegt að höfða vel til Akureyringa, þar sem stærsta þéttbýlisbyggð kjördæmisins er. Það stefnir í mjög fjörugan leiðtogaslag. Það er gleðiefni að við höfum val um það hvern við viljum sjá sem leiðtoga hér. Við erum að sjá kapphlaup um lausan leiðtogastól sem getur fært mikla möguleika fyrir þann sem sigrar, svo skiljanlega eru margir sem sýna áhuga og vilja taka þátt. Það styrkir okkur öll að hafa val um hver eigi að leiða listann.
Ég bendi hérmeð á heimasíður þeirra frambjóðenda sem hafa opnað vefgátt
Arnbjörg Sveinsdóttir
Kristján Þór Júlíusson
Ólöf Nordal
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigurjón Benediktsson
Þorvaldur Ingvarsson
Ég vona að þetta prófkjör styrki okkur að lokum og við stillum upp samhentri sigursveit til verka í kosningabaráttunni allt fram til 12. maí og að þann dag vinnum við hér sigur og tryggjum að eftirmaður Halldórs á leiðtogastóli verði fyrsti þingmaður kjördæmisins og ráðherra í ríkisstjórn að vori. Eins og staða mála sýnir okkur vel í könnunum er möguleikinn á því svo sannarlega til staðar - sóknarfærin eru til staðar. Við verðum að nýta þau vel og stilla upp sem sterkustum lista. Það mun ég allavega gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2006 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)