Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.11.2006 | 19:03
Afsögn Rumsfelds - Gates tekur við í Pentagon

Rumsfeld hefur verið varnarmálaráðherra frá 20. janúar 2001, allt frá valdatöku Bush Bandaríkjaforseta, og verið einn af hans nánustu pólitísku ráðgjöfum um utanríkis- og varnarmál. Hann stýrði stefnumótun forsetans í málaflokknum og verið lykilmaður í bandarískum stjórnmálum. Rumsfeld var áður varnarmálaráðherra 1975-1977 í forsetatíð Geralds Ford og er bæði yngsti og elsti maðurinn sem gegnt hefur embættinu. Hann er nú 74 ára gamall og því óneitanlega nokkuð roskinn. Hann er einn umdeildasti ráðherra í seinni tíma stjórnmálasögu Bandaríkjanna.
Það hefur verið brugðist við afgerandi úrslitum þingkosninganna með þeim eina hætti sem mögulegur var og réttur; því að skipta um yfirmann í Pentagon og breyta um áherslur. Það að Rumsfeld sé settur af eru stórpólitísk tíðindi og greinilega ákvörðun forsetans eftir þessi kosningaúrslit. Það blasti við að ekki gat öðruvísi farið. En nú reynir á samvinnu, enda er forsetinn ekki að fara neitt. Hann á sitt umboð til 20. janúar 2009 og situr þann tíma. Það er greinilegt að hann leitast nú eftir samstarfi við demókrata og það er eðlilegt. Það er jú þjóðin sem ræður för, hún velur þingið og forsetann. Það er bara þannig.

Tíðindi dagsins eru stór og síðasti sólarhringur verið viðburðaríkur. Bush forseti þarf nú að hefja samstarf við aðra valdhafa inni í þinginu og leita málamiðlana og samkomulags, eitthvað sem hann hefur ekki vanið sig mikið á. Miklar breytingar eru framundan hjá honum á lokaspretti valdaferilsins. Það verða viðbrigði fyrir hann og fleiri lykilmenn hans. Það eru svo sannarlega nýjir tímar framundan í bandarískum stjórnmálum.
En nú hefst hasarinn fyrir forsetakosningarnar 2008 í raun. George Walker Bush verður ekki sögupersóna í þeim kosningahasar. Þar verður nýr húsbóndi í Hvíta húsinu kjörinn. Það verður sérstaklega áhugavert að sjá í hvaða stefnu Repúblikanaflokkurinn þróast í þeirri atburðarás. Búast má við nokkrum breytingum þar með nýju forsetaefni, sem hefur jafnvel aðrar hugmyndir og áherslur á sömu málum og Bush forseti.
![]() |
Bush: Réttur tími til að skipta um forustu í Pentagon |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 18:06
Donald Rumsfeld segir af sér

Robert Gates, fyrrum forstjóri CIA, hefur verið útnefndur sem nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Ég mun skrifa ítarlega færslu um afsögn Rumsfelds innan skamms.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2006 | 17:55
Nancy Pelosi vill afsögn Donalds Rumsfelds

Ein sterkasta vísbendingin í þessa átt sást á blaðamannafundi aftur í dag er hún fór yfir áherslur sínar í kjölfar þess að hún verður fyrst kvenna til að leiða þingdeild í sögu Bandaríkjaþings. Hún krefst afsagnar Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og er ófeimin við að kalla eftir breytingum í Íraksmálinu og fleiri umdeildum málum. Pelosi og demókratar munu láta finna fyrir sér og nota sóknarfærið til að sækja að Bush forseta og stjórn hans.
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, mun í kvöld halda blaðamannafund í Hvíta húsinu þar sem hann tjáir skoðanir sínar um fall meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni og jafna stöðu í öldungadeildinni. Úrslit kosninganna eru pólitískt áfall fyrir forsetann og flokk hans. Best sést staða mála í kosningunni um fulltrúadeildina þar sem öll sæti voru undir og ósigurinn sérstaklega afgerandi og umboð demókrata sterkt til verka þar. Það verður fróðlegt að heyra skoðanir forsetans á stöðu mála.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig valdasambúð forsetans og demókrata mun ganga er á hólminn kemur. Það verður stormasöm sambúð og því verður sérstaklega áhugavert að sjá mat forsetans á því sem gerst hefur. Bush verður að búa við þessa stöðu það sem eftir lifir valdaferilsins og það mun verða erfitt fyrir hann að koma málum í gegn og beita völdum sínum með sama hætti og verið hefur, enda hafa samherjar hans ráðið þinginu nær allan forsetaferil hans, fulltrúadeildinni frá 1994 en öldungadeildinni frá 2003.
Það er allavega greinilegt á ummælum Nancy Pelosi í dag að hún ætlar ekki að vera róleg í tíðinni og það eiga eftir að verða heldur betur stormasamar sviptingar í þessari valdasambúð þeirra.
![]() |
Væntanlegur þingforseti hvetur til afsagnar Rumsfelds |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.11.2006 | 15:32
Spennandi örlagastund í Virginíu og Montana

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer varðandi þessi tvö þingsæti sem ráða því hversu laskaður Bush forseti er orðinn pólitískt. Tapi repúblikanar líka öldungadeildinni versnar staðan enn meira fyrir þá og stjórn forsetans. Bush virðist vera kominn í sömu stöðuna og Bill Clinton var megintíma valdaferils síns. Á árunum 1995-2001, meira en helming forsetaferilsins, höfðu repúblikanar meirihluta í báðum þingdeildum með Clinton við völd og hann var endurkjörinn sem forseti í nóvember 1996 án þess að ná þinginu á vald demókrata í leiðinni.
Það sem virðist vera öðruvísi í tilfelli Bush nú en Clintons áður er að hann leitaði eftir samstarfi við pólitíska andstæðinga og reyndi sitt besta til að halda friðinn við þá. Það eru allt aðrir tímar núna. Bandarískir hermenn eru í Írak og það mál hefur klofið þjóðina í tvær fylkingar. Umfram allt annað virðist Bush vera að verða fyrir þessum pólitíska skelli nú vegna þess máls. Þetta er algjör áfellisdómur yfir hans forystu í málinu. Það eru því meginskil milli þess pólitíska veruleika sem blasti við Clinton til fjölda ára og það sem stefnir í að komi fyrir Bush forseta nú. En heilt yfir er þetta jafnmikið pólitískt áfall og Clinton veiktist gríðarlega við valdamissi demókrata í þinginu þá.
Það má búast við endurtalningu í Virginíu þar sem að George Allen berst fyrir endurkjöri í hörkuslag við Jim Webb. Þar munar svo litlu að með ólíkindum er og hugurinn leitar ósjálfrátt til Flórída fyrir sex árum þar sem það réðst hvort að George W. Bush eða Al Gore varð forseti Bandaríkjanna. Munurinn þá var ótrúlega lítill og það sem gerðist þá varð sögulegt að öllu leyti, og vonandi mun aldrei gerast aftur í bandarískum forsetakosningum. Ekki síður er mikil spenna í Montana þar sem munurinn milli Conrad Burns og Jon Tester er ótrúlega lítill ennfremur. Þetta verða spennandi dagar. Fari svo að endurtalning fari fram og lagaflækjur verði ráðandi í málinu gætu úrslit ekki ráðist fyrr en í desember.
Það er ljóst að beðið er með spennu á brá eftir þessum úrslitum. Það verður slæmt tefjist þau mjög úr hömlu og vonandi að staða mála ráðist sem allra fyrst. En munurinn er í þessum fylkjum vissulega svo lítill að það verður að vinna stöðuna vel og tryggja að rétt sé á málum haldið. Það er mikið í húfi svo sannarlega í bandarískum stjórnmálum í þessum fylkjum þar sem örlögin ráðast að lokum. Segið svo að hvert atkvæði skipti ekki máli!
![]() |
Demókratar hársbreidd frá því að ná meirihluta í öldungadeildinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2006 kl. 03:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 08:03
Sigur demókrata - barátta um öldungadeildina

Úrslitin í fulltrúadeildinni eru pólitískt áfall fyrir George W. Bush, sem hefur nær allan sinn forsetaferil ráðið yfir báðum þingdeildum og haft afgerandi umboð til sinna verka og með þingið að baki sér. Þeir tímar eru nú liðnir. Þó að repúblikanar myndu halda þinginu í stöðunni sem uppi er verður það aldrei túlkað annað en sem vængbrotinn sigur og mikið áfall fyrir hann að hafa misst 15 sæta meirihluta í fulltrúadeild og öflugan meirihluta í öldungadeild niður í ekki neitt. Staða mála er því kristalskýr og blasir við öllum sem kynna sér tölurnar, miðað við árin 2002 og 2004.
Vinni demókratar ennfremur sigur í öldungadeildinni mun það leiða til þess að forsetinn standi eftir með þingið á móti sér. Það myndi leiða til þess að öll mál forsetans væru upp á náð og miskunn demókrata komin. Það er sú staða sem repúblikanar óttuðust mest alla kosningabarátta. Komi sú staða nú upp mun pólitískur kraftur forsetans lamast til muna. Það er þegar ljóst að repúblikanar urðu fyrir þungu áfalli í þessum kosningum og ganga veikir frá velli, eru sigraðir. Því verður ekki neitað að úrslitin eru áfellisdómur yfir forsetanum.
George W. Bush hefur nær allan forsetaferil sinn haft sterkt umboð landsmanna til verka. Hann hlaut gott umboð landsmanna í forsetakosningunum fyrir tveim árum, hlaut hreinan meirihluta atkvæða og sterka stuðningsyfirlýsingu landsmanna við pólitísk verk hans. Það umboð er verulega skaddað við þetta afhroð repúblikana um nær allt land. Þeir gullaldartímar, sem einkennt hafa valdaferil forsetans, hafa liðið undir lok og nú hefur hann fengið gula spjaldið svo um munar. Hann verður nú að taka tillit til skoðana landsmanna og ennfremur hlusta á skoðanir demókrata, sem hafa nú stöðu mála í þingdeildunum svo til á sínu valdi.

Þekktir öldungadeildarþingmenn repúblikana, þeir Jim Talent í Missouri, Lincoln Chafee í Rhode Island, Rick Santorum í Pennsylvaníu og Mike DeWine í Ohio féllu allir af þingi fyrir misvel þekktum andstæðingum sínum í skýrri demókratabylgju um gervöll Bandaríkin.
Arnold Schwarzenegger var endurkjörinn ríkisstjóri Kalíforníu og Charlie Crist var kjörinn ríkisstjóri í Flórída í staðinn fyrir Jeb Bush, bróður Bush forseta, sem gat ekki gefið kost á sér að nýju. Blökkumaðurinn og demókratinn Deval Patrick var kjörinn ríkisstjóri í Massachusetts, í stað repúblikanans Mitt Romney sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Hann er annar blökkumaðurinn í sögu Bandaríkjanna sem verður ríkisstjóri. Blökkumaðurinn Keith Ellison náði kjöri í fulltrúadeildina í kjördæmi í Minnesota. Hann er fyrsti múslíminn á Bandaríkjaþingi. Demókratinn Martin O´Malley var kjörinn ríkisstjóri í Maryland og Bill Richardson var endurkjörinn í Nýju Mexíkó, svo fátt eitt sé nefnt.
Heilt yfir voru kosningarnar því skellur fyrir Bush Bandaríkjaforseta og repúblikana. Þær voru áfellisdómur yfir forsetanum og verkum hans. Það er mjög einfalt mál og greinilegt að Bandaríkjamenn vilja uppstokkun á stöðu mála og sendir Bush kaldar kveðjur. Hann þarf nú lokasprett valdaferilsins að deila völdum með demókrötum.
Nancy Pelosi hefur verið harður andstæðingur hans. Það að hún verði sem forseti fulltrúadeildarinnar nú önnur í valdaröð landsins, á eftir varaforsetanum, eru stórtíðindi og segja allt sem segja þarf um það pólitíska áfall sem úrslitin boða fyrir forsetann.
![]() |
Demókratar ná völdum í fulltrúadeildinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook
8.11.2006 | 04:20
Demókratar ná völdum í fulltrúadeildinni

Nancy Pelosi, sem verið hefur leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni frá árinu 2003, mun nú verða forseti fulltrúadeildarinnar. Hún er fyrsta konan sem leiðir fulltrúadeildina í langri sögu hennar. Pelosi tekur við forsetaembættinu af Dennis Hastert, sem hefur verið forseti allt frá árinu 1999, og var kominn í hóp þaulsetnustu forseta deildarinnar. Nancy Pelosi hefur verið harður andstæðingur George W. Bush og verið mjög andsnúin pólitískum verkum hans. Sigur hennar og demókrata eru stórpólitískt áfall fyrir Bush forseta.
Úrslitin verða brátt ljós í öldungadeildinni. Þegar að sjö sæti eru enn undir hafa demókratar hlotið 47 en repúblikanar 46. Demókratar hafa unnið þrjú sæti af repúblikönum og þurfa að sigra þrjú önnur til að vinna. Það ræðst innan klukkutíma hvernig fer í þessu. Nú þegar hafa þó stórpólitísk tíðindi orðið og pólitísk staða Bush forseta veikst til muna við fall meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 02:36
Lieberman heldur velli - Santorum fellur

Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans meðal íbúa í fylkinu og staða hans varð ótrygg. Svo fór að Lamont, sem var lítt kunnur viðskiptamaður, gaf kost á sér gegn honum. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu og hafði verið varaforsetaefni demókrata í forsetakosningunum 2000, fyrsti gyðingurinn í lykilframboði í bandarísku forsetakjöri.

Lamont náði aldrei eftir forkosningarnar náð alvöru forskoti á Lieberman og nú hefur hann tapað sjálfum kosningunum, þó formlegur flokksframbjóðandi demókrata sé. Fátt virðist hafa gengið Lamont í hag í átökunum sjálfum, handan forkosninganna meðal flokksmanna. Hann hefur ekki komist út úr talinu um Íraksstríðið og varð bensínlaus á miðri leið, þrátt fyrir áfangasigurinn. Honum mistókst að fókusera sig á aðra málaflokka og öðlast tiltrú kjósenda sem breiður stjórnmálamaður ólíkra hópa. Því fór sem fór.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi nótt. Meðal helstu tíðinda annarra sem af er telst auðvitað sigur Edward M. Kennedy, bróður John F. Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, í Massachusetts en hann hefur verið í öldungadeildinni allt frá árinu 1962 og hefur því unnið níu sinnum kjör í deildina og er að verða sá þingmaður þar sem lengst hefur setið. Kennedy er orðinn 74 ára gamall og verður því orðinn rösklega áttræður er kemur að næstu kosningum eftir sex ár.
Ein tíðindi kvöldsins eru tækniörðugleikar á kjörstað. Ljótt er að heyra. Vonandi verður ekkert Flórída-syndrome í nótt, segi ég og skrifa. Gleymi annars aldrei þessum 36 örlagaríku dögum fyrir sex árum er deilt var um hvor væri nýkjörinn forseti (president-elect) Bush eða Gore. Ógleymanlegir dagar svo sannarlega. Þá var Flórída nafli alheimsins, í orðsins fyllstu merkingu.
![]() |
Tækniörðugleikar valda töfum á kjörfundum víða í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 00:44
Örlagarík kosninganótt í Bandaríkjunum
Kjörstöðum hefur verið lokað í fyrstu fylkjunum í Bandaríkjunum - örlagaríkir klukkutímar eru framundan í bandarískum stjórnmálum. Úrslit í bandarísku þingkosningunum verða brátt ljós. Kosninganóttin er hafin - úrslit verða ljós fyrir dögun að íslenskum tíma.
Eins og fram kom í bloggfærslu minni hér síðdegis stefnir í mjög spennandi talningu. Það verður áhugavert að sjá hver staðan verður að loknum kosningunum, enda mun þar ráðast hvernig Bush forseti getur stýrt málum út síðara kjörtímabil sitt.
Ég hef alltaf fylgst með miklum áhuga með bandarískum stjórnmálum, mikið skrifað um þau og spekúlerað. Ég fylgist því með þessum kosningum af miklum áhuga. Það verður mest fylgst með því hvernig valdahlutföll verða í þingdeildunum og hverjir hljóti kjör í tvísýnum baráttum um öldungadeildarsæti.
Einnig eru áhugaverðir ríkisstjóraslagir sem vert verður að fylgjast með, t.d. í Kaliforníu og Flórída. Þetta verður því nótt spennu í Bandaríkjunum og víðar um heim.
![]() |
Bandarísku forsetahjónin kjósa í heimabæ sínum Crawford |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2006 | 18:56
Mikil spenna í bandarísku þingkosningunum
Æsispennandi þingkosningar eru í Bandaríkjunum í dag. Kosið er um alla fulltrúadeildina, hluta öldungadeildarsæta og ríkisstjóraembætti, auk fjölda annarra embætta. Kosningarnar gætu orðið sviptingasamar. Skv. nýjustu skoðanakönnunum hefur forskot demókrata á repúblikana í kosningum til fulltrúadeildarinnar, þar sem kosið er um öll 435 sætin, minnkað þónokkuð. Ekki er því vitað í hvað stefnir í kvöld og nótt þegar að tölur um allt land taka að streyma inn.
Kosningabaráttunni lauk seint í gærkvöldi með krafti. Tveir menn voru þar áberandi í að vinna flokki sínum stuðnings með kosningaferðalögum um þau ríki þar sem lykilbarátta kosninganna stefna í að verða er yfir lýkur. Hvorugur var þó í framboði í þessum kosningum. Þetta voru George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og forveri hans á forsetastóli, Bill Clinton. Skilaboð þeirra voru áberandi á lokaspretti baráttunnar og bandarískir fjölmiðlar gerðu kosningaferðalagi þeirra góð skil. Óvíst er þó hvort þeirra innlegg ráði nokkuð úrslitum. Efast má satt best að segja um það.
Þessar þingkosningar eru heilt yfir kosningar um George W. Bush og stöðu hans og ríkisstjórnarinnar, nú þegar að nákvæmlega tvö ár eru til forsetakosninga, þar sem eftirmaður hans á forsetastóli verður kjörinn. Kosið er um hvort forsetinn heldur áhrifum sínum og völdum með sama hætti og verið hefur, enda hafa repúblikanar ráðið yfir báðum deildum þingsins og Hvíta húsinu á sama tíma. Öllum er ljóst að mjög mun þrengjast um hann ef að Nancy Pelosi verður forseti fulltrúadeildarinnar af hálfu demókrata. Þar sem kosið er um alla fulltrúadeildina verða skilaboðin skýrari þar. Repúblikanar mega teljast ljónheppnir haldi þeir velli þar. Þar verður meginbarátta kvöldsins og þar munu örlög umfangs valda forsetans næstu tvö árin ráðast.
Sérfræðingar sem höfðu spáð afgerandi sigri demókrata voru þó orðnir tvístígandi í gær og ekki eins vissir um afhroð repúblikana. Bob Schieffer, hinn gamalreyndi sérfræðingur og fréttaþulur CBS, sem hafði fyrir um viku spáð afgerandi sigri demókrata í báðum deildum var orðinn efins í gær en spáði þó að demókratar tækju fulltrúadeildina en það yrði jafnt í öldungadeildinni. Þar sem 100 sæti eru í öldungadeildinni getur sú staða komið upp. Það gerðist síðast í kjölfar forsetakosninganna 2000. Þá er varaforsetinn með oddaatkvæðið. Á því réðu demókratar deildinni í 17 daga í janúar 2001, eða þar til að Dick Cheney varð varaforseti í stað Al Gore. Sú staða gæti hæglega komið upp, en sú staða er þó verulega erfið og þýðir í raun valdajafntefli, þó að varaforsetinn tryggi flokksvald sitt.
Bush forseti var á kosningaferðalagi m.a. í Flórída í gær. Það vakti athygli að Charlie Crist, ríkisstjóraframbjóðandi repúblikana í fylkinu, ákvað að sleppa kosningafundi forsetans og halda í staðinn sinn eigin fund á svipuðum tíma. Þetta þótti niðurlægjandi fyrir forsetann og vont. Það er vissulega svo að það hefur sett mark sitt á baráttuna að forsetinn er óvinsælli en hefur verið. Það er reyndar um fátt meira talað en þessa ákvörðun Crist, einkum og sér í lagi í ljósi þess að hann er að berjast um að verða eftirmaður Jeb, bróður forsetans, sem getur ekki boðið sig fram aftur nú í Flórída í ljósi þess að ríkisstjóri getur ekki setið lengur en tvö kjörtímabil. Það bendir nær allt til þess að Crist verði eftirmaður Jeb Bush, en munurinn hefur þó minnkað þar síðustu daga.
Bush forseti kaus síðdegis í dag í heimabæ sínum, Crawford í Texas, ásamt eiginkonu sinni, Lauru Welch Bush. Hún varð sextug á dögunum en lítið varð um hátíðarhöld í ljósi harðnandi þingkosningabaráttu og munu þau hjón væntanlega taka því rólega er úrslitin liggja fyrir. Er þau fóru að kjósa voru þau nýkomin úr kosningaferðalaginu, sem verður þeirra síðasta væntanlega. Þetta eru síðustu kosningarnar sem skipta George W. Bush verulegu máli. Eftir tvö ár halda þau í eftirlaunalífið í Crawford og fara úr sviðsljósinu. En baráttan nú skiptir máli fyrir pólitíska arfleifð forsetans. Þetta eru lykilkosningarnar sem ráða því hvernig Bush getur sagt skilið við stjórnmálastörf sín og forystuverk í Washington.
Það má búast við spennandi kvöldi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kosningarnar fara í þingdeildunum, en ekki síður hvernig spennandi ríkisstjórabaráttur fara um allt landið. Mikil spenna er yfir þingkosningunum í Connecticut, þar sem að Joe Lieberman berst fyrir endurkjöri, nú sem óháður. Allt bendir til að hann haldi velli og sama má segja um Hillary Rodham Clinton sem mun án vafa vinna stórsigur í New York. Þetta verður væntanlega líka sigurkvöld Arnold Schwarzenegger í Kaliforníu, en hann hefur barist fyrir endurkjöri og sigur hans nokkuð tryggur. Svo verður spennandi að sjá hvernig fer fyrir George Allen í sinni spennandi baráttu.
Ég mun fjalla um úrslitin eftir því sem þau berast og fylgjast með stöðunni og reyna að skrifa um eftir því sem mögulegt er. Framundan eru spennandi klukkutímar sem hafa áhrif á lokasprett valdaferils George W. Bush og ekki síður valdahlutföll í heimsborginni Washington.
![]() |
Kjörstaðir opnaðir í Bandaríkjunum; 200 milljónir á kjörskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2006 | 14:05
Ungliðar gagnrýna yfirlýsingar frjálslyndra
Forsvarsmenn ungliðahreyfinga í öllum stjórnmálaflokkum nema Frjálslynda flokknum hafa sent frá sér ályktun og gagnrýnt þar yfirlýsingar Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns Frjálslyndra, um innflytjendamál. Þeir lýsa vonbrigðum með þá ákvörðun nokkurra forystumanna Frjálslyndra að ala á trúarbragðafordómum og tortryggni í garð útlendinga í tilraunum sínum til að auka fylgi flokks síns.
Þetta er góð og öflug ályktun sem mikilvægt var fyrir ungliðahreyfingar fjögurra stærstu flokka landsins að senda frá sér og ég fagna henni, enda skrifaði ég ítarlegan pistil um málið í gær á vef SUS og lét í ljósi sömu skoðanir á málinu.
Ályktun ungliða
![]() |
Lýsa yfir vonbrigðum með trúarbragðafordóma meðal Frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |