Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gunnar sigrar í prófkjöri Samfó í Kraganum

Gunnar Svavarsson Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, sigraði Þórunni Sveinbjarnardóttur, alþingismann, og verður leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu í stað Rannveigar Guðmundsdóttur, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs, en hún hefur setið á þingi síðan 1989. Gunnar hefur ekki áður setið á þingi og er því nýliði í þessum efnum. Hann hlaut fyrsta sætið með 1376 atkvæðum. Aðeins munaði 46 atkvæðum á honum og Þórunni í fyrsta sætið.

Þórunn náði í öðrum tölum kvöldsins í prófkjörinu að skjótast upp í fyrsta sætið, en henni tókst ekki að halda forskotinu til enda. Auk þeirra tveggja sóttist Árni Páll Árnason, lögfræðingur, eftir fyrsta sætinu. Í öðru sæti í prófkjörinu varð Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður, en hún varð í fjórða sæti í prófkjörinu fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þórunn, sem setið hefur á þingi frá 1999, lenti í þriðja sætinu þrátt fyrir hetjulega baráttu um leiðtogastólinn. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir hana að ná ekki leiðtogastólnum, enda lítill munur, og að komast ekki ofar á listann en síðast. Þetta er nokkuð áfall fyrir konurnar í flokknum væntanlega.

Árni Páll varð í fjórða sætinu og kemur því nýr inn í forystusveit flokksins í kjördæminu. Þetta er fyrsta prófkjör Árna Páls, en hann var aðstoðarmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðherratíð hans og naut stuðnings hans í prófkjörinu til forystu. Í fimmta sætinu varð Guðmundur Steingrímsson, fjölmiðlamaður, en hann er virkur Moggabloggari hérna hjá okkur í þessu flotta samfélagi og er auk þess af merkum pólitískum ættum en faðir hans og afi, Steingrímur Hermannsson og Hermann Jónasson, voru báðir forsætisráðherrar og formenn Framsóknarflokksins. Það væri fróðlegt að vita hvort Steingrímur, sem nú er orðinn (h)eldri borgari í Garðabæ, hefði farið á kjörstað til að kjósa Guðmund.

Í sjötta sætinu varð Tryggvi Harðarson, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og bæjarstjóri á Seyðisfirði, en hann gaf eins og kunnugt er kost á sér til formennsku í Samfylkingunni gegn Össuri Skarphéðinssyni á stofnfundi flokksins í maí 2000. Það vekur athygli að hann verði ekki ofar, eftir langan pólitískan feril í kjördæminu. Á eftir honum koma varaþingmenn flokksins, þau Sonja B. Jónsdóttir og Jakob Frímann Magnússon. Sonja var varaþingmaður flokksins í Kraganum eftir alþingiskosningarnar 2003 en Jakob Frímann var á framboðslistanum í Reykjavík suður í kosningunum 2003 og tekið sæti á þingi einu sinni á tímabilinu. Hann færði sig um set í aðdraganda þessa prófkjörs.

Það vekur mikla athygli að Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, er víðsfjarri því að ná góðu sæti og er um eða rétt við miðju frambjóðendahópsins og því heldur betur á útleið af Alþingi að vori. Valdimar Leó skipaði sjötta sæti framboðslistans í Kraganum í kosningunum 2003 og varð óvænt þingmaður í september 2005 þegar að Guðmundur Árni Stefánsson hætti þátttöku í stjórnmálum og varð sendiherra í Stokkhólmi. Valdimar Leó var reyndar annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu en tók þingsætið eftir að Ásgeir Friðgeirsson, almannatengslafulltrúi Björgólfsfeðga og fyrrum fjölmiðlamaður, gaf þingsæti sitt eftir sem hann hefði ella fengið. Úrslitin nú hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir Valdimar Leó.

Sögur ganga á spjallvefum um að plott hafi verið í gangi milli stuðningsmanna Gunnars og Katrínar um að kjósa hvort annað í efstu sætin. Það sé plott Guðmundar Árna Stefánssonar og Lúðvíks Geirssonar. Það skal ósagt látið, en úrslitin vekja upp vissar spurningar auðvitað. Það er allavega svo að Gunnar hefur tekið við sess Guðmundar Árna (sem vann prófkjörið 2002 og var kjördæmaleiðtogi fyrri hluta kjörtímabilsins) sem fulltrúi Hafnfirðinga og Katrín svo við sess Rannveigar sem fulltrúi Kópavogs. Eftir situr óneitanlega Þórunn í sama sæti og síðast, með Katrínu nú fyrir ofan sig. Merkilegt mjög. Það er áhugavert að sjá hvað sumir sendiherrar á Norðurlöndum eru oft örlagaríkir í innri plottum flokkanna sinna hér heima.

Gunnar Svavarsson er sonur hins þekkta skemmtiþáttastjórnanda, tónlistarmanns og hljómplötuútgefanda, Svavars Gests, sem allt fram í andlátið árið 1996 var með vinsæla útvarpsþætti á Rás 2 á sunnudagsmorgnum og víðfróður um íslenska tónlist. Hann var til fjölda ára giftur söngkonunni Elly Vilhjálms. Það verður seint sagt að Gunnar sé mjög þekktur í stjórnmálum, nema af verkum sínum í pólitíkinni í Hafnarfirði, en hann er einn af arkitektum veldis Samfylkingarinnar þar í bæ og er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Það verður áhugavert að fylgjast með pólitískum verkum hans á nýjum vettvangi.

mbl.is Gunnar efstur í prófkjöri Samfylkingar í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðtogaeinvígi Gunnars og Þórunnar í kraganum

Samfylkingin Talning stendur nú yfir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Spennandi einvígi virðist vera á milli Gunnars Svavarssonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um leiðtogastól flokksins í kjördæminu. Lengi framan af kvöldi var Gunnar, sem er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, efstur í prófkjörstalningunni en nú á ellefta tímanum náði Þórunn, sem verið hefur þingmaður Samfylkingarinnar á svæðinu frá árinu 1999, forystunni en naumlega þó. Munu nú um 40 atkvæði skilja þau að í baráttunni um forystuhlutverkið.

Í fyrstu tölum var Gunnar í fyrsta sæti, Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður úr Kópavogi, var í öðru sætinu, Þórunn í því þriðja, Árni Páll Árnason í því fjórða, Guðmundur Steingrímsson, Moggabloggari og sonur Steingríms Hermannssonar fyrrum forsætisráðherra, var í fimmta sætinu og Tryggvi Harðarson, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði í því sjötta. Á eftir komu þau Sonja B. Jónsdóttir og Jakob Frímann Magnússon. Valdimar Leó Friðriksson sem varð alþingismaður á miðju kjörtímabili er mjög neðarlega og orðið ljóst að hann hefur misst þingsæti sitt. Nú fyrir skömmu skaust Þórunn upp í fyrsta sætið en Gunnar niður í hið þriðja.

Það stefnir því í spennandi einvígi milli Gunnars og Þórunnar um forystuna. Fram að því sýndist stefna í það að breytingarnar á forystunni yrðu þær að nýjir fulltrúar Hafnarfjarðar og Kópavogs færu í forystuna. Efst í prófkjöri síðast voru Hafnfirðingurinn Guðmundur Árni og Kópavogsbúinn Rannveig Guðmunds, og í staðinn kæmu Gunnar, sem fulltrúi Hafnfirðinga til forystu, og Katrín, sem arftaki Rannveigar úr Kópavogi, og um leið myndi Þórunn sitja eftir fyrir neðan Katrínu, en Þórunn varð þriðja í síðasta prófkjöri en Katrín fjórða. En þetta verður greinilega jöfn og hressileg talning.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig henni lýkur að lokum um eða eftir miðnættið.

mbl.is Þórunn komin í 1. sæti Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján sigrar - Akureyringar ná ekki settu marki

Kristján L. MöllerÚrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Kristján L. Möller, leiðtogi flokksins í kjördæminu, sigraði í prófkjörinu með glæsibrag og hlaut um 70% greiddra atkvæða. Kristján hefur setið á þingi allt frá árinu 1999, fyrst leiddi hann lista flokksins í gamla Norðurlandskjördæmi vestra en hefur leitt listann í Norðausturkjördæmi frá árinu 2003. Sigur Kristjáns kemur fáum að óvörum sem fylgjast með pólitíkinni hér á svæðinu.

Einar Már Sigurðarson, alþingismaður frá Neskaupstað, vinnur mikinn varnarsigur með því að halda sínu öðru sæti. Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hér á Akureyri, náði ekki að sigra Einar Má í slagnum um annað sætið og vekur það nokkra athygli, enda lögðu Akureyringar mikið kapp á það að eiga fulltrúa sinn í öruggu sæti. Einar Már þótti vera undir í slagnum lengi vel og var talað um að hann myndi jafnvel ekki komast í efstu þrjú sætin. Niðurstaðan er því gleðiefni fyrir hann og væntanlega má hann vel við una.

Lára heldur sínu þriðja sæti en nær ekki settu marki. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir hana í þeirri stöðu sem uppi er. Það er merkilegt að kona verður ekki í öruggu sæti á lista flokksins og enginn Akureyringur um leið. Þingmennirnir halda velli og verða prófkjörsúrslitin að teljast mikill sigur þeirra, enda að þeim sótt úr mörgum áttum. Benedikt Sigurðarson fær nokkurn skell og er langt frá því að ná settu marki. Hann stefndi á fyrsta sætið af krafti gegn Kristjáni og var langt frá því að ná því og fór frekar illa út úr þessu. Úrslitin verða því ekki túlkuð öðruvísi en mikil vonbrigði fyrir hann að öllu leyti. Það verður fróðlegt að heyra skoðanir Bensa á úrslitunum í kosningunni, en hann hefur ekki enn birst í viðtali.

Næst á eftir þeim þrem efstu koma Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson á Húsavík. Ragnheiður virðist fá mjög góða kosningu, en hún kom í slaginn nokkuð óþekkt í heildina séð. Örlygur Hnefill sem varð þriðji í prófkjörinu 2002 en færður niður fyrir Láru til að efla hlut kvenna á listanum fékk nokkurn skell og varð fimmti, því mun neðar en í síðasta prófkjöri. Jónína Rós frá Egilsstöðum fær hina fínustu kosningu. Neðstir eru svo ungliðarnir; Svenni bloggvinur og Kristján Ægir. Það veikti stöðu ungliðanna að þeir væru tveir báðir að stefna á sama sæti, en svo fór sem fór. Enginn ungliði var reyndar á lista flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum.

Heilt yfir séð verður ekki annað sagt en að þessi prófkjörsúrslit séu allnokkuð áfall fyrir Akureyringana í framboði. Þau Lára og Bensi sóttu að þingmönnunum af krafti en urðu undir í þeim slag. Það er niðurstaða mála. Þetta hlýtur að vera mikið áfall fyrir Samfylkingarmenn á Akureyri, sem hafa langsterkasta stöðu á sveitarstjórnarstiginu innan flokksins á svæðinu einmitt hér á Akureyri, verandi með þrjá bæjarfulltrúa og tilvonandi bæjarstjóra eftir tæp þrjú ár, Hermann Jón Tómasson. En svona fór þetta fyrir þeim. Þessi tíðindi eru ansi stór og verða víða rædd hér í bænum væntanlega á næstu dögum.

Þetta færir okkur sjálfstæðismönnum mikil tækifæri í prófkjörinu eftir þrjár vikur og við berjumst nú fyrir því að Akureyringar komist í örugg sæti á okkar lista. Að öllu óbreyttu getum við tryggt að Akureyringur leiði lista og við vinnum að því af krafti. Það virðist vera að hjá okkur sjálfstæðismönnum séu nú einu líkurnar til staðar á því að Akureyringur leiði framboðslista í komandi kosningum í kjördæminu. Við munum væntanlega nota það tækifæri vel hér og vinna fyrir okkar fólk af krafti.


mbl.is Kristján Möller sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján, Einar Már og Lára efst hjá Samfó í NA

Samfylkingin Talning stendur nú yfir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Nú hafa verið talin 500 atkvæði af þeim 1878 (66,3% kjörsókn) sem bárust í póstkosningunni. Skv. fyrstu tölum eru Kristján L. Möller, alþingismaður, Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, og Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, í efstu sætum og virðast hafa hlotið öflugt umboð til forystuverka og virðist Kristján hafa um 70% atkvæða í fyrsta sætið í þessum fyrstu tölum.

Það verður fróðlegt að sjá hver sigrar prófkjörið, en fjögur sóttust eftir því að leiða listann; þau Kristján, Benedikt, Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson, þau tvö síðarnefndu sóttust eftir 1. - 3. sæti en Kristján og Benedikt aðeins eftir leiðtogastólnum. Kristján leiddi Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi í síðustu þingkosningum og í Norðurlandskjördæmi vestra í kosningunum 1999 og hefur setið á þingi alla tíð síðan.

Það verður væntanlega fylgst með því hvernig fer í Norðausturkjördæmi. Flokkurinn hlaut þar tvo þingmenn kjörna í þingkosningunum 2003, en munaði litlu að Lára Stefánsdóttir kæmist inn á þing úr þriðja sætinu. Ef marka má fyrstu tölur stefnir í að óbreytt röð verði í þrem efstu sætum framboðslistans frá síðustu þingkosningum.

Viðbót - kl. 18:40

Þegar 1200 atkvæði hafa verið talin í prófkjörinu er staðan óbreytt á röð þriggja efstu og stefnir í að úrslitin verði með þessum hætti.

Kostuleg skrif á "Orðinu á götunni"

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Það er oft athyglisvert að lesa sum skrifin sem birtast á "Orðinu á götunni" hér á Moggablogginu. Fannst þó merkilegt að sjá þar í gær skrif um framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þar er vikið að þeirri ákvörðun kjörnefndar að bæta einum frambjóðanda við hóp þeirra tíu sem gáfu formlega kost á sér fyrir lok framboðsfrests. Þar kemur fram að fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í kraganum sé líklega varamannssæti á næsta kjörtímabili. Þetta eru nokkuð hlægileg skrif miðað við nýjustu skoðanakannanir.

Það hlýtur að vera skrifað um þetta á forsendum Samfylkingarmanna, en margar sögusagnir ganga um það hverjir skrifi á Orðinu, og ekki eru þær kjaftasögur um að sjálfstæðismenn eigi þar hlut að máli allavega. Það má svo sannarlega telja fimmta sætið á lista sjálfstæðismanna í kraganum, sem verður væntanlega leiddur af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanni flokksins, sem þingsæti og væntanlega hið sjötta líka. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist nefnilega Sjálfstæðisflokkinn með heil sjö þingsæti í kjördæmi og meira en helmingsfylgi, hvorki meira né minna. Sterk staða það heldur betur.

Væntanlega er spáin um sjö þingsæti nokkur bjartsýni en það er hlægilegt að sjá vangaveltur um það að sjálfstæðismenn fái innan við fimm þingsæti í kraganum miðað við allar aðstæður. Það eru enda allar forsendur á því að listi sjálfstæðismanna í kraganum verði sigurstranglegur og öflugur. Það er öflugur hópur frambjóðenda þar og alveg ljóst að flokkurinn stendur gríðarlega vel á svæðinu, með hreina meirihluta í nokkrum sveitarfélögum og sterka stöðu í flestum öðrum. Allar forsendur eru fyrir góðu gengi að vori. Það er því undarlegt að sjá þessa spá, sem ekki á sér hljómgrunn í mánaðarkönnun Gallups allavega.

Frjálslyndir mælast með engan þingmann nú

Guðjón Arnar Kristjánsson Var að fara yfir prósentutölur í kjördæmum í nýjustu skoðanakönnun Gallups. Þar kemur hið merkilega fram að Frjálslyndi flokkurinn fær hvergi kjördæmakjörinn mann og því væri Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, ekki á þingi væru þetta úrslit alþingiskosninga. Frjálslyndir mælast hæstir nú með 6% í Norðvesturkjördæmi en lægstir hér í Norðausturkjördæmi með 2%. Þetta er nokkuð högg fyrir Frjálslynda flokkinn, sem nú á þrjá alþingismenn.

Kosningalögin eru einföld hvað það snertir að fái flokkur ekki kjördæmakjör og fótfestu víða um land fær hann auðvitað ekki jöfnunarsæti. 5% fylgi á landsvísu þarf til að geta fengið jöfnunarsæti. Í síðustu kosningum hlutu Frjálslyndir tvo kjördæmakjörna menn og tvo jöfnunarmenn. Reyndar gekk Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, úr flokknum vorið 2005 og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og efldi því ríkisstjórnina með því.

Það eru mikil tíðindi þegar að formaður stjórnmálaflokks mælist ekki inni á þingi. Það virðist gilda nú bæði um Guðjón Arnar og Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, sem mælist ekki heldur inni í Reykjavík norður eins og ég hef áður vikið að. Þetta verða erfiðar kosningar fyrir báða flokka að óbreyttu. Reyndar er mjög fróðleg greining á stöðu mála nú í greinargóðri spá Ólafs Þ. Harðarsonar á vef RÚV.

Samúel Örn í 2. sæti Framsóknar í Kraganum

Samúel Örn Erlingsson Samúel Örn Erlingsson, varabæjarfulltrúi í Kópavogi og íþróttastjóri Ríkisútvarpsins, vann kosningu um annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, á kjördæmisþingi á Seltjarnarnesi nú laust fyrir hádegið. Samúel Örn vann nokkuð góðan sigur í kosningunni, en tvær umferðir þurfti til að velja á milli hans, Unu Maríu Óskarsdóttur, Gísla Tryggvasonar og Þórarins E. Sveinssonar, semsagt fjögurra Kópavogsbúa. Samúel Örn hlaut þegar 91 atkvæði í fyrstu umferð og því mjög afgerandi forskot á aðra keppinauta um sætið.

Yfirburðir Samúels Arnar koma nokkuð á óvart, enda er hann tiltölulega nýr í stjórnmálum. Hann var nærri því að sigra prófkjör Framsóknarflokksins í Kópavogi snemma á árinu og varð annar. Hann komst þó ekki inn í bæjarstjórn Kópavogs, enda galt flokkurinn afhroð í kosningunum og hlaut aðeins einn mann kjörinn, leiðtogann Ómar Stefánsson, í stað þriggja áður í síðustu kosningunum sem Sigurður Geirdal leiddi flokkinn þar. Það verður nú hlutskipti Samúels Arnar að taka annað sætið, sem Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, sat í áður.

Í fyrstu umferð kjörs í annað sæti á lista flokksins hlaut Samúel Örn eins og fyrr segir 91 atkvæði, Una María 75 atkvæði, Gísli 60 og Þórarinn E. hlaut 11 atkvæði. Í seinni umferð hlaut Samúel Örn 148 en Una María 90 atkvæði. Eftir þessa kosningu tók við kjör í næstu sæti fyrir neðan. Una María Óskarsdóttir varð í þriðja sætinu og Gísli Tryggvason lenti í fjórða sætinu. Það verða því þrír Kópavogsbúar í fjórum efstu sætum flokksins í kjördæminu.

Það er merkilegt að sjá þessi úrslit og greinilegt að þarna eru nokkur tíðindi. Sigur Samúels Arnar eru nokkuð athyglisverð tíðindi allavega. Jöfn kynjaskipting er svo hjá flokksmönnum í þessi fjögur efstu sæti.

mbl.is Samúel Örn í 2. sæti í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spenna hjá Framsókn í kraganum

Siv Friðleifsdóttir Á morgun verða efstu sæti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi ákveðin á tvöföldu kjördæmisþingi. Verður þar kosið milli fjögurra einstaklinga um annað sætið og stefnir því í spennandi kosningu um sætið. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, gefur ein kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans. Siv, sem setið hefur á Alþingi frá árinu 1995, hefur sterka stöðu að því er virðist í kjördæminu og nýtur mikils stuðnings flokksmanna greinilega.

Þrátt fyrir að Siv hefði orðið undir í formannsslag við Jón Sigurðsson og ákveðið í kjölfarið að sækjast ekki áfram eftir ritarastöðunni í flokknum, sem er æðsta embætti innra starfs flokkskjarnans, (hún var ritari 2001-2006) hefur hún sterka stöðu og flestir telja hana hafa styrkst frekar en hitt. Siv leiddi lista flokksins í Reykjaneskjördæmi þegar árið 1995 og unnust tvö þingsæti á listanum þar undir hennar forystu bæði þá og 1999. Í kosningunum 2003 var hún ein kjörin á þing af hálfu flokksins í hinu nýja kragakjördæmi. Hún var umhverfisráðherra 1999-2004 og hefur verið heilbrigðisráðherra síðan í marsmánuði á þessu ári.

Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í viðskiptaráðherratíð hennar 1999-2006, var í öðru sætinu í kosningunum 2003 og munaði litlu að hann kæmist inn á þing. Hann gefur ekki kost á sér nú og helgar sig störfum fyrir Kópavogsbæ. Um annað sætið takast á þau Gísli Tryggvason, Samúel Örn Erlingsson, Una María Óskarsdóttir og Þórarinn E. Sveinsson. Verður fróðlegt að sjá hvert þeirra fái sætið. Samúel Örn og Una María tókust á í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar um leiðtogasætið að Sigurði Geirdal gengnum en urðu undir í þeim slag fyrir Ómari Stefánssyni. Una María var í þriðja sæti flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003.

Gísli Tryggvason varð talsmaður neytenda fyrir rúmu ári og þykir hafa staðið sig með ágætum í því starfi. Hann er sonur Tryggva Gíslasonar, sem var skólameistari Menntaskólans á Akureyri með miklum krafti um árabil, og því bróðursonur Ingvars Gíslasonar, sem var alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra um árabil og um skeið leiðtogi flokksins í kjördæminu og var menntamálaráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens. Þórarinn E. Sveinsson er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins nú hér í Norðausturkjördæmi. Hann hefur nú flutt sig um set og reynir við annað sætið í kraganum nú. Það er erfitt að spá hver muni ná öðru sætinu og munu allavega margir fylgjast með úrslitunum og hver nái settu marki.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í þessu kjöri og jafnframt hvernig raðast í sætin fyrir neðan. Auk fyrrnefndra sem berjast um annað sætið og Sivjar sækjast Gunnleifur Kjartansson og Hlini Melsteð Jóngeirsson, sem báðir eru úr Hafnarfirði um neðri sætin. Eins og staða mála er í nýjustu könnun Gallups er Framsókn ekki með þingsæti í kraganum. Það er því hörð barátta framundan fyrir Framsókn í þessu kjördæmi, sem og mörgum fleiri. Staða flokksins er ekki beysin á landsvísu og hörð barátta, mikill lífróður, framundan fyrir Framsókn.

Prófkjörsskrifstofur opna á Akureyri

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Þorvaldur Ingvarsson, læknir, sem báðir sækjast eftir fyrsta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að vori opnuðu í dag prófkjörsskrifstofur sínar í miðbænum á sama tíma, kl. 17:00. Fór ég við opnun beggja kosningaskrifstofanna og hitti þar gott fólk og ræddi pólitík og stöðu mála við fólk og frambjóðendurna. Það var ánægjulegt og gott spjall

Ég fagna þeim mikla krafti sem Kristján Þór og Þorvaldur leggja í baráttu sína. Þetta eru öflugir menn sem hafa metnað til verkanna og sýna það og sanna með því að opna heimasíður og kosningaskrifstofu. Ég hef ekki farið leynt með það að ég vil að Akureyringar fái öfluga málsvara á þing í komandi kosningum og ég mun styðja Akureyringa til þingmennsku og forystu á framboðslistanum að vori. Við öll hér hljótum að vilja okkar fulltrúa til verka og við vinnum að því að krafti. Við þurfum að koma okkar málum vel á dagskrá. Það er lykilatriði, tel ég allavega.

Þorvaldur Það stefnir í líflegar og spennandi kosningar. Skv. nýjustu könnunum er ljóst að við höfum stöðu til að geta fengið fjóra þingmenn og þar með leiðtogastól kjördæmisins. Það er ekki efi í huga mér að við munum berjast til sigurs í maí og til þess að nýr leiðtogi okkar sem kjörinn verður í prófkjörinu í lok mánaðarins verði fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Kannanir sýna okkur að það er staða mála í dag - við berjumst að því öll sem eitt að það vinnist í maí af miklum krafti. Ég mun því í prófkjörinu eftir þrjár vikur horfa til allra svæða og finna frambjóðendum á þeim svæðum stað á mínum lista. En ég mun styðja Akureyring til forystu á framboðslistanum. Það er einfalt mál í mínum huga og afgerandi alveg.

Á morgun mun kosningaskrifstofa Ólafar Nordal svo opna hér á Akureyri. Hún hefur ráðið Ragnar Sigurðsson, eftirmann minn á formannsstóli Varðar, sem kosningastjóra sinn hér á Akureyri og ég mun líta til þeirra á morgun. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig henni gengur í sínum slag.

Ég fagna því allavega fyrst og fremst að frambjóðendur opna hér skrifstofu og kynni með því sjálft sig og stefnumál sín af krafti fyrir okkur. Það er vel.

Spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni

Samfylkingin Það stefnir í spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni. Um helgina verða kjörnir tveir nýjir kjördæmaleiðtogar hjá flokknum í prófkjörum í Suðvestur- og Suðurkjördæmi, í stað Rannveigar Guðmundsdóttur og Margrétar Frímannsdóttur, sem hætta á þingi í kosningunum að vori, eftir langan stjórnmálaferil. Telja má öruggt að mikil spenna verði í báðum prófkjörum og hefur verið hörð barátta um leiðtogastólana í báðum kjördæmum.

Í Suðurkjördæmi hefur verið hörð barátta á milli Björgvins G. Sigurðssonar, Jóns Gunnarssonar, Lúðvíks Bergvinssonar og Róberts Marshall um leiðtogastól Margrétar Frímannsdóttur, sem hefur leitt lista á Suðurlandinu síðan 1987, en Róbert nefnir reyndar annað sætið líka inn í það á hvað hann stefnir. Er ljóst að ekki munu allir verða sáttir við úrslit helgarinnar, enda er tryggt að ein kona muni komast upp á milli þeirra og virðast flestir reikna með að Ragnheiður Hergeirsdóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Árborg, verði sú kona sem nái að komast ofarlega.

Virðist í fljótu bragði vera mesti hasarinn á milli Björgvins og Lúðvíks, enda er það visst uppgjör sömu hópa og síðast, en Lúðvík gaf kost á sér gegn Margréti Frímannsdóttur í prófkjöri flokksins í Suðrinu í nóvember 2002, en Margrét vann nokkuð nauman sigur, þó að henni væri sótt af krafti. Nú er Lúðvík með aðra stöðu, enda er Róbert Marshall ættaður úr Eyjum og sækir á sömu mið og hann. Það er víst að Björgvin G. Sigurðsson virðist hagnast mest á þessari stöðu. Það yrði mikið áfall fyrir Lúðvík, næði hann ekki að sigra prófkjörið og jafnvel verða illa úti tapi hann leiðtogaslag og falli niður listann. Þetta verður hörkubarátta milli þeirra.

Í Suðvesturkjördæmi takast Árni Páll Árnason, Gunnar Svavarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir um leiðtogastól Rannveigar Guðmundsdóttur. Það er hörkubarátta sem gæti farið á hvern veginn sem er, þó ekki sé óvarlegt að reikna með því að Gunnar stórgræði á því að vera kandidat Hafnfirðinga til forystu, en Samfylkingin hefur eins og flestir vita hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og bærinn er mesta jafnaðarmannavígi kjördæmisins. Árni Páll er úr Kópavoginum og gæti grætt á því og svo er Þórunn með mesta þingreynslu allra frambjóðenda í prófkjörinu, og er orðin efst í kjördæminu utan Rannveigar og ætti sú reynsla að skila henni einhverju.

Um sætin fyrir neðan takast á t.d. Katrín Júlíusdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Axel Axelsson, Jakob Frímann Magnússon, Jens Sigurðsson, Kristín Á. Guðmundsdóttir, Kristján Sveinbjörnsson, Magnús M. Norðdahl, Sandra Franks, Tryggvi Harðarson og Valdimar Leó Friðriksson. Það er ekki beinlínis auðvelt að spá eitthvað í stöðu mála, þó auðvitað sé Katrín með mjög sterka stöðu ofarlega á listann, verandi þingmaður og hafa hlotið góða kosningu í prófkjörinu í nóvember 2002. Það eru margir sem gefa kost á sér í prófkjörinu, alls 19 manns, og ekki munu allir fá það sem þeir vilja. Það verður fróðlegt að sjá röð efstu manna er yfir lýkur.

Þetta verða spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni og sérstaklega fróðlegt að sjá hverjir hljóta leiðtogastólana í þessum kjördæmum og taki við af kjarnakonunum Rannveigu og Margréti. Auk þessa alls munu úrslit liggja fyrir á morgun í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Á morgun munu því línur liggja fyrir í öllum kjördæmum innan Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar, utan Reykjavíkur, en þar fer prófkjör fram laugardaginn 11. nóvember nk. En meira að því síðar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband