Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
31.10.2006 | 11:27
Halldór kjörinn í norræna toppstöðu

Halldór var kjörinn á Alþingi fyrst sumarið 1974, þá 26 ára að aldri. Hann féll í þingkosningunum 1978, en náði kjöri að nýju í desemberkosningunum 1979 og sat á þingi eftir það allt til haustsins 2006. Hann varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Tólf ára formannsferill Halldórs varð bæði öflugur tími og stormasamur fyrir Framsóknarflokkinn.
Halldór sat í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006. Aðeins Bjarni Benediktsson hefur setið lengur í ríkisstjórn en Halldór Ásgrímsson. Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum. Hann var ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995.
Það er gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að reyndur stjórnmálaleiðtogi okkar skuli taka við þessari miklu stöðu, fyrstur allra íslenskra stjórnmálamanna. Óska ég Halldóri Ásgrímssyni til hamingju og óska honum allra heilla á nýjum vettvangi í Kaupmannahöfn.
![]() |
Halldór kjörinn framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 21:56
Augusto Pinochet dæmdur í stofufangelsi

Á þeim tveim áratugum sem hann var leiðtogi herstjórnarinnar og hersins í Chile létu stjórnvöld drepa um 3.000 pólitíska andstæðinga sína, samkvæmt opinberum tölum frá Chile. Sérstaklega var hin svokallaða Kondór-áætlun illræmd en henni var framfylgt í Chile og í fleiri löndum í Suður-Ameríku. Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita/elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum.
Pinochet hefur áður verið formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 manna sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet hefur hingað til tekist að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999.
Frægt varð er Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann hinsvegar niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var allt ótrúlega kómískt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. En væntanlega kemur brátt að því. Tíðindi dagsins eru þó stór og mikil, þeim ber að fagna.
![]() |
Pinochet dæmdur í stofufangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 18:37
Hvalveiðar Íslendinga studdar hjá UNR
Mikið gleðiefni er að Norðurlandaráðsþing æskunnar, Ungdommens Nordiske Råd (UNR), sem stendur þessa dagana í Kaupmannahöfn, hafi í atkvæðagreiðslu lýst yfir stuðningi við hvalveiðar. Ég var áðan að hringja í Pál Heimisson, fulltrúa okkar á fundinum af hálfu SUS, um þessi mál og rabba við hann um þingið. Þetta er mikill sigur fyrir okkur. Palli lagði fram tillöguna á þinginu og hún fékk samþykki fundarmanna.
Á móti kemur að finnskir græningjar lögðu fram tillögu sem gerði ráð fyrir því að banna hvalveiðar og allt að því að fordæma okkar veiðar. Hún var felld en okkar tillaga samþykkt, svo að það er ekki hægt annað en túlka stöðu mála á þinginu en sem afgerandi sigur okkar. Það er mikilvægt að Palli skyldi tala fyrir hvalveiðunum á þinginu og greinilegt að okkar afstaða hitti í mark. Ég tel að þessi atkvæðagreiðsla segi allt sem segja þarf. Sérstaklega finnst mér þetta gott veganesti fyrir okkur hér heima.
Norðurlandaráðsþing æskunnar er haldið á hverju ári í aðdraganda Norðurlandaráðsþings, en það hefst í Kaupmannahöfn á morgun. Á þessum þingum eru lagðar fram ályktanir og staða helstu mála rædd og farið yfir stjórnmálin á Norðurlandasvæðinu. Það er greinilega eitthvað í gangi milli okkar Finna, meira en þetta, enda bítast nú Halldór Ásgrímsson og Jan-Eric Enestam um framkvæmdastjórastöðu í Norrænu ráðherranefndinni. Eins og fyrr segir er nær öruggt að Halldór fær stöðuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2006 | 17:41
Flest stefnir í að Halldór hljóti hnossið

Formlega hefur ekki verið gefin út yfirlýsing um framboð Halldórs af hálfu stjórnvalda, en greinilega er unnið í því á bakvið tjöldin. Hávær orðrómur um tilnefningu Halldórs í embættið hefur verið mjög áberandi síðustu vikuna, og fréttir bárust formlega af þessari stöðu mála í fréttatímum ljósvakamiðla hérlendis á þriðjudag. Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hafa ekki neitað því allavega í fjölmiðlum.
Væntanlega mun verða úr því skorið endanlega á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í vikunni hver muni hljóta framkvæmdastjórastöðuna. Norðmenn styðja Halldór mjög áberandi og greinilegt að Danir og Svíar ljá máls á því að hann hljóti starfið. Það má því telja möguleika hans mjög góða og nær öruggt að hann verði næsti framkvæmdastjóri, fyrstur Íslendinga. Greinilegt er að unnið er nú að sáttum í málinu og menn geti sæst á að Halldór fái starfið.
Möguleikar hans eru auðvitað miklir, bæði er hann fyrrum forsætisráðherra og auk þess reyndur ráðherra eftir tæplega tveggja áratuga setu í ríkisstjórn Íslands. Hann er því öllum þekktur í norrænum stjórnmálum og ekki er mikil andstaða, nema í Finnlandi, við að hann hljóti embættið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 12:39
Áfall fyrir Önnu Kristínu og konur í Samfó

Að sama skapi er ekki hægt að segja annað en að árangur sr. Karls V. Matthíassonar sé glæsilegur. Honum var allt að því bolað burt í uppstillingu í aðdraganda þingkosninganna 2003 og missti þingsæti sitt. Hann fær nokkra uppreisn æru að þessu sinni, kemst væntanlega aftur á þing, en það verður hinsvegar á kostnað þingkonunnar Önnu Kristínar. Það er mjög merkilegt að sjá úrslitin, enda verða þau varla túlkuð öðruvísi en sem ákall um breytingar í kjördæmastarfi flokksins heilt yfir litið.
Anna Kristín hefur ekki verið sýnileg sem þingmaður mikið í fjölmiðlum, en verið dugleg eftir því sem ég hef heyrt. Það er því skiljanlegt að hún sé sár með þessa stöðu og að hún sé nú orðin varaskeifa Guðbjarts Hannessonar og sr. Karls V. Matthíassonar. Það gæti verið að það hafi skaðað hana að vera úr Skagafirði og með litlar tengingar um allt kjördæmið, og þó veit ég það ekki. Allavega eru þessi úrslit vonbrigði fyrir hana en hún getur varla annað en tekið sætið til að tryggja þó hlut kvenna.
Annars verð ég að viðurkenna að ég þekki Guðbjart Hannesson ekki vel sem stjórnmálamann. Hann er víst gamall allaballi úr sveitastjórnarpólitíkinni á Skaganum en að mörgu leyti óskrifað blað, en væntanlega mun hann nú verða meira í fjölmiðlum, enda nú tekinn við sem kjördæmaleiðtogi flokksins af Jóhanni Ársælssyni.
Það verður fróðlegt að sjá svo um næstu helgi hver sigrar í prófkjörum Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Suðurkjördæmi um næstu helgi, en nýir kjördæmaleiðtogar verða ennfremur kjörnir þar.
![]() |
Anna Kristín óttast um stöðu kvenna í kjördæminu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 23:59
Guðbjartur sigrar - Anna Kristín fellur um sæti

Í öðru sætinu varð Karl V. Matthíasson, sem hlaut 552 atkvæði í 1.-2. sætið. Karl ætti því að komast aftur á þing, en hann var þingmaður Vestfirðinga 2001-2003. Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, varð þriðja og með 582 atkvæði í 1.-3. sæti og Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði, 790 atkvæði í 1.-4. sæti. 1668 greiddu atkvæði og voru 69 seðlar auðir og ógildir. Þetta eru merkileg tíðindi og boða nokkra uppstokkun.
Með þessu fellur Anna Kristín um sæti og er í raun komin í varamannsframboð og komin í óvissuna. Mjög merkilegt alltsaman, enda er Anna Kristín þegar farin að tala um tap kvenna í kjördæminu. Það er því ljóst að ekki eiga konur upp á pallborðið í kjördæminu, en Anna Kristín er eina þingkona kjördæmisins.
Auk þess datt Helga Vala Helgadóttir niður er leið á, en hún var fyrst þriðja og svo fjórða áður en hún datt út endanlega úr efstu sætum. Mikla athygli vekur að Sveinn Kristinsson, leiðtogi Samfylkingarinnar á Akranesi, komst aldrei á blað í talningunni og hljóta sárindi hans að vera nokkur er úrslitin liggja fyrir.
Það verður fróðlegt hver umræðan verður að prófkjöri loknu, en það hlýtur að teljast vonlítið fyrir Samfylkinguna að ná þrem inn í NV, miðað við að kjördæmið missir tíunda þingsæti sitt til kragans.
![]() |
Öll atkvæði talin í NV-kjördæmi; Guðbjartur sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2006 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 20:47
Prófkjörsbaráttan í Suðvesturkjördæmi
Bjarni Benediktsson, alþingismaður, opnaði í dag prófkjörsskrifstofu sína í Garðabæ og heimasíðu sína. Ekki virðist mikil barátta blasa þó við Bjarna í prófkjörinu þann 11. nóvember nk. í kraganum. Enginn annar býður sig fram í annað sætið og hann virðist hafa nær óumdeilda stöðu í forystusveit flokksins í kjördæminu. Staða Bjarna hefur styrkst jafnt og þétt allt þetta kjörtímabil. Hann var valinn til setu í fimmta sæti framboðslistans í kraganum í uppstillingu fyrir kosningarnar 2003 og náði þá kjöri á þingi. Hann varð formaður allsherjarnefndar í árslok 2003 þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varð ráðherra.
Bjarni hefur styrkst við hvert málið undir hans verksviði í þinginu. Hann t.d. kom fram af krafti og ábyrgð í fjölmiðlamálinu árið 2004 og stóð sig mjög vel við að tala fyrir því. Rimmur hans við stjórnarandstöðuna á því átakavori og sumri eru eftirminnilegar okkur stjórnmálaáhugamönnum. Það hefur blasað við nær allt kjörtímabilið að Bjarni myndi hækka verulega á listanum í kraganum við þessar kosningar og var jafnvel um tíma talað um að hann myndi gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans er Árni M. Mathiesen tók ákvörðun um að færa sig í annað kjördæmi. Svo fór að hann gaf kost á sér í annað sætið.
Það virðist lítill hasar vera um fyrsta og annað sætið í væntanlegu prófkjöri eftir hálfan mánuð. Meginátakalínurnar virðast vera um þriðja til sjötta sætið, sem gætu allt á góðum degi orðið þingsæti, enda mældist Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi með 49% í síðustu mánaðarkönnun Gallups. Það er mikilvægt að mínu mati að Bjarni Ben fái þar öfluga og góða kosningu, efast ég vart um að svo myndi fara. Bjarni er enda öflugur framtíðarmaður í flokknum sem hefur sannað kraft sinn og mátt - sannað að hann er forystumaður þar.
Í dag opnuðu ennfremur Kópavogsbúarnir Ármann Kr. Ólafsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir heimasíður sína og kosningaskrifstofu. Ármann keppir um þriðja sætið við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, en Sigurrós um hið fjórða við þau Bryndísi Haraldsdóttur, Jón Gunnarsson og Ragnheiði Elínu Árnadóttur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 18:59
Spenna hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Talning stendur nú yfir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Virðist talning hafa hafist seint en er nú komin í fullan gang. Skv. fyrstu tölum eru Guðbjartur Hannesson, skólastjóri á Akranesi, Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona, og Sigurður Pétursson bæjarfulltrúi á Ísafirði, í efstu sætum, en litlu virðist muna.
Það verður fróðlegt að sjá hver sigrar prófkjörið, en fimm sóttust eftir fyrsta sætinu; þau Guðbjartur, Anna, Sigurður, Sveinn Kristinsson og Karl V. Matthíasson. Barist var um lausan leiðtogastól, en Jóhann Ársælsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs að vori, en hann hefur setið á þingi fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna nær samfellt frá árinu 1991.
Það verður væntanlega fylgst með því hvernig fer í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn hlaut aðeins tvo þingmenn kjörna í þingkosningunum 2003, en var lengi vel spáð þar 3-4 þingsætum. Ef marka má fyrstu tölur stefnir í að dreifing verði á efstu sætum, en ekki muni fulltrúar einungis eins svæðis í þessu víðfeðma kjördæmi raða sér í efstu sætin.
Viðbót - kl. 20:55
Þegar að talin hafa verið rúm 1000 atkvæði af rúmum 1700 í þessu prófkjöri nú laust fyrir níu hefur Guðbjartur Hannesson enn forystu og flest stefnir í að hann muni leiða framboðslista flokksins að vori. Sú breyting hefur nú orðið að Karl V. Matthíasson, fyrrum alþingismaður, er kominn upp í annað sætið. Þriðja er Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, og fjórði er Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði.
Í frétt á mbl.is nú fyrir stundu kemur fram að Anna Kristín óttist að útkoman verði slæm fyrir konur í kjördæmastarfi flokksins og staða þeirra versna, þar sem engin kona yrði þar með í öruggu þingsæti í kosningum að vori.
![]() |
Fyrstu tölur úr prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 16:17
Björn fer yfir úrslit prófkjörsins
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur nú ritað ítarlegan pistil á heimasíðu sína um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem lágu fyrir endanlega í nótt. Björn hlaut þriðja sætið í fjórða skiptið í prófkjöri flokksins í borginni, en hann hlaut það sæti strax árið 1990, þegar að hann gaf fyrst kost á sér til þingframboðs. Í pistlinum fer Björn ekki aðeins yfir úrslit prófkjörsins, heldur stöðu mála í sjálfum prófkjörsslagnum og ennfremur þá atburðarás sem leiddi til fundarins sem haldinn var í Valhöll með honum og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rúmri viku.
Víkur hann með merkilegum hætti að álitsgjöfunum Sigurjóni M. Egilssyni og Agli Helgasyni, og telur að Egill hafi talið að eins myndi fara fyrir honum í þessu prófkjöri og Geir Hallgrímssyni í hinu sögufræga krossaprófkjöri í nóvember 1982. Ennfremur er þar fjallað um grein Jóns Baldvins Hannibalssonar í Morgunblaðinu í gær, en hún var greinilegt innlegg í prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í lok pistilsins minnist Björn á að þessi úrslit séu varnarsigur fyrir sig í þeirri stöðu sem uppi hafði verið, t.d. innan Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2006 | 14:24
Athyglisverðar niðurstöður í prófkjörinu
Það er athyglisverð staða sem við blasir eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þegar að ég vaknaði í morgun fór ég yfir skiptingu atkvæða og fannst merkilegt að líta yfir þá stöðu mála. Það er alveg ljóst að Guðlaugur Þór Þórðarson vann afgerandi sigur í baráttunni um annað sætið og hefur þar mikið forskot. Merkilegast fannst mér að sjá hvernig atkvæðin skiptast á tólf efstu. Sérstaklega hvað varðar fyrsta sætið, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fékk næstflest atkvæði í það sæti og meira að segja Grazyna M. Okuniewska hlaut nokkur atkvæði í það sæti. Merkilegast finnst mér að sjá hversu þó mörg atkvæði Geir og Björn fá t.d. í tíunda sætið.
Heilt yfir finnst mér glæsilegt að sjá flotta útkomu nýliða, en Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson fljúga beint inn á þing í sínu fyrsta prófkjöri. Guðfinna er með sérstaklega glæsilega kosningu og er t.d. með vel yfir 8000 atkvæði. Sögufrægt varð er Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, féll í umdeildu krossaprófkjöri í nóvember 1982. Hann varð þá í sjöunda sæti. Það er merkilegt að sjá hvernig staðan hefði orðið ef slíkt fyrirkomulag hefði verið nú, en það er ljóst að nokkrir frambjóðendur sem urðu ofarlega hefðu getað fengið slæma útreið við slíkar aðstæður. En greining atkvæða er athyglisverð, svo ekki sé meira sagt.
Ég skrifaði hér um úrslitin í nótt, þegar að þau lágu fyrir, eins og þau blöstu þá við mér. Það er ánægjulegt að margir hafi lesið það og kommentað á þau skrif. Ég vona að efstu menn geti vel við unað, þrátt fyrir allt. Björn er á sama stað eftir þetta prófkjör og hann var eftir hið síðasta. Hann er í öðru sæti á öðrum framboðslistanum. Það eru viss vonbrigði að hann skuli ekki hafa náð leiðtogastöðu, því neita ég ekki, en vilji flokksmanna liggur fyrir í þessum efnum. Það er greinilegt að mikil smalamennska var viðhöfð í gær og úrslitin endurspegla þá smölun mjög vel. Nú ræðst hvað Björn gerir, ef marka má fyrstu viðbrögð mun hann taka sætið.
Ég vil auðvitað óska Guðlaugi Þór til hamingju. Hann er einn forvera minna sem formaður Varðar hér á Akureyri. Met þessa menn báða mikils, en hef aldrei farið leynt með stuðning minn við Björn. Hann á þann stuðning skilið. Ég tel að fáir hafi lagt mér meira lið í minni pólitík og þeim verkum sem ég hef sinnt á netinu t.d. en Björn. Hann hefur ávallt minn stuðning. Samfagna þó vissulega með Guðlaugi Þór. Það er auðvitað visst gleðiefni að ungum manni sé falin slík forystustörf en Guðlaugur Þór var formaður SUS á þeim árum sem ég gekk í flokkinn og fór að starfa þar að ráði fyrst. Guðlaugur Þór markar sig sem framtíðarmann í Sjálfstæðisflokknum með þessu.
Árangur Guðfinnu S. Bjarnadóttur er glæsilegur og vil ég óska henni til hamingju. Mitt nafn birtist í stuðningsauglýsingu fyrir hana, svo að ég fagna árangri hennar mjög. Hún er framtíðarkona fyrir flokkinn og verður forystukona hans í borginni í þessu prófkjöri. Sigur hennar er mikill og öllum ljóst að nú tekur pólitíkin við hjá henni og endalok orðin á glæsilegum rektorsferli hennar við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur byggt skólann upp með mikilli elju og gríðarlegum metnaði. Öll bindum við vonir að verk hennar verði jafn farsæl og öflug í pólitísku starfi innan Sjálfstæðisflokksins. Mér fannst Guðfinna standa sig vel í prófkjörsslagnum og hún sannaði kraft sinn.
Illugi er öflugur ungur maður sem á góðan árangur skilið. Fagna mjög að Guðfinna og Illugi fari á þing. Svo er gott að Pétur náði að hækka sig, en hann hefur staðið sig vel á þingi og verið mikill talsmaður frelsisins. Svo er Ásta þarna, leitt að hún skyldi falla um sæti, en svona er þetta alltaf í prófkjörum að menn hækka og lækka fram og til baka reglulega. En fyrir mestu er að hún sé í öruggu þingsæti. Gott að Sigríður Andersen nái ofarlega, það er töggur í henni og vonandi fer hún á þing. Þannig að heilt yfir gleðst ég með tíu efstu, þetta er það fólk sem ég spáði að yrði í topp tíu og því ekkert annað en gott um þetta að segja í heild sinni.
Ég veit ekki hverjir eftirmálar prófkjörsins verða, ef nokkur eru. Beðið er viðbragða og greiningu Björns Bjarnasonar á stöðu mála. Það voru viss hættumerki fyrir prófkjörið að næði hann ekki öðru sætinu sem hann batt vonir sínar við gæti hann fallið niður listann, enda eru ruðningsáhrif alltaf til staðar nái menn ekki markmiðum sínum. Það er gleðiefni að hann haldi þó allavega sínu sæti frá síðasta prófkjöri. Það hefði verið afleit niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn hefði Björn fengið verri útkomu en þessa.
En úrslit liggja fyrir. Það verður spennandi að heyra meiri viðbrögð á þessari stöðu mála. Það er alveg ljóst að þessi úrslit boða viss þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn og kynslóðaskipti á vissum stöðum. En ég vona að samstaða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verði sú sama og áður í langri leiðtogatíð Davíðs Oddssonar. Það verður nú að ráðast hvort mönnum ber gæfa til að halda sameinaðir til verka, nú þegar að hans nýtur ekki lengur við.
![]() |
Niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins bindandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)