Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Úrslit liggja fyrir í prófkjörinu í Reykjavík

Farið yfir úrslitin

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lágu fyrir á þriðja tímanum í nótt. Ljóst er að sigurvegarar prófkjörsins voru Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson. Tvö hin síðarnefndu komust bæði beint í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en þau eiga ekki sæti á þingi nú og urðu ofar en fjórir sitjandi þingmenn flokksins. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, munu leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni í kosningunum að vori, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Guðfinna munu skipa annað sæti skv. úrslitunum, en þau urðu í þriðja og fjórða sæti.

Lokatölur í tólf efstu sætin eru svohljóðandi:
Geir H. Haarde: 9.126 atkvæði í 1. sæti
Guðlaugur Þór Þórðarson: 5.071 atkvæði í 1.-2. sæti
Björn Bjarnason: 4.506 atkvæði í 1.-3. sæti
Guðfinna S. Bjarnadóttir: 4.256 atkvæði í 1.-4. sæti
Illugi Gunnarsson: 4.526 atkvæði í 1.-5. sæti
Pétur Blöndal: 5.175 atkvæði í 1.-6. sæti
Ásta Möller: 6.057 atkvæði í 1.-7. sæti
Sigurður Kári Kristjánsson: 6.735 atkvæði í 1.-8. sæti
Birgir Ármannsson: 7.106 atkvæði í 1.-9. sæti
Sigríður Á. Andersen: 6.328 atkvæði í 1.-10. sæti
Dögg Pálsdóttir: 5.991 atkvæði í 1.-10. sæti
Grazyna M. Okuniewska: 3.514 atkvæði í 1.-10. sæti

Listarnir verða því með þessum hætti í kjördæmunum tveimur, en eftir á að draga um röð þess hvort kjördæmið Geir H. Haarde mun leiða og hinsvegar Guðlaugur Þór Þórðarson.

Geir H. Haarde
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Dögg Pálsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Á. Andersen
Grazyna M. Okuniewska

Björn Bjarnason

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fékk glæsilega kosningu í fyrsta sætið, en hann hlaut rúmlega 95% greiddra atkvæða. Hann fær því gott umboð til forystustarfa. Guðlaugur Þór fær ennfremur góða kosningu til forystustarfa í sínu öðru prófkjöri í landsmálastjórnmálum, en hann varð í sjötta sæti í síðasta prófkjöri og kom þá nýr beint inn á Alþingi. Björn Bjarnason, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991 og ráðherra nær samfellt frá 1995, náði ekki að tryggja sér leiðtogastöðu en lenti fjórða prófkjörið í röð í þriðja sætinu, sem enn og aftur verður hans sæti, en hann hefur aldrei orðið í neinu öðru sæti en því í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum.

Guðfinna S. Bjarnadóttir tryggir sér með glæsilegri kosningu titil forystukonu meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík og tekur við því hlutverki af Sólveigu Pétursdóttur, sem setið hefur á þingi í tæp sextán ár, en ákvað að draga sig nú í hlé. Guðfinna, sem verið hefur rektor Háskólans í Reykjavík frá árinu 1998, kom nú beint inn í stjórnmál og fær flott umboð frá flokksmönnum. Illugi Gunnarsson flýgur inn í forystusveit flokksins í borginni ennfremur og fær góða kosningu í fimmta sætið, sem er þriðja sætið, á eftir Geir og Birni. Illugi, sem var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í fimm ár, hefur pólitískan feril sinn með miklum glans.

Ásta og Guðfinna

Lengst af kvöldsins var Pétur H. Blöndal í sjöunda sætinu en tókst undir lok talningarinnar að komast upp í sjötta sætið, og verður þriðji á eftir Guðlaugi Þór og Guðfinnu. Í síðasta prófkjöri skákaði hann Sólveigu Pétursdóttur og varð fjórði, hlaut annað sætið í Reykjavík suður á eftir Geir. Nú lækkar hann nokkuð en tókst að hækka sig á lista með því að hljóta sjötta sætið. Ásta Möller varð sjöunda. Framan af kvöldi varð hún fimmta, ofan við Illuga Gunnarsson en lækkaði svo í sjötta sætið í þriðju tölum. Undir lok talningar höfðu hún og Pétur stólaskipti. Úrslitin eru betri en síðast fyrir Ástu, en hljóta þó vissulega að teljast nokkur vonbrigði.

Sigurður Kári lendir í áttunda sætinu, sæti neðar en síðast. Úrslitin hljóta því að vera viss vonbrigði miðað við það sem þá var, en hann hefur sama sess á nýjum framboðslista og var árið 2003, fjórða sætið á öðrum listanum. Birgir Ármannsson hækkar sig um sæti, hann varð tíundi árið 2003 en varð nú níundi. Hann hlýtur eins og Sigurður Kári að hafa vænst betri árangurs en hann er á nákvæmlega sömu slóðum nú og árið 2003, í fimmta sæti annars framboðslistans og enn í baráttusæti. Sigríður Á. Andersen er tíunda og hlýtur að vera ánægð með þá útkomu, þó hún hafi stefnt hærra. Hún verður í baráttusæti að vori, fimmta á öðrum listanum.

Það vekur athygli að Dögg Pálsdóttir skyldi ekki færa hærra. Hún stefndi á fjórða sætið en varð ellefta, og skipar því hið sjötta á öðrum listanum. Mörgum að óvörum varð pólski hjúkrunarfræðingurinn Grazyna M. Okuniewska í tólfta sæti og er því komin í baráttusætin, mörgum að óvörum. Fáir áttu von á svo glæsilegum árangri hjá henni, en henni er óskað innilega til hamingju með árangurinn. Hún auglýsti lítið sem ekkert, hafði einfalda blogspot-kosningavefsíðu og eyddi litlum peningum í baráttuna. Árangur hennar er því óvenjuglæsilegur og gott að hún skuli vera svo ofarlega sem raun ber vitni. Heilt yfir eru þetta sterkir listar.

Geir og Björn

Úrslitin eru merkileg. Ég nefndi tíu aðila á vefnum á föstudagskvöldið, sem þá er ég myndi kjósa. Þeir urðu í tíu efstu sætunum, svo ég get vart annað en verið sáttur við val flokksmanna, þó ekki hefði ég númerað þá með þessum hætti. Það er svo aftur á móti annað mál. Nú tekur við að greina úrslitin. Eins og fyrr sagði eru Guðlaugur Þór, Guðfinna og Illugi sigurvegarar. Beðið er nú viðbragða Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sem náði ekki sínu markmiði að fá umboð til leiðtogastarfa, en heldur þess í stað sinni stöðu á öðrum framboðslistanum. Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð hans og annarra áhrifamanna með morgni.

Heilt yfir vona ég að þetta prófkjör hafi styrkt Sjálfstæðisflokkinn. Prófkjörið tókst vel og margir tóku þátt, þó mun færri en í prófkjörinu í nóvember í fyrra vegna borgarstjórnarkosninganna. Það eru viss vonbrigði. En vonandi boðar þetta prófkjör sterka framboðslista sem tryggja Sjálfstæðisflokknum góð úrslit að vori, þar sem fleiri þingsæti nást en vorið 2003, þegar að flokkurinn hlaut 9 þingmenn kjörna í Reykjavík. Nú er stefnan sett væntanlega á 10-11 hið minnsta.


mbl.is Geir H. Haarde í 1. sæti og Guðlaugur Þór í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviptingar í talningunni í Reykjavík

Fylgst með talningu

Innan klukkustundar verður talningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lokið í Valhöll. Telja má öruggt nú að Guðlaugur Þór Þórðarson verði í öðru sæti og muni skv. því leiða annan framboðslista flokksins í borginni að vori. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur verið í þriðja sætinu nær alla talninguna, en mikil óvissa er uppi um hvað hann muni gera í þeirri stöðu. Í síðasta viðtalinu sem Björn veitti í kvöld mátti skynja að fjarri því sé öruggt að hann verði í öðru sætinu á eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á öðrum listanum. Það mun væntanlega ekki ráðast fyrr en á morgun hvernig staða mála verður í þessum efnum endanlega.

Mikil spenna hefur verið í talningunni. Í öðrum tölum breyttist staðan með annað sætið. Síðar komst Illugi Gunnarsson uppfyrir Ástu Möller og í fimmta sætið og nú fyrir stundu komst Pétur H. Blöndal líka upp fyrir Ástu og í sjötta sætið þar með. Guðfinna S. Bjarnadóttir hefur verið í fjórða sætinu alla talninguna og er ekki hægt að segja annað en að útkoma hennar sé stórglæsileg. Pétur vann vissan táknrænan sigur með því að komast uppfyrir Ástu. Að sama skapi hljóta það að teljast mikil vonbrigði fyrir Ástu verði hún í sjöunda sæti, hafandi byrjað kvöldið í fimmta sætinu. Það má allavega segja að staða kvenna sé lítið betri en síðast.

Það má því telja ekki ósennilegt að eftirmæli þessa prófkjörs verði hin sömu og síðast. Það er enda svo að eins og staðan er núna verður aðeins ein kona á hvorum lista í fjórum efstu sætum. Sigríður Á. Andersen, Dögg Pálsdóttir og Grazyna M. Okuniewska eru næstar. Það eru því fimm konur í tólf efstu sætum sem gefin eru upp, en á móti kemur að þrjár þeirra eru í neðsta hluta þeirra marka. Það verður fróðlegt að sjá lokatölur eftir klukkutíma og lokagreiningu þeirra. Ég mun skrifa nánar um endanleg úrslit þegar að þau verða ljós innan klukkutíma væntanlega.

Spennandi lokastundir talningar í Valhöll

Fylgst með talningu

Mikil spenna er nú í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, þar sem líður nú að lokum talningar í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Allt frá kl. 18:30 í kvöld hefur Guðlaugur Þór Þórðarson verið í öðru sæti og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, í hinu þriðja, en í fyrstu tölum var staðan sú að Björn var annar. Staðan hefur rokkast meira en það eftir því sem liðið hefur á kvöldið, en Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, sem var í sjötta sæti, hækkaði sig upp í hið fimmta kl. 19:30 og höfðu hann og Ásta Möller þá sætaskipti. Mjög litlu munar í talningunni um annað, fimmta og tíunda sætið, en Sigríður Á. Andersen og Dögg Pálsdóttir takast á um hið tíunda.

Eins og ég sagði í bloggfærslu minni hér um sjöleytið er mesta spennan um annað sætið. Svo hefur verið allt frá fyrstu tölum fyrir tæpum þrem klukkutímum og verður þar til að yfir lýkur. Ef marka má viðtal Stöðvar 2 við Björn Bjarnason fyrir rúmum klukkutíma er mikil óvissa uppi um hvort að hann taki þriðja sætið, fari svo að hann nái ekki markmiði sínu um annað sætið. Hefur hann eftir það ekki tjáð sig við fjölmiðlamenn og er óvissa uppi í þeim herbúðum. Mikla athygli hefur vakið að Björn fór ekki í Valhöll til að fylgjast með talningu en dvaldi þess í stað að kosningaskrifstofu sinni að Skúlagötu 51.

Það eru nokkrar sviptingar í þessu prófkjöri. Versta skellinn virðist fá Pétur H. Blöndal sem var í öðru sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna áður en fellur nú niður í hið fjórða á sama framboðslista. Sigurður Kári fellur um eitt sæti en er með sömu stöðu á framboðslista og var árið 2002 á meðan að Birgir hækkar sig um sæti.

Sigurvegarar kvöldsins eru án nokkurs vafa þau Illugi og Guðfinna, sem komast alveg ný inn í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hafandi aldrei farið í framboð áður.

Áhugaverðar verða næstu klukkustundir og ekki síður eftirleikurinn er úrslitin verða greind. Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum efstu manna við úrslitum.

mbl.is Uppröðun óbreytt þegar 5.512 atkvæði hafa verið talin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9 í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA

Sjálfstæðisflokkurinn

9 gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið verður laugardaginn 25. nóvember nk. Framboðsfrestur rann út á miðvikudag en kjörnefnd kom saman í dag til að ganga frá öllum hliðum mála.

Þeir sem gefa kost á sér eru:
Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður, Seyðisfirði,
Björn Jónasson, innheimtustjóri, Fjallabyggð,
Kristinn Pétursson, framkvæmdastjóri, Langanesbyggð,
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, Akureyri,
Ólöf Nordal, framkvæmdastjóri, Egilsstöðum,
Sigríður Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri, Fjallabyggð,
Sigurjón Benediktsson, tannlæknir, Húsavík,
Steinþór Þorsteinsson, háskólanemi, Akureyri,
Þorvaldur Ingvarsson, læknir, Akureyri.

Það vekur verulega athygli að ekki skuli nema níu einstaklingar gefa kost á sér í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu stóra kjördæmi. Það vekur miklar spurningar í huga mér að við skulum ekki vera með fjölmennara prófkjör en t.d. Samfylkingin er með og það stefnir t.d. í að fleiri gefi kost á sér hjá vinstri grænum í forvali heldur en hjá okkur.

Þetta er allt mikið umhugsunarefni. Það er t.d. mjög merkilegt að ekki skuli nema tveir Austfirðingar gefa kost á sér, en það er nákvæmlega sama staða og blasti við hjá Samfylkingunni. Þetta er í heild sinni allt mjög merkilegt og margt sem fer í gegnum huga mér við að líta á þessa stöðu mála sem nú kemur í ljós.

Það er greinilegt að margir leggja ekki í að halda til prófkjörs. Þar ræður margt eflaust. Ég fyrir mitt leyti ákvað að gefa ekki kost á mér af mjög mörgum ástæðum. Það er ljóst að prófkjör af þessu tagi er dýrt með þeim formerkjum sem eru í prófkjörsreglum okkar og svo er við ramman reip að draga fyrir nýliða. Þetta telst enda nokkur hákarlaslagur.

En þetta er staða mála. Hún er mjög umhugsunarverð fyrir einstakling eins og mig allavega, sem hef lengi starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu kjördæmi.

Stefnir í spennandi talningu í prófkjörinu

Sjálfstæðisflokkurinn

Það stefnir í spennandi kvöld í Valhöll þar sem talning fer nú fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Í fyrstu tölum kl. 18:00 var Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, í öðru sætinu en í öðrum tölum kl. 18:30 hafði Guðlaugur Þór Þórðarson færst upp í annað sætið og Björn fallið niður í það þriðja. Meðal helstu sigurvegara prófkjörsins eru greinilega Guðfinna S. Bjarnadóttir og Ásta Möller, sem eru eftir fyrstu og aðrar tölur í fjórða og fimmta sætinu. Í sjötta sætinu er Illugi Gunnarsson og í sætunum fyrir neðan eru Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Sigríður Ásthildur Andersen.

Það er greinilegt að Guðfinna er stærsti sigurvegarinn að þessu sinni. Hún fær mjög góða kosningu í forystusveitina og sama gildir um Ástu, sem hækkar sig um fjögur sæti frá prófkjörinu árið 2002. Pétur Blöndal fellur um þrjú sæti og Sigurður Kári um eitt sæti. Birgir hækkar sig hinsvegar um eitt sæti frá síðasta prófkjöri. Mikla athygli vekur að Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur, er í ellefta sætinu, en hún sóttist eftir fjórða sætinu. Svo er merkilegt að Grazyna M. Okuniewska er í tólfta sætinu. Þetta eru mjög sterkir listar og greinilegt að úr prófkjörinu kemur sigurstranglegur hópur fólks.

Átökin verða greinilega um annað sætið og verður spennandi að fylgjast með talningunni fram á kvöldið, en úrslit munu væntanlega að fullu ljós fyrir miðnættið.

Greinaskrif um hlerunarmálin

Hlerunarmál

Enn er fátt meira talað um en hlerunarmálin. Í dag birtast Morgunblaðsgreinar um þau mál eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, og Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing. Vekur sérstaka athygli að lesa grein Jóns Baldvins, sem birtist á síðari kjördegi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er greinilega ráðist að Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, með frekar lágkúrulegum hætti. Tímasetningin telst vart tilviljun fyrir okkur sem fylgjumst með stjórnmálum. Þetta kemur sem eðlilegt framhald af vandræðalegri afneitun vinstrimanna við ummælum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á fundi í Valhöll um síðustu helgi.

Björn fer yfir þessi mál nokkuð vel í pistli á heimasíðu sinni í dag. Þar kemur vel fram skoðun hans á greinaskrifum Jóns Baldvins. Augljóslega eru þau sett fram til að reyna að veikja Björn á þessum degi og allt tal Jóns Baldvins í Silfri Egils um daginn að vinstrimenn hefðu ekki ráðist að Birni verður sem hjóm eitt við þessa merkilegu Moggagrein. Birni gefst skiljanlega ekki færi til að svara þessum greinaskrifum á sama vettvangi fyrr en eftir helgina en hann allavega fer yfir málið í fyrrnefndum pistli á vefnum. Mér finnst skrif og taktar Jóns Baldvins í öllu þessu máli mjög kostulegir, það verður ekki annað sagt svosem. Undarlegar tiktúrur.

Enn fróðlegra er að lesa grein Guðna Th. í Mogganum í dag. Þar fer hann yfir málið með hóflegri og fræðilegri hætti, eins og hans er von og vísa. Þar eru ekki máttlausar upphrópanir mannsins í eyðimörkinni, heldur eðlilegar hugleiðingar manns sem fræðilega skrifar af vandvirkum hætti. Þar kemur margt fróðlegt líka fram. Sérstaklega fannst mér athyglisvert að sjá mat hans á gögnum sem eigi að gefa til kynna að Ólafi Jóhannessyni, forsætis- og dómsmálaráðherra árin 1971-74, hafi verið kunnugt um flesta þætti í starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar. 

Fátt hefur verið meira rætt seinustu vikurnar en hvaða ráðherra vissi hvað á þessum árum. Mikið hefur verið rætt um hvað dómsmálaráðherrar sögunnar vissu. Það eru mikil tíðindi að Ólafur, sem var formaður Framsóknarflokksins 1968-1979, hafi vitað af þessari öryggisþjónustu, en eins og kunnugt er var hún sett á fót af Hermanni Jónassyni árið 1939. Það er merkilegt að heyra talið um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins sé litið til nafna þessara tveggja manna, sérstaklega Hermanns sem kom henni á fót.

En umræðan heldur áfram og fróðlegt að lesa þessar tvær greinar, sem eru verulega ólíkar að öllu leyti, um hlerunarmálin yfir kaffibollanum á þessum laugardegi.

Spenna hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Samfylkingin Norðvestur

Prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fer fram nú um helgina og má vænta úrslita annað kvöld. Það hefur stefnt í spennandi prófkjör þar eftir að Jóhann Ársælsson, leiðtogi flokksins í kjördæminu, tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér að nýju. Það er reyndar mjög opin staða fyrir Samfylkinguna þarna, enda á flokkurinn aðeins einn þingmann að auki Jóhanns; Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Samfylkingin varð fyrir verulegu áfalli þar í kosningunum 2003 með þeim úrslitum, enda lengi verið spáð 3-4 þingsætum. Auk þess varð vandræðalegt fyrir flokkinn er Gísli S. Einarsson, fyrrum alþingismaður, sagði skilið við flokkinn á þessu ári.

Fimm sækjast eftir því að leiða flokkinn í kjördæminu og taka við af Jóhanni Ársælssyni. Þar fer auðvitað fremst í flokki þingmaðurinn Anna Kristín og auk hennar þeir Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði, Guðbjartur Hannesson, skólastjóri á Akranesi, Sveinn Kristinsson, bæjarfulltrúi á Akranesi og sr. Karl V. Matthíasson. Það vekur athygli að presturinn Karl stígi aftur inn í stjórnmálin. Hann tók sæti Sighvats Björgvinssonar á Alþingi er Sighvatur varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árið 2001. Honum bauðst að skipa fjórða sæti framboðslistans árið 2003 í uppstillingu en afþakkaði það og hætti í pólitík.

Sérstaklega verður spennandi að sjá hvernig Sveini gengur, en hann var lengi valdamikill stjórnmálamaður á Akranesi, en missti völdin eftir kosningarnar í vor. Það varð gríðarlegt áfall fyrir hann að Gísli, félagi hans, skyldi yfirgefa flokkinn og verða bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Svo er staða Guðbjarts væntanlega sterk og svo verður fróðlegt að sjá stöðu nýliðans Sigurðar, sem er af kunnum verkalýðsættum á Ísafirði og leiddi Í-lista vinstrimanna í kosningum í vor, en náði ekki tilsettum árangri. Öll hafa þau sterka stöðu á sinn hvern hátt og fróðlegt að sjá hver verður hlutskarpastur og leiðir flokkinn á þessum slóðum að vori.

Ekki er síðri baráttan um næstu sætin, en um 2. - 3. sætið berjast þær Bryndís Friðgeirsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi á Ísafirði og Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona og laganemi, sem er dóttir leikarahjónanna Helga Skúlasonar og Helgu Bachmann, en hún er eiginkona Gríms Atlasonar, bæjarstjórans í Bolungarvík, og systir Skúla Helgasonar, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Auk þeirra eru í kjöri Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor á Hvanneyri, Benedikt Bjarnason, nemi við Háskólann á Bifröst, Einar Gunnarsson, kennari og Björn Guðmundsson, smiður.

Eftir því sem mér skilst er hvergi nærri sjálfgefið að Anna Kristín fái leiðtogastöðuna, þó þingmaður sé, enda hefur hún þótt gríðarlega litlaus og lítt áberandi á þingi. Fjöldi nýrra frambjóðenda til forystu staðfestir vel þá staðreynd að hún hafi ekki afgerandi stöðu nema þá á heimaslóðum í Skagafirði, en hún er greinilega þeirra kandidat til forystunnar. En já, það eru fimm í leiðtogakjöri - af því leiðir að ekkert er öruggt í þessum efnum og mikil spenna framundan í dag og á morgun, fram að fyrstu tölum.

Það er altént ljóst að beðið verður eftir fyrstu tölum með mikilli eftirvæntingu. Það verður fróðlegt að sjá hverjum Samfylkingarfólk í kjördæminu felur leiðtogastólinn við brotthvarf Jóhanns Ársælssonar úr stjórnmálum.

mbl.is Prófkjör Samfylkingar í NV-kjördæmi hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörið í Reykjavík - hinir tíu réttu

Sjálfstæðisflokkurinn

Prófkjörsslagurinn í Reykjavík er liðinn. Ég hef svolítið hugleitt síðustu daga hvort ég ætti að gefa upp þann lista sem ég myndi kjósa væri ég með lögheimili í Reykjavík. Eftir nokkra umhugsun hef ég ákveðið að segja hverja ég myndi kjósa væri ég þar staddur. Suma hef ég lýst yfir stuðningi við hér á vefnum og sumir frambjóðendur hafa óskað eftir nafni mínu í auglýsingar og það hefur verið auðsótt af minni hálfu, enda á ég marga góða vini í flokksstarfinu fyrir sunnan, vini sem ég hef viljað styðja opinberlega með ýmsum hætti. Það er fólk sem á stuðning skilið af minni hálfu.

Sjálfur hef ég skoðanir á því hverja ég myndi styðja, enda alla tíð verið vanur að hafa skoðanir á málunum. Ég lít enda svo á að þessi vefur minn sé lifandi vettvangur skoðana einstaklings sem hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og ekki síður að stúdera málin, bæði stjórnmál og önnur þjóðmál. En já, ég birti listann hér með og vísa á vefi þessara frambjóðenda í leiðinni, þeirra sem yfir höfuð hafa vefsíðu á netinu. Flestir frambjóðendur hafa notað netið af krafti í baráttunni og eiga auðvitað hrós skilið fyrir að hafa notað netið með líflegum hætti.

Ég skal taka það þó skýrt fram að ég myndi styðja Björn Bjarnason í annað sætið væri ég að kjósa fyrir sunnan. Ekki hefur annað verið talað um en að sumir geti ekki sagt hvern þeir styðji í annað sætið. Ég held annars að allir sem þekkja mig viti vel að ég met Björn mikils og hann á stuðning skilið frá mér allavega. En já, hér er listinn yfir þessa tíu, hann er í stafrófsröð eins og flestir sjá væntanlega.

Ásta Möller
Geir H. Haarde

Góð kjörsókn í prófkjöri í Reykjavík

Valhöll

Hátt í þrjú þúsund manns greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á fyrri kjördegi. Kosning fór aðeins fram í Valhöll í dag, en á morgun verður kosið á sjö stöðum í átta kjördeildum. Þetta er þó mun minni kjörsókn en var á fyrri kjördegi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar, sem haldið var dagana 4. og 5. nóvember 2005. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kjörsókn gengur á morgun, en væntanlega munu fleiri kjósa þá, rétt eins og bæði í prófkjörinu vegna þingkosninganna í nóvember 2002 og fyrrnefnds prófkjörs. Prófkjör flokksins í nóvember í fyrra er fjölmennasta prófkjör sem haldið hefur verið hérlendis.

Nokkur spenna verður væntanlega í Valhöll kl. 18:00 annaðkvöld þegar að Þórunn Guðmundsdóttir, lögfræðingur og formaður kjörnefndar, mun lesa fyrstu tölur í prófkjörinu. Eftir það verða tölur lesnar á hálftímafresti þar til að úrslit verða ljós væntanlega um eða eftir 22:00 annaðkvöld. Þetta er mjög spennandi prófkjör, einkum vegna þess að óvissan er mikil. Sjö þingmenn taka þar þátt, en þrír af þeim sem voru í tíu efstu sætum hafa tekið ákvörðun um að hætta í stjórnmálum. Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum fyrir rúmu ári og þau Sólveig Pétursdóttir og Guðmundur Hallvarðsson hafa ákveðið að fara ekki fram í kosningunum að vori og hætta þá þingmennsku.

Alls taka 19 þátt í prófkjörinu og má búast við spennandi talningu á morgun, enda öllum ljóst að nokkrir frambjóðanda hafa verið áberandi í prófkjörsbaráttunni og stefna hátt, þegar í fyrstu atrennu. Það verður því bæði fróðlegt að sjá hvernig þingmönnunum mun ganga og ekki síður nýliðunum. Það má altént fullyrða að þetta verði eitt af mest spennandi prófkjörum hérlendis síðustu árin, enda hefur baráttan verið nokkuð hörð og litrík.

mbl.is 2.734 hafa greitt atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörð leiðtogabarátta að hefjast

ArnbjörgKristján ÞórÞorvaldur Ingvarsson

Prófkjörsslagur sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi er að hefjast þessa dagana af greinilegum krafti. Það er mjög notalegt að standa temmilega utan við mesta hasarinn og geta skrifað af krafti hér frá öllum hliðum um þann hasar og skemmtilegheit sem framundan er í þessu. Flest eigum við von á kraftmiklum slag með hæfilegum hasar og átökum. Búast má við að leiðtogaframbjóðendurnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson þurfi að vinna með miklum krafti fyrir leiðtogastöðunni í kjördæminu og allt verði lagt í sölurnar, enda eftir miklu að sækjast þegar að leiðtogastóll Halldórs Blöndals er annars vegar, forystusæti í flokksstarfinu.

Við blasir að allir frambjóðendurnir þurfi að kynna persónu sína, stefnumál og áherslur sínar vel fyrir kjósendum í prófkjörinu. Ennfremur má búast við verulegri smölun inn í flokkinn. Ekki hefur verið prófkjör í landsmálum hér í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 og í austurhlutanum frá árinu 1999, svo að það verður tekist á af hörku, mikið smalað og barist grimmt um atkvæðin. Væntanlega munu allir leiðtogaframbjóðendurnir opna heimasíður, eða annað getur varla verið í svona harðri baráttu en að þar séu heimasíður um að ræða, þar sem frambjóðendur geta milliliðalaust skrifað til kjósenda og flokksmanna. Það er hin eina sanna miðstöð baráttu á okkar tímum.

Það blasir við að flestir prófkjörsframbjóðendur stefna að því að opna kosningaskrifstofu. Þegar hafa Kristján Þór og Þorvaldur lagt drögin að opnun á skrifstofum og heyrst hefur að Ólöf Nordal, prófkjörsframbjóðandi frá Fljótsdalshéraði, hafi fest sér pláss á góðum stað í miðbænum. Greinilegt er að Ólöf kemur fram í baráttuna af krafti, ákveðin og einbeitt, stefnir hiklaust að öruggu þingsæti. Mikið er rætt um það hvort að Austfirðingar séu samstíga um stuðning við Arnbjörgu, sem verið hefur þingmaður þeirra frá árinu 1995. Af framgöngu og ákveðni Ólafar að dæma virðist hún ekki mikið hugsa um hag Arnbjargar heldur vinnur af krafti á eigin vegum við að tryggja sig í sessi.

Kristján Þór hefur fest sér pláss á mjög sterkum stað í bænum þar sem stórt verslunarhúsnæði var áður til húsa og er kominn á fullt í hönnunar- og markaðsvinnu framboðs síns. Sama gildir um Þorvald sem stefnir á opnun heimasíðu og kosningaskrifstofu á allra næstu dögum. Ekki veit ég um stöðu Arnbjargar, en væntanlega hlýtur hún að stefna á að opna einhverja kosningamiðstöð og opna heimasíðu. Það virðist vera að flestir frambjóðendur ætli í slaginn af mikilli alvöru, enda eftir miklu að sækjast. Það blasir enda við að fólk fer vart í svona slag nema að eyða í það miklum peningum og leggja alla sína vinnu og kraft sinn til verksins. Þetta er mikil vinna.

Það stefnir í spennandi átök hér á næstu vikum. Á morgun ræðst endanlega hverjir eru í kjöri, þegar að kjörnefnd hittist til að ganga frá öllum hliðum mála. Jafnframt ræðst hvort frambjóðendum verði bætt í hópinn eður ei. Við sjáum allavega við Akureyringar hér að okkar frambjóðendur hér leggja mikla peninga og kraft í verkefnið og stefna hátt, enda ekki óeðlilegt að við viljum okkar fulltrúa á þing og til áhrifa. Það er algjörlega ótækt ástand að enginn Akureyringur sé á þingi og mikilvægt að tryggja að það breytist með þessu prófkjöri.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband