Færsluflokkur: Dægurmál

Eldur í Myndlistarskólanum á Akureyri

Myndlistarskólinn á Akureyri Mikil mildi var að ekki fór verr þegar kviknaði í Myndlistarskólanum á Akureyri í nótt. Eldur hafði þar kraumað um stund og hefði þetta getað orðið mun meira og verra. Alltaf er þó áfall þegar slíkt gerist en vonandi mun ekki taka langan tíma að koma öllu í samt horf og var fyrir þennan eldsvoða.

Vinur minn, Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistarskólans, hefur unnið gott verk þar og staðið sig vel við að byggja upp vandaða og góða kennslu í sínum fræðum. Þetta er skóli sem nýtur mikillar virðingar og hefur t.d. nýlega unnið til verðlauna á erlendum vettvangi, svo eftir var tekið. Mikilvægt er að hlúa vel að því starfi.

En þarna fór vel miðað við allar aðstæður. Vonandi mun uppbyggingin ganga vel eftir þennan eldsvoða. Færi Helga og hans fólki bestu kveðjur, með von um að vel gangi á næstu mánuðum.

mbl.is Bruni í Myndlistarskólanum á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það nú sumar....

Var að koma úr fimm kílómetra gönguferð. Seint verður sagt að hér sé sumarlegt og var hryssingslegt veðrið á göngunni, hvasst og smárigning. Til fjalla snjóar. Þegar litið er á veðurspána er norðanátt í kortunum fram að lokum næstu viku, ekkert annað í augsýn fyrir okkur hér nyrðra. Ef fram heldur sem horfir verður þetta sumar norðanáttanna.

Segi bara eins og Ríó Tríó forðum í góðu lagi: Er það nú sumar....

mbl.is Varað við snjókomu og hálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Urriði verður minkabani í Ljósavatni

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt og spennandi. Hélt fyrst þegar ég heyrði af því að urriði hefði étið mink við Ljósavatn að það væri einhver gamansaga. Svo reyndist ekki vera - eðlilega er þetta saga sem vekur athygli og áhuga fólks. Enda hefur fólk hingað til ekki séð urriða beinlínis fyrir sér sem minkabana, önnur dýr eigi meiri og betri möguleika í þá skepnu.

Margar eru þær veiðisögurnar sem vekja athygli og sumir þeir sem veiða hreykja sér af veiðinni einum of, sumir sýna stærð laxanna með handabendingum og lengja þá örlítið meira en eðlilegt telst. Alltaf gaman af skemmtilegum veiðisögum. Held þó að þessi slái flestar aðrar út. Ekki aðeins er hún sönn, heldur ótrúlega sönn.

mbl.is Urriði át mink
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir fossar setja mark sitt á Austurá

Ólafur Elíasson og fossinn Var að horfa á vígsluathöfn Ólafsfossanna í New York. Hönnunin á fossunum er stórbrotin og setja þeir flottan svip á Austurá í borg háhýsanna og er enn ein rósin í hnappagat Ólafs Elíassonar sem listamanns á alþjóðavettvangi. Flott hugmynd og skemmtilega útfærð - fyrirmyndin er Skógarfoss, hinn fallegi foss á Suðurlandi.

Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York, hélt flotta ræðu til heiðurs Ólafi þegar fossarnir voru vígðir og talaði þar mikið um hinar dönsku og íslensku rætur listamannsins. Hann komst mjög vel að orði. Þetta er metnaðarfullt og flott verk og er kjörið til að vekja athygli og um þetta er fjallað í öllum fjölmiðlum vestanhafs í kvöld. Slær í gegn.

Alltaf gaman að sjá þegar Íslendingum gengur vel á erlendum vettvangi. Ólafur er að gera það gott og ánægjulegt að sjá hversu mikils metin list hans er. Hönnun hans á glerhjúpnum á Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Reykjavík er stórglæsileg og verður gaman að sjá hana lifna við er húsið rís.

mbl.is Fossar falla í Austurá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magga Blöndal stýrir hátíðarhöldum um versló

Margrét Blöndal Ég er mjög ánægður með valið á Margréti Blöndal, fjölmiðlakonu, sem yfirmanns hátíðarhaldanna um verslunarmannahelgina hér á Akureyri - tel það gott skref að fá hana til að vinna í þessum málum. Mjög mikilvægt er að hugsa hlutina upp á nýtt og reyna að ljúka hinum langvinnu og leiðinlegu deiluefnum er tengjast hátíðarhöldum um verslunarmannahelgina hér.

Með því að fá nýtt fólk að borðinu, með góð tengsl og nýjar hugmyndir, má reyna að læra af mistökum síðustu ára hvað varðar hátíðarhöld um versló og gera enn betur. Margt gott hefur verið gert í vinnu síðustu ára og enginn vafi leikur á því að Akureyri hefur verið með eina öflugustu og sterkustu hátíðina um þessa helgi síðustu ár og þangað hefur fjöldi fólks komið. Deilt hefur þó verið um umgjörð hátíðarhaldanna af miklum krafti og sitt sýnist hverjum.

Enginn vafi leikur á því að ríflegur meirihluti bæjarbúa vill hátíðarhöld á Akureyri um verslunarmannahelgina. Það sýna kannanir - virða á þann afgerandi vilja bæjarbúa. Það form af hátíðarhöldum og verið hefur síðustu ár er þó fjarri því heilagt og hægt að gera marga og spennandi hluti í þeim efnum. Treysti Möggu Blöndal vel til að taka á því og stýra því af krafti og ábyrgð. Bæjaryfirvöld og þeir sem hafa verið lykilbakhjarlar hátíðarhaldanna reyna nú að finna nýtt upphaf - skapa nýja og vel heppnaða umgjörð að versló á Akureyri - vonandi tekst það vel.

mbl.is Margrét Blöndal stýrir verslunarmannahelginni á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúir virkilega einhver svona peningasvindli?

Eiginlega er það ótrúlegt að vara þurfi fullorðið fólk sérstaklega við boðum um erlenda happdrættisvinninga sem eru ekkert nema svikamylla í gegn, þar sem reynt er að ná peningum af fólki. Það hefur svo mikið heyrst af svona nígeríusvindli í gegnum tíðina að það var varla við öðru að búast en að fólk hefði lært sína lexíu. Enn er þó þörf á að minna fólk á að enginn vinnur í happdrætti sem ekki spilar í því.

Varla líður sá mánuður, stundum enn skemmra jafnvel, að maður fái ekki einhvers konar svona skilaboð um peningasvindl í tölvupósti. Auðvitað hvarflar ekki að manni að taka mark á þessu rugli en vonandi eru aðrir orðnir meðvitaðir um að það er bara verið að hafa það að fífli. Þessi svikamylla með símaskilaboðum er þó nýtt, en vonandi fellur enginn fyrir þessu.

Skilaboðin eru giska einföld; föllum ekki flöt fyrir peningasvindlinu.

mbl.is Varað við SMS skilaboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hvolpaeigandinn sjálfur hundaníðingurinn?

Hundurinn Í Kastljósi í kvöld kom fram að lögregluna gruni að eigandi litla hvolpsins sem fannst grafinn lifandi, nálægt Vogum á Reykjanesi um helgina, hafi verið að verki. Hef svosem heyrt margar sögusagnir í dag um málið eftir síðustu skrif mín hér og fengið fjölda tölvupósta en ekki heyrt þetta beint orðað svona í fréttatímum. Hef svosem ekki heyrt þá alla.

Mikilvægt er að þetta mál verði upplýst að fullu og tekið á því. Sá sem ætlaði að kviksetja hundinn verður að horfast í augu við gjörðir sína og taka út refsingu fyrir það. Annað er eiginlega ekki í stöðunni. Finn vel að mikil reiði er vegna málsins og ólga í þeim sem skrifa um það. Finnst það eðlilegt. Þetta var grimmilegur verknaður, alveg skelfilegur, og ekki undarlegt að fólk skrifi af tilfinningarhita í þeim efnum.

Sé að sumir líkja þessu máli við Lúkasarmálið fyrir ári. Þar var farið af stað með sögusagnir um hverf hunds og ýmislegt sagt í hita leiksins án þess að vita hvað væri rétt eða rangt. Þarna er talað um alvarlegt mál, þar sem átti að grafa hund lifandi. Finnst þetta ekki sambærilegt. Kannski er þetta líkt að því leyti að þarna er deilt um hunda, en lengra nær samanburðurinn ekki.

mbl.is „Allur að koma til“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brynja Ben

Brynja Ben Brynja Ben er látin, langt um aldur fram. Með henni er fallin í valinn einn besti leikstjóri íslenskrar leiklistarsögu, traust og öflug fagmanneskja sem vann sínum bransa vel í áratugi. Hún var ein þeirra sem stýrðu Leikfélagi Akureyrar fyrstu skrefin sem atvinnuleikhúsi og við minnumst hennar hér fyrir góð verk í þágu LA. Saga Leikfélags Akureyrar er mjög merkileg og hlutur Brynju í þeirri sögu mikill, en hún setti þar fyrst upp sýningu á sjöunda áratugnum að mig minnir.

Sá margar sýningar sem Brynja leikstýrði. Þeirra eftirminnilegastar eru Uppreisn á Ísafirði eftir Ragnar Arnalds, fyrrum ráðherra, Endurbyggingin, verk Vaclav Havel, fyrrum forseta Tékklands og Tékkóslóvakíu, og svo auðvitað Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur. Þessar sýningar voru allar á síðari hluta níunda áratugarins. Algjörar toppsýningar.

Krafturinn í henni og Erlingi sást mjög vel þegar að þau opnuðu leikhús heima hjá sér á Laufásvegi. Þar sá ég Ormstungu með Benedikt, syni þeirra, og Halldóru Geirharðs. Frábær sýning og leikhúsið þeirra heima var vel heppnað.

Votta Erlingi og fjölskyldu Brynju mína innilegustu samúð.

mbl.is Andlát: Brynja Benediktsdóttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er þegar þrennt er á sumri ísbjarnanna

Einbjörn Jæja, þá bendir flest til þess að þriðji ísbjörninn sé genginn á land á Skaga. Ekki furða að farið sé að nefna þetta sumar ísbjarnanna. Heimamanni dreymdi reyndar að það myndu koma þrír birnir á þessu sumri og það virðist ætla að rætast.

Eiginlega fannst mér nóg um að fá tvo ísbirni og átti ekki von á að þeir yrðu fleiri. Held að flestir hér séu orðnir þreyttir og leiðir á þessari ísbjarnarumræðu.

Guðný Jóhannesdóttir, ritstjóri Feykis, ritaði í dag flotta grein grein í Fréttablaðið um ísbjarnarmál sem ég vil benda á.

mbl.is Hvítabjörn á Skaga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er búið að finna hundaníðinginn?

Hundurinn

Ánægjulegt er að leit lögreglunnar að eiganda hundsins sem urðaður var lifandi hafi borið árangur og viðkomandi fundist, enda er mikilvægt að hundaníðingnum verði refsað og tekið á máli hans. Ekki er hægt að sætta sig við svo hrottalega meðferð á dýri og mikilvægt að opinbera nafn þess sem ætlaði að kviksetja hundinn.

Dýravinum öllum er brugðið vegna þessa máls - reiði alls almennings hefur komið vel fram. Eðlilegt er að fólk sýni reiði sína vegna svo hrottalegrar framkomu við dýr sem getur ekki varið sig. Þetta er ómannúðlegur og grimmilegur níðingsskapur af verstu sort.

Stóra spurningin er svo hvort hundurinn fari aftur til eiganda síns. Er hægt að sætta sig við það?


mbl.is Eigandi hvolpsins fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband