Færsluflokkur: Dægurmál

Nærbuxnavandamál í heimspressunni

Netmogginn er ansi naskur á að finna hina ótrúlegustu smálegu atburði af erlendum vettvangi og gera úr þeim skondna fréttamola til að gera netumræðuna hér enn litríkari. Held að þessi frétt af konunni sem slasaðist við að fara í nærbuxurnar sé ein sú skondnasta lengi. Hvernig er hægt að fara að því að slasast við þá iðju? Ágætt svosem að fræða fólk um það.

Aumingja konan. En kannski er betra að komast í fréttirnar fyrir þetta frekar en ekki neitt. Vonandi verður augað í lagi og auðvitað vona flestir að henni gangi betur að fara í nærbuxurnar framvegis.

mbl.is Nærbuxnaslys kært
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálendisbjörninn reyndist vera hestur

Hestur Jæja, þá er búið að blása af kenninguna um hálendisbjörninn á Hveravöllum. Hálendisbjörninn varð að meinlausu hrossi við nánari athugun, ekki mikil þörf á að hræðast hann. Fannst þessi saga fyrst og fremst fyndin þegar hún var fyrst sett fram í gær, hljómaði fjarstæðukennd og sem hálfgerður farsi eftir allt sem gekk á þegar Einbjörn og Birna á Skaga komu fyrr í þessum mánuði.

Eiginlega er ekki laust við að visst móðursýkisástand hafi ríkt í samfélaginu eftir að sumar bjarnanna hófst og þessar skepnur björguðu fréttagúrkunni fyrir fréttamönnum og okkur fréttafíklunum. Sögurnar um hversu hættulegir birnirnir eru og hvort að hægt sé að veiða þá hafa verið ráðandi í umræðunni og allir virðast vera orðnir ísbjarnasérfræðingar allt í einu. Þeir sem vildu bjarga björnunum voru allt í einu vissir um að þetta væru ekki svo hættulegar skepnur.

En jæja hesturinn á Hveravöllum fær sínar fimmtán mínútur af frægð. Hefði samt bjargað fréttagúrkunni aftur að fá einn ísbjörninn enn í sviðsljósið - fréttamenn gráta eflaust fréttatækifærið sem hálendisbjörn hefði fært þeim svona um hásumarið þegar að Einbjörn og Birna á Skaga skipta ekki lengur svo miklu máli.

mbl.is Kom ísbjörn upp um hestana?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllileg meðferð móður á barninu sínu

Fannst frekar sorglegt að lesa Moggafréttina um bandarísku konuna sem misþyrmdi syni sínum. Auðvitað er það skelfilegt að til séu foreldrar sem ráðist á börnin sín með andlegu og líkamlegu ofbeldi og það á þessum tæknivæddu nútímalegu tímum sem við lifum á - þeim tímum sem við stærum okkur af að allt sé svo fullkomið; tæknin og velsældin aldrei meiri. En það er því miður svo að skemmd epli finnast alltaf í stórum körfum.

Þetta er stingandi veruleiki sem þarna sést. Því miður hefur sést vel í gegnum árin að mikil grimmd er í þessum heimi. Ofbeldi, bæði líkamlegt og sálrænt, er orðið of ráðandi þáttur samfélagsins og það er orðið svo margt ógeðslegt sem kemur upp. Gott dæmi um það hérna heima eru alvarleg mál kennd við Breiðuvík og Byrgið, sem mikið hafa verið í umræðunni. Það allra versta er þó þegar að foreldrar leggja hendur á börnin sín eða hefta frelsi þeirra.

Sálrænt ofbeldi er engu skárra en líkamlegt ofbeldi. Það vill oft leggjast þyngra á sálina. Það er vissulega hægt að bæla fólk með ýmsum hætti og slíkt ofbeldi er og verður jafnt því þegar að fólk er jafnvel barið sundur og saman. En það er alltaf ömurlegt að lesa svona fréttir.... því miður held ég að þessi bandaríska móðir sé ekkert einsdæmi.

mbl.is Móðir misþyrmdi fimm ára syni sínum skelfilega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennari dæmdur fyrir samband með nemanda

Í dag þyngdi Hæstiréttur dóm yfir karlmanni sem átti í kynferðislegu ástarsambandi með nemanda sínum. Hlaut hann 15 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm en í héraðsdómi var dómurinn skilorðsbundinn. Mikla athygli vakti að í héraðsdómi fékk kennarinn vægan dóm á forsendum þess að gagnkvæmt ástarsamband hefði verið til staðar. Mikilvægt er að Hæstiréttur felli þessa umdeildu túlkun úr gildi og þyngi dóminn.

Enda er varla hægt að telja það til refsilækkunar, enda ekki eðlilegt að kennari svæfi hjá nemanda sínum, einkum og sér í lagi þar sem honum er treyst fyrir að sjá um kennslu og um leið eiginlega uppeldi hennar að vissu marki. Mikið var skrifað um þetta mál þegar dómur héraðsdóms lá fyrir á sínum tíma og mikið deilt um hvort hægt sé að telja það gagnkvæmt samband þegar að kennari sefur hjá nemandi sínum.

Enda hlýtur það í sjálfu sér að teljast alvarlegt mál að kennari hefji samband við nemanda sinn, gildir einu hvort gagnkvæm ást sé til staðar eða hrifning. Þegar að svona kemur til sögunnar og nemandinn er ekki sjálfráða hlýtur að teljast eðlilegt að litið sé svo á að kennarinn sé að misnota stöðu sína sem kennari til að hefja samband af því tagi.

Hæstiréttur kemur með afgerandi túlkun á þessu umdeilda atriði og dómurinn er afgerandi hvað það varðar að kennarinn braut alvarlega af sér.


Er hægt að fyrirgefa þeim sem slátruðu Sharon?

Susan Atkins Morðið á leikkonunni Sharon Tate, eiginkonu óskarsverðlaunaleikstjórans Romans Polanski, og fjórum vinum hennar, árið 1969 er með ógeðfelldustu morðum í bandarískri sögu - einkum vegna þess hversu kaldrifjað það var. Engin miskunn var sýnd, en Tate var komin átta og hálfan mánuð á leið með barn sitt og Polanski er hópurinn að baki morðunum slátraði henni.

Enn sitja forsprakkar Manson-hópsins í fangelsi, afplána lífstíðarfangelsi. Nú þegar Susan Atkins, sú sem veitti Sharon banastungurnar þrátt fyrir að Sharon grátbæði hana um miskunn fyrir sig og son sinn, er orðin dauðvona, langt leidd af krabbameini og horfist í augu við endalok sín vill hún fá náðun og lifa sína síðustu mánuði frjáls, eiga sér nokkra mánuði utan fangelsins og deyja frjáls kona, laus við að afplána sína refsingu.

Stóra spurningin á þeim krossgötum er hvort Susan Atkins verðskuldi frelsið, fá tækifæri til að lifa sín síðustu augnablik sem frjáls kona. Ég er ekki á þeirri skoðun og finnst að hún eigi að deyja í þeirri afplánun sem hún kom sjálfri sér í með því að taka þátt í morðunum á sjöunda áratugnum við hlið Charles Manson. Ekki er hægt að gleyma því sem gert var né heldur að strika yfir það.

Vissulega er það áleitin spurning hvort frelsið sé valkostur fyrir þá sem fremja svo alvarlega glæpi, hvort þeir eigi að fá tækifæri til að upplifa lífið án refsingarinnar sem markaði örlög þeirra. Mér finnst ekki hægt að horfa framhjá því sem Manson-hópurinn gerði á sínum tíma, með því að slátra ekki aðeins hinni 26 ára gömlu leikkonu, Sharon Tate, heldur öðru fólki á þeim tíma.

Morðið á Tate hefur að ég tel ekki fallið í gleymskunnar dá. Hún var að því komin að eiga barnið sitt er henni var slátrað og hún var gift einum frambærilegasta leikstjóra sinnar kynslóðar og var sjálf mjög þekkt leikkona. Allt þetta mál er skelfilegt og í þeim efnum er ekki hægt að gleyma og það til þess eins að upphefja manneskju sem er sjálf komin að fótum fram og vill fyrirgefningu.

Susan gekk reyndar það langt þegar að hún slátraði Sharon að hún skrifaði Pig utan á hurðina á húsi Polanski-hjónanna með blóði úr Sharon. Það er vanvirðing við minningu Sharon Tate að velta því fyrir sér lengur en eina sekúndu að náða þessa konu.

mbl.is Vill fá frelsi áður en hún deyr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróf ofbeldisnótt á Akureyri - ráðist á lögguna

LögreglanJæja, þetta var heldur betur dramatísk nótt hér á Akureyri, umfram allt gróf ofbeldisnótt. Gekk þetta það langt að löggan beitti varnarúða og kylfum, gat ekki annað. Mér fannst löggan standa sig vel miðað við erfiðar aðstæður og vil hrósa henni fyrir að standa vaktina með sóma. Hún tók vel á málum og ofbeldismenn sem fóru yfir strikið voru teknir fyrir.

Þar sem ég var í miðbænum í nótt sá ég ýmislegt og var hissa á því hvað fólk gekk langt gegn lögreglunni. Engin takmörk virtust á því hvað ofbeldið gat orðið brútalt og yfirgengilegt og auðvitað þurfti löggan að verjast. Þegar sótt er að lögreglunni verður hún að nota það sem hún hefur til varnar. Ekkert annað hægt að gera. Sá úr fjarska þessa margumtöluðu skoteldaárás á lögguna. Heyrði fyrst bara hvellina og var mikið að spá í hvað þetta var og sá svo þennan atburð er nær kom.

Finnst eiginlega mest áberandi hvað ofbeldið er orðið brútalt og hvað er gengið langt. Engin mörk virðast vera á grimmdinni og heiftinni er út í ofbeldið er komið og virðist fátt heiðarlegt í slíku. Þarna voru tilteknir einstaklingar aðeins komnir til þess að berja á fólki sem var að skemmta sér og taka fæting við lögregluna. Svona götuslagsmál og harkalegar árásir á lögregluna sýna vel hversu ofbeldið er orðið brútalt og erfitt, er því miður aðeins ein hliðin á því þegar sumir geta ekki skemmt sér nema ráðast að öllu í kringum þá.

Man allavega ekki eftir verri nótt hér á Akureyri og hef ég upplifað svosem ýmislegt á djamminu í bænum á stórhelgum og er hátíðir hafa verið hér í bænum. Lögreglan stóð sig mjög vel miðað við aðstæður og á hrós skilið fyrir það hversu vel hún tók á málum.


mbl.is Erfið nótt á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heil á húfi

Gott er að heyra að þessu máli lauk farsællega. Alltaf er dapurlegt að heyra fréttir af því að börn séu týnd og í þessu máli sérstaklega erfitt fyrir aðstandendur að bíða eftir fregnum. Fyrir mestu er að öllu ljúki vel og greinilegt að vel var unnið við að koma stelpunni heim.

mbl.is Litla stúlkan fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskerukvöld fyrir LA - stjarnan Brynhildur

Brynhildur sem Brák Ég afrekaði það í kvöld að horfa á Grímuna frá upphafi til enda í fyrsta skiptið. Auðvitað var dagskráin misjafnlega spennandi en þar voru magnaðir hápunktar sem var þess virði að horfa á. Fyrst og fremst er ég virkilega stoltur af því hvað Leikfélag Akureyrar fékk mörg verðlaun. Fló á skinni vann áhorfendaverðlaunin í símakosningu og auk þess unnu Þröstur Leó og Lay Low verðlaun fyrir Ökutíma, hann fyrir stórleik sinn og hún fyrir sína flottu tónlist.

Magnús Geir hefur auðvitað unnið frábært starf með Leikfélag Akureyrar. Undir hans stjórn reis leikfélagið upp úr miklu niðurlægingartímabili þar sem staða leikfélagsins var komin í vafa, ekki vitað hver framtíðin yrði og allt í rokna mínus. Síðan hefur leikfélagið verið í fremstu röð. Hver sýningin á eftir annarri slegið áhorfendamet, fjöldi hæfileikaríkra ungra leikara hafa séð tækifæri í því að koma norður og vinna með því og síðast en ekki síst hefur fólk komið af öllu landinu hingað norður og notið kvöldstundar í leikhúsinu okkar gamla og góða.

Sá ferski vindblær sem hefur einkennt þessa velgengni er að mínu mati Magnúsi Geir einum að þakka, þó margir hafi lagt hönd á plóg. Magnús Geir var í forystu og bjó til þá stemmningu sem síðan hefur orðið leiðarljós Leikfélags Akureyrar í frábærum sýningum. Nægir þar að nefna; Fullkomið brúðkaup, Óvita, Ökutíma, Svartan kött, Dubbeldusch, Herra Kolbert, Maríubjölluna, Lífið - notkunarreglur, Óliver og Litlu hryllingsbúðina. Eftirsjá er af Magnúsi Geir nú þegar að hann er farinn héðan og heldur til verka í Borgarleikhúsinu. Veit að hann mun standa sig ekki síður vel þar. Öll væntum við mikils af Maríu Sigurðardóttur.

En þetta var ekki aðeins uppskerukvöld Leikfélags Akureyrar. Brynhildur Guðjónsdóttir var skærasta stjarna kvöldsins, vann verðlaun sem leikkona ársins og leikskáld. Að mínu mati er Brynhildur ein skærasta stjarna íslensks leikhúss. Hef fylgst með henni mjög lengi og fundist hún frábær. Hún vakti þó fyrst virkilega athygli mína og eflaust flestra þegar að hún brilleraði í hlutverki Edith Piaf fyrir nokkrum árum. Hún varð hin franska söngstjarna með slíkum glæsibrag að ekki mun gleymast. Hún vann Grímuna fyrir það hlutverk og endurtekur leikinn sem Brák. Hlakka til að sjá sýninguna vonandi fljótlega.

Var notalegt að sjá óperusöngkonuna Þuríði Pálsdóttur fá heiðursverðlaunin. Varð hugsað til hennar ömmu minnar þegar að Þuríður fékk verðlaunin og leikin voru nokkur lög með henni á meðan farið var yfir ævi hennar og hin merku verk sem söngkona og stjarna á leiksviði í óperunum. Amma dýrkaði Þuríði og Guðrúnu Á. Símonar, hinar frábæru óperustjörnur, sem voru á heimsmælikvarða og stóðu sig frábærlega, gerðu allt sitt fagmannlega og meistaralega vel. Er ekki langt síðan að ég las ævisöguna hennar Þuríðar sem er í bókasafninu hennar ömmu. Var það skemmtileg bók um mæta konu.

Þuríði man ég líka eftir sem stjórnmálamanni. Þegar ég sat minn fyrsta landsfund hjá Sjálfstæðisflokknum var Þuríður þar og einbeitt í umræðu um menningarmál, fylgdi sínum málum vel eftir einbeitt og ákveðin. Hún hafði áður verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og staðið sig vel í því og eiginlega var það dapurlegt að hún náði ekki kjöri sem alþingismaður fyrir flokkinn áður fyrr. Mörgum fannst hún víst reyndar orðin of gömul undir lokin þó í sjálfu sér hún væri á besta aldri og leiftraði af orðheppni og krafti.

Í kvöld flutti Þuríður fallega ræðu úr hjólastólnum sínum. Hún er farin heilsu og orðin mjög máttfarin, skugginn af þeirri öflugu konu sem við munum öll eftir frá fyrri tíð, en einbeiting hennar og orðheppni enn til staðar eins og sást af ræðunni. Flott að hún var heiðruð, enda á hún það svo innilega vel skilið fyrir sitt merka æviframlag til íslenskrar sönglistar á 20. öld.

Síðast en ekki síst vil ég hrósa Góa og Jóa fyrir frábæra frammistöðu sem kynnar kvöldsins. Fínir brandarar og magnaðar söngframmistöður. Var alveg sprenghlægilegt að sjá þá félaga endurtaka allt að því ramma fyrir ramma magnað söngatriðið úr Dirty Dancing og leika eftir fræga frammistöðu Swayze og Grey. Magnað móment, en þau voru mörg fleiri ansi góð.

mbl.is Brynhildur leikkona og leikskáld ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk fegurð klikkar aldrei

Alexandra Helga Ívarsdóttir Auðvitað er það móðgun hin mesta við íslenskar konur að fegurð þeirra sé ekki mælanleg í úttekt tímaritsins Travelers. Auðvitað eru fegurstu konur heimsins þær íslensku og ekki boðlegt að litið sé framhjá því eigi mælingin að vera í senn vísindaleg og heiðarleg. Er ekki málið að heimta aðra umfjöllun og þá alvöru, þar sem íslenska fegurðin sem er rómuð og margverðlaunuð fær viðeigandi sess.

En auðvitað látum við svosem enga erlenda besservissera segja okkur hvað sé fallegt og hvað ekki. Vitum það sennilega allra best og erum stolt af okkar. Veit svosem ekki hvaða staðlar og mat á fegurð ræður niðurstöðu þessarar könnunar. Sennilega skiptir það heldur ekki máli þegar að við vitum hvað er best af öllu þegar að meta skal alvöru fegurð.

Getum líka státað af því að íslensk fegurð hefur unnið til verðlauna á alþjóðavettvangi og þeir sem koma hingað verða heillaðir af henni. Ætli við getum ekki verið stoltust af því sama hvaða mat á fegurð ferðatímaritið blessaða hefur.

mbl.is Fegurstu konurnar ekki á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

George Clooney vill ekki hafa brjóstin of stór

George Clooney Leikarinn George Clooney hefur aldrei verið feiminn við að stuða allhressilega. Nú segist hann hafa hætt með kærustunni vegna þess að hún talaði of mikið fyrir hans smekk og lét stækka á sér brjóstin. Flestum er í fersku minni þegar Clooney gerði femínista á alþjóðavísu snarkillar með ummælum sínum um að hann vildi ættleiða unga og forríka stelpu (bætti við að hún þyrfti þó að vera falleg) sem myndi sjá fyrir sér þegar að líða tæki á ferilinn. Femínistar blótuðu honum í sand og ösku.

George Clooney hefur verið hjartaknúsari kvikmyndaheimsins í áraraðir og heillaði fyrst konur heimsins með leik sínum í Bráðavaktinni, ER. Sannkallaður kvennaljómi alla tíð, en hann hefur svarið sig í Clooney-ættina með að láta allt flakka og hika ekki við að stuða, minnir að mörgu leyti á föður sinn Nick og föðursystur, Rosemary Clooney, sem var fræg leik- og söngkona á gullaldarárum Hollywood. Bæði voru ekki beint þekkt fyrir að mjúkmál og fannst fátt skemmtilegra en láta á sér bera og tala án hiks.

Clooney hefur verið farsæll leikari og síðustu árin ennfremur sýnt snilldartakta sem leikstjóri. Hann hlaut óskarinn fyrir rúmum tveim árum fyrir túlkun sína á CIA-leyniþjónustumanninum Bob Barnes í pólitísku fléttumyndinni Syriana. Þar fór hann algjörlega á kostum. Við sömu athöfn var hann tilnefndur fyrir leikstjórn í Good Night, and Good Luck, en tapaði fyrir Ang Lee sem hlaut verðlaunin fyrir Brokeback Mountain. Hefði þó frekar viljað að hann fengi óskarinn fyrir túlkun sína á Michael Clayton í samnefndri stórmynd.

En já, Clooney verður varla eftirlæti femínistanna eftir þetta.... eða hvað. Eða hvað finnst konum annars um þetta mat Clooney á kærustunni?


mbl.is Hætti með Söru vegna brjóstastækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband