Færsluflokkur: Dægurmál
3.6.2008 | 11:45
Ísbjarnarblús í Skagafirði - mun björninn lifa?

Mér skilst að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, ætli að beita sér fyrir því að björninn lifi, verði svæfður og fái að lifa. Spurning hvort að hún vilji að hann verði lokaður inni í safni eða verði fluttur til sinna heimkynna. Þarna mun enn sjást hvort Þórunn nái að heilla umhverfissinnanna eða ergja þá, svipað eins og í Helguvíkurmálinu.
Frægt varð þegar að ísbjörn var drepinn fyrir fimmtán árum, í umhverfisráðherratíð Össurar Skarphéðinssonar, vestur á fjörðum. Umhverfissinnar kenndu honum um að dýrið fékk ekki að lifa en var drepið með mjög umdeildum hætti.
Fróðlegt verður því að sjá hvað verður um þennan björn, hvort hann lifi og lifi því innilokaður á safni, uppstoppaður eður ei.
![]() |
Ísbjörn við Þverárfjall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2008 | 16:52
Hetjan Lorenzo fellur frá - eftirminnileg mynd

Ekki er langt síðan að ég horfði síðast á myndina. Hef alltaf metið hana mikils, bæði er sagan mjög sterk og svo hafa þau Nick Nolte og Susan Sarandon verið meðal minna uppáhaldsleikara alla tíð, enda alveg frábær. Þau gáfu allt í túlkun sína auk þess sem drengurinn er lék Lorenzo, sem ég man því miður ekki hvað heitir, lék af innlifun. Gamli góði meistarinn Sir Peter Ustinov, sem hlaut tvisvar óskarsverðlaun á sjöunda áratugnum, átti þar sinn síðasta stórleik á litríkum ferli í hlutverki prófessorsins.
Myndin um baráttu Lorenzos var ekki skemmtiefni, enda grafalvarlegt mál. Varla er við því að búast að fólk horfi á hana sér til skemmtunar, enda eru sjúkdómamyndir svosem varla valdar til áhorfs ef fólk vill skemmta sér. Hef svosem aldrei haft sérstaklega gaman af sjúkdómamyndum, en séu þær vel leiknar og með alvöru innihald og gott handrit eru þær góðar. Þegar að horft er á slíka mynd þarf þó að gera sér grein fyrir að varla mun myndin gera mann glaðari en þegar hún hófst.
Túlkun Susan Sarandon á mömmunni var tilnefnd til óskarsverðlauna og handritið ennfremur. Susan tapaði óskarnum einum of oft á sínum ferli. Túlkanir hennar í Thelmu & Louise, The Client og þessari mynd voru allar gulls ígildi en hún vann verðlaunin loksins, seint og um síðir fyrir túlkun sína á nunnunni Helen í Dead Man Walking.
Seint verður sagt að Lorenzo´s Oil sé skemmtiefni, en það er falleg og vel gerð mynd með miklu innihaldi um baráttuna við illvígan sjúkdóm, baráttu sem gekk vel framan af, svo vel að það tókst að lifa með sjúkdómnum lengur en nokkrum óraði fyrir, varla foreldrunum einu sinni, þeim sem studdu hann best.
Mæli með myndinni við þá sem hafa ekki séð hana. Hún skilur eftir sinn sess í hjartanu, eins og allar sannar lífsreynslusögur gera.
![]() |
Drengur sem Hollywoodmynd var gerð um er látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2008 | 15:27
Hæðir og lægðir barnastjörnunnar Tatum

Ekki er beint mikill stjörnuljómi yfir áru Tatum nú miðað við í denn sem leikara og stjörnu á vettvangi kvikmyndanna. Hún varð heimsfræg í upphafi áttunda áratugarins fyrir túlkun sína á hinni smellnu Addie í hinni eftirminnilegu stórmynd, Paper Moon, árið 1973, en þar lék hún á móti föður sínum Ryan O´Neal. Tatum fékk óskarsverðlaunin, yngst allra leikara í sögu Óskarsverðlaunanna, fyrir túlkun sína. Faðir hennar, sem var ein af helstu stjörnum kvikmyndanna á þeim tíma, hefur átt undir högg að sækja eins og dóttirin síðustu misserin.
Mér hefur alltaf fundist Pappírstungl ein besta mynd áttunda áratugarins. Er svo innilega heillandi og traust mynd; þar léku þau feðginin mjög útsmogin feðgin sem leggja saman í púkkið til að hafa í sig og á; hann selur biblíur til grandalausra ekkna í sorg og hún leikur með til að dæmið gangi upp. Fyndinn pakki og myndin er skylduáhorf fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur. Tatum var aðeins tíu ára gömul er hún hlaut óskarinn og fékk fjölda tækifæra fyrst á eftir, en hvarf í skugga annarra leikkvenna eftir því sem leið á áttunda áratuginn og komst aldrei úr skugga barnastjörnunnar né heldur Addie, hlutverksins sem færði henni óskarinn.
Margir muna eftir Ryan O´Neal úr hinni rómantísku vasaklútamynd Love Story árið 1970. Þar fór hann á kostum í hlutverki ferilsins sem Oliver Barrett, sem fellur fyrir Jennifer Cavalleri en missir hana með sorglegum hætti langt fyrir aldur fram. Það er svo sannarlega súrsæt ástarsaga. Það er ekki hægt að segja annað en að sú mynd hafi verið toppur leikferla bæði O´Neal og Ali MacGraw. Myndin varð ein sterkasta mynd ársins 1970, þó sennilega sé hún einum of væmin á að horfa nú var það mynd tilfinninga og krafts. Stefið í henni er gulls ígildi - er það í spilaranum.
Nefna mætti fleiri myndir með O´Neal, en í seinni tíð hefur ferill hans verið mjög lágstemmdur. Það síðasta sem ég man eftir með honum er hlutverk Jerrys Fox í Miss Match og Rodney Scavo, pabba Tom, í Desperate Housewifes. Síðast þegar að ég vissi var Tatum að leika í þáttunum Rescue Me, en það er réttnefni fyrir ævi hennar síðustu árin, en þar hefur flest gengið illa, og ég ætla ekki einu sinni að reyna að muna hvenær hún lék í almennilegri mynd síðast.
Tatum verður sennilega alltaf í huga okkar kvikmyndaaðdáenda litla og útsjónarsama en þó saklausa stúlka í Pappírstunglinu. En eins og fleiri barnastjörnur hefur hún átt döpur örlög og átt erfitt með að komast úr barnæskuímynd ferilsins og hefur upplifað dimma daga. Vonandi nær hún að rífa sig upp af sínum botni.
![]() |
Tatum O'Neal staðin að kókaínkaupum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2008 | 17:57
Hefði löggan beitt taser-byssu á strákinn í 10-11?
Hef orðið var við að margir hafa spurt sig að því hvort að lögreglumaðurinn hefði beitt rafbyssu, taser-vopninu margumtalaða, hefði verið búið að leyfa það. Eins og staðan var hefði hann getað stillt sig um að beita vopninu á strákinn? Eðlilega er spurt að þessu. Lögreglan hefur að undanförnu tjáð sig opinskátt um rafbyssur og félag lögreglumanna hefur sérstaklega lýst sig samþykka því að fá vopnið í hendur, rétt eins og vinnufélagar þeirra t.d. í Bandaríkjunum. Hefur verið deilt um Taser-vopnið allt frá því það var tekið upp og hafa mörg dæmi notkunar þess orðið umdeild.
Lögreglumaðurinn var starfstétt sinni til skammar með vinnubrögðunum í verslun 10-11 og varla hefði hann getað höndlað að vera með Taser-byssu við þetta tilefni, enda virtist hann ekki hafa stjórn á sér við þessar aðstæður. Hef reyndar séð í bloggskrifum að þessi lögreglumaður hafi orðið fyrir einelti á yngri árum, verið fórnarlamb þess og orðið sennilega fyrir ýmsu. Þó að deila megi um hvort að þessi lögreglumaður sé öðruvísi en aðrir er eðlilegt að spyrja sig um hvernig atburðarásin hefði orðið í versluninni hefði löggan haft taser-byssu með í för.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.5.2008 | 14:40
Sorglegt slys
Þó að myndbrotið segi vissulega meira en mörg orð um hversu alvarlegt slysið var og hversu aðstæður voru erfiðar er vafamál hvaða tilgangi slík myndbirting þjóni. Hef ég aldrei verið hlynntur myndbirtingum af slysavettvangi og á það jafnt við í þessu máli sem öðrum.
Alltaf er sorglegt að heyra fréttir af svona slysi og mest um vert að senda hlýjar hugsanir til aðstandenda.
![]() |
Drengurinn alvarlega slasaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.5.2008 | 00:53
Snarpir eftirskjálftar - jörð skelfur fyrir sunnan
Myndirnar úr öryggismyndavélunum sem opinberaðar voru í dag eru sérstaklega áhugaverðar, en þar sést best hversu öflugir skjálftarnir tveir um fjögurleytið í gær voru en myndirnar úr verslunum sýna vel stöðu mála. Myndirnar af ísbílnum við bensínstöðina voru líka ansi magnaðar og eiginlega merkileg heimild um hversu mikið gekk á. Enda eðlilegt að fólk sé hreinlega í losti eftir þessa lífsreynslu og hafi hikað við að sofa heima hjá sér í nótt. Þvílík læti, það tekur sinn tíma að jafna sig á því.
Við hér í Eyjafirði þekkjum sannarlega vel þá tilfinningu sem þeir á Suðurlandi finna fyrir. Búum hér á miklu jarðskjálftasvæði og gætum hvenær sem er eiginlega upplifað hið sama og gengur nú yfir fyrir sunnan. Fundið marga skjálfta í seinni tíð þó enginn jafnist á við Dalvíkur- og Kópaskersskjálftana 1934 og 1976, auk skjálftans mikla 1963. Hef mikið stúderað Dalvíkurskjálftann, enda stór partur af sögunni okkar hér og sýnir okkur vel á hverju við getum átt von hér í firðinum.
En já, vonandi fer nú að róast yfir fyrir sunnan. Þetta er komið gott af hristingi.
![]() |
Snarpir eftirskjálftar í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2008 | 00:10
Rótarý-félagar hittast á Akureyri
Í dag sat ég formót Rótarý-hreyfingarinnar í Brekkuskóla hér á Akureyri, þar sem ég er verðandi ritari í mínum klúbbi. Eftir hádegið hófst svo umdæmisþingið og það mun halda áfram aftur á morgun. Þingið er haldið nú hér þar sem fráfarandi umdæmisstjóri Rótarý, Pétur Bjarnason, er í Rótarýklúbbi Akureyrar.
Ekki er nema rúmt ár síðan að ég gekk í Rótarý, hefur bæði verið gagnlegt og gaman að taka þátt í verkum þar. Nú tek ég svo við trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn. Hef verið lengi í félagsstörfum af ýmsu tagi og verður bæði áhugavert og spennandi að taka þátt í þessu. Þetta er mjög góður félagsskapur.
Á fundi fyrir okkur verðandi ritara var farið yfir mörg spennandi verkefni sem verða á næsta starfsári og ekki laust við að við sem sátum fundinn teljum hlutverk okkar veigamest í félagsstarfi klúbbanna, enda mjög mikið, einskonar tengiliður félagsmanna við umdæmið hérlendis og margt sem fylgir því.
Var gaman að hitta góða félaga, einkum verðandi ritara, en meðal þeirra er Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður og fyrrum heilbrigðis- og umhverfisráðherra. Var gaman að ræða um blogg og pólitík við Siv yfir kaffibolla í dag. Segir hún vel frá þingstörfum í dag á vefsíðu sinni og birtir myndir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2008 | 22:11
Beðið eftir tvíburum þokkaparsins í Hollywood

Jolie er eins og flestir vita ekki ættarnafn. Franska er það heillin, enda þýðir nafnið hin fagra - réttnefni er það á Angelinu sem þykir með fögrustu konum kvikmyndaheimsins. Hún hefur enda verið kyntákn alla tíð. Ættarnafn hennar er auðvitað Voight, enda er faðir Angelinu óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight sem var einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar, og hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun á lamaða hermanninum í Coming Home, manninum sem kemur heim lamaður frá Víetnam á sínum tíma. Ekki er langt síðan þau sömdu frið eftir að hafa ekki talað saman í fimm ár. Bæði eru þekkt fyrir svæsin skapgerðarköst.
Ástarsamband Brad Pitt og Angelinu Jolie hefur verið eitt af þeim mest áberandi á síðustu árum og telst eitt það heitasta í kvikmyndabransanum til fjölda ára. Umtalið við upphaf sambands þeirra við gerð kvikmyndarinnar Mr. and Mrs. Smith árið 2005 var enda engu minna en þegar að Elizabeth Taylor og Richard Burton voru að byrja að draga sig saman við gerð kvikmyndarinnar Kleópötru í upphafi sjöunda áratugarins. Og myndirnar af upphafi sambands þeirra minntu marga á hinar heitu myndir sem staðfestu að Burton og Taylor voru að draga sig saman fyrir fjórum áratugum.
Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.
Enn hafa þau þó ekki gift sig og um tíma virtist sambandinu ætla að ljúka á deilum um það. Jolie vildi ekki festa sig og hinn 45 ára ráðsetti fjölskyldufaðir sem var farinn að róa sig eftir litríkan feril vildi skuldbindingu. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, fullyrða má að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) 1996 og skildi við hann 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.
Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.
Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Börnin hafa sameinað þau - þau eiga saman dótturina Shiloh (sem er lifandi eftirmynd föður síns) og auk þess hafa þau ættleitt heilan helling af börnum, minnir að þau séu þrjú eða fjögur sem Jolie hefur ættleitt og Pitt hefur gengið í föðurstað.
Fróðlegt verður að sjá hvort að tvíburarnir sameini stjörnurnar endanlega og þau gifti sig eftir áralangar vangaveltur um tímasetningu þess.
![]() |
Tvennum sögum fer af fæðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2008 | 18:44
Þingmaður tekur flugið með flugdólgi
Var reyndar einu sinni í flugstöð á Bretlandi fyrir nokkrum árum og þar tók ég einmitt eftir einum manni sem lá greinilega mjög vel áfengismareneraður á bekkjarunu í bið eftir flugvél. Hann var þó ekki dauður eins og við segjum en það varð að benda honum nokkuð vel á að vélin væri að fara, þegar að kallið kom. Og hann staulaðist um borð, náði að redda því og fékk sér meira og svaf hinu værasta á leið til Íslands. Hann missti sig reyndar aðeins í vélinni og tók væn köst en bar sig að öðru leyti sig vel. En hann náði athygli allra um borð. Stjarna flugsins.
Varð loks rólegur og settlegur er Keflavík var í sjónmáli. Hef heyrt í mörgum sem hafa upplifað vissa dramatík í fluginu yfir Atlantshafi með þeim sem hafa gengið lengra. Frægust er sennilega sagan sem ég heyrði af einum í fluginu með tannlækninum sem tók vænt kast og allt varð vitlaust út af. Man mjög vel eftir viðtalinu við hann eftir á þar sem hann vildi skaðabætur frá flugfélaginu og alles. Reyndar ekki heyrt af málinu síðan, nema þá í fyndinni ferðasögu, sem viðstöddum fannst reyndar ekki fyndið meðan á henni stóð.
Held af lýsingum að dæma að þessi maður hafi ekki beint fengið blessunarorð frá þingmanninum og klerkinum Karli, en vonandi hefur Guðs blessun samt tekið við eftir að maðurinn var yfirbugaður og fékk loks að sofa úr sér gleðivímuna og lætin.
![]() |
Flugdólgur í vél með íslenskum þingmanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2008 | 17:48
Jörð skelfur fyrir sunnan - öflug skjálftahrina

Gleymi aldrei skjálftanum sem reið yfir 17. júní 2000. Þá var ég einmitt í Reykjavík og það er mesti skjálfti sem ég hef upplifað. Þá nötraði allt fyrir sunnan og miklar skemmdir urðu t.d. á Hellu og nágrannabyggðum. Vissulega er mikil lexía að búa á jarðskjálftasvæði, enda er aldrei að vita hvenær að skjálftar ganga yfir og náttúruhamfarir verða; bíða í raun eftir stóra skjálftanum og þeim hinum minni.
Við hér í Eyjafirði þekkjum sannarlega vel þá tilfinningu sem þeir á Suðurlandi finna fyrir í dag og gerðu fyrir átta árum. Margir skjálftar hafa í áranna rás dunið á okkur Norðlendingum og segja má að Eyjafjarðarsvæðið sé mikið jarðskjálftasvæði. Ekki eru nema rúm sjötíu ár frá Dalvíkurskjálftanum, sem er sögufrægur, en þá urðu miklar skemmdir á húsum þar. Síðan hafa margir skjálftar komið, sennilega er skjálftinn árið 1963 þeirra eftirminnilegastur en ennfremur er mörgum hér fyrir norðan í fersku minni skjálftinn árið 1976, þar sem tjón varð mikið t.d. á Kópaskeri.
Ef marka má fréttirnar er þetta stór og mikill skjálfti fyrir sunnan. Auðvitað er þetta alltaf nokkuð sjokk fyrir þá sem helst finna skjálftann, en ef marka má lýsingarnar er þetta á svipuðum kalíber eða meira en árið 2000. Enda varla við því að búast að hrinan árið 2000 hafi klárast þá. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan að skjálfahrina gekk yfir Suðurlandið og væntanlega tengist þetta allt. Vonandi lægist brátt yfir þessum skjálftum.
![]() |
Afar öflugur jarðskjálfti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)