Í minningu Línu ömmu

Lína ammaAmma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, hefði orðið 95 ára í dag. Hún var kjarnakona með alþýðutaug og skaplag úr gulli. Lína amma var alþýðukona að austan. Hún þekkti bæði lífsins gleði og sorgir. Ung missti hún frumburð sinn í hörmulegu slysi. Hún bar þann missi alltaf innra með sér. Sennilega var ég einn af örfáum sem hún treysti síðar fyrir sorg sinni og lýsti angistinni sem greip hana nóvemberdagana árið 1944 þegar að Veiga skildi við.

Við vorum alla tíð mjög náin. Á mikilvægum stundum á ævi minni var hún til staðar með góð ráð og notalegheit sem var mjög mikils virði. Hún kenndi mér lífsins gullnu reglur. Hún var amman í kjallaranum: bjó á neðrihæðinni hjá okkur í Norðurbyggð, sá um okkur börnin fyrir og eftir skóla og var okkur svo innilega ómetanleg. Hún var auðvitað kletturinn okkar systkinanna; algjörlega einstök og hefur þann sess í huga okkar.

Hún eldaði alltaf hádegismatinn meðan að mamma var að vinna og var til staðar. Það er gylltur ljómi yfir minningu hennar í huga mér. Við hana gat ég allt rætt og við treystum hvoru öðru fyrir miklu. Við vorum trúnaðarvinir. Ég reyndi mitt besta að launa henni alla hlýjuna og trygglyndið seinustu árin er halla tók undan fæti hjá henni og heilsan byrjaði að dala. Hún átti það skilið að njóta atlætis míns þegar að hún gat ekki lengur séð um sig sjálf.

Amma kenndi mér að láta hjartað alltaf ráða för. Hún var ekki sammála mér í stjórnmálum og var ófeimin við að skamma mig og leiðbeina mér. Hún var með heilsteypt og góð ráð og alltaf til staðar. Slíkt er og verður ómetanlegt og hún hefur stóran sess í hjarta mér.

Blessuð sé minning hennar.


Var reynt að tækla Seðlabankann?

Mér finnst eðlilegt að því sé velt fyrir sér hvort hafi átt að misnota Seðlabankann með því að leita eftir láninu til bjargar Glitni. Svo margt í þessu máli er enn í þoku, en miðað við talsmáta þeirra sem frontuðu Glitni í málinu undanfarna daga og fóru á fund manna í Seðlabankanum hlýtur þessi spurning að verða áleitin.

Þessi vælutónn þeirra sem keyrðu Glitni út í skurð er ekkert nema spuni til að laga ímynd sína eftir á og er ekki trúverðugur. Því er ekki óeðlilegt að spurningar vakni um hvað vakti fyrir þeim sem fóru í bankanum. Héldu þeir virkilega að þeir fengju bara lán út á þessi veð og ekki yrði sagt neitt við því?

Álíka traustvekjandi hefði það verið og rétta spilafíkli óútfyllta ávísun og segja honum að velja sjálfur núllafjöldann þegar hann legði næst undir. Semsagt; óábyrgt.


mbl.is Átti að misnota Seðlabankann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg forgangsröðun hjá forsetanum

Ég er sammála forseta Íslands um mikilvægi 1. desember og hefja eigi hann til vegs og virðingar. Hinsvegar er ég undrandi á forgangsröðinni í málflutningi hans á þessum viðsjárverðu tímum, krónan fellur og einstaklingar og fyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum. Mikilvægt hefði verið að forsetinn talaði til fólksins almennt og færi yfir stöðuna. Ræðan hefði öll átt að snúast um stöðuna sem blasir við.

En þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem við sjáum að forsetinn hefur færst frá þjóðinni. Mér finnst það furðulegt að forsetinn tali ekki afdráttarlaust um vandamálin hjá þeim sem hann hefur upphafið á erlendri grundu með hverri skjallræðunni á eftir annarri. En kannski kemur það ekki að óvörum.

Hér er t.d. brot úr ræðu fá árinu 2005:

"I know that the British business community, the press, the Times, the Telegraph, the Guardian and others, are perplexed by the Icelandic invasion and alliance with promising British partners, perplexed by, the success of the new generation of entrepreneurs who have set off from our country to these shores - even the Economist was hard put to explain it last week."

"We understand that these developments are indeed a mystery to our British friends and I am not going to reveal the secret here today - that would certainly harm our competitive advantage. We prefer it to be dressed in a mysterious disguise."

"The experience of Air Atlanta, now part of Avion Group, is splendid proof of how brilliantly this formula can work - and I can assure you here today, especially our British friends, that as the old Hollywood saying goes: "You ain't seen nothing yet!"."

"Somehow the airline business has suited us Icelanders well - maybe because of our Viking heritage as explorers and discoverers a thousand years ago, crossing unknown oceans and successfully arriving in virgin lands."

"With the transformation of Air Atlanta into the Avion Group and with the addition of Excel Airways the groundwork has certainly been laid for even more impressive growth, for new chapters in this extraordinary saga of global success."

"It is a pleasure and an honour for Dorrit and myself to be with you here today and to celebrate together a new landmark in your inspiring journey. The people of Iceland are profoundly proud of your achievements and I bring you here today their heartfelt congratulations and best wishes."


mbl.is Færa þarf þjóðinni 1. desember á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falskur og ósannfærandi grátkór - fríspil Samfó

Mikil dramatík er í viðtölum við Jón Ásgeir eftir að Glitnir var þjóðnýttur. Engu er líkara en reyna eigi að væla út stuðning þjóðarinnar við það hvernig komið var fyrir Glitni og reyna eigi að draga upp mynd af fórnarlambi þegar Jón Ásgeir er annars vegar. Veit ekki hvernig sú atburðarás fer en mér finnst hún mjög hæpin, svo ekki sé nú meira sagt. Ég held að þessi leikur hafi verið leikinn of oft til að þetta gerist aftur - þjóðin er vonandi farin að hugsa sitt eftir atburði síðustu dagana.

Dæmalaust klúður var það annars hjá yfirmönnum á fréttastofu Stöðvar 2 að láta fyrrum talsmann Jóns Ásgeirs Jóhannessonar taka viðtalið við hann í gærkvöldi. Eins ágætur og Sindri Sindrason er eflaust vekur þetta aðeins spurningar um stöðu fréttamiðilsins í þessu máli. Greinilega er erfitt að láta eignarhaldið ekki ráða för í umfjöllun um málið. Þetta var allavega klaufalegt og kom mjög illa út fyrir alla hlutaðeigandi, Sindra einna helst.

Mér finnst þessi grátkór bissnessmannanna ekki sannfærandi og hann er mjög falskur undir niðri. Ef allt var svona hamingjusamt og dásamlegt áður en farið var á fund þeirra í Seðlabankanum af hverju neituðu þessir blessuðu menn ekki þessari fléttu og leituðu á önnur mið, sem voru þá fengsælli fyrir þá? Mér finnst það spurningin sem helst eftir stendur.

Svo getur kannski verið að allt gangi til baka. Vel má vera. Þá bara ræðst það. Mér finnst reyndar háðung Samfylkingarinnar algjör í þessu máli. Mér finnst sá flokkur hafa verið algjörlega ósýnilegur í ferlinu þó hann beri auðvitað á því fulla ábyrgð. Eða ætlar Samfylkingin kannski að komast undan ábyrgð í málinu með því að láta eins og aukapersóna í atburðarásinni?

Viðskiptaráðherrann, sem er hinn mætasti maður, virkar alltaf á mig eins og Konni án Baldurs í atburðarásinni, eins og Pétur Tyrfings orðar það svo vel í flottum pistli, sem er skyldulesning, á vef sínum.


mbl.is Jón Ásgeir: Sagði að þetta yrði feigðarför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sárindi auðmanna - hvað verður um Glitni?

Ég er ekki hissa á því að Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson séu sárir með málalok í Glitni og þeir þurfi einhverja daga til að jafna sig á hvernig komið sé málum. Þetta er mikið áfall fyrir stóreignamenn sem hafa ekki oft orðið fyrir teljanlegum erfiðleikum og hafa jafnan spilað til sigurs í sínum fjárfestingum. Stóra spurningin eftir viðtölin er þó sú hvort nokkur maður trúi því að upphaf og endir vandamála tvímenninganna sé aðkoma ríkisins.

Ég spyr mig enn að því hvort Seðlabankinn, almenningur í þessu landi, hafi átt að lána Glitni stórfé gegn veðum sem aðrir bankar vildu ekki taka. Hví fer Glitnir ekki til annarra banka fyrir hluthafafundinn með þessi frábæru veð og leitast eftir lánum á grundvelli þeirra? Ef það gengur er væntanlega hægt að hafna hlutafjáraukningu á hluthafafundi. Þeir hljóta enn að reyna að snúa stöðunni við ef þeir telja það fært. Án þess hafa þeir viðurkennt tap sitt.

Þetta er allt mjög sorglegt upp að vissu marki og gremjan skiljanleg. Enn er reynt að spinna vef samsæriskenninga og illinda gegn Davíð Oddssyni persónulega þegar Glitni hefur verið forðað frá gjaldþroti. Ég skil sárindi Þorsteins Más að svona skildi fara á vakt hans sem stjórnarformanns. Allir sem halda um stjórnvölinn í svona stöðu, algjöru öngstræti, myndu verða sárir og reiðir í þeirri stöðu. En eftir stendur að bankinn gat ekki einn og óstuddur tekist á við vanda sinn.

Aðkoma allra flokka á einhverju stigi þessa máls segir allt sem segja þarf. Ég varð ekki var við að einhver flokkur hafi lagst gegn þessu, hvort sem var á miðnæturfundinum í Seðlabankanum eða síðar, þó erfitt sé að spá hver staðan sé með Frjálslynda flokkinn þar sem þingflokksformaðurinn, sem sat fundinn, hefur nú verið settur af, þrátt fyrir fyrri heitstrengingar formannsins um að bjarga honum frá áhlaupi liðsmanna Nýs afls.

Jón Ásgeir flutti langa eldmessu ergju og reiðiöldu í Íslandi í dag. Viðtalið tók fyrrum talsmaður hans í viðskiptaheiminum. Vissulega áhugavert með þessu að fylgjast og viðtalið vakti fleiri spurningar en talsmaðurinn fyrrverandi lagði fyrir Jón Ásgeir.

Enn koma púslin í þessu máli saman. Ég velti þó fyrir mér hvort verði af ríkisvæðingu Glitnis þar sem Jón Ásgeir og Þorsteinn Már segja ekki útséð með að þeir bjargi bankanum frá "vondu körlunum" sem björguðu honum frá gjaldþroti.


mbl.is Sjóðir Glitnis opnaðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband